Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2010

Fyrirlitlegur braskari

Á heimasíðunni visir.is má lesa eftirfarandi í dag:

„Finnur Ingólfsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og viðskiptaráðherra, skuldar þrjá komma sjö milljarða króna í gegnum fjárfestingafélag sitt. Eftir því sem næst verður komist eru engar eignir til upp í skuldina.

Finnur Ingólfsson á einkahlutafélag sem heitir FS7, sem hélt meðal annars utan um hlut hans í Icelandair. Í ársreikningi fyrir árið 2008 kemur fram að félagið skuldar í lok ársins 3,9 milljarða króna, eignirnar voru rúmar 200 milljónir.

Hann seldi síðan hlut sinn í Icelandair og hagnaðist um 400 milljónir og greiddi sér síðan lungann af því í arð, 385 milljónir. Finnur segir í skriflegu svari til fréttastofu að arðurinn hafi verið greiddur út með samþykki Glitnis og notaður til að greiða niður skuld hans hjá bankanum.

En staðan á þessu einkafélagi Finns, þar sem engar persónulegar ábyrgðir eru á lánum eftir því sem næst verður komist, er þá þannig að félagið skuldar líklega um 3,7 milljarða króna umfram eignir. Fari það í gjaldþrot verður því varla um annað að ræða en að afskrifa þá skuld.

Þegar milljarðarnir glymja í eyrum okkar daginn út og inn nú í eftirmálum hrunsins má til samanburðar til dæmis benda á að einkaskuld fyrrverandi seðlabankastjóra er meiri en hagnaður Færeyjabanka á síðasta ári en bankinn fagnaði árangrinum í vikunni. Hagnaðurinn reyndist 3,2 milljarðar.

Drjúgt mætti gera fyrir slíkt fé. Til dæmis reka Menntaskólann í Reykjavík í nærri átta ár og þá mætti rekja Læknavaktina í fimmtán ár“.

Þetta er hreint ótrúlegt! Þessir braskarar eiga að bera ábyrgð að fullu og borga fyrir þann gríðarlega skaða sem þeir hafa valdið þjóðinni!

Þessir „athafnamenn“ eru fyrst og fremst fyrirlitlegir og eiga ekki að njóta neinnrar samúðar. Þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera með „fikti“ sínu og þeim verður því ekki fyrirgefið þeir vissu eða máttu vita hvað þeir voru að gera!


Einkennilegt prófkjör

Sjálfstæðismenn á Suðurnesjum virðast ekki átta sig á þeim gríðarlegu breytingum sem nú hafa orðið vegna siðblindu þeirra. Allt virðist ætla að sækja í sama horfið. Siðblindan virðist vera algjör.

Kannski að Berlúskóni hafi eignast íslenskan keppinaut þó nokkuð í land sé að jafna þeim saman. En hugsunin að halda völdum er sú sama, þar er enginn munur.

Óskandi er að Sjálfstæðisflokkurinn fái sem versta útreið í kosningum að vori komanda. Þeir eiga fátt gott skilið.

Mosi


mbl.is Árni Sigfússon með 92% atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaust kæruleysi

Að skipuleggja ferðir á varhugaverðar slóðir og sinna ekki aðvörunum um slæmt veður er ámælisverð HEIMSKA. Í öllum vönduðum bæklingum eru fyrirvarar um breytingar eða áskilinn réttur viðkomandi að fella niður skipulagða ferð vegna ófyrirsjáanlegar  forsendur, þ. á m. vegna veðurs.

Fyrir svona heimsku og útkall ættu björgunarsveitir að setja upp sérstaka gjaldskrá og senda velsmurðan reikning til viðkomandi!

Fyrir áratug eða svo var skipulögð ferð þvert yfir Vatnajökul. Sú för endaði með ósköpum en hefði getað farið jafnvel enn ver. Mjög illa útbúinn hópur til jöklaferða fór á vélsleðum þvert yfir jökulinn og lenti í hrakningum undir lok ferðarinnar yfir jökulinn. Kalla þurfti þyrlu til og björgunarsveitir. Þessi aðstoð kostaði skattborgara stórfé og ferðaskrifstofan fékk himinháar kröfur frá erlendum hröktum ferðalöngum. Þetta reið ferðaskrifstofunni að fullu og bar hún ekki barr sitt eftir þetta.

Tryggingafélög mættu skoða þessi mál enda er lítið vit í núverandi fyrirkomulagi þar sem algjört kæruleysi virðist vera í fyrirúmi. „Þetta reddast“ er hugsunarháttur þeirra sem aðhyllast þessi sjónarmið. En það er ekki alltaf sem unnt er að „redda“ öllu. Finnst þessum aðilum vera réttlætanlegt að alltaf sé unnt að kalla á tugi jafnvel hundruði björgunamanna til leitar og aðstoðar og ekki greiða eina einustu krónu til slíks? Hvað segja atvinnurekendur sem þurfa e.t.v. að missa marga af sínum bestu mönnum úr starfi tímabundið vegna þess að þeir eru í björgunarsveit? Hversu mikið tjón má rekja til kæruleysisins sem auðveldlega mætti koma í veg fyrir með skynsamlegum hætti?

Kannski mætti bæta einum málshætti við í páskaegg landsmanna: Sá sem heimskur er, á að halda sig sem lengst heima!

Mosi


mbl.is Gerðu skjól úr sleðanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Icesave málið stormur í vatnsglasi?

Vissulega góðar fréttir en þó með dapurlegu innihaldi: engir vextir af himinháum innistæðum. Þetta er tvöfaldur áætlaður ríkissjóðshalli okkar fyrir 2010!

Við þurfum að fá jafnháa vexti af þessu mikla fé og Bretar krefjast af okkur.

Nú mun líklegt að þessi fjárhæð muni fremur hækka á næstunni fremur en að hún lækki þar sem um er að ræða stöðugar innborganir og vexti af lánum sem Landsbankinn veitti breskum og ýmsum öðrum fyrirtækjum með greiðslustað lánanna í Bretlandi.

Það væri kaldranalegt að ef á þennan reikning safnaðist meira fé en sem svarar skuldbindingum vegna Icesave - hvað gera Bretar þá? Myndu þeir brjóta odd af ófláti sínu og biðjast grátandi afsökunar á þessum flumbrugangi sínum? Hvers vegna beittu þeir okkur þessum umdeildu hryðjuverkalögum? Legg eindregið til að þessum sjónarmiðum verði beint gegn breskum yfirvöldum næst þegar talað verður við þá um Icesave.

Var Icesave málið, sem hefur verið einna erfiðast í íslenskri stjórnmálasögu kannski stormur í vatnsglasi? Það reyndi mjög á þolrif allra þingmanna og fremur dapurlegt hversu ræður voru beinskeittar og fluttar í miklum tilfinningahita. Skuldirnar eru auðvitað eitthvað sem enginn á að geta hlaupist frá en eignirnar eru einnig nokkrar. Vonandi meiri og verðmætari en skuldirnar.

Mosi


mbl.is Afborganir í Bretlandi enn á vaxtalausum reikningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirsjá að góðu húsi á frábærum útsýnisstað

Þetta rauðmálaða hús keypti Skógræktarfélag Mosfellsbæjar fyrir um 25 árum. Það var í tengslum við að auka umsvifin en félagið hafði fram að þeim tíma fyrst og fremst athafnasvæði sitt í Hamrahlíð vestan í Úlfarsfelli og er skógurinn í Hamrahlíð eitt mesta bæjarprýði Mosfellsbæjar.

Mér er alltaf minnisstætt þegar við sem þá vorum í stjórn Skógræktarfélagsins vorum að skoða húsið en það hafði byggt eldri maður sem var að draga saman seglin. Við vorum að auka við okkur en gamli maðurinn að minnka við sig. Við vorum mikið fyrir að hasla okkur völl sem víðast innan bæjarmarka Mosfellsbæjar. Þetta litla hús hentaði okkur að mörgu leyti mjög vel enda fékk félagið heimild hjá RALA að gróðursetja töluvert í aðliggjandi landspildur þarna uppi við austanvert Hafravatns í löndum Þormóðsdals. Þó áragnurinn hafi verið nokkuð misjafn t.d. er mjög vindasamt og veðráttan þarna nokkuð rysjótt á melunum fyrir ofan. Tugir þúsundir trjáplantna hafa þó dafnað þarna og komist vel á legg vel þó vöxturinn verði talinn nokkuð lakari en í Hamrahlíð.

Á kyrrum sumarkvöldum funduðum við oft í Sumargerði eins og húsinu var gefið nafn. Þar voru nýjar áætlanir ræddar og með formanninn okkar hana Guðrúnu Hafsteinsdóttur í fararbroddi voru djörf áform ákveðin með gróðursetningu í nánast hvert einasta fjall innan bæjarmarka Mosfellsbæjar. Þessir ungu skógar prýða nú sveitarfélagið og munu veita okkur bæði skjól og hlýju um alla ókomna framtíð.

Um tíma höfðu skátarnir í Mosfellsbæ aðstöðu í húsinu og voru þeir okkur í skógræktarfélaginu oft innan handar í staðinn með sitthvað þegar mikið stóð til hjá félaginu. Skógrækt byggist aðallega  t.d. á sjálfboðaliðavinnu bæði á vorin við undirbúning gróðursetningar, gróðursetninguna sjálfrar, grisjun og snyrtingu og ekki síst jólatrjáasölu sem fer vaxandi við miklar vinsældir. Nánast einungis hefur verið greitt til verktaka fyrir ýms viðvik eins og flutninga og ýmsar framkvæmdir.

Að öllum líkindum hafa óprúttnir náungar borið eld í þetta merka hús sem tengist góðum minningum.

Það er eftirsjá að þessu litla og hlýlega húsi á fögrum stað en kannski núverandi stjórn skógræktarfélagsins láti reisa annað í staðinn.

Mosi


mbl.is Bústaður við Hafravatn brann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við höfum nóg af glæpamálum

Fram að þessu hefur ekki verið skortur á glæpahneygð á Íslandi að við þurfum að fá sérstakt glæpafélag til landsins til að bæta gráu ofan á svart. Víða um heim er reynsla lögregluyfrirvalda gagnvart þessum nefndu samtökum fremur slæm og í sumum löndum meira að segja mjög slæm þar sem tíðni afbrota hefur orðið meiri og þeir tengjast meðlimum þessara samtaka sem um er rætt í fréttinni.

Við búum í þokkalegu réttarríki þar sem lög og reglur eiga að vera hafðar í fyrirrúmi. Réttarríkið byggist á nútímalegri stjórnarskrá og sanngjörnum landslögum. Í 74. grein stjórnarskrárinnar er eftirfarandi ákvæði:

„Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.“

Með þessu ákvæði eru tryggð réttindi allra borgara að stofna til félgas. Þó eru sett þau einföldu skilyrði að félag megi ekki stofna í neinum glæpsamlegum tilgangi sem stefnir hagsmunum annarra í hættu. Það beri að uppræta þau með saksókn og dómi og það með þeim hætti að það verði ekki mögulegt nokkru sinni að koma þannig félagi á fót.

Við eigum að standa sem einn maður með lögregluyfirvöldunum í þessu máli. Með því stuðlum við að réttlátu þjóðfélagi en ekki þjófa og áþekks rumpulýðs.

Mosi


mbl.is Tengist inngöngu MC Iceland í samtök Vítisengla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppgjör prófkjöra?

Munu frambjóðendur og þátttakendur í prófkjörum gera opinberlega grein fyrir kostnaði sem og framlögum í kosningasjóði opinber, þ. á m. á vegum Sjálfstæðisflokksins?

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn taldi sig vera eini raunverulegi lýðræðisflokkur landsins sem byggði á einstaklingshyggjunni. Í raunininni hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið fremur að draga lappirnar með að auka gegnsæi og upplýsa um fjármál sín. Sú viðleitni er almennt séð litin tortryggnum augum enda er oft auðveldlega unnt að benda á grun um meinta spillingu þegar hlutaðeigandi gera ekki hreint fyrir sínum dyrum.

Á þeim viðsjárverðu tímum sem nú eru, ber að sýna fyllsta trúnað og traust að allir sjái sér fært að gera grein fyrir uppruna og notum þess fjár sem viðkomandi hafa undir höndum þegar um prófkjör er að ræða sem og öðru hliðstæðu.

Mosi


mbl.is Metþátttaka í prófkjörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vafasöm vegtylla

Að gera Ísland að alþjóðlegri miðstöð upplýsingaleka er vægast sagt vafasöm vegtylla að ekki sé meira sagt. Allar upplýsingar eiga að vera sem traustastar þar sem unnt er að sannafæra þær og staðfesta með haldbærum sönnunargögnum.

Á okkar tímum er hvað einna mest rætt um gegnsæi í stjórnsýslu, fjölmiðlum og upplýsingum. Um leið og gegnsæi verður minna þá er alvarlegt hættumerki um að stutt sé að réttarríkið sé í hættu. Við höfum reynt það grimmilega.

Eitt dæmi:

Fram til 2007 var unnt að lesa á heimasíðu Morgunblaðsins öll innherjaviðskipti með hlutabréf nánast um leið og þau fóru fram. Þetta var unnt með því að velja Viðskipti og Fréttir. Fyrir um 3 árum var Kauphöllin á Íslandi sett undir OMX í Stokkhólmi. Við þetta rofnaði tengslin og innherjar gátu gert nánast hvað sem þeim datt í hug án þess að viðskipti þeirra og umsvif með hlutabréf yrðu jafnáberandi. Þetta nýttu þeir sér ótæpilega og því fór sem fór. Litlu hluthafarnir uggðu ekki að sér, höfðu ekki neinar hugmyndir um stöðu mála og allt í einu varð allt of seint að losa sig við hlutabréf sem sum hver eru nú einskis virði.

Hefði ekki verið hyggilegra að þessar upplýsingar hefðu verið jafngegnsæjar og áður var?

Braskarnir náðu ótrúlegum árangri með fjárglæfrum sínum oft á ósvífinn hátt. Þarna hefði Morgunblaðið sem öflugur fjölmiðill á sviði viðskipta getað komið að góðu gagni til hagsmunagæslu allra sem málið varðar.

Umdeild alþjóðastarfsemi á ekki að vera velkomin á Íslandi fremur en eiturlyfjasalar og áþekkur rumpulýður.

Mosi


mbl.is Wikileaks vill starfsemi sína til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver lýgur?

Fjármálaeftirlitið gaf út yfirlýsingu 14. ágúst 2008 að allir íslensku bankarnir hefðu staðist álagspróf með prýði! Var Jónas Fr. steinsofandi?

Mánuði seinna verðlaunaði Björgvin Sigurðsson þáverandi viðskiptaráðherra bankastjórn Landsbankans fyrir sérstaklega vandaða og velframsetta ársskýrslu Landsbankans vegna ársins 2007! Var Björgvin steinsofandi?

Í febrúarmánuði 2008 kom hingað til lands sérstakur sendiboði frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og varðai stjórnvöld við. Þá kvað síðar Davíð Oddsson hafa margsinnis varað ríkisstjórnina við allt árið 2008 og fram að hruninu mikla.

Var Geir Haarde og ríkisstjórn hans steinsofandi?

Mosi


mbl.is Vísar ásökunum um lygar á bug
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum með Icesave

Flókið mál sem ekki er hægt að einfalda

Þegar betur er að gáð þá eru Icesave skuldirnar einhvers staðar nálægt 10-15% af öllum heildarskuldum þjóðarinnar. Mikið er undir því komið hvernig tekst til að koma eignum bankanna í sem mest verð. Það er grundvallaratriði að hafa samvinnu við bresk yfirvöld vegna þess. Samningurinn við Breta gengur nefnilega út á það að þeir viðurkenni forræði Íslendinga yfir eignum bankanna. Og í því felst að þeir skuldbindi sig til að vera okkur innanhandar að hafa sem mest upp á þessum eignum og hámark virði þeirra sem mest. Eru þeir sem setja sig á móti Icesave tilbúnir að að afskrifa eignir bankanna í Bretlandi þannig að þessar eignir verða nánast að engu?

Auðvitað er mikið ranglæti að láta heila þjóð gjalda fyrir léttúð og kæruleysi braskara, fyrrum bankamanna og fyrri ríkisstjórnar að fylgjast ekki betur með þróun mála! En það sem skiptir mestu máli er að Icesave skuldirnar eru ekki nema tiltölulega lítið brot af heildarskuldum þjóðarinnar.

Að setja sig á móti þessum Icesave samningum er því ekki auðvelt val. Hefur það í för með sér tortryggni erlendra aðila gagnvart Íslendinum. Vill þjóðin virkilega hafa öll hin lánin, 85-90% heildarskulda séu á hæstu vöxtum og litlar sem engar vonir að fá framlengingu lána? Það er því mikið glapræði og léttúð. Með því er verið að fórna meiri hagsmunum til að bjarga einhverjum minni.

Mér finnst margir taka fulldjúpt í árina með yfirlýsingum gagnvart Icesave. Hagfræðiprófessorinn er að segja hreint og beint frá hlutlægu mati sínu (ekki huglægu) og því af og frá að hann sé einhver málpípa ríkisstjórnarinnar.

Icesave málið er gríðarlega flókið mál sem margir vilja einfalda mjög mikið án þess að viðurkenna veigamikil rök. Kannski þegar á öllu er á botninn hvolft er sú leið aðeins fyrir einfeldninga að vera á móti Icesave!

Mosi


mbl.is Dýrt að hafna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 242934

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband