Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

Skiljanleg skoðun

Innganga Íslendinga í Nató var mjög umdeild á sínum tíma, undirbúning þessa máls í upphafi Kalda stríðsins verulega áfátt enda urðu mótmæli gegn inngöngunni einna mest hér á landi í öllum þeim löndum sem gerðust aðilar að Nató. Stjórnvöld þess tíma bar ekki sú gæfa að kappkosta og finna friðsamlega leið til að að stefna að þeim markmiðum sem þá voru sett. Ýmsir áhrifamiklir rithöfundar voru settir til hliðar og jafnvel „ofsóttir“ af stjornvöldum. Aukið var á tortryggni í samfélaginu en að draga úr. Má t.d. nefna að vinstri sinnaðir rithöfundar voru sviptir opinberum höfundalaunum og minna þekktum höfundum veittar umbun m.a. fyrir að vera hliðhollir hægri mönnum. Einna grófastar voru ofsóknirnar gegn Halldóri Laxness en skáldsaga hans Atómstöðin var mjög beitt háð á stjórnmálaástandinu eftir heimstyrjöldina miklu.

Þessi mál þarf að kryfja betur og rannsaka, m.a. hvers vegna bandarísk yfirvöld beittu sér gegn Halldóri og komu í veg fyrir að bækur hans voru gefnar út í Bandaríkjunum.

Umsvif Nató hafa ætíð verið umdeild, stundum jafnvel hlægileg eins og þegar Pentagon skipulagði heræfingu í einu stæsta kríuvarpi landsins og soldátarnir urðu að draga sig í hlé enda gerðu kríurnar engan mun á þeim soldátum sem voru að æfa varnir eða árás í návígi.

Auðvitað kann skoðun stjórnar VG að vera nokkuð brött. En hversu raunhæf hún er kann að vera spurning. Aðild að Nató hefur að öllum líkindum reynst fremur betur en illa þó svo að okkur þótti undarlegt að Nató kæmi okkur ekki til aðstoðar í landhelgisdeilum okkar við Breta á sínum tíma. Þá var úrsókn hjótað og þær voru teknar grafalvarlega. Vörn okkar felst einkum í meginmarkmiðum Nató þar sem byggt er á reglunni: Einn fyrir alla og allir fyrir einn: Árás á eitt ríki þýðir árás á öll Natóríkin.

Raunhæft er að við verðum þarna áfram en skerpum á skynsamlegum skilyrðum. Þannig mætti vera settir fram skýrir fyrirvarar á því að við getum aldrei verið þátttakendur í árásarstríði gegn öðrum ríkjum eða hagsmunaaðilum, m.a. vegna fámennis og vopnleysis. Því miður varð það 2003 vegna Íraksstríðs Georgs Bush og Blair hins breska. Það voru ófyrirgefanleg mistök sem aldrei má gerast aftur.

Þá á þátttaka okkar fyrst og fremst að snúast um skilgreind verkefni Landhelgisgæslunnar t.d. um varnir gegn mengun í sjó og önnur verkefni sem snerta öryggi, björgun og hjálparstarf. Hernaðarbröltið á ekki að vera okkar verkefni.

Góðar stundir.


mbl.is Vilja Ísland úr NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill heiður

Óskandi hefði verið að aldrei verið tilefni til þessa landsdómsmáls og að það hefði aðeins verið til sem hugsanlegur möguleiki í lögfræðinni.

Þeir sem áttu hlut að máli vegna aðdraganda hrunsins á sínum tíma fara meira og minna skaddaðir frá því máli jafnvel þó svo að forsætisráðherrann fyrrverandi hefði verið nær sýknaður af öllum ákæruliðum.

Sá sem bar mikla sæmd af þessu máli er hæstaréttarlögmaðurinn Andri Árnason. Þetta mál var allsnúið þar sem sakir voru taldar umtalsverðar. Andri hefur ætíð verið mjög hófsamur og hefur unnið mjög gott starf. Hjá lögmanni er aðalatriðið að setja sig vel inn í málefnið og finna hvort ekki séu einhverjir annmarkar, formgallar og annað sem máli kann að skipta. Þar kunna að leynast ýms hálmstrá sem leiða kunna til sýknunar og jafnvel ónýta málshöfðun sem er mjög áberandi við lestur Brennu-Njáls sögu.

Sumir lögmenn falla í þá freistni að hrópa hátt á götum og torgum, rita í blöð og aðra fjölmiðla í þeim tilgangi að gera lítið úr andstæðingi sínum í málaferlum sem þeir tengjast og beina beittum spjótum sínum með tilfinningum eða á annan hátt sem síst skyldi. Það hefur Andri aldrei gert enda getur slíkt verið talið ámælisvert og jafnvel skaðað góðan málstað sem verið er að vinna að. Hann hefur hins vegar ritað mjög góðar fræðilegar greinar í fagtímarit lögfræðinga um margvísleg efni enda er hann orðinn viðurkenndur sem fræðimaður á sviði lögfræði og stjórnsýslu.

Störf lögfræðingsins eru fjölbreytt og yfirleitt mjög vandmeðfarin. Málsmeðferð fyrir dómi eiga fyrst og fremst að snúa að staðreyndum málsins og faglegum forsendum en ekki fara eftir hvaða tilfinningalegum sjónarmiðum. Annað hvort vinnst mál eða ekki og þá skiptir málsmeðferðin meginmáli.

Andri er vel að þessari viðurkenningu kominn. Hann verður ungum lögmönnum ábyggilega góð fyrirmynd í farsælum störfum sínum.

Eg leyfi mér að óska honum tilhamingju með þennan mikla heiður og farsældar í störfum.

Góðar stundir!


mbl.is Andri er lögmaður vikunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyggilega góður vinnustaður

Þessi frétt bendir til að þessi vinnustaður hlýtur að vera mjög góður þar sem samstillt samstarfsfólk stefnir að markvissum árangri í vandasömum störfum.

Þetta telst vera mikil viðurkenning og óskandi er að árangur af því starfi sem fer fram á þessum vinnustað í þágu almannaheilla verði þjóðinni sem farsælast.

Mikið væri gaman að starfa á vinnustað sem þessum en sjálfur hefi eg verið án atvinnu síðastliðna 4 vetur frá því að einkavæðingardraugurinn drap niður fæti á Skólavörðuholti og einkavæddi Iðnskólann í Reykjavík sem nú heyrir sögunni til. Sic transit gloria in mundi!

Til hamingju!

Góðar stundir!


mbl.is Sérstakur saksóknari stofnun ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar falla í freistni: Nýr möguleiki að týnast!

Sennilega eru Íslendingar með kaupglöðustu þjóðum heims. Þeir voru vikum ef ekki mánuðum saman í starftholunum að hlaupa til þegar þeir sáu fyrir sér auglýsinguna: Bauhaus opnar bráðum!

Ætli margir landar vorir hafi ekki verið farnir að verða óþolinmóðir eftir að hver vikan leið og jafnvel mánuðirnir eftir að þetta „bráðum“ var að baki og þessi stóra „hryllingsbúð“ opnaði loksins.

Í fyrradag leit eg við í Bauhaus ásamt spúsu minni og yngri syni okkar. Við gengum okkur næstum upp að hnjám en eitt erindi áttum við í búðina: kaupa litla liðkeðju sem tengir tappa og eldhúsvask sem slitnaði fyrir skömmu. Sama hvar við bárum niður, hvergi var þetta litla þarfaþing að finna. Hins vegar mátti skoða salernisskálar í öllum mögulegum gerðum upp um veggi og hreinsibursta í öllum litum og sömuleiðis gerðum. Fróðlegt væri að vita hversu margir tugir eða jafnvel hundruðu vörunúmera af þessum þarfahlutum eru á baðstólum í Bauhaus.

Við veltum vöngum yfir að festa kaup á útikamínu fyrir veröndina úti við litla frístundahúsið okkar. Þrjár stærðir a.m.k. voru á boðstólum. Sá yngsti vildi auðvitað þá stærstu og verklegustu sem mér fannst ekki galið en frúin vildi þá minnstu og nettustu. Þá var stungið upp á að fara bil beggja en sú tillaga var stráfelld með 2 atkvæðum gegn atkvæði mínu.

Endirinn á þessari kostulegu kaupstaðarferð var að blóm af orkidíugerð var keypt handa frúnni. Auk þess freistuðumst við að kaupa heljarmikinn stiga fyrir tæpar 13 þúsund krónur sem sá yngri taldi vera kostakjör fyrir þvílíkan grip! Nú verður unnt að brölta upp á þakið á litla húsinu okkar án þess að eiga á hættu að hálsbrjóta sig annað hvort á leiðinni upp eða niður.

Til hamingju kæru landar með nýjasta innkaupastórmarkaðinn! Nýr möguleiki að týnast klukkutímum saman hefur verið opnaður, sennilega öllum til gamans og vonandi einhvers gagns!

Góðar stundir!


mbl.is Keyptu fyrir milljarð í Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýmsar spurningar

Þegar eitt viðkvæmasta og vinsælasta náttúrufyrirbæri landsins á í hlut vakna ýmsar spurningar:

Hvernig stendur á því að 1000 lítra olíutankur týnist?

Hvernig var eftirliti háttað með efnistöku Kísilgúrverksmiðjunnar?

Var öllum skilyrðum um efnistöku fylgt eftir?

Hvernig stendur á því að fyrst núna kemur þetta fram?

Þeir sem ábyrgð báru á efnistökunni hefðu átt að vita allan tímann um að þessi eldsneytistankur væri týndur.

Hvers vegna er ekki þegar hafin leit að honum og hann fjarlægður?

Hafði einhver fjárhagslegan ávinnig af því að tankurinn týndist?

Það má spyrja endalaust en nú þarf að fara í sauman á þessu máli og draga allt fram sem máli skiptir.

Vanræksla hvort sem er stór eða smá getur haft gríðarlegar afleiðingar. Það getur verið erfitt að bæta mikið tjón sem auðveldlega hefði mátt koma í veg fyrir.

Mývatn er ein dýrmætasta náttúruperla landsins sem ekki má eyðileggja þó til sé fólk sem vill eyðileggja sem flestar náttúruperlur landsins.

Góðar stundir!


mbl.is Tifandi tímasprengja í Mývatni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllsta ástæða til varfærni

Í dag eru orkufyrirtæki landsins skuldum vafin. Fyrir áratug voru þau vel stödd en illu heilli var boginn spenntur um of og farið allt of hratt í framkvæmdir.

Fyrir vikið varð ofþensla, falskur heimur velsældar og fullyrt um góðæri. Nú þarf að doka við og ekki taka ákvarðanir sem síðar reynast ekki æskilegar.

Orkufrekur iðnaður er ekki alltaf rétta leiðin til að byggja upp atvinnulíf, síst af öllu til framtíðar. Það má auðvitað koma mikillri atvinnustarfsemi af stað en hvert starf kostar mun meira en mörg þau störf sem byggja má upp með langtímamarkmið í huga.

Við Íslendingar þurfum að byggja atvinnulíf okkar meira með okkar forsendur og þarfir í huga. Stóriðjan getur verið varhugaverð og margt virðist ekki mega ræða þar sem hún kemur við sögu. Sumir stjórnmálamenn sjá ekkert nema stóriðju og getur það verið skiljanlegt ef þeir njóta einhverra hlunninda af því en það er þjóðin sem kostar öllu til.

Kárahnjúkavirkjun kostaði um eða yfir 200 milljarða. Arðurinn af þeirri virkjun gerir vart meira en að standa nokkurn veginn undan aborgunum og vöxtum.

Hefði verið aðeins litlu broti þeirrar fjárhæðar varið til skógræktar þá ætti þjóðin verðmæta náttúruauðlind eftir aðeins nokkra áratugi. Skógarnytjar er sjálfbær meðan stóriðjan er það ekki.

Góðar stundir.


mbl.is Fjárfestingar snarminnka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grátt svæði

Ansi er hér verið að fiska á gráu svæði.

Lögin um Landsdóm voru sett að tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn átti verulegan þátt í hruninu með því að einkavæða bankana á vægast sagt mjög veikum forsendum.

Þáverandi fjármálaráðherra var sérstaklega menntaður í þjóðhagfræði frá einhverjum fínasta háskóla heims, Harward í BNA.

Þessi maður er Geir Haarde sem var forsætisráðherra, með öðrum orðum n.k. verkstjóri framkvæmdavaldsins á Íslandi.

Þessi maður virðist annað hvort vera algjörlega úti á þekju um mikilvægustu málefni landsins eða hafa verið gjörsamlega vanhæfur í því starfi sem hann hafði verið valinn í og trúað fyrir.

Ákæran gegn Geir byggðist á þessum einföldu staðreyndum sem ýmsir virðast enn vera í vafa um og þykja sjálfsagt að draga athyglina að allt öðru.

Annað hvort eru menn gjörsamlega heillum horfnir og siðblindir að átta sig ekki á aðdraganda hrunsins sem byggðist fyrst og fremst á óskiljanlegu kæruleysi í stjórn efnahagsmála eða að þeir eru að grípa síðasta hálmstráið til að bjarga eigin skinni í rökþroti.

Í öllu falli var ákæran gegn Geir Haarde rökrétt framhald af hruninu. Einhver HLÝTUR að eiga að bera einhverja ábyrgð.

Eða er það söguskoðun siðblindingjanna að ábyrgðin var hjá öðrum? Ætlast þessir herramenn að heiðarlegt fólk taki þetta gott og gilt?

Því miður er þessi umræða komin niður fyrir allar hellur og að fullyrða að Jóhanna Sigurðardóttir sé jafnvel sekari en þeir sem siðferðislega og ekki síst lagalega bera MESTU ábyrgðina í aðdraganda hrunsins er kórvilla.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei viðurkennt nein mistök þó svo öll spjót beinist gegn honum og einnig Framsóknarflokknum sem eru helstu spillingarbælin á Íslandi!

Góðar stundir!


mbl.is Rannsaka mál Geirs og Júlíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fölsuð skilríki eiga aldri að veita rétt

Alvarlegt afbrot er að framvísa fölsuðu skilríki gegn betri vitund. Svo virðist vera í þessu tilfelli og undarlegt þetta upphlaup vegna gruns um að viðkomandi piltar séu yngri en þeir virðast vera.

Fyrir rúmum 30 árum kom áþekkt mál sem einnig vakti miklu upphlaupi. Þar átti franskur maður í hlut, Gervasoniu að nafni, sem talinn var hafa verið að koma sér undan herskyldu í Frakklandi. Mikil læti urðu af og hótaði þingmaður einn að koma ríkisstjórn í bobba sem naut mjög naums meirihluta.

Viðkomandi framvísaði fölsuðum skilríkjum og var meðhöndlaður í samræmi við það. Átti að framselja hann til franskra yfirvalda en þá byrjaði „leiksýningin“ með hótanir.

Í ljós kom að viðkomadi gat starfað við borgaraleg störf í stað herskyldu eins og við skógrækt sem enginn ætti að vera niðurlægður með nema síður sé. Borgaralegar skyldur virðast vera allt of mörgum framandi, allt oif mikil þáhersla er að koma ár sinni vel fyrir borð á kostnað annarra.

Við verðum að læra að treysta yfirvöldunum, þar er byggt á reynslu og varfærni.

Góðar stundir!


mbl.is Telja að drengirnir séu eldri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað skyldi brúin kosta?

Verkefni sem þetta kostar sennilega meira á ákvörðunarstigi en framkvæmdarstigi. Sennilega verður þessi brú ein sú dýrasta miðað við hvern lengdarmetra sem hefur verið norðan Alpafjalla fram til þessa.

Iðnaðarmaður hefði tekið upp tommustokkinn sinn á staðnum, rissað á blað teikningu, fengið strax hugmynd um efnisþörf og kostnað, síðan haldið í smiðju sína og undirbúið smíði brúarinnar, kannski hefði tekið nokkra daga að smíða brúna, flytja og koma henni fyrir endanlega á staðnum þar sem til er ætlast.

Einn kunningi minn sem var lengi starfandi sem húsasmiður var að vinna fyrir nokkrum áratugum á dvalarheimili eldri borgara. Þar var verið að ganga frá ýmsu fyrir opnun heimilisins sem stóð fyrir dyrum. M.a. þurfti að koma upp handföngum á salernum til að auðvelda eldra fólkinu að m.a. að standa upp frá setunni sem sumum reynist erfitt á efri árum. Hann gaf sig á tal við Geirþrúði Bernhöft sem var í bygginganefnd hússins sem þarna var í eftirlitsferð. Vildi smiðurinn fá nánari fyrirmæli enda var ekki ljóst hvar handföngin skyldu fest. Geirþrúður dró sig um stund frá hópnum, settist á salernið, greip handföngin og sagði smiðnum fyrir hvar á veggjunum handföngin skyldu festast.

Hefur kunningi minn oft haft gaman af að rifja þetta síðar upp því það var eins og hann væri í hörku bónorði inni á salerninu sitjandi á hnjánum en ellifulltrúinn á setunni!

Ef þessi ákvörðun hefði verið borin undir einhverjar háttsettar nefndir og ráð, hefði tekið óratíma að taka ákvörðun um einfalt atriði. Þarna var tekin ákvörðun sem ekki er annað vitað en að hafi dugað vel.

Á Þingvelli voru menn fljótari að taka ákvörðun á sínum tíma um að fella barrtré sem tekur áratugi að vaxa en að byggja örlitla brú yfir sprungu.

Góðar stundir!


mbl.is Ný brú yfir Almannagjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband