Færsluflokkur: Bloggar

Fall íslensku bankanna dregur dilk á eftir sér

Hræðilegt að heyra eintómar fréttir af endalausum vandræðum vegna fjármálakreppunnar. Hvar skyldu þessi ósköp enda?

Ljóst er, að ef íslenska ríkisstjórnin gerist aðili að einhverjum samningum við bresk yfirvöld þá gæti það leitt hugsanlega til milliríkjadeilna ef sá samningur sé metinn gildur með hliðsjón af lögum um gjaldþrot. Spurning hvernig þessi mál verði meðhöndluð og í hvaða farveg þau fara.

Nú eru töluverðar eignir að baki skuldunum og spurning hversu mikið verður greitt upp í þær að óbreyttu.

Íslenska ríkisstjórnin getur tæplega skuldbundið íslensku þjóðina að greiða skuldir íslenskra athafnamanna við erlenda banka. Við getum ekki staðið undir þessum stríðsskaðabótum fremur en Þjóðverjar eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Mosi


mbl.is Skulduðu Þjóðverjum milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlegar freistingar

Í fjármálaheiminum eru gríðarlegar freistingar þar sem mjög miklar fjárhæðir fara um hendur starfsmanna. Því er mjög mikilvægt að hafa gott og virkt eftirlit að skynsömum reglum sé framfylgt.

Því miður hefur íslenskur fjármálaheimur verið nánast agalaus síðustu árin. Jafnvel blekkingum hefur verið beitt til að halda aftur af venjulegu fólki að hagræða í sínum fjármálum. Engin skynsemi virðist hafa ráðið för heldur einungis græðgin í stundargróða. Ekki var borð fyrir báru og nú er íslenski ríkiskassinn allt í einu galtómur og skuldaviðurkenningarnar safnast fyrir í staðinn.

Athyglisvert er að fylgjast með hve Norðmenn gæta betur að þessum málum en við Íslendingar.

Mosi


mbl.is Starfsmenn DnB grunaðir um innherjasvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afpöntum flugelda!

Stuttur fyrirvari

Þegar Hekla gaus síðast en það var 26. febrúar árið 2000. Kl.18.00 hlustaði Mosi á kvöldfréttir á Gufunni. Sem fyrsta frétt kvöldsins var tjáð, að jarðvísindamenn teldu nokkuð fullvíst að Hekla myndi gjósa innan hálftíma! Þessi frétt vakti gríðarmikla athygli og gosið var staðreynd rétt um stundarfjórðungi síðar.

Nú er spurning hvort ekki hefði verið þörf á að fylgjast jafnvel með forsætisráðherra Breta. Unnt hefði verið að fá aðvörun með einhverjum fyrirvara hvenær óútreiknanleg hissugheit hans kunna að skaða íslensku þjóðina næst. Að beita hermdarverkalögum á vopnlausa og friðsama þjóð er með öllu óskiljanlegt og á flestu öðru áttum við von.

En nú er Hekla að láta á sér kræla og kannski ágætis tilefni að afpanta flugelda enda þeir dýrir og stórvarhugaverðir. Björgunarsveitirnar þurfa í staðinn að fá nauðsynleg framlög frá ríkinu og sveitarfélögunum.

Mosi


mbl.is Hekla getur gosið hvenær sem er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rannsóknar er þörf

Ljóst er að mjög mikil þörf er á rannsókn fari tafarlaust fram hvað olli því að atburðarás fór af stað sem fólgin er í því að Landsbankinn gat halað inn án eftirlits í hít sína gegnum sparisjóðsreikninga á Bretlandi.

Var til þessara innlánsreikninga stofnað meðvísvitandi vitneskju stjórnenda Landsbankans að Landsbankinn gæti ekki staðið við þær skuldbindingar sem hann tók á sig með þessum hávaxtareikningum?

Hvernig gat breska fjármálaeftirlitið yfirsést að ekki væri allt meðfelldu?

Það væru mikil afglöp ef ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar taka á sig skuldbingar gagnvart allri íslensku þjóðinni án sérstakrar rannsóknar hvernig stendur á þessum gegndarlausu blekkingum sem þarna virðast hafa verið að baki og verið grundvöllur þeirra umdeildu viðskipta Landsbankans í Bretlandi.

Steingrímur J. hefur staðið sig afburða vel í þeirri orrahríð sem tengist öllum þessum vandræðum. Hann er varkár og vill ekki undir neinum kringumstæðum leggj meira ok á íslensku þjóðina en sanngjarnt og réttmætt kann að vera.

Hvar er Björgúlfur og aðrir bankastjórnerndur Landsbankans? Handtaka þarf þá og láta þá gera okkur grein fyrir hvað gerðist. Vonandi gera þeir sér grein fyrir því í hvaða ógöngur þeir hafa leitt Íslendinga með því að gera okkur að vanksilamönnum, jafnvel „hermdarverkamönnum“ eins og bresk stjórnvöld vilja stimpla okkur öll?

Mosi


mbl.is Líkir Bretaláni við fjárkúgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Handtaka og farbann

Af hverju eru þessir herramenn ekki handteknir og settir í farbann?

Gríðarlegir hagsmunir hafa verið í höndunum á þessum bankastjórum sem margir hverjir hafa sýnt af sér ótrúlegt gáleysi á undanförnum misserum. Þessir menn hafa verið á ofurlaunum sem eru okkur venjulegu fólki gjörsamlega óskiljanlegt.

Eftir handtöku væri rétt að fram færi yfirheyrsla yfir þeim þar sem þeir væru látnir gera grein fyrir fjármálaumsvifum sínum undanfarna mánuði. Þá kann farbann að vera nauðsynlegt til þess að gæta rannsóknarhagsmuna og að koma í veg fyrir að þeir yfirgefa landið og hugsanlega koma eignum undan.

Þeir sem hafa verið í yfirstjórn gjaldþrota banka geta átt yfir sér réttarstöðu grunaðs manns um refsiverð athæfi sem tengjast efnahagsbrotum og refsilögum. Það væri því rétt að fá sem fyrst einhverjar haldbærar upplýsingar frá fyrstu hendi hvar verðmæti eru sem þessir menn gætu hugsanlega dregið sér og þar með grafið undan almanna hagmunum.

Einhvers staðar þarf að byrja og ef það eru ekki bankastjórarnir sem bera einhverja ábyrgð á röngum og umdeildum ákvörðunum sem skaðað hefur okkur öll, hver þá?

Mosi


mbl.is Hreiðar Már yfirgefur Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Má treysta Sjálfstæðisflokknum?

Geir er mjög duglegur að koma fram í fjölmiðlum. Hann reynir að bera í bætifláka eftir því sem efni standa til en oft reynir hann að smeygja sér framhjá óþægilegum spurningum. Í Kastljósþættinum í kvöld þjarmaði Sigmar mjög mikið að Geir og lét hann ekki komast upp með neitt múður án þess að vdera ókurteys í garð Geirs. En Geir á virkilega erfitt enda er málstaður Sjálfstæðisflokksins mjög veikur um þessar mundir.

Sjálfstæðisflokkurinn ber mikla ábyrgð:

Einkavæðing bankanna mistókst.Einungis 6 árum eftir húllumhæ Davíðs og félaga yfir því að bjórframleiðendur í Rússlandi keypti Landsbankann er þessi sami banki kominn í mjög alvarlegt gjaldþrot og ríkiskassinn þarf að hlaupa undir bagga.

Engar kvaðir voru lagðar á rekstur hinn einkavædda banka. Bindiskyldan var nánast afnumin og engir varasjóðir myndaðir til að eiga til að hlaupa upp á.

Um svipað leyti ákveður Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Framsóknarflokknum að ráðast í mjög umdeilda og umfangsmikla framkvæmd á hálendinu. Talið er að ákvörðun þessi hafi átt einn megin þáttinn í að hagstjórnin mistókst gjörsamlega enda framkvæmd þessi ofvaxin fyrir svo lítið samfélag sem Ísland er.

Og fleiri syndir má tína til: Um svipað leyti var skrifað upp á umdeilt stríð Bush og Blair gegn Írak sem talið er vera eitt vitlausasta og dýrasta stríð veraldarsögunnar!

Það getur verið gaman að vera með en hvers vegna?

Sjálfstæðisflokkurinn er gjörsamlega rúinn trausti sem hann hefur þó haft meðal þúsunda Íslendinga. Nú er þessi sami flokkur búinn að vera við ríkisstjórn hátt í tvo áratugi og þetta er árangurinn! Ísland rambar á barmi gjaldþrots og við Íslendingar vitum vart hvað upp og niður stendur stundinni lengur.

Við erum rúin sparnaði okkar undanfarinna áratuga hvort sem er í formi hlutabréfa eða innistæða á peningamarkaðssjóðum. Við megum vænta lægri greiðslna úr lífeyrirssjóðum vegna þess að lífeyrirssjóðir höfðu fjárfest í góðri trú í bönkum og fyrirtækjum. Nú er allt ýmist glatað gjörsamlega eins og hlutafé í bönkunum eða stórlega lækkað í hlutafélögum. Dæmi eru um að gengi hlutabréfa hafi fallið um 97% jafnvel í fyrirtækjum sem talin voru fyrir ári síðan mjög vænlegur fjárfestingarkostur.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins er því mjög mikil. Ósennilegt er að þessi flokkur treysti sér að axla þessa miklu ábyrgð. Meðal margra stuðningsmanna hans á undanförnum árum eru fjöldi fjárglæframanna sem margir hverjir á undanförnum árum hafa verið traustustu stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins og eiginlega Framsóknarflokksins. Þeir eru að öllum líkindum nú mjög uppteknir við að fela slóðina til að koma í veg fyrir að unnt sé að rekja hana.

Þessir miklu fjármunir eru væntanlega að verulegu leyti á leiðinni í skattaparadísir. Mjög mikilvægt er að skattyfirvöld fái tækifæri að kortleggja þessi mál sem best og sem fyrst til að unnt sé að krækja í sem mest af skyndigróða þeirra sem ábyrgð bera á þessum ósköpum.

Mosi

 


mbl.is Við munum ekki láta kúga okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankarnir brenna

Dapurleg endalok

Þær miklu eignir sem bundnar voru í bönkunum brenna fyrir augunum á okkur án þess að nokkuð verði að gert. Við töpuðum sparnaðinum okkar í formi hlutabréfa og peningamarkaðssjóða. Og við munum finna fyrir því þegar lífeyrissjóðirninr telja fram hvað eftir er þegar eignir þeirra hafa skroppið stórlega saman.

Hvað olli þessu öllu saman og hvað gerðist?

Fyrir 5-6 árum hófst mikil bjartsýnisalda í þjóðfélaginu. Íslensku ríkisbankarnir voru einkavæddir án nokkurra skilyrða. Tekin var ákvörðun um allt of stórar virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka af barnslegri einfeldni þeirra sem stjórnuðu landinu. Allt of stór framkvæmd fyrir svo fámennt þjóðfélag. Og athafnamennirnir sem nú skilja þjóðina eftir í mestu niðurlægingu skuldsettu bankana og fyrirtæki langt um fram getu þeirra að geta nokkru sinni staðið í skilum ef erfiðleikar steðjuðu að. Og þessir bankar voru mergsognir af stjórnendum þeirra, sumir virðast hafa horfið með fulla vasa fjár og við sitjum uppi í skuldasúpunni.

Hver skyldi hafa verið höfuðsmiður þessarar útrásar? Öll spjót beinast að einum manni sem aldrei hefði átt að verða stjórnmálamaður: Davíð Oddsson.

Þegar Sigurður Líndal var prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands sagði hann eitt sinn í fyrirlestri að það væri hlutverk sitt að forða þjoðfélaginu frá lélegum lögfræðingum. Sigurður kenndi almenna lögfræði sem voru n.k. inngangsfræði að hinum ýmsu greinum lögspekinnar. Sigurður felldi mjög marga nemendur sem hugðust leggja fyrir sig að verða lögfræðingar og e.t.v. forystumenn í þjóðfélaginu. Bestu lögfræðingarnir stýra stórum fyrirtækjum kvað Líndalurinn sem og fara í praxís sem júristar. Aðrir ráða sig í þjónustu ríkisins sem sýslumenn, dómarar, sendiherrar og kennarar eins og hann. Þeir sem ekki treystu sig í það létu kjósa sig sem þingmenn. Sigurður gerði oft grín að þingstörfum, taldi þinginu oft vera illa stjórnað og oft væri verið að samþykkja lagatexta jafnvel um miðja nótt og eftir ýmsar breytingar þá kæmi út einhver endaleysa sem reyndi á fyrir dómstólum. Svo voru auðvitað þeir sem gerðu ekkert neitt. Þeir væru yfirleitt skaðlausir í samfélaginu og þyrfti vart að hafa áhyggjur af þeim.

Sennilega var það mikil yfirsjón hjá Sigurði að hafa ekki á sínum tíma fellt Davíð á almennu lögfræðinni eins og svo marga sem áhuga höfðu að gerast friðsamir, góðir og virkir júristar í þágu þjóðarinnar.

Þegar einn maður á meginþátt í hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu, má því gera því skóna hvernig farið hefði ef þessi maður hefði ekki komist til þeirra miklu mannaforráða eins og raunin er. Þá hefði sennilega aldrei verið farið út í umdeildar framkvæmdir á hálendinu með þeirri gríðarlegu röskun ekki aðeins í náttúru landsins heldur einnig í fjármálum íslensku þjóðarinnar.

En skaðinn er skeður. Við sitjum uppi með einhverja þá skelfilegustu niðurlægingu sem hugsast getur. Aðeins stríð hefði verið verra. En var kannski stríð háð og það gegn okkur sem leyfðum okkur alltaf að hafa önnur sjónarmið en Davíð Oddsson?

Sjálfstæðisflokkurinn er gjörsamlega rúinn trausti. Því miður. Ábyrgð hans er mikil. Það tekur langan tíma að byggja upp en örskotsstund að rífa niður.

Við þurfum að byggja upp nýtt lýðræðislegt og réttlátt samfélag en án Sjálfstæðisflokks og helst Framsóknarflokks líka. Ábyrgð beggja þessara stjórnmálaflokka er mjög mikil.

Mosi

 


mbl.is Íslenskar bankaeignir á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagblöð: vettvangur skoðanaskipta

Ísafold var ekki dagblað

Misskilnings gætir að tímaritið Ísafold hafi verið dagblað. Það kom út yfirleitt einu sinni í viku og var málgagn Björns Jónssonar eins af höfuðandstæðingum Hannesar Hafsteins.

Vísir mun vera fyrsta reglulega dagblaðið og hófst útgáfa hans 1909. Ýmsir höfðu gert tilraunir að gefa út dagblað á Íslandi kringum aldamótin 1900 þ. á m. Einar Benediktsson sem var útgefandi Dagskrár, merkrar tilraunar til blaðs sem skáldið hélt út um 2ja ára skeið. Í nokkrar vikur lét hann prenta það nær daglega.

Ein af meginástæðunum fyrir því að ekki var grundvöllur fyrir útgáfu dagblaðs á Íslandi var mjög einfaldur: Í Reykjavík var allfjölmenn stétt vatnsbera sem ekki aðeins báru vatn úr brunnum í hús Reykvíkinga, heldur fluttu húsráðendum fréttir. Oft voru þær safaríkar enda var þá oft vikið lítilræði umfram að vatnsberunum. Árið 1906 kemur upp mjög alvarleg taugaveiki og var það Guðmundur Björnsson landlæknir sem beitti sér einkum fyrir vatnsveitu í Reykjavík. Það var loksins þegar vatnsberanir þurftu að leggja frá sér vatnsföturnar og finna sér eitthvað annað fyrir stafni að rétti tíminn fyrir dagblaði í Reykjavík. Um það leyti sem vatn fór að renna um vatnsleiðslur Reykvíkinga var rétti tíminn til útgáfu dagblaðs runninn upp. „Vísir til dagblaðs á Íslandi“ sem fljótlega var stytt í Vísir var fyrsta dagblaðið. Nokkrum árum seinna hefst útgáfa Morgunblaðsins sem hefur komið út óslitið síðan haustið 1913 eða í 95 ár! Óskandi er að það verði sem langlífast enda er það vettvangur skoðanaskipta þar sem við leggjum grunn að nýju og betra lýðræði á Íslandi.

Mosi


mbl.is Áríðandi að „missa ekki móðinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg sjónarmið

Þeir sem athugasemdir hafa um þessa frétt eru fremur á sveif með álfurstum en hagsmunaaðilum Óttarstaða.

Skoðum þetta mál aðeins betur: Er rétt að mengandi starfsemi fái að halda henni áfram án þess að tekið sé tillit til grenndarsjónarmiða? Með grenndarsjónarmiðum er átt við þann lögvarða rétt þeirra sem næst eiga hagsmuni. Ljóst er að ekki á fólk að líða bótalaust ef einhver truflandi eða mengandi starfsemi er sett niður í næsta nágrenni. Enginn væri sáttur við að fá einhverja lýsisbræðslu sem næsta nágranna eða starfsemi sem hefði aðra mengun í för með sér, kannski hraðbraut eða jafnvel heilan flugvöll. Eitthvað myndi margur segja við því.

En vandamálið er auðvitað um starfsemi sem fyrir er. Þegar álverið var sett niður í Straumsvík fyrir um 40 árum voru mannréttindi ekki upp á pallborðið hvorki í gamla Sovét né Íslandi. Lengi hafa hagsmunaaðilar á gömlu lögbýlunum í Straumi og á Óttarstöðum haft uppi athugasemdir við mengandi starfsemi í Straumsvík. Aldrei hefur verið hlustað á þessa aðila jafnvel þó þeir hafi alltaf átt lögvarða hagsmuni að gæta og enginn dregið það í efa.

Við minnumst þess þegar Laxárstíflan við Mývatn var rofin fyrir nær 40 árum. Hópur manna nálægt 100 manns var kærður til refsingar fyrir eignaspjöll en allir voru sýknaðir vegna þess að aldrei var hlustað á réttmæta hagsmunagæslu þeirra. Er ekki svipað uppi á teningnum nú að þessu sinni nema að hagsmunaaðilar vilja útkljá þetta deilumál fyrir dómsmálum en ekki fara út í umdeilanlegar aðgerðir sem hugsanlega leiddu til tjóns eða röskunar á starfsemi álversins?

Skattur er lagður á mengandi starfsemi víðast um heim, - nema auðvitað á Íslandi! Skatturinn nemur nú um 25 evrur á hvert tonn af CO2 á ári. Álverunum er gefið eftir þetta gjald og ef við gerum því skóna að um 1 milljón tonn af áli séu framleidd hér næmi skatturinn um 2 x 25 evrum, þ.e. 50 milljónir evra en fyrir þá upphæð myndi vera unnt að ganga langt í að reka alla starfsemi á vegum Háskóla Íslands ef gjaldið væri á lagt. Það myndi muna um minna hjá okkur um þessar mundir!

Því miður er málstaður þeirra sem vilja menga ókeypis á kosnað annarra að mati Mosa lítils eða jafnvel einskis virði.

Mosi


mbl.is Í mál við Alcan, ríkið og Hafnarfjarðarbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað vakir fyrir bresku ríkisstjórninni?

Ljóst er að eftirlit með fjármálastarfsemi er víða ábótavant. Í Bretlandi hefur virkt fjármálaeftirlit með íslensku bönkum verið ekki eins og það hefði þurft að vera og spurning hvort bresk stjórnvöld hafi með því tómlæti tekið þannig á sig sjálf ábyrgð sem þau vilja nú láta Íslendinga gjalda fyrir. Óvíða er borð fyrir báru. Það verður að segjast eins og er að íslensk stjórnvöld hafa sýnt efnahagsmálum einstaka léttúð og það er greinilegt að breska ríkisstjórnin hyggst útnýta sér út í það ítrasta. Það verður því að teljast mjög varhugavert og jafnvel vítavert ef íslenska ríkisstjórnin ábyrgist erlendar innistæður umfram það sem gildandi eru og teljast eðlilegar og sanngjarnar í þeim viðskiptalöndum okkar. Við getum ekki tekið á okkur meiri skyldur en sanngjarnt og réttlætanlegt er.

En hvað vakir fyrir bresku ríkisstjórninni?

Ekki er ólíklegt að breska ríkisstjórnin hyggist á landvinninga í orðsins fyllstu merkingu. Ástæður þess eru auðvitað mjög margar:

1. Endurvinnslustöðin í Sellafield í Skotlandi hefur verið Skotum og öllum þjóðum við Norður Atlantshafið mikill þyrnir í augum. Það væri mjög gott tækifæri að koma þessari umdeildu starfsemi eitthvað annað. Sennilega myndu jafnvel allmargir Íslendingar fagna að fá slíkan óhroða til sín gegn nokkrum silfurpeningum miðað við hve margir vilja efla stóriðja hér.

2. Breski flotinn þarfnast aukins svigrúms. Ísland hefur lengi verið kjörstaður fyrir hernaðrhyggju og það hefur því miður lítið breyst. Nú opnast nýir möguleikar siglingaleiða með hlýnandi loftslagi.

3. Betri aðgangur að orku og hráefnum. Mörgum Bretum hefur ætíð sviðið sárt að breska heimsveldið þurfti að tapa hverju þorskastríðinu á fætur öðru upp úr miðri síðustu öld. Íslendingar voru einungis vopnaðir fornum fallbyssum úr Búastríðinu en þær dugðu vel! Aðgangur að orku á Íslandi verður að teljast tiltölulega greiður og einnig má reikna með að á næstu árum verði ódýrara að flytja orku milli landa með betri tækninýjungum. Að ráða yfir Íslandi treystir einnig möguleika Breta að snúa sér næst að Dönum og leggja Grænland undir sig. Þar eru einar mikilvægustu úrannámur í heimi, þar má auk þess finna önnur eftirsótt og dýr hráefni, t.d. gull. Þá eru Færeyjar komnar á áhrifasvæði Breta og reikna má með að þeir sölsi þær einning undir sig m.a. til að tryggja sér hagsmuni vegna olíu og fiskveiða.

4. Ráð yfir Íslandi treystir markaðssókn breskra aðila og á Íslandi eru gríðarlegir möguleikar til að auka landbúnað og ferðaþjónustu auk orkuvinnslu. Fleiri hugsanleg markmið kunna að liggja að baki forsætisráðherrans breska. Hér verður látið staðar numið. Við skulum minnast þess að Bretland er gamalt nýlenduveldi og þó breska ljónið virðist hafa verið æríð syfjulegt á undanförnum árum, þá er það líklegt að rísa upp á afturfæturnar og glefsa frá sér og tæta í sig sem það hefur hug á. Með þessum aðgerðum Gordon Brown að beita hermdarverkalögum á Íslendinga, hefur hann valdið Íslendingum meira tjóni en allar þær náttúruhamfarir sem gengið yfir Ísland undanfarnar aldir.

Við eigum að gera okkur fyllilega grein fyrir þessu og verðum að haga okkur með hliðsjón af því. Gordon Brown er stórvarhugaverður maður rétt eins og einræðisherrar sem öðluðust vafasama frægð fyrr á tímum. Hann lætur sig dreyma stóra drauma að Bretar eflist að nýju sem stórveldi að nýju og nú  á Norður Atlantshafi hvað allir athugi!

Mosi

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband