Eignarrétturinn og trjárækt

Eignarrétturinn er mjög ríkur á Íslandi en það eru ekki allir sem virða hann.

Fyrir nokkrum árum festi eg kaup á dálítilli spildu þar sem eg hefi verið að planta út nokkrum þúsunda trjáa. Fyrstu sumrin var til lítils að planta því girðingar voru sumar lélegar og jafnvel varla uppihangandi. Sauðfé sótti í spilduna og gæddi sér jafnóðum á því sem plantað var. Þó átti þetta svæði að vera fjárlaust. Sá sem á búfé virðist njóta meiri réttar en aðrir, t.d. þeir sem eru að reyna að bæta landið með skógrækt. Það varð því að leggja ansi mikið á sig að kaupa girðingarefni og bera það allt um langan veg í spilduna. Alls keypti eg 600 metra af vírneti, um hálfan kílómetra af gaddavír og hátt í 200 girðingarstaura. Þetta var mikil vinna og gríðarleg fyrirhöfn að koma þessu öllu í landið sem að mestu leyti er hallamýri mót norðri. Svo var einn góðan veðurdag að áliðnu sumri spildan algirt og þótti mér allvel að verki staðið. Ætli hafi verið til stoltari landeigandi og skógarbóndi en eg um þær mundir eftir alla þessa miklu fyrirhöfn, svita, blóð og tár. Í fyrravor keypti eg hjá gróðrarstöðinni Barra á Egilsstöðum alls 2.000 trjáplöntur. Það var mikil fyrirhöfn að koma þeim öllum, 50 bökkum í spilduna og gróðursetja. Fjölskyldan dundaði sér við þetta vikum saman og við keyptum 40 kíló af blákorni til að setja með plöntunum. Það lætur nærri að um 20 grömm dreifist að meðaltali með plöntu hverri sem á víst að vera nokkuð hæfilegt. Þá höfum við sett mörg hundruð stiklinga af ösp, víði, sólberjum auk þess sem við höfum haft með okkur allmargar reyniplöntur og sitthvað sem til fellur í trjáræktinni. 

Til að mynda skjól höfum við sankað að okkur afgangstimbri, vörubrettum og ýmsu enda er mikið vetrarríki þarna skammt austan við Mosfellið og niður undir Leirvogsá. Þá set eg upp prik við sem flestar plöntur til að unnt sé að finna þær aftur í mýrastörinni og grasinu. Þá þarf að ganga á landið, reita frá og hlynna.

Eftir að friðun hefur tekist, fór að bera nokkuð á að gulvíðir, loðvíðir og fjalldrapi komi upp á ýmsum stöðum okkur til mikillar ánægju.

Í vor var mikill spenningur að sjá hvernig trjágróðurinn kom undan vetri. Í fyrstu virtust afföll vera umtalsverð en þegar líða tók á vorið og trjágróðurinn að taka við sér var það mikið gleðiefni að berja augum að furðumikið líf leyndist jafnvel í þeim plöntum sem þó virtust vera með öllu lífvana. Jarðagróðurinn er ótrúlegur fjörmikill og þegar honum er sinnt vel og hlúð að er góðs árangurs að vænta. Þær trjátegundir sem hafa komið einna best út eru rússalerki, birki, sitkagreni og blágreni en stafafura og elri hefur átt undir högg að sækja.

Fyrir nokkrum vikum var eg var við að farið hafði verið með fjórhjól um spilduna. Sá sem þar var að verki hefur að öllum líkindum verið að gera við girðinguna umhverfis höfuðborgarsvæðið og markar Græna trefilinn. Ósköp var varið gætilega og er ekkert við því að segja en betur hefði verið að fá leyfi. Öllu verra var að sjá traðk eftir um tug hesta sem farið hefur verið um landið en einhverra hluta vegna virðist viðkomandi ekki hafa fundið neina aðra leið en þessa. Eðlilega sárnaði mér að sjá plöntur troðnar niður í svaðið, dálítill uppeldisreitur okkar var illa farinn þar sem leið hestakarlanna lág um. Við erum að rækta upp trjáplöntur af fræi og verður ekki að vænta neins árangurs þetta árið þar sem allt er traðkað niður.

Það er því spurning um eignarréttinn. Hann er varinn af stjórnarskrá og þegar stórbokkar eiga í hlut þá er ekki von á góðu fyrir venjulegt fólk að eiga við þá. Og þegar stórbokkar vaða yfir lönd annarra og spyrja hvorki kóng né prest þá er ekki heldur von á góðu. Eigum við kannski von á öllum mögulegum hremmingum án þess að fá rönd við reist?

Þess skal getið að tvívegis hefi eg sótt í Pokasjóð vegna girðingarinnar þar sem þarna er um nyrsta svæðið í Mosfellsbæ tilheyrandi Græna treflinum. Þar sem þessum sjóð er nú ætlað að styrkja allt milli himins og jarðar þá hefur fjármagn til umhverfisbóta verið takmarkað sem því nemur. Var þó Pokasjóði þessum komið á fót á sínum tíma einungis til að efla starfsemi Landverndar á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála. Honum var því miður stolið af íslenskum athafnamönnum og hefur starf Landverndar síðan verið sniðinn mjög þröngur stakkur.

Mosi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gangi þér vel, Mosi minn góður, með trjáræktina þína. Hún er afar ánægjuleg þegar maður sér árangur. En er girðingin þín nógu góð, ef hvorki fjórhjólara né hestamenn gera sér grein fyrir því hvorum megin þeir eiga að vera við hana?

Sigurður Hreiðar, 24.6.2008 kl. 12:56

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Sæll Sigurður og bestu þakkir fyrir góðar kveðjur.

Þrjú hlið eru á girðingunni sem eg þarf greinilega að loka betur, kannski helst með gaddavír! Það virðist fátt eða jafnvel ekkert sem stoppar menn og skepnur betur en gaddavírinn. Í morgun var eg örstutt í spildunni sem er í landi Minna-Mosfells að sýna gömlum kunningja trjáræktina og njóta góðrar ráðleggingar. Við fundum ryðgaða bárajárnsplötu, settum í elsta hliðið og grjót ofan á. Fátt er hestum jafnilla við og ryðgað járn! Þetta hlið er mér alveg ónýtt og gagnlaust nema til að komast yfir girðinguna. Príla á hentugri stað myndi duga betur!

Í gærkveldi skrapp eg inn að Fossá í Hvalfirði í sjálfboðaliðavinnu hjá skógræktarfélagi Mosfellsbæjar sem á þessa jörð með Skógræktarfélögunum í Kópavogi, Kjalarnesi og Kjós. Heldur þótti mér klént hversu landið var gróið sem plantað var í. Fyrir 2-3 árum settum við niður um 20 bakka í spildu rétt hjá sem hafði verið plægð og sett í random eitur til eyðingar grasi. Ekki fundust margar trjáplöntur af þessari útplöntun en svona 25-30. Sem sagt vel innan við einn bakki! Þetta þykir vera lélegur árangur og bændum þættu það slæmar heimtur af fjalli að fá kannski ekki nema 3-4 prósent af lömbunum sem þeir reka á afrétt að vori. Trjárækt þarf að stunda með metnaði og góðum vonum að ná árangri.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 25.6.2008 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 242836

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband