Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Falboðnar fálkaorður

Mörgum finnst annkannalegt að sjá fálkaorðuna borna á torg og hún falboðin hverjum sem vill og hefur nægjanlegt fjármagn.

Nú segir í lögunum um fálkaorðuna að ættingjum látins orðuþega beri að skila orðunni aftur til Orðunefndar. Fálkaorðan er því ekki eign í þeim venjulega skilningi sem gengur í arf heldur viðurkenning fyrir eitthvað sérstakt starf sem viðkomandi einstaklingur hefur látið til sín taka. Minnir þetta tilfelli nokkuð á eignaréttarfyrirvara sem víða kemur við sögu. Vegabréf eru t.d. eign ríkisins en ekki viðkomandi ríkisborgara.

Spurning er hvort ekki hefði þurft að fylgja þessu skilyrði betur eftir varðandi orðurnar eftir ef á að halda í það.

Nokkuð vandræðalegt en væri á vissan hátt ósköp eðlilegt að sá sem fálkaorðan er veitt, verði að inna af hendi skilagjald rétt eins og innheimt er af nýjum bílum. Þegar orðu væri skilað, fengist fjárhæðin endurgreidd til efingja ásamt vöxtum og dýrtíðaruppbót ef einhver er. Það gæti verið þeim hvatning að inna skil á þessum viðurkenningum.

En þá er spurning um skattahliðina. Ber að greiða skatt af slíkri greiðslu, t.d. fjármagnstekjuskatt? Ja hví ekki það? 

Kannski að  ástæða sé að breyta lögunum um fálkaorðuna. Lengi hefur staðið styrr um hana og hefur mörgum sýnst hún vera óttalegt prjál og jafnvel pjátur. En hugmyndin er gömul og má telja að upphaf hennar sé frá miðöldum þegar þjóðhöfðingjar vildu umbuna þeim sem honum var sérstaklega að skapi og vildu auka virðingu þeirra. Svipuð hugsun er á bak við lénsveldi miðalda.  Þau gengu ýmist í arf, t.d á Þýskalandi en í Frakklandi féll lénið niður við andlát enda var það vegna persónulegs sambands lénsherrans og konungs. Elsti sonur lénsherrans varð því að endurnýja lénið og gerast undirsáti konungs. Er hér komin meginskýringin á því hvers vegna konungsveldið franska reyndist ætíð mjög sterkt.

Það gæti því verið umdeilanlegt að afnema með öllu orðuveitingar en vissulega má hvetja til að yfirvöld sýni hófsemi í þessum efnum sem öðrum, yfirvegi vel og vandlega áður en ákvörðun er tekin og rökstyðja vel val sitt.

Mosi alias 


mbl.is Fálkaorður boðnar til sölu á eBay
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvæg kosning formanns

Frá því að Mosi fór að fylgjast með þjóðmálum þá hefur honum ætíð mikið til Ólafs Ólafssonar fyrrum landlæknis koma. Með óeigngjarni og ótakmarkaðri vinnu hefur þessi nær áttræða kempa viljað láta gott af sér leiða. Hann hefur haft mjög mikil áhrif og enn er hann að. Hann tekur upp samvinnu við einn helsta fræðimann meðal félagsvísindamanna og saman beitaeir sér að sýna íslenskum stjórnvöldum að hagur aldraðra er ekki nógu góður.

Ólafur er kominn af kraftmiklu fólki sem lengi vel gerði garðinn frægan, Brautarholt á Kjalarnesi. Ólafur er mjög víðsýnn, afburðavel menntaður og á mjög auðvelt með að koma sjónarmiðum sínum og skoðunum á framfæri sem lýsa vel hversu mikla yfirburði hann hefur. Mosa þætti því miður að þessari öldnu kempu yrði hafnað.

Því miður verður ekki sagt sama um framkvæmdastjórann sem nú virðist gera allt hvað hann getur að leggja sem flesta steina í götu Ólafs og koma í veg fyrir að hann verði valinn formaður Landssambands eldri borgara. Hefur oft fylgt töluverður hamagangur hjá framkvæmdastjóra þessum og ekki alltaf verið farið eftir réttum siðum.

Mosi minnist þess að eitt sinn hafi framkvæmdastjóri þessi verið hérlendur fulltrúi Alþjóðlega flutningaverkamannasambandsins og beitti sér stundum fyrir mjög óvenjulegum aðferðum sem ekki voru öllum að skapi. Um síustu aldamót stjórnaði hann óhefðbundnum aðgerðum við höfnina á Akureyri en lögregla var kvödd til og hugðist grípa til viðeigandi aðgerða. Athafnir fulltrúans gengu út á að stöðva eða koma í veg fyrir för friðsamra erlendra ferðamanna inn í landið en skipulögð hafði verið fyrir þá dagsferð austur í Mývatnssveit með allmörgum langferðabifreiðum. Aðgerðir þessar nutu ekki almennrar viðurkenningar. Til þess að forðast handtöku brá hann sér þá í annað hlutverk með því að að kynna sig sem formaður í fag- og stéttarfélagi nokkru sem ekki átti neinna hagsmuna að gæta í þessum aðgerðum! Mæltist þetta almennt mjög illa fyrir meðal félaga í þessu félagi sem viðkomandi hafði notað sem skjól. Á næsta aðalfundi þessa félags var formaðurinn eðlilega kolfelldur með brauki og bramli.

Nokkru áður hafði sami maður átt í útistöðum við félaga í Íslendingafélaginu í Finnlandi, einnig sem formaður og varð þar skjótur endi á þátttöku hans þar í stjórn.

Það kemur því Mosa ekki á óvart að nú hafi viðkomandi framkvæmdastjóri enn gripið til óvenjulegra og umdeildra ráða. Hann er greinilega ekki að starfa sem hlutlaus framkvæmdastjóri í þágu heildarinnar heldur fyrst og fremst í þágu fyrir vissan hóp innan Landssambands eldri borgara.

Óskandi er að fyrrum landlækni nái góðri kosningu enda er fyllsta ástæða til að ætla að hann haldi uppi hagsmunum þess félags sem hann ber mikinn hag fyrir.

Mosi alias 


mbl.is Stefnir í formannskjör hjá eldri borgurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Agaleysi

Þessi frétt er enn ein vísbendingin hve agaleysi er almennt mjög mikið. Hvernig stendur á því að sumir samborgarar vaða uppi með lögleysur:

Í þessu tilfelli er að öllum líkindum neytt ólöglegra vímuefna, þá er sest undir stýri og viðkomandi veldur tjóni. Þegar laganna verðir koma að manni þessum bregst hann illa við og ræðst á annan lögreglumanninn sem er opinber starfsmaður og er að gegna starfi sínu.

Allt er þetta mjög ámælisvert og ætti að vera tekið föstum tökum. Þó Mosi sé ekki hvatamaður þungra refsinga þá mætti dæma viðkomandi í hæfilega og viðeigandi samfélagsþjónustu. Vonandi lærir sakborningurinn töluvert af því og einnig mætti vænta að slík refsing hefði einhver áhrif á aðra sem kærulausir eru.

Við þurfum að bæta samfélagið í stóru sem smáu. Við þurfum að bera virðingu fyrir öðrum og forðast að veita öðrum skaða hvort sem er við á gagnvart einstaklingnum eða samfélaginu öllu. Og ef einhverjum verður á í messunni á viðkomandi að bæta fyrir brot sín og yfirsjónir.

Mosi alias 


mbl.is Ók á skilti og sofnaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt túlkun fréttar?

Fyrsti ársfjórðungur Atorku reyndist nokkuð lakari nú en á sama tíma fyrir ári. En næsti ársfjórðungur skilaði þá hins vegar verri afkomu eða neikvæðri ef eg man rétt. Þannig skiptir miklu máli að útkoma fyrri hluta ársins verði betri en í fyrra og það er auðvitað aðalatriðið. Tekjuinnkoman virðist skila sér betur síðari hluta ársins þannig að þessar sveiflur segja ekki alltaf alla söguna. Því er fyllsta ástæða að túlka hráa frétt með fyllstu varfærni.

Spennandi verður að frétta af hvernig Jarðboranir spreyta sig á nýju verkefni í Suður Þýskalandi. Þar er virkilega um nýjan garð að gresja í athöfnum okkar Íslendinga þar sem mjög góð þekking og reynsla í sérhæfðri bortækni er að ræða. Þjóðverjar eru einning mjög spenntir hvernig til tekst, jarðhiti er þarna til staðar og í nokkuð miklu magni en ekki er þar háhiti eins og við þekkjum á Íslandi. Jarðlög eru bæði eldri og sennilega harðari þannig að ný dýrmæt reynsla fæst af þessum verkefnum. 

Um mánaðarmótin verður haldin mikil ráðstefna í Suður Þýskalandi um jarðhitarannsóknir og notkun jarðhita. Að öllum líkindum bera athafnir okkar Jarðborunarmanna þar á góma enda eru Íslendingar í fremstu röð þjóða um hagnýtingu jarðvarma í heiminum.

Mosi - alias

 


mbl.is Heldur dregur úr hagnaði hjá Atorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall fressköttur í Samfylkingarbrúnni

Þá er stjórnarmyndun að baki, stjórnarmyndun sem virtist ekki hafa verið mjög erfið. Mörgum finnst Samfylkingin hafi lagt til hliðar mörg af stefnumálum sínum og selt sig fremur ódýrt á altari stjórnmálanna. Beri hæst að nú á ekki að afmá skömmina sem fólgst í því þegar þeir félagar Davíð Odddsson og Halldór Ásgrímsson lýstu stuðningi á sínum tíma yfir umdeildu stríði umdeilds manns af umdeildu tilefni. Það var eins og ráðherrastólarnir væru Samfylkingunni mikilvægari en ákveðnara orðalag í stjórnmálayfirlýsingu!

Mörgum þykir Samfylkingin hafi selt sig Sjálfstæðisflokknum fremur ódýrt miðað við aðstæður. Eina sem virðist standa upp úr eru velferðarmálin og þó! Meðan yfirstjórn heilbrigðismála eru komin í hendurnar á manni sem hefur áður marglýst yfir jákvæðni gagnvart einkavæðingu þá eru þessi mál ekki í nógu góðu ástandi. 

Að Össur líki sér við gamlan fresskött er kannski spaugilegt en kann það ekki að vera viss vísbending um að viðræðurnar um stjórnarmyndun við Sjálfstæðisflokkinn hafi mistekist í verulegum mikilvægum málefnum? Margt bendir til þess. En nú rennur vonandi sumarið í garð eftir langt og kalt hret. Reynir fyrst og fremst á nýju ríkisstjórnina að haustnóttum, þegar skammdegið dregur hött vetrardrungans á sig og Esjan vefur um sig hefðbundinn vetrarbúning sinn. Kannski að Samfylkingin hafi náð að stilla Sjálfstæðisflokknum ögn meira til vinstri sem ekki veitti af eftir mjög harða siglingu á stjórnborða. „Hart í bak!“ ætti að vera skipun dagsins, hvort sem gamli fressköttur Samfylkingarinnar á í hlut eða einhver annar í Samfylkingarbrúnni. Nú reynir á hvort gamli fresskötturinn og Ingibjörg hafi höndlað vel á markaði stjórnmálannna og sýni alþjóð hvort einhver dugur sé í þeim.

Við vonum það besta. Kannski húskarlinn geti komið vitinu fyrir húsbóndann jafnvel þó hann hafi brugðið sér í gervi fresskattar.

Mosi alias 

 


mbl.is Össur: Er eins og gamall öróttur fressköttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klúður?

Ný ríkisstjórn Íslands „harmar“ stríðsreksturinn í Írak. Þetta er svo sem gott og vel. Í stefnu Samfylkingarinnar stendur skýrt: 

Taka Ísland af lista hinna vígfúsu þjóða og draga formlega til baka pólitískan stuðning Íslands við ólöglega innrás í Írak.

Hér er farin hálf leiðin og tæplega það. Betur hefði verið að ríkisstjórnin hefði tekið af allan vafa og lýst yfir að Íslendingar eru frá og með deginum í dag á móti þessu umdeilda stríði og hvetji stríðsaðlila að slíðra sverðin.

Í framhaldi af því væri auðvitað sjálfsagt að setja fram þá yfirlýsingu að ríkisstjórn Íslands „vilji leggja sín lóð á vogarskálar friðar í Írak og í Miðausturlöndum, m.a. með þátttöku í mannúðar- og uppbyggingarstarfi. Mannréttindi, aukin þróunarsamvinna og áhersla á friðsamlega úrlausn deilumála“ eins og segir í stjórnarsáttmálanum.

Um það hefði þjóðin vissulega verið allshugar sammála ríkisstjórninni sem ekki veitir af að bera höfuðið hátt á erfiðum tímapunkti.

Það hefði vakið verulega athygli heimsins ef ríkisstjórn Íslands hefði borið þá gæfu að ganga skrefið til fulls að lýsa yfir að stuðningurinn væri dreginn til baka. Mér finnst þetta vera mikil vonbrigði. Kannski er þetta kák og klúður í stjórnarsáttmálanum sem seint verður fyrirgefið. Við hefðum viljað skýrari afstöðu gagnvart umdeildum stuðningi við umdeilt stríð umdeilds bandaríkjaforseta.

Mosi alias

 


mbl.is Ný ríkisstjórn harmar stríðsreksturinn í Írak
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýja nútímalega stjórnarskrá

Á síðasta kjörtímabili fór fram töluverð vinna um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Því miður varð árangur sáralítill enda þó efniviðurinn væri bæði mikill og góður. Því miður endaði þetta mikilvæga starf í pexi vegna ákvæða 26. gr. í  núverandi stjórnarskrá sem ýmsir vilja taka út meðan aðrir vilja halda.

Gallar núverandi stjórnarskrár er grunnurinn sem hún byggir á sem er valdið. Meginhluti stjórnarskrárinnar fjallar um valdið en ekki tekst betur til en að framkvæmdavaldið er mjög sterkt á Íslandi á kostnað löggjafavalds og jafnvel dómstóla. Framkvæmdavaldið skipar dómara en dómsvaldið er því miður ekki sjálfstæðara en það.

Núverandi viðhorf eru mannréttindin en bestu og nútímalegustu stjórnarskrár heims byggja á lýðræðinu og mannréttindunum. Ef Alþingi Íslendinga bæri þá gæfu að fara svipaða leið og stjórnarskrá Suður Afiríku sem kennd er við mannvininn mikla, lögfræðinginn Nelson Mandela væri þessi ágreiningur um 26. gr. núverandi stjórnarskrár að verulegu leyti úr sögunni.

Við þurfum að hugsa sitt hvað upp á nýtt. Stjórnarskrána ekki síst en hún er gamall arfur frá danska einveldinu eins og kunnugt er. Hún væri best varðveitt á Þjóðskjalasafni en á ekki að vera grundvöllurinn sem lög og réttur landsins byggir á.

Kannski við þurfum nýjan þjóðfund eins og 1851 til að setja okkur nýja og nútímalega stjórnarskrá.

Mosi alias


mbl.is Ágreiningur um þjóðareign á náttúruauðlindum verði leiddur til lykta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stokka þarf upp skattana

Við stjórnarskipti er gott tækifæri að stokka upp skattana. Huga þarf að nýjum hugmyndum, taka upp nýja skatta meðan aðrir eru lagðir niður. Sérstaklega þarf að huga að kosnaði við álagningu og innheimtu skatta en leggja þarf þá skatta alfarið af þar sem tilkosntaður er tiltölulega hátt hlutfall af tegund skatts.

Nú eru t.d. ýmiskonar umhverfisskattar í deiglunni. Víða um heim hafa þeir verið teknir upp t.d. að mengandi starfsemi sé skattlögð sérstaklega og þeim umbað sem vel standa sig í þessum efnum. Varðandi bílana okkar mætti vel hugsa sér að  leggja niður bifreiðagjald sem er flatur skattur án tillits til notkunar en taka upp umhverfisskatt á móti sem væri þá lagður á eldsneyti.

Varðandi stóriðjuna er sérstakt framleiðslugjald lagt á hvert framleitt áltonn. Í stað þess mætti hugsa sér sérstakan umhverfisskatt sem væri þá tegndur við aukin framlög hins opinbera til bindingar á CO2, hugsaður sem aukinn stuðningur við skógrækt í landinu. Þá mætti efla almenningssamgöngur og styrkja þær með hagstæðara skattaumhverfi.

Svona mætti lengi telja. En umfram allt þarf að efla vitund umhverfisvitund í landinu. Það væri unnt að gera með nauðsynlegum lagfæringum á skattakerfinu. Með því bætum við lífskjör okkar allra.

Mosi alias


mbl.is Stefnt að lækkun skatta á kjörtímabilinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningaviðræður í Svartsengi

Þórbergur Þórðarson skrifaði frægan ritdóm um Hornstrendingabók eftir Þorleif Bjarnason á sínum tíma. Ritdómurinn nefndist : Einum kennt - öðrum bent og ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem skrifa texta í íslenska fjölmiðla.

Einn kafli ritdómsins nefnist Skallar og á Þórbergur þar við þegar sá sem ritar texta skilur lesandann einhvers staðar í lausu lofti eins og það vanti e-a nákvæmni í frásögninni sem verulega máli skiptir. Frétt Morgunblaðsins varðandi umræður við þýsk stjórnvöld um varnarmál eru þessu marki brennd. Um hvað er verið að ræða? Er það um rétt Þjóðverja að senda hingað herflugvélar til æfinga sem mig grunar að hangi helst á spýtunni?

Um gjörvalla Evrópu eru allt heilvita fólk orðið dauðleitt á æfingaflugi hraðfleygra herflugvéla. Þegar eg var fyrst í Rínardal í minni fyrstu dvöl í því fagra landi þar sem allt endurómaði af sögu og menningu kom það stundum fyrir að herflugvélar þessar komu skyndilega. Þær flugu ýmist þvert á þennan fagra dal og stundum eftir honum endilöngum. Þær rufu hljóð náttúrunnar, hæga goluna á vanga, klið fuglanna, suð býflugnanna, ilm gróðursins, skröltið frá járnbrautunum, vélarhljóðin frá skipunum á Rín og niðinn af bílaumferðinni meðfram ánni. Mig verkjaði í eyrun og blöskraði þessi ógnvænlegi hávaði. Mér leið ekki vel eftir þetta skyndilega fjandsamlega áreiti þar sem eg naut að ganga eftir þröngum stígum um vínekrurnar í hlíðinni með gömlum köstulum sem sumir hverjir voru rústir einar eftir gömul styrjaldarátök sem enginnn vissi lengur tilefni af.

Er það þetta sem íslensk stjórnvöld eru að bjóða erlendum herþjóðum upp á í samningaviðræðum í Svartsengi? Allt venjulegt fólk í Evrópu vill takmarka sem mest herbúnað og þar með heræfingar. kannski að íslensk stjornvöld telji þetta vera það sem koma skal?

Óska eftir því að næsta ríkisstjórn taki þessi æfingamál erlendra herflugvéla til alvarlegrar athugunar. Þau eru móðgun við friðelskandi vopnlausa þjóð. Hernaðarbrölt hverju nafni sem það nefnist er svartur blettur í sögu okkar friðsömu þjoðar.

Mosi alias

 


mbl.is Ræða varnarmál við Þjóðverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks: in memoriam

Þá kom að því að þessi ríkisstjórn sagði af sér. Langflestum Íslendingum hefur fundist að nóg væri komið að nú yrði að breyta um stjórnarstefnu. Síðastliðin ár hafa verið mikil veltiár sem hafa bókstaflega verið mörgum fjáraflamanni mikil auðsöfnun en þeim sem minna hafa mátt sín verið fremur slæm. Meðan ýmsir höfðu meira en flestir aðrir, rökuðu bókstaflega að sér ótrúlegum auð, stóðu flestir í stað en stór hópur hefur orðið eftir, einkum þeir sem eldri eru og með starfsorku.

Við höfum horft upp á umdeildar ákvarðanir sem vonandi verða úr sögunni. Við getum minnst á einkennilega ákvörðun um að styðja Bush stjórnina til þessa umdeilda árásarstríðs í Írak sem er öllum sem málið varðar til mikils vansa. Við höfum horft á kvótabraskið á íslandi sem hefur tekið á sig stundum einkennilega mynd, við sitjum uppi með umdeilda ákvörðun þegar ráðist var í þessa  Kárahnjúkavirkjun með tilheyrandi eyðileggingu. Þó var ýmislegt sem benti til að ekki væri sú ákvörðun nægjanlega vel rökum studd. Var það kannski jafnvel til að bjarga ítölsku fyrirtæki frá fjárhagslegu hruni? Við eigum eftir að sjá hvernig lokareikningurinn hljóðar en ástæða er til að búast við verulegu áfalli.

Við höfum horft upp á gríðarlega einkavæðingu. Bankarnir allir í eigu ríkisins fyrir utan Seðlabankann hafa verið seldir. Og frekari einkavæðingu í þágu fjármagnseigenda hefur verið þegar undirbúin: orkufyrirtæki, vatnsveita og ríkisfjölmiðlar á borð við Ríkisútvarpið.

Á sama tíma hefur velferðarkerfið beðið mikinn hnekki. Fjárveitingar til heilbrigðismála og menntamála hafa ekki verið í takt við þörfina. Hins vegar hefur þjónusta á vegum utanríkismála bólgnað gríðarlega út þannig að nú eru Íslendingar sennilega með dýrasta net sendiráða um víða veröld. Ótrúleg þróun á tímum faxtækja og tölvutækni.

Eitt nýlegt mál er ákaflega einkennilegt: Á síðasta kjörtímabili var skipuð sérstök stjórnarskrárnefnd sem átti að setja fram tillögur um breytingar á þessu gamla 19. aldar skjali sem hafði jú verið breytt smávægilega á liðinni öld. Í stað þess að koma með tillögu um nýja nútíma stjórnarskrá virðist hafa orðið efst í huga þeirra sem ferðinni réðu einhver sú smávægilegasta breyting sem má hugsa sér: Vegna atburða sumarsins 2004 þegar ríkisstjórnin var neydd til að leggja fram svonefnt fjölmiðlafrumvarp undir þjóðaratkvæði sem annað hvort hafði þá þýðingu að ríkisstjórnin biði verulegt afhroð, þá var tekin sú ákvörðun að taka til baka lög sem Alþingi hafði  þá nýlega samþykkt! Þetta var stjórnarfarsréttarlega séð mjög umdeilt. Allt í einu stóðu lögfræðingar landsins frammi fyrir einkennilegri staðreynd. Forseti lýðveldisins taldi að hér væri of langt gengið. Loksins reyndi á ákvæði stjórnskipunarlaga, stjórnarskrárinnar, að ekki væri unnt að koma hvaða umdeildu lögum sem er gegnum þingið! Forsetinn virkaði sem öryggisventill sem kannski hefði fyrr mátt reyna á. Ríkisstjórnin fráfarandi vildi afnema þetta öryggisákvæði í 26. gr. stjórnarskrárinnar því það var henni ekki að skapi!

Við þurfum að byggja upp réttlátara þjóðfélag þar sem ekki aðeins réttur þess sem auðinn hefur heldur allra sé virtur. Sá sem á ekkert í dag á einnig að hafa rétt til að fá þjónustu samfélagsins til að þroska sig og að mennta eftir því sem hugur hans og geta stendur er. Allir eiga að hafa rétt á að sækja heilbrigðisþjónustu án efnahags sem og hvers konar það sem þjóðfélagið hefur upp á að bjóða. Skipa þarf með sanngjörnum reglum rétt útlendinga að sækja atvinnu hér og jafnvel setjast hér að en viðkomandi þarf auðvitað að aðlaga sig sem best íslensku samfélagi og menningu sem best. Íslenskt samfélag getur eðlilega ekki aðlagað sig strax að sérþörfum einstaklings frá ólíku menningarsamfélagi en hlutverk samfélagsinser á að vera að gefa viðkomandi tækifæri til þess. Sá umkomulausi gærdagsins er kannski orðinn leiðtogi morgundagsins. Því þarf að huga vel að hverjum þjóðfélagsþegn hvar sem hann er í stétt að finna og gera allt það sem máli skiptir að hver  einstaklingur geti orðið betri og þarfari þjóðfélagsþegn.

Ljóst er að forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar verður að kæla hagkerfið. Of mikil þensla er vegna stórframkvæmdanna en mikil velsæld hefur þann ágalla að hún blossar upp dýrtíð við minnstu mistök hagstjórnar. Lækka þarf vexti við fyrstu hentugleika. Draga þarf úr óþarfa bruðli á sem flestum sviðum. Auka mætti t.d. almenningssamgöngur og sitthvað fleira sem hvetur venjulegt fólk að sinna betur umhverfismálum sem og ekkisíður heilsu sinni en einkabíllinn getur verið mjög slæm blindgata á mörgum sviðum. 

Við þurfum að taka upp nýjar áherslur í skattakerfinu. Víða um heim hafa umhverfisskattar verið teknir upp í stað ýmissa eldri tekjustofna samfélagsins. Sérstaklega þarf að huga að útblæstri frá mengandi starfsemi. Áliðnaðurinn hefur t.d. greitt svonefnt framleiðslugjald sem upphaflega var hugsað sem úrræði íslenskra stjórnvalda að koma einhverri skikkan á skattamál þessara stórfyrirtækja. Þau hafa í eðli sínu ríka tilhneyingu að beina hagnaði sínum til þess lands þar sem skattaumhverfið er þeim hagstæðast. Nú er lag að taka upp skatt á gróðurhúsalofttegundir sem ekki er vanþörf á að gera ráðstafanir til að grípa til. Hafa margir sjálfviljugir tekið þátt í að skattleggja sjálfan sig með þessum umhverfisskatti undir nafninu Kolviður. Ljóst er að stórefla þarf skógrækt í lnadinu og hvetja sem flesta til að taka þátt í þessu skemmtilega en erfiða verkefni.

Ný ríkisstjórn verður vonandi mynduð sem fyrst og óskandi er að hún beri þá gæfu að sneyða fram hjá þeim skerjum og þeim freistingum sem víða liggja fyrir. Munum að ekki er hollt að hafa öll eggin í sömu körfunni, heldur byggja á sem mestri fjölbreytni.

Við verðum að vona það besta jafnframt að óska væntanlegri ríkisstjórn alls góðs.

Mosi alias


mbl.is 12 ára ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband