Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Frestum framkvæmdum á Vestfjörðum

Vegaframkvæmd á Vestfjörðum krefst eins og á flestum stöðum mjög vandaðra vinnubragða. Þarna hefur ekki farið fram umhverfismat sem auðvitað ber að vinna áður en ákvörðun um framkvæmd er tekin.

Kannski mætti slá þessari framkvæmd á frest og hefja fremur upp framkvæmdir við fyrirhugaða Sundabraut. Þegar fyrstu hugmyndir um þá braut komu fram um 1980 eða jafnvel fyrr, var talað um að framkvæmdum yrði lokið í síðasta lagi 2006. Nú 3 árum síðar eru framkvæmdir ekki hafnar! En ítarlegt umhverfismat hefur farið fram og því ekkert til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir nú þegar, alla vega á þeim hluta sem enginn ágreiningur er um.

Sundabraut kemur fleirum að gagni en framkvæmdir á Vestfjörðum sem nýtast fremur fáum. Hluti af andvirði þeirra miklu fjármuna sem komu í ríkissjóð fyrir sölu Landssímans hérna um árið átti að vera varið í þessa framkvæmd.

Mosi


mbl.is Vegarlagning kann að hafa áhrif á erni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurlegt

Að líkja sér við Krist á krossinum er mjög óviðeigandi og jaðrar við guðlast. Þessi ræða Davíðs hefði betur verið óflutt en flutt af hans hálfu. Hann opinberaði endanlega að hann eigi við mjög alvarleg geðræn vandamál að stríða.

Miður er að heyra að meirihlutinn á þessari samkundu klappaði. Eru viðkomandi svo gjörsamlega sneyddir skynsemi og með öllu sviptir siðferðislegri vitund?

Mosi


mbl.is Geir: Ómaklegt hjá Davíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærum af Svissurum

Um helgina var eg í Skorradal. Gekk um fjöruna alllanga leið í allsterkum landsynningi. Eljaveður gekk öðru hvoru yfir og skyggni var fremur slæmt allan daginn. Um kvöldið lygndi en áfram gekk á með eljum.

Núverandi fjárhagsgrundvöllur björgunarsveita er skandall. Að halda uppi þessu mikilvæga starfi á tómum sníkjum auk þess að selja stórvarhugaverða vöru sem er mjög mikill mengunarvaldur að auki, flugelda, þekkist varla hjá venjulegu fólki. Kannski við Íslendingar séum óvenjulegt fólk sem á fátt sér líka.

Að ætlast til að fá tugi ef ekki hundruð sjálfboðaliða til hjálpar án þess að borga einustu krónu fyrir, er því algjör skandall! Sjálfboðaliðar leggja sig í töluverða hættu og eru fjarri heimili og ástvinum sínum.

Núverandi ástand ýtir undir kæruleysi sem getur orðið samfélaginu og einstaklingum mjög dýrt. Fyrir um 12-15 árum fór hópur erlendra ferðamanna þvert yfir Vatnajökul um hásumar. Hópurinn lenti í mjög slæmu veðri og mátti bæði heyra og sjá viðvaranir frá Veðurstofu. En samt var anað af stað. Ekki leið á löngu að ferðaskrifstofan sem í hlut átti varð gjaldþrota. Traust erlendu ferðamannanna var brostið og ferðaskrifstofan lenti í mjög slæmum og erfiðum málaferlum.

Í Sviss og mörgum öðrum löndum kostar töluvert að fá aðstoð. Þá þarf fólk eðlilega að kaupatryggingu áður en því er hleypt út í einverja óvissuferð. Mætti margt af Svissurum læra í þessum efnum.

Mosi


mbl.is Konan komin á sjúkrahús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verri er mikill auður en gott vit

Því miður hafa auðmennirnir meira vald en vit þeirra sem þessi mál þekkja í þaula. Húsafriðun hefur yfirleitt alltaf verið hunsuð þegar auðmennirnir sýna ráðamönnum seðlabúntin sem þeir þó ekki eiga. Mörg þessara húa er óttalegt klastur og nægir að nefna háhýsin sem byggð voru nyrst í Skuggahverfinu. Hvers vegna voru Kveldúlfshúsin látin þoka? Þau voru merk hús mjög sterklega byggð af miklum metnaði tengdum atvinnusögu þjóðarinnar. Auðvitað átti að finna þessum húsum nýtt hlutverk, t.d. á sviði menningar af ýmsu tagi.

Mosi


mbl.is Verstu skipulagsslysin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri

Geir Haarde og Davíð Oddsson reyndust ekki nógu vel sem forystumenn þjóðarinnar. Þeir voru ekki sérlega sannfærandi í  byrjun síðasta árs þegar grafalvarlegar upplýsingar um stöðu bankanna kom fram. Örfáum dögum síðar koma þeir fram í fjölmiðlum og telja stöðu bankanna aldrei hafa verið sterkari.

Þaðer kannski betra er seint en aldrei að viðurkenna afglöp sín. Geir hefur gert það að nokkru en hefur ekki axlað neina ábyrgð með því að viðurkenna að hann hafi verið flæktur í falli bankanna. Davíð hefur sjálfur ekki viðurkennd nein mistök. Hvorugur hefur sýnt minnstu iðrun.

Að segja eitt í dag á lokuðum fundi og þjóðinni annað á morgun: Það eru forn sannindi að gott sé að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri!

Þjóðin á erfitt með og getur því ekki fyrirgefið þessi hrikalegu mistök sem Sjálfstæðisflokkurinn ber öðrum flokkum fremur ábyrgð á.

Mosi


mbl.is Mistök gerð við einkavæðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við dáumst að lögreglunni

Stutt er stórra högga ámilli hjá vörðum laganna. Þeir eiga mikið lof skilið að uppræta hverja kannabisræktunina á fætur annarri. Ótrúleg bíræfni er hjá þessum afbrotamönnum að koma sér upp þessum flókna útbúnaði til að fela starfsemina eins og kom fram í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkveldi.

Glæpi hafa aldrei borgað sig. Þó svo að þeir komist ekki alltaf upp þá hlýtur samviskan að naga alla heilbrigða og heiðarlega menn, viti þeir upp á sig skömmina. Ræktun eiturefna getur valdið gríðarlegu böli og óhamingju margra þeirra sem ánetjast þessi varhugaverðu efni.

Við getum verið stolt af lögreglumönnum okkar. Óskandi er að lögreglan nái að uppræta með öllu þessa ógnvænlegu starfsemi og að hörð viðurlög verði til þess að þeir sem máliðvarðar taki út tilhlýðilega refsingu.

Mættu aðrir skúrkar taka til alvarlegrar umhugsunar að glæpir borga sig aldrei. Hrammur laganna reynist oft lengri og sterkari en oft er talið. Almenningur vill einnig verða lögreglumönnum innan handar með nytsamar ábendingar.

Mosi


mbl.is Enn ein ræktunin upprætt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útvarpsperlur: Innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið

Í kvöld fimmtudag 26. mars kl. 22:15 verður endurfluttur þáttur um inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Er um fyrri þátt að ræða. Heimildaþáttur þessi er frá árinu 1975. Þeir blaðamenn Páll Heiðar Jónsson og Baldur Guðlaugsson áttu veg og vanda af þessum þætti.

Fyrir 60 árum, nánar tiltekið þann 30. mars 1949 gerðist einstæður atburður sem lengi síðan hefur verið bitbein Íslendinga. Þar var tekin fyrir tillaga til þingsályktunar að veita ríkisstjórninni heimild að gerst aðili að NATO, Norður Atlantshafsbandalaginu.

Að öllum líkindum var undirbúningi þessa máls verulega áfátt, m.a. hefði verið farsælla að reyna til þrautar að ná þverpólitískri samstöðu um þessi mál. Tillöguna bar kannski fullbrátt að í ljósi þess að Kaldastríðið var þá þegar skollið á.

Fáar deilur hafa verið litaðar af jafnmikilli tilfinngu og þessi. Árin eftir stríð voru mjög viðkvæm og allt of mörg málefni í samfélaginu mjög eldfim.

Nú eru sífellt færri sem lifað hafa þessa atburði. Og þeir sem fóru á Austurvöll þennan dag verða færri með hverju árinu sem líður.

Annar viðburður og öllu friðsamari varð rúmum 20 árum síðar. Á Bastilludaginn, 14. júlí 1971 tók við Vinstri stjórn, fyrra ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar. Í Heilbrigðisráðuneytinu varð ráðherra Magnús Kjartansson. Hann beitti sér fyrir gríðarlegum breytingum sem fóru fremur hljótt. Hann afnam allar reglur, reglugerðir, samþykktir, tilskipanir og hverju nafni sem nefndust og tengdust hollustu og heilbrigðiseftirliti. Það var svo að í nánast hverju sveitarfélagi og hverju krummaskuði voru til misvísandi reglur um þessi mál frá ýmsum tímum. Sum sveitarfélögin voru jafnvel orðin mannlaus en samt voru reglurnar til sem enginn fór eftir. Magnús Kjartansson afnam semsagt allar þessar reglur og gaf út eina ítarlega reglugerð fyrir allt landið sem var grundvöllur að heilbrigðiseftirliti. Þessi reglugerð tók m.a. til matvælaeftirlits en víða um land var mikill misbrestur um gott heilbrigði. Víða var sóðaskapur mikill t.d. í sambandi við fiskvinnslu og voru gæði helstu útflutningsvöru Íslendinga, fisksins oft verðfelld. Oft bárust kvartanir frá fiskkaupendum, einkum í Bandaríkjunum. Það varð hlutskipti íslensks kommúnista, eins og Morgunblaðið nefndi Magnús gjarnan á þessum árum, að hlusta á kvartanir frá Bandaríkjamönnum.

Í 3ja binda sögu um Stjórnarráð Íslands 1964-2004 er vart minnst á þetta fremur en annað sem merkilegt telst nú. Hins vegar er um 80 síðum varið að rekja mjög ítarlega sögu hervenrdar á Íslandi. Ljóst er að bylting Magnúsar að koma á fót heilbrigðiseftirliti með einhverju viti hafði mun meiri áhrif á hag Íslendinga.

Íslendingar hafa upp til hópa litið á varnarmál eins og hverja aðra óværu. Af herliði Bandaríkjamanna vildu fæstir eiga nokkur samskipti við, nema til þess að græða. Svona var tíminn, því miður. Keflavíkurflugvöllur og tengsl við hann varð gróðrarstía spillingarinnar í landinu. Þar geysaði pólitísk spilling, efnahagsleg og ekki síst siðferðisleg spilling. Margir urðu skítugir upp fyrir haus í þessu sem olli tortryggni og jafnvel þaðan af verra.

Fróðlegt verður að hlusta á þennan þriðjungsaldar gamla þátt og heyra hvernig hann hefur staðist timans tönn. Sennilega yrðu efnistök eitthvað öðruvísi í dag, t.d. er hér um kjörið sjónvarpsefni að ræða fremur en með flutning í útvarp í huga.

Mosi


Réttarríkið: nauðsyn mikilvægra upplýsinga

Fyrir nokkrum árum ritaði eg grein í Morgunblaðið um fjármál stjórnmálaflokkanna, sjá greinina á þessari slóð: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1064742

Þar gerði eg grein fyrir hvernig þessum málum væri hagað víðast hvar erlendis en þá var nánast engin umræða ummþessi mál. Taldi eg nauðsynlegt að sett yrðu sérstök lög um starfsemi stjórnmálaflokka þar sem þeim væri skilt að gera opinberlega grein fyrir uppruna og notum þess mikla fjár sem þeir hefðu undir höndum.

Ekki voru allir sammála mér og þáverandi fjármálaritari Framsóknarflokksins skrifaði gegn þessum hugmyndum og birtist 10. febrúar 2006. Taldi viðkomandi greinarhöfundur af og frá nauðsynlegt og þaðan af síður þörf á að sett yrðu sérstök lagafyrirmæli um þessi mál. Enn svaraði eg og benti á 21. grein þýsku stjórnarskrárinnar í þessu sambandi, sjá: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1066726

Þar er m.a. vikið skýrt og skorinort í mjög knöppu máli að hlutverki stjórnmálaflokka í þýsku samfélagi sem og að fjármál þeirra varði þjóðina og réttarríkið miklu.

Má segja að þessar greinar hafi orðið til að hreyfa alvarlega við þessum málum á þingi og að sett voru lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Frá og með árinu 2007 ber stjórnmálaflokkum að gera opinberlega grein fyrir fjármálum sínum.

Ríkisendurskoðun hefur í skjóli upplýsingaskyldu tekið af skarið og birt þær upplýsingar sem nú megi allir þeir sem vilja, kynna sér þessi mál. Og þessi lög eru greinilega að sanna sig, að nauðsynlegt er í lýðræðislandi sé þetta eitt af grundvallaratriðum að hér geti dafnað réttarríki en ekki spillt flokksræði örfárra lykilstjórnmálaflokka.

Það er því mikið fagnaðarefni að þessi lög eru að sýna að setning þeirr var rétt skref í áttina að betra samfélagi. Því miður hefur verið spilling í íslensku samfélagi en hún hefur ekki verið viðurkennd sem slík. Núverandi framkvæmdarstjóri Sjálfstæðisflokksins hefur gengið fram fyrir skjöldu: Vafasömu fé ber að skila. Hvers vegna eiga björgunarsveitir að greiða stjórnmálaflokkum? Eða stéttarfélög og aðrir hagsmunaaðilar. Og kostulegast er að sjá vafasama starfsemi í Kópavogi sem græðir á að láta einfaldar og kærulausar stelpur fletta sig klæðum fyrir framan drukkna gróðapunga, greiða háar fjárhæðir í þennan sama flokk athafnamanna og fagurgala!

Mosi


mbl.is Skilar framlagi Neyðarlínunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrakleg einkavæðing bankanna

Þegar bankarnir voru einkavæddir, þá voru þúsundir Íslendinga sem keyptu litla hluti. Voru ekki hluthafar Búnaðarbanka um 30.000 að tölu og þar með var hann með einna fjölmennastu hluthafahóp að baki sér í öllum heiminum miðað við íbúafjölda.

Þessi stóri hópur greiddi fyrir hlutina með reiðufé! Síðan eru það svonefndir kjölfestufjárfestar sem með lánsfé kaupa út langflesta aðra smærri hluthafa. Þeir hafa farið illa að ráði sínu, dregið rekstur og eignarhald bankanna inn í öngstræti umdeilds brasks og undirferla. Þar var farið með fé sem þeir komust yfir án þess að eiga nema örlítinn hlut af því.

Kannski átti að binda einkavæðingu bankanna fyrst og fremst við þá sem greiddu hlutabréf sín fullu verði. Aldrei átti að veita þeim sem höfðu veðsett hluti sína sem greiðslutryggingu fyrir skuldum. Innleiða þyrfti í hlutafélagalögin ákvæði um að einungis þeir hlutir sem hafa verið óveðsettir síðastliðna 12 mánuði, þess vegna lengur, séu gildir í atkvæðagreisðlu á aðalfundi. Ætli stóru hluthafarnir margir hverjir geti þá ráðskast eins með þá miklu fjármuni sem í húfi eru.

Sjálfur átti eg dálítinn hlut í hinum föllnu bönkum, mest í Kaupþingi. Sá hlutur var að stofni til hlutabréf í gömlum hlutabréfasjóði, Auðlind, sem Pétur Blöndal alþingismaður átti þátt í að stofna fyrir 20 árum.

Við sem lögðum sparifé okkar fyrir er grimmilega refsað fyrir ráðdeildarsemi okkar.

Það var mikið traust lagt á bankana og þá sem þeim stjórnuðu. En svo virðist sem allt síðastliðið ár hafi verið kappkostað á þeim bæjum að breyta bönkunum í ræningjabæli. Ekkert virðist hafa verið ofar í huga þeirra sem stýrðu bönkunum en að lána vildarvinum út á vafasama pappíra með enn verri veðum.

Samfélagið er nánast rjúkandi rúst eftir þessa þjóna þess. Þeir reyndust bæði vera svikulir, þjófóttir og undirförlir. Eiga þeir nokkuð gott skilið annað en að vera handteknir og látnir standa reikningsskap gerða sinna?

Mosi


mbl.is Lentu í höndunum á ævintýramönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr verður Davíð allur!

Árið 2002 var afdrifaríkt Íslendingum:

Í ágúst rann útboðsfrestur Landsvirkjunar út án þess nokkurt fyrirtæki kæmi með tilboð í byggingu ævintýrisins við Kárahnjúka. Davíð Oddsson lagðist þá í flakk til Ítalíu og dvaldist í góðu yfirlæti hjá Berlúskóní sem sagður er vera einn spilltasti þjóðarleiðtogi heims. Ekki liðu nema nokkrar vikur frá heimkomu Davíðs að viljayfirlýsing kom frá umdeildu ítölsku byggingafyrirtæki, Imprégíló að taka að sér þetta skítverk. Ekki þarf að rekja þá sögu nánar.

Þetta sama haust var einnig í deiglunni einkavæðing Landsbanka og Búnaðarbanka. Svo virðist vera að mikil ósköp lá á að koma öllu þessu á flot án þess að undirbúningur teldist nægur. Greinilegt er að slegið hefur verið af öllum varúðarráðstöfunum í þessum flóknu málum sem hafa komið okkur landsmönnum mjög illa í koll.

Davíð ásamt Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum hefur reynst okkur dýr, meira að segja rándýr.

Betra hefði heima setið en heiman farið. Þá hefði Landsvirkjun verið í dag svo að segja skuldlaus í miklum blóma. Ríkissjóður sömuleiðis þar sem ekki hefði verið farið út í þessa einkavæðingavitleysu. Mjög fljótlega var þessum gömlu ríkisbönkum breytt úr því að vera hreinir viðskiptabankar í fjárfestingabanka með vafasöm markmið. Undir lokin hafði þeim verið breytt í ræningjabæli, sumir viljað líkja þeim jafnvel við spilavíti. Og þessa virkjanavitleysu fyrir austan má segja hafi einnig haft svipuð auðkenni. Það reyndist Íslendingum afardýr reynsla að mjög illa hafði verið undirbúið og sumt alls ekki eins og það sem kom okkur spánskt fyrir sjónir: starfsmannaleigur og margvíslegt svínarí sem gekk út á að svíkja sem mest á vinnandi fólki og íslenskum skattyfirvöldum. Nokkur íslensk fyrirtæki sem áður höfðu verið stöndug, fóru fjárhagslega mjög illa út úr þessu.

Betur hefði verið að doka með og jafnvel hætta við einkavæðingu og ákvörðun um virkjanavafstur þar eystra. Æðibunugangurinn til að auka stundarfylgi þáverandi stjórnarflokka hefur snúist upp í martröð íslensku þjóðarinnar.

Fróðlegt verður að lesa nánar um þessi mál í Morgunblaðinu. Fletti blaðinu öllu í svefnrofunum snemma í morgun en fann hvergi neina frétt um þetta mál fyrr fremur smá klausu á forsíðunni blasti við. Svona getur manni förlast sýn en verra er þegar ráðamenn þjóðarinnar gera önnur eins afglöp og hér hefur verið lýst.

Dýr verður Hafliði allur sagði mosfellskur prestur á 12. öld af sérstöku tilefni. - Dýr verður Davíð allur þegar öll kurl hafa verið dregin til grafar!

Mosi


mbl.is Samson hótaði viðræðuslitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 22
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband