Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Steingrímur hefur skilað góðu starfi

Það var ekkert sældarbrauð að reisa efnahag Íslendinga úr rústum. Allan tímann mátti ríkisstjórnin og ekki síst Steingrímur sitja uppi með óvægar og ósanngjarnir skammir og ávirðingar. En hann er gamall íþróttamaður sem ekki lætur deigan síga, vill ekki gefast upp þrátt fyrir að vera í mótvindi nánast hvern einasta dag síðastliðin 4 ár!

Við Íslendingar ættum að standa í þakkarskuld við Steingrím og Jóhönnu að leiða okkur út úr ógöngunum og koma „Þjóðarskútunni“ á kyrrari sjó. En það stríðir gegn pólitískri skoðun andstæðinga: Rétt skal vera rangt hvað sem öllu líður og þessari ríkisstjórn fundið allt til foráttu sem hæun á tæplega skilið.

Steingrímur játaði einhverju sinni að ríkisstjórnin hefði gert ýmsar alvarlegar skyssur. Kannski eftir á að hyggja hafi ákvörðunin um Icesave verið sú stærsta en það var nú svo að Íslendingar voru bundnir af fyrsta samkomulaginu sem Geir Haarde stjórnin gerði við Breta 11.10.2008. Og að koma þessum málum á hreint var lykilatriði að fá einhverja aðstoð erlendis frá til að bjarga okkur út úr þessari klípu.

Eg tel að Icesave hafi ekki verið stærsta málið í þessu sambandi. Þegar mátti sjá á sínum tíma að borð var fyrir báru og að útistandandi skuldir þrotabús Landsbankans skiluðu sér.

Stærsta skyssan var Magma málið. Því var ýtt út af borðinu, Alþingi og ríkisstjórnin guggnaði á því að koma í veg fyrir að erlendur braskari eignaðist hér ítök sem kunna að leyfa óheftan aðgang að náttúruauðlindum á Reykjanesskaganum og eyðileggja þær á tiltölulega stuttum tíma með rányrkju.

Miklir fjármunir töpuðust, mikið af sparifé almennings í formi hlutafjár í fyrirtækjum eins og Atorku sem varð leiksoppur í braski hrunmanna. Það er mjög dæmigert að stjórnarandstaðan hefur ekki minnst aukateknu orði á þessi Magma braskmál, þegir þunnu hljóði enda ekki ósennilegt að hún njóti að einhverju leyti þess að ekki var komið í veg fyrir kaup erlenda braskarans á HS orku.

Geysir green energy var að öllum líkindum gervihlutafélag byggt á loftköstulum og að vera n.k. „brú“ fyrir erlenda fjárfestingu bakdyramegin í íslensku efnahagslífi á kostnað lífeyrissjóða og annarra hluthafa Atorku. Því miður ákvað stjórn Atorku að afhenda kröfuhöfum fyrirtækið og þar með var möguleiki að láta opinbera rannsókn fara fram útilokaður.

Svona er gerist braskið á „Eyrinni“. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðísflokkurinn þegja um það sem þeir vilja ekki láta bera á.

Eg vil þakka Steingrími fyrir óeigingjörn störf í þágu okkar allra. Hann á þakklæti skilið fyrir að standa vel vaktina þó svo að við hefðum getað gert dálítið betur, eins og í þessu vandræða Magma-máli.

Góðar stundir!


mbl.is Endurnýjun í forystu Vinstri grænna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanlegt - ómerkilegt áróðursbragð?

Þetta punktasöfnunarkerfi Icelandair er eins og „sósilalismi andskotsans“. Venjulegt fólk fær enga punkta skráða en þeir sem fljúga á annarra kostnað á Saga klass moka inn þessum safnpunktum.

Hef aldrei botnað í þessu kerfi, það hefur aldrei skilað sér svo mikið sem einasti punktur í mínar vörslur þau 10-20 ár sem eg hefi ferðast með Flugleiðum. Akkúrat ekki neitt. Mín vegna mætti leggja þetta áróðursbragð í rúst rétt eins og Cató hinn gamli krafðist í hverri einustu ræðu sinni í Öldungarráðinu í Róm um Karþagó. Honum varð að ósk sinni árið 146 f. Kr.


mbl.is Hættir punktasamstarfi við Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi verkefni

Þessar vindmyllur eru spennandi viðbót við að beisla náttúruöflin á Íslandi. Nú var töluvert af vindmyllum víða um land þar sem vindurinn knúði litlar myllur til hagsbóta fyrir bændur og búalið. Var það vísirinn að rafvæðingu sveitanna sem tók nokkra áratugi. Jafnskjótt og rafmagnsöflun og dreifing var tryggð, lögðust þessar vindmyllur víðast hvar af.

Nú er að sjá hvernig þessar vindmyllur standa sig. Þær eru mun öflugri en sú sem reist var í Belgsholti í Melasveit í Borgarfjarðarsýslu og fauk og skemmdist. Nú er verið að koma henni aftur í gagnið og vonandi tekst betur til.

Góðar stundir.


mbl.is Vindmyllur við Búrfell gangsettar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Njósnir erlendra aðila?

Þetta FBI mál er vægast sagt mjög einkennilegt. Fullyrt er að þeir hafi komið hingað til að bjóðast til að rannsaka hugsanlega meinta árás tölvuhakkara á tölvukerfi Stjórnarráðsins en tilgangurinn reynist vera fyrst og fremst að yfirheyra ungan mann sem e.t.v. tengist Wikileaks.

Fyrir rúmum 60 árum rannsakaði FBI meint undanskot Halldórs Laxness frá skattgreiðslum á Íslandi. Þessi skjöl sem tengjast útgáfu á Sjálfstæðu fólki í BNA rétt eftir stríð hafa aldrei verið gerð opinber. Ef þessi skjöl eru fremur saklaus, hvers vegna hafa fræðimenn ekki aðgang að þeim? Og sama má segja um ef efni þeirra séu e-ð alvarlegri. Getur verið að þessi rannsókn sé jafnvandræðaleg og nú kemur upp?

Ljóst er að íslensk yfirvöld vildu gjarnan að FBI kannaði umsvif Halldórs Laxness þar vestra.

Kannski að Wikileaks gæti haft upp á þessum skjölum með sínum samböndum?

Mér þykir Ögmundur ráðherra hafa tekið hárrétta ákvörðun í þessu máli. FBI á ekkert erindi hingað hvorki undir yfirskyni annars rannsóknarefnis.

Við verðum að sporna gegn hnýsni og njósnum erlendra aðila hvort sem þeir eru bandarískir, rússneskir, kínverskir eða af öðru þjóðerni. Það er mjög óeðlilegt að hér séu fjölmennar sendisveitir í einu fámennasta landi Evrópu!

Góðar stundir.


mbl.is Óskýrt hverjir áttu að fylgjast með FBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Léttúð með hættulega hluti

Hver ber ábyrgð á að geyma sprengjuefni við íbúðahús?

Léttúðin er oft mikil.

Sú saga er sögð af bónda í uppsveitum Borgarfjarðar sem kom að þýsku flugvélarflaki í senni heimsstyrjöldinni en flugvélin brotlenti á Arnarvatnsheiði. Fann hann skínandi fallega kúlu sem hann hafði með sér og kom fyrir á skáp í stofunni heima hjá sér í bænum. Sýndi hann stoltur öllum þeim sem komu að heimsækja hann. Einn góðan veðurdag kemur einn gestur og þegar hann sá kúluna, hvessti hann grafalvarlegum augum á bónda og kvað hann heppinn að hafa ekki sprengt bæinn en þetta væri sprengikúla sem gæti sprungið við minnsta hnjask!

Næstu nótt læddist bóndi með kúluna og fór út á brúna skammt ofan við Kljáfoss í Hvítá og varpaði henni eins langt út í ána og hann gat. Mun kúlan vera þar enn ef sagan sé rétt eftir höfð. Hvort kúlan sé enn heil eða hafi sprungið, veit sennilega enginn.

En sjálfsagt er að sýna fyllstu varkárni með hættulega hluti og fara nákvæmlega eftir reglum.


mbl.is Sprengiefni geymt við íbúðarhús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðugt verkefni fyrir Wikileaks

Um miðja síðustu öld rannsakaði FBI skattamál Halldórs Laxness að ósk íslenskra yfirvalda. Þó meira en 50-60 ár séu liðin hafa þessi skjöl aldrei verið opinberuð né fræðimönnum veittur aðgangur að þeim.

Kannski Wikileaks gæti haft uppi á þessum skjölum og komið fræðaheiminum til aðstoðar.

Eg skil Birgittu mjög vel. Það er skítt að vera tortryggður fyrir að vera góður borgari.

Góðar stundir.


mbl.is Birgitta neitar að lifa í ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fum og fúsk Framsóknarflokksins

Svo virðist að Sigmundur Davíð annað hvort viti ekki eða vill ekki vita um upphaf verðtrygginga lána á Íslandi. Það var Ólafur Jóhannesson sem hafði frumkvæði að því sem forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins að á árinu 1979 voru sett sérstök lög um verðtryggingu og lánskjaravísitölu.

Í allri bankastarfsemi í heiminum er reynt að hafa það fyrirkomulag að útlánavextir séu breytilegir þannig að þeir „elti“ dýrtíðina. Á Íslandi var lengi vel n.k. „þjóðaríþrótt“ að fara í banka og fá lán á föstum vöxtum. Útgerðarmenn voru snillingar í að fá slík lán og grenjuðu út gengisfellingar til að hækka afurðaverð og lækka þannig skuldir. Lánshæfni bankanna var takmarkað og voru þúsundir dæma um mismunun um hverjir fengu lán og hverjir ekki.

Með „Ólafslögum“ eins og þessi lög hafa oftast verið síðan nefnd, var reynt að koma á móts við sparifjáreigendur sem sáu inneignir sínar bókstaflega gufa upp í braski þeirra sem sóttu hvað mest í að fá lán.

Þrjú ríki heims hafa þetta fyrirkomulag að lán séu verðtryggð. Þessi ríki auk Íslands eru Brasilía og Ísrael. Þessi þrjú ríki eiga það sameignlegt að sitja uppi með handónýtan gjaldmiðil. Reyndar höfum við setið uppi með handónýtan gjaldmiðil mun lengur en frá 1979, eða frá því að skilið var milli íslensku og dönsku krónunnar fyrir rúmum 90 árum. Er kannski meginskýringin að við kunnum ekki að stýra þessum málum?

Sigmundur Davíð hreykir sér af því að vilja afnema verðtryggingu eða takmarka hana. Það er ekki auðvelt og snemma á árinu 2009 kom þessi hugmynd fram. En þá voru það lífeyrissjóðirnir og bankakerfið sem öll útistandandi lán voru meira og minna tengd þessu fyrirkomulagi. Það er ekki auðvelt að gjörbreyta einhverju sem einu sinni hefur verið komið á.

Auðvitað væri farsælasta lausnin að lán séu með breytilegum vöxtum þannig að vaxtakjör aðlagast dýrtíðinni. En það þarf mun meira átak að koma böndum á óhóflega þenslu og eftirspurn eftir vöru og þjónustu sem sprengir upp verð. Hagvöxtur sem er hærri en náttúrulegi arðurinn er væntanlega sýnd veiði en ekki gefin. Þar kann að hafa verið tekið meira frá náttúrunni en hún er tilbúin að gefa af sér.

Er hugmynd núverandi formanns Framsóknarflokksins fum og fúsk?

Alla vega eru hugmyndir Sigmundar Davíðs lúmskulega settar fram í aðdraganda kosninga. Nú 10 vikum fyrir kosningar á t.d. að bjarga hag heimilanna!

Hefði Framsóknarflokkurinn ekki hamast gegn Icesave á sínum tíma og fengið gamlan framsóknarmann, Ólaf Ragnar í lið með sér að stoppa þessi Icesave lög, þá hefði þetta mál verið úr sögunni fyrir 3 árum með nánast nákvæmlega sömu niðurstöðu og nú. Innistæður eru nægar fyrir Icesave sem kannski var ekki alveg ljóst á sínum tíma - EN: við hefðum strax fengið betra lánshæfnimat, betri viðskiptakjör og hagstæðari vexti. Dregið hefði úr atvinnuleysi með vaxandi hagvexti. ALLT þetta hefði dregið úr dýrtíðinni og hagur okkur væri betri nú hefði þetta gengið eftir. Einnig hagur heimilanna.

Svo fullyrða menn eins og Sigmundur Davíð að ríkisstjórnin hafi ekkert gert!

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur hefur reiknað út hvað töfin á Icesave kostaði okkur. Lágmark 60 milljarða en að öllum líkindum mun hærri fjárhæð.

Hverjum er þetta að þakka? Áróðursmeistara Framsóknarflokksins?

Er ekki oft flagð undir fögru skinni?

Góðar stundir en án Framsóknarflokksins í ríkisstjórn! Þangað á hann ekkert erindi, nema fyrir braskarana.


mbl.is Afnám verðtryggingar lykilatriði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lán eru oft ígildi hengingaróla

Í Bolungarvík búa nálægt 900 manns. Nú er tekið lán upp á 55 milljónir til að endurgreiða eldri lán, að vísu með hagstæðum vöxtum, tæp 3% sem ekki telst mikið. En þetta er tiltölulega há fjárhæð fyrir fáa íbúa þar sem atvinna er ekki alltaf næg.

Vandræðagangur í atvinnumálum margra útgerðarsveitarfélaga var vegna kvótabrasksins. Þá opnaðist möguleiki fyrir þá sem fengu úthlutaða kvóta að gera hann að féþúfu og fara burt með fjármunina.

Þetta var kórvilla sem verður fyrst og fremst að skrifast á yfirsjónarreikning Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Fyrst var heimilt að veðsetja kvótann rétt eins og áður tíðkaðist að veðsetja væntanlegan afla. Þetta var „þjóðaríþrótt“ útgerðarmanna sem oft bárust mikið á í einkalífi en útgerðin að jafnaði rekin eins og nokkurs konar hreppsómagi. Skuldir útgerðarinnar hafa ætíð verið miklar og útgerðarmenn báru sig að jafnaði afarilla, gáfu út tímarit og „grenjuðu“ eftir gengisfellingum sem hækkaði afurðaverð en lækkaði skuldirnar í bönkunum.

Skuldir verða ekki lengur látnar hverfa með gengisfellingum eins og áður var og því getur orðið erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að standa undir skuldaklyfjunum þegar kvóti hefur verið seldur úr byggðarlagi. Nú hefur Atvinnuvegaráðuneytið veitt Bolvíkingum sérstakan byggðarkvóta, sbr.http://www.atvinnuvegaraduneyti.is/media/byggdakvoti/Bolungarvikurkaupstadur-12-nov-2012.pdf

Vonandi gengur það eftir að fámenn sveitarfélög nái að krafsa í skuldabakkann. Best og affarasælast er að skulda ekki nein um neitt eins og var lífspeki Bjarts í Sumarhúsum uns þingmaðurinn Ingólfur Arnarson taldi honum trú um að stækka og auka búskapinn, byggja og taka lán. Svo hrundi allt þegar afurðaverð féll og Bjartur gat ekki staðið lengur í skilum.

Þingmenn geta verið mörgum sveitungum sínum dýrir, já meira að segja rándýrir.

Góðar stundir!


mbl.is Bolungarvík tekur 55 milljóna króna lán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er undirbúning áfátt?

Nokkrum sinnum hefur borið við að sjórnmálaleg átök hlýst af ákvörðunum sem betur hefði mátt undirbúa. Að fara með opinbert vald getur verið mun vandasamara en ætla má við fyrstu sýn.

Ákvörðun landshöfðinga að setja Skúla Thoroddsen af sem sýslumann á Ísafirði var mjög umdeild og olli miklum róstum vestra.

Suðurgötuslagurinn skömmu eftir fyrri heimsstyrjöldina var vegna umdeildrar ákvörðunar um brottvísun rússnesk drengs varð átök sem talin er hafa verið meira af pólitískum ástæðum en af heilbrigðissjónarmiðum. Kannski að menn voru minnugir drepsóttar þeirrar sem nefnd hefur verið Spánska veikin, hafi valdið ýmsum áhyggjum af meintum alvarlegum augnsjúkdómi hafi verið ástæðan.

Verkfallsátök voru lengi vel mjög alvarleg. Og sennilega markar Góttóslagurinn 7.nóv.1932 einn alvarlegasta atburðinn sem sennilega hefði mátt afstýra.

Þá kom til mjög alvarlegra átaka 30. mars 1949 vegna tillögu ríkisstjórnarinnar að Íslendingar gengju í Nató. Síðan um miðja 20. öld hefur margsinnis orðið átök og oft þeim sem hlut áttu að máli ekki málstað neins til framdráttar.

Árið 1938 voru sett lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þá var ein merkasta ríkisstjórn landsins, sem nefnd hefur verið „Stjórn hinna vinnandi stétta“. Í þessum lögum er merk lagagrein sem mætti vera fyrirmynd í flestum málum: Þar er lögð sú skylda á deiluaðila að magna ekki deiluna meir en verið hefur. Svo ein falt sem það er, þá má undirbúa ákvörðun betur. Ef ljóst er að framundan sé erfið ákvörðun, þá mætti hugsa sér að kalla saman þá aðila sem málið varðar, það kynnt og reynt að finna friðsama lausn á sem breiðustum grunni. En þetta er því miður ekki alltaf hægt þegar ljóst er að t.d. hagsmunagæsla gangi þvert og engan samkomulagsgrunn er að finna.

Á Alþingi Íslendinga er vægast sagt furðulegt ástand. Samkoma þessi er eins og þegar grenjandi ljón eru samankomin þar sem menn steyta hnefana hver móti öðrum. Þessi átakastjórnmál minna því fremur á box en friðsamlega samkomu þar sem þingmenn gætu unnið sín störf meira í samstarfi en í stöðugum átökum. Þannig gleymast mörg mál og menn rjúka upp milli handa og fóta eins og Sigmundur Davíð núna þegar hann vill bjarga heimilunum, 10 vikum fyrir kosningar! Hvað var maðurinn að aðhafast síðustu 4 árin?

Ef Íslendingar eiga eftir að bera þá gæfu að fá viðunandi skilmála við inngöngu í Evrópusambandið verður strax grundvöllur að fækka þingmönnum. Þurfum við alla þessa öskrandi stríðshjörð?

Undirbúningur ákvarðana þarf að vinna á mun breiðara sviði en verið hefur. Með því mætti fækka tilefnum til átaka.

Góðar stundir!


mbl.is Hlutu varanlega áverka við Gúttó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spillingaröflin bíða átekta

Mikil líkindi eru að þegar hafi farið fram viðræður í bakherbergjum valdamanna í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum um nýja helmingaskiptastjórn hægri manna. Eitt af þeim verkefnum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf talið vera á sinni könnu er endurskoðun stjórnarskrár.

Nú er mikið í húfi fyrir þessa aðila að komast aftur til valda. Þeir munu vilja halda einkavæðingu áfram, skipta Landsbankanum, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur, RÚV sömuleiðis og þá verða vatnsveitur væntanlega einkavæddar líka enda mögulegt að græða á þeim.

Skattar hátekjumanna verði lækkaðir eða felldir niður svo þeim verði ekki íþyngt frekar í gljálífi sínu og umsetningu.

Ljóst er að allur hávaðinn og uppistandið í þinginu undanfarin 4 ár var með því markmiði að grafa undan vinstri stjórninni. Allt ómögulegt og sjálfsagt í áróðrinum að snúa staðreyndum á haus. Hverju skiptir að fullyrða aðafleiðingin komi á undan orsökinni eins og eðlilegt er?

Sumir hægrimenn eru svo brattir að jafnvel fullyrða að ekkert bankahrun hefði verið og vís í kæruleysislega framgöngu sína.

Sigmundur Davíð flytur langa áróðursræðu á aðalfundi Framsóknar um að þora. Ekki um það sem hann þorði ekki heldur mörgu snúið að ríkisstjórninni sem hann segir ekki hafa þorað að taka á skuldum heimilanna! Sjálfsagt hefði sjálfur Goebbels verið nokkuð ánægður með framsetninguna á fullyrðingum Sigmundar þar sem staðreyndum er ýmist snúið á haus eða þær hálfsagðar.

Mjög líklegt eru hægrimenn búnir að „virkja“ forsetann til að stýra stjórnarmyndun inn á „æskilega“ og „rétta“ braut. Hann hefur verið mjög hallur undir hægrimenn og ekki ólíklegt að hann sé orðinn framsóknarmaður öðru sinni.

 Þá mun væntanlega fara hetjur um héruð til að boða fagnaðarerindi áframhaldandi álhyggju enda eftir miklu að slægjast. Rammaáætlunin verður sennilega sögulegt plagg eftir nokkur misseri. Auðmennirnir halda áfram að græða, við þrælarnir berum allt samfélagið uppi, skatta og skyldur. 


mbl.is Ekki ný stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband