Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012

Víkurprjón er eitt af bestu fyrirtækjum landsins!

Erlendir ferðamenn spyrja oft hvar gott sé að versla þar sem vandaðar vörur og gott úrval á góðu verði sé á leið þess um landið. Eg stoppa ætíð í Vík í hringferðum með ferðamenn. Þar er gott að hafa hádegishlé þar sem ferðafólkið getur fengið þjónustu í Víkurprjóni og Víkurskála. Þá er stutt í fjöruna með stórkostlegu brimi þar sem öldurnar falla á ströndina með sérkennilega Reynisdranga í baksýn. En það þarf að vara við hættunni enda hafa orðið þar slys.

Óskandi er að Víkurprjón verði áfram í Vík, dafni og vaxi með auknum straum ferðamanna um landið. Eg mun sakna Þóris framkvæmdastjóra sem eg hitti oft á mínum ferðum. Höfum við oft spjallað um „landsins gagn og nauðsynjar“ og erum furðuoft sammála enda engir æsingamenn í eðli okkar. Við viljum að atvinnuvegir landsins geti vaxið og þrifist á sem eðlilegasta hátt án þess að braskarar gjörbreyti öllu rekstrarumhverfi nánast á einni nóttu sem gerðist því miður í aðdraganda hrunsins mikla. En það er vonandi nokkuð sem draga verður lærdóm af og heyrir sem fyrst sögunni. Því miður er reynslan oft okkur dýr.

Góðar stundir!


mbl.is Víkurprjón selt til Garðabæjar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkavæðing bankanna var illa undirbúin

Stöðugt kemur í ljós hver meinbugurinn á fætur öðrum sem staðfestir að einkavæðing bankanna var mjög illa undirbúin. Og eftir einkavæðingu tók ekki betra við: bindiskylda var nánast afnumin og reglur um eigið fé gerðar frjálsari, allt gert til þess að leggja ekki neinar hömlur á frjálshyggjudrengina.

Nú hefur verið rifist nánast endalaust um þessa Icesave reikninga og tortryggni Breta var á rökum byggð. Þeir hafa ætíð verið varkárir í fjármálum meðan Íslendingar hafa verið nánast agalausir í þeim efnum og helst ekki viljað neinar reglur. Allt þetta hefur komið okkur í koll.

Geir Haarde var fjármálaráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir. Hann vissi eða mátti vita allan tíman að ekki væri allt með felldu. Athafnaleysi hans að setja bankaeigendunum einhverjar skynsamlegar reglur við að reka þessi fjöregg þjóðarinnar hefur vissulega dregið dilk á eftir sér. „Perhaps I should“!


mbl.is Þrýstu á íslensk stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgi þingmanna

Þingmenn hafa yfirleitt góða réttarstöðu en mega ekki misnota hana. Þinghelgin var fyrst og fremst hugsuð til þess að tryggja að stjórnvöld gætu ekki af litlu tilefni handtekið þingmann og að koma í veg fyrir málfrelsi og skoðanafrelsi þingmanns.

En lögregla MÁ eftir sem áður handtaka þingmann SÉ hann staðinn að lögbroti.

Og biðja verður leyfis þingsins að hefja málsókn á hendur þingmanni hafi hann sagt e-ð meiðandi eða móðgandi í þingræðu. Venja er hvetja viðkomandi að taka fullyrðingar sínar til baka, eða: endurtaka hin móðgandi ummæli utan þings!

Nokkrum sinnum hefur reynt á þetta.

Hins vegar kom einu sinni til að þingmaður var handtekinn og fluttut nauðugur til Englands í fangelsi! Þetta gerðist en Einar Olgeirsson var jafnframt ritstjóri Þjóðviljans ásamt Sigurði Guðmundssyni, föður Þórhalls leikara, vegna svonefnds Dreifibréfamáls.

Andstæðingur Einars í pólitíkinni, kapítalistinn Ólafur Thors, gekk fyrir skjöldu og barðist gegn þessu ofríki Breta og létti ekki fyrr en Einar og Sigurður voru frjálsir ferða sinna. Sennilega átti þessi viðburður sinn þátt í því að báðir þessir merku þingmenn tóku upp samstarf síðar þegar Nýsköpunarstjórninni var komið á.

Góðar stundir! 


mbl.is Sagði sig „ósnertanlegan“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunasaga góðs fyrirtækis

Árið 1986 voru Jarðboranir stofnaðar. Reyndar var starfsemin með rætur allt aftur til 1945, þess tíma þegar Hitaveita Reykjavíkur var að auka umsvif sín og Gufuborar ríkisins urðu til. Jarðboranir eru þjóðþrifafyrirtæki stærsta fyrirtæki í heimi sem sérhæfir sig í öflun jarðhita. Því var stjórnað lengi vel af mjög færum og farsælum forstjóra Bengt Einarssyni. Á árunum 1992-1996 var fyrirtækið einkavætt en það var áður í eigu íslenska ríkisins og Reykjavíkurborgar sem áttu helmingshlut.

Því miður lenti fyrirtækið í n.k. tröllahöndum þegar Atorka yfirtók það og seinna Geysir Green Energy sem sennilega var stofnað eins og hvert annað braskfyrirtæki með lánsfé í þeim tilgangi einum að hafa fé af fólki. Í hruninu féllu bæði þessi fyrirtæki. Atorka var afhent kröfuhöfum en ekki gefið upp til gjaldþrotaskipta eins og eðlilegt hefði mátt telja. Þar með töpuðu allir sparnaði sínum í formi hlutafjár. Má vera að tilgangurinn með því hafi verið að koma í veg fyrir rannsókn. Tilgangur stofnunar GGE var e.t.v. sá að koma orkulindum landsmanna undir erlend yfirráð sem raunin varð með aðkomu Magna Energy sem keypti eigur GGE á niðursettu verði og með lánsfé!

Þetta allt er mikil sorgarsaga og sennilega hefur Bengt fengið nóg af þessu öllu. Sem stjórnandi Jarðborana var hann ætíð varkár í öllu stóru sem smáu og vildi fara hægt en örugglega. Eg sótti aðalfundi félagsins í áraraðir og minnist þess hve kappkostað var að hafa öll mál í sem besta lagi hvort þar var um að ræða fjármál fyrirtækisins eða öryggismál starfsmanna. Þeir voru margir hverjir meðal hluthafa en hafa væntanlega tapað öllu hlutafé sínu eins og eg og fleiri vegna braskaranna sem vildu vaða á súðum.

Ekki þekki eg nýja forstjórann, hvorki störf hans né reynslu. Ekki kemur fram að hann hafi reynslu af fjármálastjórn fyrirtækis né viðskiptum. Því er spurning hversu vel tekst að stjórna þessu fyrirtæki eftir að Bengt hefur látið af störfum. Vonandi tekst honum að þræða hinar þröngu og vandrötuðu götur farsællrar stjórnunar eins og Bengt forðum.

Eg vil þakka Bengt fyrir góð kynni og vænti þess að hann verði jafnfarsæll stjórnandi við ný verkefni. Það eru beiskar minningar um þetta góða fyrirtæki, hvernig það, stjórnedur og eigendur þess illa leiknir af „útrásarvíkingunum“ sem skildu eftir sig endalausa slóða siðblinnar óreiðu, blekkinga og svika þar sem ofurkapp virðist hafa verið algert.

Góðar stundir!


mbl.is Ágúst Torfi til Jarðborana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta tilefni til sundrungar

Sagt hefur það veri að varla sé til í gjörvallri heimsbyggðinni jafnsundruð þjóð og við Íslendingar. Í stað þess að sýna skynsemi og temja okkur að vera meira jafnlyndari, þá er rokið upp til handa og fóta að finna nýja möguleika til að koma einhverju nýju að til að hægst sé að þrasa um.

Nú virðast ýmsir vilja skríða fyrir öðrum þjóðum eins og Bandaríkjunum og Kínverjum. Menn leggja jafnvel á sig mikla fyrirhöfn að biðja þá um að vera svo væna að koma með sitt hafurtask hingað með nokkra dollara í vasanum til fjárfestinga. Má því þykja kynlegt að þeir sláist ekki í hóp þrasara og biðja um bandaríska dali eða kínverskan juan.

Þetta Icesave mál gekk alveg fram af mér sem mörgum. Í stað þess að leysa þann hnút var lagt af stað með endalausa þvælu þar sem aðalatriði þess máls voru þögguð vegna þess að grafa átti sem hraðast undan ríkisstjórninni. Þar hljóp jafnvel forsetinn á sig og vildi heldur ekki sjá hlutina í ísköldu ljósi. Það er nefnilega svo, að nægir fjármunir eru til fyrir Icesave vitleysunni, ekki á Íslandi né vösum landsmanna, heldur Englandsbanka þar sem eignir fallna Landsbankans var stýrt með bresku hryðjuverkalögunum. Þetta fé er aðallega afborganir og vextir þeirra útistandandi lána sem útibú Landsbankans veittu á Bretlandi en fjármögnuðu fyrst með lánsfé á lágum vöxtum en síðar innistæðum kenndum við Icesave. Þessi reikningur er frystur en eyrnamerktur Landsbanka en ber ENGA vexti! Að skoða þetta mál í raunsæju ljósi hentaði ekki þrasgjörnum löndum okkar. Það þurfti að æsa þjóðina upp gegn sjálfri sér svo hefja mætti þrasið upp í æðra veldi.

Forsetinn tók sér meira að segja alræðisvald í þessu máli, jafnvel þó svo 70% meirhluti þingsins var kominn að þeirri niðurstöðu að Icesave málið væri hagkvæmast leyst með frjálsum samningum. Með þessari umdeildu ákvörðun sinni, vék forseti tveim meginstoðum ríkisvaldsins til hliðar af þrem: framkvæmdavaldinu og löggjafarvaldinu. Sennilega á dómsvaldið eftir að taka afstöðu til þessa eldfima máls síðar.

Valdið er eitt viðkvæmasta tæki til að stjórna með valdi land og lýð. Það má misnota eins og við horfum upp á í einræðislöndum þar sem þrásetnir valdaglaðir menn vilja þrásitja. 

Góðar raunsæjis stundir!


mbl.is Segir sænsku krónuna vænlegri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum er best treystandi?

Fyrir vorkosningarnar 2007 sem áttu sér stað 12. maí birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu daginn áður (bls.5):

„Á morgun er kosið um  hverjum er best treystandi fyrir stjórn landsins“

Athygli vekur að orðið „best“ er án bókstafsins z sem Sjálfstæðisflokkurinn tók ástfóstri við eftir að hann var aflagður í íslenskum stafsetningarreglum 1974. Þá er feyknastór litmynd af þáverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Síðan er slagorð:

Nýir tímar - á traustum grunni X D

Núna tæpum 5 árum síðar, situr sami maður í sæti ákærðs manns sem talinn er hafa gerst sekur að hafa aðhafst ekkert í aðdraganda mestu fjármálakollsteypu í sögu landsins. Þeir sem ekki trúa þessu er bent á að fletta upp Morgunblaðinu frá þessum degi, 11. maí 2007. Auglýsinguna má finna í meðfylgjandi fylgiskjali.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Man einhver eftir Letigarðinum?

Sú var tíðin að tukthúsið að Litla Hrauni var nefnt „Vinnuheimilið á Litla Hrauni“. Margir nefndu það „Letigarðinn“ enda kom það fyrir að fátæklingar á Kreppuárunum stælu einhverju smáræði í þeirri von að komast í frítt fæði og húsnæði þar eystra. Fyrsti forstöðumaðurinn, Sigurður Heiðdal, ritaði forvitnilega bók: „Örlög á Lítla-Hrauni“ þar sem komið er inn á margt spaugilegt en einnig margt ákaflega dapurlegt.

Nú er ljóst, að fangar í afplánun eru margir hverjir mjög illa farnir af ýmsum ástæðum. Áður var það brennivínið en nú er langvarandi misnotkun eiturlyfja meginástæða þess að þeir eru kannski ekki nógu burðugir og hraustir, andlega sem líkamlega.

Frummarkmið refsivistar er að „betra“ þann sem er í afplánun. Fangelsið, áður nefnt „betrunarhús“ á að vera staður þar sem viðkomandi á að læra að feta sig áfram vandrataða veginn til góðs sem því miður gerist allt of sjaldan. Innan fangelsisins eru yfirleitt vondar fyrirmyndir, og þarna er talað um að sé einhver versta gróðrarstía ómenningar og mannfyrirlitningar þar sem fangar koma yfirleitt aftur í samfélagið jafn illa staddir andlega sem siðferðislega og þeir voru sendir þangað.

Þeir sem hafa fengið fangelsisdóm hafa valdið öðrum misjafnlega mikinn miska og tjón. Sumir eru verstu mannfýlur meðan aðrir iðrast og vilja sýna í verki að þeim hefur orðið á í messunni og vilja bæta sig. Þetta eru „fyrirmyndarfangarnir“ sem vonandi aldrei aftur lenda aftur í þeirri aðstöðu að valda öðrum tjóni og miska.

Nú eru margir fangar vinnufærir og spurning er hvernig samfélagið geti notið einhvers góðs af vinnu þeirra. Verkefnin eru nánast óþrjótandi: Í DV í dag er m.a. fjallað um gríðarlega mengun í Heiðarfjalli þar sem var radarstöð bandaríska hersins en allt var skilið eftir í verstu óreiðu. Þarna væri verk að vinna: hreinsun og að bæta landið. Þarna mætti dreifa skít og gróðursetja tré, helst af nógu harðgerðu kvæmi að þau hafi möguleika á að gera það gagn sem til væri ætlast.

Á Reyðarfirði eru vinnubúðir frá byggingu álbræðslunnar þar eystra. Þessar vinnubúðir mætti flytja að Heiðarfjalli til nota fyrir fangavinnu. Þarna er það afskekkt að engum heilvita manni dytti í hug að reyna strok. Vinnu fanganna mætti reikna þeim til tekna sem færu til greiðslu þess kostnaðar og að einhverju leyti bóta fyrir þann skaða sem þeir hafa veitt öðrum. Þarna gæfi þeim tækifæri að sýna í verki að gera samfélaginu meira gagn en ógagn.

Víða um land mætti auk þess bæta land. Við búum í erfiðu landi þar sem vindar og vond veður hafa mikil áhrif á daglegt líf.

Á ýmsum stöðum er varasamt að fara um vegna storma. Nægir að nefna undir Hafnarfjalli í Melasveit, á ýmsum stöðum á Snæfellsnesi, Kjalarnesi, undir Eyjafjöllum og í Öræfum þar sem vindsveipur veldur oft tjóni. Við þurfum að hefja „samgönguskógrækt“ til að bæta úr. Fangavinna við undirbúning væri kjörin. Víða er góð nálægð við landbúnað þar sem sækja mætti húsdýraáburð. Grafa þyrfi tæpan metra, setja gott lag af skít og þekja yfir t.d. 20-25 cm. Eftir 2-3 ár eru þessi svæði tilbúin til útplöntunar og í þessum beltum vex skógur til skjóls og prýðis auk þess mikla öryggis sem af skóginum verður eftir því sem hann vex og dafnar.

Legg eg til að þegar Pólverjarnir verði væntanlega sendir í afplánun, sé þeim gert sem öðrum kostur á að vinna störf sem þessi. Sama má segja um þá sem verða ákærðir og taldir sekir vegna bankahrunsins.

Góðar stundir!


mbl.is Verða framseldir til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru vandræðin einkamál valdaklíkunnar?

Svo virðist sem andhverfa einkavæðingar og velgengnar hafi verið sópað undir teppið. Enginn virðist hafa mátt vita af þeim nema þeir örfáu sem töldust til valdaklíku Sjálfstæðisflokksins.

Margoft hefur hliðstæð mál komið við sögu. Þar tengist oft harmleikir heillu þjóðanna, jafnvel margra þjóða. Þegar valdaklíkur pukrast með mikilvægar upplýsingar en varða alla, þá er ekki horfst í augu við óþægilegar staðreyndir.

Auðvitað bar að greina þjóðinni rétt og satt frá. Jafnvel þó að óþægilegt var.

Árið 2007 fóru fram þingkosningar. Eitt af því sem þjóðinni var ekki sagt rétt og satt frá fyrir þessar kosningar, var að til stóð að leggja fyrir þingið til staðfestingar samningar um skattamál álbræðslunnar í Straumsvík. Þessi samningur færði álbræðslunni um hálfan milljarð króna árlega þar sem horfið var frá fyrra fyrirkomulagi um skattamál fyrirtækisins. Fram að þeim tíma bar fyrirtækinu að greiða framleiðslugjald fyrir hvert framleitt tonn af áli. Þetta fyrirkomulag var síðan í fyrsta samningnum um álbræðsluna og átti hagfræðingurinn, prófessorinn og þingmaðurinn Ólafur Björnsson hugmyndina að þessu fyrirkomulagi. Var það hugsað sem krókur á móti bragði sem stórfyrirtæki geta auðveldlega beitt smáríki: að færa hagnaðinn til þess lands þar sem skattaumhverfið er þeim hagstæðast!

Þessi samningur var lagður fyrir sumarþingið 2007 og var samþykktur, því miður. Nú hafa tekjur Íslendinga dregist stórlega saman af álbræðslum. Helsti ávinningur Íslendinga af álbræðslunum fyrir þjóðarbúið eru helst af vinnutekjum og eitthvað af afhendingu gríðarlegs magns af orku í formi rafmagns. Er t.d. arðsemin af Kárahnjúkavirkjun langt frá því að vera nógu góð en fyrir Alkóa, eiganda álstassjónarinnar er þetta hrein gullmylla!

Það hefur ætíð verið vænlegt að fela staðreyndir og draga fram aukaatriði fram og gera að stórmáli til að hylja vanræðin.

Oft hefur verið sagt að gott væri að tala tungum tveim og sitt með hvorri. Valdaklíkan í Sjálfstæðisflokknum hefur bæði seint og snemma hagað sér í samræmi við það. Allt er í besta standi þegar þeir eru við völd þó svo að þjóðarbúið rambi á barmi gjaldþrots vegna slæmrar stjórnar. En ef andstæðingunum tekst að bjarga því sem bjargað verður, koma þjóðarskútunni aftur á flot og koma henni á lygnari sjó, þá er öllu snúið á hvolf: allt ómögulegt!

Því miður tíðkast ekki í íslenskum stjórnmálum að sitja á strák sínum og doka við og fylgjast með framgöngu. Allt er sett í botn og reynt að grafa undan trúverðugleika ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Þessi ríkisstjórn á þakkir skildar fyrir að koma samfélaginu aftur af stað eftir hörmulega stjórnun Sjálfstæðisflokksins seinni hluta valdaferils hans sem endaði með ósköpum.

Í Landsdómsmálinu kemur sitthvað nýtt fram og ástandið undir lok valdaferils Sjálfstæðisflokksins verður með hverjum deginum grafalvarlegra.

Góðar stundir!


mbl.is Davíð átti að vara okkur við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lenti bíllinn ekki á þakinu?

Alltaf er dapurlegt þegar ökumenn aka of hratt. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum er oft tekið svo til orða að viðkomandi hafi „misst stjórn“ á ökutækinu.  Í fréttinni var talað um að bifreið hafi vegna handvammar bílstjóra oltið og lent á „toppnum“. Í mínu ungdæmi var rík venja að tala um þak hvort sem það væri á húsi eða ökutæki.

Orðið toppur kallast á við fyrirbæri sem minnir á tind eða oddhvössu fjalli eða örðu áþekku fyrirbæri. Nú er „toppur“ víða notað og er orðið jafnvel notað yfir flatneskjulegt fyrirbæri eins og flöt bílþök. Hvenær þeir sömu tala um toppinn á húsinu sínu og eiga þá við þakið: „Kannski er komin þörf á að mála toppinn“. Hver skyldi átta sig á þessari flötu hugsun?


mbl.is Pallbifreið valt á toppinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lykilatriði

Þegar stjórnendur Landsbankans sjá fram á þrot, bresk yfirvöld vilja leggja íslenskum stjórnvöldum lið að draga saman bankakerfið, þá virðist þáverndi ríkisstjórn hunsa allt slíkt. Af hverju var ekki tækifærið gripið og starfsemi Landsbankans vegna Icesave komið í dótturfyrirtæki undir eftirliti breska fjármálaeftirlitisins?

Geir og félagar velja hins vegar þann kost að gefa breskum yfirvöldum „loðin svör“. Hvernig má reikna með að viðbrögð Breta verða? Þeir átta sig á því að íslenska ríkisstjórnin ætli ekkert að gera og þá hafi undirbúningur Breta að tryggja hagsmuni sína hafist. Þeir grípa tækifærið þegar Geir setur „neyðarlögin“ og allt fór fjandans til.

Nauðsynlegt er að fá sem vitni Breta þá sem höfðu með þessi mál að gera. Hvaða augum þeir litu á þessi mál en svo virðist eins og okkar lið hafi hagað sér eins og börn.


mbl.is Landsbankinn bað um aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband