Bloggfærslur mánaðarins, október 2013

Er sæstrengur blindgata?

Í Fréttablaðinu í dag, 31.10. er á bls. 28 grein 2ja verkfræðinga, þeirra Valdimars K. Jónssonar og Skúla Jóhannssonar sem þeir nefna „Sæstrengurinn“. Í greininni vara þeir eindregið við mikillri bjartsýni sem þeir telja Landsvirkjun og fleiri aðila í samfélaginu fylgja. Benda þeir á gríðarlega áhættu varðandi lagningu og rekstur sæstrengja en vegalengdin frá Suðaustur Íslandi til Skotlands er um 1000 km. Tvímenningarnir spyrja eðlilega margra spurninga sem eru í algjörri óvissu eins og t.d. hvaða aðili eigi að leggja og reka sæstrenginn og þá gríðarlegu rekstraráhættu sem fylgir sæstreng sem þessum. Benda þeir á að vel kann að fara að rekstraröryggið sé ekki meira en svo að strengurinn geti verið laskaður mánuðum saman.

Þeir Valdimar og Skúli benda á gríðarlegan kostnað sem er varlega áætlaður 2 milljarðar evra auk byggingu nýrra virkjana og rafmagnslína frá virkjunum að sæstreng. Áætla þeir kostnaðinn nema um 720 milljarða og að árlegur rekstrarkostnaður gæti numið 10% eða 72 milljasrðar. „Til að setja þetta í samhengi, þá er áætlað að tónlistarhúsið Harpa hafi kostað 27 milljarða ISK. Árlegur kostnaður sæstrengs jafngildir því byggingarkostnaði á tæplega þremur stórhýsum eins og Hörpu“, segja þeir í grein sinni.

Mættu ráðmenn athuga betur og ígrunda þessi mál áður en tekin er vafasöm ákvörðun sem kann að reynast kolröng. 


mbl.is Ekki nóg að horfa bara á tekjuhliðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta rétta leiðin?

Að hækka alla opinbera þjónustu er köld gusa framan í venjulegt launafólk. Það er sá hluti þjóðarinnar sem minnst ber úr býtum og allar hækkanir eru erfiðar þegar laun hækka ekki í takt. Nú má reikna með að lán hækki líka enda allt meira og minna innbyggt í vísitölukerfið.

Þegar laun hafa nánast staðið í stað og verið óbreytt árum saman þá má reikna með að nýir kjarasamningar verði erfiðari.

Íslenska krónan er fyrir löngu orðinn safngripur. Hún er ekki í neinum tengslum við raunveruleikann og er miður að stjórnvöld spyrntu gegn áframhaldandi viðræðum við Evrópusambandið. Við getum með vænlegri gjaldmiðli byggt betur upp samfélagið okkar og hugað betur að framtíðinni.

Nú má reikna með að flest hækki í samfélaginu og að við séum á leiðinni inn í óðabólguþjóðfélagið sem hófst 1942 og náði hámarki fyrir um 30 árum þegar dýrtíðin fór í 3ja stafa tölu. Hverjir tapa og hverjir græða? Nánast allir tapa en braskaranir græða! 


mbl.is Fargjöld Strætó hækka um 7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elsta húsaröð landsins

Sú var tíðin að til stóð að rífa öll hús milli Stjórnarráðsins og MR. Talað var fjálglega um gamlar fúaspýtur og hrörlega kofa sem einhverjir sérvitringar vildu varðveita. Nú dettur engum manni í hug að fjarlægja þessi fögru hús og byggja gríðarstóra steinsteypubyggingu eins og stóð til á sínum tíma.

Eg man eftir því þegar hópur áhugasamra kom saman og málaði þessi hús fyrir rúmum 40 árum og umræðan hófst um hvernig varðveita mætti Bernhöftstorfuna. Þarna voru arkitektar, listamenn og leikarar á ferð sem vildu hefja þessi hús til virðingar. Þau voru mjög illa leikin m.a. af brennuvörgum sem margsinnis reyndu að koma þeim fyrir kattarnef. Í dag er Bernhöftstorfan ein fegursta og jafnframt elsta húsaröð á gjörvöllu Íslandi enda var þeim strax í upphafi gefið nýtt hlutverk. 

Sem leiðsögumaður erlendra ferðamanni í mörg ár er eg stoltur af þessum húsum. Þau eru lítið brot af 19. öld sem enn má sjá í miðbæ Reykjavíkur þar sem oft hafa orðið mjög slæmir og afdrifaríkir brunar, oftast af kæruleysi. Um langa hríð mátti ekki byggja eitt einasta timburhús í Reykjavík, þeim fækkaði óðum, nokkur flutt upp í Árbæ. En það rétta  er að varðveita þau á upprunalega staðnum.


mbl.is Mikill áhugi á Bernhöftstorfunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd að lausn

Nýverið var eg á ferð um Coloradofylkið í BNA. Við vorum áhugasamir félagar í Skógræktarfélagi Íslands að skoða tré í haustlitum í þjóðgörðum þar í Klettafjöllunum. Mjög mikil náttúrufegurð er þarna og í landi einkavæðingarinnar í allri sinni dýrð dettur engum heilvita manni að rukka ferðamenn á eigin spýtur fyrir að skoða sig um.

Það fylgja nefnilega mikilvægar skyldur jafnframt því að krefjast aðgangseyris. Þar þarf að vera góð og óaðfinnanleg aðstaða til fræðslu og heilbrigðismála að ógleymdu öryggi. Og einkaaðilum fallast yfirleitt hendur að taka slíkt hlutverk að sér og velja fremur að eftirláta því opinbera að sjá um þessa þætti.

Vel mætti hugsa sér að ferðamenn sem koma hingað til lands sé boðið í Leifstöð að kaupa sér sérstakt persónulegt skírteini sem gildi í eina eða fleiri vikur eftir ósk viðkomandi. Fyrsta vikan kosti t.d. 10-20 Evrur og veiti ókeypis aðgang og not að öllum þjóðgörðum landsins, byggðasöfnum, listasöfnum og öðrum söfnum sem rekin eru fyrir opinbert fé. Síðan mætti hver vika kosta eitthvað minna.

Hér er hagræðið í að einu sinni er rukkað fyrir en ekki margsinnis eins og verið hefur. Skírteini mætti vera strikamerkt og starfsmaður á hverjum stað sér um að hver ferðamaður skanni inn strikamerkið. Þannig er unnt að telja hvern ferðamann á hverjum stað sem gefur möguleika á leið til að allir heimsóttir staðir fái sinn hlut af aðgangseyri með hliðsjón af notum.

Við Íslendingar höfum verið viðkvæmir fyrir gjaldtöku gagnvart okkur enda teljum við með sköttunum sem við greiðum, séum við að inna af hendi hlut okkar.

Þessari hugmynd er hér með komið á framfæri sem eg vona að einhver ráðamaður eða þingmaður geri að sinni, breyti og aðlagi að sínum hugmyndum.

Meðfylgjandi er mynd frá Gunnison þjóðgarðinum í Colorado, Svörtu gljúfrum, Black canyon eru mjög djúp, nokkur hundruð metra. Þarna eru öflugar öryggisgirðingar og merkingar, frábær upplýsingamiðstöð og hreinlætisaðstaða.

Góðar stundir. 


mbl.is „Enda á ég Kerið og borga ekki krónu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundurlyndi vinstri manna hefur verið vatn á myllu Sjálfstæðisflokksins

Margir eldri borgarar muna eftir borða sem strengdur var þvert yfir Bankastrætið efst: „X-D Vörn gegn glundroða“.

Sjálfstæðisflokkurinn reyndist í raun engin vörn gegn þeim glundroða sem bankahrunið og græðgin í samfélaginu skildi eftir sig. Og allt ætlaði um koll að keyra þegar ákveðið var að ákæra Geir Haarde fyrir afglöp í starfi. Hann var talinn hafa sýnt af sér vanrækslu í starfi sem forsætisráðherra en dæmdur í vægustu refsingu.

Nú þegar Jón Gnarr lýsir yfir að hann sé hættur sem borgarstjóri í Reykjavík þar sem hann vill fremur þjóna listagyðjunni fremur en „fröken Reykjavík“. Og þá fer mikill hugur um þá sem fylgja Sjálfstæðisflokknum.  

Sennilega er Jón Gnarr með skárri borgarstjórum Reykjavíkur. Hann er ekki sérlega pólitískur, hann sóttist eftir vel launuðu starfi  sem hann þyrfti ekki að sinna of mikið um. Með því voru ákveðin skilaboð og innst inni er Jón Gnarr fyrir vikið einn sá heiðarlegasti sem setið hefur í stól borgarstjóra.

Því miður ber sagan Sjálfstæðisflokknum ekkert of vel söguna. Ásamt Framsóknarflokknum eru þessir flokkar tengdir alvarlegri spillingu langt aftur í tímann. Völdin hafa glapið mönnum sýn og oft hafa þau verið gróflega misnotuð. Siðvæðing hefur aldrei náð inn fyrir flokksmúrana og er það miður. Ráðamenn hafa metið eigin hagsmuni fram yfir önnur sjónarmið sem vera kunna mikilsverðari.

Íslenskir stjórnmálamenn starfa ekki eftir siðareglum. Þeir hafa frumskógalögmálið í fyrirrúmi, kappkosta í skjóli auðs og áhrifa að koma sér í betri aðstöðu og eru tilbúnir að leggja töluvert undir. Prófkjör á vegum Sjálfstæðisflokksins minnir meir á óráðsíu og spillingu í Rómaborg fyrrum en daglegt líf í Reykjavík nú.

Stjórnmálamenn eiga margt eftir ólært, sérstaklega þurfa stjórnmálamenn innan gömlu valdaflokkanna að taka sig á, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Þeir mættu lesa sem skyldulesningu ævisögu Páls Jónssonar vegfræðings sem Jón Helgason færði í letur á sínum tíma: „Orð skulu standa“. Innihaldslaus loforð sem ekki verða efnd ber vott um mjög lélegt siðferði og vitund um muninn hvað rétt er og rangt.

Við lifum á miklum breytingatímum. Þær breytingar eiga að leiða okkur fram á veginn en ekki afvegaleiða okkur inn í einhverja afdali þar sem nátttröllin ráða!

Góðar stundir. 


mbl.is Gjörbreytt staða í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr með skástu borgarstjórunum

Lengst af hafa borgarstjórar í Reykjavík verið pólitískir. Fyrsti ópólitíski borgarstjórinn var Egill Skúli Ingibergsson sem var ráðinn af fyrsta meirihlutanum 1978. Hann var ráðinn eins og hver annar framkvændarstjóri í fyrirtæki og reyndist hann vel. Á hans dögum var ráðist í gríðarlegar hitaveituframkvæmdir þegar Hitaveita Reykjavíkur færði þjónustusvæði sitt til Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar. Þessar framkvæmdir voru ákveðnar vegna mjög mikillra hækkana á olíu sem var aðallega notuð til húshitunar í þessum sveitarfélögum. Þessi ákvörðun var hápólitísk en skynsöm enda borgðai þessi framkvæmd sig á skömmum tíma. Að vísu var bókhaldslega séð gríðarlegar hækkanir á skuldaliðum HJitaveitunnar vegna framkvæmdanna en jafnskjótt og notendum fjölgaði skilaði mikið fé  inn í sjóði Hitaveitunnar. Veturinn 1981-82 voru skuldir Hitaveitunnar ásamt sprungunum við Rauðavatn aðalkosningamalið hjá Davíð Oddssyni sem vann stórsigur í kosningunum vorið 1982. Þá settist í stól borgarstjóra Reykjavíkur sennilega einn pólitískasti borgarstjóri Reykvíkinga sem fyrst og fremst gætti hagsmuna meirihluta Sjálfstæðisflokksins.

Næsti ópólitíski borgarstjórinn var Þórólfur Árnason. Hann lagði áherslu á að vera borgarstjóri allra Reykvíkinga og það sama má segja um Jón Gnarr sem fyrst og fremst var að sækjast eftir vel launuðu starfi sem hann þyrfti ekkert of mikið að hafa fyrir. Og hann varð að ósk sinni og hefur gegnt þessu starfi með mikillri prýði.

Jón Gnarr hefur vakið athygli víða fyrir frjálsa framkomu og skemmtilegar uppákomur sem að vísu falla ekki öllum í geð, sérstaklega virðulegum borgurum sem eru viðkvæmir fyrir ýmsu sem öðrum þykir sjálfsagt. 

Nú hlýtur að hlakka í forystusauðum Sjálfstæðisflokksins sem sjá fram á betri tíma. Þessi staurblinda foringjablinda er skelfileg. Þeir líta á borgarstjóra sinn sem yfirmann fyrirgreiðslupólitíkur og að betur verði unnt að koma ár sinni fyrir borð.

Þá er ólíklegt að allir búi við sama borð. 

 


mbl.is Jón Gnarr hættir í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sennileg afleiðing?

Í lögfræðinni er glímt við rökfræði. Ef atburður A leiðir til þess að tjónþoli verði til annars tjóns B er þá unnt að sanna að tjón vegna B hafi aðeins orðið vegna undanfara tjóns A?

Í þessu tilfelli er maður sem er á leið í fylgd sjúkrabíls vegna atviks A en lendir í tjóni B og lést er þá það afleiðing vegna A? Svo sannanlega en ekki sennileg afleiðing undir venjulegum kringumstæðum. Tjónið í atburði A er ekki það mikið að jafnast á við mun alvarlegri afleiðinga vegna atburðar B.

Ljóst er að atburður B hefði aðeins orðið eftir að atburður A hefði átt sér stað. Eða var hvor atburðurinn fyrir sigsérstök tilviljun og þá óháður hvor öðrum?  

Það er einmitt þetta orsakasamband sem lögfræðingar geta deilt langtímum saman fyrir dómstólum og fært hvor um sig sannfærandi rök fyrir máli sínu.

Þegar eg las þetta rifjaðist upp fyrir mér tímar fyrir nær 40 árum í skaðabótarétti hjá prófessor Arnljóti Björnssyni sem var mikið fyrir að fjalla um þessa hluti: eðlilegt orsakasamband og sennilega afleiðingu. Þarna gafst gott tækifæri til æfinga um rökfærslur. Þarna átti að rökræða án tilfinninga og það varð hin besta íþrótt rétt eins og að tefla. Eg lauk aldrei prófi, eg fékk alltaf dúndrandi hausverk af þessu öllu saman og ákvað að leggja árar í bát.


mbl.is Lést í bílslysi á leið á sjúkrahúsið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er furðulegt

Varla getur það verið auðvelt að vita ekkert um afdrif eiginmanns síns hátt í 4 áratugi. Nú gerist þetta á friðartímum en á stríðsárunum gerðust margir furðulegir atburðir líkir þessum en þó nokkuð örðruvísi.

Jón kadett í Hjálpræðishernum réð sig á erlent kolaskip í upphafi stríðsins. Steinn Steinarr orkti frægt kvæði um Kadettinn þar sem Hjálpræðisherinn stóð á bryggjunni og söng. Engum datt í hug annað en að nú væri kadettinn drukknaður einhvers staðar. Mikil var undrun félaga hans þegar hann birtist 10. maí 1940 með breska hernum og var hann nú sérlegur túlkur og undirliðþjálfi að tign. Hefur Jónas Árnason skáld, þingmaður og rithöfundur fært í letur ódauðlegar frásagnir kadettsins og kom út á bók: Syndin er lævís og lipur.

Norður á Siglufirði skrapp maður nokkur út í mjólkurbúð með brúsann og var hans auðvitað von til baka stundarkorni síðar. Þessi frásögn gerðist á stríðsárunum. Ekki kom hann heim þann daginn og spurðist ekkert til hans um nokkurra mánaða skeið. Frásögn hans var nokkuð skondin en hann fór um borð í skip sem lét úr höfn án þess að hann komst frá borði. Fór hann með skipinu og var erlendis um tíma uns kom til baka með sennilega öðru skipi. Gekk maðurinn inn í hús sitt og varð vitanlega fagnaðarfundur meðal ættingja hans. Ekki fór neinum sögum af mjólkurbrúsanum, sjálfsagt hefur hann orðið viðskila við eiganda sinn en ef þennan mjólkurbrúsa sé einhvers staðar að finna er hann að öllum líkindum með víðförulli mjólkurbrúsum.


mbl.is Ekki heyrt í eiginmanni sínum í 37 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sýnir Gunnar utanríkisráðherra skynsemi?

Kínverskir fjárfestar hugsa allt öðru vísi en margir vestrænir fjárfestar. Þeir vilja tryggja hagsmuni sína sem mest, eru nokkuð stórkarlalegir og vilja sína mátt sinn og meginn. En þegar á reynir, vilja þeir fara sínu fram á eigin forsendum. Þýska tímaritið Der Spiegel sýndi fram á hverju kínverskar fjárfestingar í Austur Afríku hafa leikið þjóðir þar grátt. Auðvitað lofuðu Kínverjar gulli og grænum skógum en í raun byggðist fjárfestingar þeirra að nýta sér námur og náttúruauðævi en innfæddir njót lítt góðs af. Þannig flytja kínverjar sitt eigið vinnuafl, leggja járnbrautir eftir sínum ströngustu hagsmunum og taka lítt sem ekkert tillit til innfæddra. Verður þetta nokkuð öðru vísi þegar þeir hafa lagt undir sig Grímsstaði í boði Gunnars utanríkisráðherra sem nú er almennt nefndur að viðurnefni „Kakastan“.

Því miður er mjög líklegt að hann láti varúðarráðstafanir Ögmundar fyrrum innanríkisráðherra sem vind um eyru þjóta og glepjist af fagurgala Kínverja. 

Nú eru Grænlendingar að opna sitt land af sömu blindni. Þegar Kínverjar koma með sínar þúsundir verkamanna og Grænlendingar horfa í gaupnir sér aðgerðalausir, munu þeir ábyggilega sýta orðinn hlut.

Þess mmá geta að Kínverjar virða engin mannréttindi hvort sem það eru hlutaréttindi og einkaleyfi eða hrein mannréttindi. Hvergi í heiminum er jafnmikið um mannréttindabrot og í Kína. Hafa þeir lengi dregið lappirnar þrátt fyrir ótal tilmæli að bæta sig í þeim efnum.


mbl.is Eðlilegt að nýta áhuga Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofbeldi á ekki að líða

Yfirvöld gera rétt í því að sporna við ofbeldissamtökum á borð við Vitísengla og áþekkan ófögnuð. Þó svo að braskarar og ýmsir stjórnmálamenn séu slæmir, þá hafa þeir helst fé af okkur og hafa að fíflum en ofbeldismenn hafa oft bæði fé og frelsi af þeim sem verknaðurinn beinist gegn.

Þessin verknaðarlýsing í fréttinni er dapurleg hversu nútímamaður ngetur sýnt af sér gagnvart sínum nánasta. Nú er nað öllum líkindum allar forsendur brostnar og málið komið til dómstóla.

Þegar svona alvarleg mál koma upp, þá eru þau staðfesting á því að uppeldið og skólakerfið hafi ekki staðið sig nógu vel. Einstaklingar sem sýna ungir af sér ámælisverða hegðun þurfa sérúrræði sem eiga að beina þeim á rétta braut. Því miður er skólunum ekki nógu nvel sinnt og þá gerist aftur og aftur að þessir einstaklingar gerast uppivöðslusamir og lenda á glapstigum.

Því miður skilar sparnaður sér ekki í skólakerfinu ekki til samfélagsins þegar einstaklingar leiðast út á varhugaverðar brautir. Þeir skaða samfélagið mjög mikið og eru fyrir vikið mun dýrari samfélaginu sem afbrotamenn en uppeldisverkefni meðan þeir eru enn ungir og viðráðanlegri.


mbl.is Kastaði bjórdósum í konu sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband