Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Var hálendi Austurlands fórnað til að bjarga ítalska fyrirtækinu Impregilo frá gjaldþroti?

Í ágúst árið 2002 rann út frestur í útboði Landsvirkjunar á evrópska
efnahagssvæðinu um tilboð við gerð stíflu við Kárahnjúka og virkjunar án þess
að nokkuð verktakafyrirtæki hefði sent inn tilboð.

Fyrrihluta septembermánaðar þessa sama árs dvaldi Davíð Oddsson þáverandi
forsætisráðherra suður á Ítalíu sem persónulegur gestur umdeildasta
stjórnmálamanns í Evrópu. Í blaðafregnum lét okkar maður vel af dvöl sinni þar
syðra með félaga sínum Berlusconi. Ekki liðu nema nokkrar vikur frá heimkomu
Davíðs að tilboð barst Landsvirkjun frá stórfyrirtækinu Impregilo. Fyrirtæki
þetta hefur sérhæft sig í verktökum við mjög erfið ytri skilyrði og hefur
verið með umdeildar framkvæmdir víða um heim. Þannig hafa þeir verið í umfangsmiklum framkvæmdum í suðaustur Tyrklandi á áhrifasvæði
Kúrda. Þær eru í líkum stíl og austur við Kárahnjúka en umfangsmeiri. Er vatni úr stórfljótinu Efrat veitt vestur á bóginn og verður það mun rýrara af vatni þegar það rennur áfram um hina fornu Mesapótamíu. Þessar framkvæmdir hafa meira og minna verið unnar undir tyrkneskri hervernd!

Þá hafði Impregilo ratað í ýms vandræði, erfitt mútuhneyksli í Lesotho í
Suður-Afríku sem kostaði fyrirtækið offjár. Auk þess var tap upp á um 800
milljónuir evra á verki á Norður-Ítalíu við gerð jarðgangna og hraðbrauta
(Autostrada) sem nam hærri fjárhæðum en allt hlutafé (Stocks) Impregilo sem nemur
709 milljónum evra. Mútuhneykslið í Suður-Afríku kostaði fyrirtækið áþekka
fjárhæð.

Um mitt ár 2002 stóð þannig á fyrir Impregilo að það var orðið mjög skuldsett. Bankarnir, skuldheimtuaðilarnir voru eðlilega uggandi um sinn hag og settu stjórnendum Impregilo skýr skilyrði fyrir því að ef ekki yrði gengið að fyrirtækinu og það gert upp að stjórnendur þess gætu sýnt fram á þeir gætu haft verulegan hag af nýju stóru verkefni. Ellegar yrði krafist gjaldþrotaskipta og það án tafar!

Það er undir þessum kringumstæðum sem Impregilo sendir inn tilboð um byggingu
Kárahnjúkavirkjunar eftir að þeir forsætisráðherranir Berlúskóni og Davíð
Oddsson höfðu rætt náið saman í septemberbyrjun 2002. Stjórnendur Landsvirkjunar
voru því ærið fegnir að fá upp í hendurnar að því að þeir töldu hagstætt tilboð.

Eftir fall Berlusconi var eitt af fyrstu verkum Prodístjornarinnar að hætta við
byggingu brúar yfir Messínasund en ríkisstjórna Berlusconi hafði samið við
Impregilo um verkið sem var þegar hafið. Eigi fer mörgum sögum af því verkefni
í íslenskum fjölmiðlum!

Nú víkur sögunni til Danmerkur:
Fyrir um áratug var auglýst útboð á evrópska efnahagssvæðinu á vegum
Kaupmannahafnarborgar um gerð neðanjarðarlestakerfis, verkefni sem
fékk nafnið Metró. Systurfyrirtæki Impregilo sendi inn mjög hagstætt tilboð og
Danir gengu þegar til samninga. Verkið var unnið fljótt og vel og afhent í fyllingu tímans. En lokareikningurinn hljóðaði upp á fjórfalda fjárhæð upphaflega tilboðsins! Þeir dönsku komu af fjöllum þó svo engin séu fjöllin í Danmörku og urðu ekki en lítið
hlessa á þessum lokareikningi. Þeir ítölsku bentu Dönum á að útboðsgögnin hafi
verið öll meira og minna vitlaus: Jarðvegur hafi verið lausari í sér og annarar
gerðar en kveðið var á í útboði og það hafi valdið því að verkið allt hafi orðið
vandasamara og kostaðarsamara. Þá hafi þeir ætíð fengið samþykki eftirlitsaðila
fyrir öllum frávikum og breytingum á verkinu sem máli skiptu. Til að forðast gerðardóm og eftirfarandi rándýr málaferli ákvað danska ríkið að hlaupa undir bagga með Kaupmannahafnarborg enda rambaði höfuðstaður Danmerkur á barmi gjaldþrots eftir þetta Metróævintýri.

Nú eigum við í nánustu framtíð von á lokareikning frá Impregilo fyrir verktöku þeirra á Austurlandi. Hvort hann reynist einnig fjórfalt hærri en þeir buðust upphaflega til að vinna verkið skal ósagt. En ljóst er að útboðsgögn á þessu verkefni var vissulega verulega áfátt í veigamiklum atriðum vegna ónægra rannsókna. T.d. var ekki ljóst hvort gera þyrfti sérstakar ráðstafanir vegna hugsanlegra sprungna í stíflustæðinu eins og síðar kom fram. Þá reyndust jarðlög undir Þrælahálsi sérstaklega þrælerfið ítalska fyrirtækinu. Hvort tveggja átti sinn þátt í seinkun framkvæmda og hafa framkvæmdir ábyggilega ekki orðið hagkvæmari fyrir vikið.

Kárahnjúkavirkjun verður með nokkurri vissu töluvert dýrari en upphaflega var reiknað með. Spurning er hvort ítalska fyrirtækið gangi ekki mjög hart að Landsvirkjun að reikningar verði gerðir þegar upp enda hefur verið sagt um þetta ítalska fyrirtæki að það hafi fleiri lögfræðinga í sinni þjónustu en verkfræðinga! Þrýstingur er á Ítalina að þeir standi í skilum við bankana og geri upp sínar skuldir.

Verður Landsvirkjun kannski tekin upp í skuld og í höfuðstöðum Landsvirkjuna á Háaleitisbraut verði þá eftirleiðis aðallega töluð ítalska af stjórnendum á þeim bæ? Þá má ekki gleyma að nokkuð ljóst er að hugur núverandi stjórnvalda stendur til að einkavæða fyrirtækið. Þá getur ríkisstjórnin slegið tvær flugur í einu höggi: losna við erfið uppgjörsmál og einkavæða Landsvirkjun í leiðinni! En þá þarf að hafa hraðar hendur eins og í sláturhúsunum því nú eru aðeins nokkrar vikur í þingkosningar!

Spurningin er:

Var hálendinu fórnað við byggingu minnisvarða umdeildra framkvæmda til að bjarga ítölsku fyrirtæki ekki síður en að afla Framsóknarflokknum fleiri atkvæða á Austurlandi?

Mosi

esja@heimsnet.is


Til lukku!

Til lukku með þessa góðu viðurkenningu Þorsteinn!

Fróðlegt væri að heyra meira um rannsóknir þínar og störf.

Við Íslendingar búum yfir mjög góðri þekkingu og reynslu í orkumálum. Nú í ár verður vonandi fagnað vel að 100 ár eru liðin frá því að bóndi í Mosfellssveit fékk þá hugmynd að legja vatnsleiðslu um 1100 metra leið úr hver í bæ sinn.

Ekki leist prestinum alls kostar vel á þetta tiltæki bóndans og er sú þjóðsaga var sögð að hann hafi varað við að einskis væri góðs að vænta úr því neðra! En að öllum líkindum var presti umhugað að bóndi reisti sér ekki hurðarás um öxl. En tilraunin lukkaðist og það var aðalatriðið.

Við búum að þessu fikti bóndans síðan og nú eru yfir 90% húsa á Íslandi hituð upp með jarðvarma!

Mosi alias


mbl.is Þorsteini Inga Sigfússyni veitt eina æðsta viðurkenning rússneska lýðveldisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustið

Athygli vekur hve múslimar í Lundúnum bera mikið traust til breskra stjórnvalda. Ætli ástæðan fyrir því að þeir eru í Bretlandi og svo margir þar, sé ekki vegna þess að þeir vilja ekki búa við annað stjórnarfar en þar er. Kannski að í upprunalegu heimalandi þeirra sé stjórnarfarið gjörspillt og mannréttindi fótum troðið. Kannski ofsóknir, atvinnuleysi, enginn möguleiki að sækja sér staðgóða og vandaða menntun? Skiljanlegt er að fólk komi sér í burtu frá baslinu, fátæktinni og kúguninni og leiti sér því búsetu í friðsömu landi þar sem það fær að lifa betra lífi.

Er þetta ekki hvatning til þess að þjóðir heims leiti leiða hvernig unnt sé að efla sem mest lýðræði og traust í öllum löndum heims? Af hverju mætti ekki oftar líta til merkra mannvina og hugsjónamanna á borð við Nelson Mandela? Hann er guðfaðir nútíma lýðræðis í Suður Afríku sem margir mættu taka sér til fyrirmyndar. Þá er Mandela aðalhöfundur stjórnarskrár þeirrar sem Suður Afiríkubúar eiga, ein sú frjálslegasta og framsýnasta sem um getur og byggist á eldri góðum stjórnarskrám og mannréttindayfirlýsingum. Þessi stjórnarskrá þeirra í Suður Afríku ætti að geta verið góð fyrirmynd allra landa hvaða trú, hörundslit eða tungumál og menningu hver hefur.

Ætli það sé ekki traustið sem er okkur einn mikilvægasti eiginleikinn í okkar daglega lífi? Að treysta er að trúa að allt geti gengið upp! Að allir geti lifað við frið og sátt við allt gott fólk sem alls staðar er að finna.

Mosi alias

 

 


mbl.is Múslímar í London hafa mikið traust á stjórnvöldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vill þjóðin fórna ferðaþjónustunni fyrir nokkra hvali?

Hvalveiðar eru mikil tímaskekkja og margt bendir til að við þurfum ekki á hvalveiðum að halda. Lagaumhverfi hvalveiða hefur breyst mjög mikið á undanförnum 20 árum, nú má t.d. ekki vinna spik, bein né annan úrgang hvorki til manneldis né dýrafóðurs eins og áður var leyft.  Nú þarf að urða megnið af hvalnum og má geta þess að nær 200 tonn var ekið síðast liðið haust á flutningabílum frá Hvalfirði og vestur á urðunarstað í Fíflholtum á Mýrum, hátt í 100 km leið. Er vit í þessu?

Hins vegar má hafa mjög umtalsmiklar tekjur af hvalaskoðun og sem hefur þann augljósa kost að útgerð skipa til hvalaskoðuna er mun ódýrari en ef hvalir eru veiddir.

Mér finnst að ráðamenn ættu ekki að gefa út nein veiðileyfi þegar aðeins eru örfáar vikur til þingkosninga og núverandi ríkisstjórn verður að halda uppi friðarstefnu, að taka ekki neinar umdeildar ákvarðanir þegar svo skammt er til kosninga.

Mosi

alias


mbl.is Leyfi gefin út fyrir vísindahvalveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smánarbætur

Bæturnar sem landeigendur fá fyrir glatað land úr hendi Landsvirkjunar eru mjög lágar. Fyrir nokkrum misserum voru fyrrum framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins úrskurðaðar rúmlega 200 milljónir fyrir tæpa 4 hektara lands sunnan við Rauðavatn. Ef sami maður hefði verið landeigandi Brúar, hversu mikið hefði hann borið úr bítum nú? Ef þríliðuútreikningur væri notaður, væru bæturnar milli 50 og 60 milljarðar sem nær auðvitað engri átt en möguleiki væri að finna einhvern milliveg.

Ómar Ragnarsson og fleiri hafa gert þetta landssvæði mun verðmætara með því að opna fyrir okkur sem ekki þekktum gjörla þetta svæði. Nú er það aðeins til í minningu okkar og sérstök náttúra þess verður aldrei endurheimt í þeirri mynd sem það var í þegar ákveðið var að fórna því - kannski fyrst og fremst til að rétta fjárhag ítalsks stórfyrirtækis við og forða því frá gjaldþroti - ekki síður að styðja við atvinnumál Austfirðinga.

Mosi


mbl.is Landsvirkjun greiðir 63,7 milljónir fyrir land sem fer undir Hálslón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meðferð valds er vandmeðfarið

Nú hefur forysta Sjálfstæðisflokksins verið endurkjörin með rússneskri kosningu, rétt eins og oftast áður. Frá því eg byrjaði að fylgjast gjörla með stjórnmálum fyrir um 4 áratugum þá hefur mér alltaf fundist að forystumenn  Sjálfstæðisflokksins hafi yfirleitt reynt að forðast að taka afstöðu í nokkru deilumáli sem upp hefur komið í íslensku samfélagi. Þeir hafa yfirleitt reynt að láta deilumál leysast af sjálfu sér, afstaða þeirra mótast kannski af því sjónarmiði að best sé að leyfa þessum deilum að fara fram hjá sér, rétt eins og djúpu haustlægðirnar sem skella á landinu með miklum látum og ekki verða umflúnar. Svo áður en langt um líður þá er komið aftur besta veður með sól á vanga og bros út að eyrum.

Kannski þarna verði komist nálægt skýringunni á því hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn hefur ætíð verið stærsti stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Svo virðist að í honum sameinist fleiri en færri sem jafnvel eins og forystan vill helst láta hjá líða að taka afstöðu í nokkru deilumáli. Þau eiga að gufa upp eins og lægðirnar og ef beðið er nógu lengi þá hlýtur að koma einhvern tíma aftur gott veður.

En þegar forystumenn Sjálfstæðisflokksins taka afstöðu, þá verður hún mjög afdrifarík fyrir land og þjóð. Við sitjum stundum uppi með mál sem seint verða til lyktar leidd eins og  deilur um hálendið og landnýtingu, um fiskveiðikvóta, atvinnumál, heilbrigðismál, menntamál, samgöngumál og utanríkismál svo einhver dæmi séu nefnd. Um þau hafa flest verið mjög skiptar skoðanir og það ekki neinar smádeilur sem stundum hafa af þeim staðið.

Einkavæðing hefur verið mjög mikil í landinu undanfarinn hálfan anna áratug. Þó svo margt megi ágætt um hana segja þá hefur hún leitt af sér óstjórnlega græðgi, drambsemi og sýndarmennsku í þjóðfélaginu sem er mjög miður. Aldrei hefur verið borist jafn mikið á, aldrei jafn miklu sóað og sólundað, gömlum og góðum gildum hafa verið nánast fleygt fyrir borð þjóðarskútunnar.

Í stjórnmálaályktun Sjálfstæðisflokksins að þessu sinni vakti sérstaka athygli mína þessi gamli draugur úr tíð Davíðs Oddsonar varðandi neitunarvald forseta í stjórnarskrá. Það er ekki endurskoðun stjórnarskrárinnar sem skiptir lengur máli, heldur þarf að taka þetta vald úr höndum úr þessum voðalega forseta sem nú situr! Og þá vill Sjálfstæðisflokkurinn selja bjór og létt vín í matvörubúðum: eru þetta brýnastu málefnin sem Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja fyrir kjósendur sína örfáum vikum fyrir kosningar?

Framundan eru hvorki einfaldir né auðveldir tímar við farsæla efnahagsstjórnun landsins. Við eigum eftir að bíta úr nálinni með þessa mjög umdeildu stórvirkjun eystra þar sem búast má við öðrum tölum í lokareikningi en við upphaflegt tilboð ítalska verktakafyrirtækisins. Kannski við eigum eftir að sjá himinháa lokareikninga rétt eins og þegar Ítalirnir rukkuðu fyrir Metró í Kaupmannahöfn hér um árið. Og hugsnalegar tafir við að afhenda álbræðslunni nægjanlegt  rafmagn geta einnig leitt til mjög hárra greiðslna dagsektaog skaðabóta ef forsendur standast ekki. Rafvæðing landsins hefur verið hraðari en rök mæla með og hætt við að viðsnúningur til verri vegar verði e.t.v. staðreynd áður en langt um líður.

Kannski hafi fáir haft jafnmikið til síns máls og Lao Tse sem Bókin um veginn er kennd við. Eftir þessum forna kínverska heimspekingi er haft eftir að stjórna þjóðfélagi væri eins og að sjóða marga fiska í einum potti.

Mosi

alias 


mbl.is Geir: Fer fram á endurnýjað umboð til að stýra næstu ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök?

Ómar hefur heillað mjög marga Íslendinga með einstakri baráttu sinni varðandi björgun hálendisins.

Þó svo að Íslandshreyfingin nái inn einum eða e.t.v. fleiri þingmönnum þá getur áhrif þessara samtaka einungis náð einhverjum árangri aðeins við mjög erfiðar og tvísýnar stjórnarmyndanir. Þá gæti Íslenadshreyfingin haft úrslitaáhrif um stjórnarmyndun og þar með hafa einhver áhrif á landsstjórnina.

Sjálfur vil eg sýna þessu framboði skilning og vissa virðingu. En þarna virðist vera komin fram ný samsuða óánægjufólks úr Frjálslynda flokknum og ýmsu umhverfisfólki sem ekki virðist vera alls kostar ánægt með starf hvorki Samfylkingar né Vinstri Grænna.

Framboð sem tengist einungis einu máli hefur aldrei skilað neinum árangri í stjórnmálum hvorki á Íslandi né erlendis. Þessi framboð verða því miður sömu örlögum háð og draugarnir sem döguðu uppi í dagrenningu.

Nú benda skoðanakannanir að Íslandshreyfingin nái engum öruggum manni inn á þing. Þá falla atkvæðin sem Íslandshreyfingin fær í alþingiskosningum dauð niður og framboðið verður að teljast með öllu hafa mistekist. Það væri miður ef núverandi ríkisstjórn héldi velli vegna þessara atkvæða en nokkuð ljóst er að mun fleiri atkvæði sækir Íslandshreyfingin til flokka stjórnarandstæðunnar en stjórnar. Þá væri ver af stað farið en heima setið!

Mosi 

alias 

 

 


mbl.is Ómar og Margrét leiða lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spennandi kosningar fara í hönd

Nú fara spennandi kosningar í hönd. Hvort VG nær að halda því mikla fyrlgi sem fram kemur í skoðanakönnunum og sömuleiðis Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur komið út með jafnvel meira en kjörfylgi síðustu kosninga: þetta verður spennandi eftir 4 vikur! 

Hvort Samfylkingin og gamli garmurinn Framsóknarflokkurinn geti krafsað í e-ð meira fylgi: já það verður spennandi að fylgjast með. Annars er Famsóknarflokkurinn með fremur lélegan málstað að verja: víða standa spjótin á hann og er það ekki að vonum enda hefur flokkurinn sá verið lengi þekktur fyrir ýms umdeild mál á sviði fjármálaspillingar. Hvað með sauðfjársamninginn sem kostar íslenska skattborgara um 4 milljarða á ári hverju? Reyndar er Sjálfstæðisflokkurinn ekki síður laus við spillingu og þegar þessir tveir flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefur spillingin farið jafnvel mjög vaxandi í samfélaginu. En ekki má gleyma sér í svartagallsrausinu og mála skrattann upp á alla veggi.

Athygli vekur að litlu flokkarnir á borð við Frjálslynda flokkinn eiga við verulegan tilvistarvanda að  etja. Þessi stefna flokksins gagnvart útlendingum var dæmd til að mistakast herfilega og má flokkur þessi finna sér e-ð annað haldreipi og betra en að agnúast út í nýbúa. 

Og þessi nýju einna mála framboð sem eru framkomin vegna einungis umhverfismála og hagsmuna eldra fólks, virðast eki bera neinn árangur. Í besta falli gætu þau fengið 1-2 menn kjörna en hverju stoðar það? Kannski við erfiðar stjórnarmyndunarviðræður en annars alls ekki. 

Það er mjög mikill og góður kostur að búa í blönduðu hagkerfi eins og við Íslendingar höfum átt við að búa í áratugi. Galdurinn er að forðast öfgar beggja, kapítalismans og sósíalismans en njóta þess besta úr báðum kerfunum! Því miður vill stundum verða til að við sitjum uppi einungis uppi með galla annars kerfisins og þá er afleitt að búa á Íslandi!

Ekki megum við gleyma því að vinstri menn vilja huga betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu og það er fyrir þessa grjóthörðu bisnisskarla ekki par góð tíðindi. Jöfnun lífskjara kostar ríkisútgjöld og við viljum hafa lágmarkssamfélagsþjónustu: ekkiaðeins góða lögreglu heldur einnig, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntun handa öllum.

Svo geta þeir sem aðhyllast kapítalisma af einhverjum ástæðum líka misst af lestinni, orðið veikir, örkumla vegna slysa eða sjúkdóma og að lokum verða allir gamlir sem ekki deyja ungir. Þessi óhefti grjótharði kapítalisminn sér því miður ekki aumur á okkur þegar við af einhverjum ástæðum getum ekki aflað okkur nægjanlegra lágmarkstekna. Þá verða jafnvel þessir eldhörðu kapitalistar sem vilja selja allt sem unnt er að hafa á boðstólum kaupahéðna, orðið ósköp fegnir að VG og Samfylking hafi náð að bjarga því sem bjargað var úr klónum óhefta kapítalisma sem þið njótið sem sjúkir, örkumla og aldraðir!

Lifið vel og lengi!

Mosi


mbl.is Sveiflur á fylgi D og V innan skekkjumarka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Óhætt má óska okkur öllum landsmönnum til lukku með nýju breytingarnar á flugstöðvarbyggingunni sem hafa verið nokkuð kostnaðarsamar og tekið alllangan tíma.

Þegar ákveðið var á sínum tíma að byggja flugstöð, stóðu íslensk stjórnvöld frammi fyrir tveim vakostum: flugstöðin sem var byggð eða öllu stærri bygging sem þá var ekki talin vera raunhæf miðað við þáverandi forsendur flugumferðar. Á þeim rúmu tveim áratugum frá því ákvörðun lá fyrir, hefur flugstöðin nokkrum sinnum verið endurbætt og stækkuð. Nú væri fróðlegt að bera þessa upprunalegu valkosti saman, áætlaðan kostnað og stærð beggja.

E.t.v. hefði verið gæfuríkara að byggja strax stærra enda er seinni stækkun oft vandasamari og enn oft dýrari kostur.

Mosi

alias

  


mbl.is Breytt Flugstöð Leifs Eiríkssonar opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grædd eða glötuð geymd evra?

Kemur ekki á óvart að bönkum gangi vel þessi misserin.

Einu sinni átti ég rúmlega 1000 evrur á viðskiptareikning hjá Kaupþingsbankanum. Í vexti fékk ég greidda tæplega 10 evrur eftir árið en þegar ég tók út upphæðina var ég rukkaður um 13 evrur! Þetta finnst mér skondið og kom mér á óvart að það væri dýrara að afhenda mér aurana sem bankinn hafði legið á allt árið. Skilaboðin voru auðvitað þessi: annað hvort að eiga ekki erlendan gjaldeyri eða betra væri að geyma aurana undir koddanum ef fólk fær ekki betri ávöxtun en raunin var.

Nú er auglýst á strætisvögnum borarinnar: Grædd er geymd evra! Þetta getur svo sem verið gott og gilt svo langt sem það nær. Minnir á gamalt slagorð Landsbankans: Grædd er geymd króna. Á dögum óðaverðbólgu kringum 1970 kvað Aron Guðmundsson fjármálamaður og kenndur við Kauphöllina einu sinni í viðtali í Sjónvarpinu sem þá var á sokkabandsárum sínum upp um það að „Glötuð væri geymd króna“. Þá voru dagar hamsturs og mikillar óforsjálni í fjármálum heimilanna í landinu. Kannski að nýja slagorðið sé  fyrst og fremst með hag bankanna í huga fremur en viðskiptavina þeirra.

Vonandi gengur Kaupþingsbankanum vel en ég hef vissa tortryggni gagnvart svo örri velgengni. Betri er stígandi og stöðug lukka en heljarstökk upp á við! Þá er hætt á drambsemi og vel kann að fara að stutt verði í hrapið ef ekki er byggt á traustum stoðum.

Mosi

alias

 


mbl.is Kaupþing 795. stærsta fyrirtæki heims að mati Forbes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband