Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Exista: gróðrarstía spillingar?

Þegar fréttist, að stjórn Exista hefði aukið hlutafé í fyrirtækinu um hvorki meira né minna en 50 milljarða króna fyrir nokkrum misserum, þá urðu margir forviða að ekki væri meira sagt. Í ljós kom að þessi mikla hlutafjáraukning var fyrst og fremst í blekkingarskyni og að styrkja þá stjórn í sessi sem hafði náð undirtökunum í félaginu. Grunur þeirra sem voru vantrúaðir á raunverulega aukingu hlutafjár í fyrirtækinu reyndist síðar á rökum reistur þegar í ljós kom að ekki ein einasta króna hefði verið greidd til félagsins heldur einhver hlutabréf í einhverju huldufyrirtæki sem enginn kannaðist við. þau voru eðlilega bókfærð sem raunveruleg „eign“ þó verðgildi þeirra væri nánast einskis virði!

Svona uppákoma varð skattyfirvöldum og Fjármáleftirliti tilefni að skoða nánar þetta fyrirtæki. Exista byggir á tveim stoðum: Annarsvegar Samvinnutryggingum sem voru reknar af SÍS veldinu  sem sjálfstætt fyrirtæki og Brunabótafélagi Íslands sem var elsta starfandi fyrirtæki á sviði trygginga á Íslandi. Brunabótafélagið skilaði eigendum sínum, ríkinu og sveitarfélögunum hagnað á hverju einasta ári í rúm 90 ár sem það starfaði auk þess sem brunavarnir voru kostaðar af félaginu. Þetta blómlega fyrirtæki var í einkavæðingarbrjálæði því sem geysaði um aldamótin síðustu, komið í hendurnar á Framsóknarmafíunni sem sameinaði það aftur Samvinnutryggingum og nefndi Vátryggingarfélag og síðar Exista. Þar fór gott fyrirtæki í hundskjaft!

Sú valdaklíka sem ráðið hefur þessu fyrirtæki hefur lítt hugsað um annað en að skara að sinni köku og hafa beitt hverjum þeim ráðum til að koma betur ár sinni fyrir borð á kostnað annarra hluthafa sem og alls hins íslenska samfélags. Sumir í stjórn þessa fyrirtækis hafa gerst umdeildir kaupsýslumenn og hafa beitt mjög óvenjulegum ráðum að koma eignum undan fyrirtækinu sem og Kaupþing banka sem hafði einnig verið spyrtur saman inn í þessa svikamyllu.

Nú er komið að þeim tímapunkti að lögreglurannsókn fer fram undir stjórn sérstaks saksóknara í bankahruninu. Mjög líklegt er að ákært verði í þessu máli enda sök nokkuð augljós um ýms hegningarlagabrot en það sem verið er að gera núna er að yfirvöld eru eðlilega að afla frekari sannanna og treysta betur væntanlega ákæru á hendur þeim sem málið varða.

Bankahrunið á Íslandi er ákaflega ógeðfellt og viðurstyggilegt fyrirbæri í sögu Íslands. Sérstaklega dapurlegt er til þess að hugsa hve þessir samborgarar okkar sem hafa átt þátt í hruninu hafi litið á frelsi sitt til athafna með mikilli léttúð og engri samfélagslegri ábyrgð. Verknaður þeirra er augljóslega bundinn við að auðga eigin hag sem mest og best án nokkurs minnsta tillit til annara hagsmunaaðila í samfélaginu. Kann sá verknaður að vera að einhverju leyti löglegur en gjörsamlega siðlaust.

Mosi


mbl.is Exista rannsakað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blendinn hugur

 

Friðrik er auðvitað mjög ríkur af reynslu en eðlilega tortreyggja hann margir vegna nálægðar hans við innstu valdaklíku Sjálfstæðisflokksins sem verður alltaf tengd ábyrgð á bankahruninu mikla.

Spurning er hvort hann sé af þeim ástæðum vanhæfur eða hvort það varðar kannski við heimsku að fá einhvern annan reynsluminni?

Ljóst er, að meðan skýrslan um bankahrunið hefur ekki verið gerð opinber, verður ekki fullyrt að svo stöddu hvort Friðrik tengist ábyrgð á bankahruninu að einhverju leyti.

Sjálfur hefi eg misst atvinnu mína og allan sparnað bestu æviára minna í formi hlutabréfa. Sama gildir um fjölskyldu mína.

Hugur minn í garð þeirra sem ábyrgð bera, verður því alltaf mjög þungur. Og tortrygginn er eg líka orðinn gagnvart öllum þeim sem tengjast bankahruninu að einhverju leyti.

Spilling í íslensku samfélagi er mjög augljós. Með hverjum deginum sem líður, kemur stöðugt fleira fram sem sýnir okkur hversu mikið var af möðkum í mysunni. Íslensk stjórnvöld hömruðu árum saman á því, að íslenskt samfélag væri eitt af minnst spilltustu ríkjum heims. Nú hefur annað verið að koma í ljós. Spillingaöflin hafa mergsogið íslenskt samfélag, ýmsir stjórnmálamenn ljá ekki máls á því að bera neina ábyrgð þó augljóst sé að sumar afdrifaríkar og umdeildar ákvarðanir þeirra leiddu til hrikalegs áfalls íslensku þjóðarinnar. Hér er það sem uppivöðslusamir fjárgælframenn hafa auðgað sig í skjóli einkavæðingar og frjáls hagkerfis þar sem engar hömlur væru settar á græðgina.

Átti Friðrik Sophusson einhvern þátt í að þetta varð raunin, annars vegar sem fjármálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hins vegar sem forstjóri Landsvirkjunar? Þegar hann tók við sem forstjóri var Landsvirkjun nánast skuldlaust fyrirtæki. Nú á það vart fyrir skuldum. Ber hann einhverja ábyrgð og þá hve mikla? Sýndi hann einhverja varkárni við framkvæmd þessa glæfralega Kárahnjúkaverkefnis?

Nauðsynlegt er að rökstyðja svarið hvort sem það er já eða nei!

Mosi


mbl.is Friðrik Sophusson formaður ÍSB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör: kostir og gallar

Nú eru prófkjör farin af stað. Fyrrum riðu hetjur um héruð til að safna liði. Núna eru það auglýsingar og greinaskrif, síminn og í sumum tilfellum bloggsíður nýttar til hins ítrasta. Í sumum sveitarfélögum landsins virðist vera óvenjulega mikill áhugi fyrir að komast í öruggt sæti. Hvorki fleiri né færri en 13 manns hefur gefið kost á sér í prófkjör Sjálfstæðisflokksins á Álftanesi svo dæmi sé nefnt. Sem kunnugt er það sveitarfélag nánast gjaldþrota eftir nokkuð glæfralega stjórnun á liðnum árum og mun Sjálfstæðisflokkurinn eiga töluverðan þátt í hvernig komið er. Einkennilegur er þessi áhugi meðal Sjálfstæðismanna á að stýra gjaldþrota sveitarfélagi!

Kostir prófkjöra er sá að hver og einn sem áhuga hefur, getur tekið þátt í prófkjöri. Gallinn er hins vegar sá að þetta ferli er sífellt að verða harkalegra og kostar meiri fjárútlát. Frambjóðendur verða að safna liði, n.k. hirð kringum sig sem aflar fjár og kynnir frambjóðanda sinn til vinstri og hægri. Oft verða sumir bitrir eftir þetta pólitíska þref þar sem oft valdagleðin freistar fremur en hugsjónastarfið. Og er ekki gengið full langt í þessa átt? Þátttaka í prófkjöri t.d. hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík skiptir milljónum á hvern frambjóðenda. Það er von að sú spurning læðist að venjulegu fólki: Telur þátttakandi í prófkjöri þetta stúss borga sig? Er kannski eftir einhverju að slægjast? Borgar þetta sig?

Galli prófkjöra fyrir lýðræðið er hversu auðmagnið skiptir greinilega miklu máli. Ekki er alltaf hirt um að gera á eftir hreint fyrir sínum dyrum, gera opinberlega grein fyrir uppruna og notum þess fjár sem hafa verið nýtt í þágu „málstaðarins“ og valdabröltsins. Mjög mikil líkindi eru að sá verði kjörinn og nái árangri sem hefur greiðan aðgang að miklu fé.

Í Grikklandi og jafnvel í Rómaborg til forna var oftast hlutkesti látið ráða. Þá höfðu allir jafnan möguleika að komast til valda hvort sem það var maður sem hafði mikinn auð að baki eða skítblankur hugsjónamaður - eða valdafíkill eftir atvikum - næði kosningu. Hér eigum við von á að það séu fyrst og fremst fjáraflamenn sem ná árangri án tillits til raunverulegs tilgangs og hvata viðkomandi að seilast til áhrifa og þar með valda. Hlutkesti kostar ekkert, það er líklega ódýrasta leiðin til að praktíséra lýðræðið þar sem tveir eða fleiri koma til greina.

Prófkjör þar sem ríkir óheft peningastefna í undirbúningi, hafa flest einkenni frumskógalögmálsins. Þar er fyrst og fremst sá sem auðinn hefur sem vænta má að nái bestum árangri. Því miður eru mikil útgjöld í prófkjöri stundum ávísun á spillingu í skjóli valdsins sem fylgir. Maregir þeir aðilar sem lagt hafa fé af hendi, vænta þess að fá einhverja fyrirgreiðslu sem umbun fyrir veittan stuðning.

Æskilegt er að stjórnmálaflokkar setji sér skynsamar reglur um framkvæmd þessara prófkjöra þar sem sett eru takmörk á hversu miklu fé megi nota í prófkjöri. Þá er mjög skynsamlegt að allir sem hlut eiga að máli geri opinberlega grein fyrir uppruna og notum fjársins sem tengist þátttöku í stjórnmálum.

Mosi


mbl.is Prófkjör farið vel af stað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg niðurstaða: hrægammanir halda sínu

Útrásin studdist að óverulegu leyti á raunverulegum verðmætum. Útrásin gekk út á að koma í kring einhveri gríðarlegri veltu verðbréfa þar sem nánast engar eignir stóðu að baki. Allt sem útrásarmenn komust yfir, var meira og minna allt margyfurveðsett. Þetta var hægt vegna þess að þessir aðilar voru með „sína“ innan bankakerfisins. Bankarnir yfirbuðu hvern annan, lofuðu öllum sem vildu „gull og græna skóga“. þetta var hægt þegar nóg vart af ódýru lánsfé frá Asíu. Svo komu fram efasemdir. Útrásarvíkingar börðu sér á brjóst og töldu að botninum væri náð en framundan væri í augsýn „betri tíð með blóm í haga“. En allt í einu urðu þessir sömu menn að standa reikningsskap gerða sinna. Þeir höfðu ekki sama aðgang að ódýru lánsfé og áður. Svo komu fram þessir vogunarsjóðir sem tóku stöðu gegn krónunni: þeir tóku gríðarleg lán sum hver án nokkurra viðhlýtandi trygginga eða veða. Einn þessara aðila er stórtækur fjárfestir sem hefur verið mjög áberandi. Nafni hans bregður fyrir aftur og aftur fyrir í hinuym óaðskiljanlegum fyrirtækjum. Hann er framsóknarmaður er forstjóri skipafélags, stjórnarmaður í Exista og gott ef ekki gamla Kaupþing. Þá fékk hann afhent um þriðjung hlutafjár í HBGranda og þar varð uppi fótur og fit á síðasta aðalfundi í fyrravor.

Eru þetta bókhaldsblekkingar?

Þessi aðili hefur með framferði sínu sett fram ótrúlegar kröfur gegn Kaupþing banka og þar með íslensk ríkinu. Og hvernig fara menn að þessu? Af hverju er ekkert gert? Eru gömlu hrunflokkanir, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn enn við völd? Það skyldi þó aldrei vera? Eða hvað?

Í morgun var dapurleg endalok tiltölulega stórs almenningshlutafélags: Atorka er endanlega fallin og heyrir því sögunni til. Hrægammarnir hafa nú þetta fyrirtæki gjörsamlega í hendi sér þar sem samþykkt var að færa allt hlutafé félagsins niður í núll. Áratuga sparnaður margra sem nú eru komin á miðjan aldur er gjörsamlega glataður. Dapurlegur endir. Enn nöturlegri skilaboð til þeirra sem vilja leggja dálítið sparifé sitt til hliðar svo hafa mætti til elliáranna.

Mosi


mbl.is Exista: 262 milljarða kröfur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfkveðnar vísur?

Ef eg man rétt er Þorsteinn menntaður heimspekingur. Það hlýtur að hafa verið erfitt fyrir heimspeking að gerast málpípa óheftrar stóriðjustefnu sem rekin var af ríkisvaldi stýrðu af Davíð Oddssyni og Halldóri Ásgrímssyni. Þessir herramenn tóku oft umdeildar ákvarðanir annað hvort báðir eða annar sem þjóðin var bundin af. Lýst var yfir stuðning við siðlaust stríð og innrás í Írak, þó vitað væri að unnt væri að ná settu markmiði á ódýrari og mildari hátt. Það ver tekin ákvörðun um einkavæðingu bankanna sem við erum að súpa seyðið af. Það var tekin ákvörðun um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og það var lýst yfir stríði við öryrkja og eldri borgara landsins með því að rýra kjör þessarra minnstu bræðra og systra.

Á heimasíðu Landsvirkjun segir í fréttinni „að brýnt sé að efla og breyta ímynd Landsvirkjunar bæði gagnvart fjármögnunarfyrirtækjum, fjölmiðlum og almenning og sé þetta samkomulag liður í því“.

Hvernig á að skilja þetta? Hefur heimspekingurinn Þorsteinn Hilmarsson hlaupið á sig í störfum sínum? Mosi leyfir sér að efast um það. Ætli heimspekingurinn Þorsteinn hafi ekki gert það sem honum var sagt að gera? Kannski hefur hann innst inni verið með sínar efasemdir um ágæti þeirrar umdeildu ákvörðunar á ráðast í þessa virkjun en þetta var jú atvinna hans að vera upplýsingafulltrúi, n.k. blaðafulltrúi Landsvirkjunar.

En augljóst er að með nýjum forstjóra er verið að endurskipuleggja fyrirtækið. Fyrir ákvörðun byggingu Kárahnjúkavirkjunar var Landsvirkjun nánast skuldlaust fyrirtæki í opinberri eigu. Nú er það mjög skuldsett og spurning hvernig tekst að greiða Impregíló ítalska fyrirtækinu sem víða um heim hefur haft mikil umsvif og þau ekki alltaf mjög vinsamleg.

Auðvitað ber að óska Þorsteini alls góðs. Kannski hann fari að mæla göturnar með okkur hinum sem hafa misst atvinnu okkar í þessu glórulitla einkavæðingarbrjálæði og bankahruni. Fróðlegt verður að lesa eða heyra Þorstein segja nánar frá upplifun sinni sem heimspekings í þessu dæmalausa stóriðjumáli Landsvirkjunar sem Kárahnjúkavirkjun er.

Mosi


mbl.is Þorsteinn hættur hjá Landsvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sambæranlegt

Það var kappsmál stjórnarandstöðunnar á sínum tíma að ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun yrði sett í þjóðaratkvæði. Þá var EFTIR að byggja virkjunina sem stóð yfir í 4-5 ár.

Að bera saman þessa kröfu um þjóðaratkvæði annars vegar og laganna um Icesave hins vegar er ekki sambærilegt. Í fyrra dæminu hefði verið unnt að koma í veg fyrir þensluna ef tekist hefði að hnekkja ákvörðun Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um Kárahnjúkavirkjun. Sú framkvæmd olli ótrúlegri bíræfni fjárglæframanna eftir einkavæðingu bankanna. Auk þess máttu eldri atvinnugreinar í landinu, útgerð og ferðaþjónusta líða stórlega fyrir þensluáhrifin.

Í seinna dæminu er verið að meta hvort afleiðingar af þessu Icesave máli sé tækt í þjóðaratkvæðagreiðslu eftir að fjárglæfrabrjálæðið mikla hafði valdið okkur skaðann.

Þarna er verið að bera saman gjörólíka hluti svo eðlislega ólíka eins og þeir verst geta verið.

Það er ótrúlega mikil skammsýni núverandi stjórnarandstöðu að gera Icesave samningana tortryggilega og lítt spennandi fyrir þjóðina. Auðvitað lítur þetta illa út í hráum tölum. En grundvallaratriðið er að eignir bankanna erlendis sem og þeirra sem ábyrgð bera á bankahruninu verði innan skamms á forræði íslenskra yfirvalda og að unnt verði að hámarka þessar eignir til að standa í skilum við innistæðueigenda Breta og Hollendinga. Þessar eignir verða ekki á forræði Íslendinga nema við stöndum við það samkomulag við Breta og Hollendinga. Það er þetta grundvallaratriði sem stjórnarandstæðan er að reyna með öllum sínum tiltæku ráðum að koma í veg fyrir og eyðileggja.

Líkleg ástæða er að þessir þokkapiltar sem hafa verið að grafa undan bankakerfinu, dregið sér ótrúlegar fjárhæðir út úr bönkunum ýmist með arðgreiðslum, óhæfilegum ofurlaunum, persónulegum lánum eða einhverra pósthólfafyrirtækja t.d. á Tortóla án tilhlýðilegra trygginga eða veða, geti síðar komið „heim“ með góssið og keypt sér vilhalla stjórnmálamenn eins og þeir óska sér.

Spilling hefur lengi verið tengd Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og ekki er séð fyrir endann á þeirri starfsemi sem fram að þessu hefur verið undir fullri leynd. Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt í verki, hvernig hann leggur fram upplýsingar um hag sinn og umsvif. Þrátt fyrir að stjórnmálaflokkum beri í dag að upplýsa uppruna þess fjár sem þeir hafa aflað og hafa undir höndum, þá eru það fjárframlög frá eintómum N.N. Þessa N.N. ber Sjálfstæðisflokknum að upplýsa opinberlega hverjir raunverulega eru hafi fjárframlög þeirra farið fram úr ákveðinni fjárhæð.

Pukur Sjálfstæðisflokkains hefur legið eins og mara á þjóðinni og það má segja það sama um Framsóknarflokkinn. Þessir flokkar hafa lengi starfað mjög náið saman, ýmist í meirihlutastjórn eða að tjaldabaki. Rekja má þetta helmingaskiptafyrirkomulag alla vega aftur til ársins 1936 þegar fulltrúar þessara stjórnmálaflokka voru valdir á Alþingi í bankastjórn Landsbankans. Síðan þá hefur spillingin orðið stöðugt svæsnari. Og það verður vart séð fyrir endann á henni að óbreyttu.

Eigum við að hlýða kalli fulltrúa spillingaraflanna?

Eg segi NEI! Tökum ekki þátt í þessum hráskinnaleik.

Mosi


mbl.is Ekki of flókið árið 2003
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikir fjölmiðlar

Sagt hefur það verið að fjölmiðlar séu 4 mikilsverða stoðin undir nútímasamfélagi ásamt löggjafarvaldi, framkvæmdavaldi og dómstólum. Hlutverk fjölmiðla er mjög mikilvægt í nútímasamfélagi. Á sínum tíma benti Frakkinn Montesque á mikilvægi þess að ríkisvaldið styddist við mismunandi valdaþætti sem hefðu eftirlit og aðhald hver með öðrum. Hann er talinn vera hafa fyrstur manna sett fram hugmyndir um þrígreiningu ríkisvalds.

Við verðum að styrkja betur fjölmiðla og vanda til þeirra.

Mosi 


mbl.is Þungar áhyggjur af fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave er aðeins lítill hluti vandans

Allt fjaðrafokið kringum Icesave er undarlegra eftir því sem betur kemur í ljós. Fyrir hálfu ári eða svo var talið að Icesave skuldbindingarnar næmu um fjórðun af erlendum skuldum þjóðarinnar. Nú virðast þessar skuldbindingar vera nær að vera um 10% allra skulda.

Það er því með ólíkindum að stjórnarandstaðan hafi valið þá leið, að setja lánskjör 90% skulda þjóðarinnar í óvissu með það að markmiði að reyna að komast hjá að borga þessi 10% prósent!

Sá skipsstjóri sem veldi þá leið að fórna bæði skipi, áhöfn og öllum farmi án þess að bjarga nokkrum sköpuðum hlut yrði dæmdur í sjórétti gjörsamlega vanhæfur til skipsstjórnar. Það er réttmætt að fórna minni hagsmunum ef bjarga mætti hagsmunum sem taldir eru meiri og verðmætari. Að fá betri lánskjör fyrir 90% hlýtur að vera réttlætanlegt að taka á sig 10% sem Icesave þrasið getur í versta falli kostað okkur.

Þá er það spurning hvort með þessu endalausa þrasi hafi bresk yfirvöld orðið fráhverf að koma eigum Landsbankans og annarra íslenskra banka á Bretlandi í sem mest verð? Við þurfum á aðstoð þeirra til að endurheimta sem mest af þessum miklu fjármunum og einnig koma lögum yfir þá óreiðumenn sem áttu þátt í eða ollu bankahruninu.

Það væri því mikil skammsýni að hafna Icesave samningunum. Líklega verður unnt að takmarka skaðann verulega en ekki með þeim aðferðum þeirra stjórnmálaafla sem áttu þátt í að koma þeirri atburðarás af stað sem endaði með þessu hrikalega banakhruni.

Það ætti að vera öllum sem um þessi mál hugsa, að lesa vandlega grein Einars Jónssonar í Fréttablaðinu í dag: Norður og niður. Þar segir hann frá einkennilegri ákvörðun Charles de Gaulle í upphafi heimsstyrjaldarinnar síðari. 

Mosi


mbl.is Líklegt að AGS-lán frestist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigmundur „besserwisser“

Til eru menn sem telja sig vita allt betur en aðrir. Sigmundur Davíð er einn slíkur. Að „vara við“ útskýrir Sigmundur ekki nákvæmlega enda er orðagjálfrið sem þetta Icesave hefur þyrlað upp, valdið þvílíkri glýju að flestir vilja helst ekki heyra það aftur nefnt.

Spurning er hvort þetta moldviðri hafi verið sviðsett með ákveðnu markmiði. Er t.d. verið að draga athygli þjóðarinnar frá útrásarvíkingunum og þeim stjórnmálamönnum sem eru flæktir í svínaríinu?

Nú er stutt í hrunskýrsluna og þar mun ábyggilega sitthvað fróðlegt koma í ljós um aðdraganda hrunsins. Sennilega beinist athyglin að þætti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins og ábyrgð ráðamanna á þeim bæjum á aðdraganda hrunsins.

Það er því alltaf gott að vera vitur - svona eftir á. Sigmundur telur sig vita allt betur  en aðrir, á eftir en af hverju ekki fyrir áður en vitlausar ákvarðanir voru teknar? Hvar var Sigmundur Davíð þegar Framsóknarmafían ákvað að einkavæða bankana með Sjálfstæðisflokknum?

Mætti frábiðja sér svona „besserwissara“, - þeir hafa oft verið til mikillrar óþurftar og dregið fólk út á varhugaverðar slóðir.

Mosi


mbl.is Vöruðum við en ekki var hlustað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðstoð okkar og stolt

Þegar jarðskjálftar og aðrar náttúruhamfarir ríða yfir, þá er ekki spurt hjá okkar fólki að bregðast strax við. Margar þjóðir bíða sjálfsagt átekta og bíða hvort aðrir verði ekki skjótari til aðstoðar.

Spurning er hvenær breskar og hollenskar björgunarsveitir verði komnar til Haiti. Ætli í þeim löndum verði kannski fyrst beðið eftir svari hver borgar? Kannski verða engar björgunarsveitir sendar þaðan þrátt fyrir mun meiri efni en hjá blankri, guðsvolaðri þjóð á norðurhjara heims.

Við Íslendingar megum vera stolt þjóð í okkar fjárhagslegu erfiðleikum með því að vera viðbúin náttúruhamförum og að geta sent björgunarlið með skömmum fyrirvara. hér á landi hefur safnast fyrir bæði mjög mikil þekking og reynsla á sviði náttúrurannsókna og við færum hana óspart okkur í nyt.

Það er stolt þjóð en ekki niðurbrotin þjóð sem sendir án nokkurs hiks hóp björgunarmanna í fjarlægt land með töluverðum tilkostnaði til að bjarga mannslífum.

Mosi


mbl.is Erfitt og krefjandi verkefni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 11
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 29
  • Frá upphafi: 242934

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband