Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Ótrúlegt

Ekki er Mosi tilbúinn að gleypa við þessu enda er yfirleitt þessu öðruvísi farið að minkurinn drepur og etur það sem honum líst vel á.

Annars er svo margt óvenjulegt og ótrúlegt í náttúrunni að það er vissulega fróðlegt ef satt reynist að urriði hafi etið minkahvolp. Þekkt er að urriðinn er grimmur ránfiskur sem etur bókstaflega allt sem að kjafti kemur.

Mosi 


mbl.is Urriði át mink
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samruni eða ekki samruni?

Frægt er tilsvar Jóns Hreggviðssonar þegar hann var inntur eftir því hvort hann hefði orðið böðlinum að bana: Hef eg drepið mann eða hef eg ekki drepið mann. Hver hefurm drepið mann og hver hefur ekki drepið mann? Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?....

Hvenær er samruni gildur og hvenær er hann ekki gildur? Ljóst er að samruni Geysir Green Energy og Reykjavik Energu Invest var ekki formlega samþykktur af eigendum Orkuveitum Reykjavikur, pólitískum fulltrúum, kjörnum af kjósendum í Reykjavík. Til þess skorti samþykki þessara stjórnmálamanna, stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrir vikið hefur þetta samrunaferli þetta verið óvirkt á meðan.

Hvernig skyldi standa á því að Samleppniseftirlitinu hafi ekki verið þessi staðreynd ljós? Hefur hamagangurinn alveg farið framhjá þeim herrum sem ráða á þeim bæ?


Mosi


mbl.is Geysir Green Energy sektað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eignarrétturinn og trjárækt

Eignarrétturinn er mjög ríkur á Íslandi en það eru ekki allir sem virða hann.

Fyrir nokkrum árum festi eg kaup á dálítilli spildu þar sem eg hefi verið að planta út nokkrum þúsunda trjáa. Fyrstu sumrin var til lítils að planta því girðingar voru sumar lélegar og jafnvel varla uppihangandi. Sauðfé sótti í spilduna og gæddi sér jafnóðum á því sem plantað var. Þó átti þetta svæði að vera fjárlaust. Sá sem á búfé virðist njóta meiri réttar en aðrir, t.d. þeir sem eru að reyna að bæta landið með skógrækt. Það varð því að leggja ansi mikið á sig að kaupa girðingarefni og bera það allt um langan veg í spilduna. Alls keypti eg 600 metra af vírneti, um hálfan kílómetra af gaddavír og hátt í 200 girðingarstaura. Þetta var mikil vinna og gríðarleg fyrirhöfn að koma þessu öllu í landið sem að mestu leyti er hallamýri mót norðri. Svo var einn góðan veðurdag að áliðnu sumri spildan algirt og þótti mér allvel að verki staðið. Ætli hafi verið til stoltari landeigandi og skógarbóndi en eg um þær mundir eftir alla þessa miklu fyrirhöfn, svita, blóð og tár. Í fyrravor keypti eg hjá gróðrarstöðinni Barra á Egilsstöðum alls 2.000 trjáplöntur. Það var mikil fyrirhöfn að koma þeim öllum, 50 bökkum í spilduna og gróðursetja. Fjölskyldan dundaði sér við þetta vikum saman og við keyptum 40 kíló af blákorni til að setja með plöntunum. Það lætur nærri að um 20 grömm dreifist að meðaltali með plöntu hverri sem á víst að vera nokkuð hæfilegt. Þá höfum við sett mörg hundruð stiklinga af ösp, víði, sólberjum auk þess sem við höfum haft með okkur allmargar reyniplöntur og sitthvað sem til fellur í trjáræktinni. 

Til að mynda skjól höfum við sankað að okkur afgangstimbri, vörubrettum og ýmsu enda er mikið vetrarríki þarna skammt austan við Mosfellið og niður undir Leirvogsá. Þá set eg upp prik við sem flestar plöntur til að unnt sé að finna þær aftur í mýrastörinni og grasinu. Þá þarf að ganga á landið, reita frá og hlynna.

Eftir að friðun hefur tekist, fór að bera nokkuð á að gulvíðir, loðvíðir og fjalldrapi komi upp á ýmsum stöðum okkur til mikillar ánægju.

Í vor var mikill spenningur að sjá hvernig trjágróðurinn kom undan vetri. Í fyrstu virtust afföll vera umtalsverð en þegar líða tók á vorið og trjágróðurinn að taka við sér var það mikið gleðiefni að berja augum að furðumikið líf leyndist jafnvel í þeim plöntum sem þó virtust vera með öllu lífvana. Jarðagróðurinn er ótrúlegur fjörmikill og þegar honum er sinnt vel og hlúð að er góðs árangurs að vænta. Þær trjátegundir sem hafa komið einna best út eru rússalerki, birki, sitkagreni og blágreni en stafafura og elri hefur átt undir högg að sækja.

Fyrir nokkrum vikum var eg var við að farið hafði verið með fjórhjól um spilduna. Sá sem þar var að verki hefur að öllum líkindum verið að gera við girðinguna umhverfis höfuðborgarsvæðið og markar Græna trefilinn. Ósköp var varið gætilega og er ekkert við því að segja en betur hefði verið að fá leyfi. Öllu verra var að sjá traðk eftir um tug hesta sem farið hefur verið um landið en einhverra hluta vegna virðist viðkomandi ekki hafa fundið neina aðra leið en þessa. Eðlilega sárnaði mér að sjá plöntur troðnar niður í svaðið, dálítill uppeldisreitur okkar var illa farinn þar sem leið hestakarlanna lág um. Við erum að rækta upp trjáplöntur af fræi og verður ekki að vænta neins árangurs þetta árið þar sem allt er traðkað niður.

Það er því spurning um eignarréttinn. Hann er varinn af stjórnarskrá og þegar stórbokkar eiga í hlut þá er ekki von á góðu fyrir venjulegt fólk að eiga við þá. Og þegar stórbokkar vaða yfir lönd annarra og spyrja hvorki kóng né prest þá er ekki heldur von á góðu. Eigum við kannski von á öllum mögulegum hremmingum án þess að fá rönd við reist?

Þess skal getið að tvívegis hefi eg sótt í Pokasjóð vegna girðingarinnar þar sem þarna er um nyrsta svæðið í Mosfellsbæ tilheyrandi Græna treflinum. Þar sem þessum sjóð er nú ætlað að styrkja allt milli himins og jarðar þá hefur fjármagn til umhverfisbóta verið takmarkað sem því nemur. Var þó Pokasjóði þessum komið á fót á sínum tíma einungis til að efla starfsemi Landverndar á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Honum var því miður stolið af íslenskum athafnamönnum og hefur starf Landverndar síðan verið sniðinn mjög þröngur stakkur.

Mosi


Greiðum betur götu ferðamanna!

Fyrir nokkru var í fréttum að tveir ráðherrar, bæjarstjóri og nokkrir aðrir mættu með skóflur sínar og tilefnið var að taka fyrstu skóflustungurnar fyrir nýju álveri við Helguvík á Suðurnesjum! Þetta var í alla staði mjög kátlegt og undarlegt að ráðamenn skuli hafa sig út í svona furðulegt athæfi eins og stóriðjan hefði þá með öllu í vasanum.

Vestur við Djúpalónssand yst á Snæfellsnesi voru byggð nokkur almenningssalerni fyrir nokkrum árum. Vegna einhverra tæknilegra annmarka virðast þau aldrei hafa verið tekin í notkun! Á dögunum var eg ásamt fleirum íslenskum leiðsögumönnum á ferð með skipsfarþega um Snæfellsnes. Meðalstórt skemmtiferðaskip kom í Grundarfjörð og fóru alls 10 hópferðabílar þaðan  í skoðunarferð umhverfis Snæfellsnesið. Á þrem stöðum var gerður stuttur stans: við Búðir þar sem kirkjan var opnuð og margir gengu niður í fjöruna í mjög fögru veðri. Þar var dvalið í hálftíma. Þá var ekið til Arnarstapa og gengið frá höfninni meðfram fuglabjörgunum að Gatkletti og þvert yfir grundirnar framhjá Bárði Snæfellsás, minnismerkið fallega á Arnarstapa. Þar var lengsta viðdvölin eða heill klukkutími og tekið var fram á upplýsingablaði fyrir okkur leiðsögumennina að þar væri einasti möguleikinn fyrir gestina okkar til að komast í hreinlætisaðstöðu! Eðlilega voru langar biðraðir við þær örfáu salernisskálar sem buðust á Arnarstapa. Ekki væri gott að segja hvernig unnt væri að taka á móti farþegum skemmtiferðaskipa á Snæfellsnesi ef húsráðendur í ferðaþjónustunni á Arnarstapa hefðu lokað á þessa sjálfsögðu þjónustu.

Við  Djúpalónssand var stansað einnig í hálftíma og þar blasir þessi fína hreinlætisaðstaða við bílastæðið en með óvirk! Nú er Djúpalónssandur innan þjóðgarðsins á Snæfellsnesi og ættu því þessi mál að vera í nokkrum forgangi.

Hvort skyldi vera meira forgangsmál hjá ráðamönnum þjóðarinnar að greiða götu ferðamanna eða álbræðslumanna? Svo virðist sem ráðherrar og aðrir rjúki upp milli handa og fóta ef einhverjum dettur álbræðsla í hug og mæti þá gjarnan með skóflur sínar. Mættu ráðmenn vera duglegri að mæta þegar taka þarf hendi á svona smámálum.

Fyrir langt löngu þegar ströng viðurlög voru við jafnvel smáyfirsjónum á Íslandi þá voru oft aftökur árlegt brauð. Böðullinn var stundum gamall og sjónlaus, stundum var notast við gamla og bitlausa öxi. Af þessu tilefni samþykkti Öxarárþing á Þingvelli 1602 að útvega bæði nýja öxi og yngri böðul til að klaufalegar aftökur yrðu ekki til að landið yrði ekki að spotti erlendis!

Að sinna brýnustu þörfum ferðafólks á Íslandi ættu að verða forgangsverkefni íslenskra stjórnvalda. Því mættu álbræðslur og önnur stórmengandi starfsemi bíða uns búið væri að bæta aðstöðu allra þeirra sem sinna þurfa skyndiþörfum sínum á ferðum sínum um landið.

Kannski að ef einhverjum dellumönnum dytti í hug að byggja álbræðslu á Snæfellsnesi. Ætli vissir ráðmenn væru þá jafnfljótir að hlaupa til með skóflurnar sínar og á dögunum við Helguvík?

Mosi 

 


Vistakstur er skynsamlegur

Fátt er jafn skynsamlegt og að temja sér vistvænan akstur. Með honum er átt við að haga akstri ökutækis á þann hátt að hraði sé sem jafnastur, einnig að láta sig berast með straumnum hægt en bítandi.

Því miður eru allt of margir ökumenn sem virðast ekki átta sig á þessu: þeir auka hraðann til að komast fram úr sem flestum bílum, fara jafnvel að eins og þeir séu að skíða í Bláfjöllunum eða Skálafelli til að komast sem hraðast á áfangastað og þar með til að komast á undan öðrum í biðröðina við skíðalyfturnar.

Að aka fram úr öðru ökutæki hægra megin er ekki aðeins harðbannað: það er stórhættulegt og beinlínis heimskulegt. Mörg slys má rekja til slíks háttalags og kennsla um vistakstur ætti sérstaklega að vera beint til þeirra sem þannig aksturslag stunda.
Aukinn agi í umferðinni er mjög æskilegt enda er tillitsemin það sem mestu máli skiptir fyrir alla akandi vegfarendur.

Mosi 


mbl.is Vistaksturskennsla styrkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru maðkar í mysunni?

Í málflutning margra sem tjá sig um sum mál t.d. umhverfismálum eru oft miklar og alvarlegar veilur. Þeir sem eru fylgjandi álverum og færa þau rök fyrir máli sínu að það sé svo sérstaklega „umhverfisvænt“ að reka álbræðslur og aðra stóriðju hér á landi sé vegna þess að fremur lítil mengandi starfsemi er vegna orkuöflunar. En það virðist þessum ágætu löndum okkar gleymast að flutningar á hrááli eru mjög umhverfisspillandi. Þegar hráál er flutt á stórum skipum jafnvel allar götur frá Ástralíu, þá gleymist að þessi skip eru yfirleitt látin sigla tóm til baka, sem sagt engrar hagkvæmni er unnt að finna til að nýta ferðina og draga þar með úr kostnaði.

Svo má ekki gleyma því að ekki verður endalaust unnt að virkja á Íslandi. Nú er orkukreppa að tröllríða heimsbyggðinni með mjög hækkandi verði á bensíni og olíum. Við höfum nánast ekki sinnt í neinn hátt að koma okkur upp umhverfisvænum almenningssamgöngum eins og það liggur þó beinast við í landi þar sem á þó búa yfir svo mikilli orku! Hvernig skyldi standa á þessu? Hafa stjórnvöld lítinn sem engann áhuga fyrir þessu verkefni? Kannski að stóriðjan hafi það mikil áhrif að ráðherrar og bæjarstjórar eru fyrr tilbúnir að hlaupa til með skóflurnar sínar ef fréttist um vilja að reisa álver í einhverju krummaskuðinu? Mér hefur því fundist að stóriðjan sé hreinlega með ríkisstjórnina í vasanum og er sennilega ekki einn um þá skoðun. Hefur stóriðjan slík hreðjatök á íslenskum stjornvöldum að það verður að koma til nýrrar ríkisstjórnar á Íslandi með ný og breytt viðhorf ef ekki á að fara illa?

Við Íslendingar fáum engu ráðið hvernig samið er um rafmagnsverð við þessar álbræðslur. Í reikningum Landsvirkjunar er ekki einu sinni hirt um að sundurliða hvað kemur inn í kassann annars vegar frá almenningsveitum eins og Rarik og Orkuveitu Reykjavíkur og hins vegar stóriðjunni. Nemur velta Landsvirkjunar þó mjög umtalsverðum fjárhæðum enda ekki eins og einhver ómerkileg sjoppa á næsta götuhorni. Bankarnir sundurliða tekjur sínar og er það þeim til mikillrar fyrirmyndar enda eru þeir að lögum sem almenningsfyrirtæki að vera galopnir með bókhald sitt sem Landsvirkjun er einhverra hluta vegna ekki. Þar fáum við ekkert að lesa né sjá. Er ástæða fyrir því? Er verið að fela e-ð og hvað þá? Eru tekjurnar af stóriðjunni feimnismál? Það er mjög mikil ástæða til þess að gruna um að einhverjir maðkar kunni að leynast í mysunni.

Íslenskur réttur er ákaflega einfaldur á mörgum sviðum og á fyrst og fremst við ástand sem áður ríkti í fámennu og frumstæðu landbúnaðarsamfélagi. Sem betur fer hefur ýmislegt verið bætt úr en annað lítt eð janfvel ekki. Við erum langt á eftir öðrum þjóðum með sitthvað sem snertir t.d. störf stjórnmálaflokka. Þeir eru ekki nefndir í stjórnarskrá lýðveldisins og eru þó meginvettvangur til að móta skoðananmyndun á sviði stjórnmála eins og öllum löndum. Í stað þess að þeim séu settar eðlilegar og skunsamar reglur þá gekk t.d. ekki þrautalaust fyrir nokkrum árum að koma því að hjá ríkisstjórninni að nauðsyn bæri að setja sanngjarnar og skynsamlegar reglur um starfsemi stjórnmalaflokka. Þar sem kæmi fram greinargóð skilgreining um hlutverk þeirra í lýðræðislegu samfélagi, um uppruna, meðferð og not þess fjár sem þeir fá til ráðstöfunar. Hvaða flokkur sýndi einna mestu andstöðu í þessari umræðu? Það var Framsóknarflokkurinn og lenti Mosi í ritdeilu á síðum Morgunblaðsins við þáverandi fjármálaritara Framsóknarflokksins. Sá kvaðst í fyrstu engrar þörf vera á svona fáranlegum reglum enda allt í besta lagi í þessum málum! En Sjálfstæðisflokkurinn lét eiginlega Framsóknarflokkinn einan um að hafa frumkvæði að samningu þessara einföldu reglna um fjármál flokkanna, auðvitað þannig um búið að þær gætu ekki skaða flokkinn! Svona er pólitíkin einslit og þröngsýn á Íslandi í dag. 

Í öllum löndum eru þessar reglur mun umfangsmeiri og ítarlegri. Þær eru settar til að koma í veg fyrir að hagsmunaaðilar geti keypt sér pólitíska stuðningsmenn og vildarvini sem áhrif hafa í samfélaginu. Í hvaða frjálsu og lýðræðislegu samfélagi vill maður horfa upp á að hagsmunaaðili kaupi sér þingmenn og jafnvel heilu stjórnmálaflokkanna? Á mannamáli er rætt um mútugreiðslur og fyrirgreiðslu en þær hafa tíðkast afarlengi í öllum samfélögum, einnig á Íslnadi þó svo að enginn virðist vilja kannast við það fyrirbæri.

Þjóðverjar mega minnast þess að í ársbyrjun 1933, nokkrum vikum fyrir valdatöku Adolfs Hitlers, komu saman helstu samstarfsmenn hans saman við hóp þýskra stóriðjuhölda, nokkra yfirmenn þýska hersins Reichswehr og landeigendanna gömlu júnkaranna. Allir voru þeir sammála um að vinna saman, með góðum vilja og gagnkvæmu trausti að styðja þennan flokk svo hann fengi tækifæri að leiða þjóðina út úr þeim erfiðu ógöngum sem kreppan í kjölfar efnahagshrunsins í Þýskalandi á sínum tíma hafði leitt til. Í dag vilja fæstir vita um þetta afar umdeilda mál en á það reyndi auðvitað mjög augljóslega í réttarhöldunum í Nürnberg þegar þetta glæpagengi hafði verið upprætt og varð að standa fyrir rétti og látnir sæta einhverri ábyrgð.

Gott væri að rifja sitthvað af þessu tagi til alvarlegrar umhugsunar. Vítin eiga jú að vera til að varast þau. Það gæti leitt til óeðlilegs valdamisrétti á Íslandi ef stóiriðjan verður allt of sterk í þessu litla íslenska samfélagi. Er nokkuð annað sem gæti verið í samkeppni við hana eins og fiskur eða ferðaþjónusta? Eða landbúnaður? Varla. Ekki er sérstaklega mikill skilningur ráðamanna fyrir þeim atvinnugreinum.

Eigum við ekki að minnast að lokum Einars þveræings þegar hann sagði í frægri ræðu á þingi þegar þingheimur stóð frammi fyrir því hvort gefa ætti Ólafi konungi Noregs Grímsey: „þá ætla eg mörgum kotbóndunum þykja verða þröngt fyrir dyrum“.

Ætli lýðræði sem byggir fjárhagslegan grundvöll sinn á eintómri stóriðju sé upp á marga fiska, rétt eins og gervilýðræðið hjá Hitler?

Mosi

Einkennilegt kæruleysi

Segja má að Bretar hafi sýnt af sér ótrúlega léttúð í ýmsu sem tengist meðferð upplýsinga sem ber að fara leynilega með. Nú er þessi mistök önnur á stuttum tíma þar sem mikilvæg leyniskjöl eru skilin eftir í lestum. Spurning hvort þetta sé vegna sparnaðar að þessir sendimenn eru ekki á ferðinni í farartækjum þar sem svona mistök eru útilokuð.

Fyrir nokkru komu upp alvarleg mistök þar sem bresk skattyfirvöld komu við sögu. Þar voru viðkvæmar upplýsingar sem vörðuðu milljónir manna.

Spurning er hvernig þessi mistök hafa orðið til og hver beri ábyrgðina á þeim? 

Mosi 


mbl.is Fleiri bresk leyniskjöl finnast í lest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurmat söguskoðunar

Eðlileg viðbrögð sagnfræðinga við gamalli klisju

Því miður eigum við Íslendingar oft til að einfalda flókna hluti og fra styttri leiðina að raunveruleikanum. Við horfum upp á að margir vilja einblína um of á eina tegund atvinnu eins og þessi álversdraumur allt of margra. Er það raunverulega eini möguleikinn til að útvega nokkrum hundruðum Íslendinga atvinnu? Þar eru fjölmargir möguleikar fyrir hendi eins og fram kemur í máli sem betur fer í máli margra.

Söguskoðun Íslendinga á uppruna þjóðarinnar er umvafin rómantískri klisju um einhverja frelsisþrá um að setjast í í landi með betri landkosti en voru í Noregi. Þetta auðvitað smellpassaði við söguskoðun þeirra aldamótamannanna um 1900 sem áttu þátt í að efla baráttuanda gegn yfirráðum Dana hér á sínum tíma. Eins og kunnungt er voru raunverulegar ástæður landnáms Íslands mjög mikil fjölgun íbúa í Noregi og breytingar á stjórnarfari sem heimildir geta um að ekki hafi allir verið sáttir við. Það var ekki frelsið sem slíkt heldur fyrst og fremst öryggið. Þeir höfðu tekið þátt í uppreisn gegn Haraldi konungi og voru því rúnir trausti hans. Svipað er uppi á teningnum þegar Snorri Sturluson flýr Noreg eftir að Skúli hertogi beið algjört afhroð í uppreisn hans gegn Hákoni konungi 1238. Snorra beið ekkert nema ofsóknir og dauði enda ber öllum landsmönnum skylda að verja konung landsins þegar hann er í hættu.

Sagnfræðingar eiga heiður skilinn að vekja athygli á þessu. Söguskoðun verður að vera í fullu samræmi við allar staðreyndir sem máli kunna að skipta.  Sagnfræðingarnir minnast á niðurstöður fornleifarannsókna og þurfa þeir að greina okkur betur frá færa betur rökstuðning sinn til stuðnings máli þeirra.

Ljóst er að lítt numið land hafi heillað þá sem komu frá landi þar sem landþrengsli og ófriður voru fyrir hendi. En Ísland skorti sitthvað í gæðum sem Noregur gnæfð af: furu- og greniskógur þar sem sækja mátti sér við til bygginga húsa og skipa. Sennilega hafa þeir landkostir verið landnámsmennirnir sáu mest eftir.

Mosi 


mbl.is Yfirvöld með úrelta söguskoðun?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lakasti forseti Bandaríkja Norður Ameríku kannski frá upphafi?

Bush forseti BNA var kjörinn með nokkrum vafaatkvæðum. Þar með fengu Bandaríkin einn furðulegasta forseta á valdastól, mann sem fór fremur eftir eigin hugrenningum og grunsemdum um að ekki væri allt með felldu með stríðsundirbúning í Írak en ekki raunveruleikanum og þaðan af síður því sem vitað var um hryðjuverk. Því miður gengu ýms ríki heims í gilduna þar á meðal íslenska ríkisstjórnin sem studdu eitt umdeildasta stríð í gjörvallri sögu heimsins: innrásina í Írak.

Nú hefur loksins runnið upp sá raunveruleiki að þessi innrás og þar með árásarstríð var ekki til framdráttar nema síður væri.

Báðir forsetaframbjóðendur Demókrata og Repúblikana hafa lýst yfir efasemdum um þetta stríð Bush forseta og vilja gjarnan ljúka því sem fyrst en með fullri sæmd BNA. Það er mjög skiljanlegt í alla staði enda er þetta stríð einna dýrast sem BNA hefur nokkru sinni tekið þátt í.

Mosi 

 

 


mbl.is Bush segist hlíta dómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á skammsýni að stjórna för?

Fyrst hvalveiðimenn telja að nóg sé af hrefnu í sjónum af hverju í ósköpum skjóta þeir dýrin sem næst landi? Er það til að storka ferðaþjónustunni? Eða er þetta af hagkvæmnisástæðum að fara sem styst eftir hvölunum?

Þessi veiðileyfi eru stjórnvöldum til háborinnar skammar. Erlendir ferðamenn eru tilbúnir að greiða háar fjárhæðir til að sjá þessi sjávarspendýr. Þeir vilja sjá dýrin lifandi en kæra sig ekkert um þau þegar þau hafa verið deydd, helst að þeir fordæmi svona athæfi.

Eins er með lundaveiðar: þær eru einnig til skammar og ætti varla að vera svo illt í búi hjá mönnum að þeir þurfi að leggja fyrir sig veiðar á þessum fuglum sem er alltaf mikil eftirvænting og ein særsta stund þeirra ferðamanna sem koma hingað þegar þeir fá að sjá þessi dýr.

Það er af sömu skammsýni sem hvítabjörninn var felldur núna um mánaðarmótin. Að öllum líkindum hefði hann getað átt náðuga daga nálægt selalátrum, t.d. við Hvítserk við vestanverðan Húnaflóa. Það hefði verið stórkostleg viðbót að bæta við möguleika til hvítabjarnarskoðnar í Húnavatnssýslum.

Mosi 


mbl.is ,,Þær eru þar sem maturinn er”
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband