Að beita tilfinningarökum

Rökræðan um afstöðu okkar til Efnahagsbandalagsins byggist oft allt of mikið af tilfinningum. Þannig hafa hagsmunaöfl sem eru alfarið á móti aðild okkar að EBE spilað mikið inn á sjálfstæðismeðvitund og sitthvað sem ekki byggist á sérlega góðum faglegum forsendum.

Afstaða okkar á fyrst og fremst að byggjast á faglegu mati þar sem hagsmunir eru metnir með hliðsjón af gildismati því sem talið er gefa bestu yfirsýn um viðfangsefnið.

Ljóst er, að innganga í Efnahagsbandalagið myndi efla mjög boraralegan rétt okkar t.d. gagnvart mörgum af þeim hagsmunagæsluaðilum sem nú hamast einna mest gegn aðildarviðræðunum.

Þess má einnig geta að það er t.d. kínverskum stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum mikill akkur að halda okkur utan við EBE. Ísland er tiltölulega stór en fámenn eyja sem er kjörið markmið fyrir fjölmenna þjóð að koma sér fyrir á, þjóð sem býr við þröng lífsskilyrði heima fyrir og takmarkaðan borgaralegan rétt að koma sér hér fyrir og efla hagsmuni sína.

Ælti mörgum smábændunum á Íslandi þætti ekki nokkuð þröngt fyrir dyrum sínum ef hér yrði fjölmenn kínversk nýlenda sem fyrr en varði yfirtekur landið með manni og mús með aðstoð sporgöngumanna þeirra?

Þýski sendiherranum hefur væntanlega blöskrað tilfinningavaðallinn og séð ástæðu til að vanda fyrir aðalritstjóra Morgunblaðsins sem og öðrum þeim sem hrópað hafa hæst í þessari tilfinningaumræðu. Hann á miklar þakkir skildar fyrir skynsamleg sjónarmið byggð á traustum og góðum gildum.

Mörg skynsamleg rök styðja hugmyndir um að tengjast betur nágrannaríkjum okkar í Evrópu. Þar er unnt að styðjast við atvinnuhætti, efnahagsmál, samgöngur og viðskipti að ekki sé gleymd sameiginlegri menningu og stjórnarhætti sem þróast hafa í aldir.

Góðar stundir!


mbl.is Vilja funda með sendiherra Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott verð en með augljósu markmiði

Skiljanlegt er að matur í Ikea sé vinsæll meðal landsmanna enda mun láta nærri að hann sé seldur nálægt kostnaðarverði.

En tilgangurinn er auðvitað sá að fá viðskiptavini inn í búðina enda kaupa flestir eitthvað fyrst þeir eru komnir á annað borð þangað.

Í fréttaskrifunum er ein afleit ambaga sem kemur fram í þessari setningu: „Veitingastaðurinn er staðsettur í Garðabæ, nánar tiltekið í húsgagnaversluninni Ikea“. Er ekki nóg að segja að veitingastaðurinn sé í Ikea sem er í Garðabæ?

Þetta orð „staðsettur“ og ýmsar aðrar myndir hans veður uppi m.a. í fasteignaauglýsingum. Það eru ekki mikil rök að fullyrða um eitthvað, fasteign eða aðra eign sem er ætíð á sama stað.

Hins vegar er eðlilegt að tala um að bifreiðar, skip og flugvélar séu staðsettar hér og þar hverju sinni. Eðli þeirra og tilgangur er að vera ekki alltaf á sama stað sem er fráleitt að tala um þegar fasteignir er um að ræða.

Þess má geta í lögfræði er fasteign skilgreind sem ákveðinn hluti af yfirborði jarðar sem er afmarkaður með þar til ákvörðuðum hnitum eða á annan hátt. Hús og þ.h. eru þá „fylgiufé fasteignar“.

Góðar stundir.


mbl.is Íslendingar eru sólgnir í Ikea-mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr mun Gunnar allur

Gunnar Birgisson er einn þeirra pólitíkusa sem skilur eftir sig óreiðu af ýmsu tagi. Ferill hans sem bæjarstjóra í Kópavogi varð söguleg að ekki sé dýpra tekið í árina. Einkum er minnisstæðtt þegar hann lét verktakafyrirtæki sem áður var í eigu hans vaða gegnum Heiðmörkina og olli stórtjóni á skógargróðri hennar. Það kostaði málaferli og bæjarsjóð Kópavogs um 20 milljónir. Aðkoma hans að sögu Kópavogs var furðuleg þar sem dóttir hans fékk á silfurbakka vel launað verkefni sem ekki hefur skilað tilætluðum markmiðum.

Og nú kemur þetta mál sem kostar ríkissjóð milljónir!

Óhætt má segja að dýr muni ekki Hafliði Másson heldur einnig Gunnar Birgisson þegar öll kurl verða dregin til grafar.

Góðar stundir!


mbl.is Gunnar Birgisson greiði sekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki veitir: hver silkihúfan upp af annrri sem gerir lítið sem ekkert gagn!

Stjórnkerfi Reykjavíkurborgar er orðin þvílík martröð að meira að segja nágrannasveitarfélögin eiga í vandræðum við eðlileg samskipti við yfirvöld, hvað þá einstaklingar.

Örfá dæmi:

Á Úlfarsfelli hefur einhver silkihúfan hjá Jóni Gnarr leyft verktaka að fremja mikil og slæm umhverfisspjöll við efsta hnjúk fellsins til að leggja lagnir og reisa heilmikið mastur, Mosfellingur sem og vonandi flestum Reykvíkingum til mikillrar gremju. Þessi framkvæmd er leyfð án þess að málið sé lagt fyrir bæjaryfirvöld Mosfellsbæjar. Þau komu gjörsamlega af fjöllum.

Fyrir aldamótin síðustu vakti Ómar Ragnarsson þáverandi fréttamaður athygli höfuðborgarbúa á óvenjufallegu stuðlabergi sem kom í ljós í grjótnámi sem opnað var í mynni Seljadals fyrir tæpum 30 árum. Þarna hefur hart basalt verið numið svo framleiða megi nægt malbik í þágu nagladekkjanotkunar á höfuðborgarsvæðinu. Malbikunarfyrirtæki þetta skreytir bókhald sitt með grænu bókhaldi, t.d. að stuðla að endurvinnslu pappíra á skrifstofu en í raun er umgengnin um náttúru landsins all svakaleg að ekki sé meira sagt.

Sem áhugamaður um umhverfismál skrifaði eg nokkrar greinar um þetta mál og hófust viðræður milli yfirstjórnar Reykjavíkurborgar og Mosfellsbæjar um þetta mál. Ljóst var að stjórnvaldsreglur voru þverbrotnar eins og síðar kom í ljós. Dagaði þetta mál einvers staðar og enginn virðist hafa borið ábyrgð fremur en í aðdraganda hrunsins.

Stjórnvaldsreglur eiga að vera markvissar, augljósar, einfaldar og skilvirkar. Því miður eru þær gerðar svo flóknar og ómarkvissar að ekki er alltaf ljóst hver tilgangurinn er. Ljóst er að í stjórnvaldsreglum á að vera ákvæði um greiða endurskoðun og einnig hver ber ábyrgð ef ákvörðun reynist röng og jafnvel íþyngjandi á ósanngjarnan og óréttlátan hátt gagnvart borgara.

Góðar stundir!


mbl.is Vilja einfalda stjórnkerfi Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg skoðun

Innganga Íslendinga í Nató var mjög umdeild á sínum tíma, undirbúning þessa máls í upphafi Kalda stríðsins verulega áfátt enda urðu mótmæli gegn inngöngunni einna mest hér á landi í öllum þeim löndum sem gerðust aðilar að Nató. Stjórnvöld þess tíma bar ekki sú gæfa að kappkosta og finna friðsamlega leið til að að stefna að þeim markmiðum sem þá voru sett. Ýmsir áhrifamiklir rithöfundar voru settir til hliðar og jafnvel „ofsóttir“ af stjornvöldum. Aukið var á tortryggni í samfélaginu en að draga úr. Má t.d. nefna að vinstri sinnaðir rithöfundar voru sviptir opinberum höfundalaunum og minna þekktum höfundum veittar umbun m.a. fyrir að vera hliðhollir hægri mönnum. Einna grófastar voru ofsóknirnar gegn Halldóri Laxness en skáldsaga hans Atómstöðin var mjög beitt háð á stjórnmálaástandinu eftir heimstyrjöldina miklu.

Þessi mál þarf að kryfja betur og rannsaka, m.a. hvers vegna bandarísk yfirvöld beittu sér gegn Halldóri og komu í veg fyrir að bækur hans voru gefnar út í Bandaríkjunum.

Umsvif Nató hafa ætíð verið umdeild, stundum jafnvel hlægileg eins og þegar Pentagon skipulagði heræfingu í einu stæsta kríuvarpi landsins og soldátarnir urðu að draga sig í hlé enda gerðu kríurnar engan mun á þeim soldátum sem voru að æfa varnir eða árás í návígi.

Auðvitað kann skoðun stjórnar VG að vera nokkuð brött. En hversu raunhæf hún er kann að vera spurning. Aðild að Nató hefur að öllum líkindum reynst fremur betur en illa þó svo að okkur þótti undarlegt að Nató kæmi okkur ekki til aðstoðar í landhelgisdeilum okkar við Breta á sínum tíma. Þá var úrsókn hjótað og þær voru teknar grafalvarlega. Vörn okkar felst einkum í meginmarkmiðum Nató þar sem byggt er á reglunni: Einn fyrir alla og allir fyrir einn: Árás á eitt ríki þýðir árás á öll Natóríkin.

Raunhæft er að við verðum þarna áfram en skerpum á skynsamlegum skilyrðum. Þannig mætti vera settir fram skýrir fyrirvarar á því að við getum aldrei verið þátttakendur í árásarstríði gegn öðrum ríkjum eða hagsmunaaðilum, m.a. vegna fámennis og vopnleysis. Því miður varð það 2003 vegna Íraksstríðs Georgs Bush og Blair hins breska. Það voru ófyrirgefanleg mistök sem aldrei má gerast aftur.

Þá á þátttaka okkar fyrst og fremst að snúast um skilgreind verkefni Landhelgisgæslunnar t.d. um varnir gegn mengun í sjó og önnur verkefni sem snerta öryggi, björgun og hjálparstarf. Hernaðarbröltið á ekki að vera okkar verkefni.

Góðar stundir.


mbl.is Vilja Ísland úr NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill heiður

Óskandi hefði verið að aldrei verið tilefni til þessa landsdómsmáls og að það hefði aðeins verið til sem hugsanlegur möguleiki í lögfræðinni.

Þeir sem áttu hlut að máli vegna aðdraganda hrunsins á sínum tíma fara meira og minna skaddaðir frá því máli jafnvel þó svo að forsætisráðherrann fyrrverandi hefði verið nær sýknaður af öllum ákæruliðum.

Sá sem bar mikla sæmd af þessu máli er hæstaréttarlögmaðurinn Andri Árnason. Þetta mál var allsnúið þar sem sakir voru taldar umtalsverðar. Andri hefur ætíð verið mjög hófsamur og hefur unnið mjög gott starf. Hjá lögmanni er aðalatriðið að setja sig vel inn í málefnið og finna hvort ekki séu einhverjir annmarkar, formgallar og annað sem máli kann að skipta. Þar kunna að leynast ýms hálmstrá sem leiða kunna til sýknunar og jafnvel ónýta málshöfðun sem er mjög áberandi við lestur Brennu-Njáls sögu.

Sumir lögmenn falla í þá freistni að hrópa hátt á götum og torgum, rita í blöð og aðra fjölmiðla í þeim tilgangi að gera lítið úr andstæðingi sínum í málaferlum sem þeir tengjast og beina beittum spjótum sínum með tilfinningum eða á annan hátt sem síst skyldi. Það hefur Andri aldrei gert enda getur slíkt verið talið ámælisvert og jafnvel skaðað góðan málstað sem verið er að vinna að. Hann hefur hins vegar ritað mjög góðar fræðilegar greinar í fagtímarit lögfræðinga um margvísleg efni enda er hann orðinn viðurkenndur sem fræðimaður á sviði lögfræði og stjórnsýslu.

Störf lögfræðingsins eru fjölbreytt og yfirleitt mjög vandmeðfarin. Málsmeðferð fyrir dómi eiga fyrst og fremst að snúa að staðreyndum málsins og faglegum forsendum en ekki fara eftir hvaða tilfinningalegum sjónarmiðum. Annað hvort vinnst mál eða ekki og þá skiptir málsmeðferðin meginmáli.

Andri er vel að þessari viðurkenningu kominn. Hann verður ungum lögmönnum ábyggilega góð fyrirmynd í farsælum störfum sínum.

Eg leyfi mér að óska honum tilhamingju með þennan mikla heiður og farsældar í störfum.

Góðar stundir!


mbl.is Andri er lögmaður vikunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyggilega góður vinnustaður

Þessi frétt bendir til að þessi vinnustaður hlýtur að vera mjög góður þar sem samstillt samstarfsfólk stefnir að markvissum árangri í vandasömum störfum.

Þetta telst vera mikil viðurkenning og óskandi er að árangur af því starfi sem fer fram á þessum vinnustað í þágu almannaheilla verði þjóðinni sem farsælast.

Mikið væri gaman að starfa á vinnustað sem þessum en sjálfur hefi eg verið án atvinnu síðastliðna 4 vetur frá því að einkavæðingardraugurinn drap niður fæti á Skólavörðuholti og einkavæddi Iðnskólann í Reykjavík sem nú heyrir sögunni til. Sic transit gloria in mundi!

Til hamingju!

Góðar stundir!


mbl.is Sérstakur saksóknari stofnun ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar falla í freistni: Nýr möguleiki að týnast!

Sennilega eru Íslendingar með kaupglöðustu þjóðum heims. Þeir voru vikum ef ekki mánuðum saman í starftholunum að hlaupa til þegar þeir sáu fyrir sér auglýsinguna: Bauhaus opnar bráðum!

Ætli margir landar vorir hafi ekki verið farnir að verða óþolinmóðir eftir að hver vikan leið og jafnvel mánuðirnir eftir að þetta „bráðum“ var að baki og þessi stóra „hryllingsbúð“ opnaði loksins.

Í fyrradag leit eg við í Bauhaus ásamt spúsu minni og yngri syni okkar. Við gengum okkur næstum upp að hnjám en eitt erindi áttum við í búðina: kaupa litla liðkeðju sem tengir tappa og eldhúsvask sem slitnaði fyrir skömmu. Sama hvar við bárum niður, hvergi var þetta litla þarfaþing að finna. Hins vegar mátti skoða salernisskálar í öllum mögulegum gerðum upp um veggi og hreinsibursta í öllum litum og sömuleiðis gerðum. Fróðlegt væri að vita hversu margir tugir eða jafnvel hundruðu vörunúmera af þessum þarfahlutum eru á baðstólum í Bauhaus.

Við veltum vöngum yfir að festa kaup á útikamínu fyrir veröndina úti við litla frístundahúsið okkar. Þrjár stærðir a.m.k. voru á boðstólum. Sá yngsti vildi auðvitað þá stærstu og verklegustu sem mér fannst ekki galið en frúin vildi þá minnstu og nettustu. Þá var stungið upp á að fara bil beggja en sú tillaga var stráfelld með 2 atkvæðum gegn atkvæði mínu.

Endirinn á þessari kostulegu kaupstaðarferð var að blóm af orkidíugerð var keypt handa frúnni. Auk þess freistuðumst við að kaupa heljarmikinn stiga fyrir tæpar 13 þúsund krónur sem sá yngri taldi vera kostakjör fyrir þvílíkan grip! Nú verður unnt að brölta upp á þakið á litla húsinu okkar án þess að eiga á hættu að hálsbrjóta sig annað hvort á leiðinni upp eða niður.

Til hamingju kæru landar með nýjasta innkaupastórmarkaðinn! Nýr möguleiki að týnast klukkutímum saman hefur verið opnaður, sennilega öllum til gamans og vonandi einhvers gagns!

Góðar stundir!


mbl.is Keyptu fyrir milljarð í Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmsar spurningar

Þegar eitt viðkvæmasta og vinsælasta náttúrufyrirbæri landsins á í hlut vakna ýmsar spurningar:

Hvernig stendur á því að 1000 lítra olíutankur týnist?

Hvernig var eftirliti háttað með efnistöku Kísilgúrverksmiðjunnar?

Var öllum skilyrðum um efnistöku fylgt eftir?

Hvernig stendur á því að fyrst núna kemur þetta fram?

Þeir sem ábyrgð báru á efnistökunni hefðu átt að vita allan tímann um að þessi eldsneytistankur væri týndur.

Hvers vegna er ekki þegar hafin leit að honum og hann fjarlægður?

Hafði einhver fjárhagslegan ávinnig af því að tankurinn týndist?

Það má spyrja endalaust en nú þarf að fara í sauman á þessu máli og draga allt fram sem máli skiptir.

Vanræksla hvort sem er stór eða smá getur haft gríðarlegar afleiðingar. Það getur verið erfitt að bæta mikið tjón sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir.

Mývatn er ein dýrmætasta náttúruperla landsins sem ekki má eyðileggja þó til sé fólk sem vill eyðileggja sem flestar náttúruperlur landsins.

Góðar stundir!


mbl.is Tifandi tímasprengja í Mývatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllsta ástæða til varfærni

Í dag eru orkufyrirtæki landsins skuldum vafin. Fyrir áratug voru þau vel stödd en illu heilli var boginn spenntur um of og farið allt of hratt í framkvæmdir.

Fyrir vikið varð ofþensla, falskur heimur velsældar og fullyrt um góðæri. Nú þarf að doka við og ekki taka ákvarðanir sem síðar reynast ekki æskilegar.

Orkufrekur iðnaður er ekki alltaf rétta leiðin til að byggja upp atvinnulíf, síst af öllu til framtíðar. Það má auðvitað koma mikillri atvinnustarfsemi af stað en hvert starf kostar mun meira en mörg þau störf sem byggja má upp með langtímamarkmið í huga.

Við Íslendingar þurfum að byggja atvinnulíf okkar meira með okkar forsendur og þarfir í huga. Stóriðjan getur verið varhugaverð og margt virðist ekki mega ræða þar sem hún kemur við sögu. Sumir stjórnmálamenn sjá ekkert nema stóriðju og getur það verið skiljanlegt ef þeir njóta einhverra hlunninda af því en það er þjóðin sem kostar öllu til.

Kárahnjúkavirkjun kostaði um eða yfir 200 milljarða. Arðurinn af þeirri virkjun gerir vart meira en að standa nokkurn veginn undan aborgunum og vöxtum.

Hefði verið aðeins litlu broti þeirrar fjárhæðar varið til skógræktar þá ætti þjóðin verðmæta náttúruauðlind eftir aðeins nokkra áratugi. Skógarnytjar er sjálfbær meðan stóriðjan er það ekki.

Góðar stundir.


mbl.is Fjárfestingar snarminnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.9.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 244194

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband