Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Upplýsingamiðlun varð verri í tíð Jónasar

Jónas fullyrðir að hann hafi lagt áherslu á að upplýsingamiðlun yrði greiðari.

Eitt lykilatriði við fjármálastofnanir, hlutafélög og markaði er að greiða sem mest fyrir upplýsingum. Gamla var mjög farsæl: þegar sami aðili keypti yfir 5% hlutafjár eða um innherjaviðskipti var um að ræða, var það tilkynningaskylt. Einhvern tíma á því tímabili sem Jónas þessi var forstjóri Fjármálaeftirlitisins var horfið frá þessari góðu reglu. Fram að því mátti ætíð sjá ef innherjar voru að kaupa eða selja hlutabréf og tilgangurinn var auðvitað sá að gera markaðinn gegnsærri.

Síðustu árin hafði enginn aðgang að þessum upplýsingum nema innherjar og þeir sem voru mjög vel „sjóaðir“ í skuggalegum heim hlutabréfanna þar sem hákarlarnir kepptust við að eta litlu sílin sem hættu sér inn á hlutabréfamarkaðinn.

Eitt furðulegasta uppátæki Jónasar Fr. og félaga í Fjármálaeftirlitinu var dæmalaus yfirlýsing 14. ágúst 2008 eftirlitisins um að allir íslensku bankarnir hefðu staðist svonefnt álagspróf! Nokkrum vikum seinna var búið að eta þá gjörsamlega að innan með aðstoð breskra braskara, Davíð búinn að kasta tugum ef ekki hundruða milljarða í þessa sökkvandi bankahít hvers eins fulltrúa við máttum heyra í dag að væri stórhneykslaður á því að hann hefði verið truflaður í vinnunni!

Vel mætti ákæra Jónas fyrir vanrækslu eins og Geir Haarde. Hann virðist ekki hafa verið annað en n.k. „puntudúkka“ í forstjórahjörð Sjálfstæðisflokksins á þessum tíma.


mbl.is Íhugaði að forða sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimspeki eymdarinnar

Það er hreint ótrúlegt að nokkrum heilvita manni hafi dottið í hug sú della að flyta sorp og annan úrgang um langan veg ekki milli landa, heldur heimsálfa til förgunar hér.

Hvaða virðingu bera aðstandendur hugmyndar innflutnings á amerísku sorpi til Íslands fyrir náttúru landsins? Vilja þessir sömu menn sjá framtíð Íslands sem risastóran sorphaug ameríska neyslusamfélagsins? Þar ægir öllu saman og þar kann að leynast sóttkveikjur og aðrar meinsemdir sem flest samfélög vilja vera laus við.

Vel kann að vera að niðurlæging Sjálfstæðismanna á Suðurnesjum sé mikil þessi misserin í efnahagslegum og andlegum þrengingum þeirra þar syðra. Margar vondar hugmyndir hafa verið viðraðar þar á slóðum en þetta er hápunktur þess hugsunarháttar að reyna að græða á sem flestu undir kæruleysislega slagorðinu: „að lengi taki sjórinn við“.

Árni Finnsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands og allt það góða fólk sem hafa andmælt þessum afleitu hugmyndum eiga miklar þakkir skildar fyrir að vekja athygli á þessu máli og mótmæla kröftuglega.

Góðar stundir án amerísks sorps á Íslandi!


mbl.is Segir ólöglegt að flytja inn sorp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsdómsmálið

Eitt erfiðasta mál íslenskrar stjórnsýslu er hafið: rannsókn í Landsdómi vegna meintra brota Geirs Haarde fyrrum forsætisráðherra. Greinilegt er að í þessu máli er kappkostað að vanda sem mest til þessa máls og sýnir í hvaða farveg þetta mál er. Þeir sem koma fyrir Landsdóm svara eftir bestu vitund, eru þaulspurðir af saksóknara, verjanda og dómendum. Vel ígrundaðar spurningar eru lagðar fyrir ákærða og vitni á mjög faglegan hátt. Allir sýna stillingu og allt fer fram eins og best má vera. Athygli mína vekur að ekki fer mikið fyrir tilfinningum heldur eru spurningar lagðar fram mjög faglega og sarað með hliðsjón af því.

Ljóst er, að þetta mál fyrir Landsdómi er einsdæmi í sögu landsins.  Sagnfræðingar telja þetta mál fyrir Landsdómi hafa mjög mikla þýðingu enda koma þar fram nánari upplýsingar, skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis til fyllingar, staðfestingar og áréttingar.

Í þessu máli reynir á lögfræðilegt fyrirbæri: hvað myndi „bonus pater familias“ eða hinn góði heimilisfaðir hafa gert í sporum Geirs? Nú er hann ákærður fyrir aðgerðaleysi í aðdraganda hrunsins. Hvaða möguleika hafði hann til að koma í veg fyrir kollsteypunja og afstýra þar með bankahruninu?

Nú hefur komið fram að Bretum voru gefin loðin svör og þeim sendar „loðnar“ yfirlýsingar þegar þeir vildu veita aðstoð sína að draga úr umsvifum bankanna. Fram að þessu höfum við einungis vitnisburði Geirs sjálfs og lykilvitna eins og Davíðs Oddssonar.

Spurning er hvort kalla þurfi fulltrúa breskra yfirvalda fyrir Landsdóm? Einhvern veginn finnst mér að framboðinni aðstoð þeirra hafi verið hafnað, rétt eins og þegar skipsstjóri nauðstadds skips er í nauðum neitar aðstoð af því að það kostar. Oft er kallað til aðstoðar þegar það er orðið of seint.  

Niðurstaða þessa máls verður ábyggilega mjög mikilvægt í íslenskum dómapraxís og skiptir mestu hvernig dómjurinn verður rökstuddur.

Góðar stundir.


mbl.is Embættismenn vitna í Landsdómi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breski þingmaðurinn ætti að vera rólegur

Eftir að bresk yfirvöld beittu hermdarverkalögunum á Íslendinga haustið 2008 voru allar eignir og innistæður íslensku bankanna frystar. Í Englandsbanka er þetta mikla fé varðveitt á ENGUM vöxtum! Credit og debet á þessum inn- og útlánum eru mjög áþekk þannig að ætti að vera nóg fyrir Icesave skuldunum.

Hefði Ólafur Ragnar ekki með inngripi sínu í ákvörðun 70% meirihluta á Alþingi, þá væru öll þessi erfiðu mál öll afgreidd og þar með úr sögunni. Ólafur vildi afla sér vafasamra vinsælda með tilfinningaþrunginni ákvörðun sinni eftir enn tilfinningalegri mótmæli og andófi á einhverjum umdeildum þjóðernislegum sjónarmiðum.

Þessi mikla fúlga fer ekki út úr Englandsbanka að svo stöddu. Breski íhaldsþingmaðurinn ætti að vera rólegur og ekki falla í sömu gryfju og þröngsýnari hluti Íslendinga með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar.

Annars er furðulegt að breski þingmaðurinn blandi saman ólíkum málum sem aðildaviðræður við EBE og Íslendinga eru annars vegar, hinsvegar einkennileg millilandadeila milli Breta og Hollendinga við Íslendinga hins vegar.

Ljóst er, að breski íhaldsmaðurinn spilar á ómerkilegt lýðskrum sem alltaf hefur komið mönnum í koll síðar.

Góðar stundir en án lýðskrums!


mbl.is Vill stöðva greiðslur til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju loðið orðalag?

Hefði Landsdómsmálið verið fellt niður að ósk Sjálfstæðisflokksins, hefði aldrei fengist almennileg skýring á mikilvægum þáttum í aðdraganda hrunsins.

Eftirlitsstofnanir og ríkisstjórnin virðist hafa verið algjörlega ráðalaus í aðdraganda hrunsins gagnvart þeirri ógn sem lengi var ljós að stafaði að bankakerfinu. Bretar buðu aðstoð sína með því að minnka bankana en slegið var á höndina vegna einhvers „þjóðarstolts“. Þá átti Geir að sýna hvað í honum bjó, kalla saman ríkisstjórnina á neyðarfund ásamt stjórnarandstöðunni, gera grein fyrir stöðu mála, koma með tillögu og taka sameiginlega ákvörðun um að taka tilboði Breta.  Þar með hefði Geir sýnt af sér röggsemi og hann hefði því sennilega aldrei verið í þeirri erfiðu og niðurlægjandi stöðu sem hann nú er.

En aðgerðarleysið endaði með þessari kollsteypu sem var alveg óþörf.

Loðið orðaval er yfirleitt aldrei hyggilegt. Það vekur alltaf tortryggni og er oft tekið sem að enginn vilji sé til samninga. Því verður að greina vel á milli (analysera) hvar hagsmunir liggja og finna raunhæfan umræðugrundvöll og hafa orðaval sem skýrast. Það var ekki gert.

Eg hygg að við verðum að treysta betur þeim sem nú stjórna landinu enda er markmið ríkisstjórnarinnar að koma „þjóðarskútunni“ á lygnari sjó.

Góðar stundir.


mbl.is Notuðu viljandi loðið orðalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forseti (formaður) Landsdóms tekur ákvörðun

Við skulum athuga að það er forseti Landsdóms Markús Sigurbjarnarson hæstaréttardómari sem tekur þessa ákvörðun. Ljóst er að Sjálfstæðisflokkurinn lagði ofurkapp á að koma í veg fyrir að Geir yrði dreginn fyrir Landsdóm. Þá er liklegt að hann sé bundinn loforðum einhverra vitna t.d Davíðs Oddssonar um að yfirheyrslum sé ekki útvarpað né sjonvarpað. Sem kunnugt er, var Davíð þekktur fyrir að fá ætíð allar spurningar fyrirfram og áskildi sér rétt að svara. En nú er öldin önnur og vel kann að vera að Davíð verði ákærður vegna 249. gr. hegningarlaganna vegna láns Seðlabanka til Kaupþings banka, 500 milljónir evra án þess að viðhlýtandi veð fyrir láninu voru veitt  í aðdraganda hrunsins.

Nú hefur verið óskað eftir því að sjónvarpað verði frá réttarhöldunum og spurning hvort dómsforseti endurskoði ákvörðun sína. Öll rök mæla með því að sjónvarpað sé frá réttarhöldunum enda varða þessi hrunmál alla þjóðina en ekkin aðeins Sjálfstæðisflokkinn sem hafði öll ráð í hendi sinni að afstýra hruninu. Það mun vonandi verða leitt í ljós í þessum réttarhöldum.

Sjálfur var eg í Lagadeild á sínum tíma og sótti tíma hjá dr.Gunnari Thoroddsen veturinn 1972-73 í ríkisrétti. Hann var frábær kennari en fylgdi mjög viðteknum viðhorfum fræðimanna þeirra Lárusar H. Bjarnasonar, Bjarna Benediktssonar og Ólafs Jóhannesssonar en hafði oft eftirminnilegar athugasemdir.

Landsdómur er barn síns tíma, sennilega arfur frá tíma svonefndra Skúlamála sem skóku íslenskt samfélag á síðasta áratug 19. aldar. Hef verið að skoða þau mál nokkuð og komist að þeirri niðurstöðu að ein ástæðan fyrir ofsóknum landshöfðingjaklíkunnar gegn Skúla Thoroddsen var vegna þess að hann rauf ritskoðunarbann gegn merkum menntamanni, Eirík Magnússyni bókaverði í Cambridge sem ritaði gagnrýni gegn starfsemi Landsbankans á fyrstu árum hans. Ekkert mátti gagnrýna og Skúli var eini ritstjóri landsins sem birti greinar Eiríks og aflaði sér óvildar stjórnvalda.

Því miður hefur lítt verið hugað að ritskoðun sem stjórnvaldstæki.


mbl.is Styrmir: Ótrúleg afdalamennska
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur hluti þjóðar fylgt í blindni?

„Blindur leiðir blindan“ segir gamalt orðatiltæki og er það ágætt eins langt og það nær. Hins vegar er afar slæmt þegar blindur maður á raunveraleikann dregur hluta þjóðar sinnar áfram í blekkingum.

Ákvörðun forseta um að skjóta Icesave tvívegis í þjóðaratkvæði var ekki byggt á hyggindum né réttu mati á raunverulegri stöðu mála. Ákvörðunin var byggð meira á tilfinningalegum rökum fremur en ískaldri raunsæi.

Að ákveða að sitja sem fastast bendir til að Ólafur Ragnar hafi gaman af valdinu. Hann er sennilega einn fremsti fræðimaðurinn í valdinu, hvernig það þróaðist og hvaða möguleikar það hefur fyrir þá sem það hafa.

Hæsti punktur á ferli Ólafsr Ragnars er að baki. Erfitt kann að vera fyrir hann að taka ákvarðanir í samræmi við það sem á undan er gengið. Hyggst hann halda áfram að leiða stjórnarandstöðuna gegn meirihluta þingsins? Eða hyggst hann sitja á strák sínum þegar kemur til erfiðra mála?

Hyggllegra hefði verið að hætta leik þegar hann stendur sem hæst.

Góðar stundir!


mbl.is Forsetinn: Þjóðin hefur fylgt mér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málaflækjur og mannréttindi

Ljóst er að Baldur naut mun betri aðstöðu til upplýsinga en venjulegir fjárfestar sem ráðuneytisstjóri. Hann er í innsta hring þeirrar klíku sem stýrði landinu skömmu fyrir bankahrunið, valdaklíkunnar sem gerði ekkert til þess að koma í veg fyrir kollsteypuna miklu. Eftir leynifund Davíðs Oddssonar í Seðlabankanum í febrúar 2008 var ekkert aðhafst til að bjarga því sem bjargað var í almanna þágu. hins vegar kepptust þeir sem höfðu aðgang að upplýsingum að koma eignum sínum í skjól.

Einn þessara aðila er Baldur Guðlaugsson sem seldi hlutabréf sín í Landsbankanum um miðjan september 2008. Honum hefur væntanlega verið fullljóst að bréfin yrðu honum einskis virði. En hvaða upplýsingar hafði sá sem keypti hlutabréfin af Baldri hafa um raunverulega stöðu mála? Hefði verið líklegt að einhver hefði keypt fyrir um 200 milljónir hlutabréf sem yrðu einskis virði nokkrum dögum síuðar? Var það kannski lífeyrissjóður sem var kaupandinn en lífeyrissjóðir töpuðu sem alkunna er gríðarlegu fé í hruninu.

Vel kann það að vera að unnt sé að flækja mál með ýmsu móti. En staðreyndin er fullkomlega ljós: Innherjaviðskipti fóru fram í þessu máli. Það verður væntanlega vandræðalegur málflutningur fyrir Mannréttindadómstól Evrópu að fara fram á að maður sem beitt hefur klókindum í viðskiptum, hafi betri og meiri rétt en aðrir.

Það er skömm af þessu og lýsir vel hugarfari þeirra sem ábyrgð eiga að bera á hruninu. Engin iðrun, engin yfirbót, engin samúð með þeim sem töpuðu sínu sparifé í hruninu.

Auðvitað hefði verið karlmannlegt af Baldri að sætta sig við orðinn hlut og taka út dóm sinn.


mbl.is Kærir til Mannréttindadómstóls
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór verkefni framundan

Starfandi forstjóri Fjármálaeftirlitisins er örugglega mjög varkár en klár lögfræðingur með víðtæka reynslu í stjórnsýslunni. Þetta starf er vandasamt þar sem gæta verður ætíð mikillrar formfestu en svo virðist sem eitthvað hafi ekki verið í samræmi við reglur og góðar venjur sem varð Gunnari að falli.

En það er ekki neitt sældarbrauð að sinna þessu starfi að óaðfinnanlegt er. Það verður sennilega erfitt að finna duglegan, röskan en jafnframt varkáran forstjóra Fjármálaeftirlitisins eftir það sem á undan er gengið.

Framundan eru stór verkefni þar sem rannsaka þarf fleiri fyrirtæki, tengsl þeirra við banka sem og aðra lykilmenn í samfélaginu, jafnvel þingmenn, stjórnmálaflokka að ógleymdum forseta landsins sem tengdist athafnalífinu mjög nánum böndum. Allt þetta starf þarf að vinnast ötullega en með fyllstu nærgætni, varkárni og eftir góðum stjórnsýsluvenjum. Þar kemur meðalhófsreglan til sögu þar sem aðeins beri að rannsaka  fyrst og fremst þar sem greinilegt er að lögbrot hafi verið framin og réttur gagnvart öðrum brotinn.

Bankahrunið og aðdragandinn að því er einn svartasti kafli sögu íslenska lýðveldisins. Þar komu fram margir verstu lestir mannsins: ágirnd, undirferli, svik, blekkingar og ýmsir aðrir vondir lestir. Megin orsakir hrunsins voru gegndarlaus græðgi við að koma ár sinni betur fyrir borð, að ekki þyrfti að vinna handtak framar. Afleiðingin var gríðarleg sóun á fjármunum og öðrum verðmætum.

Því miður hefur ekki tekist að hafa upp á nema örlitlu broti af þeim verðmætum til baka.

Tíminn tifar og sakir fyrnast. Stóru verkefnin á sviði Fjármálaeftirlitisins verða að halda áfram, öllum heiðarlegum landsmönnum til gagns og jafnvel þeim sem freistuðust. Þeir verða að sætta sig við rannsókn á því sem ástæða þykir til og taka afleiðingum af því sem þeir kunna að verða gerðir ábyrgir fyrir.

Með þeirri ósk og von að við getum rannsakað sem mest og best, þannig að við getum gert upp þennan svarta kafla Íslandssögunnar á ásættanlegan hátt.

Góðar stundir!


mbl.is Með víðtæka reynslu úr stjórnsýslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er í gangi?

Þetta er ótrúlegt. Getur verið að einhver hafi gripið fram fyrir hendur ráðherrans?

Gunnar Andersen virðist hafa komið við kaunin á spillingu í skjóli Sjálfstæðisflokksins þegar hann vildi rannsaka einn af gullkálfum Sjálfstæðisflokksins, Guðlaug Þór „styrkjakóng“.

Kannski þetta sé ekki rétt frétt.


mbl.is Ráðherra styður stjórn FME
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 243043

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband