Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Erlendar fjárfestingar Íslendinga

Fróðlegt væri að fá nánari útlistan á þessum tölum. Eru þessar fjárfestingar réttmætar miðað við væntingar en svo virðist sem arðsemin sé fremur lág.

Hvaða skýring er á þessu misræmi milli fjárfestinga og raunverulegra eigna. Eru þarna duldar eignir að ræða? Ef ekki þá bendir ýmislegt til að töluverð áhætta sé tekin.

Mosi

 


mbl.is Tekjur af eignum erlendis allt að 180 milljarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástæður þess að stækkun var hafnað - ókeypis mengunarkvóti

Ástæður þess að stækkun var hafnað

Fyrir framan mig er 11. tbl. af tímaritinu Vísbendingu: vikuriti um viðskipti og efnahagsmál. Í grein á fremstu síðu er rætt um ástæðurnar fyrir því að meirihluti Hafnfirðinga höfnuðu stækkun álversins.

Þar er vikið að sjónarmiðum sem alkunn eru: efasemdir um að halda áfram frekari stóriðju en komið er og þessi eðlilegu byggðasjónarmið en eðlilega er álverið viss tappi í áframhaldandi byggðaþróun Hafnarfjarðar. Í greininni kemur fram auk þess sjónarmið sem vert er að skoða:

Álbræðslan hefur lítt ræktað sambandið við íbúa Hafnarfjarðar. Greiðslur til bæjarfélagsins eru fremur lágar miðað við þessa miklu veltu sem verður vetna starfseminnar. Þá hafi fyrirtækið lítið sem ekkert sinnt félagsstarfsemi í Hafnarfirði t.d. með styrkveitingum þau ár sem það hefur starfað. Það er ekki fyrr en 37 árum eftir að það tekur til starfa og þarf á stuðningi Hafnfirðinga að halda að breyting verði á!

Við þetta vil eg undirritaður eina bæta við: fremur lítið hefur verið gert í því að fegra nánasta umhverfi álbræðslunnar. Af hverju eru hráefnisgeymarnir í æpandi rauðum lit? Er það auglýsing fyrir mengandi starfsemi?

Að vísu var plantað nokkrum trjáhríslum í tíð Christians Roth sem mig minnir að hafi verið nokkuð umhugað að bæta nánasta umhverfi verksmiðjunnar. Því miður voru starfsár hans of fá og áhrif hans urðu því að sama skapi fremur lítil. Það var mjög miður að ekki var haldið áfram á sömu braut og hann hafði lagt á.

Ókeypis mengunarkvóti 

Ef stórfyrirtæki ætla að hasla sér völl á Íslandi verða þau að leggja meiri áherslu á að taka þátt í að bæta verulega umhverfi sitt. Gróðurhúsalofttegundir sem að verulegu leyti eiga uppruna sinn í álbræðslum verður að binda aftur með öllum tiltækum ráðum. Sérfræðingar Skógræktar ríkisins hafa lagt fram útreikninga að milli 8-9% landsins þurfi að klæða skógi til að binda þessar skaðlegu lofttegundir. Og hvað skyldi það kosta íslenskt samfélag?  Nú er hvert prósent landsins rúmlega 100.000 hektarar. Reikna má með að það kosti nálægt milljón að breyta hverjum hektara í skóg þannig að dýr verður Hafliði allur!

Í samningum íslenska ríkisins við álfyrirtækin virðist ekki vera tekið á þessu máli, heldur er hér um gjafakvóta að ræða rétt eins og gerðist hérna um árið þegar fiskveiðikvótanum var úthlutað endurgjaldslaust. Hann er núna eins og kunnugt er í mjög háu verði og gengur kaupum og sölum!

Ætla má að mengunarkvóti verði ekki síður mjög verðmætur og verði að söluvöru áður en langt um líður. Það er mikil yfirsjón að útdeila honum án þess að vænta þess að nokkuð verði aðhafst af álverunum til að binda þá gríðarlegu mengun sem vænta má að komi frá stóriðjunni á næstkomandi árum.

Mosi

alias


mbl.is Eitt versta áfall í sögu álversins í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góðar hugmyndir

Ekki er nema gott eitt að segja um allar þessar hugmyndir - svo langt sem þær ná. Sumar finnst mér vera nokkuð skondnar eins og að breyta Pósthússtræti í göngugötu - þegar veðrið er gott! Á þetta kannski að vera kosningaloforð?

Nagladekkin mætti jafnvel syngja þegar í bann eða alla vega ganga skrefi lengra og takmarka notkun þeirra enn frekar. Hvernig væri að taka gjald af nöglum, t.d. 10.000 krónur á hvert dekk? Setja mætti eðlilegan umhverfisskatt á þá sem vilja hafa naglaglamrið undir bílum sínum rétt eins og allir þurfa að greiða þegar farið er með vissa hluti eins og byggingaúrgang í Sorpu.

Um gróðursetningu hálfrar milljóna trjáplantna finnst mér dálítið óraunhæft jafnvel þó að markmiðið eigi að nást fyrst eftir áratug. Talið er af fagmönnum að um 3.000 - 4.000 trjáplöntur sé hæfilegt að planta út í hvern hektara þannig að þessi nýju trjáræktarsvæði myndu verða um 600-700 hektarar.  Víða má planta í auð svæði meðfram stofnbrautum og mislægum gatnamótum en sennilega þarf að taka enn fleiri svæði til viðbótar. Má t.d. benda á tilvalið samvinnuverkefni Reykjavíkurborgar við Mosfellsbæ að efna til samkeppni meðal landslagsarkitekta um útivistarsvæði á og við Úlfarsfell. Planta mætti tugum þúsunda trjá í suður- og austurhlíðar Úlfarsfells og jafnvel uppi á fjallinu sjálfu. Vona ég svo sannarlega að við megum treysta vaxandi gróðursetningu trjáa í Reykjavík enda er trjágróður hið besta mál bæði fyrir fugla og fólk.

Um strætisvagnasamgöngur eru markmiðin einnig ágæt hvað viðkemur blönkum námsmönnum. En hvað með eldra fólk og öryrkja? Ætli efnalitlum einstaklingum þyki ekki fargjöldin vera orðin fullhá? Þá mætti einnig huga að venjulegu launafólki: af hverju ekki að gera fyrirtækjum og starfsmönnum tilboð: sem flestir með strætó en sem fæstir með einkabílum. Með verulegri fjölgun farþega strætisvagna væri góður grundvöllur að lækka fargjöldin og draga mjög verulega úr bílastæðaþörfinni! Talið er að hvert bílastæði þurfi um 25 fermetra og annað auðvitað heima hjá eiganda bílsins! Með því að draga úr einkabílismanum, drögum við verulega úr þörfinni á bílastæðunum og þar með minni mengun og drögum einnig úr viðhaldskostnaði við gatnakerfið sem er mjög hár miðað við hvern íbúa.

Meirihlutinn í Reykjavík er á réttri leið en þessar hugmyndir þyrfti að útfæra dálítið betur.

Mosi - alias


mbl.is Ókeypis í bílastæði fyrir vistvæna bíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð samlíking

Hafi bandaríski prófessorinn þökk fyrir að vekja athygli á þessum möguleika þeim sem valdið hefur . Því miður hefur heimurinn setið uppi með allt of marga brjálæðinga en verst er þegar þeir ná þeirri aðstöðu að fara með allt of mikið vald og kann ekki að fara með það til hagsbóta fyrir alþjóð.

Bush forseti hefði mátt lesa sig betur til áður en hann fór í herferð gegn hryðjuverkum. Kannski það hefði verið betur að rannsaka þessar hræðilegu árásir og hefja opinbera málsókn gegn þeim sem ábyrgð höfðu eða tengdust þeim. Fáum fréttum fer af þeim málum.

Bismark líkti stríði við helvíti á jörðu og þekktust í þá tíð ekki breiðu spjótin á sviði hernaðartækninnar: atómsprengjur, kafbátar, skriðdrekar né flugvélar sem hafa margfaldað afköst í stríði og ná að eyðileggja og tortíma meira á styttri tíma en nokkurn tíma áður í sögunni.

Í byrjun 19. aldar setti þýskur herforingi Carl von Clausewitsch (1780-1831) saman sígilt rit um stríð og stríðsrekstur sem enn er töluvert lesið: Vom Kriege. Þar gerir von Clausewitsch sem tók þátt í blóðugum átökum Napóleónsstyrjaldanna grein fyrir að það geti svo sem verið allt í lagi að hefja stríð en með vissum skilyrðum: Ekki dugar eitt og sér að þjálfa vel mikinn og góðan her, heldur þarf undirbúningur að vera hinn vandaðsti, tilgangurinn með stríðinu ljós og hvaða markmið væri með því að hefja stríð. En það sem skipti mestu máli væri hvernig ætti að ljúka stríðinu og sá sem lýsir yfir stríði VERÐUR að hafa einhverjar hugmyndir hvernig á að ljúka því. Oft hefur stríðsgæfan snúist skyndilega hversu vel og vandlega lagt var af stað og herförin farið fjandans til. Kannski von Clausewitsch hafi haft drambsemi Napóléons í huga þegar hann réðst með að því virtist með óvígan her inn í Rússland 1812 en sú för varð hin hörmulegasta sem kunnugt er af sögunni.

Kannski að herferð sú endurtaki sig enn á ný með þessu rándýra og umdeilda hernaðarbrölti Bush bandaríkjaforseta í Írak og kannski fleiri landa á næstkomandi misserum.

Kannski að Bush ætti að kynna sér rit Carl von Clausewitsch sem til er í enskri þýðingu ágætlegri: On war. En vonandi er stríðsforseti Bandaríkjanna orðinn sæmilega læs en heyrst hafa raddir að hann hafi lengi verið vart nema stautfær og hafi lesið aðallega myndabækur um kúreka drepa indíána sér til dundurs og skemmtunar.

Mosi

 


mbl.is Mikil viðbrögð við grein háskólaprófessors um sprengjuárás á Ísland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mögnuð samlíking

Hafi bandaríski prófessorinn þökk fyrir að vekja athygli á þessum möguleika þeim sem valdið hefur . Því miður hefur heimurinn setið uppi með allt of marga brjálæðinga en verst er þegar þeir ná þeirri aðstöðu að fara með allt of mikið vald og kann ekki að fara með það til hagsbóta fyrir alþjóð.

Bush forseti hefði mátt lesa sig betur til áður en hann fór í herferð gegn hryðjuverkum. Kannski það hefði verið betur að rannsaka þessar hræðilegu árásir og hefja opinbera málsókn gegn þeim sem ábyrgð höfðu eða tengdust þeim. Fáum fréttum fer af þeim málum.

Bismark líkti stríði við helvíti á jörðu og þekktust í þá tíð ekki breiðu spjótin á sviði hernaðartækninnar: atómsprengjur, kafbátar, skriðdrekar né flugvélar sem hafa margfaldað afköst í stríði og ná að eyðileggja og tortíma meira á styttri tíma en nokkurn tíma áður í sögunni.

Í byrjun 19. aldar setti þýskur herforingi Carl von Clausewitsch (1780-1831) saman sígilt rit um stríð og stríðsrekstur sem enn er töluvert lesið: Vom Kriege. Þar gerir von Clausewitsch sem tók þátt í blóðugum átökum Napóleónsstyrjaldanna grein fyrir að það geti svo sem verið allt í lagi að hefja stríð en með vissum skilyrðum: Ekki dugar eitt og sér að þjálfa vel mikinn og góðan her, heldur þarf undirbúningur að vera hinn vandaðsti, tilgangurinn með stríðinu ljós og hvaða markmið væri með því að hefja stríð. En það sem skipti mestu máli væri hvernig ætti að ljúka stríðinu og sá sem lýsir yfir stríði VERÐUR að hafa einhverjar hugmyndir hvernig á að ljúka því. Oft hefur stríðsgæfan snúist skyndilega hversu vel og vandlega lagt var af stað og herförin farið fjandans til. Kannski von Clausewitsch hafi haft drambsemi Napóléons í huga þegar hann réðst með að því virtist með óvígan her inn í Rússland 1812 en sú för varð hin hörmulegasta sem kunnugt er af sögunni.

Kannski að herferð sú endurtaki sig enn á ný með þessu rándýra og umdeilda hernaðarbrölti Bush bandaríkjaforseta í Írak og kannski fleiri landa á næstkomandi misserum.

Kannski að Bush ætti að kynna sér rit Carl von Clausewitsch sem til er í enskri þýðingu ágætlegri: On war. En vonandi er stríðsforseti Bandaríkjanna orðinn sæmilega læs en heyrst hafa raddir að hann hafi lengi verið vart nema stautfær og hafi lesið aðallega myndabækur um kúreka drepa indíána sér til dundurs og skemmtunar.

Mosi

 


Hættusvæði

Nú er eg ekki kunnugur á þessu hættusvæði á gólfvellinum í Hveragerði. Spurning er hvort þarna séu einhverjar merkingar um hættur og þaðá fleiri tungumálum en íslensku því ekki er unnt að gera kröfur að þeir skilji okkar ágæta tungumál þó gamalt og gott sé.

Í Hveragerði þar sem aðalhverasvæðið er, er allt svæðið girt rammbyggilega og öllum ljóst að þarna er mjög varhugavert. Fyrir langt löngu varð þarna mjög alvarlegt slys þar maður nokkur átti leið um hverasvæðið og féll ofan í einn hverinn og stórslasaðist. Þetta var tilefni að því að svæðið var upplýst og síðar girt.

Víða um land eru áþekk slysasvæði.  Eitt dauðaslys varð fyrir um 70 árum að Suður-Reykjum í Mosfellssveit þegar barn féll í hver.

Svona má lengi telja.

Þegar jarðabókin var tekin saman í byrjun 18. aldar þá áttuðu íslenskir bændur sig á að nú vildi danski kóngurinn hafa meiri skatta af Íslandi. Voru bændur ósparir að greina embættismönnum frá annmörkum jarða sinna.  Á þeim svæðum sem jarðhiti var, sögðu bændur frá að helsti annmarkinn væri heitt vatn! Þetta má lesa t.d. um jarðir í Reykholtdal og í Mosfellssveit. Bændur höfðu jú þá reynslu af að af heita yfirborðsvatninu væru eintóm vandræði.

Vegna þessa hverasvæðis í Hveragerði þarf aðbæta verulega úr aðvörunarmerkingum. Sama má segja um vinsæla ferðamannastaði á borð við Geysissvæðið og Seltún í Krísuvík. Aldrei er of oft farið  varlega og við íslendingar þurfum að vara betur við þeim hættum sem kunna að stafa af í landinu okkar.

Mosi 


mbl.is Steig ofan í hver og brenndist á fæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sammála byskupnum yfir Íslandi

Túlka má páskaprédikun byskups á ýmsa vegu. Þegar hefur einn bloggari talið að ráða mætti af orðum byskups að hann væri kominn í stjórnarandstöðu!

En byskupinn yfir Íslandi er byskup allra Íslendinga sem aðhyllast kristna trú, bæði þeirra sem styðja ríkisstjórnina og eru á móti henni. Hann er sálnahirðir kristnu hjarðarinnar sem oft á tíðum villþví miður týna sér í ýmsu pjátri og prjáli veraldarinnar. Af hverju ekki að flýta sér hægt undir slíkum kringumstæðum, staldra við og sjá hvernig mál mega þróast áfram. Á að setja allt sem við höfum af tækifærum til framtíðar okkar á aðeins aðra vogarskálina? Er ekki sitthvað sem við erum að fórna jafnframt þegar teknar eru stórar og afdrifaríkar ákvarðanir? Á að halda áfram án nokkurs hiks að fórna náttúrugersemum sem aldrei verða endurheimtar úr greipum ágirndarinnar?

Við eigum mikil verðmæti og eigum að vera sátt við það sem við höfum nú þegar. Við skulum minnast þess að við eigum ekki lengur það sem við höfum kastað á glæ: fossum og fögru hálendi hefur þegar verið að nokkru fórnað og það ber vart bætur fyrir sem tapast hefur. Var tilgangurinn með þeim ef til vill vafasamur og ákvörðunin byggð á veikum forsendum?

Leyfum okkur að efast. Margar ákvarðanir eru til þess fallnar að kalla á viðbrögð, kannski að úr læðingi brjótist e-ð sem við viljum ekki upplifa: tortryggni og jafnvel það sem verra er. Við horfum upp á þetta tilgangslausa stríð í Írak sem engan enda virðist taka og vissir íslenskir stjórnmálamenn lögðu blessun sína á það í óþökk flestra Íslendinga.

Við skulum treysta byskup, hann mælir rétt og hafi hann bestu þakkir fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni úr prédikunarstóli Dómkirkjunnar í Reykjavík á Páskasunnudag að þessu sinni. 

Mosi 

 


mbl.is Áherslan á endalausar framfarir er tál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virkjanir í neðri Þjórsá

Eins og mörgum finnst mér þessi áform um virkjanir í neðri hluta Þjórsá ekki nógu vel ígrundaðar. Til að fá sem mest afl eru mynduð allt of stór uppistöðulón sem færa land í kaf sem á eftir að verða mun verðmætara en það er nú. Á öllu íslandi eru rúmlega 10.000 frístundalóðir og þeim á eftir að fjölga mjög mikið. T.d. má reikna með að það séu ekki einungis Íslendingar sem sækjast eftir að eiga sér ofurlítið konungsríki ásamt litlu sveitasetri, þá má búast við vaxandi áhuga erlendra þegna einkum Mið-Evrópu að festa kaup á spildum. Nú þegar hafa erlendir ríkisborgarar eignast lönd á Íslandi og það er í samræmi við þá þróun sem verið hefur.

Áform Landsvirkjunar um stórar rennslisvirkjanir eyðileggja marga fagra staði, einkum í Holtunum. Bærinn Akbraut norðarlega í Holtunum er einhver sá sérstæðasti á gjörvöllu Íslandi. Við Gíslholtsvatn eru þegar komin frístundabyggð sem ekki verður eins eftirsóknarverð ef af þessum stóru draumum Landsvirkjunarmanna verður. Furðueyjan Viðey skammt frá Núpabæjunum í Eystri Hrepp er einhver sú sérstæðasta í Þjórsá og er engri lík. Hún hefur notið náttúrulegrar friðlýsingar í aldir fyrir sauðkindinni sem horfir stöðugt hýru auga til sérstæðs gróðursins. Viðey þyrfti að friðlýsa ekki aðeins fyrir venjulegu fólki heldur ekki síður fyrir Landsvirkjun!

Einnig má reikna með að fornminjar bæði í Árnesi og víðar týnist og verði tröllum gefin. Þá má búast við að grunnvatnshæð í grennd við uppistöðulónin hækki og valdi vaxandi erfiðleikum t.d. í Flóanum sem er nú þegar þokkalega blautur fyrir!

Hafa reiknimeistarar Landsvirkjunar reiknað út hugsanlegar skaðabætur til allra landeigenda og annarra sem málið varðar?


mbl.is Fornleifarannsóknir vegna nýrra virkjana í Þjórsá hafnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haminguóskir Hafnfirðingar!

Að ósi skal á stemma - segir hið fornkveðna. Einhvern tíma er leikur sá sem hafinn er - úti.

Þessi kosning er mjög áhugaverð fyrir margra hluta sakir. Hugmynd sveitarstjórnar að fá íbúunum ákvörðunarvald í kosningum um erfiða ákvörðun er til þess fallið að skapa betri starfsfrið innan bæjarstjórnar og að þar magnist ekki deilan meir en nauðsyn ber til. Framkoma og æðruleysi bæjarstjórans er sérstaklega til fyrirmyndar. Hann vill ekki gefa upp hvað honum sýnist um málið, það skiptir ekki máli, heldur það sem meirihlutinn vill. Hann er bæjarstjóri allra Hafnfirðinga!

Í aðdraganda kosninganna er eftirtektarvert hversu einn aðilinn, Alkan, sem málið varðar sérstaklega, verður óhjákvæmilega mjög virkur þátttakandi í þessum mikla slag. Mörgum fannst að þegar heilsíðuauglýsingar fóru að birtast í fjölmiðlum að spyrja mætti: þarf að spyrja að leikslokum?

Eftir kosninguna var fréttin um að fleiri hefðu flust til Hafnarfjarðar en í raun reyndist eftir upplýsingum sem bæjarstjórnin hafði fengið frá Hagstofu, vekur einning umhugsun. Hve mikilvægt er að kanna heimildir vandlega áður en þær eru teknar alvarlega. Sögusagnir sem síðan reynist vera út í hött var fleygt fram eins og um sannindi væri um að ræða. Samtökin Hagur Hafnarfjarðar þyrftu núna að líta í eiginn barm og skoða hvort ekki sé ástæða að biðjast afsökunar á frumhlaupinu.

Að koma fyrr friði á undir svona kringumstæðum er mikilvægt. Nú mun umræðan ganga út á hvort rétt hefði verið að standa öðru vísi að þessari skoðanakönnun. Ef þessi ákvörðun hefði verið tekin í bæjarstjórn er sennilegt að deilurnar hefðu haldið áfram og jafnvel langt út fyrir vettvang Hafnarfjarðar. En svo virðist sem allir bæjarfulltrúar hafi verið meðvitaðir um hversu nauðsynlegt er að við hugum betur að leggja um erfið mál undir atkvæði fleiri en kjörinna fulltrúa.

Megi oft verða minnst á það hugrekki og það þor sem meirihluti Hafnfirðinga sýndi með afstöðu sinni. Kannski að nú verði vendipunktur varðandi þessi álmál í litla íslenska samfélaginu okkar. Áliðnaður er ekki eintómur ljúfur dans á rósum, öðru nær, hann á einnig sínar dökku hliðar sem ekki má síður horfa fram hjá.

Mosi


mbl.is Engin óeðlileg fjölgun á kjörskrá í Hafnarfirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betur má ef duga skal

Þegar reiknað er út hve miklu fé verði varið vegna þessara verkefna þá eru um 200 þús að meðaltali í hvert verkefni. Ekki ríða styrkþegar feitum hesti frá þessari úthlutun og samfélagið getur verður vænst mikils árangurs fyrir svo lítið fé.

Betur má því ef duga skal.
Efla þarf skólakerfið og leggja ekki minna kapp í að mennta yngstu kynslóðirnar en ríkisstjórnin hefur lagt önnur verkefni, t.d. í álvæðinguna. Að vísu er grunnskólinn á vegum sveitarfélaga en efla þarf stórlega starfið, m.a. að efla menntun og gera starf kennara eftirsóknarvert.

Einnig er brýn nauðsyn að finna raunhæfar leiðir til að hækka laun kennara en því miður hafa þau dregist langt aftur úr á liðnum árum miðað við flestar aðrar stéttir. Kannski má rekja það aftur til þess tíma þegar Sverrir Hermannsson var menntamálaráðherra hérna um árið. Hann lagði kennara í n.k. einelti og mætti gjarnan rifja þá umræðu nú þegar þessi maður stígur fram á leiksviðið að nýju. Hann virðist ekki muna mikið lengra aftur en til síðustu viku eða mánaða en af málflutningi hans mætti ætla að þar fari maður sem hafi ætíð borið sérstaka umönnun fyrir þeim sem minna mega sín.

Mosi


mbl.is 17 milljónir veittar úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 46
  • Frá upphafi: 242983

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband