Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Stalín er ekki hér!

Ekki er ein báran stök. Þessir þingmenn eru tilbúnir að ljá máls á rnn einni álbræðslu. Skyldu þeir vera með einhverja álfursta í sigtinu sem þeir vilja fá þóknun fyrir, n.k. provision eins og það nefnist og er víða tíðkað?

Álbræðslur eru versti kosturinn að byggja upp atvinnulíf á Íslandi. Þær verða reistar og reknar á forsendum auðhringa en ekki okkar. Þær byggjast á mengunarkvóta sem þessir þingmenn eru tilbúnir að afhenda án greiðslu. Mengunarkvóti er eiginlega uppurinn og því furðulegt þetta uppátæki.

Uppbygging atvinnulífs með álbræðslum minnir mjög á tíma þann í Rússlandi sem kenndur hefur verið við Stalín. Andstæðingar eru meðhöndlaðir nánast sem „persona non grada“, þ.e. njóta ekki borgaralegra réttinda sem aðrir.

Álhugsjónir eru blindgata. Þær byggjast á óafturkvæmum fórnum á náttúru landsins og því að slegið sé á kröfur um verndun náttúrunnar.

Til upplýsingar þessara þingmanna þá má benda á vandræðalega lausn starfsleyfis sem álbræðslan á Reyðarfirði nýtur. Þar var undirlægjuhátturinn í allri sinni dýrð!

Góðar stundir en án álbræðslna.


mbl.is Vilja efla atvinnulíf á Norðurlandi vestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handa- bandamenn og af Bandamanna sögu hinni nýju

Líklega er Gylfi Arnbjörnsson núverandi forseti ASÍ einn dýrmætasti hvalreki sem rekið hefur á fjörur atvinnurekendavaldsins lengi. Nú eru þessir tveir fyrrum andstæðingar allt í einu orðnir n.k. bandamenn. Alla vega eru þeir handabandamenn ef marka má meðfylgjandi mynd.

Spurning hvort ekki sé þörf á að færð verði í letur „Bandamanna saga hin nýja“?

Afburða rithöfundar á borð við Einar Kárason eða Yrsu Sigurðardóttur ættu ekki að eiga í vandræðum með það verkefni. 

Hin gamla Bandamanna saga  segir frá undirferlum og mútum þar sem fé er borið í dómara á Þingvöllum. Þar er sögð mikil saga af miður góðum eiginleikum manna sem vilja hafa öll ráð í hendi sér.

Mynd þessi af þeim Gylfa og Vilhjálmi verðu ábyggilega söguleg. Þarna eru þeir að innsigla „hetjudáðina“ miklu sem fólgin er í þeim kafla sögunnar þegar þeir saman lögðu ráðin að enn ein atlagan gegn ríkisstjórninni var gerð. En ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms er eins og kletturinn í hafinu. Þó ein og ein bára skvettist yfir Stjórnarráðið öðru hverju fer fjarri að á þeim bæ gefist menn upp á svona smáræðis gutli. Ríkisstjórnin á sér sennilega fleiri líf en níu líf kattarins. Það hefur jú tekist furðulega að smala köttum þó margir virðast hafa eiginn vilja og sumir reynst nokkuð villtir.

Góðar stundir.


mbl.is „Það er allt stopp“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þátttaka okkar í Evrópusambandinu

Auðvitað eiga Íslendingar heima í Evrópusambandinu. Við erum tengd ríkjum Evrópu viðskiptalega, menningarlega og sögulega.

Aðild okkar á að vera vel ígrundaða á forsendum okkar þar sem atvinnuhættir og menning skiptir máli. Við eigum að leggja fram skýr skilyrði fyrir inngöngu okkar sem byggjast á sérstöðu okkar sem fámennrar þjóðar sem vart er fjölmennari en íbúar meðalstórrar borgar. Þar reynir á atvinnuvegi okkar og sérstöðu sem gamallrar menningarþjóðar.

Ljóst er, að innan Evrópusambandinsins er kappkostað að uppræta hvers konar spillingu og koma í veg fyrir hana. Hér á Íslandi hefur spilling skotið víða upp kollinum. Við þekkjum hvernig helmingaskiptastjórnir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks einkenndist oft á einkennilegum ólýðræðislegum ákvörðunum. Kvótakerfið og einkavæðing bankanna var meira og minna gjörspillt þar sem sumir náðu að maka krókinn ótæpilega. Stóriðjan er sérstaklega grunsamleg þar sem um tíma fóru ráðamenn víða um lönd eins og Finnur Ingólfsson sem markaðsetti aðgengi að íslenskri náttúru þar sem á Íslandi stæði álfurstum til boða „Lowest energy price“ í öllum heiminum.

Innan Evrópusambandsins ber allri mengandi starfsemi að útvega og kaupa mengunarkvótu. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ekki gert minnstu tilraun að koma slíku kerfi á. Mengunin er ókeypis sem bætist við lágt orkuverð.

Víða um heim eru greiddar fúlgur til þeirra stjórnmálamanna sem sýna stórfyrirtækjum einstakan skilning á hagsmunum þeirra. Hér á Íslandi tala þessir aðilar um að „koma hjólum atvinnulífsins af stað“ og eiga þá fyrst og fremst við fleiri álbræðslur.

Ein ástæða til aðildar að Evrópusambandinu er að með því erum við að gera hagsmunapot Kínverja nánast ómögulega. Fyrir þeim er mikils vert að ná ítökum og helst völdum í landi sem Íslandi. Fyrir 60 árum innlimuðu þeir Tíbet og fóru tiltölulega létt með það. Ísland gæti verið jafnvel enn auðveldari bráð enda hafa ýmsir sýnt hagsmunum Kína sérstakan skilning.

Ljóst er að fulltrúar gömlu spillingaraðilanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilja ekki að Ísland verði hluti af Evrópusambandinu. Þar með er frelsi þeirra „truflað“. En hvað eigum við að segja um Jón Bjarnason? Hefur þessi góði drengur látið véla sig eða er hann í sakleysi sínu sem afsprengi íslenskrar sveitarómantíkur að reyna að koma í veg fyrir þessa þróun?

Evrópusambandið hefur mjög margar góðar hliðar. Það tryggir okkur betra lýðræði og mannréttindi hvað sem sérvitringarnir í stjórnarandstöðunni segja. Þar er byggt á langri reynslu, settar skynsamar reglur um nánast hvað sem er sem tengist nútíma lífi. Ef Ísland væri í Evrópusambandinu væri t.d. þessi uppákoma með ríkisstyrktan sóðaskap eins og kom fram í fréttum á dögunum þar sem kýr á bæ einum óðu í skít í allt of litlu fjósi. Þar hafði greinilega bóndinn sýnt af sér mikinn glannaskap og reist sér hurarás um öxl.

Þessi tillaga Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er dæmi um þingmál sem þeir vilja sjálfir hafa á sínu forræði og líta á sem sitt einkamál hvort Ísland skuli vera í ESE eða styðja við stríðsátök sem okkur kemur ekki við.

Við erum enn nokkuð fjarri því að vera á leiðinni í ESE. Fyrst þurfum við að fullnægja skilyrðum Maastrickt sáttmálans og sem stendur eigum við töluvert í land.

Góðar stundir.


mbl.is Ómögulegt að kjósa með málið opið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi verður dómurinn ekki banabiti bakarísins

Mál þetta á sér nokkuð langan aðdraganda. Árið 1982 er undirritaður leigusamningur bakarísins við þáverandi húseiganda. Í bankahruninu missir sá eigandi húseignina og Íslandsbanki yfirtekur og selur Mótamönnum sem aftur afsalar B13 ehf eignina.

Þegar B13 ehf er slegið upp þá kemur sitthvað forvitnilegt í ljós.

Frábært tækifæri segir í fyrirsögn að frétt Í Morgunblaðinu frá 2005 um nokkra íslenska námsmenn sem lögðu á sig þá fyrirhöfn að fara alla leið austur til Kína, kannski til að læra brask og koma ár sinni betur fyrir borð og sér áfram. Slóðin er: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1018302/

Á heimasíðu ríkisskattstjóra kemur í ljós að sá sem er að baki forretningu þessari heitir Guðmundur Már Ástþórsson og er fyrirtækið í Þúfuseli 2 í Reykjavík. Svo er að skilja að Guðmundur hafi skilað skilvíslega ársreikningum sem ber að lofa en töluverður misbrestur er á slíku.

Þegar ungir fjárfestar taka við eignum vilja þeir hámarka gróðann og leggja sig fram að gera allt til að hafa sem mestan hagnað. Það er eðlilegt í alla staði en viðskiptavinir Berhöftsbakarís sem er sennilega elsta starfandi bakarí landsins hafa lengi keypt brauð og bakkelsi. Var bakaríið lengi neðst í „Bakarabrekkunni“ gegnt Stjórnarráðinu. Brekkan var síðar nefnd Bankastræti eftir að Landsbankanum var komið á fót 1886. Var bankinn til húsa í steinhúsi næst ofan við Stjórnarráðshúsið. Sú bygging var reist 1882, árið eftir að Alþingishúsið var reist, einnig úr tilhöggnu grjóti. Var þar prentsmiðja í eigu Sigmundar Guðmundssonar en síðar Sigurðar Kristjánssonar sem var mjög þekktur fyrir bóksölu, einkum varð útgáfa hans á Íslendingasögunum fyrir alþýðu einna þekktust. En 1886 var Landsbanknum komið á fót og var í húsinu fram undir aldamótiun uns bankahúsið var byggt á horni Austurstrætis og Pósthússtrætis. Bankinn brann 1915 með nánast öllu sem í honum var.

Gamla Bernhöftsbakarí var mjög lengi í sama húsi og nú er veitingastaðurinn Lækjarbrekka. Frá því um miðja 20. öldina var bakaríið flutt og var húsið lengi í mikillri vanhirðu. Lengi stóð „dauðadómur“ þess yfir en eftir hugmyndum stóð til að rífa hvert einasta hús á þessum slóðum og byggja gríðarlega stóra steinsteypubyggingu fyrir Stjórnarráðið. Voru þær hugmyndir mjög umdeildar ásamt því að til stóð að framlengja Grettisgötuna til vesturs, rífa gamla Hegningarhúsið og fleiri hús. Þá stóð lengi til að framlengja Suðurgötu til norðurs gegnum Grjótaþorpið sem er enn í dag eins og lítið sýnishorn af gömlu Reykjavík. Torfusamtökin urðu til fyrir um 40 árum og gjörbreyttu þessum hugmyndum.

Þar sem Bernhöftsbakarí er núna, Bergstaðastræti 13, stóð frá 1883 steinhús sem nefnt var Brenna. Það var reist af bræðrunum Jónasi og Magnúsi Guðbrandssonum og bjó Jónas lengi þar ásamt fjölskyldu sinni. Kona hans hét Guðríður og áttu þau tvö börn: 1. Ragnheiði sem giftist Árna J'onssyni frá Múla, föður þeirra Jóns Múla útvarpsþuls m.m. og Jónasar þingmanns og rithöfundar. 2. Helgi sem kenndi sig við húsið og var mikill íþróttamaður og ferðagarpur, lengi í forystusveit Ferðafélags Íslands sem er stofnað 1927. Sagt er að Helgi hafi verið trúlofaður lengst allra Reykvíkinga eða í hálfa öld.

Brenna var rifin um 1960 en núverandi steinhús byggt þar 1971. Sennilegt er að bakaríið hafi verið þarna í hagstæðu leiguhúsnæði. Það veitti viðskiptavinum sínum góða þjónustu á sanngjörnu verði.

Sögulegan fróðleik var m.a. sóttur í rit Páls Líndals og fleiri: Reykjavík: sögustaður við Sund. Mjög traust og gott rit um sögu Reykjavíkur.

Góðar stundir.


mbl.is Bernhöftsbakarí borið út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ræðugleðin mikla

Ein megineinkenni þingstarfa eru allt að því endalaus ræðuhöld um nánast ekkert neitt. Sum mál eru vægast sagt kjöftuð í hel, oft með sífelldum endurtekningum. Spurning er hvort sumir þingmenn séu oft með gamlar ræður sem „endurtekið efni“ eins og það nefnist í Ríkisútvarpinu. Málþóf er einn meginlöstur í þinginu og ekki neinum til framdráttar.

Getur verið að þessi störf í þinginu séu svo leiðinleg að þingmenn kappkosti að gera starfið enn leiðinlegra?

Ein stutt ræða, vel upp byggð og vönduð er áhrifaríkari en þúsundir langlokna sem því miður virðist vera tíska nútímans. Svo er verkstjórninni kennt um, rétt eins og lati og klaufski ræðarinn sem kennir árinni um mistök sín og afglöp.

Má benda á ræður Þráins Bertelssonar. Hann kemur sárasjaldan í ræðupúlt þingsins en ræður hans eru ískaldar af húmor og „skemmtilegheitum“, kryddi sem er vandmeðfarið en þegar vel er vandað þá hittir ábendingin beint í mark!

Pétur Blöndal hefur oftast verið málefnalegri í þinginu. Stundum leggur hann fram mjög skynsamleg mál en því miður oft of flókin fyrir venjulegt fólk að skilja. Þannig voru framlagðar tillögur hans á lagabreytingum um hlutafélög. Pétur vildi auka „gegnsæi“ í stjórn hlutafélaga og tryggja hag litlu hluthafanna sem í hruninu var fyrir borð borinn. Þar hefði verið eiginlega nóg að breyta 6. gr. og setja þar inn ákvæði um takmörkun atkvæðaréttar á hluthafafundum. Setja tvö mjög einföld skilyrði: að hlutur beri atkvæðisrétt hafi hlutafé raunverulega verið greitt inn í félagið. Og að hlutafé hafi ekki verið veðsett. Óeðlilegt er að uppivöðslusamir braskarar bjóði öðrum hnefaréttinn með því að koma með himinhátt hlutafé sem aldrei hefur verið greitt til félagsins. Á þetta reyndi varðandi 50 milljarða hlut þeirra Bakkabræðra og ekki ein einasta króna var greidd inn í félagið! Nú hefur verið ákært í því máli og dóms væntanlega að vænta síðar í vetur.

Hugmyndir um nýtt fyrirkomulag sem lúta að því að þingmál séu fyrst lögð fyrir þingnefnd og það sé þingnefndin sem verður formlegur aðili að framlagninu lagafrumvarpa er allra athyglisverð. Með því fyrirkomulagi er verið að draga úr þessu voðalega „stríðsástandi“ sem virðist landlægt í þinginu. Ef þingnefndin kemst að samkomulagi um lagafrumvarp, þá er verið að „slípa“ orðalag og innihald betur að sjónarmiðum stjórnarandstöðu sem leggur oft mikla áherslu á gagnrýni og koma í veg fyrir að lagafrumvarp fari gegnum þingið. Umræður verða eðlilega meiri í þingnefndum sem þurfa þá að hafa betri aðgang að góðu starfsliði og sérfræðingum.

Þessi hugmynd er allra gjalda verð sem vonandi verður til að bæta það mikilvæga starf sem fram fer í þinginu.

Góðar stundir!


mbl.is Samþykkt að þingfundur geti staðið lengur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brattir nýtingarmenn

Í Evrópu ríkir mikil efnahagslægð. Í Bandaríkjunum reyndar það sama þar sem hergagnaiðnaðurinn heldur efnahagslífinu uppi með geigvænlegri sóun orku og hráefna.

Við Íslendingar höfum virkjað gríðarlega mikið. Orkufyrirtækin hafa spennt bogann um of og tekjur af orkusölu til stóriðjunnar eru í járnum að standi undir afborgunum og vöxtum af framkvæmdalánum.

Í Bandaríkjunum er hafin umræða um endurnýtingu með hliðsjón af góðri reynslu í Evrópu. Þar eru menn byrjaðir að halda til haga einnota drykkjarumbúðum úr áli. Ljóst er að ef Bandaríkjamenn halda áfram á þessari braut að endurnýta ál þá bætir það nýtni á orku en talið er að einungis 5% raforku þurfi til að endurbræða ál mðað við vinnslu úr Al2O3.

Þá er spurning hvenær upp rennur hjá Bandaríkjunum að þessi stefna með hergagnaiðnaðinn er mjög slæm blindgata sem menn verða að finna leið út úr. Þegar svo er komið, þá verður álvinnsla fjarri markaði smám saman úr sögunni.

Brattir nýtingarmenn virðast vera slegnir blindu að álmarkaðurinn sé endalaus og að hér verði unnt að framleiða sífellt meira rafmagn fyrir áliðnaðinn. Að flytja hráefni hingað er mikil orkusóun þannig að grunur liggur að eitthvað liggi að baki. Er mögulegt að þingmenn láti múta sér að fylgja þessari braut?

Í öllum löndum Efnahagssambandsins verður sá aðili sem hyggur á mengandi starfsemi að útvega sér mengunarkvóta, oft með miklum tilkostnaði. Hér hafa stóriðjumenn fengið slíkt gefins. Framleiðsla á áli hér á landi er nálægt 1 milljón tonna af áli. Miðað við þumalputtaregluna fellur til mengun sem nemur um tvöföldu því magni eða jafngildi 2 milljóna tonna af CO2. Skóglendi sem er um 25 ára eða eldra, getur bundið um það bil 5-7 tonn á hektara. Það þarf því um 300.000-400.000 hektara af skógi til að binda þessi 2 milljónir tonna af CO2 og hliðstæðum eiturefnum. Nú er um 1% landsins klætt skógi, aðallega lágvöxnu birkikjarri sem bindur kannski 2-4 tonn á hektara. Nýskógar á Íslandi eru einungis um 40.000 hektarar sem hafa með mikillri bjartsýni verið ræktaðir í meira en 100 ár. Með öðrum orðum geta skógarnir á Íslandi bundið rétt tæplega 10% af eiturgufunum úr þessum 3 álverum sem nú menga íslenska náttúru.

Að vísu fer töluverð binding fram í sjónum gegnum lífverur sjávarins.

Náttúran er viðkvæm og það er því nauðsynlegt að allir landsmenn fari varlega. Þessi gríðarlegi áhugi fyrir enn meiri álveradýrkun er varhugaverður enda sitthvað sem bendir til að brátt sjái fyrir endann á sívaxandi þörf fyrir nýjum álverum. Endurnýting mun að miklu leyti draga úr þörfinni og þegar hernaðarbrjálæðið lyppastsaman verður enn minni þörf.

Góðar stundir en án fleiri álbræðslna!


mbl.is 11 breytingartillögur við rammann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekið of hratt miðað við aðstæður?

Oft gleymist að oft er lagt af stað í óvissuna á ökutæki sem er e.t.v illa búið. Og oft ætlar fólk sér of nauman tíma til fararinnar, miða kannski við betri aðstæður. Og þá er ekið stundum of hratt.

Margsinnis hefi eg reynt það t.d. á leiðnni milli Borgarfjarðar og Mosfellsbæjar. Stundum getur orðið hvasst á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Stundum mikil hálka. Á þessum köflum reyna menn oft glannalegan framúrakstur við erfiðar og vægast sagt umdeildar aðstæður. Þessir ökumenn stofna lífi sínu og annarra vegfarenda í lífshættu.

Það er alltaf dapurlegt  þegar óhöpp og slys verða. Og sérstaklega þegar slíkt er óþarfi.


mbl.is Bílvelta á Biskupshálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðuhljótt fer af málflutningi

Ljóst er að spilling leynist víða. Utanríkisráðherra Ísraels sefgir af sér vegna ákæru fyrir fjársvik. Skyldu fleiri hafa óhreint í pokahorninu?

Ein hliðin í pólitíkinni í Ísrael er sú dapurlega staðreynd, að hernaðaraðgerðin á Gaza var í tengslum við komandi kosningar í jánúar. Fróðlegt væri að fá fleiri fréttir hvernig stjórnmálaflokkarnir beina sjónarmiðum sínum.

Núverandi stjórnarflokkar styðjast að verulegu leyti við innflytjendur s.l. 2ja áratuga frá Austur Evrópu. Þessir nýbúar eru allt öðru vísi hugsandi en þeir sem vilja velja Verkamannaflokkinn sem talinn er vera mjög hófsamur  ogt vill sýna Palestínumönnum skilning og umburðarlyndi. En það eru harðlínuöflin sem styðja sig við kjósendur sem ekki eiga sér langa lýðræðishefð.

Fyrrum íbúar í kommúnistaríkjunum þekkja fyrst og fremst „sterka manninn“. Þeir vilja sjá aðgerðir og að fá vilyrði fyrir byggingasvæðum og lóðum. Fyrir þessa aðila skiptir engu þó landið tilheyri öðrum. Aðalatriðið að fá land og byggingalóð þó hún sé eign annars aðila.

Yfirgangur er óskiljanlegur.


mbl.is Lieberman segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg afstaða

Lengi vel var landsvæði það sem nú er næstfjölmennasta sveitarfélag landsins, Kópavogur, hluti af Seljarnarneshreppi hinum forna. Sveitarfélagið klofnaði úr Seltjarnarneshreppi og varð sjálfstætt sveitarfélag, Kópavogshreppur, um áramótin 1947-48. Þangað flutti fjöldi fólks, einkum láglaunafólk og iðnaðarmenn sem ekki fengu áheyrn hjá „íhaldinu“ í Reykjavík að fá úthlutun lóða. Það var nefnilega svo, að mjög erfitt var að fá lóð í Reykjavík og fór orð á því að lóðir fengju einungis þeir sem studdu Sjálfstæðisflokkinn að málum.

Þegar íbúum fjölgaði í Kópavogi var ígrundað í hreppsnefndinni hvaða leið væti vænlegust til þess að útvega íbúum sem fyrst þjónustu eins og vatnsveitu, rafmagn, skóla og þar fram eftir götunum. Voru 3 leiðir sem komu til greina:

1. að stofna sjálfstætt sveitarfélag og fá kaupstaðarréttindi. Sú leið var talin langdýrust.

2. að sameinast aftur Seltjarnaneshrepp sem síðar öðlaðist kaupstaðarréttindi 1974. Sú leið var talin lökust enda hreppsstjórnarmenn vart færir að veita sínum íbúum þjónustu. Má geta þess að vatnsveita og strætisvagnaþjónusta var veitt með samningum við Reykjavíkurbæ sem var bær til 1957.

3. leiðin sem nær allir hreppsnefndarmenn Kópavogshrepps töldu besta væri að sameinast Reykjavík. Varð uppi miklar umræður í bæjarstjórn Reykjavíkur og var hafnað að verða við þessari ósk.

Úr varð að Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir á Alþingi að Kópavogshreppur fengi kaupstaðarrréttindi og varð það úr að þessi langdýrasta leið var valin 1955. Sagt er að þeim hafi ekki litist á að sameinast Kópavogi enda væri meirihluti Sjálfstæðismanna þá í hættu!!

Lengi vel mátti sjá ómalbikaðar götur í Kópavogi og rafmagnsleiðslur á tréstaurum um allan bæ, rétt eins og í litlum sveitaþorpum úti á landi.

Nú 2012 eða 57 árum eftir kaupstaðarréttindi Kópavogs þá kemur sú ósk um að sameinast Garðabæ sem fékk kaupsstaðarrréttindi 1976. Þessu er hafnað og sjálfsagt með áþekkum rökum og 1954/55. Í Garðabæ býr mikið af hátekjufólki sem gefur miklar tekjur í formi útsvars. Samfélagskostnaður er með því lægsta miðað við íbúa, tiltölulega fáir skólar og önnur dýr samfélagsþjónusta. Skuldir eru því mjög lágar en nú stendur til sameining við Álftanes sem breytir þessu töluvert. Það er því ljóst að þeir eru varkárnir í Garðabænum en í Kópavogi eru skuldir pr. íbúa mun hærri, tekjur af útsvari tiltölulega lægri en útgjöld samfélagsþjónustu meiri. Þá er skuldastaða Kópavogs mun erfiðari en þeirra í Garðabænum.

Þessi hugmynd um sameiningu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er mjög raunhæf. Sennilega verður Mosfellsbær sameinaður Reykjavík enda eins og „eyja“ innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Og ekki er ólíklegt að Hafnarfjörður, Garðabær og Kópavogur sameinist enda sitthvað sem mælir með slíku.

Góðar stundir.


mbl.is Garðbæingar höfnuðu Kópavogsbúum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sofandi kapteinar

Vont er að sofna í vinnunni. Sérstaklega er ámælisvert þegar kapteinninn, yfirmaður skips sofnar og allt fer í vitleysu.

Svo virðist að þetta sé mun algengara en vitað hefur verið um fram að þessu. Versta dæmið er þegar kapteinninn á „Þjóðarskútunni“ steinsvaf í brúnni vikum og jafnvel mánuðum saman. Réttarhöldin gegn Geir Haarde fyrir Landsdómi voru mjög upplýsandi um hvað gerðist en fram hafði komið í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið að ýmislegt var mjög ámælisvert.

Óskandi verða gerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að kapteinar séu almennt sofandi í vinnunni. Þeir bera mikla ábyrgð, bæði á áhöfn, skipi og farmi.

Því miður eru Íslendingar ósköp duglausir að láta menn bera ábyrgð þrátt fyrir að þeir beri meira úr býtum en aðrir, m.a. vegna aukinnar ábyrgðar. Og svo reynist þessi „ábyrgð“ hvorki fugl né fiskur.

Góðar stundir.


mbl.is Sofnaði við stjórnvölinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband