Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Loksins axlar einhver ábyrgð!

Tryggvi Jónsson hefur sýnt gott fordæmi með því að axla ábyrgð. Auðvitað gengur ekki að sá sem hefur verið lykilmaður í mjög miklu viðskiptaveldi, sé ráðinn í mikilvægt og viðkvæmt starf í banka.

Hagsmunaárekstrar geta komið upp og ef minnsti vafi er á, ber mönnum að láta af þeim starfa.

Mættu fleiri meðal æðstu ráðmanna þjóðarinnar taka sér Tryggva sér til fyrirmyndar. Ríkisstjórnin hefur t.d. sýnt af sér ótrúlegt ráðaleysi og vandræðagang sérstaklega gagnvart Bretum. Ríkisstjórnin hefur staðið sig mjög illa við að upplýsa landsmenn um stöðu mála og jafnvel leynt mikilvægum upplýsingum. Hún er á góðri leið að grafa sjálf undan sjálfri sér og á því ekkert gott skilið. Vandinn verður stöðugt meiri eftir því sem tíminn líður. Að sumu leyti má sjá hliðstæður við Kerenski stjórnina rússnesku en þá var stutt í kollsteypuna miklu og þá ógnaröld sem byltingin kallaði á í rússnesku samfélagi.

Við verðum að forðast slíkt!

Hver verður næstur til að axla ábyrgð?

Mosi


mbl.is Tryggvi hættur í Landsbankanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líkklæðin hafa enga vasa

Glórulaus græðgi

Finnur verður seint vændur fyrir óheiðarleika af sínum vinum. En hvenær er komið nóg? Græðgin gleypir sálina og spillir henni. Þegar þorri þjóðarinnar tapar, raka stóreignamenn gróða, gríðarlegum gróða.

Hvað þessi dauðlegi maður hyggst gera við sinn mikla gróða er á huldu. Gunnar Dal heimsekingur kennir að þegar fjáraflamenn hafa sankað að sér 100 milljónum þá verði það auðurinn sem stýri lífi þeirra en ekki þeir sjálfir.

Einu sinni fyrir langt löngu veðjuðu tveir landeigendur í gömlu ensku nýlendunum í Norður Ameríku um það hvort þræll sem gefið væri frelsi kæmi aftur. Þeir sögðu við þann ófrjálsa: „Þú ert frjáls frá þessari stundu og mátt eignast eins mikið land og þú getur farið um á einum degi. Farðu núna af stað“. Þrællinn fyrrverandi kom aldrei aftur enda vildi hann gjarnan þekkjast gott boð. Hann hljóp léttilega allan liðlangan daginn, hljóp æ lengra til að ná í sem mest landsvæði. Svo kom að hann féll dauður niður af mæði og ofreynslu. Hjartað hafði gefist upp. Hann naut þess ekki að verða landeigandi gríðarlegs flæmis.

Amma Mosa sagði einu sinni: „Vertu trúr yfir litlu, þá verður þér trúað fyrir meiru - seinna“.

Því miður eru gömlu góðu gildin á hverfanda hveli (upprunalegt var þetta orðtak: á hverfanda hjóli, Grettis saga).

Græðgin var ein af „dauðasyndunum sjö“ og eftir gömlu kenningum kaþólsku kirkjunnar tryggðu menn sér vist í því neðra og að falla í þann heita pytt.

Þýskt máltæki segir: „Das letzte Hemd hat keine Taschen“ sem útleggst: Líkklæðin hafa enga vasa. Hvers vegna þyrfti að hafa vasa á líkklæðunum þegar sá dauði getur ekki haft neitt gagn af veraldlegum gæðum sínum þegar ormarnir og pöddurnar ráðast að hræinu.

Mosi


mbl.is Milljarðahagnaður á viðskiptum með Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælin á Austurvelli

Síðasta laugardag voru mótmælin á Austuvelli mjög sérstök: þögn í 17 mínútur og Hörður Torfason skipuleggjandi mótmælanna las ártölin frá og með 1991 og upp úr með mínútu millibili. Þá hringdi vekjaraklukka á tröppu þinghússins. Hörður kallaði hátt og snjallt: „Þjóðin er vöknuð!“

Þetta var áhrifamikið.

Við hjónin höfðum haldið á sitt hvoru spjaldinu. Á þeim stóð: „Það á að segja satt“ og „Öll spilin á borðið“. Eftir fundinn gengum við um bæinn. Ákváðum að skilja spjöldin eftir sitt hvoru megin við aðalinnganginn að Stjórnarráðshúsinu. Tókum meðfylgjandi mynd til minningar. Gengum síðan upp Bakarastíg eða öllu heldur Bankastræti og áfram Laugaveg og um Skólavörðuholtið. Neðarlega á Skólavörðustíg var Lúðrasveitin Svanur að spila. Þá gengum við niður að Stjórnarráðshúsinu: spjöldin höfðu verið fjarlægð!

Nú má reikna með að á nýju ári verði mótmælin kröftugri. Þá bætist í hópinn margir þeir sem núna eru að vinna síðustu vikurnar sínar áður en uppsögn starfa tekur gildi. Ríkisstjórnin er reikul og ráðlítil enda vandinn gríðarlegur. Braskaranir sem ríkisstjórnin er fulltrúi fyrir vænta þess að með þrásetunni verði þeim fremur hlíft og þá geta þeir reitt e-ð í kosningasjóðina í næstu kosningum. Spillingin heldur áfram í stað þess að hún verði upprætt í samfélaginu eins og þörf væri á. Kannski  ætti að fá prest til að halda ræðu þar sem hann biður guð að blessa ríkisstjórnina eins og reyndar allir prestar landsins hafa verið að stunda baki brotnu. Kannski Örn Bárður Jónsson sóknarprestur væri heppilegur enda átti hann óbeint þátt í einhverri einkennilegustu deilu sem komið hefur upp við Davíð seðlabankastjóra. Örn ritaði frábæra grínsögu: „Íslensk fjallasala“ og birtist í Lesbók Morgunblaðsins. Með þessari sögu varð Örn þjóðkunnur um allt Ísland en þurfti að gjalda fyrir því þáverandi forsætisráðherra beitti sér fyrir því að hrekja Örn úr starfi sem hann gegndi þá. Góð saga getur því verið dýr. Stjórnmálamenn þola ekki alltaf gagnrýni jafnvel þó hún sé sett fram sem grín. Gott hefði verið að þjóðin hefði þá vaknað af blundi eftir að hafa Davíð sem forsætisráðherra þá nær áratug. Þá hefði verið mikil líkindi til að forða þjóðinni frá þeirri fjárhagslegu kollsteypu sem við höfum lent í.

Fyrir um aldafjórðung var fjármálamaður nokkur í Reykjavík fundinn sekur um fjársvik. Fyrirtæki hans , „Ávöxtun“ var á svipuðum miðum og íslenskir braskarar og útrásarlýður hefur verið að stunda á undanförnum árum. Ávöxtunarmaðurinn sat inni í tukthúsi um nokkra hríð og tók út sína refsingu. En refirnir ganga lausir og hafa haft þjóðina að fíflum að undanförnu. Þeir hafa með fagurgala og falsi sölsað undir sig megineignir þjóðarinnar og við skattborgaranir verðum að gangast í ábyrgð fyrir þá bví þeir hafa komið að því er virðist vera öllum fjármunum undan í skjóli myrkurs - og ríkisstjórnarinnar.

Það er því þess vegna sem okkur Íslendingum sem teljum að á rétti okkar hefur verið brotið sé mjög mikilvægt að halda áfram mótmælum með nýjum og harðorðari skiltum. Af hverju tekur rúman klukkutíma að samþykkja nýjar álögur á landsmenn en það virðist ætla að taka heilu mánuðina að afnema ranglæti sjálftökuliðsins í Stjórnarráðinu.

Skundum á Austurvöll eftirleiðis á hverjum laugardegi og krefjumst afsagnar fulltrúa spillingarinnar og þar með brottför þeirra úr Stjórnarráðshúsinu!

Mosi

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gervigóðærið

Í gamla testamenti Biflíunnar er sagt frá góðærunum og hallærunum. Þar er einnig greint frá plágunum tíu. Fyrsta plágan var að vatnið varð að blóði. Önnur plágan var offjölgun froska að ekki var þverfótað í Egyptalandi fyrir þeim. Þriðja plágan var mýbitið, sú fjórða flugurnar, fimmta fjársýkin, sjötta kýlin, sjöunda haglið, áttunda engispretturnar, sú níunda myrkrið og sú tíunda þegar allir frumburðir voru deyddir (2. Mósesbók 7-11). Forvitnilegt er að bera saman þessi fyrirbæri í fortíð Egypta og Ísraela við aðstæður á Íslandi. Allar verða plágurnar skýrðar við náttúrulegar ástæður. Þar er um að ræða afleiðingu á breytingum í náttúrunni. Þær eiga sér hliðstæður á Íslandi nema ef vera skyldi froskaplágan og engispretturnar en hér eru engin dæmi um að þau dýr hafi nokkru sinni lifað hér. Við þekkjum hvernig eðli sjúkdóma er að breiðast mjög hratt út þar sem aðstæður eru hagstæðar hvort sem er meðal dýra eða manna. Myrkrið verður að öllum líkindum vegna gríðarlegs öskufalls af völdum mjög kröftugs eldgoss. Hafa jarðfræðingar minnst á að líklegt hafi orðið feyknamikið gos á austanverðu Miðjarðarhafi samfara norðlægri átt sem borið hefur öskuna til Egyptalands.   Við höfum oft búið við eldgos á Íslandi. Fjársýki og pestir hafa oft geysað. Og nú á síðustu öldum hafa efnahagskreppur orðið til að valda mikilli röskun á hag mannkyns.Á miðöldum var gagnrýnt mjög af kaþólsku kirkjunni að taka rentu eða vexti af dauðu fé. Eðlilegt væri að mannkynið nýtti sér jarðargróða hvort sem það voru afurðir af dýrum eða akrinum. Þetta var nefnt náttúrulegur arður. Því var jörðin upphaf alls hagnaðar, arðurinn var náttúrulegur. Á miðöldum tíðkaðist töluvert að taka vexti af dauðu fé, þ.e. fjármunum sem ýmist voru taldir eða vegnir. Stétt víxlara verður víða áberandi og voru það einkum Gyðingar sem atvinnu þessa stunduðu. Mun andúð gagnvart Gyðingum hafa lengi verið mótað af þessum viðhorfum ásamt því að þeir vildu gjarnan vera út af fyrir sig og einungruðu sig frá öðrum borgurum.Frumkapítalismann má rekja til siðbótamannsins Kalvíns. Hann var uppi á 16.öld og starfaði einkum í Sviss. Kalvín boðaði að maðurinn ætti að stunda daglegt líf þannig að hann skyldi vera bæði iðinn og sparsamur. Hann skyldi stunda þau störf við iðnað og framleiðslu sem kæmi öllu samfélaginu að gagni. Hann rökstuddi það með því að slík iðja væri í samræmi við góða siði og kristna trú. Áhrif Kalvíns urðu gríðarleg einkum Sviss og á Niðurlöndum þar sem varð mjög mikil efnahagsuppbygging sem bæði Svissarar og Hollendingar njóta nú góðs af.En Íslendingar hugðust verða fljótt ríkir. Þeir vildu stytta sér leiðina að auðnum sem tók aðrar þjóðir aldir. Við horfum upp á skelfilegar afleiðingar þessa. Gríðarleg lán voru tekin til eyðslu, gervigóðæri var bókstaflega búið til. Með ákvörðun íslenskra stjórnvalda um byggingu Kárahnjúkavirkjunar var eins og allri skynsemi væri fleygt fyrir róða. Þjóðin varð uppfull af hóflausri bjartsýni, gríðarlegt fé streymdi um allt samfélagið og var sömuleiðis fljótt að fara. Á meðan „góðærið“ stóð yfir, greip um sig þvílík efnishyggja að sennilega hefur aldrei annað eins verið meira.En „nú er hún Snorrabúð stekkur“. Við súpum núna af hinum beiska kaleik óskammsýni og heimsku landsfeðra okkar sem ráðdeildarleysis. Bjartsýnisæðið hefur smám saman verið að breytast í martröð.Nú heyrist t.d. ekkert í þeim Landsvirkjunarmönnum um mikinn og verulegan hagnað af rafmagnssölu til álveranna. Skýringin er auðvitað sú að verð á áli hefur hríðfallið vegna minni eftirspurnar en aukins framboðs. Bílainaðurinn í Bandaríkjunum er nú nánast rjúkandi rúst og ekki bætir fjárhagsástandið úr á þeim bæ. Rándýrt árásarstríð í Írak er að breytast í martröð. Sennilega er nú þegar tap á rafmagnssölu til álversins við Reyðarfjörð. Þá er lokareikningurinn frá Imprégíló enn ókominn. Ef sama verður upp á teningnum og þegar ítalska systurfélag Imprégíló sendi Kaupmannahöfn lokareikning vegna Metróverkefnisins, þá má reikna jafnvel með að reikningurinn hljóði upp á fjórfalda tilboðsfjárhæð. Danir urðu hvumsa rétt eins og þeir kæmu af fjöllum, svo undrandi urðu þeir hve hækkunin nam miklu. Ítalarnir kváðu útboðsgögn hafa verið meira og minna vitlaus og ónákvæm, verkið hafi orðið mun umfangsmeira en þeir töldu sig hafa boðið í. Verður ekki svipuð rök sett fram? Það kæmi mér ekki á óvart enda fyrirtækið sagt vera mjög fylgið sér um að halda uppi ítrustu kröfum gagnvart viðsemjendum sínum. Hætt er við að þetta Kárahnjúkaævintýri verði okkur Íslendingum afar dýrt spaug. Meðan allt var á fullu, varð hér gervigóðæri sem við erum núna að súpa seyðið af. Því miður.Mætti mæla með að landsmenn taki sér boðskap og kenningar Kalvíns sér  til fyrirmyndar: Iðni, sparsemi og nýtni í þágu samfélagsins kemur öllum að góðu gagni, líka ráðamönnum þjóðarinnar og útrásarvíkingunum sem kappsigldu langskipum sínum í hafi en skila sér vonandi í land fyrr eða síðar.

Mosi


Próf í tungumálum fyrir ráðherra

Greinilegt er að tungumálakunnátta sumra ráðamanna virðist vera nokkuð áfátt. Það er t.d. mjög dýrt spaug fyrir okkur íslenska skattborgara misskilningur og afglöp Árna Mathiesen fjármálaráðherra þegar hann ræddi símleiðis nú í haust við Alistar Darling hinn enska starfsfélaga sinn. Í stað þess að bjóða Bretum að koma til að ræða þessa alvarlegu stöðu, tekur Árni sér það bessaleyfi að svara Darling símleiðis með allt að því hrokafullum hætti. Bretar beittu hryðjuverkalögum á Íslendinga þegar í stað. Þetta símtal er líklega eitt það dýrasta í sögu nokkurs lands, alla vega hér norðan Alpafjalla.

Spurning er hvort ekki sé rétt að ráðherrar séu látnir í próf áður en þeim sé treyst fyrir ráðherrastólunum. Þórbergur Þórðarson segir í Bréfi til Láru að skósmiður þurfi að sitja 4 ár á skólabekk áður en honum er treyst fyrir skósólum landsmanna. Nú er sú iðngrein hluti af sögunni.

Saga afglapa verður seint að fullu skráð. En fyllsta ástæða er að velta fyrir sér orðum Þórbergs um skósmiðinn og skósólana. Mun meiri hagsmunir eru að ráðamenn verði ekki að oftar að viðundri heimsins en nauðsynlegt er. Afglapaháttur hafnfirska dýralæknisins ætti að vera gott tilefni að gerðar séu lágmarkskröfur um þekkingu og leikni þeirra í tungumálum.

Mosi


mbl.is Frétt um álver ekki allskostar rétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólíkt aðhafast líkir að

Að Angela Merkel vill ráðfæra sig við ráðherra, stjórnenda fyrirtækja og verkalýðsleiðtoga er ólíkt aðferðum þeim sem Geir Haarde virðist vera þekktur fyrir. Þar er pukrið og samráð við gamla vini á borð við Davíð þrásetubankastjóra vera eitt megin einkennið. Allt á að vera við sama heygarðshornið, öllu á að koma þannig fyrir að afhenda megi stjórnendum gjaldþrotafyrirtækja fyrirtækin að nýju en gjaldþrotið verði þjóðnýtt og við skattgreiðendur megi greiða upp skuldir skussanna.

Í viðtali við Geir Haarde í Fréttablaðinu í dag, sunnudag er hann spurður um hvort möguleiki sé á klofningi Sjálfstæðisflokksins, les:Sjálftökuflokksins, á n.k. landsfundi vegna málefna sem tengist Evrópusambandinu. Hann svarar því til að íslenski Sjálftökuflokkurinn sé miklu merkilegri en einhverjar deilur sem tengjast Evrópusambandinu.

Með þessu er Geir að segja að hann sé óttalegur horkagikkur sem telji flokkræði Sjálftökuflokksins æðra en hagur og framtíð íslensku þjóðarinnar.

Við skulum skunda á Austurvöll alla næstu laugardaga og mótmæla þrásetu Sjálftökuflokksins.

Í gær skildi eg og mín spússa gömlu mótmælaspjaldin okkar við dyr Stjórnarráðshússins sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

 


mbl.is Merkel fundar með sérfræðingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hverju má treysta í dag?

Í frjálsu samfélagi ríkir samningsfrelsi. Allir geta ráðstafað fé sínu án þess að einhver skipi honum að að hafast.

Margir eiga um sárt að binda. Sparnaður þúsunda Íslendinga í formi hlutabréfa í Glitni, Kaupþingi og Landsbanka er nú gjörsamlega glatað fé. Annar sparnaður í formi ýmissa sjóða er mjög skertur. Lífeyrissjóðir landsmanna hafa tapað hundrðum milljóna. Tugir þúsunda viðskiptamanna bankanna verða að taka á sig mjög mikla hækkun á höfuðstól skulda sem og vöxtum vegna íbúðahúsnæðis. Þrengt er að lífskjörum þeirra sem minna mega sín, elli- og annara lífeyrisþega.

Þessum hremmingum sparifjáreigenda í Lúxembourgh getum við íslenskir skattborgarar því miður ekki bætt á okkur. Við höfum tapað miklu og horfum upp á vaxandi skattheimtu vegna léttúðar og afglapa íslenskra fjármála- og ráðamanna á undanförnum misserum.

En þessi hópur innlánseigenda eru væntanlega ekki á flæðiskeri staddur. Því er miður ekki sama að heilsa hjá langflestum þeirra sem nú verða að taka á sig meiri álögur.

Alltaf er mikil áhætta að hafa mikið fé inni á bankareikning þegar svona hremmingar eiga sér stað. Margir Íslendingar tóku sparifé sitt út úr bönkunum þegar þeir féllu. Það hefur ekki treyst þeim.

Mosi


mbl.is Viðskiptavinir í Lúx telja sér mismunað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu tímaritin: Frjáls verslun

Lengi hefur Mosi flett gömlum tímaritum. Á námsárum hans í menntaskóla, fór hann mjög oft að lesa á Landsbókasafni og stundum í Borgarbókasafninu en það var þá í glæsilegri villu við Þingholtsstræti. Þessi bæði söfn voru í einum fegurstu húsum landsins og er gamla Safnahúsið við Hverfisgötu eitt glæsilegast hús á Norðurlöndunum.

Í báðum þessum húsum kynntist eg gömlu tímaritunum. Þar mátti fá lánuð á lestrarsal rit sem uppluku gömlum tímum. Í þessum gömlu bókum margar hverjar með gulnuð og upplituð blöð, má skynja gamla tímann jafnvel fornan.

Nú málesa flest þessara tímarita heima hjá sér gegnum tölvuna sína og fletta í á heimasíðunni: http://www.timarit.is

Fyrir nokkru keypti Mosi nokkra fyrstu árgangana af Frjálsri verslun sem byrjaði að koma 1939. Á gulnuðum blöðum má lesa efnahagsfréttir gegnum stríðsárin, hremmingar þeirra og þær breytingar sem urðu eftir stríðið. Gríðarlegur skortur var á ýmsum vörum eftir stríðið enda tók drjúgan tíma að byggja upp hrundar borgir Evrópu. Þá voru töluverð vandræði vegna gjaldeyris og öflunar markaða fyrir framleiðsluvörur okkar auk þess að upphaf Kalda stríðsins olli nokkrum vandræðum og skekktu meira og minna eðlileg og skynsamleg samskipti milli þjóða.

Í þessum fyrst árgöngum Frjálsrar versluna voru fastir dálkar. Ágætir pennar rituðu um verslunarsögu og um ástand líðandi stundar.

Höftin voru einkennandi þessi ár. Í fyrsta hefti Frjálsrar verslunar 1949 ritar Aron Guðbrandsson kaupsýslumaður stórskemmtilega grein: „Reynslan er ólýgnust“ sem lýsir ástandinu eins og það hefur verið. Þar greinir hann frá reynslu sinni erlendis að kaupa og flytja heim tvær hurðarskrár. Þá var hann heim kominn stoppaður af lögregluþjóni sökum þess að hann ók bíl sem annað ljósið var óvirkt. Lofar hann lögregluþjóninum að kaupa nýja peru daginn eftir. Allan þann dag var Aron áþönum út um allan bæ í viðleytni sinni að kaupa peruna en án árangurs. Það hefur verið bæði tafsamt og lýjandi að fara á hvern kontórinn á fætur öðrum. Þessi grein ætti í samráði við hlutaðeigandi að vera endurbirt sem fyrst öllum þeim til varnaðar sem vilja koma á hvers kyns höftum. Í eðli sínu eru höftin nánast gagnslaus þegar fram er litið enda þó þeim sé ætlað að gilda einungis tímabundið.

Í þessum árgöngum birtust grínmyndir ungs listamanns af þekktum persónum meðal verslunarmanna. Teiknarinn átti eftir að verða þjóðkunnur af verkum sínum fyrir afburða hæfileika. Hann hét Halldór Pétursson.

„Rúsínur“ var uppfyllingaefni blaðsins og þar var blanda af ýmsum smásögum, glensi og vísdómsorðum. Í 11. árgangi árið 1949 sama ár og grein Arons birtist, er eftirfarandi haft eftir Manning kardínála: „Fáir menn eru bæði auðugir og örlátir; þó eru færri bæði auðugir og lítillátir.“

Og eftir þýska skáldinu Goethe: „Fljótfenginn auður er gjarn að týnast, en fé , sem aflað er smám saman með ærinni fyrirhöfn, mun vaxast og margfaldast.“ (Frjáls verslun, 1949, bls.88).

Þessar setningar eiga vel við í dag enda tímarnir þannig að sjaldan hafa orðið jafnmiklir fjármagnsflutningar milli ýmissa en fárra aðila. Nú verðum við venjulegt íslenskt alþýðufólk að súpa seyðið af þessari glæframennsku og nú verður á kostnað okkar mistök fjárglæframanna bætt erlendum aðilum.

Meira seinna.

Mosi


Endurtekur sagan sig?

Einu sinni var sú tíð að dyraverðir skemmtistaða í Reykjavík höfðu þau ströngu fyrirmæli að ekki mætti hleypa neinum inn án þess að bera til þess búið hálstau. Ýmsir gerðu sér grín af slíkri hlálegri ákvörðun og voru dæmi um að sumir sem höfðu ekki bindi né slaufu í handraðanum, skruppu í næstu sjoppu, keyptu sér lakkríslengjur og útbjuggu í skyndi slaufur sem þeri síðan átu þegar þeir höfðu sloppið inn fyrir haukfráa dyraverði. Þá var það einhverju sinni að einhver var bókstaflega alsnakinn en þó með hálstau á sínum stað slapp inn fyrir eftirlit dyravarðanna árvökulu. Þetta varð Sigmund, hinum vinsæla og ástsæla teiknara Morgunblaðsins tilefni til frekari afreka á sínum skemmitlega vettvangi sem því miður er okkur horfinn.

Hvort bandarísiku leikkonunni Jennifer Aniston verði nekt sín að hún nai markmiði sínu skal ósagt látið. En óneitanlega minna athafnir hennar á frumkvæði íslenskra ungmenna fyrri tíma að reyna að komast inn á skemmtistaði Reykjavíkur fyrir 40-50 árum.

Mosi


mbl.is Aniston á Evuklæðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glórulaust frumvarp

Frumvarp um hækkun áfengisgjalds er kannski ekki það sem vænlegt er til árangurs.

Þegar íhaldið tók við völdum í Bretlandi á sínum tíma eftir sem það taldi vera óstjórn eftir Verkamannaflokkinn, hafði þetta sama íhald þá skoðun að ekki væri rétt að stjórna með árangri nema að stórlækka verðið á blessuðu brennivíninu og bjórnun helst líka. Þetta var aðferð íhaldsins til að milda áhrif þess á stjórn samfélagsins!

Nú virðast stuttbuxnadrengir íslenska íhaldsins vera á þeim buxunum að vænsta leiðin út úr versta efnahagsvandræðum íslenska íhaldsins sé að hækka gjald á áfengi! Spurning er hverjum tilgangi sé verið að stefna á? Hefur einhver umtalsverður árangri verið náð varðandi baráttu samfelagsins gagnvart vaxandi eiturlyfaneyslu? Varla. Líklega sækja fleiri í fíkniefnin og landabruggið þegar ríkisvaldið bregst hlutverki sínu.

Sem fremur hófsömum neytenda rauðvíns og annarra góðra lystisemda heimsins finnst Mosi nokkuð skítt að vart er unnt að finna í brennivínsbúðum landsins rauðvínsflösku sem er verðlögð undir 1000 krónum. Kvurt hyggjast þessir íhaldsdrengir fara með kúna? Á að ganga gjörsamlega fram af fólkinu í landinu? Var ekki nóg að hleypa þessum frjálshyggjuandskotum lausum út hérna um árið að hafa fólk að fíflum að ekki væri bætt á að hækka rauðvínið upp úr öllu valdi nú á síðustu og verstu tímum enda eru síðustu tímarnir einna verstir í huga þeirra sem minnast vart annars eins?

Því miður er sú gamla góða rauðvínspressan hans Jónasar Kristjánssonar nánast steingeld og má taka undir með þjóðskáldinu að nú sé Snorrabúð stekkur.

Íslenska íhaldið er komið út á hálan ís. Vonandi brestur hann fljótlega og mætti Geiri, Davíð & Co sökkva sem skjótast niður á sextugt dýpi með sínum óskiljanlegu áformum án þess að björgunarsveitir landsins fái nokkur tilmæli um björgun né leit!

Það er spá Mosa að íslenska íhaldinu þeirra Geirs og Davíðs verði ekki kápan úr þessu klæði fremur en öðru og að þetta frumvarp verði undanfari þess að út verði gefið endanlegt dánarvottorð þeirrar ríkisstjórnar sem við Íslendingar situm því miður uppi með! 

Mosi

 

 


mbl.is Áfengisgjald hækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243585

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband