Bloggfærslur mánaðarins, september 2013

Icesave: In memoriam

Minningagrein Morgunblaðsins um Icesave birtist á dögunum.

Ekki er minnst einu aukateknu orði á þau mistök að blása þetta vandræðamál upp á sínum tíma og í þeim tilgangi einum að grafa undan ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Alltaf var töluverð vissa fyrir því að nægar eignir væru í þrotabúinu og á þeirri vitneskju byggðust samningarnir um Icesave.

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur bloggaði á sínum tíma um grófa útreikninga sína hvað töfin við að koma þessu vandræðamáli frá, kostaði íslenska þjóðarbúið. Við hefðum strax getað öðlast betra lánskjara, viðskiptakjara og vaxta hjá erlendum viðsemjendum okkar, undið fyrr ofan af atvinnuleysinu og komið þessum frægu hjólum atvinnulífsins fyrr að snúast.

En meirihluti þjóðarinnar lét glepjast af svartagallsrausinu mikla, stjórnuðu af þeim félögum Sigmundi Davíð, Ólafi Ragnari og öðrum afturhaldsmönnum.

Þetta eru með dýrari afglöpum í sögu Íslendinga fyrr og síðar.

En mikið var að Mogginn hefur lýst málinu lokið og það á farsælan hátt.

Eg bið forláts  að hafa ekki vakið fyrr athygli á þessari mikilsverðu staðreynd, rakst á þetta í Morgunblaðinu á bókasafninu.

Góðar stundir. 


mbl.is 579 milljarðar endurheimst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skynsamleg leið

Afvopnun er skynsamlegasta leiðin til að forðast stríðsátök. Þessi borgarastyrjöld í Sýrlandi hefur verið mjög mannskæð og mikilvægt er að alþjóðasamfélagið reyni allt til þess að koma í veg fyrir að þessi átök verði meiri og verri.

Nú hefur komið í ljós að forsetinn virðist ekki hafa fyrirskipað eiturefnaárásir heldur einhverjir ónafngreindir herforingjar. Það bendir því til að alvarlegur ágreiningur hafi komið upp meðal yfirstjórnar Sýrlendinga.

Afvopnun er andstaða við vopnavæðingu og aukin stríðsátök. Að magna upp deilu er það versta sem gert er. Við skulum hafa hugfast að vopnaframleiðendur og vopnabraskarar bíða átekta til að selja þeim sem vilja auka tortryggni og þar með hatur. Á öllu má græða og vopnasala er ein arðvænlegasta leið til auðsöfnunar, viðskiptatækifæri eins og það heitir á máli bisnessmanna.

Það var miður að ekki tókst að finna friðsamlegri leið vegna Íraks fyrir rúmum 10 árum. Sennilega leiðir eitt stríð af sér nýtt og oft er það mjög mjótt á mununum að unnt sé að feta friðsamlegar leiðir. 


mbl.is Sýrlandsstjórn afhendi efnavopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er eignarréttur?

Eignarrétturinn er einn mikilsverðasti þáttur borgaralegra réttinda. En spurning er hvar mörkin eru. Í Rómarrétti var eignarrétturinn tengdur við samband hlutar (andlag eignarréttar) viðeiganda hlutarins. Þannig var ljóst að hlutur sem var eigendalaus, þar sem tengingin hafði rofnað, þá var jafnvel litið svo á að eigandinn hefði gefið upp eignarréttinn. Þannig er ljóst að hlutum sem er fleygt eru eigendalausir.

En skrásettir hlutir eru tengdir eigenda sínum þó svo að tengslin rofni. Þannig á eigandinn hlutinn þó svo honum hafi verið stolið eð hann hafi týnst.

Í þessu tilfelli bar finnanda að skila þessum fundna hlut til lögreglu og jafnvel má reikna með að hann hafi bakað sér refsiábyrgð með því að slá eign sinni á símann sem sjálfsagt er töluverðs virði. Einnig kann að reyna á hvort finnandinn hafi hagnýtt sér símann þannig að hann gæti notað inneign eða gjaldfærslu símafyrirtækisins gagnvart símaeigandanum. Í opinberu máli ætti að vera tiltölulega auðvelt að rekja símtöl, við hvaða númer hefur verið hringt í og finna út hver hagnýtti sér símann.

Refsirétturinn er einn skemmtilegasti og athyglisverðasti vettvangur innan lögfræðinnar sem hugsast má. Er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa gömul dómsmál þar sem reynir á hin ýmsu svið þessarar fræðigreinar.


mbl.is Sekt fyrir að slá eign sinni á síma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnlega góðir bílar

Fyrir 11 árum keypti eg Toyotu Coralla Touring bíl 4x4 af árgerð 1997. Þetta var fínn bíll sem dekrað hafði verið við. Þetta var velmeðfarinn notaður bílsskúrsbíll frá Akureyri. Hann entist í ein 6 ár en honum varð að aldurtila að ekið var í veg fyrir hann á Sæbrautinni. Þá var búið að aka honum hátt í 250 000 km.

Eftir þetta óhapp festi eg kaup á annarri Toyoto líkrar gerðar en ekki 4x4, því miður. Þetta eintak er andstæða forvera síns, þarf töluverðs viðhalds enda hafði hann verið mikið á ferðinni í saltdrullunni á Keflavíkurveginum. En það þarf að dedúa dáldið við bíla hvort sem þeir eru framleiddir á mánudögum eða öðrum dögum, í Japan eða Tyrklandi eins og sá sem eg hefi núna. 

En meðferð á bílum er misjöfn. Faðir minn hvatti mig að aka þannig að eins væri að bíllinn væri troðfullur af postulíni. Það þyrfti að aka bíl eins „mjúkt“ og unnt er. Faðir minn fann að jafnaði til ef bílarnir hans lentu í misfellu á vegunum, hvað þá djúpri holu. Nú stendur flestum á sama enda margir með skítnóg af peningum. 


mbl.is 40 milljónir Toyota Corolla seldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í hvorn fótinn hyggst forsætisráðherrann stíga?

Ætla mætti að auðmaðurinn tími ekki að leita sér lækninga við þessu meini en velji fremur að vera eins sundurlaus og unnt er að hugsa sér.

Hvort þetta sé það sem koma skal, verður fróðlegt að fylgjast með.

 


mbl.is Fótabúnaður Sigmundar vekur athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð hugmynd

Gamalkunn aðferð er að safnast saman á Austurvelli og mótmæla einhverju sem ofarlega er á baugi. Nú er hvatt til að koma til að hvetja þingheim til dáða. Góð hugmynd en hversu árangursríkt það kann að vera, veður að koma í ljós.

Með hliðsjón af reynslu undanfarinna ára og jafnvel áratuga duga málaferli gegn stjórnvöldum ekki til ef vilji er fyrir hendi að knýja þau til efnda. Öryrkjabandalagið efndi tvívegis til málaferla gegn ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og vann í bæði skiptin. En sú ríkisstjórn virtist finna smugur til að koma sér frá efndum þrátt fyrir að fullyrt væri að mikið góðæri væri í landinu. En góðærið var fyrir raskarana, þá ríku og hátekjumennina auðvitað líka en aumkast var yfir þeim með því að lækka skattana og afnema eignaskattinn.

En öryrkjarnir og þeir sem minna mega sín gleymdust í góðærinu. 


mbl.is Boða til hvatningarfundar á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg sjónarmið

Hver vill kaupa landbúnaðarafurðir sem vitað er að hafa verið framleiddar við ófullnægjandi aðstæður? Langsamlega flestir bændur eru meðvitaðir um eins og vandaðir kaupmenn að þeir selja aðeins einu sinni gallaða vöru.

Sem neytandi vil eg ekki kaupa landbúnaðarvörur sem eg veit að eru framleiddar með þeim hugsunarhætti að framleiða meira að magni en gæðum. Því miður eru nokkrir skussar í landbúnaðinum sem eyðileggja markaðinn fyrir öðrum þar sem þeir hugsa meira um magnið en gæðin. Þeir reisa sér hurðarás um öxl, hafa allt of mikið af búfé sem þeir geta ekki undir neinum kringumstæðum sinnt eins og ber að vænta.

Ill meðferð á skepnum á ekki vera verðlaunuð með því að taka þessa skussa í sátt án þess að þeir hafi sinnt sínum skyldum gagnvart búsmala sínum og samfélaginu.

Þeir eiga að finna sér önnur verkefni sem þeir ráða betur við og eru ekki öðrum til vansa. 


mbl.is MS vill ekki mjólkina frá Brúarreykjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrstu skóladagarnir

Svo lengi sem eg man eftir hefur eftirspurn að taka sér far með strætisvögnum fyrstu skóladagana alltaf verið meiri en sætaframboð. En fljótlega dregur úr og fleiri nota aðra möguleika.Verst er þegar einn fer með einkabíl sem er það dýrasta fyrir hann sem einstakling og samfélagið allt.

Núverandi almenningsflutningakerfi er vanbúið undir núverandi kringumstæðum að mæta þessu álagi. Rekstaraðilinn sem rekur strætisvagnakerfið verður að miða rekstur sinn við að reka þjónustuna allt árið og þá er alltaf spurning hvernig unnt sé að mæta auknu álagi. Það hefur verið gert með stærri vögnum og fleiri svo lengi sem það er unnt.

Námsmenn eru mikilvægir viðskiptavinir Strætó og það þarf að gera þeim sem flestum mögulegt að nýta sér þjónustuna sem reynt er að hafa eins hagkvæma og unnt er. 

Víða má bæta þjónustuna m.a. með því að stuðla betur að stundvísi vagnanna. Á þessu er mikill brestur m.a. vegna mikillrar umferðar á álagstímum. Þannig seinkar þeim vögnum mjög síðdegis sem leið eiga austur Miklubraut. Fyrir nokkrum árum var ráðin bót á þessu með lagningu sérstakrar akstursreinar fyrir Strætó í vestur átt. En svigrúmið er mjög lítið m.a. frá Stakkahlíð og vestur að Snorrabraut, nema með töluverðum tilfæringum sem íbúar nærliggjandi húsa verða sennilega ekki ánægðir með.

 


mbl.is „Þetta var því miður svona“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurlæging í boði hægri aflanna

Einkavæðing bankanna á sínum tíma var óvenjulega brött. Hún var mjög óraunsæ og byggðist fyrst og fremst á draumórum hægri manna að hygla þeim sem betur mega sín. Ljóst er að gríðarleg breyting varð á samfélaginu og nú er komið að því sem afleiðing Frjálshyggjunnar: Stöðugt fjölgar þeim sem missa fæturnar í samfélaginu og þegar þeim tekst ekki að fá hvorki atvinnu, húsnæði, fæði og húsaskjól, þá reynir á samfélagsinnviðina. En þeir eru því miður á höndunum á hægri mönnum  sem vilja skera sem mest niður og brjóta niður samfélagsþjónustuna enda er jhún tóm útgjöld að þeirra mati og engum arði skilar.

Að sækja sér hið daglega brauð til annarra er mörgum niðurlæging. Hollt er að minnast örlaga Bjarts í Sumarhúsum sem þótti vera sín versta niðurlæging að sækja sér súpudisk til fátækra verkafallsmanna. Þó hann hafði séð af jörð sinni sem hann hafði svo vel bætt á ýmsar lundir þá var missir hennar á nauðungaruppboðinu ekki svo mikil niðurlæging en að skerða kjör þeirra sem nánast ekkert höfðu.

Þetta íhald kaus 51% þjóðarinnar yfir sig og verði þessum 51% að góðu! Við hin 49% vildu kappkosta að byggja upp nýtt samfélag með nýrri stjórnarskrá og nútíma viðhorfum til landsstjórnar, m.a. með því að tengjast Evrópusambandin u og njóta þeirra borgaralegu réttinda og öryggis sem þar er að finna. Því kusum við aðra flokka en þessa afturhaldsmenn sem nú stjórna landi og lýð með ákaflega misjöfnum árangri. Við megum búast við því að stýft verði við trog það sem til skiptanna er enda hefur þessari ríkisstjórn tekist að glutra niður mikilsverðum tækifærum að bæta hag ríkissjóðs að um munar.

Ríkisstjórnin er fulltrúi skortsins sem því miður hefur allt of lengi sýnt alþýðu fólks á sér krumlurnar.

Verði þeim að góðu! 


mbl.is Utangarðsmenn aldrei fleiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gleymdist hagræðingin og skuldir heimilanna?

Hvað á 300.000 manna þjóð að gera við allt of mikið af ráðherrum? Eitt af afrekum síðustu ríkisstjórnar var að fækka ráðherrum og sameina ráðuneyti.

Nú á að þenja allt út á nýjan leik og stórauka kostnað af nýjum ráðherrum til að treysta betur völdin. Í hvaða tilgangi var þetta annars gert? 


mbl.is Nýr ráðherra kynntur fljótlega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband