Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Hvað vakir fyrir fólki? Er fólk steinblint?

Ólafur Ragnar hefur öðlast þann vafasama sess að vera talinn umdeildasti forseti lýðveldisins. Hann er menntaður sem sérfræðingur í sögu valdsins á Íslandi og hefur síðustu árin leikið sér að valdinu.

Valdið er mjög vandmeðfarið. Margir valdsmenn hafa látið valdið draga sig á asnaeyrum og séð ofsjónum yfir því. Þeir jafnvel telja sig hafa yfir lög og rétt hvað þá þann nafnlausa fjölda sem þjóðin er.

Ólafur Ragnar hefur reynst okkur nokkuð dýr. Hann er hlutdrægur, hefur lagt sig í líma að styrkja stjórnarandstöðuna gegn núverandi ríkisstjórn sem hefur aldrei í sögu lýðveldisins átt í jafnmiklum erfiðleikum. Samt hefur ríkisstjórninni tekist ótrúlega vel að leysa mörg erfið verkefni þó töluvert sé í land að leysa öll mál.

Kannski við þurfum fremur á forseta að halda sem er lítillátur, ódýr í rekstri og hefur sig ekki jafnmikið í frammi og Ólafur Ragnar. Hann hefur vaðið á súðum, gegndi mikilvægu hlutverki hjá útrásarvörgunum, var ein helsta klappstýra þeirra. Telst slíkur forseti vera eftirsóknarverður nema meðalþeirra sem vilja hafa hann í vasanum?

Eg vil gjarnan sjá næsta forseta lýðveldisins sem víðsýnan, góðan og farsælan leiðtoga allrar þjóðarinnar sem ekki hefur sig í frammi og tekur ekki þátt í að taka svo afdrifaríkan þátt í þjóðfélagsmálum og núverandi forseti. Ólafur Ragnar á að draga sig í hlé og sigla lygnari sjó.

Við þurfum ekki á forseta að halda sem er óútreiknananlegur, forseta sem tekur óvæntar ákvarðanir þvert á vilja eða óska, ákvarðanir sem eru til þess fallnar að afla honum tímabundinna vinsælda en sem ekki kunna að vera sérlega hagsýnar og þaðan af síður skynsamar þegar sagan metur störf og gerðir seinna meir. Icesave málið var blásið upp í pólitísku moldviðri sem kemur okkur Íslendingum ekki að neinu gagni nema síður sé.

Mér finnst fólk vera léttlynt og allt að því steinblint að vilja framlengja umboð Ólafs Ragnars. 

Hann klauf þjóðina í tvær andstæðar fylkingar en sameinaði ekki. Forsetaembættið á að skipa friðsaman en ekki stríðsherra!


mbl.is Undirskriftum fjölgar ört
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikurinn að valdinu

Doktorsritgerð Ólafs Ragnars við háskólann í Manchester fjallar um valdið á Íslandi. Ritgerðin er söguleg úttekt hvernig valdið þróaðist á 19. öld og frameftir 20. öldinni. Þessi lokaritgerð skolaði Ólafi inn í Háskóla Íslands þar sem hann lagði meginlínurnar í þjóðfélagsfræðibraut og stofnuð var fyrir rúmum 40 árum.

Þekkingin um valdið kom Ólafi Ragnari áfram gegnum stjórnmálin. Hann hugðist ásamt Baldri Óskarssyni vini sínum ná undirtökunum í Framsóknarflokknum með svonefndri Möðruvallahreyfingu. Þetta gekk ekki eftir. Nú lá leiðin í Alþýðubandalagið þar sem Ólafur var brátt kjörinn formaður. Hann var farsæll foringi vinstri manna á þessum árum og var um tíma einn afkastamesti fjármálaráðherra landsins  með því að afgreiða fjáraukalög undanfarinn áratug á mettíma. Stundum hafa fjáraukalög verið uppnefnd „syndakvittun“ fyrri ríkisstjórna en í raun er verið að loka ársreikningi viðkomandi árs í ríkisbókhaldi. Og þegar hann bauð sig fram til embættis forseta lýðveldisins, þá kom að því, að hann breytti valdalitlu embætti í valdamesta embætti landsins með því að slá ríkisstjórnir út af laginu með neitun á undirskrift laga sem þingið hafði samþykkt.

Sumir hafa bent á og það með réttu, að með neitun sinni á Icesave hefur Ólafur Ragnar verið með þjóðina í vasanum. Margir hafa viljað hafa Ólaf Ragnar í vasanum og það kom augljóslega vel fram í ljós í „útrásinni“. Sömu aðilar hafa viljað benda á að nú sé stjórnarandstaðan með Ólaf í vasanum og vilji gjarnan að hann sitji sem fastast á Bessastöðum.

Spurning er hvort forseti vor hafi verið að leika sér að valdinu með því að neita undirritun á lögum samþykktum frá Alþingi.

Allt hefur orðið þessari þjóð að tjóni. Við sitjum vonandi ekki uppi með dýrasta forseta landsins sem lofsöng útrásina þar sem engin innistæða var fyrir. Þar var öllu stolið, steini léttara.


mbl.is Tæp 3000 hafa skorað á forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegur sparnaður

Að nota iðnaðarsalt í matvælavinnslu í stað þess að nota salt sem æskilegt er að nota í matvæli er furðulegur sparnaður. Yfirleitt þarf mjög lítið magn salts í matvælaframleiðslu og verðmunurinn á matvælasalti og iðnaðarsalti getur ekki verið það mikill að tekinn sé sú áhætta að framleiðslan sé metin óhæf til manneldis.

Það er heimska að ætla sér að spara örfáa aura en taka áhættu að matvælaframleiðslan verði metin óhæf til neyslu.

Iðnaðarsaltið er talið vera 99% hreint salt og því er 1% önnur efni í saltinu. Hvaða efni kunna að vera í þessu eina prósenti kann að skipta sköpum hvort matvæli séu hæf til manneldis eður ei.

Mjög ámælisvert er af innflytjenda að flytja í stórum stíl þetta salt sem er lakara að gæðum en salt til matvælaframleiðslu. Kannski hann hafi fengið það með sérkjörum?

Þess má geta að fyrir rúmlega hálfri öld var efnt til glerverksmiðju í Vogunum í Reykjavík. Byggt var stórt verksmiðjuhús og fluttur var inn stór haugur af gleri sem við krakkarnir höfðum gaman af að brölta upp á. Þarna var leiksvæði okkar í Vogunum. Síðar kom í ljós að í verksmiðjunni var gríðarlegt magn arseniks sem ögn af þurfti til framleiðslunnar. Magnið gat dugað í um 500 ár miðað við hámarksafköst verksmiðjunnar. Þetta mikla magn gat hins vegar strádrepið alla íslensku þjóðina margsinnis eins og hún lagði sig. Aðspurður kvað aðstandandi hins mislukkaða atvinnurekstrar hvers vegna þetta mikla magn af arseniki var flutt inn: Það var svo ódýrt!

Kannski iðnaðarsaltið hafi verið svo ódýrt að hægt væri að marggræða á því!

Góðar stundir! 


mbl.is Iðnaðarsaltið ekki hættulegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Betri neytendavernd innan EBE?

„Reglugerðarfargan“ Efnahagsbandalagsins tekur á málum sem þessum. Efnahagsbandalagið tekur á þessum málum. Þar er skýrt tekið á hvað er heimilt og hvað ekki. Auðvitað á að gera ströngustu skilyrði til matvælaframleiðslu og spurning er hvort framleiðsla Ölgerðarinnar sé að einhverju leyti aðfinnanleg jafnvel gölluð þegar þeir klikka svona svakalega á að flytja iðnaðarsalt og selja áfram til framleiðslu matvæla. Hefur Ölgerðin sjálf notað iðnaðarsalt  eða önnur lakari og ódýrari hráefni til framleiðslu sinnar þegar ber að nota það besta?

Auðvitað er iðnaðarsalt þetta ekki bráðdrepandi en það er ekki eins hreint og salt sem framleitt er til matvælaframleiðslu.

Á dögunum kom annað dæmigert neytendaál þar sem tilbúinn áburður kemur við sögu. Í fyrstu var brugðist þannig við að ekki átti að birta opinberlega niðurstöðu rannsókna eins og tíðkaðist fyrrum þegar neytendum kom svona lagað ekki við. En nú krefst samtíðin að nú sé allt lagt á borðið og málin upplýst.

Ljóst er að bestu fosfatnámur heims eru nánast uppurnar og þá er næst snúið sér að tæma það sem er næstbest. En hreinleikinn er það sem máli skiptir og það ættu ölgerðarmenn að átta sig best á.

Við minnumst maðkaða mjölsins í sögu Einokunarverslunarinnar og skemmdu kartaflanna sem Grænmetisverslun ríkisins (einokunarverslun) flutti inn löngu seinna sem seldar voru hérlendis til manneldis en erlendis sem svínafóður. Þetta þótti á sínum tíma nógu gott handa neytendum á Íslandi! Auðvitað var heilmikill gróði af maðkaða mjölinu og kartöflusvínafóðrinu sem viðkomandi einokunarverslanir héldu enda neytendavernd ekki komin til sögunnar.

Ef einhver dugur væri í íslenskum neytendum myndu þeir sniðganga þá aðila sem flytja inn eða framleiða og selja gallaða vöru. En við eigum langt í land. Kannski við lærum þessa lexíu betur þegar við erum loksins komin í Efnahagsbandalagið.

Hygginn kaupmaður veit að hann selur gallaða vöru aðeins einu sinni. Og hann má reikna með að ef vara reynist gölluð, getur það haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.

Góðar stundir.


mbl.is Segir iðnaðarsaltið ekki hættulegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðaþjónustan blómgast

Segja má að ferðaþjónusta á Íslandi er vöxtulegasti atvinnuvegurinn í dag. Við getum tekið sífellt á móti fleiri ferðamönnum með hverju árinu sem líður. Fjárfesting í þessari grein er mun ódýrari bak við hvert starf en í stóriðju kostar það hundruði milljóna fjárfestingar. Við getum á okkar forsendum aukið ferðaþjónustuna og sniðið okkar þjónustu að þörfum og væntingum ferðamanna.

Nú er svo komið að stærsta fyrirtækið í ferðabransanum, Flugleiðir, verður að fjölga starfsfólki sínu um allt að 400 manns. Þetta er áþekkur fjöldi og starfar í álbræðslu! Nú hlýtur álbræðsluáhugamönnum að verða fátt um svör þegar þeir eru að hjala seint og snemma um „að koma hjólum atvinnulífsins af stað“. Víðar eru „hjól atvinnulífsins að snúast“ en í álbræðslunum, spurning hvort þau snúist jafnvel ekki hraðar í ferðaþjónustunni?

Spurning er hvenær hingað koma 1.000.000 ferðamenn árlega. Má jafnvel reikna með því að ekki líða mörg ár að það verði staðreynd.

Ferðaþjónustan er skemmtilegt og gefandi starf. Miðað við vinnu í álbræðslu er það hollt og sálarlífgandi andstætt við sálarlaust álver.


mbl.is Erlendir ferðamenn aldrei fleiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggð við ysta haf

Ótrúlegt að enn skuli Árneshreppur á Ströndum vera enn í byggð allt árið. Þarna er ábyggilega mjög fagurt á sumrin, en yfir vetrartímann, þá hlýtur þetta byggðarlag að vera með þeim afskekktari í landinu. Að hugsa sér að næsta vetrarþjónusta verður ekki fyrr en í mars! En fólk þrífst þarna og ef því líður vel, þá á það að fá að vera þar svo lengi sem vilji er og heilsa leyfir.

Þegar eg starfaði á póstinum þá var póstur sendur flugleiðis á Gjögur, Finnbogastaði og Norðurfjörð. Ekki veit eg hvernig það er núna en opinber þjónusta við  afskekkt byggðarlög hlýtur að vera mjög dýr. Atvinna fremur einhæf og sjálfsagt fyrst og fremt tengt sauðfénaði og eitthvað sjávarnytjum, ferðaþjónusta á sumrin sem vonandi vex með hverju árinu sem líður.

Verð að viðurkenna að aldrei hefi eg komist norðar en í Bjarnarfjörð. Sambýlismaður ömmu minnar sálugu sem bjó á Akranesi var frá Krossnesi. Hann var af þeirri frægu ætt sjósóknara sem kennd hefur verið við Ófeigsfjörð, hákarlaveiðimenn og dugnaðarforka. Eg minnist úr því ágæta húsi á Akranesi málverks frá Trékyllisvík þar sem Reykjahyrna var áberandi handan víkurinnar. Nánast hverju sinni sem eg svaf í húsi þeirra, var málverkið sem sofnað var frá og aftur vaknað við að morgni.


mbl.is Vegurinn opnaður vegna jarðarfarar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fæðist lítil siðblind mús?

Að bætt sé við einu starfi sem kosið verður til, breytir engu. Sjálfstæðisflokkurinn byggir á sömu forsendum og áður, sömu hugmyndunum og sömu viðhorfunum og áður.

Er Bjarni virkilega svo einfaldur að unnt sé að hverfa frá ábyrgðarleysinu gagnvart hruninu, svikunum gagnvart Íslendingunum varðandi einkavæðingu bankanna þegar þeir eru afhentir fjárglæframönnum, kvótakerfinu sem kom þessum sama braskaralýð á bragðið, spillingunni sem grasseraði í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins 1991-2009?

Ef svo er, þá er trú Bjarna Benediktssonar mikil. Að fjölga einum manni í liði forystusauða siðblinds flokks, breytir engu þó fæðist ofurlítil mús.

Flokkurinn á sér mörg góð fyrirheit en þau eru löngu gleymd og glötuð.

Ein lítil mús í fyrrum stærsta stjórnmálaflokki landsins breytir engu.


mbl.is Kosið í nýtt embætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ranghverfa einkarekinnar þjónustu

Brjóstastækkanir eru að verulegu leyti vegna tískubólgu. Fyrir nokkrum árum óskaði fermingartelpa sér stærri brjóst í fermingargjöf!

Hverjir eru það sem ýta undir þessa þörf annað en þeir sem selja betri ímynd kvenna? Eins og kvenlíkaminn er ekki fallegur eins og hann er? Þó svo að brjóst þroskist e-ð seinna eftir væntingum þá sér náttúruan sjálf um þetta. Brjóstastækkun er yfirleitt vitaóþörf læknisaðgerð.

Nú kemur í ljós að lýtalæknir hafi flutt inn á eigin spýtur umdeilda silikonpúða sem virðast hafa snemma verið litnir tortryggni. Hvenær lækninum verður ljóst að hann hafi verið að flytja inn gallaða vöru sem auk þess virðist ekki hafa staðist kröfur heilbrigðisyfirvalda verður vætanlega lykilatriði í málaferlum. Þar reynir á hvort hann sé „bona fide“ eða „mala fide“, hvort hann hafi verið grunlaus flutt þessa varasömu fyllingarefni til brjóstastækkunar, eða vissi hann eða mátti vita að þessi vara væri ekki gallalaus?

Einkaþjónusta lækna er yfirleitt rándýr. Og þegar ríkið og samfélagið verður að hlaupa undir bagga þegar upp kemst um alvarleg mistök þá er spurning hver ber ábyrgð?

Læknar geta keypt sér tryggingu til þess að hafa vaðið fyrir neðan sig ef þeir telja sig geta gert mistök og geta bakað sér skaðabótaábyrgð.

Þetta mál verður sennilega til þess að konur geri sér grein fyrir því að fegurstu brjóstin eru þau sem þær hafa en ekki einhvert gervi.

Undantekningar eru auðvitað frá reglunni eins og t.d.þær konur sem vegna krabbameins, slyss eða  annarra orsaka þurfa á þessu að halda. En alltaf ber að gera ströngustu kröfur til efnisnotkunar og meðferðar. Þar dugar ekkert kák og kæruleysi.


mbl.is Jens hættur á Landspítala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slugs við þjónustu borgarana

S. l. föstudag átti eg erindi til borgarinnar úr Mosfellsbæ. Töluverður munur er á þjónustu þessara sveitarfélaga, allur tiltækur mannskapur er sendur af stað að ryðja snjó og verja bæjarbúa fyrir hálkuslysum í Mosfellsbæ meðan Jón Gnarr biður um skilning fyrir seinaganginum í stærsta sveitarfélagi landsins.

Eg átti fullt í fangi að skipta um strætisvagn í Ártúni á einni stæstu stoppustöð landsins. Þar var allt órutt, enginn sandur né salt. Strætisvagnabílsstjórar áttu auk þess að opna dyr þeirra strætisvagna sem opnast út.

Slugs sem þetta er yfirvöldum Reykjavíkurborgar til skammar.


mbl.is Borgarstjóri biður um skilning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og hvers vegna fer SUS ekki líka?

Þessi hópur ætlar sér ALDREI að viðurkenna að það var Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sem hafa borið uppi spillinguna uppi á Íslandi. Þeim finnst sjálfsagt að gráta krókódílatárum yfir því að seint verður unnið á atvinnuleysinu og „láta hjól atvinnulífsins snúast“ eins og þeirra maður í Vinnuveitendasamtökunum er alltaf að hjala um.

Auðvitað gera þessir strákar sér ekki grein fyrir neinu sem þeirra flokkur ber ábyrgð á. Þar er aðeins hugsað um gróðann, eiginn hag og að Geir Haarde verði ekki fundinn sekur fyrir kæruleysið.

Mín vegna mega þessi samtök flýja land. Það yrði kannski landhreinsun af þessum Heimdellingum sem sjaldan hafa stigið í vitið, - þegar gróðavitinu sleppir. Þeir eru fundvísir á auðinn sem oft er um stundarsakir í bönkum og í eigu gamla fólksins sem nurlað hefur smáupphæðum saman og lífeyrissjóða.

Sussarar mega gjarnan taka sér eldra fólkið sér til fyrirmyndar. Þar er sparnaður yfirleitt í fyrirrúmi. Svo mættu þeir innbyrða góðan skammt af fræðum Hannesar Hólmsteins um eyðendur og greiðendur. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sólundaði auði þjóðarinnar, sem endaði hjá gróðapungum íhaldsins, hluti auðsins lenti meira að segja í höndum allmargra íhaldsmanna meðal yðar!

Svo sá sem saklaus er , kasti fyrsta steininum! 


mbl.is Landflótti áfellisdómur yfir ríkisstjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband