Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Að taka lögin í sínar hendur

Alltaf er mjög umdeilanlegt þegar einhver tekur sér lögin í sínar hendur. Það fyrirkomulag tíðkaðist mjög í villta vestrinu: skjóta fyrst og spyrja svo.

Í réttarríkinu gengur þetta ekki. Sá sem afhendir vöru eða aðra þjónustu getur ekki tekið sér lögin í hendur og sótt það semda, nema hann hafi við samning eða afhendingu vöru/þjónustu að hann áskyldi sér eignarréttarfyrirvara. Þannig var einn heildsali fyrir nokkrum áratugum þekktur fyrir að sækja óseldar vörur sínar hjá smásala sem ekki hafði staðið í skilum. Þá átti viðkomandi kaupmaður í miklum fjárhagserfiðleikum og auðvitað var þetta ágæt lausn.

Fyrir nokkrum misserum fréttist að iðnaðarmenn höfðu gripið til líkra ráðstafana á Selfossi. Þar sem þeir höfðu hvorki fengið greitt fyrir vinnu sína né útlagðan kostnað vegna byggingarefnis, gripu þeir til þess ráðs, að sækja allt það sem þeir höfðu kostað til: raflagnaefni og pípulagningarefni. Þá stóð þannig á, að greiðslur höfðu tafist og þeir töldu sig vera í fullum rétti að sækja byggingarefnið.

Eigi fer neinum fregnum af niðurstöðu þess máls en ljóst að mikið tjón var fyrirséð enda vetur að ganga í garð.

Þeir sem taka sér lögin í sínar hendur geta orðið ábyrgir gerða sinna og það getur orðið dýrt spaug.

Sennilega er vænlegasta leiðin að láta lögmann um innheimtu. Ef hendur þarf að láta standa fram úr ermum og staðreyndir og málsástæður á hreinu, mætti krefjast kyrrsetningar og höfða mál í framhaldi. Þessi málatilbúnaður er tiltölulega hraðvirkur en getur orðið feyknadýr enda þarf að leggja fram tryggingu að mati dómara eða dómkvaddra matsmanna.

Við eigum að sýna öðrum að við viljum ekki grafa undan réttarríkinu. Borgum strax þá vara eða þjónusta er keypt en látum það ekki bíða. Svo er alltaf vænlegra að biðja lánardrottinn um gott veður ef svo stendur illa á, að ekki sé nóg til að reyta í hann. Þá er betra að semja og sýna einhvern lit með því að greiða eitthvað upp í kröfuna.

Mosi

 


mbl.is Sumarbústaðarmál tengdist skuld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er klofningur í Sjálfstæðisflokknum?

Athygli vekur að þingmenn Sjálfstæðisflokksins ýmist greiddu gegn Icesafe lögunum eða sátu hjá. Þetta erfiða mál er vegna þeirrar barnalegu ákvörðunar að afhenda ríkisbankana í hendurnar á aðilum sem breyttu bönkunum nánast í lánastofnanir fyrir braskara og mafíósa.

Þetta þingmál á ábyggilega eftir að draga dilk á eftir sér og verða til mikils uppgjörs innan Sjálfstæðisflokksins.

Rekstur bankanna á Íslandi síðastliðin misseri voru reknir eins og bankarnir á Ítalíu sem Mafían hefur náð tangarhaldi á. Þetta kom m.a. fram í máli Sigrúnar fréttaritara Ríkisútvarpsins í Speglinum í gær.

Ábyrgð Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins á bankahruninu er mikil. Að snúa út og suður með staðreyndir málsins í meðferð þingsins á þessu erfiðasta þingmáli þessarar aldar fram að þessu, er þeim til mikils vansa.

Ljóst er að samþykkt þessa máls er mikilvægt lykilmál til að endurreisn efnahagslífsins á Íslandi geti hafist. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum við endurreisnina. Þá þarf með aðstoð Breta og Hollendinga að endurheimta sem allra mest af þéim miklu fjármunum sem braskaralýðurinn flutti úr landi. Og það þarf að koma lögum yfir þessa þokkapilta sem breyttu bönkunum í ræningjabæli.

Mosi


mbl.is Icesave-frumvarp samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla greiða leiðin

Þegar fólk er að koma sér upp húsnæði er eðlilegt að það taki á sig fjárskuldbindingar fram í tímann. Að taka lán er ekkert annað en að ráðstafa fyrirfram tekjum sínum sem maður væntir að óbreyttum forsendum.

Margir hafa lent í þeirri gryfju að taka gengistryggð lán og með falli bankanna fór allt í vitleysu. Allar forsendur brostnar. Eins má segja að dýrtíðin sem aflvaki vísitöluútreikninga hafi skrúfað upp lán óhæfilega.

Er það mikilvægt fyrir allt samfélagið að allir sem hafa tekið lán, verði látnir gjalda fyrir bankahrunið á mun óhagstæðari kjörum en til var ætlast í fyrstu? Það eru engir hagsmunir að sem flestir verði gjaldþrota, öðru nær, það verður að finna sanngjarna leið út úr vandanum.

Framsóknarmenn settu fram hugmynd um flatan 20% niðurskurð á öllum skuldum. Ætli það hafi verið af sérstakri umhyggju fyrir þá sem berjast nú í bökkum að láta venjuleg laun ná endum saman? Ætli hugmyndin sé ekki síður að bæta hag þeirra sem voru valdir að bankahruninu með spákaupmennsku sinni. Margir framsóknarmenn eru viðriðnir bankahrunið og eru í skuldafjötrum annað hvort gegnum fyrirtæki sín og forréttingar eða jafnvel persónulega og það væri ekki það versta. Þessir aðilar skulda tugi og jafnvel hundruði milljarða og þá munar um niðurfellingu 20% allra skulda.

Önnur leið og mun vænlegri er að setja með sérstakri ákvörðun Alþingis og Stjórnarráðsins að allar skuldir verði stilltar inn á vísitölu sem var í gildi við bankahrunið. Þannig væri komið á móts við alla þá sem gerðu sínar ráðstafanir með hliðsjón af að þeir gætu staðið í skilum. Gengislán yrðu þá gerð upp með einhverju skynsamlegra móti en verið hefur.

Það eru hagsmunir þjóðarinnar að sem flestir geti sloppið frá hremmingum og hafi möguleika á að standa í skilum við greiðslu lána sinna. Þó falsa yrði vístöluna, þá hefur það verið svo oft gert að það ætti hvorki að skipta miklu héðan af. Vísitalan er leikur talnaspekinga um borgaralegan arð sem ekki er alltaf mjög skynsamlegur.

Þegar misgengið varð fyrir um 25 árum þá var sett stopp á vísitölu launa meðan svonefnd lánskjaravísitala sem nefnd var ránskjaravísitala var látin leika lausum hala. Árið 1983 mældu íslenskir talnavísindamenn Hagstofunnar að dýrtíðin væri komin í um 140%. Hverjir skyldu hafa grætt en hverjir töpuðu? Öllum þorra þjóðarinnar blæddi meðan braskaranir rökuðu saman stórgróða. Í bankahruninu mikla endurtekur leikurinn sig en með margfalt meiri áhrifum.

Veitum þeim vonir sem nú eru að sligast undan skuldafarginu sem þeir gátu ekki séð fyrir. Þeir verða að fá tækifæri að standa í skilum á þeim forsendum sem þeir bjuggust við. Reiknum því vísitöluna eitt ár til baka og setjum á verðstöðvun. Það hefur oft gefist vel.

Mosi

 

 


mbl.is Greiðsluviljinn að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villta vestrið?

Þessar aðfarir minna óneitanlega á villta vestrið. En eru þeir sem taka sér lögin í sínar hendur tilbúnir að axla ábyrgð eins og þeir væntanlega ætlast til af þeim sem aðgerðir þeirra beinast gegn? Hvað með ef þeir fara húsavillt eða bílavillt og þessi slettuskapur beinist að aðila sem ekki er grunaður um græsku í bankahruninu?

Að taka sér lögin í hendur er andstætt réttarríkinu. Hver hefur heimild á taka sér slíkan rétt? Við verðum að treysta yfirvöldunum að þau komi lögum yfir þessa þokkapilta sem grófu undan efnahagi okkar með því að draga bankareksturinn út á varhugaverðar brautir.

Við eigum að taka alvarlega til ígrundunar að við getum auðveldlega eyðilagt góðan málstað með því að haga okkur eins og í bófahasar eins og í villta vestrinu.

Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða.

Mosi


mbl.is Málningu úðað yfir bíl Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vatnið er mikilvæg auðlind

Þessi frétt frá norður Kína minnir okkur á hve vatnið er mikilvæg auðlind. Á um 90 þúsund ferkílómetra lands eyðast akrar og hagar væntanlega með skelfilegum afleiðingum fyrir íbúa þessa svæðis. Þetta er landsvæði sem er næstum jafnvíðfeðmt og allt Ísland!

Við Íslendingar búum vel að eiga mjög ríkulegan aðgang að góðu vatni. Það er fremur dapurlegt til þess að vita, að við Íslendingar sem tökum okkur ferð með færeyska skipinu Norrænu verðum að kaupa danskt vatn á plastflöskum á uppsprengdu veðri! Í fríhöfninni um borð eru 6 hálfslítra flöskur seldar á tilboði fyrir 50 færeyskar/danskar krónur. Það er 1.250 íslenskar vandræðakrónur eða rúmlega 400 krónur lítrinn!

Mosi


mbl.is Fimm milljónir án hreins drykkjarvatns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað leyndist í farminum?

Flutningaskip með fullfermi af timbri nýkomið úr klössun í Kalingrad (Königsberg) sem er þekkt fyrir að vera ein mesta smyglborg heims, getur augljóslega verið í einhverjum slíkum smyglleiðangri.

Á dögunum heyrði Mosi kenningu sem útskýrir nánast allt, hversu yfirvöld Vesturlanda virðast ekki viljað láta neina vitneskju út.

Kenningin gengur út á það að verið væri að smygla plútóni eða öðrum geislavirkum efnum sem unnt er að smíða kjarnasprengju úr. Sjóræningjarnir hafi verið á snærum leyniþjónustu Ísrael sem hefur komist á snoðir um þetta smygl og það eru mjög miklir hagsmunir bæði Ísrael sem Vesturlanda og reyndar Rússa einnig, að kjarnakleyf efni lendi ekki í höndum misindismanna. Ef þessi kenning reynist rétt skýrir það hvarf skipsins, yfirvöld Vesturlanda láta sem ekki sé vitað um ferðir skipsins frá því heyrðist frá því þear það var á ferð um Ermasund.

Þegar leyniþjónusta Ísraela hefur komist að hinu sanna eða numið geislavirka efnið úr skipinu, þá skipti skipið ekki lengur máli fyrir Ísraela og rússneskum yfirvöldum tilkynnt hvar skipsins væri í heiminum að leita. Þetta mál er vandræðalegt fyrir Rússa enda hafa þjófar átt tiltölulega greiða leið að ýmsum verðmætum eftir hrun kommúnismans, þ. á m. birgðum Rauða hersins á þessum hlutum.

Leyniþjónusta Ísraela er ein sú öflugasta í heimi og þeim er eðlilega mikið í mun að gæta fyllsta öryggis enda löndin fyrir botni Miðjarðarhafsins ein mesta púðurtunna heimsbyggðarinnar, því miður.

Sennilega verður seint gefin út opinber yfirlýsing um dularfulla ferð skipsins frá Eystrasalti og út fyrir strendur Afríku en málið látið liggja í þögninni.

Góður efniviður fyrir rithöfund.

Mosi


mbl.is Nýjar samsæriskenningar um Arctic Sea
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þýðir þetta fyrir okkur mörlandann?

Þegar rætt er um nýtt hlutafjárútboð, þá fær Mosi gæsahús. Hvað þýðir þetta fyrir okkur mörlandann? Er verið að þynna út hlutina eins og gert var á lymskulegan hátt í Exista þegar nokkrir dáðadrengir þynntu út hlutaféð um 50 milljarða en aðeins einn milljarður og kannski ekki eyrisvirði var greitt inn í hlutafélagið?

Í þessu tilfelli Geysir Green er verið að skiptast á hlutafé og spurning hversu mikil verðmæti ganga á milli aðila. Er um sanngjörn skipti að ræða? Eru hlutirnir sambærilegir?

Sem hluthafi í Atorku sem á umtalsverðan hlut í Geysi Green hefur Mosi vissar efasemdir. Þessi mál þarf að útskýra betur fyrir venjulegu fólki. Ástæða er til að vera á VARÐBERGI t.d. vegna þess sem gerðist í Exista. Þar náðu refirnir að gleypa 1999 lömb af 2000. Upphaflegu eigendurnir fengu að halda með öðrum orðum einu lambi af 2000!

 Svo refslega var farið með hagsmuni venjulegs fólks. Hagur þeirra sem höfðu keypt hlutabréf var gjörsamlega fyrir borð fleygt í þágu þeirra sem vildu gæta skammtímahagsmuna sinna.

Hagur okkar litlu hluthafanna og lífeyrissjóðanna er að fyrirtækið sé rekið jafn blómlega nú og eftir 30 ár en ekki hvort unnt sé að bjarga því frá gjaldþroti vegna einhverra fjárglæfra braskara úti í bæ.

Mosi


mbl.is Hlutafé fyrir 21 milljarð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi Framsóknarflokksins

Ótrúlegt er að forysta Framsóknarflokksins hagi sér eins og börn í þessu grafalvarlega máli. Þetta Icesafe mál er þannig til komið að rekja má það til furðulegs kæruleysis við einkavinavæðingu ríkisbankanna snemma á þessum áratug. Þeir aðilar sem þar koma við sögu virðast hafa litið á bankana fremur sem ránsfeng en mikilvæg fyrirtæki í samfélaginu. Sumir þessara manna höfðu meiri áhuga fyrir fótboltasparki suður á Englandi fremur en ábyrgri stjórn.

Framsóknarflokkurinn byggir upp hvern þröskuldinn á fætur öðrum til að gera allt það illt af sér í samfélaginu og til að auka glundroðann.

Ef eitthvað vit skyldi koma í vit fyrir þröskuldana í Framsóknarflokknum ættu þeir að sjá sóma sinn í að afurkalla þessa tillögu sína.

Icesafegryfjuna er ekki unnt að komast öðru vísi hjá en að fá sanngjarna niðurstöðu í samningum við Breta og Hollendinga.

Við þurfum að láta hendur standa fram úr ermum við að endurreisa efnahags- og atvinnulífið. Það er forgangsatriðið sem virðist vefjast fyrir Framsóknarflokknum.

Mosi


mbl.is Frávísun myndi valda stjórnmálaóreiðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakk

Ein aðferð braskara að halda áfram athöfnum sínum er að breyta um kennitölu þegar þeir skilja allt eftir í skuldum og óreiðu. Með nýrri kennitölu geta þeir byrjað upp á nýtt og eru dæmi um að ýmsir braskarar séu með jafnvel tug kennitalna tengdu glórulausu braski.

Í janúar 2005 bar Jóhanna Sigurðardóttir núverandi forsætisráðherra upp sem óbreyttur þingmaður fyrirspurn á Alþingi um kennitöluflakk í atvinnurekstri. Í svari viðskiptaráðherra sem þá var Valgerður Sverrisdóttir, er margt fróðlegt að lesa í ljósi bankahrunsins. Fyrirspurnina og svar Valgerðar má lesa á slóðinni: http://www.althingi.is/altext/131/s/0766.html

Fyrirspurn Jóhönnu var sett fram í nokkrum liðum. Fyrsta spurning var: Telur ráðherra ástæðu til að grípa til aðgerða eða lagasetningar til að sporna við svokölluðu kennitöluflakki í atvinnurekstri?  Svar Valgerðar er ítarlegt og fremur almenns eðlis en ekki er tekin efnisleg afstaða til spurningar Jóhönnu.

Það er dapurlegt að segja að í ársbyrjun 2005 voru engar hugmyndir þáverandi ríkisstjórnar að koma í veg fyrir þá tegund afbrota sem tengd hefur verið við hvítflybba. Núverandi forysta þingflokka Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hagar sér eins og þeir vilji koma fyrir hverjum þröskuldinum á fætur öðrum til að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin geti komið mikilvægustu þingmálum gegnum þingið. Ljóst er að Icesafe málið er mesta vandræðamálið sem upp hefur komið á liðnum árum. Það er ekki unnt að komast hjá öðru en að gangast undir þetta samkomulag við Breta og Niðurlendinga en með þeim sanngjörnu skilyrðum sem hafa verið sett. Fyrr náum við ekki að byggja upp að endurreisa bankakerfið, efnahagslífið og ekki síst atvinnulífið sem verður að vera forgangsmál.

Mættu þeir þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins líta betur í eigin barm: kæruleysi þeirra við einkavinavæðingu bankanna kom okkur í þá gryfju sem við Íslendingar erum þegar fastir í.

Mosi


Guð græðginnar

Guðjón

Jeroen Meyer nefnist hollenskur listamaður sem á meðfylgjandi listaverk á sýningu sandlistamanna sem nú um þessar mundir er haldin á vesturströnd Jótlands, skammt norðan við Hvide Strand. Listaverkið Guð græðginnar eða Græðgisguðinn hvort sem við viljum hafa það rakst Mosi á 10. ágúst s.l. þá hann var þar á ferð.

Í texta með listaverkinu segir að guð græðginnar er afleiðing athafna þeirra manna sem sífellt vilja draga meira og meira undir sig án þess að taka tillit hvorki til annarra né náttúrunnar sem aldrei getur gefið meira en sem náttúrulegur arður gefur tilefni til. Í öndverðu var mannkynið sátt við að afla sér til hnífs og skeiðar en nú er allt í einu komin fram menn sem láta græðgina draga sig illilega út í gönur.

Sandur er merkilegur efniviður til listsköpunar. Fyrst er sandindum hrúgað upp og byggð aðhald til að hann renni ekki út. þá er hann bleyttur rækilega og þjappaður mjög vel. Þegar þar er komið sögu, hefst listsköpunin. Sandlistaverkin geta lifað nokkrar vikur en smám saman vinnur náttúran á þeim og afmáir. Aðeins myndavélin nær að festa listaverkin og gera þau varanlegri.

Næsta sumar koma nýir listamenn og skapa ný verk úr sama efnivið.

Mosi 

 

 

 

 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband