Bloggfærslur mánaðarins, október 2009

Samanburður er oft slæmur

Þessar kannanir eiga oft ríkan þátt í að auka óánægju og depurð. Samanburður milli stétta og þjóða er oft á tíðum ekki auðveldur.

Fyrir nokkrum árum áttum við Íslendingar að vera hamingjusamari en flestar aðrar þjóðir og gott ef ekki að sama könnun sagði okkur ekki að Ísland væri eitt af minnst spilltustu löndum heims. Annað hefur komið í ljós: óvíða virðist spillinmg hafa grassérað jafn mikið og hérlendis sem leiddi af sér að allt fjármálakerfi landsins og atvinnuvegir hafa verið nánast í uppnámi og meira og minna lamað.

Sú var tíðin að fáir töldu sig verða hamingjusamari en þegar unnt var að vinna langt fram á nótt. Þá var ekki látið nægja að hafa fyrir saltinu út í grautinn, heldur átti að vera unnt að leyfa sér allt milli himins og jarðar. Kaupæði hefur ætíð fylgt okkur og alls konar delludýrkun. Það hefur komið fram í hvernig við höfum valið í kosningum. Þeir hafa oftast náð lengst sem látið hafa mest bull frá sér fara, hversu innihaldslaust sem það hefur verið. Okkur voru boðið gull og boðnir grænir skógar bæði á vinstri sem hægri ef við völdum Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningarnar 2003. Þá stóð til að einkavæða bankana og þá var hafinn undirbúningur að einu mesta og versta fólskuverki íslenskrar sögu: byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þessi framkvæmd átti sinn þátt í að falsa kaupmátt á Íslandi og auðvelda mjög útrásarvíkingum og bröskurum áætlunarverk sitt: að hafa sem mest fé út úr þjóðinni. Þeir litlu fjármunir sem voru greiddir fyrir bankana voru dýrustu miljarðar Íslandssögunnar. Sjálfsagt hafa þessir stjórnarflokkar notið góðs af þessu öllu saman og mikið greitt í kosningasjóði þeirra.

Svo var ákveðið að skylda stjórnmálaflokka á Íslandi að gera opinbera grein fyrir uppruna og notum þess fjár sem þeir hafa undir höndum í starfsemi sinni. Það kostaði ýmsar málalengingar og fannst sumum ráðamanna verið væri að skipta sér af málum sem engum kæmi við! Þá gerðist það nú í vor að í ljós kom skömmu fyrir kosningar að ekki væri einleikið með fjáraustur í Sjálfstæðisflokkinn árið 2005. Í hlut átti eitt af almenningshlutafélögum landsins og var ákveðið af aðstandendum flokks þessa að endurgreiða skyldi hið mikla fé enda var almenningshlutafélag þetta illa statt fjárhagslega. Ekki fer neinum sögum hversu þessu er varið nú með endurgreiðslur þessar, kannski sjálfur Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki efni á að veita sér þann lúxús að endurgreiða fé sem einu sinni hefur verið veitt í þá hít.

Skiljanlegt er að Frakkar sé sú þjóð sem mest lífsgæði hefur um þessar mundir. Þeir vinna til að lifa, borða og drekka. Þeir eru sennilega mestu lífskúnstnérar heimsins í dag. Þeir hafa efni á því og láta aðra ekki hafa fyrir hlutunum.

Skiljanlegt er að Bretar séu mun óhamingjusamari. Þeir vinna mikið en bera lítið úr býtum. Kannski þeir sitja uppi með álíka vandræði og við Íslendingar með ríkisstjórnir sem lítt hefur gert í að auka lífsgleði þjóðarinnar. Gordon Brown reynir að koma hluta af vandræðunum yfir á Ílendinga sem sjálfsagt hefðu betur hugsað sig um hvort bankarnir skyldu vera falir bröskurum fyrir 6-7 árum sem nú hafa skilið eftir sig tóm vandræði og skuldir. Þetta var eitthvað sem „snillingum“ á sviði fjármála í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum yfirsást. Eða var það alltaf ljóst hvernig gæti farið?

Ef svo reynist vera er glæpurinn meiri en ella mátti búast við.

Mosi


mbl.is Lífsgæði Breta minni en annarra Evrópubúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Erlend fjárfesting

Fjárfesting erlendra aðila á Íslandi er góðra gjalda verð svo langt sem hún nær.

Á undanförnum árum hefur markvisst verið að laða hingað erlenda stóriðjufursta til að koma peningunum sínum í verksmiðjur til að framleiða ál vegna hagstæðra möguleika að framleiða rafmagn. Voru sendir strákar af Finni Ingólfssyni með bækling um „Lowest energy prices“, ætluðum að draga hingað til lands álmenn af sem flestum þjóðum. Tókst þannig til að nú er svo komið að um 75-80% af öllu rafmagni framleiddu hér á landi fer í að knýja grýtur álbræðslanna. Eigi fer neinum sögum um skiptingu tekna Landsvirkjunar, hversu mikið kemur frá þessum sömu aðilum. Væri mikil þörf að fá vitneskju um slíkt en um það er farið sem mannsmorð.

Ef Bandaríkjamenn tækju upp á því að safna saman áldósum og öðru sem til fellur af einnota umbúðum framleiddum úr áli og nýttu til endurvinnslu, væri grundvöllur að loka öllum álverum ekki aðeins á Íslandi heldur öllum Norðurlöndunum. Þetta gæti orðið raunveruleiki innan nokkurra ára og kæmi ÓÍslendingum sennilega jafnilla og þegar síldin tók upp á þeim ósköpum að láta sig hverfa fyrir 40 árum. Þá var efnahagur okkar að verulegu leyti tengdur síldveiðum og verkun síldar til útflutnings. Álið er í dag komið í svipaða stöðu og gæti orðið okkur jafnhált illa í hendi sem síldin forðum. Það er því heimska að einblína einungis á að áliðnaður geti þrifist hér.

Við höfum hagað okkur mjög barnalega gagnvart álbræðslumönnum að við höfum ekki krafist af þeim skatts vegna gróðurhúsaáhrifa. Hvarvetna um hinn kapitalíska heim er verið að taka upp CO2 skatta og nemur greiðsla fyrir slíkan kvóta um 25 evrum á hvert tonn af CO2. Allir þeir sem vilja auka áliðnað hér á landi, hafa ekki minnst aukateknu orði á nauðsyn að við fylgjum fordæmi annarra þjóða hvað þetta viðkemur. Þetta eru yfirleitt sömu aðilarnir sem töluðu fyrir upptöku fiskveiðikvótakerfisins á sínum tíma. Allt átti að vera sem frjálsast og engar hömlur að leggja á úthlutun slíkra kvóta. Þessir aðilar vilja ekki leggja neinar hömlur á stóriðjuna.

Ef tekið væri á þessu, þá gætu skattgreiðslur vegna útblásturs numið allt að 50 milljóna evra á ári miðað við núverandi framleiðslu. Þetta eru um 10 milljarðar og myndi muna um minna.

Erlend fjárfesting á að vera velkomin til landsins hvort sem fjárfestar vildu byggja upp heiðarlega og arðsama starfsemi á borð við gagnaver, framleiðslu á einhverjum nytjahlutum eða jafnvel tínslu og vinnslu íslenskra fjallagrasa. Sennilega gæti slík vinnsla verið mjög arðsöm miðað við fremur lítlifjöruga fjárfestingu. Þetta gætum við Íslendingar séð sjálfir um í samvinnu við væntanlega kaupendur en fram að þessu hefur áhugi fyrir fjallagrasatínslu verið fremur lítill enda hefur verið litið niður á slíka starfsemi.

Það er margs að gæta þegar erlendir fjárfestar eru dregnir hingað norður undir heimskautsbaug. Þeir vilja gjarnan græða sem mest á starfsemi sinni en því þarf einnig að fylgja heilbrigð viðhorf til samfélagslegrar ábyrgðar sem íslensk stjórnvöld hafa oft á tíðum yfirsést þegar stórar ákvarðanir voru teknar. Er merkilegt að svo virðist sem frumkvæði hefur stundum verið meira hjá þessum erlendu fjárfestum að vilja eitthvað smávegis gott af sér leiða vegna óvenjuhagstæðra aðstæðna hérlendis í skjóli vilhallrar stjórnvalda.

Mosi


mbl.is 70% vilja erlenda fjárfestingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Loki Laufeyjarson fyrirmynd Framsóknar?

Í norrænni goðafræði segir frá Loka Laufeyjarsyni. Hann átti til jötna að telja, sonur Fárbauta þess jötunns, sem stjórnaði hættulegum blossa-eldingum. Loki átti bræður sem einnig þóttu varhugaverðir og ótti stafaði af. Meðal þeirra voru Býleist og Helblinda. Móðir Loka hét Laufey eða Nál. Var haft fyrir satt að hún hefði alið Loka eftir að elding Fárbauta laust hana. Loki gegnir því hlutverki sem í trúarbragðafræðum hefur verið kallað bragðarefur (á ensku trickster). Loki leikur á goðin, hrekkir þau, hegðar sér ósæmilega og brýtur þær reglur sem hafa áður verið settar af goðunum en slík hegðun er dæmigerð fyrir bragðarefi. Loki hefur þó þá sérstöðu að hann er oft illgjarn og sjaldan leiða hrekkir hans til nokkurra heilla, allra síst fyrir hann sjálfan, því goðin refsa honum oft harðlega fyrir það sem hann gerir. Frægt er að hann kom Baldri hinum helga ás fyrir kattanef á miður góðan hátt.Af örlögum Loka er þekkt sú saga að hann var handsamaður af Þór og bundinn með þörmum Nara sonar síns í helli og eitur látið renna á hann. Sigyn, kona hans, sat þó hjá honum og hélt fyrir keri svo eitrið myndi ekki renna framan í hann. Þegar Sigyn tæmdi kerið lak eitrið þó á Loka og urðu þá landskjálftar. Í heimsslitaorrustunni Ragnarökum barðist Loki með jötnum gegn ásum. Hann barðist hatrammlega gegn Heimdalli og varð báðum af bani.

Heimild: að mestu eftir: http://is.wikipedia.org/wiki/Loki_Laufeyjarson

Að ýmsu leyti minnir Sigmundur Davíð á Loka. Hann er seinþreyttur til vandræða og grípur hvert einasta tækifæri sem honum gefst ásamt Höskuldi félaga sínum sem mín vegna má vera nefna Þröskuldur. Þeir félagarnir kappkosta að þvælast sem mest fyrir ríkisstjórninni, gera allt mögulegt tortryggilegt en gagnrýni þeirra er oftast eins og óhljóð í tómri tunnu. Er gagnrýni þeirra því oftast lítils sem einskis virði.

Kannski þessir þokkapiltar séu að vera einhverjir þeir dýrustu þingmenn sem sögur fara af í seinni tíð.

Mosi
mbl.is Mun ekki biðjast afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsverkefni

Ljóst er að mjög mikilvægt er að vönduð rannsókn á þessu ótrúlega máli nái fram að ganga. Þetta er eitt meginverkefni núverandi ríkisstjórnar og því má ekki undir neinum kringumstæðum hætta núverandi stjórnarsambandi meðan rannsókn hefur ekki farið fram að öllu leyti.

Þessar deilur um Icesafe eru smámunir sem skipta minna máli. Ekki er undir neinum kringumstæðum unnt að komast fram hjá því skeri, þar verður að ganga til samninga við ofureflið til þess að tryggja að atvinnuvegirnir og fyrirtækin geti starfað.

Ef þetta Icesafe mál verður að því skrýmsli sem sumir vilja draga upp með dökkum litum, þá er ljóst að réttarríkið íslenska líði undir lok. Við getum ekki slegið um okkur að „við greiðum ekki fyrir óreiðumenn“. Þessi yfirlýsing hefur reynst okkur það dýr að hún kallaði yfir okkur að bresk yfirvöld beittu hermdarverkalögum á íslensku þjóðina. Ef Icesafe fellir ríkisstjórnina þá er mikil hætta á að Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn komist í Stjórnarráðið. Markmið margra pólitíkusa í þeim flokkum er að koma félögum sínum til bjargar sem nú eru hver á fætur öðrum að festast í net réttvísarinnar. Mikil hætta er á að steinar verði lagðir í götu Evu Joly, saksóknara og þeirra sem vinna að þessu erfiða opg umfangsmikla sakamáli. Græðgin og léttúðin á ekkert erindi í Stjórnarráðið aftur! Það yrði rothögg á annars þokkalegt orð sem Ísland hefur haft fram að þessu. Ætli yrði ekki litið á stjórnmálin á Íslandi eins og tíðkast víða í svörtustu Afríku?

Siðferði á sviði stjórnmála hefur ekki verið upp á marga fiska á undanförnum áratug. Einkum hafa Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn aukið spillinguna þegar þeir hafa ráðið í Stjórnarráðinu og gert sitthvað til að draga þjóðina á tálar.

Réttvísin verður því að fá frið og aðstöðu til þess að vinna sig áfram gegnum allt svínaríið.

Mosi

 


mbl.is Rannsókn á hruni fær aukið fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju íslenska þjóð!

Í fréttinni segir að alls hafi útskrifuðust 2810 stúdentar úr 32 skólum skólaárið 2007-2008, 251 fleiri en skólaárið áður sem er 9,8% fjölgun. Ekki hafa áður útskrifast svo margir stúdentar frá íslenskum skólum á einu skólaári.

Þegar Mosi útskrifaðist frá Menntaskólanum í Hamrahlíð vorið 1972 voru útskrifaðir stúdentar á öllu landinu rúmlega 700 frá 4 skólum: Menntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Laugavatni, Menntaskólanum í Reykjavík auk Menntaskólans í Hamrahlíð sem útskrifaði í 3ja sinn. Það þóttu sumum afarslæm tíðindi og raddir voru uppi sem töldu að íslenska þjóðfélagið hefði ekkert við slíkan fjölda að gera. Litið var oft niður til okkar sem höfðum aflað okkur bóklegrar menntunar, einkum var það áberandi í stopulli sumarvinnu þessara ára.

Meðal annarra voru gamlir íhaldsmenn sem töldu Menntaskólann í Reykjavík eiga einan þann rétt að hafa að útskrifa stjúdenta. Sem kunnugt er var það lengi vel fyrst og fremst forréttindi embættismanna og auðugri borgara að koma börnum sínum til mennta. Fram undir miðja 20. öldina voru nánast allir forystumenn í íslensku samfélagi útskrifaðir frá Menntaskólanum í Reykjavík.

Á þessu varð breyting þá Jónas frá Hriflu heimilaði Gagnfræðaskóla Akureyrar að efna til sérstakrar lærdómsdeildar og útskrifa stúdenta. Þetta var í vetrarbyrjun 1927 og þar með hófst starf MA.

Rúmlega 2.800 stúdentar eru tæp 1% þjóðarinnar. Fullyrða má að með betri menntun sé lagðar traustari og betri undirstöður fyrir íslenska þjóðarbúið.

Í fréttinni segir ennfremur:

„Brautskráningar úr starfsnámi á framhaldsskólastigi voru 3165 og hafa ekki verið fleiri á einu skólaári. Brautskráðir nemendur með sveinspróf voru 678. Sveinum fjölgaði um 14 frá fyrra ári (2,1%) og eru karlar rúmlega þrír af hverjum fjórum sem ljúka sveinsprófi (76,7%) en konum fjölgaði um fimmtung (21,5%) meðal sveina frá fyrra ári. Þá voru 878 brautskráningar með ýmiss konar starfsréttindi á framhaldsskólastigi. Brautskráðir iðnmeistarar voru 178 og hafa ekki áður verið fleiri“.

Menntun hefur aldrei verið jafn fjölbreytt og nú. Múrar milli háskóladeilda hafa verið rofnir en áður var allt framhaldsnám mjög í föstum skorðum og mátti engu hnika til. Nú geta t.d. þeir sem útskrifast sem smiðir frá starfsmenntaskóla bætt við sig stúdentspróf og haldið áfram námi í tæknifræði eða jafnvel byggingaverkfræði.

Góð menntun er eitt það dýrmætasta í samfélaginu sem bæði kemur því sem einstaklingnum til góða.

Mosi

 


mbl.is Aldrei fleiri stúdentar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir ólíkir menn

Ögmundur er er einn af okkar allra einlægustu og heiðarlegustu þingmönnum og ráðherrum okkar sögu. En auðvitað er ekki auðvelt að vera allt einn af ráðamönnum þjóðarinnar og síst af öllu í öllu því umróti sem fylgdi hruninu mikla.

Hins vegar er í pólitíkinni að oft verður að fara samningaleiðina og slá af hugsjónum sínum. Aldrei er eins mikilvægt og einmitt nú að halda gömlu spillingarflokkunum, Framsókn og Sjálfstæðisflokknum frá Stjórnarráðinu. Ef þessir flokkar kæmust að valdastólunum aftur myndi það verða að öllum líkindum forgangsverkefni að segja upp ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í rannsókn bankahrunsins Evu Joly, saksóknurunum og grafa grunsemdirnar um ábyrgð á fallinu niður í öskuhauga sögunnar. Er það sem við viljum?

Nú kann svo að fara að gamla goðið Sjálfstæðismanna, Davíð núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, fái innan tíðar stöðu grunaðs manns. Að veita Landsbankanum 100 milljarða án trygginga eða veðs er mjög alvarlegt trúnaðarbrot gagnvart Seðlabankanum og þar með eiganda hans, þ.e. þjóðinni. Hér er um mjög alvarlegt lagabrot sem fellur beint undir 249. gr. hegningarlaganna um umboðssvik: „Ef maður, sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað, sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum, og má þyngja refsinguna, ef mjög miklar sakir eru, allt að 6 ára fangelsi“.
Þessi grein er sett til verndar því, að að menn sem hafa fjárreiður fyrir aðra, noti aðstöðu sína sér eða öðrum til hags, en umbjóðanda sínum til tjóns.

Hann er auk þess hlutdeildarmaður í þessu gríðarlega fjármálasukki, tók e.t.v. ekki beinan þátt í því, en hann vissi mun meira en hann hefur vilja láta uppi.

Ólíkt hafast menn að, annar er örlagavaldur þjóðarinnar sem hefur heillað hóp manna og kvenna kringum sig rétt eins og Berlúskóní hinn ítalski. Hann hefur lagt tækifæri í hendur fjárglæframanna til óhugnarlegra fjármálaævintýra sem engu hefur skilað nema endalausum skuldaslóðum og gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja.

Hinn er vandlátur og má ekki til þess vita, að vera tengdur við eitthvað sem er umdeilt eða bindur þjóðina. 

Mosi


mbl.is Höfum ekkert við AGS að gera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af ávöxtunum skulum við þekkja þá!

Fullyrðing krónprins Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssonar um „að ríkisstjórnin væri ekki starfi sínu vaxin“ er eldgömul lumma. Ræða hans boðaði ekkert nýtt. Sérkennilegt er að snupra mann sem ekki er viðstaddur og senda honum tóninn. Það hefur yfirleitt ekki verið sérlega drengilegt.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins beið afdrifaríkt skipbrot. Eftir nær 18 ára samfellda þrásetu hennar skilur hún Íslendinga eftir nánast á byrjanareit. Enginn ráðamanna í Sjálfstæðisflokknum hefur beðist opinberlega afsökunar. Skildu þeir vera hafnir yfir allan grun um græsku?

Nei ætli að svo sé. Á þessum bæ virðist enginn kunna að skammast sín. Allt virðist vera öðrum að kenna. Það verður kannski málflutningur krónprinsa Sjálfstæðisflokksins að ábyrgðin á hruni bankanna sé flestum öðrum að kenna en ALLS EKKI þeim ósnertanlegu í Valhöllu.

Af ávöxtunum skulum við þekkja þá! Þetta eru erfingjar valdsins sem komu okkur Íslendingum í þá miklu klípu sem við nú erum í. Glæpnum verður ekki stolið af þeim!

Mosi


mbl.is Stjórnarkreppa í landinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar fréttir

Frétt um góða kornuppskeru er okkur hvatning að rækta meira. Við Íslendingar höfum á undanförnum árum framleitt um 10% af því korni sem notað er til manneldis og skepnufóðurs. Á þessu sviði er enn „óplægður“ akur og við ættum að geta auðveldlega framleitt meira.

Landið okkar er víða mjög vannýtt og má sjá t.d. á Suðurlandi stór svæði sem nýta mætti til kornræktar.

Kornrækt hefur verið reynd í öllum landsfjórðungum og aukinni reynslu og þekkingu getum við gert meira.

Mosi


mbl.is Met kornuppskera
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ritskoðun næst á dagskrá?

Í morgun var gefin út af ritstjórn Morgunblaðsins eftirfarandi tilkynning:

„Að gefnu tilefni er skráðum notendum blog.is bent á eftirfarandi atriði sem finna má í skilmálum blog.is:

"Notkun á texta, skjölum, hugbúnaði, myndböndum, tónlist og öðru höfundaréttarvörðu efni á síðunni er óheimil nema með samþykki rétthafa. Slíkt efni verður fjarlægt að beiðni rétthafa. Ef notandi bloggsíðu gerist ítrekað sekur um að setja höfundaréttarvarið efni inn á síðu áskilur Morgunblaðið sér rétt til þess að loka viðkomandi síðu."

Notendum er bent á að fara yfir vefi sína og athuga hvort þessir skilmálar hafi hugsanlega verið brotnir.

Umsjónarmönnum hafa borist ábendingar um að einhverjir notendur blog.is hafa virkjað tónlistarspilara og sett þar inn tónlist án tilskilinna leyfa. Samkvæmt lögum er óheimilt að setja þar inn tónlist sem er höfundarréttarvarin nema með leyfi rétthafa. Hægt er að afla sér frekari upplýsinga um höfundarréttarmál á vef STEFs, http://www.stef.is/STEF/Hofundarrettur/Log/

Hér með er óskað er eftir að allt efni sem brýtur í bága við höfundarrétt verði fjarlægt af notendum blog.is fyrir 1. desember nk. Vinsamlega hafið samband ef óskað er frekari upplýsinga. Þeir notendur sem ætla sér að nota tónlist á síðum sínum áfram, eru hvattir til að leita leyfis hjá STEFi og öðrum rétthöfum.

Umsjónarmenn blog.is“

Svo mörg voru þau orð.

Hugur minn segir að þessi tilkynning sé til þess fallin að hræða okkur bloggara sem höfum verið þátttakendur í mótmælum síðastliðinn vetur, krafist aukins lýðræðis og þar með betra samfélags. Einn af vinsælustu bloggurum á Morgunblaðsvefnum er Lára Hanna Einarsdóttir. Hún hefur verið mjög iðin og látið heimildir tala sínu máli. Vel má það vera, að með því að rifja sitt hvað upp, þá hafi hún valdið tortryggni þeirra sem telja valdið vera sitt.

Auðvitað ber að virða eignarrétt hugverka. En þar gildir ólíku hvort verið sé að hafa tekjur af eða að verið sé að nota slíkt eins og um einkaafnot sé að ræða. Þekkt er hins vegar hver viðhorf Kínverja til hugverka er. Þeir virða almennt ekki þennan sjálfsagða rétt og hafa komist upp með það jafnvel að hafa verslunarhagsmuni af.

Þegar höfundur texta styðst við tiltekna heimild og jafnvel höfundarvarið efni, þá er ólíkt farið hvort viðkomandi geti heimildar annars vegar eða hins vegar geri eldri hugmyndir að sínum. Fyrri aðferðin er viðurkennd en hin alls ekki. Það þykir vera sjálfsögð kurteysi að geta heimildar og hvaðan hún er komin, hvers hún og hvar megi finna hana. Oft er svonefndur sæmdarréttur upphaflegum höfundi fyllilega samboðinn enda sé ekki um nema brot verks að ræða. Full útgáfa verks er auðvitað háð höfundarrétti einkum þegar um hugsanlegan ávinning er að ræða.

Það er óskandi að þeir Morgunblaðsmenn fari varlega í þessum málum enda er andrúmsloft ærið blandið um þessar mundir. Við erum þúsundir fyrrum áskrifendur Morgunblaðsins sem tókum það mjög illa upp þegar einn umdeildasti maður landsins er ráðinn ritstjóri og sögðum upp blaðinu. Á sama tíma var 40 blaðamönnum sagt upp við blaðið. Þetta er vægast sagt mjög óvenjulegt ástand að ekki sé dýpra tekið í árina.

Mosi

 


Hver á tölvupósta?

Ljóst er að tölvupóstar eru með viðkvæmasta efni á ljósvakanum.

Spurning er hver á tölvupósta og hvort þeir séu undir eigarrétti einhvers? Á fyrirtæki t.d. tölupósta starfsmanna sinna? Á þessu er mikill vafi.

Með tölvupóstunum geta allir þ. á m. starfsmenn fyrirtækja haft mun betri samskipti en gegnum síma. En tölvupóstarnir geta verið eðlis síns vegna, kjörinn vettvangur fyrir „njósnir“ um starfsmenn sem síminn hafði ekki nema með sérstökum hlerunarbúnaði.

Það er mjög góð og farsæl regla að vanda vel til tölvupósta. Efni þeirra getur lent í höndum þeirra sem þeim ekki er ætlað og geta komið fólki í vandræði, jafnvel þó það viti ekki um það. Netstjórar og umsjónarmenn tölvukerfa geta „lesið“ nánast allt sem fer um tölvusamskipti umsjónarsviðs viðkomandi. Yfirmenn geta hugsanlega gefið skipun um að fá að „skyggnast“ í þessi mál án þess að að nokkur verði var við slíkt.

Á stríðsárunum komust Englendingar að því hvernig lesa bæri úr dulmálslyklum þýska sjóhersins. Átti að vara skipalestirnar við fyrirhugaðri árás? Ef það hefði verið gert hefðu Þjóðverjar staðfestingu á því að Englendingum hefði tekist að ráða dulmálslykilinn.

Það er því æskilegt að hafa allt þetta í huga.

Þá er spurning um meint trúnaðarbrot starfsmanns. Er stætt á því að atvinnurekandi rannsaki sjálfur slíkt eða ber viðkomandi að kalla til lögreglu? Það liggur ekki á hreinu hvað þetta varðar.

Það geta verið mörg vafamál í þessu og ekki alltaf ljóst hver t.d. hefur hugverkarétt á ákveðnum upplýsingum. Á t.d. atvinnurekandi upplýsingar sem starfsmaður hefur unnið að í frístundum sínum og eykur við þær í sínu starfi? Eða fyrrverandi starfsmaður sem vinnur áfram að tilteknu verkefni áfram eftir að hafa látið af starfi? Á þetta reyndi í dómsmáli fyrir um 20 árum en ekki var að öllu leyti leyst úr ágreinignsmáli því sem vafi kann að leika á.

Mosi


mbl.is Meint trúnaðarbrot til athugunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband