Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Er Sjálfstæðisflokkurinn að fara á límingunum?

Mosi var að lesa yfir ræðu Ögmundar. Ekki er stafkrókur í henni sem ber með sér svigurmæli eða móðgun gagnvart þeim ógæfumanni sem varð fyrir því að sýna af sér óvenjumikið kæruleysi og léttúð í undanfara hrunsins.

Sjálfstæðismenn væru menn að meiri ef þeir eru tilbúnir að hlusta á málefnalega gagnrýni. Því miður virðist sem sumir séu algjörlega að tapa sér og má vísa í leiðara Morgunblaðsins þessa dagana og færslu í morgun á heimasíðu Einars K. Guðfinnssonar.

Hvernig sagan á eftir að skýra viðbrögð þessara aðila við gagnrýni þegar þeir þurfa að standa reikningsskap gerða sinna skal eigi fullyrt. Hins vegar eru fúkkyrði ekki til þess fallin að bera höfundum sínum vel söguna.

Að hlaupa út undir ræðu Ögmundar er óskiljanlegt. Þetta er eins og hvert annað upphlaup ákveðið í fljótræði. Auðvitað verður uppgjör að fara fram. En er ekki betra að gangast við afglöpunum og biðja um sanngjarnan dóm?

Ögmundur var einmitt að benda á hversu nauðsynlegt er að fara eins nærgætilega í þessum málum og forðast öfgar. Svo virðist sem sumir andstæðingar ríkisstjórnarinnar eru ekki tilbúnir að sætta sig við stöðu mála. Því miður hrundi sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir. Þar á margt eftir að koma í ljós og við verðum að læra að sýna þolinmæði og að taka því sem orðið er.

Sjálfur var eg meðal tugi þúsunda Íslendinga sem töpuðu megninu af ævisparnaði mínum í formi hlutafjár. Einnig sit eg uppi með væntanlega skerðingu á lífeyrisréttindum mínum sem eg fæ aldrei bætt. Þá var eg atvinnulaus nánast allan síðastliðinn vetur og hef verið án atvinnu lungann af september. Mættu margir Sjálfstæðismenn setja sig í spor okkar sem eru atvinnulausir og ekki síst þeirra sem hafa tapað jafnvel meiru, orðið gjaldþrota og misst allt sem þeir áttu, hús, bíl og búslóð.

Mosi


mbl.is „Ekki með neina sleggjudóma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmaður Sjálfstæðisflokks talar um hræsni

Á bloggsíðu Einars K. Guðfinnssonar í dag, sjá: http://ekg.blog.is/blog/ekg/

eru ótrúlegar fullyrðingar. Þar vænir hann Steingrím J. um hræsni og telur hann vera heimsmethafa í þessari ómerkilegu íþrótt ef íþrótt skyldi kalla. Svo er að skilja að EKG telji sig vera hafinn yfir alla gagnrýni og að hann standi siðferðislega vel að vígi. En í augum venjulegs fólks er hann eins og hver annar lýðskrumari sem við höfum því miður slæma reynslu af. Sem dæmi um þessa ófyrirleitni gefur hann engum kost á að skrifa athugasemdir um skrif sín.

EKG var ráðherra í hrunstjórninni og bar sem slíkur fulla ábyrgð á „afrekunum“ að koma okkur Íslendingum í einhverjar þær ömurlegustu fjárhagslegu þrengingar sem við sem nú lifum þekkjum. Meira að segja kreppan eftir að síldin hvarf um 1967 bliknar við þessi ósköp. Ríkisstjórn Geirs Haarde gerði ekkert til að koma í veg fyrir bankahrunið og þess vegna hefur kapteinninn í brúnni verið ákærður.

Í hruninu féllu ekki aðeins bankarnir heldur varð hlutabréfamarkaðurinn einnig rústir einar. Tugir þúsunda Íslendinga töpuðu þar ævisparnaði sínum í formi hlutabréfa. Lífeyrissjóðir töpuðu sennilega ekki minni fjármunum og hefur það valdið þeim erfiðleikum, m.a. hefur þurft að færa niður lífeyrisréttindi sjóðfélaga. Ekkert var aðhafst til að bjarga hagsmunum þessara aðila frá tapi .

EKF er líklega búinn að gleyma því að hann skildi eftir sig tímasprengju í Stjórnarráðinu rétt áður en hann snautaði þaðan út með skottið milli lappanna. Hann gaf út leyfi að drepa hvali í stórum stíl án þess að bera þá ákvörðun undir nema einn mann: Kristján Loftsson.

Einar K. Guðfinnsson er að mörgu leyti hæfileikaríkur maður enda Vestfirðingur. En af hverju notar hann hæfileika sína til að níða þann einstakling sem hefur reynst þjóðinni einn farsælasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar? Steingrímur J. á allt gott skilið enda hefur hann fengið mikið lof frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum fyrir afburða starf og hefur sýnt afburða úthald í þessum erfiðu málum sem hann hefur verið að fást við.

Er þetta ekki kallað að kasta steinum úr glerhúsi?

Ef EKG vill að fólk taki sig alvarlega þá ætti hann að sjá sóma sinn í því að draga ummæli sín um Steingrím fjármálaráðherra til baka og biðja hann afsökunar á ósvífninni.

Mosi


Auðvitað mátti gera betur

Ingibjörg Sólrún er mjög ósátt um að Geir Haarde er dreginn fyrir Landsdóm. Geir var kapteinninn á strandkútternum og Ingibjörg 1. stýrimaður. Raunverulega ber hún hún einnig ábyrgð á því hvernig fór. Nú hefur komið fram að ekki seinna en í febrúar 2008 var ljóst að ekki var allt með felldu með bankakerfið. Ekkert var gert þrátt fyrir að fyllilega var ljóst að bankahrun var framundan. Bresk stjórnvöld buðu aðstoð sína til þess að vinda ofan af ofvöxnu bankakerfi en ekkert var gert. Þessari vinsamlegu aðstoð var hundsuð.

Ingibjörg Sólrún er því miður undir sömu sök seld og Geir Haarde. Sama má segja um 2. stýrimann þjóðarskútunnar 2008 hr. dýralækni Árna Mathiesen en spurning er um hásetann á skútunni hr. Björgvin Sigurðsson. Þó svo hann væri yfirmaður bankanna þá var hann ekki settur yfir Seðlabanka sem var beint undir Forsætisráðuneytinu.

Í frægri og mjög vinsælli skáldsögu,  Maður og kona eftir Jón Thoroddsen er meginpersónan látin segja undir lokin þegar yfir vofði embættismissir og hneysa sveitaprestinn sr.Sigvalda eftir að hann hafði verið uppvís að svikum, fölsunum og misneytingu: Er ekki kominn tími að biðja guð að hjálpa sér!

Kannski að strandkapteinninn mætti taka sér sömu ummæli í munn.

Mosi 


mbl.is Mun eitra stjórnmálalífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver var kapteinninn á strandkútternum?

Ljóst er að ríkisstjórn Geirs Haarde sýndi af sér mikla léttúð í aðdraganda hrunsins. Ekkert var gert til að afstýra algjöru strandi þjóðarskútunnar og var þó a.m.k. hálft ár til stefnu. Hver fjármálaspekingurinn á fætur öðrum komu til landsins og lýstu yfir áhyggjum sínum. Bresk stjórnvöld buðust til að vinda ofan af ofvexti bankanna en sú aðstoð var ekki þegin af ókunnum ástæðum. Hver réð stjórninni og var þar með hæstráðandi til sjós og lands annar en Geir Haarde? Hinir voru stýrimenn og hásetar og breytir nokkru hvort unnt sé að koma einhverri ábyrgð á þá?

Auðvitað hefði verið rökrétt að Alþingi hefði ákveðið að ákæra skyldi alla þá sem málið varðar.

En refsirammi laganna um ráðherraábyrgð og Landsdóm er fremjur vægur. Það skiptir kannski ekki meginmáli að dæma þungar refsingar. Sennilega væri eðlileg niðurstaða fjársekt til vara fangelsi og svipting réttinda, t.d til eftirlauna í samræmi við lífeyrisréttindi ráðherra. Er réttlætanlegt að ráðherra sem ber sannanlega ábyrgð á bankahruninu beri meira úr býtum en almennir lífeyrisþegar sem nánast allir þurfa að horfa á niðurfærslu réttinda sinna vegna bankahrunsins?

Á þessu deilumáli eru því fjölmargar hliðar.

Mosi


mbl.is Fordæmir ákvörðun Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erfiður biti að kyngja

Alþingi er ekki dómstóll heldur ákæruvald í samræmi við lög um ráðherraábyrgð og Landsdóm.

Þó það þykir auðvitað mjög niðurlægjandi að vera ákærður fyrir brot í opinberu starfi. Það verður hins vegar að álíta sem svo að Geir Haarde hafi borið fullkomlega ábyrgð á ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar og töluverða ábyrgð sem fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar þá bankarnir voru einkavæddir. Hann verður því teljast aðalmaðurinn en hinir ráðherranir sem einnig kom til álita voru auðvitað meðvitaðir um að ekki var allt með felldu með fjármál þjóðarinnar. Auðvitað ná lögin um ráðherraábyrgð og Landsdóm ekki til þeirra sem mestu ábyrgðina bera, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar ásamt Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur sem bæði gegndu lykilhlutverkum við einkavæðingu bankanna á sínum tíma.

Geir Haarde og Co vissu eða máttu vita ekki mikið seinna en í febrúar/mars að allt var að fara fjandans til. Sem hagfræðingur hefði Geir Haarde átt að bregðast við sm hann gerði ekki.

Unnt hefði verið að koma í veg fyrir það stórkostlega tjón sem samfélagið allt beið, hefði verið brugðist við. Aldrei var unnið jafn ötullega í því að éta bankana og mörg fyrirtæki að innan frá vori 2008 uns yfir lauk.

Tugir ef ekki hundruð fyrirtækja sem mörg hver voru í eigu almennings, litlu hluthafanna, fóru á hausinn og varð ekki bjargað nema með bolabrögðum eins og bönkunum, allt á kostnað þjóðarinnar og litlu hluthafanna.

Geir grét krókódílatárum framan í þjóðina haustið 2008 og þóttist ekkert vita hvaðan á sig stóð veðrið. Þó vissi hann eða mátti vita að aðgerðarleysi framkvæmdarvaldsins sem þó hefur alltaf verið mjög sterkt undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, varð til að engu var bjargað. Voru ráðherrar ekki svo uppteknir af Olympíuleikunum sumarið 2008 að það var sumum meira í mun að skjótast til Kína á opinberan kostnað fremur en að stjórna landinu?

Nú er komið að vatnaskilum í íslenskri stjórnmálasögu. Völd og áhrif Sjálfstæðisflokksins heyra nú sögunni til og vonandi Framsóknarflokksins einnig!

Mosi


mbl.is Þungbær og erfið niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsýni

Við sem höfum haft skógrækt sem áhugamál eða öllu heldur trjárækt, viljum samfagna Kínverjum með þennan merka áfanga, að 20% lands í Kína sé skilgreint sem skóglendi.

Við Íslendingar erum því miður miklir eftirbátar annarra þjóða í skógræktarmálum en við höfum á meira en 100 árum einungis ræktað skóg á rúmlega 0,3% landsins. Þetta er grátlega lítið.

Eitthvað hafa tölur skolast í fréttinni: þar er talað um 9,5 ferkílómetra sem á auðvitað að vera 9,5 milljónir ferkílómetra! Munurinn er nokkuð mikill!

Við getum horft okkur nær: Í Skotlandi var álíka niðurkomið í skógarmálum fyrir öld síðan og hjá okkur Íslendingum þegar einungis 1% lands var þakið skóg í báðum löndunumi. Meðan við höfum hækkað þessa tölu upp í 1,3% hafa Skotar skotið okkur heldur en ekki ref fyrir rass en nú er svo komið að 17% Skotlands er nú þakið skógi! Skotar ætla að stefna á að 25% Skotlands verði þakið skógi um miðja öldina. Sem sagt 8% aukning á 40 árum. Ætli við verðum ekki komin upp í 1,5% með sömu afköstum og á síðustu öld?

Skógrækt er einn merkasti vaxtabroddur íslensks atvinnulífs. Í dag eru um 30 ársverk tengd skógarhöggi. Á næstu árum mun þörfin fyrir grisjun vaxa mikið og skógarafurðir geta vaxið að sama skapi til styrktar bágum efnahag okkar. Því miður hefur allt of mikil áhersla verið lögð á skammtíma gróða gegnum stóriðjuna sem reynst hefur eins og hvert annað mýraljós. Meðal skógræktarfólks er gjarnan talað um þennan afdrifaríka stóriðjuáratug 2001-2010 sem áratug hinna glötuðu tækifæra í skógrækt. Hana þarf að stunda mun markvissar en áður með meiri afköstum og árangursríkari árangri en fram að þessu!

Skotar og nú Kínverjar eiga að vera okkur góð fyrirmynd í þessum málum!

Mosi


mbl.is Mesta skógrækt sögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð ráðherra: af hverju má ekki taka afstöðu?

Mosi er á því að rétt sé að Landsdómur verði kallaður saman og fari með þessi mál. Í mínum huga skiptir mestu máli um sekt og sakleysi þeirra einstaklinga sem málið varðar, ekki endilega refsingu. Refsingar hefur yfirleitt ekki komið að neinu eða sáralitlu gagni nema góð samfélagsleg þjónusta fylgi með. Refsingar mætti tengja við missi vissra réttinda og fjársekta.

Skiljanlegt er að Jóhanna forsætisráðherra beri hag Ingibjargar Sólrúnar fyrir brjósti en á það að verða til þess að aðrir sem eru jafnvel sekari sleppi? Betra hefði  verið að Jóhanna hefði ekki látið uppi skoðun sína jafnafdráttarhátt og hún gerði.

Það bendir allt til þess að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins eigi sér fáar ef nokkrar málsbætur. Þar var kæruleysið gagnvart bröskurunum haft í hávegum. Var það kannski að þeir höfðu greitt vænar fúlgur í kosningasjóðinn? Sama máli gegnir um ráðherra Framsóknarflokksins. Þeir báru ekki síður ábyrgð á bankahruninu enda var þeim einnig mikið í mun að koma bönkunum  í hendurnar  á óreiðumönnum og bröskurum innan raða Framsóknarflokksins.

Það er hins vegar mjög afleitt að sakir fyrnast svo fljótt eins og lögin um Landsdóm gera ráð fyrir. Einungis 3 ár eru allt af stuttur tíma. Sum afglöp og glæpir fyrnast seint eins og morð og aðrir alvarlegir glæpir. Afglöp á borð við að heilt fjármálakerfi fari til andskotans eins og við Íslendingar upplifðum haustið 2008 án þess að hreyft hafi verið minnsta fingri til að koma í veg fyrir það, jafnast á við alvarlegustu afbrot. Menn geta bakað sér refsiábyrgð t.d. vegna aðgerðaleysis. Gott dæmi um það er að koma manni í hættulegt ástand og kemur honum sem er bersýnilega í lífshættu ekki til aðstoðar. Um þetta tekur 220. gr. almennra hegningarlaga: 

Hver, sem kemur manni í það ástand, að hann er án bjargar, eða yfirgefur mann, sem hann átti að sjá um, í slíku ástandi, skal sæta fangelsi allt að 8 árum.
Hafi móðir yfirgefið barn sitt bjargarvana þegar eftir fæðingu þess, og ætla má, að það sé gert af sams konar ástæðum og í 212. gr. getur, má beita vægari refsingu að tiltölu og jafnvel láta refsingu falla niður, ef barnið hefur ekkert teljanlegt tjón beðið.
Refsingu, sem í 1. mgr. segir, skal sá sæta, sem úthýsir ferðamanni eða segir honum rangt til vegar, enda hefði hann átt að geta séð, að ferðamanninum myndi verða að því háski búinn.
[Fangelsi]1) allt að 4 árum skal sá sæta, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska.

Þarna er refsiramminn tiltölulega hár eða 8 ár. En er ekki nokkuð svipað sem hér er uppi? Skildu ráðherrar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ekki þjóðina eftir nánast munaðarlausa með reiði Breta og Hollendiga yfir sér rétt eins og móðir sem yfirgefur nýfætt barn sitt? Skiptir litlu þó Samfylkingin hafi verið kölluð til aðstoðar Sjálfstæðisflokknum í Stjórnarráðinu rúmu ári áður, enda var það ekki ásetningur ráðamanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins að upplýsa rétt ástand mála. Þeir vissu eða vita máttu allan tímann að þetta braskævintýri með bankanna var andvana fætt. 

Ef ekki má beita lögunum um Landsdóm væri réttast að afnema þau ef braskaranir ná aftur völdum á Íslandi. Atli hefur mikið til síns máls og ef núverandi þingmenn og auðvitað ráðherrar telja sig ekki geta tekið ákvörðun, væri þá ekki heppilegra að þeir segi af sér fremur en að efna til nýrra kosninga þegar tíminn er ekki sem heppilegastur fyrir þær?

Mosi


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunsæi?

Fjöldi borgarfulltrúa hefur haldist óbreyttur í meira en öld ef undan er skilið eitt kjörtímabil: 1982-86. Fyrsti vinstri meirihlutinn í Reykjavík fjölgaði fulltrúum í 21 og súpu ýmsir hveljur yfir slíku „bruðli" vinstri manna. Davíð Oddsson fækkaði fulltrúum aftur niður í 15 enda mun auðveldar fyrir hann að stjórna minni hjörð kringum sig.

Árið 1908 voru Reykvíkingar nær 10 þúsund. Það þýðir að um 6-700 voru að baki hverjum fulltrúa. Í dag eru Reykvíkingar um 120.000 og því um 8.000 borgarar að baki hverjum fulltrúa eða hátt í fjölda allra Reykvíkinga rétt eins og var fyrir rúmri öld.

Á þessu tímabili hafa verkefni sveitarfélaga orðið mun fleiri og flóknari. Nútímafólk vill fá sem besta þjónustu og er því von að uppi séu efasemdir að flókið stjórnsýslukerfi gangi upp með 15 aðalfulltrúum? Það gengur kannski þar sem einræði er en varla í lýðræðisríki.

Í öllum nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur er hlutfall kjörinna fulltrúa mun hærra en í Reykjavík. Þar er um hlutastarf að ræða en ekki fullt starf eins og í Reykjavík.

Oft hefur gengið illa að manna nefndir og koma á mikilvægum fundum eingöngu með aðalmönnum. Það er því miklar efasemdir hvort þetta kerfi sé það sem á að sækjast eftir. Margir borgarfulltrúar eru oft yfirgengilega hlaðnir verkefnum sem þegar væri betra að deila niður á fleiri.

Nú býr Mosi ekki lengur í Reykjavík, flutti þaðan í ársbyrjun 1983 í Mosfellssveit eins og Mosfellsbærinn nefndist þá. Um það leyti var stjarna Davíðs Oddssonar vaxandi á stjörnuhimni íslenskra stjórnmála og ekkert virtist skyggja á frama hans og velgengni. Þó gekk á ýmsu hjá Dabba: hann gróf m.a. undan almenningssamgöngum með því að fjölga fremur bílastæðum fyrir einkabílinn en ferðum strætisvagnanna og bæta þjónustuna. Á þeim árum var markmið íhaldsins að breyta sem fyrst Reykjavík í bílaborg eftir amerískri fyrirmynd.

Mosi


mbl.is Laun varaborgarfulltrúa hækkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlileg lausn

Þessi rannsóknarskýrsla er í eðlilegu framhaldi við skýrslu nefndarinnar um bankahrunið. Sýnt hefur verið fram á að langvarandi léttúð og umburðarlyndi gagnvart þeim braskaralýð sem gróf undan fjárhag Íslendinga.

Það er hins vegar önnur hlið hvort of mikil refsigleði eigi að ríkja í framhaldi. Þungar refsingar eru oft verri en engar refsingar eða mjög vægar. Mestu máli skiptir að ALDREI verði aftur efnt til svona stjórnsýslu þar sem bröskurum verði veittar frjálsar hendur að stefna til jafnmikils fjármálaglundroða eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bauð landsmönnum upp á.

Mosi


mbl.is Þungbær skylda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn síungi Ómar

Ómar Ragnarsson hefur verið náinn fylgifiskur íslenskra fjölskyldna í meira en hálfa öld, hvað menningu og daglegt líf þjóðarinnar varðar. Hann er fyrst einna þekktastur sem gamanvísnahöfundur og flytjandi, gleðivaki og skemmtikraftur þjóðarinnar í áratugi. Þá var hann fréttamaður í áraraðir, fræðari um nánast allt milli himins og jarðar en í seinni tíð einkum um leynda náttúrufjársjóði þjóðarinnar sem því miður mörgum hefur verið spillt í darraðardansinum kringum gullkálfinn.

Á þessum tímamótum samfagnar þjóðin Ómari sem sjálfsagt lætur ekki elli kerlingu slá sig út af laginu og láti neinn bilbug á sér finna þrátt fyrir þennan aldur þegar flestir leggja árar í bát að loknu drjúgu ævistarfgi.  Ómar verður vonandi áfram iðinn við kolann, rétt eins og náttúrufræðingurinn David Attenborough, að fræða okkur áfram um leyndardóma íslenskrar náttúru og hvernig við komumst hjá að eyðileggja meira en orðið er.

Til lukku með afmælisdaginn Ómar!

Mosi


mbl.is Ómar skemmtir sér og gestum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband