Færsluflokkur: Bloggar

Bravó!

Það sem þeir Sigurrósarmenn eru nánast allt frábært og vel að verki staðið. Þetta myndband með nýja laginu er mjög listrænt og hreyfingar unga fólksins fallegar og falla vel að hrynjandi tónlistarinnar. Sérstaklega er unga konan sem virðist vera í frjálsu falli og hárið flaksar um höfuð hennar mikið augnakonfekt ef svo má að orði komast. 

Því miður er siðgæðisvitund Bandaríkjamanna gagnvart nektinni mörgum öldum á eftir nútímanum. Viðhorf þeirra í þeim málum mótast mjög af svonefndum púritisma en þeir sem aðhylltust þær kenningar voru strangtrúarmenn. Þeir flúðu England á 17. öld vegna ástandsins í þjóðfélagsbreytingum sem þar áttu sér stað með valdatöku Cromwells. Púritanarnir settust að á austurströnd Bandaríkjanna og höfðu gríðarleg áhrif til frambúðar sem birtist m.a. í viðhorfum þeirra til mannslíkamans.

Þar í landi þykir hins vegar alveg sjálfsagt að sýna ljótleika ofbeldis af margvíslegu tagi en fegurð mannslíkamns virðast þeir aldrei hafa lært að meta, því miður.

Mosi vill óska þeim Sigurrósarmönnum til hamingju með frábært lag og virkilega fallegt myndband. Gangi þeim allt í haginn!

Mosi


mbl.is Myndband Sigur Rósar bannað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfilegir tímar

Kalda stríðið var skelfilegur tími. Tortryggni var sáð á alla bóga og víða ólgaði allt að því gegndarlaust hatur milli manna. Fyrir barn og síðar ungling var þetta skelfilegur tími að alast upp við. Faðir minn lét ekki deigan síga, sýndi ótrúlega framsýni að láta lítið í skyn annað en að vilja kynna sér allar hliðar málsins. Hann keypti í lausasölu bæði Morgunblaðið og Þjóðviljann, stundum einnig Alþýðublaðið og Tímann þegar mikið var um að vera. Þetta var á þeim árum þegar dagblöðin voru uppfull af pólitískum upphlaupum. Stundum voru órökstudd svigurmæli til þess fram sett að gera lítið úr andstæðingum sínum.

Þegar Kúbudeilan kom upp á sínum tíma var Kalda stríðið í allri sinni dýrð. Herstöðvar Bandaríkjamanna voru í deiglunni, Íslendingar skiptust í tvo hópa þá sem vildu fylgja Sjálfstæðisflokknum og hina sem voru á móti hernum. Ógnarkraftur vetnissprengjunnar var mikið á vörum fólks og áhyggjur flestra á Íslandi gekk eiginlega út á það hvort væri verra hlutskipti í lífinu, að deyja úr bandarískri eða rússneskri geislavirkni! Svona gat þessi umræða verið barnaleg í alla staði og vitræn var hún alls ekki.

Nú má lesa þessi kaldastríðsár með því að fletta gegnum dagblöðin Morgunblaðið og Þjóðviljann. Vonandi verður ekki um langt að líða að Alþýðublaðið og Tíminn bætist við.

Vonandi koma þessir viðsjárverðu tímar aldrei aftur.

Mosi


mbl.is 32 heimili voru hleruð á árunum 1949-1968
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í upphafi skal endinn skoða

Furðulegt má það teljast að fólk sem vonandi er þokkalega skynsamt, þyki gaman að svona nokkru. Á þessu eru fjölmargar hliðar: ein er sú að slysatíðni hlýtur að vera nokkuð há. Þó svo að afleiðing slyss komi ekki alltaf strax fram, þá má reikna með ýmsum kvillum sem e.t.v. síðar koma í ljós. 

Álagið á heilbrigðiskerfið er þegar nokkuð mikið. Á að neita eldra fólki um nauðsynlega þjónustu ef koma þarf til hjálpar þeim yngri sem sýnt hafa af sér glannaskap og léttúð? Siðferðislega séð er þetta ekki aðeins á gráu svæði heldur kolsvörtu. Enginn á að gera sér lífið að leik með því að setja líkama sinn í hættu. Við eigum bara eitt líf.

Mosi

 


mbl.is Keppt í bílveltum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefndargjöf

Fátækt fólk í þróunarlöndunum væntir sjálfsagt einhvers betra af hjálparliði Sameinuðu þjóðanna en að liðsmenn þeirra leggist svo lágt að misnota börnin. Svona þokkapilta ætti að gera ábyrga gerða sinna og skylda að vinna kauplaust um einhvern tiltekinn tíma í þágu samfélagsábyrgðar, ef þeir þá gera sér minnstu grein fyrir því illvirki sem þeir hafa framið. Kannski að iðrun þeirra sé engin og þá brennur sú spurning á vörum margra hvort þeir ættu nokkuð gott skilið.

Þetta er mjög stór blettur á því mikilvæga hjálparstarfi sem liðsmenn Sameinuðu þjóðanna eiga annars að veita. Þeir sem í hlut eiga að máli eru e.t.v. siðferðislega séð kannski hin verstu úrhrök. Hvernig skyldu SÞ taka á agamálum sem þessu öðrum illum skálkum til alvarlegrar áminningar? Í Róm keisaratímans hefðu þeim verið fleygt fyrir óargadýr. Hvaða refsingu eiga svona úrhrök skilið?

Mosi


mbl.is Börn kynferðislega misnotuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgát skal höfð

Fyllsta ástæða er til að gefa þessum nýjustu talningum gaum. Hvað hyggjast stjórnvöld gera ef hrefnum og öðrum hvölum fækkar hér á landi?

Ástæðan er augljós: sjávarbotninn er mjög laskaður eftir linnulausar botnvörpuveiðar í heila öld. Allt lífkerfið er meira og minna úr lagi fært. Nú í dag erum við að veiða álíka mikið af þorski og Bretar veiddu árlega fyrir þorskastríðið 1972. Þetta er skelfileg þróun sem óhófleg notkun botnvörpu hefur sök á. Fyrrum voru það skammtímasjónarmiðin um mikinn gróða sem nú er að koma okkur í koll.

Áður fyrr var nóg af fiski og hval, nóg af öllu fyrir bæði þá og okkur mannfólkið. Núna sjáum við ofsjónum yfir þann fisk sem hvalir eta enda sitjum við uppi með ótrúlega eigingirni og skammsýni.

Hvenær kemur að því að við verðum að kannast við gömlu syndirnar og reyna að snúa þróuninni við, að svo miklu sem það er okkur unnt?

Mosi


mbl.is Hrefnu fækkar á landgrunninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðið minnir á sig

Öskjuhlíðin var vinsælt athafnasvæði barna og unglinga sem slitu barnsskónum í Hlíðunum. Margir leiðangrar voru farnir þangað og hápunktinum var líklega náð þegar við lásum okkur niður snarbrattan stig og í neðanjarðarbyrgi sem seinna kom í ljós að var notað sem stjórnstöð! Í einu herberginu niðri mátti skríða út úr þessu gegnum þröngt rör sem lá nokkra tugi metra í átt að Loftleiðum. Hjá syðri innganginum var hátt mastur sem notað hefur verið til fjarskipta. Til beggja handa voru gömul byssuhreiður enda voru Bretar við öllu búnir að verja flugvöllinn fyrir öllum mögulegum árásum. Við komum heim með rifnar buxur og skítugir upp fyrir haus. Hvað var það þó foreldranir voru brúnaþungir, þessi ævintýri voru á við bestu ævintýramyndir í stíl við Indiana Jones og áþekka kappa. Kannski að Leyndardómar Snæfellsjökuls eftir Jules Vernes hafi einnig ýtt undir fjörugt hugmyndaflug okkar.

Nú er það skógurinn sem vex og dafnar vel í Öskjuhlíðum, prýði Reykjavíkur, vettvangur fjörugs fuglalífs og mannlífs hvort sem er að sumri eða vetri. Þessum gömlu hernaðarmannvirkjum mætti sýna meiri sóma og gera kannski upp, hreinsa grjót og annan skít og hafa þar sýningu á vegum Árbæjarsafns enda er þessi staður einn best ákjósanlegasti vettvangur fyrir sýningu tengda hernámi landsins.

Mosi

 


mbl.is Skotfæri fundust í Öskjuhlíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð til í þessu

Nú hefur framboð á margvíslegum afþreyingarmöguleikum vaxið gríðarlega að undanförnu og á netið töluverðan þátt í því. Þó svo tómstundum fari almennt fjölgandi þá er ekki að vænta að áhugi aukist neitt úr þessu á þessari tegund tómstunda. Kynlíf er bæði tímafrekt og kallar á mikla orku. Það er því ekki á færi nema yngri kynslóðanna að sinna kalli náttúrunnar almennilega. Við sem erum komin yfir á miðjan aldur finnum okkur aðrar skemmtilegar tómstundir sem er við okkar hæfi.

Mæli með fuglaskoðun. Þær kalla á lágmarkshreyfingu en eru bæði þroskandi og bráðskemmtileg.

Mosi


mbl.is Kynlífsáhugi karla minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverskt skjálftavatn

Þegar jarðskjálftahrinur gengu yfir í kjölfar Kröfluelda á árunum 1975-1984 myndaðist nýtt stöðuvatn í Kelduhverfi. Það var nefnt skjálftavatn. Þar var jarðsig sem olli því en aðstæður eru ábyggilega mjög ólíkar, í Kína og og Kelduhverfi. 

Jarðfræðin er mjög áhugaverð vísindi en oft fylgja miklar raunir þeirra íbúa sem missa ættingja sína og eignir. Hugur okkar er auðvitað hjá þeim enda eru skelfingar sem þessar okkur Íslendingum ekki alls kostar ókunnar.

Mosi


mbl.is Gríðarstórt stöðuvatn myndast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Reykjavíkurflugvöllur á vetur setjandi?

Ef fólk vill hafa flugvöllinn áfram þá verður það að sætta sig við að leggja norður-suður brautina niður. Ekki er nein skynsemi að halda í hana enda er hún mikill hindrun eðlilegrar landnýtingar við þróun höfuðstaðar landsins. Austur-vestur flugbrautina má hins vegar lengja töluvert út í Skerjafjörðinn en þá verður að leiða umferð eftir syðsta hluta Suðurgötu undir brú.

Þessi flugbraut hefur verið mjög vannýtt enda dálítið styttri. Þegar vindrós Reykjavíkur er skoðuð þá eru austlægar áttir algengastar og því mun skynsamlegra að nota þá braut. Þá er mikill kostur að unnt er að draga verulega úr óþægindum fyrir þá sem búa í miðbæ, sunnanverðu Skólavörðuholti sem og í vesturbæ Kópavogs sem verða væntanlega þeirri stundu fegnastir þegar þessum ósköpum hefur verið létt af.

Vægi Reykjavíkurflugvallar á fyrst og fremst að binda við áætlunarflug innanlands, þyrluflug að einhverju leyti að ógleymdu sjúkra- og hjálparflugi. Annað flug eins og kennsluflug og tómstundaflug þarf að fara annað, t.d. væri unnt að koma slíku fyrir á minni flugvöllum, t.d. Hólmsheiði og Sandskeiði eða fyrir sunnan og vestan Straumsvíkur.

Millilandaflugi og öðru þotuflugi verður best sinnt í Keflavík. Við þurfum að setja mjög stífar hávaðatakmarkanir enda fylgir flugrekstri mjög mikill hávaði sem draga verður skilyrðislaust úr.

Mosi


mbl.is Meirihluti vill flugvöllinn áfram í Vatnsmýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tillitsemi við konur

Hægri umferð var á Íslandi fram til 1907. Þá var gerð sú breyting á þessari reglu að Hannes Hafstein lagði fram frumvarp að nýjum vegalögum. Einn þingmaður spurði ráðherran hvers vegna ætti nú að víkja til vinstri en ekki til hægri eins og tíðkast hafði.

Hannes svaraði því til að þessi breyting væri gerð fyrst og fremst af tillitsemi við konur. Svo stóð á að reiðstígar voru mjóir og þeir fáu vegir sem unnt var að aka vagni eftir, voru svo mjóir að þegar konur mættust og riðu í söðli, komust þær hvorki lönd né strönd því fótstykkin á reiðverum þeirra stóðust á!

Veturinn 1939-40 var lagt fram furmvarp á Alþingi Íslendinga um að breyta þessu aftur og skyldi tekin aftur upp hægri umferð frá og með ársbyrjun 1941. Eins og kunnugt er hernámu Bretar landið 10. maí 1940 og tóku þeir þessu eðlilega mjög illa enda áttu þeir nóg með að koma sér fyrir í stóru nánast veglausu landi.

Það varð því ekki fyrr en fyrir réttum 40 árum að við tókum aftur upp hægri regluna. Varúð frá hægri!

Mosi


mbl.is Hægri umferð 40 ára gömul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband