Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

Nútímalegt fangelsi

Já fangelsi eru því miður óskemmtilegur veruleiki. Oft er fólk fljótt að kveða upp dóma og vill dæma hart. Það er að mörgu leyti skiljanlegt. En er allt sem sýnist?

Fangelsi eru alltaf neyðarúrræði og hafa sjaldan bætt nokkurn mann.  Þau eru rándýr í rekstri. Fyrir langt löngu lýsti meira að segja virtur prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands yfir því í fyrirlestri að ódýrara væri fyrir þjóðfélagið að vista fanga á Hótel Sögu en á Litla Hrauni!

Spurning er hvernig við getum nýtt skattpeningana sem hagkvæmast í heildina séð en það eru ekki allir stjórnmálamenn sammála um leiðir.

Eitt af því sem þarf að bæta verulega úr er að gefa mönnum sem bíða dóms kost á að fara í afeiturnarmeðferð. Flestir afbrotamenn eru langt leiddir eiturlyfjafíklar sem gera sér sáralitla grein fyrir ábyrgð sinni í samfélaginu. Í huga þessara manna er oft aðeins hugsað um líðandi stund þar sem allt gengur út á að afla sér verðmæta með hvaða aðferðum sem gefst til að fjármagna næstaneysluskammt.

Afeitrunarmeðferð er mjög róttæk aðferð sem reynir mjög á sál og líkama fangans. Hún er einnig mjög kostnaðarsöm fyrir samfélagið því sjúklingurinn þarf að njóta góðrar læknismeðferðar og aðhlynningar. En ef um 10% afbrotamanna myndu vilja gangast undir þessa meðferð og hljóta lækningu að einhverju leyti - er það ekki e-ð til að stefna að? Kannski að þessi 10% eftir meðferð geti eftir því sem þeim vex aftur vit og líkamlegur máttur, að þeir geti orðið mikilsverðir liðsmenn í baráttunni gegn fíkniefnanotkuninni sem er ærið fyrir?

Mosi hvetur eindregið alla þá sem tjá sig um málefni fanga og vilja gjarnan dæma hart að lesa skáldsöguna Les Misérables eða Vesalingarnir (1862) eftir franska rithöfundinn Victor Hugo (1802-1885). Sú skáldsaga segir frá fanga nokkrum á flótta sem lenti fyrir tilviljun vitlausu megin við lögin. Hann hóf afbrotaferil sinn með því að hnupla brauðhleyf og varð að þræla í grjótnámu við illa vist. Honum tekst að strjúka og fyrir undursamlega tilviljun verður byskup nokkur á vegi hans þar sem hann nýtur næturgistingar. Fanginn „launar“ byskup greiðann með því að láta greipar sópa um öll helstu verðmæti þau sem hann kemst yfir á byskupssetrinu og lætur sig svo hverfa út í dimma  nóttina. Daginn eftir drepa verðir laganna á dyr byskups. Voru þeir komnir með pokaskjattann með verðmætunum sem stolið höfðu verið og fangann umkomulausa í járnum milli sín. Byskupinn áttar sig strax á, að þessi aumkunarverði vesalingur á ekkert gott skilið en hann miskunnar sig yfir honum, kveður yfir að mikill misskilningur sé kominn upp því hann hafi gefið þessum manni þessa muni. Kvað hann hafa meira gagn af þeim en sig! Lögreglumennirnir urðu heldur en ekki hlessa og vissu vart hvaðan á þá stóð veðrirð en fanginn varð öllu meira hissa á þessu miskunnarverki! 

Þarna verður mikilvægur vendipunktur í sögu þessa manns sem upp frá þessari stundu einbeitti sér að gera allt sem í hans valdi stóð að verða ekki aðeins betri maður, heldur einnig að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Það gengur eftir og hann verður mætur maður sem atvinnurekandi og síðar borgarstjóri í borg þar sem allt gengur eftir. Miklar tækniframfarir verða í þessu samfélagi og borgarbúum vegnar mjög vel. Síðar kemur þar við sögu að annar vendipunktur kemur upp þegar refsiglaður fjandmaður í líki lögreglustjóra kemur í bæinn og uppgötvar þennan gamla strokufanga sem einu sinni náði að flýja réttvísina.

Kannski við eigum okkar Jón Hreggviðsson sem hliðstæðu þessarar persónu að breyttum breytanda. Hann kemur sér undan réttvísinni og réttlætinu, flýr norður á Strandir og kemur sér í duggu til Hollands og áfram til Kaupmannahafnar. Jón er tengipersóna elskenda og er sjálfur í upphafi sögunnar grunaður um alvarleg afbrot sem leiddu af snærisleysi en oft hefur þessi blessaða þjóð Íslendingar lent í verstu vandræðum vegna smámuna.

Kannski við eigum að gera Les Misérables að skyldulesningu í fangelsum landsins og sjálfsagt víðar meðal þeirra þar sem harðir dómar eru stöðugt að stinga sér niður. Er ekki miskunnsemin það sem fyrst kemur í huga þegar e-ð alvarlegt kemur upp? Auðvitað er samúðin með þeim sem verður fyrir skaða en meðvirkni ber einnig að sýna þeim sem veldur.

Það á auðvitað ekki að gefa eftir að ekki má taka neinum vettlingatökum á alvarlegum afbrotum. Fangi verður að fá að athuga vel sinn gang: er hann tilbúinn að takast á við það erfiða að gangast undir afeitrun sem vissulega er líkast að vera kjöldreginn gegnum helvíti að sögn kunnugra? Eða á að fara í þetta endalausa reiðuleysi skammsýni og kæruleysi þar sem botnlaust hyldýpi vandræða blasir hvarvetna við?

Nýtt og velbúið fangelsi er landinu nauðsyn. En hvernig verður það búið? Við verðum að leggja áherslu á að þar geti farið fram afeitrun og að föngum sé veitt sú þjónusta sem getur leitt þá aftur til beinu bratuarinnar.

Ef félagsleg úrræði gleymast - má þá ekki alveg eins dubba dálítið upp á Litla-Hraun eða senda fangana í afplánun á Hótel Sögu?

Mosi - alias
mbl.is Þrír milljarðar í heildaruppbyggingu fangelsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær forseti

Ólafur Ragnar er mjög góður forseti rétt eins og forverar hans og er okkur Íslendingum til mikils sóma á erlendum vettvangi. Hann er frábærlega menntaður og víðsýnn, kostir sem prýða mikilhæfan og velmenntaðan einstakling. Hann er okkur góð fyrirmynd í hvívetna.

Mosi - alias


mbl.is Ólafur Ragnar leggur áherslu á samvinnu Íslendinga og Bandaríkjamana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunhæf framtíð

Íslendingar hafa alla möguleika með alla þá innri orku og hugvit að verða sér sjálfir um orku þannig að innflutningur á olíuvörum verði í nánustu framtíð óverulegur. Spurning er hvernig olíufélögin taka á þessu mikilsverða máli en ljóst er að fyrir um 100 árum var rafmagnsmótrinn orðinn jafnvel þróaðri til að knýja áfram bifreiðar en sprengihreyfillinn. Það voru olíufélögin með þá gríðarlegu hagsmuni sem tóku af skarið því þau græddu meira og hraðar með olíuna en með rafmagnið. Var það ekkiRockefeller hinn ameríski auðjöfur sem hafði í hendi sér hver örlög beið þróaðs rafmagnsmótors hvers hugmynd og hönnun týndist.

Spennandi verður að fylgjast með hvernig þessi mál þróast áfram. Ljóst er að tæknin tekur risastökk og sífellt er verið að finna ódýrari leiðir ásamt því að þekkingin vex mjög fiskur um hrygg.

Þá er einnig spurning hvernig stjórnvöld taka á þessum málum. Eðlilegt er að tekin verði upp ný skattlagning sem tengist hve mikla mengun starfsemi hefur í för með sér. Síðastliðið sumar var skattgreiðslum álbræðslunnar í Straumsvík breytt mjög mikið. Horfið var frá framleiðslugjaldi, hugmyndafræði sem tengja má við Ólaf Björnsson hagfræðiprófessor og þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þá var tekjuskattur á fyrirtæki mjög hár en er að tiltölu fyrirtækjum mjög hagstæður nú. Álbræðslan sparar sér milli 4 og 5 hundruð milljónir á ári vegna þessara breytinga. En mengunarskattinum var illu heilli gleymt en gott tækifæri hefði verið að innleiða hann.

Vonandi verður ráðin bót á þessu í náinni framtíð, með breyttu skattkerfi verður umhverfisgjald eða mengunarskattur aukin hvatning að fara betur með orkuna og draga sem mest úr varhugaverðri mengun sem hvarvetna er verið að gefa betur gaum um alla veröld. 

Mosi - alias


mbl.is Heyra „bensínstöðvar“ brátt sögunni til?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar endar þetta?

Hræðilegt er að heyra að notkun eiturlyfja virðast verða sífellt meiri og meiri að því virðist vera.  Fyrir um áratug auglýsti stjórnmálaflokkur nokkur sem lengi hefur verið aðili að ríkisstjórn að stefn væri að útrýma eiturlyfum úr íslensku þjóðfélagi fyrir aldalok 20. aldar - hvorki meira né minna! Því miður hefur slíkt hjal reynst tóm orð, aldrei hefur þessi vandi vegna misnotkunar vafasamra efna verið meiri en einmitt nú. Ógæfusamir einstaklingar sem eiga erfitt með að fóta sig áfram í þessum skelfilega heimi eru auðveld bráð þeirra sem græða margir hverjir offjár á óhamingju samborgara sinna. Rekja má notkun eiturlyfja sem orsök og ástæður flestra lögbrota sem framin eru í landinu.

Nú þarf að huga betur að þessum málum. Ekki má taka neinum vettlingatökum á þessu heldur þarf að grípa til þeirra ráða sem heimildir standa til.  Gera þarf lögregluna betur úr garði að unnt sé að koma þessum einstaklingum fyrir á til þess stofnunum þar sem þeir verða afeitraðir og vistaðir, að vísu með þeirra samþykki. En það ætti að vera öllum þeim sem málið varðar að mikilsvert sé að veita aðstoð sem fyrst en ekki láta einstaklinginn veslast upp í þeirri aðstöðu sem þeir eru í. En til þess skortir fjármuni, mikla fjármuni sem við verðum að eyrnarmerkja til þessa verkefnis. Við verðum að koma upp velbúnum stofnunum með góðu og velmenntuðu starfsfólki sem á faglegan hátt getur hjálpað þeim sem eru í vanda. Kannski þarf að breyta áherslum í ríkisfjármálum en ekki dugar öllu lengur að spara og skirrast við að taka á þessum málum.

Umfjöllun um eiturlyf er vandmeðfarin. Léttúð í fjölmiðlum varðandi eiturlyf verður ekki til góðs. Gera þarf þá ábyrga sem sýna af sér vítavert kæruleysi sem getur leitt aðra til að neyta þessara varhugaverðu efna!

Eflum almannavitund um að við verðum að taka þessi eiturlyfjamál föstum tökum!

Mosi - alias 


mbl.is Fíkniefnaleiðarvísir birtur í fríblaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er hætta á að banki fari á hausinn?

Sennilega verður mikið að ganga á áður en banki fer á hausinn. Spurning er alltaf með baktryggingar en bankastarfsemi er lík starfsemi tryggingafélaga að því leyti að stjórnendur reyna að baktryggja sig gegn óvæntum áföllum og dreifa áhættu sem mest. Margir bankar hafa ábyrgð ríkissjóða og eru því gulltryggðir.

Við þekkjum aðeins eitt dæmi í okkar sögu þegar Íslandsbanki hinn fyrri var gerður upp á sínum tíma í ársbyrjun 1930. Vegna bágrar lausafjárstöðu féll hann en í raun var hann ekki gjaldþrota nema að það var pólitísk ákvörðun að láta hann falla. Á rústum hans voru stofnaðir tveir bankar Búnaðarbanki og Útvegsbanki sem þjónuðu vel og dyggilega fyrirgreiðslu stjórnmálaflokkanna á hægri línunni einkum fyrir atvinnuvegina. Í raun varð víst aðdragandi að þessu falli, hlutabréf bankans hríðféllu í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn sem varð til þess að margir sparifjáreigendur hópuðust og tóku út fé sitt eins og í enska bankanum núna á dögunum. En ekki voru stjórnmálamenn sáttir um aðferðir, vildu Framsóknarmenn gera bankann upp en Sjálfstæðismenn vildu bjarga bankanum. Lendingin varð þó sú, að Ríkissjóður hljóp undir bagga, Útvegsbanki var látinn taka við skuldbindingum og innistæðum Íslandsbanka jafnframt sem Búnaðarbankinn hafði verið stofnaður til að taka við verkefnum tengdum einkum landbúnaði.

Annars væri fróðlegt að vita meira um með fyrirhugaða sölu þessa breska banka. Var kannski íslenskur banki að huga að kaupum en orðið afhuga við nánari skoðun?  

Mosi - alias


mbl.is Vandræði Northern Rock
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeild virkjun

Segja má að hönnun þessarar virkjunar geti verið talin mikið verkfræðilegt afrek. En er allt sem sýnist? 

Hvað kostar og hver greiðir fyrir þessa ráðstefnu?

Verður hún haldin á kostnað íslenskra skattborgara?

Þessi virkjun verður alltaf umdeild og þá sérstaklega aðferðin sem beitt var til að koma ákvörðuninni gegnum þingið á sínum tíma. Eiginlega voru það einungis tveir Íslendingar sem tóku þessa ákvörðun og spurning hvort ekki var verið að bjarga ítalska verkfræðifyrirtækinu Impregilo frá gjaldþroti en fjárhagslegur grundvöllur þess var vægast sagt mjög valtur.

Þegar Davíð Oddsson fór til Ítalíu á sínum tíma og þáði boð Berlusconi að vera gestur hans í óvenjulangri heimsókn var ekkert verktakafyrirtæki í gjörvallri heimsbyggðinni sem hafði áhuga fyrir þessu verkefni. Svo kom tilboðið frá Ítalíu sem var það lágt að Landsvirkjun kolféll fyrir því! Nú er von að lokareikningurinn frá Impregíló verði lagður fram á næstu mánuðum. Má vænta þess að hann verði ímun hærri en upphaflega tilboðið hljóðaði upp á? Kannski það verði í svipuðum dúr og þegar systurfyrirtæki Imprégíló vann að Metró verkefninu í Kaupmannahöfn á sínum tíma? Þá lögðu Ítalarnir fram lokareikning sem reyndist vera fjórum sinnum hærri en upphaflega tilboðið gekk út á! Danir komu af fjöllum þegar þeir sáu þennan himinháa reikning og blasti gjaldþrot við Kaupmannahafnarborg. Danski ríkiskassinn varð að hlaupa undir bagga til að forða Dönum hneysu. Ítalarnir báru fyrir sig að útboðsgögn hefðu verið mjög ónákvæm og spurning hvort þeir beri ekki áþekkt fyrir sig að þessu sinni. Kunnugt er að borun aðveituganga reyndist vera þrælerfið á köflum t.d. neðan undir Þrælahálsi en þar var einn erfiðasti kaflinn í þessu mikla verki.

Ítalska fyrirtækið stóð mjög höllum fæti fjárhagslega þegar það sendi Landsvirkjun tilboðið á sínum tíma. Spurning hvort þessi framkvæmd við umdeilda virkjun hafi orðið til að bjarga Impregíló frá gjaldþroti? Gengi hlutabréfa Impregíló SPA hefur lengi verið mjög flöktandi og ber það með sér að rekstur fyrirtækisins virðist vera allbrokkgengur og reynt sé að bjarga því áfram með því að hafa nóg af verkefnum sem önnur verktakafyrirtæki vilja ekki taka að sér.

Kárahnjúkavirkjun hlýtur að verða n.k. minnisvarði um vægast sagt eina umdeildust ákvörðunartöku í allri Íslandssögunni. Þessi umdeilda ákvörðun klauf íslensku þjóðina í tvær andstæðar fylkingar og spurning hvort nokkurn tíma íslenska þjóðin verði sama þjóð og fyrr. Við höfum dregið þann lærdóm af þessu að lýðræðisfyrirkomulagið sem við búum við er mjög ófullkomið og á því þarf að ráða bót hið fyrsta.

Mosi - alias 

 


mbl.is Alþjóðleg tækniráðstefna um Kárahnjúkavirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýndarmennska

Að Íslendingar hafi verið með einn friðargæslumann í ófriðarlandi er eins og hver önnur sýndarmennska. Hefði ekki verið eins góð ráðstöfun að senda mynd af þeim spaugstofumönnum í essinu sínu þegar þeir skelltu sér á gæsaskitterí hérna um árið?

Íslendinga skorti alla þekkingu á hernaði auk þess er stríð það sem Bush hóf í Írak með því flóknasta sem um getur í sögunni. Aldrei hefur herliði tekist að berjast gegn skæruliðaher sem birtist allt í einu öllu skipulögðu herliði á óvart og hverfur jafn skyndilega eins og jörðin hafi gleypt með húð og hári.

Mosi tekur ofan hattinn í virðingarskyni fyrir skynsamlegri ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar. Hins vegar er hann alveg agndofa yfir ábyrðarlítilli yfirlýsingargleði forveru hennar, Valgerði frá Lómatjörn. Auðvitað getur fyrrum ráðherra boðist til að skjótast suður eftir og gerast fulltrúi Framsóknarflokksins í þessu tilgangslitla stríði en auðvitað á eigin ábyrgð.

Mosi - alias


mbl.is Geir: Hefði ekki kallað starfsmanninn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yndisleg gleymska

En hvað það getur verið yndislegt að gleyma aðalatriðinu.  Þarf ekki að sækja heimild um byggingu og niðurrif húsa til borgarstjórnar Reykjavíkur?

 Spurning hvort það jaðrar ekki við alvarleg embættisafglöp forseta borgarstjórnar að gleyma aðalatriðinu. Nú þarf væntanlegaað bera málið aftur upp og greiða atkvæði.

Mosi alias 


mbl.is Gleymdist að greiða atkvæði um niðurrif húsa við Laugaveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur hagsmuni af ferjuklúðrinu?

Þetta klúður kringum þetta endemis ferjumál er ekki til þess fallið að auka traust meðal íslenskra ráðamanna. Ríkisendurskoðandi hafði sett fram mjög málefnalega gagnrýni á þessu og ljóst er að mjög óvenjuleg leið var farin sem gekk þvert á það sem Alþingi hafði á sínum tíma samþykkt með fjárlögunum. Þar er heimildaákvæði um að selja mætti ferjuna sem notuð hefur verið fram aðþessu og nota söluverðið ásamt tilteknu viðbótarframlagi úr ríkissjóði til að festa kaup á annari ferju betri. 

Ríkisendurskoðandi bendir á að ekki hafi verið farið eftir verklagsreglum stjórnsýslu. Þá er það yfirmaður ríkisendurskoðandans, sjálfur fjármálaráðherrann sem veitir undirmanni sínum snupru með því að segja að þetta sé gömul venja í stjórnsýslunni!!!!

Mosa finnst þetta grafalvarlegt hneyksli. Ferjumálið með öllum þeim uppákomum bókstaflega bliknar við þessa yfirlýsingagleði ráðherrans sem er yfirmaður eins mikilvægasta ráðuneytisins: að fara með fjárreiður íslenska ríkisins. Ríkisendurskoðandi er að vinna vinnuna sína, honum ber lagaleg embættisskylda að fylgjast með að fjármunir íslenska ríkisins sé varið eftir sem ákveðið er í fjárlögum og gefa ráðherra skýrslu þegar brestir verða á þeim verklagsreglum sem fara ber eftir þegar um opinberar fjárreiður er að ræða. Hvort einhverjar óvenjur einstakra ráðamanna eigi að ganga fjárlögum ofar er vægast sagt gjörsamlega óskiljanlegt. Í lögfræðinni er forgangsröð réttarheimilda: æðst er stjórnarskráin, þá önnur landslög en þó þannig að ef einhver kostnaður fylgir að framfylgja þeim, þá verður að doka að uns fjárveiting til þess hafi verið samþykkt á Alþingi með fjárlögum. Reglugerðir og tilskipanir ráðherra eru marklausar nema gert sé ráð fyrir þeim í lögum og þau hafi öðlast gildi. Meginreglur og eðli máls ásamt öðrum heimildum geta verið óljós hvað þá venjur sem þarf þá að sanna af þeim sem ber fyrir sig slíkt. Því miður hefur fjármálaráðherra ekki útskýrt þessar venjur í hverju þær eru fólgnar en ljóst er að með umdeildri ákvörðun hafa tveir ráðherrar brugðist eðlilegum væntingum landsmanna til landsfeðra sinna. 

Hrossalækningar voru áður fyrr stundaðar þegar ekki náðist í lærðan dýralækni og þóttu neyðarúrræði. Þær þóttu oft grófar og mislukkuðust því miður mjög oft.

Nú er lærður dýralæknir í æðsta embætti sem tengist fjárreiðum íslenska ríkisins. Þar er um að tefla mjög mikla fjármuni og það er hlutverk ekki aðeins ríkisendurskoðenda heldur einnig fjármálaráðherra að fylgjast gjörla með að opinbert fé verði eins vel varið og unnt er og farið verði eftir þeim reglum sem gildir í stjórnskipun og stjórnarfari landsins. Þessi sami ráðherra og lærður dýralæknir vill nú grípa til hrossalækninga á einhverju versta klúðri sem upp hefur komið. Það á að skamma ríkisendurskoðanda að vinna vinnuna sína og draga aðra til ábyrgðar, klína sökinni á verkfræðing sem sjálfsagt hefur gefið út einhverja yfirlýsingu í góðri trú um betra ástand skipsins en síðar reyndist koma í ljós. En hver átti hagsmuni að gæta að þessi gamla og lúna ferja var keypt til landsins? Naut einhver mikilvægur hagsmunaaðili verulegra hagsmuna af þessari umdeildu ákvörðun?

Auðvitað á fjármálaráðherra að skipa sér á bak við samviskusaman ríkisendurskoðanda og gefa þá sjálfsögðu yfirlýsingu að alvarleg mistök hafi orðið. Og það verði að koma í veg fyrir að svona lagað  geti endurtekið sig og að sá sem hefur misstigið sig, taki á sig ábyrgðina.

Hvernig væri að þeir ráðamenn sem málið varðar, líti í eiginn barm, leggi spilin á borðið og geri þjóðinni glögga grein fyrir hver beri pólitíska ábyrgð á þessu slæma klúðri? Að öðrum kosti má fyllilega gera ráð fyrir að öldur þessar lægi ekki fyrr en þjóðin krefst afsagnar þeirra.

Mosi - alias 

 

 

 


mbl.is Ósáttur við að sitja undir ærumeiðingum ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við vonum það besta

Fyrsti bankinn hefur horfið frá krónunni og tekið upp evru sem einingu skráningu hlutafjár.  Athygli vekur að það er stjórn viðkomandi fyrirtækis sem tekur þessa afdrifaríku ákvörðun en hún ekki borin upp á aðalfundi.

Ljóst er að framundan eru miklar breytingar hjá þeim fyrirtækjum sem hafa stærri hluta reksturs síns erlendis. Því er þessi ákvörðun mjög eðlileg. Hvað verður um gömlu krónuna hvort hún dagi upp og verði fyrst og fremst safngripur er ekki gott að sjá fyrir hvenær það verður staðreynd.

Spurning er hvenær Ísland gengur í Efnahagsbandalagið. Fyrir okkur Íslendinga sem neytendur verður það ábyggilega okkur hagkvæmara og leiðir til lægri vaxta og vonandi til stöðugri fjármálastjórnunar. En spurning er auðvitað um fiskveiðiauðlindirnar - hvort við getum haldið þeim fyrir okkur en þær virðast vera stöðugt minnkandi. Í því sambandi má ígrunda að Bretar veiddu meiri afla á Íslandsmiðum um 1970 en íslenskum skipum er nú heimilt að veiða af bolfiski.

Mosi - alias 


mbl.is Hlutabréf Straums-Burðaráss skráð í evrum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 242836

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband