Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Hvaða raunhæf lausn er best?

 

Margir innan VG eru tortryggnir gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu. Mér finnst þessi andstaða gegn EBE ekki vera byggða á raunhæfu ísköldu mati, fremur gamaldags sjónarmiðum og allt að því sveitamennsku, tengdri barnslegri trú á einfaldleikann og rómantík, að allir séu okkur góðir.

Með fyllstu virðingu fyrir öllum andstæðum skoðunum. Íslendingar geta aldrei vænst þess að verða herlaus frjáls þjóð NEMA sem aðildarríki EBE.

Lítum aðeins á augljósar staðreyndir:

Kínverjar hafa mikinn hug á því að efla hagsmuni sína í Evrópu og hafa þegar hafið undirbúning að því. Langfjölmennasta sendiráð á Íslandi verður innan mjög skamms tíma það kínverska. Þeir eru mjög líklegir að kaupa sér innan skamms hagsmuni t.d. gegnum kanadíska fjármálamanninn sem keypti á vægast sagt mjög umdeildan hátt með aðstoð íslenskra sporgöngumanna hvcorki meira né minna en 98,5% í HS Orku. Nú vill sami aðili náðsamlega „selja“ 25% til íslenskra aðila eða annarra sem vilja eiga viðskipti við hann.

Ef Kínverjar færu að efla umsvif sín hér á landi þá væri ekki langt að bíða þess að Bandaríkjamenn efldu einnig hagsmuni sína hér. Svo gæti farið að undir slíkum kringumstæðum yrði landið hernumið eina ferðina enn enda er Ísland aftur að verða mjög þýðingarmikill punktur með tilliti til hagsmuna siglinga- og verslunarhagsmuna einkum ef skipaleiðir opnast milli Evrópu og austur Asíu um Norðurhöf. Þá eru hagsmunir vegna verðmætra jarðefna eins og olíu og e.t.v málma í Heimskautslöndunum.

Það er af þessum ástæðum að við getum ekki leyft okkur þessa einföldun. Ísland er og verður hluti af þeim veraldleika sem heimurinn er.

En hvernig er að tengjast öðrum þjóðum mjög njáið? Erum við með eitthvað sameiginlegt með Kínverjum? Við eigum ævafornt tákn sameiginlegt: drekann sem er bæði tákn valdsins og óttans við því óráðna. Erum við „bandarískar eftirlegukindur“ eins og Guðbergur Bergsson vildi skilgreina okkur? Vonandi ekki.  Öðrum þjóðum erum við nær bæði hvað lífshætti, uppruna og vonandi hugsunarhátt og menningu. Evrópuþjóðirnar flestar þekkja eiginleika okkar, sem byggist af einstæðru þrjósku okkar en samfara dug og vinnuhörku.

Við verðum aldrei frjáls herlaus þjóð ef hér verður kapphlaup milli mestu hervalda heims. Þá verður ekki langt að bíða að mörgum smábóndanum þætti þröngt fyrir dyrum sínum.

Vinsamlegast með bestu kveðjum

Mosi


mbl.is VG tekst á um ESB-inngöngu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð ráðstefna

Þessi ráðstefna á Grandhóteli í morgun um ferðaþjónustu og umhverfismál var fróðleg í alla staði. Einhugur var með öllum frummælendum að tryggja þarf góðan og öflugan tekjustofn sem verði nýttur til að lagfæra vinsælustu ferðamannastaði landsins og bæta alla aðstöðu ferðamanna.

Sem stendur hefur ríkt gamaldags „sveitamennska“ í þessum efnum. Ekki hefur verið talið vera við hæfi að taka fyrir að ferðafólk sæki t.d. þjóðgarða. Er þó vitað að töluverður kostnaður fylgir rekstri þeirra einkum þar sem ríkið hefur byggt upp upplýsingamiðstöðvar eins og á Þingvelli, Snæfellsnesþjóðgarð og Vatnajökulsþjóðgarð svo dæmi séu nefnd.

Reynsla mín sem leiðsögumaður er sú að margir ferðamenn undrast þetta fyrirkomulag. Þeim finnst eðlilega okkur til vansa hversu aðstæður eru víða slæmar og jafnvel varhugaverðar og bókstaflega hættulegar. Það er mjög sanngjarnt að ferðamaður greiði hóflega fyrir það sem hann nýtur í þjóðgarði. En þá þarf sú gjaldtaka að vera almenn þannig að ferðafólki sé ekki mismunað t.d. með hvaða farartæki það kemur á staðinn. Þannig hefur ferðaskrifstofum verið gert að inna gjald fyrir að stoppa við Kerið í Grímsnesi þó svo að þeir sem koma á minni bílum séu ekki rukkaðir fyrir að berja gíg þann augum.

Í ár er talið að rúmlega hálf milljón erlendra ferðamanna hafi sótt Ísland heim. Um 80% þeirra koma hingað til að skoða og upplifa íslenska náttúru. Hvenær ferðamannastraumurinn fer í 1.000.000 er auðvitað spurning en sjálfsagt verður ekki langt þangað til.

Talið er að árlegur hagnaður ferðaþjónustu á Íslandi nemi meira en 150 milljörðum eða álíka fjárhæð og áliðnaðurinn skilar nú. Ekki er um sambærilega starfsemi að ræða, áliðnaðurinn greiðir t.d. ekki fyrir það tjón sem orðið hefur á náttúru landsins vegna bygginga virkjana. Það eru óafturkræfar aðgerðir. En ferðaþjónusta er árstíðabundin því miður og hefur verið fremur tengd ýmsum láglaunastörfum sem áliðnaðurinn er ekki. Þannig að ekki er aiuðvelt að bera tvennt ólíkt saman.

Þó má reikna með að áliðnaður geti ekki vaxið jafnmikið og ferðaþjónustan á Íslandi. Má þar nefna að möguleikar til endurvinnslu áls í heiminum t.d. í B.N.A. gæti valdið umtalsverðum samdrætti í frumxvinnslu áls enda er gríðarleg mengun honum samfara eins og gerðist í Ungverjalandi nú í sumar sem leið.

Mosi 


mbl.is Nefskattur skásta lausnin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf á opinberri rannsókn

Engin ástæða var að selja erlendum braskara fyrirtæki sem að stórum hluta hefur verið í opinberri eigu. Mjög mikil þörf er á opinberri rannsókn á aðdraganda sölunnar sem og þeirri hagsmunagæslu þeirra sem vildu selja opinberar eigur. Líklega kemur sitthvað fram sem hlutaðeigandi vilja að ekki verði verið að skoða betur.

Lífeyrissjóðir voru hlunnfarnir sem og smáhluthafar í almenningshlutafélaginu Atorku sem var stærsti hluthafi Geysir Green Energy. Svo virðist sem það fyrirtæki hafi verið stofnað fyrst og fremst í þeim tilgangi að véla almenning enda stjórnarformaður þess alkunnur athafnamaður í útrásardellunni.

Aðaleigandi Magma kvaðst aðspurður ekki hyggjast eiga HS Orku lengi heldur selja áfram. Hann kvað ekki útilokað að Kínverjar myndu kaupa hlut sinn.

Ekki verður auðveldara að rétta hlut okkar ef það gengur eftir enda Kínverjar sagðir vera með erfiðari aðilum þar sem við sögu koma hagsmunir hvað þá mannréttindi.

Mosi


mbl.is Magma rekið með hagnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóryrði

Þingmaðurinn tekur nokkuð djúpt í árina en hvað er til í þessu?

Þegar settar eru fram fullyrðingar sem þessar þarf hlutaðeigandi að vera tilbúinn að leggja fram gögn og heimildir sem sanna að hann fari með rétt mál.

Viðhorf til Efnahagsbandalagsins hafa allt of oft v erið bundin tilfinningu. Margir telja aðild Íslendinga að Efnahagsbandalagi Evrópu þýði jafnvel endalok íslensks samfélags. Hvað er til í þessu?

Þau ríki sem í dag eru aðildarríki EBE eru enn þjóðir sem hafa sín einkenni, tungumál, sögu og menningararf eftir sem áður.

Fyrir venjulega Íslendinga væri mikill akkur að við verðum aðildarríki EBE. Við myndum fá mjög vandað en kannski nokkuð ítarlegt lagaumhverfi sem tryggir betur borgaraleg réttindi en verið hefur. Við getum t.d. bent á svonefndan „félagsmálapakka“ sem var undanþeginn við aðild að EES. Var það að kröfu atvinnurekenda og útgerðarinnar. Á þeim bæjunum telja ráðmenn venjulega Íslendinga hafa nóg af svo góðu.

Ljóst er, að ef Íslendingar ganga í EBE verður helmingaskiptaregla Framsóknar og Sjálfstæðisflokks um hagsmunagæslu þessara flokka úr sögunni enda slíkt fyrirkomulag sem einkennist af spillingu.

Við eigum ekki að láta hræðsluáróður hafa áhrif. Fleiri rök mæla með inngöngu í EBE en á móti.

Mosi


mbl.is Hótað embættismissi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Siðfræði fuglaveiða

Nú er handagangur í öskjunni hjá mörgum veiðimönnum. Sumir kæra sig kollótta um lög og reglur, meira að segja hugur margra er svo mikill að þeir virðast gleyma að fylgjast með veðurhorfum næsta sólarhringinn áður en haldið er til veiða. Að fara utan vega á fjórhjólum til að elta bráðina er ósköp klént. Fyrir utan að allur akstur utan vega er yfirleitt bannaður, þá þykir það vera merki um leti að þurfa að fara til rjúpna á fjórhjóli. Skiljanlegt ef veiðimenn eru að eltast við hreindýr. Þá kann að vera nauðsynlegt að geta haft fjórhjól til að koma bráðinni til byggða og þá farið eftir viðurkenndum slóðum sem landeigendur eru sáttir við.

Rjúpnaveiðar voru fyrst og fremst stundaðar af fátækum bændum sem oft höfðu ekki alltaf efni á að halda almennileg jól með lambakjöti. Þá tíðkaðist að veiða sér til matar en nú eru allar verslanir troðfullar af góðum og oft fremur ódýrum mat. Veiðiskapur er mun dýrari en að fara í verslun og kaupa sér inn í jólamatinn.

Þetta er orðið meira sport en nauðsynlegur þáttur að afla matar í gamla veiðimannasamfélaginu.

Þá mættu rjúpnaveiðimenn undirbúa veiðarnar með því að safna birkifræi og dreifa á veiðislóð. Með því bæta þeir fæðuskilyrði rjúpunnar og kannski nær eitthvað að spíra og verða að tré sem aftur getur sáð sér áfram og orðið rjúpnastofninum að góðu gagni enda fæðuframboðið oft takmarkað.

Mosi


mbl.is Kvartað yfir rjúpnaskyttum á fjórhjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður menntun aðeins á færi auðmanna?

Þegar skólagjöld hækka að frumkvæði íhaldsmanna, mun það að öllum líkindum hafa eina afleiðingu: þeir sem minna mega sín í samfélaginu, geta síður kostað framhaldsmenntun barna sinna. Stjórnmálamenn á vinstri væng stjórnmála hafa lengi bent á þessa meinsemd. Auðurinn á ekki að vera þeim vel stæðu forréttindi að koma börnum sínum til mennta.

Hér á landi voru það lengi vel fyrst og fremst embættismenn, velmegandi bændur og auðmenn sem gátu kostað börn sín til menntunar á Íslandi. Æðri menntun voru forréttindi sem aðrir áttu ekki kost á þó undantekningar voru til.

Bresk stjórnvöld sýna með þessu slæmt fordæmi.

Mosi


mbl.is Skólagjöld hækka í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraðferð á 240 km hraða úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur!

Á heimasíðu Mosfellsbæjar er greint frá nýjung sem sjálfsagt er að benda á:

Nú hefur verið ákveðið að strætisvagn aki tvær ferðir frá miðbæ Mosfellsbæjar til miðbæjar Reykjavíkur. Sjá: http://www.mos.is/Lesafrett/mosmidborg-hradferd

Allt hið besta mál en svo er að rýna betur í textann:

„Vakin er athygli á því að á virkum dögum ekur vagn frá Strætó BS tvær hraðferðir milli Mosfellsbæjar og miðborgar Reykjavíkur. Um 15 mínútur tekur að aka frá miðbæ Mosfellsbæjar að Lækjartorgi.

Um er að ræða leið nr. 6 sem leggur af stað frá Háholti í Mosfellsbæ kl. 7:19 og 8:19. Hún ekur beina leið að skiptistöðinni við Ártún og þaðan hefðbundna leið sem er niður Miklubraut, fram hjá Landspítala og Háskóla Íslands, fram hjá Tjörninni, niður að Lækjartorgi, upp Hverfisgötu og að Hlemmi“.

En gamanið fer að kárna þegar tímaáætlunin er skoðuð betur:

Háholt Mos - 7:19 og 8:19
Ártún - 7:21 og 8:21
Kringlan - 7:25 og 8:25
Landspítalinn - 7:28 og 8:28  
Háskóli Íslands - 7:30 og 8:30
Lækjartorg - 7:34 og 8:34
Hlemmur - 7:39 og 8:39

Eins og sjá má er áætlað að taki einungis 2 mínútur að aka um 8 km leið frá Mosfellsbæ og niður í Ártún. Ef við deilum 8 með 2 fáum við 4 sem er áætlaður hraði á mínútu. Og með því að margfalda 4 með 60 sem sagt fjölda mínútna í klukkustundinni þurfa strætisvagnarnir að aka á 240 km hraða þessa leið! Auðvitað er hægt að setja upp alls konar óskhyggju á blað en er þetta ekki einum of langt gengið? Á leiðinni er um tylft hringtorga sem hafa þá náttúru að þeim er ætlað að draga úr hraðakstri. Sjálfum finnst mér tíminn knappur frá Ártúni á móts við Kringlu sem er tvöfalt lengri en nokkuð styttri. Það verður ekki neitt sældarbrauð hjá strætisvagnabílsstjórum að halda tímaáætlun jafnvel þó þeir væru að æfa sig í formúlu kappakstri á strætisvögnunum. Tölum ekki um aðra vegfarendur. Eins gott að þessir hraðakstursvagnar verði sérstaklega merktir, þess vegna endurvaktir Kleppur hraðferð, - tja hvers vegna ekki? Sú leið var einu sinni til og bar númerið 13. 

Stjórn Strætó hefur oft komið með kostulegar hugmyndir. Ætli nokkur sem situr í stjórn Strætó geri sér minnstu hugmynd um aðstæður og æskilegt aksturslag bílsstjóra. Líklega er enginn notandi strætisvagna sem situr í stjórn Strætó sem virðulegir borgarar verma.

Vonandi verða ekki stórslys af þessu nýjasta uppátæki. En aukin þjónusta verður ábyggilega kærkomin, en með réttum forsendum takk fyrir!

Mosi


Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband