Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Þarf Sigmundur að smala köttum?

Þeir þingmenn sem nú sitja á þingi fyrir Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk hafa enga reynslu nema vera í upphlaupum ýmsum í áróðursstríðinu gegn ríkisstjórn Jóhönnu þar sem allt var fundið henni til foráttu. Framsóknarflokkurinn var á móti nýrri stjórnarskrá, Icesave samningunum, aðild að Efnahagssambandinu, Rammaáætlun, nýjum lögum um Stjórnarráð Íslands og ýmsum fleirum mikilvægum málum. Þá ríkti hálfgert stríðsástand þar sem öllum þingmönnum flokksins var sigað á einn sameiginlegan fjandmann: ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.

Nú eru þingmenn þessara sömu flokka að skríða upp úr skotgröfunum. Sigmundur Davíð er ansi brattur að telja að friðaröld Framsóknarflokksins sé upprunninn og að nú eigi allir að vinna að friðsamlegri lausn allra mála. Ekki sýndi hann gott fordæmi þegar hann var á móti öllum mikilsverðum málum. Varla hefur ríkisstjórn hans tekið við að nú ólma sumir liðsmenn hans eins og verstu breimakettir, eru komnir í fýlu vegna þess að þeir voru ekki valdir í ráðherraembætti. Dæmi um Vigdísi Hauksdóttur einhverrar kostulegrar grátkonu Framsóknarflokksins sem hefur yndi af því að afbaka gömul og gild íslensk orðatiltæki. Sjálfsagt eiga fleiri eftir að fara í fýlu enda vilja margir skara að sinni köku. Er hér skýr sönnun fyrir því að Sigmundi hafi ekki tekist að ná fullri stjórn á hjörð sinni.

Nú er spurning hvort það verði hlutverk hans að smala köttum eins og Jóhanna Sigurðardóttir lýsti ástandinu innan ríkisstjórnar sinnar þegar upp kom alvarlegur ágreiningur um einstök þingmál sem oft er algengt að komi upp. Þegar slíkt kemur upp er augljóst að sumir óánægðir menn eru meir að hugsa um eigin hag en heildarinnar.

Sigmundur Davíð á að baki furðulegustu og óljósustu kosningaloforð Íslandssögunnar. Hann hefur komist upp með að þyrla upp þokukenndu kosningatrixi sem villti um fyrir allt of mörgum. Þessa mun flokkurinn væntanlega gjalda í næstu kosningum. Leiðin að völdunum og spillingunni, gengur gegnum blekkingar og innistæðulaus kosningaloforð. Má vísa í Silvió Berlúskóní sem nú er álitinn vera einhver fyrirlitlegasti stjórnmálaþrjótur í Evrópu.


mbl.is Enginn áður gegnt ráðherraembætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskiptin

Nú horfum við á eftir ríkisstjórn sem kom okkur út úr rústum bankahrunsins sem sömu stjórnmálaflokkar áttu þátt í að yrði og nú mynda nýja stjórn. Þessi nýja ríkisstjórn virðist vera eins og hver önnur ævintýramannastjórn sem telja sér allir vegir færir með því að brosa breitt. Þessi nýja ríkisstj´+orn mætti því vera nefnd Broskarlastjórnin.

Dapurlegt er hversu umhverfismálin verða gjaldfelld með nýjum stjórnarherrum. Þeir munu EKKI fá neinn frið hvorki að nóttu sem degi. Samviskan ef einhver er, verður vakin hjá þeim og þeir minntir á afglöp þau sem þessir tveir ríkisstjórnarflokkar hafa gert. Þeir tóku ákvörðun um að eyðileggja stóran hlut á NA landi með byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Þeir vissu hvað þeir voru að gera en töldu sig vera í fullum rétti að gera þetta þrátt fyrir gríðarleg mótmæli.

Nú á Umhverfisráðuneytið að verða n.k. skúffa í gamla Landbúnaðarráðuneytinu. Boðað er að hefja mikla útrás í landbúnaði. Á að auka stórlega sauðfjárhald en fyrir réttum aldarþriðjungi var verið að framleiða allt of mikið lambakjöt sem um helmingur fór á haugana eða flutt út með gríðarlegum kostnaði á kostnað skattborgara.

Nú er þegar kominn þverbrestur í þessa nýju ríkisstjórn áður en hún tekur við völdum. Vigdís Hauksdóttir er óánægð að verða ekki einn af ráðherrunum. Það hefði verið þokkalegt ef hún hefði verið sett yfir menntamálin með allar ambögunar.

Mig langar að þakka fráfarandi stjórn. Þið höfðuð storminn í fangið nánast allan tímann. Þið komuð okkur út úr óvissunni sem beið okkar eftir bankahrunið sem núverandi ríkisstjórnarflokkar kölluðu yfir okkur. En þess má geta að á bak við þessa ríkisstjórn eru 51% atkvæða þó hún fái 60% þingmanna.

Við hin 49% erum ekki sátt enda þessi ríkisstjórn samansett af óreyndu fólki sem hefur þokukennd markmið. 


mbl.is Síðasti ríkisráðsfundurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drengileg afstaða Björns Bjarnasonar

Mér finnst Björn hafa sýnt mikið drenglyndi gagnvart fráfarandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Forsetinn er í þjónustu allrar þjóðarinnar en ekki Framsóknarflokksins eingöngu. Hann á ekki að gera mönnum og konum mannamun og er því vegna yfirlýsinga hans langt yfir það að vera hafinn yfir gagnrýni. Þegar forsetanum verður á í messunni, þá má reikna með að hann verði gagnrýndur ótæpilega.

Við skulum minnast þess að aðdáun Ólafs Ragnars var ekki síður mikil á svonefndum útrásarvíkingum sem í raun reyndust vera siðlausir braskarar og fjárglæframenn hver um annan þveran.

Þegar ævisaga Ólafs var rétt útkomin, varð hrunið og stoppa varð dreifingu á ritinu sem innihélt mikla aðdáun og lof á útrásinni mislukkuðu. Eyða varð þegar prentuðu upplagi, rífa varð stóra kafla úr handritinu áður en það hafði verið prentað að nýju. Slík var áhugi forsetans fyrir braskinu!

Og nú hefur Ólafur Ragnar fundið nýjan fulltrúa braskvaldsins og þvílík aðdáun að henni er lýst fjálglega út um allar koppagrundir jafnt innanlands sem erlendis!

Eigum við ekki að sjá hvernig reynslan verður af þessari ríkisstjórn með vægast sagt einhverja þá einkennilegustu stefnuskrá sem um getur, sbr. umhverfismálin: þar á Ísland að vera til fyrirmyndar í öllum heiminum hvorki meira né minna en áður en þessi ríkisstjórn tekur við völdum á að pakka Umhverfisráðuneytinu niður í skúffu í Landbúnaðarráðuneytinu! Svo á greinilega að slátra Rammaáætluninni því það á ekki að gefa náttúru landsins minnstu vægð. Rányrkjuna á að hefja til vegs en ekki til virðingar að sama skapi. Sjálfsagt fer hagvöxtur upp úr öllu valdi en sé hagvöxtur meiri en náttúran getur gefið af sér, er um rányrkju að ræða.

Satt best að segja skil eg ekkert í þessu, hvernig gat 51% af þjóðinnni kosið þetta yfir sig? Kannski á þjóðin ekki betur skilið en hún hefur valið. 

Verði ykkur að góðu herrar mínir og frúr!


mbl.is „Hvað vakir fyrir Ólafi Ragnari?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarfélagarnir leggja á ráðin

Á myndinni eru tveir framsóknarmenn. Sá til vinstri er fæddur inn í Framsóknarflokkinn, kominn af einum síðasta hermangsbraskaranum og er í dag auðugasti þingmaðurinn sem telur sig gæta hagsmuna einhverra ótilgreindra heimila í landinu. Hann situr á fremur óvirðulegri stól en sá sem er hægra megin. Hann var sem ungur liðsmaður Framsóknarflokksins ekki sáttur við forystu flokksins og vildi gera hallarbyltingu með félögum sínum. Gömlu valdaklíkurnar gripu í taumana og Ólafur var með vinum sýnum hrakinn til samstarfs við vinstri menn. Það hliðarspor reyndist Ólafi mjög reynsluríkt og skilaði honum í formannssæti róttækasta flokks á þingi, Alþýðubandalagsins. Þar gegndi hann starfi fjármálaráðherra og reyndist þar hinn ötulasti, lét innleiða virðisaukaskatt og gott ef staðgreiðslukerfi skatta var ekki á tíma komið á hans tíma. Á þessum árum þótti vera saga til næsta bæjar á einu ári voru samþykkt um tugur fjáraukalaga en þá er ríkisbókhaldi hvers árs endanlega lokað. Hafa sunir nefnt þessi fjáraukalög „syndakvittanir“ ríkisstjórna á hverjum tíma. En í huga launamanna þótti Ólafur sýna röggsemi þegar hann lét sem fjármálaráðherra og jafnframt yfirmaður skattamála innsigla eigur stórs verktakafyrirtækis vegna vangreiddra skatta. Forstjóri þess fyrirtækis vildi láta reyna á hvort verktaka væri vsk skyld og reiknaði aldrei vask í tilboð. Það var því furðu oft sem hann varð nánast „áskrifandi“ að flestum stærri verkefnum. Forstjórinn sendi karlana á stóru tækjunum niður á Austurvöll til að baula á fjármálaráðherrann og mótmæla aðgerðum. Eru þetta sennilega ein fyrstu mótmæli á Íslandi sem voru vélvædd a.m.k.

Það þykir því við hæfi að forsetinn sitji á virðulegum armastól meðan Sigmundur Davíð verður nánast að láta sér nægja hornið á stólnum þeim óvirðulegri. 


mbl.is Forsetinn fundar með Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítt skiljanlegur forseti

Síðustu 4 árin hefi eg ekkert botnað í Ólafi Ragnari. Hann skammar Gordon Brown nú nýverið þegar FJÖGUR ÁR VORU LIÐIN FRÁ ÞVÍ HANN LÉT AF EMBÆTTI OG Í DAG ER MR. GORDON BROWN ALGJÖRLEGA VALDALAUS Í BRETLANDI!

Hefði Ólafur Ragnar verið hyggnari, hefði hann átt að setja gagnrýni sína fram fyrir fjórum árum en ekki núna þegar það skiptirengu máli máli. Eða telur Ólafur Ragnar vera orsakasamhengi í að Gordon Brown beitti sér á sínum tíma vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins í aðdraganda bankahrunsins og þeirra vogunarsjóða sem nú eiga stóra hluti í Arion og Íslandsbanka? Ekki sé eg orsakasamhengið þarna á milli.

Hins vegar er einkennilegt að Ólafur Ragnar sjái hve þvílíkur snillingur Sigmundur Davíð er! Að hann sé eini stjórnmálaforinginn sem telur færa leið að sækja stórfelldar fúlgur í hendur braskara til að borga vandræðaskuldir lánþega. Og kosningalofoðrin voru einhver þau þokukenndustu sem nokkru sinni hafa sést á Íslandi. Hefði verið auðveldara og gáfulegra að gefa frá sér kosningaloforð um gott veður framundan sem engum heilvita manni hefur dottið í hug.

Í mínum huga er Ólafur Ragnar beint og óbeint stuðningsmaður Framsóknarflokksins. Allar gerðir hans og ákvarðanir miðast við að allt komi Framsóknarflokknum vel. Hann leiddi stjórnarandstöðuna þegar hún var bæði reikul og ráðalaus. Með því að spinna upp einhverja furðulega söguskýringu um Icesave, tókst að draga fremur lítilsháttar mál niður í tilfinningalegan táradal en alltaf var ljóst að nægir fjármunir voru til, alla vega nokkurn veginn fyrir forgangskröfunum. Hins vegar var nánast engar umræður um miklu alvarlegra mál sem var þagað af braskaralýðnum sem tengist Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, nefnilega Magma málið. Með því var erlendum braskara leyft að kaupa á vildarkjörum afnot af náttúruauðlindum á Reykjanesskaga og er þetta meginskýringin hvers vegna svo hart er sótt að gjörnýta allan jarðhita sem þar er, langt umfram eðlileg afnot. Þarna telja jarðhitasérfræðingar verði með rányrkju jarðhitinn nánast eyðilagður með of mikillri nýtingu í stuttan tíma. Og hvert fer arðurinn? Auðvitað beina leið úr landi, fjármunir sem nema margföldum skuldunum kenddum við Icesave.

Ólafur Raganr hefði mátt ígrunda öll þessi mál margfalt betur. Hann hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem eg  taldi hann hafa að bjóða fyrir nær 17 árum þá hann bauð sig fram til þessarar vandasömu þjónustu. Hann hefði mátt stoppa Kárahnjúkavirkjunina sem eru stærstu afglöp íslenskra stjórnmálamanna í atvinnuuppbyggingu þar sem hvert starf í álbræðslu kostaði um 500 milljónir! 

Nú hefur hann falið hinum brosandi Sigmundi Davíð myndun ríkisstjórnar með öðrum brosandi stjórnmálamanni, Bjarna Benediktssyni. Mætti þessi ríkisstjórn vera nefnd BROSKALLASTJÓRNIN. 


mbl.is Forsetinn hreifst af Sigmundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Broskallarnir

Þessi tilvonandi ríkisstjórn mætti gjarnan vera kennd við broskallana. Þeir félagarnir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð hafa verið brosandi út að eyrum í hvert sinn sem þeir sjá myndavél á lofti. Nú hafa þeir verið í þrjár vikur að finna leið til að draga þessa gömlu samstarfsflokka saman. Svo virðist að töluverðir hnökrar séu á enda kosningaloforð Sigmundar mjög óraunhæf. Sennilega reynir Bjarni að tryggja hag Sjálfstæðisflokksins og koma í veg fyrir að sér og SJálfstæðisflokknum verði ekki kennt um ef ekki tekst að efna loforðavaðal Sigmundar.

Því miður er reynslan sú, að allt of fáir gera sér ljóst að þegar verið er að hella sér út í skuldir, er verið að ráðstafa tekjunum fyrirfram. Framsóknarflokkurinn hefur að verulegu leyti byggt kosningamaskínu sína á einhverju gervigóðæri með lánum. Fyrir áratug beitti Framsóknaflokkurinn sér fyrir 110% lánum. Nú á að afskrifa eða færa niður höfuðstól lánanna. Það verður á kostnað þeirra sem lítið eða ekkert skulda. Eignir sparifjáreigenda og lífeyrissjóða rýrnuðu verulega í hruninu sem þessir tveir stjórnmálaflokka báru siðferðislega ábyrgð á.

Nú sjálfsagt fæðist lítil ríkisstjórnarmús. Byrjað verður að rífa sem mest niður sem ríkisstjórn Jóhönnu verið að beita sér fyrir hagræðingu í stjórnsýslu með fækkun ráðuneyta. Hagsmunir Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks ganga þvert á hagsmuni þjóðarinnar enda þarf að koma sem flestum vildarvinum að kjötkötlunum, kljúfa ráðuneyti og fjölga ráðuneytum með tilheyrandi kostnaði.

Við verðum að þrauka í 4 ár að bros broskallana gufi upp í alvöru lífsins. Það er ekki auðvelt að hefja hrunadansinn að nýju þó vilji sé fyrir því.

 


mbl.is Tíðinda er að vænta innan skamms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg reynsla af löglegu siðleysi

Því miður er það staðreynd að löglegt er að beita aðferðum við að losa sig við reynda starfsmenn með vafasömum og siðlausum aðferðum. Þetta ætti að vera hvatnig til flestra að losa tengsl sín við þau fyrirtæki sem beita svona aðferð til að hagræða í rekstri sínum. Auðvitað reyna fyrirtæki að fá ungt fólk sem oft hefur litla og jafnvel enga reynslu. Það er ódýrari vinnukraftur og auk þess unnt að krefjast meira af því en eldri og reyndari starfsmönnum. Sjálfur hefi eg reynslu af að leita mér vinnu í mínu fagi eftir að hafa misst vinnu vegna einkavæðingar opinberrar stofnunar árið eftirminnilega 2008. S.l. 4 ár er eg í nákvæmlega sömu stöðu nú í dag og fyrir 4 árum: ekkert starf í mínu fagi fengið þrátt fyrir marga tugi umsókna um laust starf. Í a.m.k. einu tilfelli var nemi ráðinn þrátt fyrir að í auglýsingu væri skýrt tekið fram að leitað væri að umsækjanda með tilskilin atvinnuréttindi! Og var þetta hjá opinberri stofnun! Nú er svo komið að eg er hættur að láta mig dreyma um nokkurt starf á mínu fagsviði enda kominn á sjötugs aldurinn, hver vill ráða gamlan sérvitring? Eg reyni að vinna mér í haginn við að hafa tekjur af öðru, t.d. ferðaþjónustu yfir sumartímann og ritstörfum.

Einkafyrirtækin eru sennilega rekin með enn þrengri sjónarmiðum en hjá því opinbera þar sem kunningsskapur og jafnvel pólitík kunna að skipta máli. Fólk á ekki að vera að skipta sér af neinu, helst halda kjafti og kjósa lýðskrumarana. Og ekki batnar það þegar broskarlarnir sem nú eru í stjórnarmyndunarleik, tekst það sem þeir stefna að. Ætli dragi úr klíkuskap og spillingu?


mbl.is Sagt upp eftir 25 ára starf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul verkefni slökkviliðsmanna

Þessi frétt minnir mig á árin þegar eg ólst upp í Austurbæ Reykjavíkur fyrir langt löngu. Víðast hvar voru tréstaurar, bæði fyrir rafmagn og síma. Mjög oft klifruðu kettir upp í staurana og treystu sér ekki niður. Varð þá að kalla í brunaliðið eins og slökkviliðið var gjarnan nefnt á þeim árum. Þetta var hin besta skemmtun og afþreying barna að horfa á liðsmenn Slökkviðiðsins koma með gamla stigabílinn með ekta bjöllu svo unnt var að senda mann upp í stigann til að bjarga köttunum. Hugðust margir strákar verða brunaliðsmenn þegar þeir yrðu stórir, ekki til að sinna brunaútköllum og slökkva elda, heldur að bjarga ólánssömum köttum úr timburstaurunum! Þessi áhugi fyrir starfi í Slökkviliðinu hefur sjálfsagt dofnað hraðfara eftir að rafmagn og sími var grafin í jörð og stálstaurar tóku við hlutverki tréstauranna vegna raflýsingar.

Segja má að þarna hafi slökkviliðið sinnt gömlu verkefni sem nú kemur sárasjaldan til en minnir á þennan horfna heim bernskunnar.


mbl.is Ketti bjargað af húsþaki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg breyting á umhverfi

Þegar slegið er upp „Grand Inga“ má sjá út á hvað þessar framkvæmdir ganga:

Inga fossinn er tæpra 100 metra hár í Kongó ánni og er um 4 km breiður. Þarna falla yfir 40.000 rúmmetrar á sekúndu eða meira en 100 falt vatnsrennsli Þjórsár! Í vatnavöxtum hefur verið áætlað að yfir 70.000 tonn renni þarna á sekúndu. Þannig að þarna verður kjöraðstæður að byggja gríðarlega stórt vatnsorkuver, það stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Áætlunin er að byggja virkjunina í a.m.k. 3 áföngum og eftir þann síðasta verði framleidd þarna um 39.000 MW í 52 túrbínum sem hver um sig framleiðir umtalsvert meira en allar túrbínur Kárahnjúkavirkjunar til saman! Er áætlað að um 500 milljónir heimila muni njóta góðs af þessari virkjun í mest allri Afríku.  Dreifikerfið mun ná til Egyptalands í norðri, Nígeríu í vestri og Suður Afríku í suðri.

Áin fellur í raun í mörgum fossum og rennum, sumum neðanjarðar að hundruðum skiptir. Milli þeirra eru fjöldinn allur af hólmum, litlum eyjum og björgum. Sjálfsagt verður eftirsjá að þessum fossum en spurning hvort þurfi að ráðast í þessa gríðarlegu virkjun nema annað sé haft í huga t.d. stóriðja.

Sjálfsagt eru komnir til sögunnar stórhuga stjórnmálamenn í Afríku sem klifa á sama söngnum og kollegar þeirra á Íslandi: „Að koma hjóli atvinnulífsins af stað“.

Athygli vekur að kínverskir verktakar hafa þessa framkvæmd með höndum ásamt fleirum m.a. í Suður Evrópu. Fjárfestingar Kínverja í Austur Afríku kallar á þessa framkvæmd. Spurning hvort ekki verða gífurlegar breytingar eftir þessar framkvæmdir þegar mikil landflæmi hafa verið lögð undir uppistöðulón og ljótar rennur gegnum frumskóginn fyrir rafmagnslínur.

Heimildir auk netútgáfu Morgunblaðsins:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/business/7358542.stm

http://www.worldwaterfalldatabase.com/waterfall/Inga-Falls-660/

http://en.wikipedia.org/wiki/Inga_dams

 


mbl.is Heimsins stærsta vatnsaflsvirkjun í Kongó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íþróttafrétt?

Hér er greinilega um grafalvarlegt sakamál að ræða þar sem íþróttamaður kemur við sögu. En tengslin við íþróttir er engin önnur.

Oft er vikið að fjármálum íþrótta og þau flokkuð sem íþróttir! Það væri eðlilegra að hafa undirflokk þar sem væri viðkomandi efni væri.


mbl.is Danilovic í lífshættu eftir árás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243585

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband