Bloggfærslur mánaðarins, október 2007

Umhverfisskattar gætu komið að gagni

Með umhverfissköttum er átt við að sem flest mengandi starfsemi sé skattlögð. Þannig verði skaðlegur útblástur frá verksmiðjum skattlagður. Ljóst er að það kostar umtalsvert fé að kosta til gagnaðgerðir, þ.e. að eyða menguninni með því að koltvíringsbinda þessar útblásturslofttegundir. Vegna flutninga væri auðveldlega unnt að taka umhverfisskatt gegnum sölu eldsneytis. Með hverjum lítra eldsneytis eru allháir skattar, t.d. bensíngjald sem greiðist í ríkissjóð en er ætlað til að fjármagna vegagerð. Ríkissjóður tekur umtalsverðan hlut af þessum skatti og þess vegna mætti sá hluti hans vera tengdur umhverfisaðgerðum, t.d. auknum fjárveitingum til skógræktar á Íslandi.

Þá væri mjög eðlilegt að taka upp umhverfisskatt á naglana sem margir eigendur ökutækja vilja gjarnan láta festa í dekkin. Þeir sem aka á þessum nöglum valda óneitanlega mikilli rykmengun auk þess sem þeir slíta götunum langtum meira en hinir sem ekki á nöglum aka. 

Íslendingar eiga að sýna framsýni og vera á undan öðrum þjóðum í sem flestu. Því miður erum við því miður oft á tíðum eftirbátar annarra og er það miður.

Fyrir meira en 900 árum voru kirkjuskattar innleidir á Íslandi. Kirkjuskattar kostuðu stríðsátök víða en hér á landi átti tíundin þátt í að styrkja samfélagið innra.  Skatturinn nýttist ekki aðeins kirkjunni heldur einnig þeim sem minna máttu sín, þreyttir og þurfandi sem var tryggð lágmarkslífsafkoma.

Umhverfisskattar víkja að samvisku okkar. Þeir eiga að hvetja til að draga sem mest úr mengun enda dregur jafnframt úr þörfinni fyrir gagnaðgerðum ef unnt er að draga úr mengun.

Mosi 

 


mbl.is Norðurlöndin þurfa að vera í fararbroddi í loftslagsmálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins loksins...

Loksins loksins gerir Bush forseti Bandaríkja Norður Ameríku eitthvað af viti!

Nú var kominn tími til að veita þessum langþjáða trúarleiðtoga viðurkenningu og það bandarískri bviðurkenningu. Þó svo að Kínverjar taki þessu illa þá er það vonandi aðeins í orði en ekki á borði. Hvað geta Kínverjar gert til að sporna gegn því hverja þjóðir heims vilja hafa að vinum og vera velkomnir til þeirra?

Kínverjar hafa því miður ekki góðan málstað að verja þar sem Dalai Lama á í hlut. Þessi heimsþekkti trúarleiðtogi hefur með hæversku sinni verið alla sína tíð sannfæringu sinni trúr. Hann hefur þurft að sætta sig við að vera landflótta eftir að Kínverjar lögðu Tíbet undir sig með hervaldi fyrir nær hálfri öld. Það var ójafn leikur gagnvart fámennri og fátækri þjóð sem varð að lúta afarkostum.

Auðvitað eiga Kínverjar sem allar þjóðir gott eitt skilið, - það sem vel er gert - gott að merkja. Þeir hafa verið valdir af gjörvallri heimsbyggðinni að halda næstu olympíuleika að ári og óskandi að það gangi allt eftir að undirbúningur sé vandaður og allt fari vel. En Kínverjar verða smám saman að átta sig á að þeir eru ekki í hlutverki Palla sem taldi sig vera einan í heiminum í barnasögunni. Þeir verða að sætta sig við að mest er undir friðsamri sambúð komið að vel takist að hafa góð og traust samskipti við granna sína, eyjaskeggja á Formósu ekki undanskilið sem og annarra.

Mosi 

 

 


mbl.is Bush fundaði með Dalai Lama þrátt fyrir hörð mótmæli kínverskra yfirvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðir punktar

Mosi vill taka undir þessar athugasemdir Ungra vinstri grænna. Auðvitað þarf að gera hreint fyrir sínum dyrum hvaða ástæður hafi orðið til þess að ný borgarstjórnarmeirihluti væri myndaður.

Þessi nýi meirihluti er jafnvel enn valtari en sá fyrri. Ekki þarf nema einn mann að Reykvíkingar sitja uppi með nýjan meirihluta.

Einhvern veginn telur Mosi að ástæðan fyrir þessum skyndilegu umskiptum fulltrúa Framsóknarflokksins einhver óánægja hans með Vilhjálm og sveitina sem stendur að baki honum. Kannski þetta sé liður sem millileikur í einhverju þrátefli að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík haldi Reykjavík í n.k. gíslingu. Ljóst er að framsóknarmenn eru ekki sáttir við úrslit síðustu þingkosninga því ekki mátti miklu muna að þeir þurrkuðust út. Betur hefði að svo hefði orðið, - að mati Mosa.

Framsóknarflokkurinn var barn síns tíma og átti margt gott til að leggja til þjóðmálanna. Hins vegar er þessi stjórnmálaflokkur orðinn að einu allsherjar spillingarbæli þar sem lofað er óspart til vinstri og hægri og helst allt svikið jafnóðum! Við skulum minnast þess að það var Framsóknarflokkurinn sem hefur lagt mesta áhersluna á stóriðjuna rétt eins og hér væri komið upp n.k. sovét. Við þurfum hvorki á Framsóknarflokk né sovétum að halda meir, þessum börnum síns tíma.

Óskandi er að við getum sagt: Framsóknarflokkur Íslands: Sic transit gloria in mundi!

Sem útleggja mætti frjálslega: Farið  hefur fley betra!

Mosi 


mbl.is Ung vinstri-græn segja að Björn Ingi og Dagur skuldi skýringar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð tíðindi

Allir þeir sem hafa lagt dálítið á sig að setja sig inn í þessi grafalvarlegu mál sem eru svo mikilsverð vegna framtíðna, vilja óska Al Gore fyrrum varaforseta til lukkumeð þessa mikilsverðu viðurkenningu.

Þó svo að ýmsir óvissuþættir eru varðandi áhrif okkar mannanna á umvherfið, þá skiptir mestu að við verðum að veita þessu betur gaum. Allt kæruleysi og sérhver léttúð gagnvart náttúrunni kemur okkur í koll.

Mosi 


mbl.is Al Gore og loftslagsnefnd SÞ hljóta friðarverðlaun Nóbels
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðkomin staðfesting

Segja má að þessi síðkomna staðfesting hafi komið á vondan. Tyrkir kalla sendiherra sinn heim og það er eins og þeir vilji ekki sætta sig við að sitthvað er ekki í lagi með stjórnarfar þeirra, hvorki fyrr né síðar. Ekki er unnt að spóla tímann til baka - það sem einu sinni hefur verið gert verður ekki breytt.

 

Auðvitað er best að viðurkenna mistök - og harma þau.  Og það er unnt að sýna iðrun og sætta sig við það að alvarleg mistök hafi verið gerð. Með því sýnir ekki aðeins einstaklingurinn heldur heil þjóð að viðkomandi er með réttu ráði.

Hitt er svo allt annað mál að unnt er að koma í veg fyrir ný mistök. Tyrkir eru með framtíð Kúrda í hendi sér og því miður vilja þeir fremja áþekk ofríkisverk gagnvart þeim nú rétt eins og Armenum fyrir nær öld síðan.

Það góða sem eg vil gera - geri eg ekki og það illa sem eg ekki vil gera - geri eg, - er haft eftir Páli postula. Mætti ekki hafa þessi viturlegu setningar í huga?

Vonandi átta tyrknesk yfirvöld sig á því að þau vaða reyk.

Mosi 

 


mbl.is Tyrkir kalla heim sendiherra sinn í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veikur meirihluti

Einkennilegt er að fulltrúi Framsóknarflokksins hafi borið fyrir sig veikindum að koma ekki á meirihlutafund í Höfða fyrr í dag.

Síðar fréttist að borgarfulltrúinn er ekki veiklulegri en svo að hann sprettur fram galvaskur með hinum andstæðingum $jálfstæðisflokksins og er að bralla með meirihlutasamstarf með þeim!

Nú er þessi borgarfulltrúi ótrúlega vel launaður. Vart er sú nefnd eða ráð sem sem viðkomandi hefur ekki mikil völd. Kunnugt er að ekki fyrir alls löngu átti hann þátt í að gerast hinn versti Þrándur í Götu stærsta útgerðarfyrirtækis landsins, HBGranda varðandi lóðamál í Örfirisey. Eins og það væri hlutverk borgarfulltrúa að fylgja eftir öllum gömlum kvöðum sem kunna að vera bundnar gömlum úthlutunum til hins ítrasta. Ónei borgarfulltrúar eiga að gæta hófsemi og fara vel með völd sín í þágu allra borgara og fyrirtækja.

Laun fulltrúans eru einnig öll eftir þessu en þau jafnast á við laun æðstu stjórnendur íslenska ríkisins! 

Nú má spyrja: Hvað hangir á spýtunni? Meiri völd? Hærri laun? Meiri sýndarmennska?

Mosa þykir þessi hraða atburðarrás með ólíkindum. Og það er líklegt að þetta sé n.k. biðleikur hjá valdaglaða framsóknarfulltrúanum. Meirihlutinn er jafnveikur ef ekki veikari en sá fyrri og sennilega verður þetta ekki fyrsta og síðasta upphlaup þessa umdeilda borgarfulltrúa.

Hvenær framsóknarmaðurinn slítur næst meirihlutasamstarfi er ekki gott að segja en ekki vildi Mosi eiga svo mikið sem fimmeyringsvirði undir svona manni komið.

Mosi

 


mbl.is Nýr meirihluti myndaður í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsins mesta klúður

Sú var tíðin þegar íslenskir fiskimenn hrundu árabátum sínum til sjávar að þeir skiptu aflanum bróðurlega milli sín í lok veiðiferðar. Hver áhafnarmeðlimur fékk sinn hlut og auk þess fékk eigandi báts og veiðarfæra sinn aflahlut auk þess sem formaður áhafnarinnar fékk sérstaka formannsþóknun sem aflauppbót.

Nú er allt í einu upprunnin kynslóð sem byrjar á því að skipta aflanum milli sín áður en ákveðið er að fara í róður og fer fjarri að bróðurlega né systurlega sé jafn skipt milli manna. Þetta minnir nokkuð á fyrstu skopmyndir frá upphafi 19. aldar þegar evrópskir valdamenn voru sýndir skipta gírugir Evrópu á milli sín. Hverjum dytti í hug að skera sér væna sneið af jólagæsinni jafnvel áður en gæsarunginn hefur skriðið úr egginu?

Skyldi það vera mjög flókið fyrir þessa nýmóðins Bakkabræður að skilja hvers vegna öll þjóðin gapir af undrun?

Mosa finnst það sjálfsagt mál að þeir sem koma að þessu landsins mesta klúðri segi alvarlega af sér, axli ábyrgð áður en þeir verði að athlægi meðal siðaðs fólks.

Góðar hugmyndir um útrás íslenskrar þekkingar og reynslu á jarðhita, hefur beðið mikið tjón vegna fljótfærni og heimsku þeirra sem málið varðar.

Nú er þetta eins og barnaspilinu sígilda: aftur á heimareit og byrja upp á nýtt!! En auðvitað á réttum forsendum!

Mosi 

 


mbl.is Björn Ingi: Kauprétturinn var mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafalvarlegt mál

Einkennilegt er ef Tyrkir verði ekki stoppaðir að ráðast á Kúrda sem búa í landamærahéröðum Tyrklands, Íraks og Íran. Þjóðarbrot eru auk þess í  austanverðu Sýrlandi og Armeníu. Þessi menningarþjóð er fyrir margra hluta sakir hin merkasta, hluti hennar meira að segja kristin.

Kúrdar voru lagðir af stað í herferð undir lok fyrra Flóastríðs og hugðust taka Saddam Hussein höndum. Fyrir allra ólukku greip George Bush hinn eldri til þess ráðs að stoppa þá með loftárásum rétt eins og Tyrkir nú. Að öllum líkindum hefði heimurinn verið laus við þennan voðalega Saddam og nú væri kúrdískt ríki í Írak en spurning hvernig það hefði gengið upp. Kannski ekki síður en aðstæður eru í dag þar sem tortryggni gagnvart vestrænum þjóðum er mjög mikil.

Óskandi er að viti verði komið fyrir Tyrki áður en stórátök hljótast af sem auðveldlega gætu haft skelfilegar afleiðingar í för með sér í þessum heimshluta. Nóg er komið af því góða!

Mosi 


mbl.is Tyrkir ráðast á meintar bækistöðvar kúrdískra uppreisnarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar freistingar

Þar sem miklar fjárhæðir eru í spilinu verða freistingar miklar. Því miður geta ekki allir setið á strák sínum þegar um miklar freistingar eru fyrir augunum.

Þeir sem starfa í innsta búri fyrirtækja vita gjörla um viðkvæmustu fjárhagsupplýsingar. Um getur verið að mikils hagnaðar eða taps sé að vænta og þá eru slíkar upplýsingar mikils virði. Innherjaviðskipti eru mjög góð vísbending fyrir almenna venjulega fjárfesta, þessa litlu karla sem eru með litla hluti, spariféð sitt. Ef þeir sjá, að innherji er að kaupa í fyrirtækinu sem hann starfar í, er ábyggilega óhætt að kaupa, en selja ef innherji selur stóran hlut. Sjómennirnir í gamla daga fylgdust gjörla með rottunum því þegar þær yfirgáfu skipið, þá var yfirleitt stutt í að skipið sykki.

Innherjasvik eru grafalvarlegir glæpir þar sem um gríðarlegar fjárhæðir er að tefla. Þegar kapphlaupið um ákveðið fyrirtæki var í hámarki, seldu eigendurnir meðan gengið var hátt. Þá snarlækkaði gengið og flestir sem keyptu stóðu uppi með verðlausa pappíra. Viss banki lánaði og fyrrum bankastjóri hans gegnir stóru hlutverki í nýju máli þar sem einnig er höndlað um gríðarlega hagsmuni.

Því miður eru fáar siðareglur til í viðskiptum af þessu tagi. Þær fáu eru sjáldan virtar og því er það þeir stóru sem sleppa við skellinn en flestir aðrir, þessir litlu fjárfestar sem freistast til að kaupa hluti, verða fyrir tapinu.

Mosi 


mbl.is Rannsókn á hugsanlegum innherjasvikum hjá OMX
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glundroðagerð Framsóknar og Sjálfstæðisflokks

Sú ákvörðun að fara út í þessar gríðarlegu framkvæmdir á sínum tíma, að fórna hálendi landsins eystra tekur á sig sífellt nýjar myndir. Greinilegt er að íslensk stjórnvöld gerðu ekkert - já akkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut til að undirbúa þessar framkvæmdir eins og nauðsynlegt væri á öllum sviðum.

Með óljósum kosningaloforðum var aflað nokkurra hundruða atkvæða á Austurlandi í þágu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Dýrasti kosningavíxill íhalds tveggja flokka!!

Í Morgunblaðinu í dag má ráða að allir neyðarsjóðir Landsvirkjunar vegna þessara umdeildu framkvæmda séu uppurnir og gjörsamlega tæmdir. Á að skuldsetja fyrirtækið enn meira en þegar orðið er? Hver verða þá lánskjörin? Ábyggilega ekki eins hagstæð og allir Landsvirkjunarherranir brostu út um eyrun. Svo er von á lokareikning frá Impregíló þessa umdeild ítalska fyrirtækis sem ekki hefur alltaf farið hefðbundnar leiðir í starfsemi sinni, hvorki hér né annars staðar í veröldinni. Þá verður sennilega annað hvort ríkissjóður að hlaupa undir bagga eða að taka ákvörðun um að afhenda þessu fyrirtæki Landsvirkjun upp í skuld. Það er raunhæfur möguleiki og þá eigum við von á að rafmagnsreikningar landsmanna verði á ítölsku. Ekki dregur það úr glundroðanum!

 

Dagsdaglega berast fréttir um mjög vafasama meðferð verkamanna, þeir virðast hafa verið ginntir hingað til lands með ýmsum gylliboðum og meðferðin á þeim minnir á fornar frásagnir á aðstöðu verkafólks áður en verkalýðsfélög tóku á þessum málum.

Engar eða mjög ófullkomnar reglur eru til um þessar starfsmannaleigur. Þetta orð var ekki til í íslenskri tungu þangað til fyrir örfáum árum. Skattgreiðslur til þess opinbera skila sér ekki og launaseðlar eru meira og minna í ósamræmi við raunveruleg laun. Eru skipulögð mannréttindabrot framin á þessu verkafólki? Svo virðist að svo sé og bendir ýmislegt til að mjög illa sé farið með þetta fólk sem hættir lífi sínu við mjög erfið og hættuleg störf. Svo þegar á að gera upp við það, þá er það fyllt af brennivíni til að hafa það gott, gamalkunnugt bragð kúgarans. Ríkið tapar offjár til Imprégíló í mikilvægu dómsmáli vegna handvammar við lagasetningu.

Þvílíkur glundroði! 

Mosi hvetur verkalýðsfélögin að senda Landsvirkjun og ríkissjóði vænan reikning fyrir þá vinnu sem verkalýðafélögin unnu við þessi mál sem alfarið verður að skrifa á tossalista þessara opinberu aðila.

Í Reykjavík er einnig hver höndin upp á móti hverri annarri. Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins fundar grafalvarlegur yfir nýjustu tíðindum úr Orkuveitu Reykjavíkur. Á þetta opinbera fyrirtæki að verða ofurseld nýríkum gróðapungum sem vilja skara enn betur að sinni köku? 

Enn meiri glundroði!

Sú var tíðin að Sjálfstæðisflokkurinn auglýsti í hverjum einustu sveitarstjórnarkosningum og jafnvel þingkosningum að velja Sjálfstæðisflokkinn væri vörn gegn glundroða. Þannig voru borðar strengdir þvert á Laugaveginn og Bankastrætið með þeirri ábendingu að andstæðingum Sjálfstæðisflokksins væri ekki treystandi, hvorki fyrir fjármálum né stjórn Reykjavíkurborgar. Því ættu allir kjósendur sem sýndu af sér ábyrgðartilfinningu að kjósa X-D.

Hvað nú Sjálfstæðismenn? Eruð þið múlbundnir í fjósi Framsóknar? Kannski að X-D standi núna fyrir depurð og drottnun Framsóknar? Alla vega er þessi skelfingarsvipur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins lýsandi að þar er hópur stjórnmálamanna sem er í verulega miklum vanda sem þeir ráða ekki almennilega fram úr!

Því miður erum við Íslendingar enn í 1. bekk stjórnmálanna. Í þeim heimi bíða margar freistingar sérstaklega eru þeir sérstaklega í hættu sem ekki þekkja sér nein mörk og eiga sér engar siðareglur. Þar er um að gera að ná sér í sem stærstu lúkuna og skammtana. Það gerir ekkert til þó fjóldinn nær sér lítið sem ekkert sér í hönd. Hann borgar hvort sem er brúsann! En það er önnur saga.

Mosi


mbl.is „Mönnum hreinlega ofbýður ósannindin"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband