Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008

Gríðarlegt magn

Hvað skyldu 300.000 rúmmetrar af jarðvegi vera margir farmar þungaflutningabíla? Ef um er að ræða grjót, möl og annað áþekkt efni má áætla að þar sé um allt að 750. þúsund tonn miðað við eðlisþyngd 2.5.

Lauslega giskað á tekur hver bíll kannski 12-15 rúmmetra eða um 30-36 tonn í hverri ferð. Það verða því a.m.k. 20 þúsund ferðir þungaflutningabíla sem er mjög umtalsvert.

Spurning er hvort e-ð kunni að leynast í þessum jarðvegi. Flott væri að finna óvænt fornar minjar en eins og kunnugt er þá voru seglskip ekki ósjaldan fyrir akkerum úti á ytri höfninni í Reykjavík. Einu sinni um miðja 19. öld strandaði við Batteríið þekkt seglskip en náðist út. Þetta Batterí þar sem Seðlabankinn er núna var byssuhreiður sem Jörgen hundakóngur lét reisa til varnar höfuðstað landsins sumarið 1809. Kom það aldrei að neinu gagni.

Verra væri ef í þessum jarðvegi leyndist spilliefni. Þá er spurning hvaða ráðstafanir hafi þegar verið gerðar til að koma í veg fyrir að þau dreifist og valdi usla.

En þegar þessum miklu framkvæmdum verðu lokið þá mun væntanlega allt orðið í besta standi.

Mosi


mbl.is 300 þúsund rúmmetrar af jarðvegi fjarlægðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skotspónn MH og MR?

Er Ráðhús Reykjavíkur orðið skotspónn milli MR inga sem þar hafa ráðið ríkjumsvo lengi sem elstu kallar og kellingar muna.

Nú eru MH-ingar þar við völd. Báðir eru þeir Ólafur F. og Jakob F. báðir Magnússynir útskrifaðir frá MH vorið 1972. Báðir hafa þeir ýmsa prýðilega mannkosti en því miður þá er alltaf verið að telja upp vankostina. Var það annars nokkurn tíma siður hjá MR-ingum að ræða um ókosti sinna manna? Var ekki Davíð dýrkaður eins og hann væri endurborinn keisarinn í Róm?

Við verðum að vona og bíða að Reykjavík sé þrátt fyrir allt þokkalega stjórnað. Gæti það annars orðið mikið verra miðað við núverandi ástand sem er vegna þess hve borgarfulltrúar eru grátlega fáir? Þeim var fjölgað í 21 1982 en Davíð fækkaði þeim aftur því það hentaði honum ekki við stjórnun borgarinnar.

Ætli borgarfulltrúum Reykjavíkur þyrfti ekki að fjölga í h.u.b. 40 miðað við þá staðreynd að alls eru 65 borgar- og bæjarfulltrúar að tölu á höfuðborgarsvæðinu öllu þar sem búa um 190.000. Það eru því gróflega reiknað um 3.000 íbúar að meðaltali á bak við hvern fulltrúa. Hvarvetna eru fulltrúar í þessu starfi sem hlutastarf en í Reykjavík er þetta orðið 100% starf ef ekki meira! Er það sem æskilegt?

Núverandi vandræðaástand er ekki tilkomið vegna þess að borgarstjórinn heitir Ólafur. Þar þarf að leita annarra skýringa.

Mosi


Oft hefur Björn Bjarnason rétt fyrir sér en varla í þessu máli

Mér finnst að eðlilegra sé að leggja undir þjóðaratkvæði þegar Alþingi hefur samþykkt breytingu á stjórnarskrá. Þessi klausa um að rjúfa skuli þing undir þessum kringumstæðum og kjósa að nýju sem þá yrði að samþykkja breytinguna til þess að hún öðlist gildi, vera hugsun 19. aldar.

Í dag hugsa menn allt öðru vísi. Ekki er nauðsynlegt að fara í þingkosningar þegar unnt er að hafa kosninguna einfaldari. Á það að verða keppikefli stjórnmálaflokka að vera með eða á móti breytingu á stjórnarskránni til að geta tekið almennilega þátt í kosningum.

Mun auðveldara er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem valið er milli að segja já eða nei.

Þjóðaratkvæðagreiðslur hafa því miður ekki verið á pallborðinu hjá stjórnvöldum enda virðast þau óttast fátt meira en vilja sjálfstæðrar þjóðar sem vill þó fá einhverju ráðið en ekki meirihluti þeirra 63ja þingmanna sem kunna að vera hverju sinni.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er jafneðlilegt fyrirbæri í vitund flestra eins og þingræði. Það er því von mín og fróm ósk að dómsmálaráðherra skoði þessi mál betur og breyti afstöðu sinni þannig að við getum unað vel við 21. aldar hugsunarháttur sé virtur betur á Íslandi en ekki sá eins og 19. aldar menn hugsuðu á sínum tíma. Veröldin hefur breyst gríðarlega og við auðvitað með henni.

Mosi 


mbl.is Á móti þjóðaratkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróður jarðar

Nú hefur vorveðrið verið einstaklega blítt hjá okkur á Íslandi og ekki sér fyrir endann á því. Í görðum Reykvíkinga er birkið og annar trjágróður farinn að koma vel til. Álmurinn neðst á Egilsgötu er núna allaufgaður og hlynurinn á sunnanverðu Skólavörðuholti í þann mund að laufgast. Knúpullinn er einstaklega fagur þegar hlynurinn laufgast: hann myndar bleikan lit og vísirinn sem síðar myndar blöðin fá fyrst gulan lit. Þetta er fagurt sjónarspil sem ástæða er til að fylgjast gjörla með.

Ósköp er drungalegt að horfa á niðurníddan trjágróðurinn við Heilsuverndarstöðina. Meðfram Egilsgötu og að nokkru meðfram Barónsstíg er búið að fella hvert einasta tré. Hvað gengur þeim til sem eru núna aðstandendur þeirrar eignar? Af þessum trjám hefi eg lesið marga birkirekklana og týnt í þverpokum reyniberin til að sá þar sem enginn trjágróður er fyrir. Nú verð eg eðlilega að leita annað. Þessum trjám var plantað fyrir um hálfri öld og áttu því enn tækifæri að prýða umhverfi sitt um nokkra áratugi enn.

Þá er sláttur hafinn víða í görðum og má sjá að vel hefur verið að verki staðið.

Uppi í Mosfellsdal var vorið ekki komið svona langt. Gekk í gærkveldi yfir ásinn austan við Mosfell með bakpoka fullan af asparstiklingum til að setja í mýrarspildu sem fjölskylda mín hefur umráðarétt yfir. Þar í nýgirtri spildunni plöntuðum við á 3ja þúsund trjáplantna í fyrravor. Lerkið ætlar að koma vel út að þessu sinni er ósköp er að sjá furuna og grenið sem virðist ekki hafa það of gott þarna. Í spildu þessari er norðaustangarrinn langvarandi af Svínaskarðinu á vetrum. Má sjá störina sem er mest áberandi þarna hafa fellt strá sín undan áttinni. Gegn vindinum höfum við verið að reyna að byggja skjól úr vörubrettum og ýmsu spýtnadóti sem við höfum borið langan veg. Þetta hefur verið framlag mitt til íþróttaiðkana, að bera girðingarefni og trjáplöntur um alllangan veg þangað í þeim tilgangi að fegra og bæta landið. Þessi fyrirhöfn kostar ekki neitt og enginn svitastofa landsins hefur hag af þessari tegund íþrótta.

Í landinu við hliðina hafa verið nokkrir tugir hrossa í sumarbeit og allt fram á jólaföstu í áþekku landi þar sem er þó mun meira af fjalldrapa sem óðum kemur betur fram eftir að sauðfé hvarf af þessu svæði frá því í hitteðfyrra. Þaðan hefi eg sótt mér dálítið hrossatað og sennilega fyrirgefur eigandinn það enda nýtur hann þess að þurfa ekki að tjasla við girðinguna milli okkar. Annars er spurning hvort hestaskítur geti talist vera svonefnt andlag þjófnaðar og falli því ekki undir það sem í Rómarétti nefndist res delicta, þ.e. einskisverður hlutur sem kastað hefur verið á glæ.

Fuglarnir eru víða komnir á kreik, nokkrir hrossagaukar flugu yfir og sömuleiðis heyrðist í heiðlóu. Á einum dálitlum steini á mel sat einmana rjúpa sennilega karri að gæta óðals síns. Enn var þessi fugl í vetrarhamnum sem því miður hefur verið hundeltur af byssugeltandi veiðimönnum sem ekki sjá sér ætíð hóf.

Annars er alltaf gaman að velta hinum ýmsu málum fyrir sér. Gróður jarðar er okkur jarðarbúum mikilvægur hvort sem við erum tvífætlingar eða ferfætlingar, eða flögrum um. Trjágróður veitir okkur gott skjól og sem flestum ánægju sem kunna að meta hann. Aðrir verða bara að láta sér nægja að hugsa dálítið öðruvísi en æskilegt væri að þeir geti metið okkar sjónarmið sem viljum efla sem mest skóg á Íslandi.

Mosi


Eðlileg þróun

Fullyrða má að stjórnmálin á Íslandi hafi gjörbreyst síðustu 2-3 áratugi. Áður fyrr var flokksaginn mikill og yfirleitt tóku allir mjög alvarlega það sem forystan sagði hverju sinni. Ætli svanasöngur þessa fyrirkomulags hafi ekki gengið sér til húðar með Davíð Oddssyni. Fáir reyndu að hafa aðra skoðun en hann, mölduðu fremur í móinn en fylgdu af alkunnri fylgispekt við foringjann rétt eins og tíðkast hafði síðan á dögum 3ja ríkisins.

Segja má að Ólafur F. Magnússon núverandi borgarstjóri hafi brotið blað í sögu Sjálfstæðisflokksins. Á sínum tíma lék hann n.k. einleik á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hérna um árið og bar upp tillögu sem var nánast púuð niður. Þetta varð tilefni að Ólafur F. taldi sig ekki eiga lengur samleið með stjórnmálaflokki sem ekki virti skoðanafrelsið. Hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum og átti þátt í að Frjálslyndi flokkurinn varð til. Hann fylgdi með því eigin sannfæringu enda eiga stjórnmálaflokkar að virða frelsi einstaklingsins til að hafa eigin skoðanir.

Flokksræðið er vonandi að heyra sögunni til. Hlutverk stjórnmálaflokka þarf að skilgreina upp á nýtt. Þeir eiga ekki að vera valdastofnanir eins og þeir hafa í reynd verið praktíséraðir á Íslandi. Þeir eiga fremur að vera vettvangur pólitískra skoðanamyndana í samfélaginu sem þarf auðvitað að rúmast innan ákvæða stjórnarskrárinnar. Þannig er starfsemi þýskra stjórnmálaflokka skilgreint og þeir þurfa að halda bókhald og gera fullkomna grein fyrir uppruna og notkun þess fjárs sem þeir fá í hendur og nota. Þetta hefur vafist fyrir vissum stjórnmálamönnum á Íslandi og það er mjög miður.

Stjórnarskráin íslenska er ákaflega forneskjuleg. Þar er ekki gert ráð fyrir starfsemi stjórnmálaflokka enda þeir ekki nendir hvað þá hlutverk þeirra né að stjórnmál séu yfirleitt nokkuð til!

Á þessu þarf að ráða bót og má vísa á þýsku stjórnarskrána sem mjög góða fyrirmynd.

Mosi 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokks minnkar mikið í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Varhugaverð starfsemi

Á þessu ári er þetta í annað skiptið sem handvömm vegna meðferð olíu um borð í skipum verður til þess að olía fer í sjóinn við strendur Reykjavíkur. Þó að allar aðstæður séu eins góðar og þær geta orðið bestar þá er ástæða að ætla alls hins versta hvað lífríki Elliðaánna og Elliðaárvogarins varðar. Nauðsynlegt er að þjálfun þeirra sem starfa á skipunum sem og við afgreiðslu þeirra sé óaðfinnanleg að óhöpp á borð við þessi geti ekki átt sér stað. E.t.v. er fyllsta ástæða að gera meiri kröfur til þeirra skipa sem hingað koma að útbúnaðaur þeirra sé óaðfinnanlegur og að þau hafi fengið nauðsynlegt eftirlit.

Nú er um að ræða einungis nokkur hundruð lítra af olíu. Hvað skyldi verða umfangsmikið tjónið ef 50.000 lesta olíflutningaskip strandaði við Vestfirði? Hvað þá stærra skip? Þær áætlanir virðast byggðar meira á draumórum og gróðahyggju en nauðsynlegu raunsæi. Yfirleitt er alltaf hagkvæmast að hreinsa olíu þar sem hún er framleidd eða þar sem hún verður notuð. Flutningskostnaður er geysimikill og hver krókur er dýr nema einhverjar aðrar ástæður búa að baki. Kannski að umhverfisreglur okkar Íslendinga séu svo ófullkomnar að stórfyrirtæki finnst þess virði að setja sem mest af mengandi starfsemi hér niður vegna þess hve yfirvöld sína mengunarmálum miklu sinnuleysi.

Mosi

 


mbl.is Olíubrák í Elliðavogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyllsta ástæða að draga úr notkun bíla

Þegar verð á bensíni rýkur upp úr öllu valdi er fyllsta ástæða að draga sem mest úr notkun bíla. Af hverju ekki að ganga meira og hjóla á styttri leiðum en taka sér far með strætisvögnum á lengri leiðum á höfuðborgarsvæðinu?

Hæfilegar göngur og hjólreiðar reglulega styrkir og eflir heilsu okkar. Við stuðlum einning að styrkja efnahag okkar sem ekki veitir af á síðustu og verstu tímum. Hafa síðustu tímar ekki alltaf verið þeir verstu? Svo lengi sem Mosi man eftir hefur það alltaf verið viðkvæðið.

Mosi


mbl.is Ekkert lát á hækkun bensínverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítasunnuhelgin

Við lögðum snemma af stað upp í Borgarfjörð á sveitarsetrið okkar í Skorradal að morgni laugardags. Mikið var gaman að koma þangað eftir heilar 4 vikur! Sjaldan líður svo langur tími en veturinn er oft ekki síðri að vera þar en að vori og á sumrin. Á vetrum eru fáir á ferli og Dalurinn er aðeins fyrir þá allra hörðustu sem þangað koma og setja ekkert fyrir sig kulda og dálitil ævintýri. Í vetur fór hitastigið niður í tæplega 30 gráður og þá var unnt að ganga eftir ísi lögðu vatninu langar leiðir annað hvort á gönguskíðum eða á tveim jafnfljótum. En sjálfsagt er að gefa gaum að þeim hættum sem leynast, opnar vakir og þunnur ís sem víða kunna að leynast.

Báðar næturnar sváfum við fyrir opnum gluggum í litla húsinu okkar enda vel heitt í veðri. Heyra mátti einhverja þá fegurstu endalausu fuglarapsódíu sem tekur öllum Evróvíson keppnisuppákomum fram. Músarindillinn og glókollurinn hefja hæstu röddina til himins en undir taka þrestirnir og hrossagaukarnir. Stundum má heyra í öðrum fuglum eins og auðnutittling, jaðrakan og jafnvel kríu sem stundum flýgur inn með ströndinni eftir sílum. Í dag heyrðum við í himbrimanum langt úti á vatninu og er alltaf gaman að fylgjast með honum og lífsvenjum hans. Nokkrar toppendur mátti sjá í dag og álftir tvær flugu yfir með miklu gargi. Á heimleiðinni í dag mátti sjá jaðrakan sem átti í kasti við krumma á móts við Hestfjall.

Að þessu sinni var garðholan tekin í gegn, settar niður kartöflur og sáð til gulrótna. Allt sem maður ræktar sjálfur bragðast alltaf margfalt betur en þetta borgar sig bara tæplega!

Við söguðum brennivið fyrir næsta vetur en ekki tókst vel til en fyrir stuttu  bilaði keðjusögin okkar sem við keyptum í Húsasmiðjunni í fyrrasumar. En lánssögin þaðan var ekki eins góð og okkar eigin. Það er alltaf ergilegt að vera með tæki sem ekki virka sem skildi. Og skógurinn okkar fékk eins og alltaf á vorin dálitla snyrtingu. Við búum við það lán að vera skógareigendur þó í smáum stíl sé og trén þurfa að fá snyrtingu eins og kettirnir heima og auðvitað við sjálf öðru hverju. Þurrar greinar er gott að sníða af þétt við stofninn og gildir þetta einkum fyrir barrtrén. Gildustu greinarnar sögum við nður í eldivið en látum smælkið liggja enda gott að skilja eftir í skóginum. Smám saman rotnar það og hverfur í svörðinn. Skógurinn veitir okkur ómetanlegt skjól fyrir austanáttinni sem eins og víðast hvar á Íslandi er bæði hvöss og mjög votviðrissöm.

Við fórum í dálítinn róður á litla árabátnum okkar en ekki höfum við enn komið því í verk að fá okkur utanborðsmótor. Eiginlega finnst okkur miður hve margir leggja ofuráherslu á að hafa sem mestan hraða. Fuglalífið líður fyrir það og er það miður að fylgjast með.

Já það er óskandi að þessi náttúruparadís megi blíva sem lengstfyrir óseðjandi skemddarfísn og ágengni þeirra sem ekki kunna að meta þessi gæði sem þó eru ókeypis.

En um það má fjölyrða margt og mikið. Kannski það verður gert síðar. Hver veit.

Mosi 


Vorið

Í gærmorgun gekk Mosi eftir Egilsgötu eins og hann er vanur eftir að hafa stigið út úr Strætisvagninum úr Mosfellsbæ við Snorrabraut. Neðst við Þorfinnsgötu er gamall álmur að byrja að laufgast en í flestum görðum við Egilsgötu er mikið af reynitrjám og dálítið af birki. Allur er þessi trjágróður að sýna að vorið sé á næsta leiti. Á einum stað er myndarlegur þinur að koma til og er það mjög ánægjulegt að sjá að hann er að njóta vinsælda enda fjallmyndarlegt tré.

Við gömlu Heilsuverndarstöðina er verið að grisja. Eftir Egilsgötu hefur einhvern tíma verið gróðursettur reynir meðfram götunni en birki síðar í annarri röð nær húsinu. Athygli mín var að búið hafði verið að grafa frá rótum fjölmargra trjáa. Síðdegis var búið að fella nánast öll birkitrén. Einkennilegt er að gamall reynir sem hefur orðið svonefndri „reynisátu“ að bráð var ekki felldur þó fyrirsjáalegt er að hann lifi eigi lengur. Þvílíkt fúsk hugsaði Mosi með sér þegar hann hélt áfram niður í Blóðbankann til að láta tappa af sér smávegis blóð. Í æðum hans streymir gæðablóðið O+ sem alltaf er unnt að nota.

Þá var að hraða sér vestur að Landspítalanum til að taka þátt í göngu þeirri sem á að verða árviss viðburður að minnast látinna og slasaðra í umferðinni. Þó tilefnið væri dapurt þá er það fagurt eins og veðrið sem var eins og það best getur verið á Íslandi. Við Landspítalann - Háskólasjúkrahús í Fossvogi var hápunkturinn þegar 15 kolsvörtum blöðrum og 166 rauðum var sleppt upp í loftið. Þær siluðust upp í háloftin rétt eins og sæðisfrumur með áberandi ljósum spottum sem glitruðu í kvöldsólinni.

Í fyrra létust 15 í umferðinni og 166 slösuðust mikið. Þetta er allt of há tala og þessi minningarganga á að minna okkur á hætturnar í umferðinni og hvetja okkur að aka varlega. Viðstaddir voru af hinum ýmsu starfsstéttum, hjúkrunarfólk, læknar, sjúkraliðar, lögreglumenn, slökkviliðsmenn svo einhverjir séu taldir en þarna voru einnig fyrrum sjúklingar og aðstandur þeirra sem hafa átt um sárt að binda. Mikið er á þessar starfsstéttir lagt að sinna slösuðum og eiga allir miklar þakkir skildar fyrir oft vanmetin störf.

Slys gera aldrei boð á undan sér. Oft verða slys þegar Bakkus eða önnur efni hafa komið við sögu.  Getum við ekki fækkað þeim með öllum tiltækum ráðum?

 

Krían komin!

Yfirleitt er krían komin á Tjörnina í Reykjavík 8. maí. Eigi getur Mosi staðfest það en um kvöldið gekk hann ásamt spússu sinni fram á Langatanga sem skagar fram í Leirvoginn í Mosfellsbæ. Allt í einu birtust nokkrar kríur með sínu alkunnu gargi og flögruðu yfir voginn nokkra hringi áður en þær héldu för sinni áfram.

Vorið er komið, kannski viku fyrr en venjulega!

Mosi

 

 

 

 


Við hlökkum til

Þessir þættir eru mjög vel gerðir. Það verður því mikið gleðiefni að sjá framhaldið.

Mosi


mbl.is Framhald á Forbrydelsen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.2.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband