Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Mikill leiðtogi tekur ákvörðun

Eg hefi aldrei rætt við Jóhönnu en fylgst þess betur með störfum hennar í 3 áratugi. Hún er með sjóuðustu þingmönnum landsins og hefur mátt standa marga ágjöfina í ölduróti stjórnmálanna. Alltaf hefur hún haft hagsmuni allrar þjóðarinnar í fyrirrúmi og aldrei hugað að hygla sér og sínum. Þar eru freistingarnar við hvert fótmál og þær hafa Jóhanna alltaf staðist enda komin af góðu og merku alþýðufólki. Annað er ekki unnt að segja t.d. um helstu forystusauði elstu flokkanna á þingi sem báðir hafa verið í skammakrók stjórnmálanna eftir að hafa leikið sér að fjöreggi þjóðarinnar allt of lengi.

Jóhanna má vera þokkalega ánægð með drjúgt starf sem hefði auðvitað getað orðið enn betra hefði samstarf við stjórnarandstöðu og forseta lýðveldisins verið eðlilegt og viðunandi. Hvert smámál hefur jafnan verið blásið upp og gert tortryggilegt, allt gert til að leggja steina í götuna að endurreisnarstarfinu, já reyndar heilu fjöllin.

Það verður ekki létt verk fyrir Samfylkinguna að finna nýjan, farsælan og góðan leiðtoga sem tekið gæti við keflinu af Jóhönnu. Ekki er ólíklegt að nú muni hefjast mikil áskorunarherferð að hvetja Jóhönnu að endurskoða ákvörðun sína til að hún leiði Samfylkinguna áfram gegnum næstu kosningar. Hún hefur lagt mikið af mörkum í þágu lands og þjóðar að leiða okkur út úr þeirri gríðarlegu efnahagserfiðleikum sem Sjálfstæðisflokkurinn taldi sig ekki geta ratað frá.

Góðar stundir.


mbl.is Jóhanna ætlar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takmarka þarf umferð vélknúinna farartækja á vötnum landsins

Þetta óhapp staðfestir enn þörfina á að takmarka þarf umferð vélknúinna farartækja á vötnum landsins. Slys vegna ókunnugleika, handvammar eða jafnvel ölvunar gera aldrei boð á undan sér. Oft vanmetur fólk hæfni sína og búnað báta sinna. Veður getur breyst skyndilega og þar fram eftir götunum.

Líklegt er að afl bátsins hafi verið töluvert og hann því steytt á skerinu. Mildi er að enginn fórst en í Þingvallavatni hafa oft orðið slys og óhöpp sem ekki eru alltaf tilkynnt.

Umferð vélknúinna farartækja á vötnum verður að setja einhver skynsamlegar reglur. Setja þarf ákvæði um gerð og búnað báta og hversu mikið afl þeir mega hafa, gerð eldsneytis og setja einhverjar reglu um hámark ef um er að ræða mengandi efni. Æskilegastir eru rafvélar sem menga sáralítið, nánast enginn hávaði eins og fylgir sprengihreyflum.

Í 21. gr. draga frumvarps til nýrra náttúruverndarlaga eru hugmyndir sem þarf að orða betur.

Góðar stundir!


mbl.is Synti slösuð í ískulda og myrkri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski skynsamlegasta ákvörðunin

Sem ráðherra umhverfismála þótti Siv ákaflega umdeild. Hún leyfði Kárahnjúkavirkjun án þess að nein afdrifarík skilyrði væru sett af hennar hálfu. Hún var því allvaldamikil í valdabyggingu Davíðs og Halldórs.

Eftir að hún komst í stjórnarandstöðu varð hún betri þingmaður og kom við sögu nokkurra ágætra þingmála. Þannig má með rökum segja að hún hafi verið með skárri þingmönnum Framsóknarflokksins sem minnir einna helst á gamla og fölnaða biðukollu sem bíður þess að visna og hverfa í svörðinn.

Og kannski er það skynsamlegasta ákvörðunin hennar að hætta. Framsóknarflokkurinn eða öllu heldur Biðukolluflokkurinn er að verða að einhverri furðulegustu ljónagryfju norðan Alpafjalla þar sem valdabarátta milli fulltrúa braskara- og spillingaveldisins annars vegar og örfárra „Framsóknarfrávillinga“ af gamla skólanum.

Siv getur nú á vendipunkti lífs síns hrósað happi að eiga von á að njóta ofureftirlauna sem er einn stærsti minnisvarði ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar ásamt Kárahnjúkavirkjun og einkavæðingu bankanna.

Góðar stundir - en án braskara biðukollumanna!


mbl.is Siv hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoppa verður stórhuginn

Að byggja 60 herbergja hótel á landsbyggðinni í einum áfanga er nokkuð bratt. Betra er að áfangaskipta slíku verkefni og hefur reynslan sýnt að það er mun hyggilegri leið. Sennilegt er að þessi hótelbygging hefði verið byggð með lánsfé og sennilega hefði þurft enn meira lánsfé til reksturs. það sér hver heilvita maður að slíkt er glæfraspil enda með öllu óvíst hvernig svo stórt hótel komi út í rekstrarumhverfi sem ekki er alltaf dans á rósum.

Víða í ferðaþjónustunni hefur þótt farsælt að byggja eftir efnum og ástæðum. Pétur Geirsson hótelstjóri í Borgarnesi var þekktur fyrir að framkvæma ekki neitt fyrr en hann ætti fyrir framkvæmdinni hverju sinni. Þannig var lengi vel engin lyfta í þessu stóru hóteli enda var slík framkvæmd vandasöm og dýr að sama skapi. Pétur vildi hafa þetta almennilegt og leysa þurfti vandamál þar sem hæðir stóðust ekki alveg á milli áfanga. Ferðaþjónustubændur telja hyggilegt að hafa áfangana kannski 10-15 herbergi og sjá svo til hvernig bókast og nýtingin verður. Það er vitatilgangslaust að byggja of stórt hótel og það tekur mörg ár að ná fullri nýtingu jafnvel yfir sumarið. Þannig átti stórhugur á Selfossi sinn þátt í miklum rekstrarerfiðleikum með Hótel Selfoss. Þar var nýbyggingin reist með miklum stórhug en mörg ár liðu uns fullnýting komst á. Þessir rekstrarerfiðleikar léku Selfoss grátt að líkja við jarðskjálfta. Eitt öflugasta kaupfélag landsins, Kaupfélag Árnesinga sem var einn aðaleigandi hótelsins, varð fyrir gríðarlegu tapi, gott ef það fór ekki á hausinn.

Bygging hótela kann kannski að vera auðvelt. En að reka þau er oft meiri höfuðverkur. Hvort hækkun skattlagningar geri útspilið um hvort reka megi hótel er af. Þessi hækkun fer beint inn í verðlagningu gistiherbergja þvert á alla línuna og ætti því ekki að skipta einstöku gistihús ekki neinu höfuðmáli.

Hótel eiga ekki að vera gæluverkefni sem hengja má síðar á opinbera sjóði. Þeir sem vilja byggja og reka hótel væri hollt að lesa sig til um hvernig frumkvöðlarnir fóru að. Þeir forðuðust að framkvæma fyrir lánsfé enda hefur það reynst oft dýrasta og vitlausasta leiðin að byggja upp atvinnulíf.

Góðar stundir.  


mbl.is Hætt við hótelbyggingar vegna hækkunar virðisaukaskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fróðleg frásögn

Þessi fróðlega frásögn bandarískra hjón á efri árum frá fyrri tíð og einnig hvernig þau upplifa Ísland er öll full af lífsgleði og sanngirni. Þarna er „venjulegt“ fólk á ferð en þó ekki. Það hlýtur af hafa verið átakanlegt að standa í ýmsum stórræðum, vera á vaktinni með þeim heimsþekkta mannréttindabaráttumanni Martin Luther King, reyna að koma í veg fyrir villimennsku stríðsátaka á borð við eitt furðulegasta stríð veraldarsögunnar sem háð var í Víetnam og þar fram eftir götunum.

Þörf er að fá fleiri áþekkar frásagnir og þessa af fólki sem fær áhuga á Íslandi, m.a. vegna íslenskra skáldsagna, Sjálfstætt fólk eftir HKL og bækur Arnalds.

Þetta er með því læsilegasta sem eg hefi rekist á sem tengis Morgunblaðinu um alllanga hríð!

Góðar stundir!


mbl.is Sat inni með Martin Luther King
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru pólitísk fingraför?

Í fréttinni segir: „Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að pólitísk fingraför séu á þingsályktunartillögu um rammaáætlun“.

Hvað telur þingmaður þessi að séu  „pólitísk fingraför“?

Ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun var einhver svæsnasta og pólitíska ákvörðun sem gekk þvert á alla eðlilega skynsemi. Sú ákvörðun klauf þjóðina í tvær andstæðar fylkingar. Þar var ekkert farið eftir hugmyndum sem fyrir lágu um þáverandi rammaáætlun. Versti virkjanakosturinn var valinn sem hafði mestu umhverfisspjöllin!

Eftir að núverandi ríkisstjórn tók við völdum í Stjórnarráðinu var tekin sú ákvörðun að fara yfir alla virkjanakosti, flokka þá og skilgreina eftir bestu sjónarmiðum náttúrufræðinga og annars fagfólks. Ef Unnur Brá telur það vera „pólitísk fingraför“ þá mætti hún skoða betur söguna: Einkavæðing kvótans og síðar bankanna, ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun og stuðning við Íraksstrðið eru þetta ekki „pólitísk fingraför“?

Mætti þingmaður þessi skoða betur söguna áður en hún lætur frá sér fara fleiri furðulegar yfirlýsingar.

Góðar stundir.


mbl.is Deila um pólitísk fingraför
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynsla og ábyrgð nauðsynleg

Eggert B. Guðmundsson reyndist mjög farsæll forstjóri HBGranda. Eftirsjá er að honum en hann tekur við erfiðu hlutverki að endurbyggja N1 sem áður var Olíufélagið h.f. eða ESSO.

Eftirmaður hans, Vilhjálmur Vilhjálmsson hefur mikla reynslu að baki og hefur starfað um langa hríð í útgerðarfyrirtækinu og því mjög hæfur sem forstjóri. Líklegt er að hann fylgi varfærinni stjórnun fyrirrennara síns. Honum er óskað alls góðs að stýra einu mikilvægasta fyrirtæki landsins með hag þjóðarinnar og allra hluthafa í huga.

Góðar stundir.


mbl.is Ráðinn forstjóri HB Granda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsókn má sjá fífil sinn fegurri

Framsóknarflokkurinn minnir einna helst á gamla biðukollu sem er á síðasta skeiði sínu. Fyrir tæpri öld var þessi flokkur stofnaður og byggði á mjög merkilegri hugsjón sem einkenndist af samvinnu og gagnkvæmu trausti. Fyrir og um miðja öldina er eins og freistingin um auðsöfnun hafi slegið niður í stjórnmálaflokki þessum og saman með Sjálfstæðisflokknum byggðu þeir upp gagnvirkt kerfi sem langt því frá var laust við helstu auðkenni spillingar. Spurning er hvaða forystumenn áttu þar drýgstan þáttinn. Þegar tímar líða verða smám saman freistingarnar meiri og tekin eru stærri skref en nokkurn óraði fyrir. Spillingasamvinna flokkanna náði hámarki með framkvæmd kvótakerfisins og einkavæðingu bankanna. Aldrei átti að gera kvóta að auðþúfu. Kjöraðstæður fyrir braskarana var á byggingatíma Kárahnjúkavirkjunarinnar þegar íslenska krónan varð einn sterkasti gjaldmiðill í heimi en allt var byggt meira og minna á sandi. Því var fallið mikið!

Nú er að koma með hverjum deginum betur í ljós að flótti er brostinn í þinglið Framsóknar. Birkir Jón hefur ákveðið að hætta. Einhverjum þykir sjónarsviptir af honum enda hann með skárri þingmönnum Framsóknar. En sem ræðumaður hefur hann sýnt fremur lítil tilþrif og minna ræður hans oft jafnvel á hjal smábarna. Þá er Þröskuldur, fyrigefið Höskuldur, betri ræðumaður, en hann er yfirleitt á móti öllu nema sem kemur Framsókn og þar með hagsmunum braskaranna að gagni. Sigmundur getur verið skemmtilegur ræðumaður einkum þegar hann bregður sér í gervi hins slæga Marðar Valgarðssonar og skammar ríkisstjórnina. Er skiljanlegt að hann vilji reyna fyrir sér í einu tryggasta höfuðvígi Framsóknarflokksins á Norðausturlandi enda hefur fylgi flokksins í Reykjavík verið mjög óstöðugt og þar með hverfult. Um Vigdísi Hauksdóttur þarf ekki að ræða mikið enda er skelfilegt að heyra ambögur hennar og virðingarleysi fyrir einu elsta þjóðtungumáli sem enn er talað í Evrópu. Um Siv þarf ekki mikið að ræða, hún hefur lengi verið fylgisspök flokksforystunni og þegið embætti fyrir. Þá er eftir einn þingmaður sem eg tel beri af öllum þingmönnum Framsóknarflokksins. Hún ætti alvarlega að fylgja fordæmi bróður síns og skipta um flokk enda illt til þess að vita að svo góður þingmaður sé meðal þessa sérkennilega flokks sem hefur átt megin þátt í ásamt Sjálfstæðisflokknum að skilja efnahagslíf íslensku þjóðarinnar í rjúkandi rústum.

Góðar stundir en helst án Framsóknarflokks!


mbl.is Birkir Jón hættir á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptir guðþjónusta þingið máli?

Sú hefð að setja þing eftir guðþjónustu mun fyrst hafa hafist 1845. Þá var Ísland undir dönsku einveldi en kóngur var af guðdómlegri náð konungur Dana og Íslendinga. Ekki er vitað að sérstök guðþjónusta hafi verið í Þingvallakirkju við upphaf þings hverju sinni og alla vega aldeilis ekki á 10. öld. Þing hófst að morgni fimmtudags í 8. viku sumars en það þótti hentugur tími til þingstarfa eftir sauðburð og aðrar vorannir en áður en heyannir hófust. Þingtíminn hefur lengi vel fylgt hormónastarfsemi sauðkindarinnar og mætti Bjarni formaður skoða þetta mál betur.

Hvort guðþjónusta fyrir nútíma þingfólk hafi einhverja praktíska þýðingu held eg skipti sáralitlu máli. Guðþjónustan og setningarathöfnin er eins og hver önnur sýndarmennska þar sem fylgt er meir venju en þingsköpum. Alla vega hafa prestum fram að þessu gjörsamlega mistekist að hafa góð og friðsamlega áhrif á þingmenn sem hafa reynst einstaklega þrasgjarnir og með einstakt úthald til hártogana og útúrsnúninga. Þeir mættu innleiða skynsamlegar siðareglurá þingi þar sem þeir myndu eftirleiðis bera meiri virðingu fyrir bæði sjálfum sér og sínum líkum að ekki sé talað um samkundu þessa í þessari gömlu virðulegu byggingu.

Bjarni þingflokksformaður má mín vegna sækja eins margar guðþjónustur telji hann sig hafa gagn af slíkri tómstund sér til sáluhjálpar. Kannski hann geti beðið guð í leiðinni að blessa hlutabréfin sín og veitt þeim betra gengi í endalausri baráttu sinni að efla auð sín og völd. Mættu aðrir áþekkir hafa sama í huga.

Annars sakna eg presta á þingi. Meðan þeir voru jafnframt þingmenn var mun virðulegri blær á þinginu. Svo komu lögfræðingarnir og urðu þrásetnir. Ætli sú stétt manna sé ekki einna fjölmennust þeirra allra sem á þingi hafa setið. Og eru lögin ansi götótt og ófullkomin mörg hver. Kannski mætti bæta það með inngöngu í Efnahagsbandalagið? En alla vega vantar betra hugarfar og þel til að rækta þinghaldið.

Góðar stundir.


mbl.is Reyndu að fá hætt við guðsþjónustu við þingsetningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um andvirði Símapeninganna?

Á sínum tíma var Síminn í opinberi eigu seldur og þar með einkavæddur. Hugmyndin var að nota ALLT andvirðið að byggja „hátæknisjúkrahús“ og auk þess einhver jarðgöng og önnur sameiginleg verkefni í þágu íslensku þjóðarinnar. Hvað hefur okkur áunnist í þeim efnum?

Ætli meirihluti þjóðarinnar hafi ekki verið samþykkt þessu á sínum tíma - en hvað varð af þessu mikla fé? Skilaði það sér í Ríkissjóð eða „dagaði“ það uppi einhvers staðar, kannski í vösum braskaranna eins og aðrir draugar einkavæðingarinnar á Íslandi?

Í millitíðinni var jafnvel rætt um að við gætum sætt okkur við „lágtæknisjúkrahús“ enda erum við Íslendingar oft mun raunsærri en stórtækustu stjórnmálamennirnir okkar sem hafa kannski mest verið að hugsa um „sig og sína“.

Við skulum hugsa okkur vel áður en við ákveðum hverjum við viljum fela landsstjórnina í kosningum að vori komanda. Við ættum smám saman að átta okkur á hverjir hafa koma okkur út úr hremmingum hrunsins.

Góðar stundir!


mbl.is Fullyrðingar um kostnað fjarri öllum sanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband