Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fjárlagafrumvarp broskallanna

Fjárlagafrumvarp „Broskallastjórnarinnar“ er um margt einkennileg. Framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er lækkað verulega og er gert ráð fyrir að 216,6 milljónir nægja en framlagið á þessu ári er 575,6 milljónir sem er í raun eina skiptið sem umtalsvert fé hefur verið sett í þennan málaflokk. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sýndi skilning í verki að ferðaþjónustan er stærsti vaxtabroddurinn í íslensku samfélagi. Þá hyggjast broskallarnir lækka framlag til átaksins „Ísland allt árið“ úr 300 milljónum í 200 milljónir og telja sennilega það framlag nægja.

Þess má geta að aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum er víða mjög slæmt eða bágborið. Þannig eru slóðirnar að vinsælum skriðjöklum, Sólheimajökli og Svínafellsjökli að öllu leyti ófullnægjandi. Núna um miðjan september neitaði bílsstjóri minn að aka þangað með ferðahóp enda vegurinn nánast ófær bæði smáum sem stærri bílum. Skal engum bílsstjóra með ríka ábyrgðartilfinningu núið um nasir að bregðast þannig við enda hefur veghefill ekki sést á þessum slóðum árum saman. Þessir vegaspottar teljast ekki vera með þeim lengri, einungis örfáir kílómetrar. Vegagerðinni er til vansa að forgangsraða verkefnum þannig að lagt er út í rándýra og umdeilda vegagerð um Gálgahraun í Garðabæ en láta vegheflana fremur standa ónotaða í skúrum Vegagerðarinnar úti á landi. 

Ferðaþjónustan er langstærsti vaxtabroddurinn íslensks þjóðlífs sem þarf að hlúa að fremur en að grafa undan með vísvitandi hætti eins og núverandi ríkisstjórn vill. 

 


mbl.is Grunnþjónustan varin með hallalausum fjárlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðferð til glötunar í boði Framsóknar

Þeir sem staðgreiða eiga rétt á afslætti. Ef eg ætla mér að kaupa eitthvað hvort sem er vara eða þjónusta vil eg staðgreiða en ekki kaupa út á krít með því að borga einhvern tíma seinna og kannski aldrei, - kannski með 20% niðurfærslu skulda í boði Framsóknarflokksins undir stjórn Sigmundar Davíðs.

Þessi forsætisráðherra er einhver furðulegasta sending sem við Íslendingar sitjum núna uppi með. Hann er auðugasti þingmaðurinn, hefur verið og er stöðugt í fjölmiðlum að gaspra um eitthvað sem hann virðist ekki hafa fullkomlegan skilning á. Hans verður sennilega minnst sem eins mesta lýðskrumara innihaldlausra kosningaloforða og loðnasta stjórnmálamanns Íslandssögunnar nema einhver kemur á eftir honum og yfirbýður hann.

Sigmundur á ótrúlega margt sameinginlegt með Silvio Berluskoni. Báðir eru auðmenn, hafa hreðjartök á fjölmiðlum og eru ansi brattir í kosningaloforðum og öðrum yfirlýsingum. En staðreyndin reynist önnur en sá sýndarveruleiki sem þessara stjórnamálamanna er.

Staddur í Denver, Colorado í BNA.

 


mbl.is Þykir óréttlátt að þeir sem staðgreiði borgi álag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveðja frá Denver í Bandaríkjunum

Því miður er svo að Bandaríkjamenn hafa lengi lifað um efni fram. Sem stendur er eg staddur þar vestra og mér blöskrar bruðlið með einnota umbúðir og allt of stóra matarskammta sem ýmist lenda í ruslinu eða valda offitu með Bandaríkjamönnum.

Mér finnst undarlegt að þegar farið er í búð og einhver varningur keyptur hvort sem er póstkort, bók eða annað, þá er lokaverðið ekki alltaf uppgefið, heldur verð án skatts. Skatturinn er fremur lágur en þarna er eitthvað sem Bandaríkjamenn gætu lagað. Það er alveg ljóst að skattfé dugar hvergi fyrir núverandi rekstri samfélagsins. Alla vega þarf að spara en hvar? Niðurskurður til hermála væri sennilega fljótvirkasta leiðin en þar væri komið við kaun hagsmuna Rebúblikana sem vilja helst afnema alla skatta einkum á hátekjumenn. Í öllum nútíma samfélögum þarf að leggja megináherslu á grunnþjónustu samfélagsins: heilbrigðismál, menntamál, félagsmál og öryggismál. Fékk mér smákvöldgöngu um miðbæ Denver. Víða á götunum er fólk á ferli en sums staðar liggur fólk í skúmaskotum í anddyrum húsa við 16. stræti eins og það eigi sér hvergi samastað. Mjög sennilegt er að atvinnuleysi og húsnæðisleysi fátækari hluta Bandaríkjamanna hrjái allt of marga. Í þessari sömu gönguferð rak eg augun í gríðarstórt rými innan við anddyri bankastofnunar. Ætli ekki nánast þriðjungur hússins hafi ekki verið ráðstafað einungis til þess að undirstrika ríkidæmi viðkomandi aðila. Sjálfsagt er veraldarauðnum jafn misjafnt skipt og í Bandaríkjunum. Þar eru margir vel fjáðir meðan allt of margir hafa það virkilega „skítt“.

Hef verið í rúma viku á vegum Skogræktarfélags Íslands. Við höfum lagt mikla ferð um Colarado að baki og dveljum í Denver fram á laugardag. Hlakka að mörgu leyti til að komast heim eftir annars mjög ánægjulega dvöl í þessu fagra landi.  


mbl.is Grafalvarleg staða í Bandaríkjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Land frelsisins?

Lengi hefur verið litið á Bandaríkin sem land frelsisins þar sem nánast allt er heimilt. Nú er erlendum ferðamönnum meinaður aðgangur að þekktum ferðastöðum vegna uppákomu í bandaríska þinginu. Nú eru það málssvarar fjármálaaflanna sem vilja taka fram fyrir hendurnar á ríkisstjórn Obama.

Kannki að frelsi peninganna sé metið mikilvægara en ferðafrelsið.


mbl.is Bálreiðir ferðamenn ósáttir við lokanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er forsætisráðherra rugludallur?

Mjög erfitt er að sjá einhverjar efndir kosningaloforða forsætisráðherra. Hann er vægast sagt mjög furðulegur í tali og ætla mætti að hann sé undir áhrifum af einhverjum lyfjum. Hann er mjög ómarkviss og óöruggur. Erfitt er að reiða hendur á hvað maðurinn er að segja. En honum virðist hafa tekist að blekkja heila þjóð og komið sér makindalega fyrir í einu æðsta embætti þjóðarinnar eftir furðulegustu kosningaloforð norðan Alpafjalla.

Hann virðist hvorki kunna sér hóf né varkárni í störfum sínum. Var það markmiðið að ná völdum með því að haga sér sem kafbátur á síðasta kjörtímabili? Icesave málið er dæmi um slíkt. Alltaf var vitað að nægir fjármunir voru í þrotabúi Landsbankans til að endurgreiða skuldirnar. Þeir sem ekki trúa því ættu að lesa Morgunblaðið 6. sept. s.l.

 


mbl.is Ísland getur orðið „fyrirmyndarland“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herferð Reblúblikana bitnar á ferðafólki

Við sem erum á ferð um Colorado að skoða skóga og ýmsar helstu náttúruperlur í Colorado hyggðumst heimsækja Mesa Verde þjóðgarðinn í dag. Vegna þessarar einkennilegu togstreytu milli Demókrato og Rúbúblikana var allt lokað. Í þjóðgarði þessum eru varðveittar gríðarmiklar minjar um búsetu indíána. Létum við nægja að skoða skóga þar sem náttúruhamfarir hafa gengið um, þurrkar, pödduplágur og aftur þurrkar undir leiðsögu bandarísks skógarvarðar. Á leið okkar mátti auk þess sjá hvar miklir skógareldar óðu um fyrir nokkrum árum.

Ferðin hefur gengið fram úr vonum, frábært veður. Hitinn hefur farið í yfir +20C og nánast heiðskírt alla daga nema s.l. föstudag en þá rigndi og næstkomandi föstudag er aftur spáð rigningu! Skyldi rigna alltaf á föstudögum þar syðra?


mbl.is Segir repúblikana í krossferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðning án auglýsingar?

Hjá því opinbera á að auglýsa öll laus störf. Líka þau sem eru „búin til“. Þessi ráðning ber með sér pólitísk fingraför.

Greinilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn er byrjaður að hamast eins og Framsóknarflokkurinn að koma sínum mönnum að. Og sjálfsagt notaðar gamalkunnar aðferðir við að hygla sínum mönnum.  

Hefði Samfylkingin eða VG viðhaft sömu aðferð að koma sínum málpípum að í fjölmiðla rekna af opinberu fé, hefði heyrst hljóð í horni. Nú á greinilega að ná árangri með einum af besta borgarfulltrúanum. Í skákinni er talað um mannfórnir, nú er riddara fórnað fyrir peð í borgarmálunum til að reyna að ná betri stöðu í landsmálunum.

Sjálfstæðisflokkurinn á rétt eins og Framsóknarflokkurinn að finna fyrri stöðu sína. Allt er reynt og öllu fórnað. Hvort sú aðferð dugar, verður sagan að meta síðar. 


mbl.is Gísli Marteinn hættir í borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lof lyginnar

Er ríkisstjórnin á móti öllum skynsömum málum

Svo virðist sem við Íslendingar sitjum uppi með ríkisstjórn sem er yfirleitt á móti öllum skynsömum málum. Við höfum þurft að horfa upp á margt furðulegt en þessi ríkisstjórn virðist smám saman vera komin í andstöðu við þjóðina.

Langsamlega flestir Íslendingar vildu fá að vita hvað samningar við Evrópusambandið byðu upp á. Sívaxandi er sá skilningur gagnvart Íslendingum að okkur hefur tekist að nýta fiskistofna við landið mjög skynsamlega ef við tökum makrílinn út. Og innan Evrópusambandsins er vaxandi skilningur fyrir sérstöðu landbúnaðar á Íslandi sem bæði er viðkvæmur og mjög heilbrigður. Landbúnaðarframleiðsla okkar stenst mjög háar kröfur til gæða enda er íslenskt búfé laust að mestu við ýmsa þá búfjársjúkdóma sem reynst hafa erfiðastir.

Íslenski markaðurinn er aðeins um þriðjungur milljóna manns auk þeirra erlendu ferðamanna sem hingað sækja. Framleiðsluaukning okkar miðar því fyrst og fremst við fjölgun ferðamanna en forystusauðir landbúnaðar á íslandi ættu sem minnst hugsa um útflutning íslenskra landbúnaðarvara nema þá helst skyrs sem hvergi er eins og á Íslandi.

Nú hefur ríkisstjórnin skorið herör gegn náttúruverndarlögunum. Þó svo annmarkar væru á þeim lögum er nauðsynlegt að hverfa aftur til fyrra ástands? Hvað er það sem ríkisstjórnin er á móti og af hverju ekki að leggja fram frumvarp til breytinga?

Einu sinni greip kóngur fram fyrir hendurnar á Alþingi og innleiddi önnur lög en áður hafði gilt. Voru þessi lög eða öllu fremur ólög nefnd „réttarspillir“. 

Sigmundur Davíð er auðugasti þingmaðurinn sem nú situr á Alþingi Íslendinga. Hann beitir sér hvern einasta dag að hygla þeim sem þegar hafa nóg en þess á milli reynir hann með loðnu orðagljáfri að varpa fram einhverjum vonum hinna um betri tíð. Þetta þótti ætíð á Íslandi vera merki um óviturlega meðferð valds.

Sigmundur Davíð hefur hagað sér eins og „kafbátur“. Hann var alltaf á móti Icesave samningunum og mun vera einn af helstu hugmyndafræðingum þeirra sem vildu grafa sem hraðast undan ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms. Sú „hrifning“ sem hann hratt af stað var byggð á tilfinningarökum en engir skynsemi. Nú hefur komið í ljós að alltaf hafði verið til nægir fjármunir í þrotabúi gamla Landsbankans að dygði fyrir skuldbindingunum.

Tilgangur Sigmundar Davíðs var alltaf sá að grafa undan trausti ríkisstjórnar Jóhönnu og Steingríms sem var mjög í anda Marðar Valgarðssonar. Sá hefði verið stoltur af þessum lærisveini sínum sem getur komist upp með allt, jafnvel komið fram á sundurlausum skóm frammi fyrir alþjóð með bandaríkjaforseta sem vitni!


mbl.is Lög um náttúruvernd afturkölluð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geta íslenskir kirkjugarðar komið í staðinn?

Á Íslandi verður seint kvartað undan landleysi. Víða hér á landi er gríðarmikið land sem er vannýtt en kann að vera mun verðmætara sé hugað að nýjum möguleikum. Við getum t.d. stóreflt skókrækt og jafnvel kornrækt.

Eitt sérkennilegasta fyrirbærið sem kemur útlendingum nokkuð spánskt fyrir sjónir eru kirkjugarðarnir. Mjög margir eru með prýðisgóðu útsýni og mætti nefna kirkjugarðana í Hafnarfirði, Akureyri, Sauðárkróki, við Lágafell í Mosfellsbæ, Kotströnd í Ölfusi og eru einungis örfáir nefndir.

Ekki er vitað til þess að við leiðum í kirkjugörðum á Íslandi sé hróflað eins og sagt er frá í fréttinni frá Ítalíu. Það mætti hugsa sér sem viðbót við vaxandi ferðaþjónustu að gefa ættingjum möguleika á að grafa látna ættingja sína hér á landi og þar með yrði Evrópuvæðing landsins gerð að möguleika hvað látið fólk varðar fyrst ekki má tengjast Evrópusambandinu meðal þeirra lifandi. Hér gætu framliðnir átt griðastað um aldur og ævi en hér er engin ástæða til að spara land. Nægir eru afdalir með fögru útsýni hátt til heiða og fjalla yfir vötn og fagrar ár sem út á sjóinn. Og jafnvel fögur jöklasýn eins og víða á Snæfellsnesi væri ekkert „slor“ eins og tekið var til orða í mínu ungdæmi.

Útlendingum þykir fyrirbærið kirkjugarður með fögru útsýni vera eitthvað sérkennilegt. Ekki þarf maður gott útsýni eftir dauðann en getur það verið að vegna nokkuð sterkra tengsla við forfeður okkar þá vildu landnámsmenn gjarna vera jarðaðir þaðan sem  þeir máttu líta yfir land sitt. Þannig átti Ingólfur Arnarsson að vera huslaður í Inghól efst á Ingólfsfjalli í Ölfusi. En mér finnst ekki ólíklegt að þarna kunni að vera önnur ástæða: Mjög margir Íslendingar eru mjög þunglyndir sérstaklega í skammdeginu. Og þegar við vitjum leiði góðs og eftirminnilegs látins ættingja eða náins vinar er þá ekki einmitt gott útsýni kirkjugarðsins sem hjálpar okkur til að komast frá þungbærum þönkum? Fátt er Íslendingum jafnkært og góðu útsýni og skýrir það t.d. skoðunum ótal margra sem vilja ekki efla skógrækt á Íslandi. En skjólið er mikið og mikilvægt af skóginum.


mbl.is Grófu upp lík ömmu án leyfis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rándýr sýndarmennska

Einn furðulegasti arfur frá fornöld eru konungdæmin. Áður fyrr voru kóngar einvaldsherrar og fóru í stríð bæði við þegna sína og aðra þegar þeim fannst ástæða til. Danskir kóngar voru einstaklega áhugasamir um stríðshald og töpuðu yfirleitt hverju einasta stríði sem þeir tóku þátt í, því síðasta 1864 gegn Prússum. Með Kristjáni 9. báru kóngar þessir þá gæfu að halda þjóðum sínum utan við stríðsbrölt.

Karl Gústaf er vonandi  síðasti kóngurinn í Svíþjóð. Hann er að öllum líkindum sá umdeildasti fyrir pukurslega framkomu þegar hann sýndi af sér óafsakanlega og vægast sagt mjög „ófína“ framkomu. Og nú eru liðin 40 ár frá því hann tók við konungdómi. Er hann borubrattur og vill halda áfram að sitja í konungssessi meðan heilsa leyfir. Sennilega er að vera kóngur eitt leiðinlegasta og löðurmannslegasta „starf“ sem hugsast getur.

Þó svo við íslendingar séum lausir við konungdóm, þá sitjum við uppi með forseta sem er hálfgerður kóngur með sinni framkomu. Hann hefur átt mikinn þátt í að móta stjórnmálin á síðustu árum og hefur gert embætti sitt að einu harðsvíraðsta valdagreni landsins. Og hann gengst fyrir því. Tvívegis greip hann fram fyrir hendurnar á ríkisstjórn landsins sem vildi leysa deilumál við Breta og Hollendinga með samningum. Upp var blásinn einhver furðulegasti belgingur sem var verri en nokkurt óveður sem gengið hefur um landið fyrr og síðar. Og þetta mál var dregið niður í einhvern tilfinningaríkan táradal svo sem flestir mættu gangast blekkingunni á hönd.

Nú hefur komið í ljós að allar Icesaveskuldirnar hafa verið greiddar upp og bæði þjóð og þing er laust undan okinu. En þetta reyndist okkur afardýrt spaug og hefur verið reiknað að við hefðum getað sparað okkur tugi milljarða ef ekki hundruði hefði þessi ranga ákvörðun ekki verið tekin. Og við hefðum getað komið þessum frægu atvinnulífshjólum fyrr af stað, unnið fyrr á atvinnuleysinu og þar fram eftir götunum. En það mátti ekki vegna samkomulags forseta og núverandi forsætisráðherra.

Rétt eins og Karl Gústaf þá er Bessastaðabóndinn íslenskum þjóðarbúskap dýr. Hann er meira að segja okkur rándýr. 

Vigdís Finnbogadóttir var farsæl í störfum sínum sem forseti íslenska lýðveldisins. Hún forðaðist öll óþarfa útgjöld og bruðl í rekstir embættisins sem og að taka skynsamlegar ákvarðanir sem ekki voru þess eðlis að kljúfa þjóðina í tvær fylkingar. 

 


mbl.is Konungur í fjörutíu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 243596

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband