Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2013

Forræðishyggja?

Einkennilegt er að einn aðalfulltrúi braskaranna á Íslandi vari Norðmenn við húsnæðisbraski. Mætti Bjarni líta sér nær og ætti að gera sér ljóst hvaða braskhugmyndir Engeyjarættin hefur á prjónunum með hliðsjón af nýjum og umdeildum Bessastaðavegi um Garðahraun/Gálgahraun.

Ekki er Bjarni að vara Íslendinga við en þykir sjálfsagt að skjótast til Noregs og aðvara þar.

Nú er þessi ríkisstjórn á kafi í forræðishyggju:

við máttum ekki fá nýja og nútímalegri stjórnarskrá,

við megum ekki treysta efnahag okkar með inngöngu í Evrópusambandið,

við eigum að fá gamaldags náttúruverndarlög,

við megum ekki skattleggja útgerð og hátekjufólk,

og við verðum að sitja uppi með þessa ríkisstjórn, vonandi ekki til eilífðarnóns. 


mbl.is Bjarni varar Norðmenn við bólumyndun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað var best útfært í undirbúningi stjórnarmyndunar?

Hvað var best útfært í stjórnarmyndunarviðræðum þeirra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar? Nú var miklu lofað en efndir eru undir fullt af nefndum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem sennilega vinna sitt starf meira og minna í hægagangi.

 

Eg leyfi mér að halda því fram að þetta tvíræða bros þeirra framan í ljósmyndara úti á Bessastöðum hafi verið langbest undirbúið og útfært. Þeir voru auðvitað að brosa sín á milli og minnast þess hve þeir gætu dregið þessa blessuðu guðsvoluðu þjóð langt á asnaeyrunum. Þeir hafa komið mörgum málum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur í uppnám sem voru á góðri leið að koma okkur sem fyrst út úr bankahruninu.

 

Hér eru nokkur atriði sem ofarlega ber á góma:

 

1. Við máttum ekki eignast nýja og nútímalega stjórnarskrá.

2. Við megum ekki ganga í Evrópusambandið og tryggja þar með betri efnahagsstefnu og framtíð íslensku þjóðarinnar. Erum þó um 70-75% aðilar að öllu regluverkinu innan Evrópusambandsins.

3. Það má ekki skattleggja útgerð og hátekjumenn nema helst með þeirra samþykki.

4. Það má ekki láta dómsstólana starfa eðlilega en gripið er fram fyrir starf þeirra með lögregluvaldi til að unnt verði að treysta hag Engeyinga. Með þessu var verið að færa okkur skrefi nær fasisma sem vonandi enginn vill.

5. Og við máttum ekki á sínum tíma koma Icesave vandræðunum sem fyrst fyrir kattarnef fyrir ofríki Sigmundar Davíðs sem virkjaði forsetann í þessari moldvörpustarfsemi. Allltaf var ljóst að nægar innistæður voru fyrir Icesave skuldunum og að halda öðru fram er haugalygi.

Björgvin Guðmundsson viðskiptafræðingur reiknaði út og komst að þeirri niðurstöðu að við töpuðum a.m.k. 60 miljarða vegna þvermóðsku og skammsýni þessara stjórnmálamanna. Við hefðum getað komist fyrr út úr kreppunni, fengið hagstæðara lánshæfismat og betri viðskiptakjör með frjálsum samningum milli þjóða, leið sem allir skynsamir lögfræðingar mæla með fremur en að hafa hlutina í lausu lofti. Gildir einu þó EFTA dómstóllinn hafi komist að hagstæðari niðurstöðu þá má ekki gleyma því, að við hefðum náð mun betri árangri með samningum. Og þá hefði verið unnt að koma þessum frægu hjólum atvinnulífsins fyrr af stað og þar með undið ofan af atvinnuleysinu sem enn er of hátt hlutfall. Allt þetta hefur verið í boði Framsóknar!

Því miður var þetta síðarnefnda mál dregið niður í tilfinningalegan táradal undir óskiljanlegu þjóðernisofstæki.

Sennilega hefur íslenska þjóðin aldrei setið uppi með jafnmikla skammsýnismenn á þingi og nú með nokkrum undantekningum auðvitað. Það er eins og þessi blessaða ríkisstjórn taki sér tröll, afturgöngur, drauga og aðrar slíkar fordæður sér til fyrirmyndar, það er eins og ekki megi taka á málum og forgangsraða betur. Og þetta eru broskarlarnir sem ætla að stefna að hallalausum fjárlögum. En eru þeir ekki eins og í ævintýrinu um nýju fötin keisarans?  

Hvernig sagan mun meta þessa ríkisstjórn skal ósagt látið en hér eru örfáir punktar.


mbl.is Ríkisstjórnin aldrei óvinsælli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forgangsverkefni öðrum fremur

Tækjakaup fyrir Landspítala eru mjög brýn. Óvíða eru tækin jafnfornaldarleg og á Landspítala Íslands og verður að öllum líkindum að fara suður fyrir Alpafjöll ef ekki handan við Miðjarðarhafið að sjá fornfálegri tæki. Viðhaldið gengur út á að leita með sífellt meiri fyrirhöfn eftir varahlutum en fyrir löngu er hætt að framleiða þá.

Hvað myndi fólk segja ef það væri beðið um að koma með heimilstölvuna með sér ef það þarf að leita þjónustu Landspítala vegna þess að tölvurnar eru orðnar gamlar og úreltar. Flóknari og dýrari tæki sem mega ekki bila, eru löngu komin á tíma. Þessi sluksháttur hefur leitt af sér miklar tafir og vannýtingu á mannskap sem ekkert er of mikill fyrir.

Landspítalinn á að vera forgangsverkefni öðrum fremur. Ráðamenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins töluðu fjálglega um hátæknihús fyrir áratug þegar til stóð að selja Landssímann. Fyrir þá fjármuni átti m.a. að byggja „hátæknisjúkrahús“, leggja Sundabraut og guð má vita hvað, en ekkert varð af þessu. Hvorki „lágtæknihús“ sem ætti að vera auðveldara verkefni en  „hátæknisjúkrahús“. Og af Sundabraut fara engar sögur af en þegar var talað mikið um þá samgöngubraut var rætt um að ekki síðar en 2006 myndu landsmenn aka eftir henni. Núna hefur ekki einn einasti metri verið lagður og bíður sennilega langa hríð. Í staðinn er lögð ofuráhersla að leggja veg um Garðahraun/Gálgahraun undir lögregluvernd svo að Engeyjarættin geti grætt á lóðasölu í Garðabæ.

Svona er Ísland í dag! Stjórnmálamenn fara mikið í loforðaflaumi sem þeir sennilega gera sér fyllilega grein fyrir að verða aldrei efnd. En það má lofa og ljúga gegn betri vitund til að næla sér í aukaatkvæði og brosa svo á tvíræðan hátt framan í þjóðina eins og þeir félagar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson gerðu sameiginlega svo eftirminnilega í vor sem leið. Var þetta tvíræða bros kannski sem var best undirbúið í stjórnarmyndunarviðræðunum þeirra á milli?


mbl.is Boðar fjárveitingu til tækjakaupa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ferðamannaiðnaður: hvaða fyrirbæri er það?

Orðskrípi á borð við „ferðamannaiðnaður“ hafa vaðið uppi og ekkert gengur að kveða þennan  draug niður fremur en aðra drauga. Hvað mætti ætla að væri átt við orðinu „ferðamannaiðnaður“? Er það einhver iðnframleiðsla eins og minjagripaframleiðsla í þágu ferðamanna? Sennilega „Made in China“?

Eða pulsugerð til að seðja sárasta hungur ferðamanna í sjoppum og söluskálum landsins?

Það er undarlegt ef rétt er eftir Grími Sæmundsen forstjóra Bláa lónsins haft að hann nefni einn mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar þessu orðskrípi. Fyrir löngu hefur verið bent á að þetta hugtak er með öllu óhæft og er bein þýðing á enskunni „tourist industry“ en þar er fremur átt við starfsemi eða öllu heldur þjónustu fremur en iðnað. Enskan er allflókið tungumál og margir varast illa blindgötur þegar verið er að þýða orð.

Fyrir meira en 20 árum sótti eg tíma hjá Birnu Bjarnleifsdóttur sem veitti Leiðsöguskóla Íslands forstöðu. Lagði hún mikla áherslu á að við ættum að nefna hlutina réttu nafni og þessi stöðugt vaxandi atvinnugrein þyrfti að vaxa og dafna undir sínu rétta nafni: FERÐAÞJÓNUSTA!

 


mbl.is Undirverðlagðar ferðamannaperlur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg dýr björgun

Sennilega hefði verið ódýrara hefði þetta brennandi skip sokkið fljótlega eftir að áhöfninni hafði verið bjargað. Áhöfn Þórs sem og slökkviliðsmenn eru væntanlega allir á áhættutaxta sem bætist við föst laun.

En hér er einnig um mjög dýrmæta reynslu að ræða sem erfitt er að meta til fjár. Hinir ýmsu kostir þessa góða varð- og björgunarskips hafa sýnt sig og sannað. Og áhöfnin hefur öðlast dýrmæta reynslu.

Líklegt er að meginkostnaður björgunar lendi á tryggingafélagi skipsins alla vega að einhverju marki. Það má  vera mildi að ekki hlaust nein slys af og sérstaklega þegar í ljós kom eftir að skipið hafði verið dregið inn í Hafnarfjarðarhöfn hafi enn logað miklir eldar í því. Þegar slökkviliðið opnar einhverjar dyr eða op, streymir súrefni inn að eldinum. Súrefni er eitt af þrem meginforsendum elds, aðrir eru að sjálfsagðu hiti og eldsmatur.

Þá var umtalsverð hætta á sprengingu og það var að öllum líkindum rétt mat slökkviðliðsstjóra að láta draga skipið út úr höfninni og á stað þar sem áhætta var lágmörkuð. Sennilega hefði verið skynsamlegra í upphafi að draga skipið inn í Straumsvíkurhöfn fremur en Hafnarfjarðarhöfn eftir á litið og er undarlegt að sú höfn sé ekki talin að öllu jöfnu betri og æskilegri fremur en Hafnarfjarðarhöfn. 


mbl.is Þyrlan flaug með búnað til Þórs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplausn samfélagsins í boði nátttröllanna

Eg leyfi mér að líta á núverandi stjórnarherra sem nátttröll sem eru ekki í neinum tengslum við raunveruleikann. Í sjónvarpinu í gærkveldi var stutt viðtal við slökkviliðsstjóra höfuðborgarsvæðisins sem lýsti yfir að slökkviliðið hafi veitt þessa þjónustu í heila öld og þjónusta slökkviliðs og sjúkraliðs er svo náið að ef á að skilja á milli þá verður þessi þjónusta dýrari en ekki að sama skapi jafngóð. Og hann kvaðst vilja að slökkviliðið gæti sinnt þessari sjúkraliðsþjónustu næstu 100 árin hið minnsta!

Hvernig hyggjast nátttröllin sem nú stýra íslensku samfélagi ná ódýrari, hagkvæmari og jafngóðri þjónustu og nú er veitt? Á kannski að gera þessa starfsemi að féþúfu fyrir einhvern innvígðan greiðanda í kosningasjóð Framsóknarflokksins eða Sjálfstæðisflokksins?

Eg var að kíkja í gamla ljóðabók: Kurl eftir Kolbein Högnason bónda í Kollafirði á Kjalarnesi:

Ljóðið heitir „Litlir menn og smáir“ og er 3 erindi og mér finnst það eiga vel við:

 

Ætli ég þekki þessa menn.

Þeir eru til svo víða.

Fái þeir bein - og önnur enn,

eru þeir til að fara senn

fyrir mál þeir flest þau stríða,

fyrr sem þeir voru að níða.

 

Hvað þeim er dátt um daga þá

að draga þá niður alla,

áður sem þeirra lán við lá,

lið þeim veittu bezt að ná

í metorða miklu dalla,

mál þeirra um svo fjalla.

 

Létt þeim finnst, ef því landi er náð,

lyginnar hlutverk stundum.

- Uppskeran verður eins og sáð.

Öll eru svikin mála ráð

á öllum úrslitastundum

inni á klíkufundurm. 

 

Kvæðabókin Kurl eftir Kolbein Högnason kom út 1946 og er merkilegt hvernig hann ræðir um skuggalega ráðamenn sem sitja í svikráðum á klíkufundum. 


mbl.is Fara að huga að uppsögnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyniþjónusta BNA trompar STASI

Á dögum kalda stríðsins var alræmdasta leyniþjónusta starfandi í Austur Þýskalandi og nefndist Stasi. Þessi leyniþjónusta var ásamt landamæraeftirliti DDR stærstu atvinnurekendur þar eystra, allstór hluti þjóðarinnar var í vinnu við að njósna um nágrannann.

Nú er komið upp að STASI komst ekki með tærnar þar sem leyniþjónusta Bandaríka Norður Ameríku er með hælana. Og þeim er ekkert heilagt ekki einu sinni sjálfur páfinn sem sennilega verður síðastur allra grunaður um hermdarverkastarfsemi.

Venjulegu fólki finnst einkenninileg að unnt sé að veita morð fjár í svona dellu. Meðan ekki er unnt að reka heilbrigðisþjónustu fyrir alla í BNA þá er hægt að reka einhverja dellustarfsemi eins og leyniþjónustu! 

Það sem STASI lét eftir sig eru himinháir haugar upplýsinga um nánast hvað sem venjulegur borgari Austur Þýskalands aðhafðist á dögum kommúnismans. Enginn var óhultur fyrir þessum óþverra. En nú er eins og þeir STASI menn séu eins og fermingardrengir miðað við þá stórtæku leyniþjónustumenn BNA.

Nú var þýska kanslaranum Angelu Merkel nóg um. Hún ólst upp í þessu einkennilega og vægast sagt óeðlilega umhverfi þar sem STASI var með nefið niðri í hvers manns koppi. Og eðlilegt er að enni verði orðfall yfir ósvífninni.

Og maðurinn sem fletti ofan af þessu öllu saman er núna í felum í skjóli Rússa. Mér finnst eðlilegt að þessi hugaði maður sem hefur upplýst gjörvalla heimsbyggðina hvað er um að vera í henni veröld. Leyniþjónustumenn BNA vilja sjálfsagt hafa hendur í hári hans, færa í tukthús, pynta og rekja úr honum allar garnir áður en hann verði krossfestur. Það hafa yfirvöld gert við þá sem njóta engra borgaralegra réttinda, eru „persona non grata“ eins og kommúnisminn skilgreindi slíka menn. Nú virðist sem leyniþjónusta BNA vera að taka við hlutverki kommúnismans, STASI og hvað svo sem allur þessi hryllingur nefnist.

Mætti biðja um meira ljós, meiri upplýsingu í það daglega myrkur forheimskunnar sem okkur er ætlað að lifa í!  


mbl.is Fullyrðir að páfinn hafi verið hleraður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband