Bloggfærslur mánaðarins, mars 2010

Byltingu á RÚV takk fyrir!

Athyglisverðar rannsóknaraðferðir

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi verður sífellt forvitnilegra fyrir margra hluta sakir. Nú hefur nútímalegri tækni verið beitt í fyrsta skipti hérlendis að mæla hitann á rennandi hrauni.

Í kvöld verður í sal Ferðafélags Íslands væntanlega mikill og góður fundur þar sem einn fremsti eldfjallafræðingur heims, Haraldur Sigurðsson, flytur fyrirlestur um þetta magnaða eldgos. Að öllum líkindum á aðsóknin eftir að verða það mikil að margir verði frá að hverfa.

Einkennilegt má það vera, að ríkisfjölmiðlarnir gefi þessu gosi ekki meiri gaum. Á dagskrá Rúv mætti vera mun meira efni tengdu gosinu þar sem jarðfræðingar greina frá því sem er að gerast og hvernig þróunin kann að vera. Nokkrum sinnum hefur verið haft viðtal við Magnús Tuma jarðfræðing og nokkra fleiri starfsfélaga hans en þjóðin er mjög fróðleiksfús um náttúru landsins.

Á dagskrá ríkissjónvarpsins eru vikum og mánuðum saman, já jafnvel árum sömu útvötnuðu framhaldsþættirnir frá Bandaríkjunum um einhverjar vansælar eiginkonur, lækna og hjúkrunarkonur í endalausum bunum. Mætti ekki klippa á svona útþynningu og fá eitthvað íslenskt efni í staðinn? Tilvalið væri að fá Harald Sigurðsson jarðfræðing í hálftíma þátt til að útskýra fyrir þjóðinni hvernig hann sér þetta eldgos þróast áfram. Það væri mjög vel þegið af þorra þjóðarinnar.

Athyglisverð viðtöl er eitt vinsælasta efni í sjónvarpinu einkum þar sem myndum, kortum, línuritum og öðru upplýsingaefni er jafnframt sýnt. Þetta efni getur varla verið fjárhag okkar ofviða og mætti jafnframt spara nokkra bandaríkjadali.

Dagskráin er yfirhlaðin af bandarísku útþynntu afþreyingarefni sem flest venjulegt fólk er fyrir löngu orðið dauðþreytt á.

Gerum róttæka breytingu á dagskrárefni RÚV - jafnvel byltingu ef ekkert breytist! Við mættum líka taka út gömlu útþvældu grammófónplöturnar í hádeginu: „Síðasta lag fyrir fréttir“. Kannski mætti setja annað áheyrilegra tónlistarefni í staðinn hvort sem það væri í dúr eða moll eða einhverju öðru áheyrilegu formi.

Mosi

 


mbl.is 800°C hiti í hrauninu
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana.

Stöndum saman gegn þessari ógn

Vitað er og sannað að mótorhjólaklúbbar á borð við Banditos og Hells Angels hafa beitt sér fyrir ólöglegri starfsemi í nágrannalöndunum þ.á m. eiturlyfjasölu, vændi, mansali og handrukkunum ásamt ýmsu ofbeldi öðru, jafnvel alvarlegum líkamsárásum og manndrápum. Hafa lögregluyfirvöld í nokkrum löndum hreinlega hvatt íslenska starfsfélaga að vera á varðbergi gagnvart þessari starfsemi og gera allt til að koma í veg fyrir að þessi starfsemi festi rætur hérlendis. Ógnvænleg framkoma nokkurra þessarra aðila sem skreyta sig torráðum táknum þessarra umdeildu alþjóðlegu samtaka bendir einnig til að þeir séu til alls vísir og grunnt kann að vera á ofbeldinu. Má þar nefna er einn af forsprökkum þessara gengja gengu í skrokk á blaðamönnum fyrir nokkrum misserum vegna þess að viðkomandi líkaði ekki skrif þeirra um sig í fjölmiðlum. Hvað er þetta annað en ógn gegn almannahagsmunum? Á að gefa eftir og leyfa þessum aðilum að taka „lögin“ í sínar hendur eins og þeir vilja skilgreina þau?

Ekki er verið að amast út í félagsskapinn sem slíkan eins og sumum finnst vera. Öllum er frjálst að stofna félag „í sérhverjum löglegum tilgangi“. En um leið og verkefni félagsins felast í verknaði sem brýtur gegn landslögum og allsherjarreglu, lýðræðinu og jafnvel sjálfsákvörðunarrétti okkar sem þjóðar, þá er heimilt að uppræta slíkt félag og banna.

Mosi


mbl.is Heimilt að banna Vítisenglana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gjaldskrá björgunarsveita: Nú er gott tækifæri

Björgunarsveitir leggja mikið á sig í þágu þjóðar. Aldrei hafa þær tekið eyris virði fyrir veitta aðstoð hversu mikil sem hún kann að hafa verið. Þetta er með öllu óskiljanlegt venjulegu fólki enda hafa ýmsir samborgarar meðal okkar treyst á björgunarsveitir þegar anað er út í glæfraför sem því miður hafa stundum endað með ósköpum.

Nú ætti að vera gott tilefni fyrir björgunarsveitir að setja upp gjaldskrá:

Fyrir minniháttar aðstoð mætti setja upp gjald t.d. 10.000 krónur.

Fyrir meiriháttar aðstoð þar sem senda þarf sveit langan veg og jafnvel kalla til þyrlu ætti slík aðstoð að fara annað hvort eftir reikningi yfir útlagðan kostnað eða fast gjald sem gæti þess vegna numið allt að einni milljón króna. Kostnaður við björgunarsveitir er gríðarlegur sem fæstir gera sér grein fyrir. Ef Landsbjörg og björgunarsveitirnar hefðu gjaldskrá yfir þjónustu sína, mætti reikna með meiri fyrirhyggju um varhugaverðar og hættulegar slóðir.

Tryggingafélög ættu einnig að hasla sér völl á þessu sviði. Á þeim bæjum ætti að vera viðbúnaður að taka að sér þessa sjálfsögðu þjónustu. Allt eftirlit og tilkynningamál væru mun betra og auðveldari.

Um allan heim þarf að greiða fyrir þá þjónustu sem björgunarsveitir veita. Má t.d. nefna í Ölpunum en í Sviss fær enginn heimild að ganga á hættuleg fjöll nema sýna fram á hæfni til slíks og að keypt hafi verið trygging til greiðslu þóknunar til björgunarsveita ef á slíkt reynir.

Mosi


mbl.is Mjög slæmt veður á gossvæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað á að gera við brennuvarga?

Margsinnis hefur verið lagður eldur í skógræktarsvæðið við Hvaleyrarvatn. Fyrir rúmlega 30 árum eða 8. maí 1979 voru tvö börn úr Hafnarfirði 9 ára að aldri að leik og hugðu kveikja ofurlítinn eld sér til skemmtunar. Áður en dagur sá var að kvöldi kominn höfðu 15 hektarar af skóglendi brunnið. Þrátt fyrir að fjöldi manns og slökkvilið tveggja sveitarfélaga börðust við eldinn daglangt og langt fram á kvöld, þá varð tjónið gríðarlega mikið.

Hákon Bjarnason skógræktarstjóri segir um þetta dapurlega mál í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1979: „Skaðann má meta á margar milljónir króna en vornbrigði og sárindi þeirra sem mest hafa unnið að því að prýða og græða þetta útpínda og eydda land, verða ekki metin til fjár.“

Þess má geta að Hákon hafði byggt sér fallegt lítið hús þarna í mörkinni og munaði litlu að það yrði eldinum að bráð. Má merkja beisku hans í tilvitnuðum orðum hans en hann var ótrauður baráttumaður fyrir skógrækt á Íslandi. Því miður tóku margir starfi hans með lítlum skilningi og jafnvel fyrirlitningu.

Hvernig unnt er að koma í veg fyrir skógarbruna verður aðeins gert fyrst og fremst með fræðslu, meiri fræðslu og viðleitni að koma í veg fyrir að svona endurtaki sig. Meðferð elds í skóglendi á að vera algjörlega bannað nema staðgóð kunnátta komi til. Má geta þess að skógarfólk sem starfar í skóginum gerir sér smáeld til að laga ketilkaffi en þar er gætt fyllsta öryggis og aðeins eldur tendraður á þar til gerðu eldstæði á öruggum stað.

Brennuvargar mættu gjarnan setja sig í spor þeirra sem vilja byggja upp og bæta landið okkar með skógrækt. Þeir mættu einnig leggja sitt af mörkum til skógræktar með því að taka þátt í þessu mikilvæga starfi.

Mosi


mbl.is Fimm hektarar brunnu í Seldal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórkostleg upplifun

Við létum klukkuna vekja okkur hálf fjögur í nótt rétt eins og við værum á leið til útlanda. Af stað um fjögur leytið og austur vorum við komin á móts við Fljótsdal, austasta bæ í Fljótshlíð um hálfri annari stund síðar eða um hálfsex. Mestalla leiðina allt frá Hellisheiði mátti sjá eldglæringarnar í austri og var það tilkomumikil sjón. Við áttuðum okkur ekki alveg í fyrstu aðstæður en eitt okkar sá grilla í ný reista göngubrúna yfir lækinn sem kemur úr dalnum ofan við Fljótsdalsbæinn. Mátti sjá eldinn og hraunfossinn mjög greinilega í myrkrinu. Og áfram gengum við vasklega gegn austanáttinni mót þessu einkennilegu birtu austan við Eyjafjallajökul.

Þegar við vorum komin sunnan við Þórólfsfell og skammt innan við skiltið sem vísar á fjallið, gegnum við fram á nýlega jeppaslóð nánast beint upp á fjallið. Henni hafði verið lokað neðst með nokkrum steinum til merkis um að þarna væri ekki æskilegt að aka. Þessi leið er nokkuð brött og hefur verið mikil fyrirhöfn að plægja rafstreng niður í jarðveginn. Töluvert rask er af þessu og er það ekki beint til fyrirmyndar. Kannski hefði mátt hafa þetta eitthvað „umhverfisvænna“ og sjálfsagt hefði mátt nota þyrlu að koma efni, áhöldum og mannskap á fjallið fremur að aka þarna upp snarbratta hlíðina. Spurning hvort framkvæmd þessi hafi verið sett í umhverfismat sem allar framkvæmdir sem kunna að vera krítískar. Mættu þeir Mílumenn skoða þetta nánar og hvernig mætti draga sem mest úr raski sem þessu. Ekki dugar að sýna „grænt bókhald“ með því að draga úr pappírsnotkun á skrifstofu á sama tíma og umgengni við sjálfa náttúran kann að vera talin ámælisverð og ekki til fyrirmyndar.

Upp komumst við eftir slóða þessum en mikið var hvasst og kalt ef við áðum. Við nutum hverrar stundar að fylgjast með eldgosinu, dagsbirtinni og þegar fyrstu sólargeislarnir léku um fjallstindana. Eyjafjallajökul er mjög fagur að sjá frá Þórólfsfelli og má hiklaust mæla með göngu á fjall þetta.

Til baka gengum við undan strangri austanáttinni og fórum mun sléttari leið niður í dalinn og komum skammt austan við Mögugil. Til baka á bílastæðið við Fljótsdal komum við um hálfellefu leytið. Gangan hafði tekið réttar 5 stundir.

Þegar við ókum til baka vestur þjóðveg nr. 1 kom á móti okkur ótrúlegur fjöldi bíla einkum jeppa sumum með „öllum græjum“ á „skuldahala“. Kannski  þetta minnti dálítið á bjartsýnina og gervigóðærið tengdu árinu 2007.

Sjálfsagt er að mæla með síðnæturferð sem þessari enda er stórkostleg upplifun að sjá gegnum myrkrið þennan eldstólpa lýsa langar leiðir leiðina að markmiðinu!

Óvenjuleg og skemmtileg ferð var að baki!

Mosi

 

 


mbl.is Vaxandi órói í eldgosinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróður undir yfirskyni vísinda?

Í Fréttablaðinu í dag er meginfyrirsögn blaðsins um gríðarlega fylgisaukningu Sjálfstæðisflokksins og vísað í nýjustu skoðanakönnunina. Þegar forsendur þessarar könnunar er skoðuð þá blasir við furðuleg aðferðafræði:

Í stað þess að getið sé um fjölda þeirra sem annað hvort neita að svara eða hafa ekki afstöðu þá eru lagðar fram veiðandi spurning:

Ef ekkert svar fékkst að lokum var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokk eða einhvern annan flokk?

Svona aðferðafræði og framlagning veiðandi spurninga þar sem svarið er innbyggt í spurninguna er ekki til þess fallið að vera mjög vísindalegt. Hún samræmist ekki sjónarmiðum um mótun skoðana og þróun lýðræðis á Íslandi. Þetta er ákveðin áróðursaðferð sem er forkastanleg og ekki til fyrirmyndar.

Spurning er hvort ekki sé rétt að setja einhverjar skynsamlegar reglur um skoðanakannanir og binda í landslög?

Fyrir nokkrum árum voru sett lög um fjármál stjórnmálaflokkanna. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig og voru uppi sjónarmið að þetta væri með öllu óþarft, Ísland væri jú eitt minnst spilla land heims! Þessi lög ná að vísu ekki nema hálfa leið og þyrfti að skerpa á þeim betur, t.d. setja þvingunarákvæði þegar ekki er farið eftir þeiim eins og í ljós hefur komið hvað einn stjórnmálaflokkinn varðar.

Mosi


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn með 40,3% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stráksskapur eða ásetningur?

Hér er mjög gróf atlaga að almannahagsmunum og varðar refsiábyrgð við broti sem þessu. Vonandi er að lögreglan hafi hendur í hári þessara aðila enda bráðnauðsynlegt að láta þá sæta ábyrgð fyrir þennan stráksskap.

Almannahagsmunir hafa lengi verið viðurkenndir og er t.d. minnst á í fornsögunum okkar þegar einhverjum illa innrættum strák datt í huga að míga í brunna til að spilla neysluvatni. Á þessu var eðlilega tekið mjög illa, gott ef viðkomandi var ekki klofinn í herðar niður við svo búið.

Nú er ekki rétt að hveta til ofbeldis við ákvörðun refsinga en allir þeir sem aðhyllast lýðræði og mannréttindi er þessi atlaga að almannahagsmunum tekin grafalvarlega. Viðkomandi ættu að sæta sektum eða jafnvel tukthúsvist ef viðkomandi sýnir ekki iðrun og yfirbót og hafi með athöfnum sínum sýnt af sér einbeittan vilja að eyðileggja þessi mikilvægu mannvirki.

Mosi

 


mbl.is Reynt að lama fjarskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrunskýrslan og lýðræðið

Skýrslan um hrunið er að sjálfsögðu mjög viðkvæmt en jafnframt forvitnilegt efni að því leyti hver niðurstaða rannsóknarnefndarinnar er. Ljóst er að þeir sem eru líklegir að hafa stöðu sakbornings eða grunaðs manns í þessu hrunmáli, hafa fengið frest til andmæla. Það þykir sjálfsagður réttur í nútímasamfélagi þó svo að sömu aðilum hafi þótt sjálfsagt að taka vafasamar ákvarðanir í skjóli þess valds á eigin spýtur sem þeir höfðu á sínum tíma.

Við getum nefnt nokkur mjög augljós dæmi:

1. Ákvörðun um einkavæðingu bankanna

2. Ákvörðun um afnám bindisskyldu bankanna eða mjög mikla takmörkun hennar

3. Ákvörðun um að yfirstjórn Fjármálaeftirlitisins væri gerð allt að því óvirk að gæta að fjárhagslegu öryggi bankanna og þar með þjóðarinnar

4. Ákvörðun um byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem er meginorsök allrar þeirrar þennslu sem olli gríðarlegustu brasktíð brakskara allrar Íslandssögunnar

5. Ákvörðun um að styðja innrásarstríð Breta og Bandaríkjanna í Írak sem er smánarblettur í utanríkisstefnu frjálsrar, friðelskandi og vopnlausrar þjóðar.

Sjálfsagt mætti fleira tína til en það látið eftir öðrum. Öll þessi mál hefði mátt leggja undir þjóðaratkvæði. Kannski að áhugaleysi fyrir því verði skýrður á þann veg að viðkomandi valdsmenn voru ekki sérlega meðvitaðir um hvernig lýðræðið á að praktíséra?

Hrunskýrslan verður birt þó svo að seint verði. Við eigum að lesa hana gaumgæfilega og leggja tíma og fyrirhöfn að kyunna okkur efni hennar. Hún verður væntanlega á náttborðum landsmanna innan tíðar og verður sjálfsagt notuð sem ígildi svefnlyfja! Spurning er hvort sala á svefnmeðulum og afslögkunarlyfjum verði minni? Þar kemur væntanlega einhver sparnaður á móti öllu tapinu þó svo að sá sparnaður verði hlálegur miðað við öll hin ósköpin.

Sagt er að reynslan sé dýru verði keypt. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins með Framsóknarflokki hefur reynst okkur dýrt, já mjög dýrt spaug. Það hefði mátt gera margt nytsamlegt fyrir þann auð sem tapaðist og gufaði upp í höndunum á bröskurum sem hafa væntanlega skilað gegnum tíðina drjúgum greiðslum í kosningasjóði þessara spillingaflokka!

Mosi


mbl.is Skýrslan tefst enn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er nýi ritstjórinn fallin niður í Rauðavatnssprunguna? Einkennilegt mat á fréttum Morgunblaðsins

Þegar bornar eru saman fréttaveitur á borð við Morgunblaðið og visir.is þá finnst mér halla mjög á Morgunblaðið.

Á www.visir.is eru margar sláandi fréttir af því sem er að gerast já akkúrat núna. Hér eru örfá dæmi en gamli góði Moggin steinþegir um öll þessi mál.

Er nýi ritstjórinn fallin niður í Rauðavatnssprunguna? Hvar er hjálparliðið?

Mosi

Viðskipti innlent 16. mar. 2010 14:58

Stjórnarformaður OR furðar sig á yfirlýsingum framkvæmdastjóra SA

Guðlaugur G. Sverrisson stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) lýsir furðu sinni á yf...  

Meira

Viðskipti innlent 16. mar. 2010 13:38

Seðlabankinn notaði 15 milljarða til að styrkja gengi krónunnar

Frá því í desember 2008 hefur Seðlabanki Íslands selt gjaldeyri fyrir 15,1 milljarð kr. ti...  

Meira

Viðskipti innlent 16. mar. 2010 12:59

Telja skattsvik í bönkunum nema hundruðum milljarða

Viðskipti innlent 16. mar. 2010 18:41

Skammstöfunin BG ávísun á viðskiptalegt afhroð

Skammstöfunin BG virðist hafa farið verr út úr hruninu heldur flestar aðrar. Björgólfur Gu...  


Mannleg mistök eða skemmdarverk?

Svona mistök eru furðuleg. Að víxla á tveim möguleikum þar sem gríðarlegir hagsmunir eru í húfi eiga ekki að vera til í dæminu. En oft gerist það að ef minnstu möguleikar eru fyrir hendi að mistök verði, þá séu þau gerð.

Kannski að ekki sé útilokað að um skemmdarverk sé að ræða þar sem olíufyrirtækið Atlantsolía hefur boðið viðskiptavinum sínum betri kjör en gömlu olíufélögin sem eru með meiri yfirbyggingu og þar með dýrari í rekstri. Oft hefur verið rothögg á samkeppnisaðila þegar eitthvað áþekkt atvik hefur komið upp.

Líklegra er að um svonefnd „mannleg mistök“ sé um að ræða. Margir eru oft viðutan, kannski þreyttir af allt of mikillri vinnu. Og því miður er oft að allt of margir eru við vinnu sína með hangandi hendi. Það býður hættunni heim.

Hvernig var það hjá íslensku bankastjórunum síðustu misserin fyrir bankahrun? Ráku þeir bankana með hangandi hendi á ofurlaunum?

Hvernig var það með þá stjórnmálamenn sem vildu einkavæða bankana? Gerðu þeir sér ekki minnstu hugmynd um hvað þeir voru að gera? Hættan á að allt færi í tóma vitleysu var alltaf fyrir hendi. Ekkert eðlilegt eftirlit var fyrir hendi með starfsemi þeirra né nein bindisskylda til að tryggja afkomu þeirra.

Líklega verður þeim sem varð þar í messunni að dæla eldsneyti hjá Atlantsolíu rekinn með látum. Því miður virðist enginn þeirra sem báru ábyrgð á bankahruninu gengið fram yfir skjöldu, játað syndir sínar og yfirsjónir sínar og skilað ránsfengnum sem þeir höfðu með illum hug út úr braski sínu?

Nú líður senn að því að skýrslan um bankahrunið alræmda á Íslandi verði lögð fram. Að öllum líkindum má reikna með því að þeir sem sýndu af sér léttúð og jafnvel voru með brask í huga við ákvarðanir sínar, ákærðir og leiddir fyrir dómara.

Kannski það hefði verið einfaldari og léttari leið að vísa Icesave reikningunum og öllu svínaríinu beint til höfuðstöðva Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins til greiðslu. Þessir aðilar bera bæði lagalega sem siðferðislega ábyrgð á bankahruninu sem aðrir verða síðan að svara fyrir!

Mosi


mbl.is Olíufarmi var dælt í rangan tank
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband