Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

Að koma SÉR undan skatti

Útrásarvarganir og fjárglæframenn reyndu allt hvað þeir gátu að koma sér undan skattgreiðslum hér á landi. Oft hefur reynt á hvar menn væru raunverulega búsettir. Hátekjumenn hafa reynt allt til að koma sér undan skattgreiðslum og höfðu meira að segja sér mjög vilhalla stjórnmálamenn sem höfðu skilning á að hátekjumönnum ætti að hlífa umfram ungu lágtekjufólki sem er að basla við að koma sér upp húsnæði fyrir sig og börnin sín ásamt eldri borgurum sem hafa þurft að greiða að tiltölu mjög háa skatta.

Þessir hátekjumenn hafa ekki viljað taka þátt í rekstri þjóðfélagsins en vilja eftir sem áður njóta þess.

Þessir hátekjukarlar hafa enga samúð. Það hefur þurft að auglýsa eftir þeim hjá Interpol svo að þeir mættu í réttarhöld. Af þeirra sjónarhóli er íslenska ríkið eitthvað sem álíka virði og skíturinn.

En nú er loksins að komast skikk á þessi mál. Vonandi!


mbl.is Jón heimilisfastur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísitölufjölskyldan

Í fréttinni segir: „Í úrtaki voru 3.471 heimili, 1.799 þeirra tók þátt í rannsókninni og var svörun 51,8%“.

Af hverju svara ekki þessi rúm 42%? Áhugaleysi? Leti? Tómlæti? Kæruleysi? Sinnuleysi?

Þegar svörun er ekki betri, þá er veruleikinn að öllum líkindum annar.

Góðar stundir.


mbl.is Útgjöldin 443 þúsund á mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má treysta Landsneti?

Fram að því að til þessa fyrirtækisrekstrar var stofnað, voru háspennulínur reknar af Landsvirkjun og Rarik ásamt nokkrum öðrum orkuveitum. Að efna til nýs fyrirtækis með öllum þeim stofn- og rekstrarkosnaði er allt á kostnað neytenda.

Rafmagnssamningar til stóriðjunnar eru negldir niður til lengri tíma. Að vísu rokkar verðið oft í takt við álverð. Nú stefnir í allmiklar framkvæmdir m.a. vegna miður illa ígrundaðs álvers á Suðurnesjum. Þessar framkvæmdir verða væntanlega velt yfir á neytendur ef ekki strax þá fáum við það síðar þó ráðamenn Landsnet segi annað.

Það eru engin heilbrigð rök fyrir því að efna til enn eins álvers. Nú þegar gleypa álverin um 80% af öllu rafmagni í landinu en hverjar eru tekjur landsmanna af þessari miklu rafmagnssölu?


mbl.is Landsnet: Ekki hækkun til almennings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gula pressan

Um nokkuð langa hríð hefur tíðkast að sum blöð slái upp stórum fyrirsögnum. Hafa slíkar fyrirsagnir oft verið kenndar til stríðs og jafnvel þaðan af verra.

Það verður að gera þá kröfu til þess fréttamiðils að rétt sé farið með þegar frétt er sett fram rétt eins og stríðsfrétt. Ef svo er ekki er það auðvitað grafalvarlegt mál og þá þarf miðillinn að draga í land og birta afsökun á sama hátt og fyrri frétt.

Hins vegar getur verið álitamál ef frétt er sett fram á sérstaklega grófan og meiðandi hátt. Þá er nánast verið að vega mjög ámælisvert að æru einstaklingsins. Í doktorsritgerð Gunnars Thoroddsens „Fjölmæli“  er fjallað um æruna og vernd hennar sem ættu að vera öllum fjölmiðlamönnum skyldulesefni og jafnvel þeim skylt að taka próf í. Þar eru nefnd fjölmörg dæmi úr íslenskum og erlendum dómapraxís hvað talið hefur ærumeiðingar og hvað ekki, hvaða aðferðum kann að vera beitt o.s.frv.

T.d. sá verknaður að senda einhverjum 30 smápeninga með tilvísun í svik Júdasar, kann að vera mjög ærumeiðandi fyrir þann sem hefur t.d. staðið í einhverjum umdeildum ákvörðunum sem varðar almannahag. Sjálfsagt hefði mátt koma áþekkri uppákomu í íslenskri pólitík t.d. við umdeilda samningsgerð við erlenda aðila eða t.d. vegna einkavæðingar sem er alltaf umdeild. Var ekki Sementsverksmiðjan „seld“ eða öllu fremur afhent einhverjum sem gátu nýtt hana í gróðabralli, hvað þá bankana hvers stjórnendur skildu allt í rjúkandi rúst?

Blaðamenn verða auðvitað að kunna þá list að gæta hófs. Betra er að draga úr fremur en að bæta í þó freistingin kunni að vera mikil. Ekki dugar að segja eftir á eins og þeir félagar í Gerplu eftir að hafa höggvið mann í herðar niður: Hann lá svo vel við höggi!

Góðar stundir!


mbl.is DV hafnar beiðni Stefáns Einars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handónýtur gjaldmiðill

Í meira en öld hefur íslenska krónan verið handónýtur gjaldmiðill. Jafnskjótt og Landsbankanum var komið á fót árið 1886 varð íslenska krónan til. Kaupmenn vildu ekki sjá hana í viðskiptum, þeir vildu annað hvort danskar krónur eða góðmálma eins og silfur og gull. Þess vegna héldust vöruskipti áfram, bændur lögðu vörur í verslunina og seinna kaupfélögin þegar þau komu til sögunnar. Um þetta má lesa í grein eftir mig um Eirík bókavörð í Cambridge og birtist í Kirkjuritinu frá því nú í vor.

Það eru 3 ríki í heiminum sem hafa svipað verðtryggingarkerfi. Utan Ísland eru það Brasilía og Ísrael! Sérkennilegt er að öllum þessum löndum er gjaldmiðill sem enginn treystir. Verðtrygging í þessum löndum byggir á því að gjaldmiðillinn fellur jafnt og þétt en hækkun skuldbindingar reiknaðar út frá verðlagsþróun sem verður. Víxláhrif eru viðvarandi og ekki hefur tekist að rjúfa þennan vítahring. Í öllum löndum aðlaga vaxtakjör dýrtíðinni sem var vegna fordildar kennd við verðbólgu.

Eiríkur Magnússon bókavörður í Cambridge gagnrýndi á sínum tíma mjög seðlaútgáfu Landsbankans og Landsjóðs sem var forveri Ríkissjóðs. Í nálægt 100 greinum sem hann birti í íslenskum, enskum, dönskum, þýskum og frönskum blöðum og tímaritum á árunum 1885 og fram yfir 1890 náði hann ekki að sannfæra ráðamenn um meinlokuna sem íslenska krónan var byggð á. Fyrir vikið uppskar Eiríkur ritskoðun og var aðeins einn ritstjóri sem birti greinar hans og tók undir þær. Það var Skúli Thoroddsen sýslumaður, ritstjóri og þingmaður en einhver undarlegasta herferð var hafin gegn honum, hann flæmdur úr embætti eins og kunnugt er fyrir engar sakir aðrar en þær að hafa rofið ritskoðun gegn Eirík.

Fyrir löngu er ljóst að við verðum að tengjast öðrum gjaldmiðli sem unnt er að treysta. Tekjur og útgjöld verða að vera í gjaldmiðli þar sem við getum strax í upphafi gert okkur ljóst hvaða kjör eru á lánum. Lán er í raun ekkert annað en að ráðstafa tekjum sínum fyrirfram sem virðist vefjast fyrir sumum.

Hér neðar má lesa greinina um Eirík í Cambridge í Kirkjuritinu (10MB).

Með bestu kveðjum.


mbl.is „Hann er oft að leika sér í ræðustól“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Bjarni og braskaranir

Sjálfstæðisflokkurinn réri því öllum árum að einkavæða sem mest og einnig heilbrigðiskerfið. Var ekki Vífilsstaðaspítali lagður niður sem liður í þeim áformum?

Þá stóð til að byggja stóran einkarekinn spítala í Mosfellsbæ en ekki fer neinum sögum af þeim áformum. Og ekki má gleyma dekurverkefni Guðlaugs Þórs stórbraskara og fl.: Hátæknisjúkrahús!!!

Þegar ekki tekst að reka lágtæknihús hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að byggja og reka hátæknisjúkrahús. Símpeningarnir sem áttu að verja í bygginguna hurfa í höndum braskliðs Framsóknar og Sjálfstæðismanna.

Bjarni mætti tala skýrar. Hvar eru símapeningarnir?

Góðar stundir en án braskara.


mbl.is Vandi sem stjórnin gæti ekki leyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar skúrkurinn ber hærri hlut

Þegar Eva Joly var hér í haust þá benti hún á, að Bretland væri aðsetur og skjól fjárglæframanna. Það skyldi ekki undra að breskir braskarar komist upp með það ótrúlega. Klúður í rannsókn máls dregur þann dilk á eftir sér að skúrkurinn ber ef til vill hærri hlut þegar upp er staðið.

Bretar hafa lengi verið taldir vera fyrirmynd í rannsókn afbrota. Lengi vel var Scotland Yard þekktasta rannsóknarlögregla heims. Nú virðist einhverjir fúskarar hafa klúðrað málum.

Við skulum minnast þess að bræður þessir voru mjög umsvifamiklir í Kaupþingi, Exista og jafnvel fleiri fyrirtækjum. Kaupþing lánaði þeim 46% af öllu lánasafni sínu og sennilega er nokkur von að eitthvað af þeim himinháu kröfum skili sér til baka.

Sjálfur reyndi eg að krafsa í bakkann við að koma kröfu í þrotabúið vegna tapaðs hlutafjár en án árangurs. En sú viðleitni kostaði mig offjár.

Braskarar hafa verið iðnir við að hafa fé af fólki og eru enn að.

En óskandi er að Bretland reynist réttarríki og hafni þessum sérkennilegu kröfum á hendur efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office.

Góðar stundir án braskara og spillingar.


mbl.is Vill 200 milljónir punda í bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að lausn

Ein hugmynd að lausn deilu Ísraela og Palestínumanna:

Gjörvöll heimsbyggðin hefur verið að horfa upp á mikið ofbeldi þar sem báðir aðilar eiga hlut að máli. Gríðarleg eignaupptaka, eignaspjöll, mannvíg og vígaferli hafa átt sér stað sem er engum til framdráttar. Palestínumenn hafa eftir því sem tíminn líður orðið veikari aðilinn einkum á hernaðarsviðinu þar sem vopnin eru ekki sambærileg á neinn hátt. Hins vegar hafa flestir tekið undir samúð með Palestínumönnum með þeim rökum að á þá hefur sífellt hallað.

Ljóst er að Palestínumenn geta aldrei gert sér minnstu vonir um að ná neinni samningsaðstöðu gegn gríðarlegu sterku herveldi Ísrael með mesta herveldi heims, Bandaríki Norður-Ameríku sem „Björn að baki Kára“ í þessum vígaferlum.

En hvaða leið geta Palestínumenn farið?

Ein mjög skynsamleg leið er að fá matsmenn á sviði eignarréttar og skaðabótaréttar alþjóðlega lagaréttarins að meta tjón sitt einhver ár og jafnvel áratugi aftur til baka. Þar verði metið það land sem Palestínumenn hafa orðið að sjá á eftir í hendur Ísraela. Einnig allt eignatjón og manntjón sem af hefur hlotist. Sanngjarnt er að draga frá allt það tjón sem Hamas skæruliðar og aðrir ójafnaðarmenn og ófriðarseggir hafa bakað Ísraelum. Ljóst er að tjón Palestínumanna er margfalt meira en tjón Ísraela.

Skaðabótarétturinn er allra athyglisverður vegna þessa. Ljóst er að sá sem bakar öðrum manni tjóni með saknæmum hætti ber að bæta það tjón sem sannanlega er unnt að sýna fram á að sé sennileg afleiðing af verknaðinum.

Með því að færa deilumál af vígvelli og inn í réttarsali ser mun skynsamlegri leið.

Við skulum minnast þess að Vestur-Þjóðverjar og síðar sameinað Þýskaland hafa greitt himinháar stríðsskaðabætur vegna misgerða nasista gegn Gyðingum á valdatíma Adolfs Hitlers, einhvers versta andskota sem komist hefur til valda á umdeildan hátt. Þessar greiðslur hafa verið umdeildari eftir því sem herstefna Ísraela hefur verið að færa sig upp á skaftið. Einhvern tíma er komið nóg af því góða eða öllu heldur því illa sem af hlýst af þessari ógnarstefnu ofbeldis og ójöfnuðar.

Látum deilur beinast í friðasamlegri farveg. Vígvöllurinn er blóði drifinn og deilur eflast ef ekki verður fundin betri og hagkvæmari leið.

En það er auðvitað vandamálið mikla: BNA er mesti framleiðandi og seljandi vopna og hergagna. Fyrir sölumenn dauðans eru afskipti friðarsinna af deilum eins og og koma í veg fyrir blómleg viðskipti.

Góðar stundir en án brasks og spillingar.


mbl.is Friðurinn úti verði farið í framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt minnisleysi

Minnisleysi lykilmanna í stjórnmálum, stjórnsýslu og í bönkunum er áhugavert rannsóknarefni. Svo virðist ef eitthvað óþægilegt kemur upp, þá man enginn nokkurn skapaðan hlut. Kannski verður að fara í ítarlegri rannsókn og kanna hvort viðkomandi hafi haft fjárhagslegan ávinning af fyrirgreiðslu. Komi í ljós háar færslur á bankareikningum viðkomandi mætti ef til vill aðstoða viðkomandi „að muna“. Varla hafa færslurnar verið af „mistökum“ heldur öllu fremur þar sem verið var að efna einhvern samning.

Á dögunum rifjaðist t.d. upp fyrir Vilhjálmi „minnislausa“ eða „Villa veit ekki“ þegar í ljós kom að Eir hafði greitt fyrir brúðkaupsgjöf til hans á sama tíma og ekki var allt með felldu í rekstri Eirar. Voru þessar fjárhæðir nánast tittlingaskítur í samanburði við færslurnar sem lykilmenn í bönkunum náðu að næla sér í.

Líklegt er að meint „minnisleysi“ geti komið viðkomandi í koll síðar þegar í ljós koma dularfullar færslur í bankareikningum þeirra. Þá gæti viðkomandi jafnvel jafnvel átt von á ákæru fyrir að bera rangt fyrir dómi sem ætíð hefur verið litið mjög alvarlegum augum.

Þegar rannsókn er hafin þá er henni yfirleitt fylgt vel eftir sérstaklega þegar lögregla finnur höggstað á viðkomandi. Þá getur verið jafnvel gott að taka undir með séra Sigvalda í skáldsögu Jóns Thoroddsens, Manni og konu: Þá held eg sé kominn tími til að biðja guð um að hjálpa sér!


mbl.is Minnislitlir starfsmenn Glitnis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiði og pirringur

Þegar menn sinna viðskiptum þá verða menn að sýna fyrirhyggju og skynsemi og umfram allt þolinmæði. Þessi áform hans um uppbyggingu ferðaþjónustu eru mjög óraunhæf og íslensk stjórnvöld telja líklegt að eitthvað annað kunni að vera raunverleg ástæða fyrir áhuga hans á Grímsstöðum. Þar mætti t.d. vera með æfingabúðir fyrir fjallahermenn við erfiðar aðstæður en að koma upp ferðaþjónustu fyrir venjulega ferðamenn er mjög óraunhæf hugmynd.

Kínverski fjárfestirinn er sagður bæði reiður og pirraður. Það er ekki nýtt í sögunni. Fullyrt hefur verið að sjálfur Adolf Hitler hafi farið hamförum 1937/1938 þegar íslensk stjórnvöld neituðu Lufthansa sem var í raun ríkisflugfélag undir stjórn nasista, um aðgengni að íslensku landi. Hermann Jónasson var þá forsætisráðherra og taldi vera ástæðu til fyllstu varfærni gagnvart uppgangi Þjóðverja. Þess má geta að þýsk stjórnvöld höfðu sent ýmsa menn til rannsókna og athugana á norðausturlandi m.a. með það í huga að finna staði þar sem mætti lenda flugvélum. Gamalt sveitafólk geta staðfest þetta. Sennilega hefur þeim yfirsést flugvöllur sá sem Ómar Ragnarsson uppgötvaði, við Sauðá.

Hefðu Þjóðverjar komið upp aðstöðu hér fyrir stríð er mjög líklegt að hér hefðu orðið alvarleg stríðsátök sem kunnu að hafa breytt heimssögunni.

Þar sem ekki liggja fyrir raunhæfar hugmyndir hins kínverska fjárfestis, þá er ástæða til að hafna áormum hans.

Góðar stundir.


mbl.is Huang: „Reiður og pirraður“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243005

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband