Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

Innri maður skiptir meira máli

 

Að mörgu leyti sammála þeirri hugmynd að afnema skyldu að þingmenn beri sérstakt hálstau. Umfram allt eiga ALLIR að vera sómasamlega og hreinir til fara, virða almennar kurteysisreglur sem þingmenn og lögmenn sérstaklega þekkja vel í sínum störfum.

En tímarnir breytast og við sem fylgst höfum með á undanförnum áratugum horfum upp á sitthvað sem breytist mjög hratt. Fyrir um 35 árum mætti einn af kennurum í Lagadeild HÍ í gallabuxum í vinnuna. Sennilega hefur hann fengið einhverjar snuprur fyrir, alla vega hafa einhverjir við þá gömlu og virðulegu stofnun horft tortryggilega og hvasst á þennan nýliða sem storkaði gömlum og góðum gildum í klæðaburði. Meira að segja laganemar á þeim tíma gengu upp í því að koma í tíma í sparifötunum sínum eins og þær væru stórefnamenn og ættu mikið undir sér.

En eru það umbúðirnar sem skipta meginmáli ef innihaldið er feyskt og morkið? Mörgum finnst hálsbindi og annað hálstau vera merki um hégómamennsku, jafnvel tvískynnung. Er ekki talað um hvítflibbaglæpi í sambandi við bankahrunið og öll þau ósköp? Merkilegt er að þingmenn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins vilja óbreyttar reglur í þessum hálstausmálum. Fer þar kannski saman tengsl þessara flokka við aðdraganda að þeim gríðarlegu umskiptum þar sem gríðarleg spilling ekki er útilokuð?

Lengi hefur þessi gallabuxnaklæddi háskólakennari sem áður var vikið að, verið einn af virtustu fræðimönnum þjóðarinnar á sviði lögfræði og þá sérstaklega í Evrópurétti sem nú brennur mjög á vörum þjóðarinnar.

Já er það ekki innri maðurinn sem skiptir meira máli en þau klæði sem maður fer í áður en haldið er af stað í eril dagsins?

Mosi


mbl.is Þingmenn læra góða siði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í áttina

Vextir hafa verið að plaga Íslendinga svo um munar. Þó svo mörgum þyki þróunin vera hæg þá er þetta í rétta átt. Vonandi verður unnt að taka stærra skref næst og að ekki þurfi að bíða lengur en um nokkrar vikur. Spurning er með Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, er hann ekki með puttana í þessu?

Gott er að skulda sem minnst og enn betra að skulda ekkert. Því miður reistu margir sér hurðarás um öxl á veltutímunum, rétt eins og Bjartur í Sumarhúsum. Þessir tímar eru bitrir fyrir alla og mjög miður að stjórnvöld gátu ekki komið í veg fyrir þessi ósköp. Ekki mátti hlusta á varnaðarorð þeirra sem voru vantrúaðir á byggingu Kárahnjúkavirkjunar og einkavæðingu bankanna.

Mosi


mbl.is Stýrivextir lækka í 13%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarahreyfingin byrjar vel

Í ársskýrslum Landsvirkjunar er merkilegt að tekjur af rafmagnssölu er allt í einni upphæð. Þar er slengt saman tekjum frá almenningsveitum og frá stóriðju eins og um´áþekka starfsemi sé að ræða.

Mér hefur alltaf fundist þetta tortryggilegt eins og ekki sé unnt að sýna sundurliðun þessara tveggja tekjuþátta. Hins vegar er sundurliðað hversu mikið af rafmagni stóriðjan hafi notað á liðnu ári sem og almenningsveitur. Þarna gætir ekki samræmis.

Nú mun vera unnt að slembireikna með einfaldri þríliðu en sú útkoma er ekki vænleg til að vera góður umræðugrundvöllur. Hef margsinnis bent á þetta við ýmsa málsmetandi menn þ. á m. þá Landsvirkjunarmenn en án nokkurs árangurs! Það er eins og ekki megi sýna tekjurnar af stóriðjunni, kannski þetta sé eins og nýju fötin keisarans í ævintýri H.C. Andersens.

Kv.

Mosi

 


mbl.is Kvarta til ESA vegna orkuverðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í upphafi skal endann skoða

Í æsku var mér innrætt að gott væri að leggja fyrir og spara það sem ekki þyrfti að nota í brýnar þarfir. Þá var íslenskum börnum gefinn baukur af Landsbankanum sem á stóð: Græddur er geymdur eyrir. Þeir örfáu kaupsýslumenn sem þá voru uppi, töldu að betur hefði verið á barnabaukana: Glötuð er geymd króna. Þá var sem nú gjörsamlega ónýtur gjaldmiðill í umferð, dýrtíð og verðbólga svaf í undirdjúpunum en upphófst sem grimmur dreki og gleypti til sín sparnað landsmanna.

Nú höfum við sparifjáreigendur upplifað annars konar eignaupptöku. Hvort sem formið er langtímasparnaður í hlutabréfum eða hávaxtareikningum bankanna, þá er mikið af þessu horfið. Kaupsýslumenn spruttu upp eins og gorkúlur á skítahaug, Heimdallur og Sjálfstæðisflokkurinn, reyndar Framsóknarflokkurinn einnig, voru n.k. útungunarstöðvar þessara nútíma kaupahéðna. Stjórnvöld seldu ríkisbankana sem án minnstu fyrirhafnar var breytt í n.k. ræningjabæli þar sem eigendurnir afgreiddu sig sjálfa. Þeir kunnu sér engar hömlur meðan allt lék í höndum þeirra. Bókhaldsbrellur sem allt of hátt gengi krónunnar gaf tilefni til, gekk allt til baka, lánsfé sem fengið hafði verið erlendis frá, fékkst ekki framlengt fremur en víxlarnir fyrrum. Tími gjladdaga var upprunninn.

Til allrar óhamingju hefur saklaust fólk verið dregið inn í þessi fjárþrot og gjaldþrot. Sparnuður okkar lenti því miður í höndunum á mönnum sem ekki sýndu neina skynsemi. Þeir hafa unnið baki brotnu við að koma ránsfengnum út landi og hafa óspart beitt öllum tiltækum ráðum. Svo nær réttvísin nokkrum í net sitt. Magnús Þorsteinsson kaupsýslumaður hefur þrátt fyrir að að hafa reynt en orðið of seinn að grípa til þeirra ráða sem aðrir virðast hafa undirbúið mjög vandlega.

Yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins frá 14. ágúst 2008 um að íslensku bankarnir stæðust álagspróf hefur vakið furðu. Var þessi yfirlýsing blekking til að reyna að hafa aftur af tortryggni venjulegs fólks? Var yfirlýsingin gefin út gegn betri vitund til þess að kaupsýslumenn og braskarar fengu aðeins lengri frið að eta bankana og fyrirtækin að innan áður en allt fór í vitleysu?

Hvaða erindi átti breskur braskari Robert Tschengis til Íslands? Hann situr enn í stjórn Existu tryggingafélags sem þúsundir Íslendinga á hlut í en hefur verið gjaldfellt um 99.999% á einungis tveim árum? Hlutur sem kostaði um eða yfir 40 krónur er nú verðlagður á 2 aura. Tveir bræður standa fyrir þessu ásamt fleirum og er kostulegt að þeir nefna sig Bakkabræður. Ef þeir eru að vísa til fáráðlignana Gísla, Eirík og Helga frá Bakka í Svarfaðardal, þá ætti tafarlaust að taka svona herramenn úr umferð og láta þá gera þjóðinni reikningsskap gerða sinna. Hvað olli þessu gríðarlega tapi?

Næstu ár verða okkur Íslendingum erfið, mjög erfið. Við sitjum uppi með vandræði í samfélaginu sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn sameiginlega hafa komið okkur í. Ákvörðunin um Kárahnjúkavirkjun er að öllum líkindum sá örlagapunktur þegar upphafið að núverandi ógæfu okkar verður rakið til. Þó tugir þúsunda Íslendinga töldu að þessi framkvæmd yrði okkur ekki til góðs, var samt unnið sleitulaust að því að berja í brestina og okkur var selt stórgallað góðæri sem ekki var minnsta innistæða fyrir!

Mosi

 


mbl.is Fallist á gjaldþrotakröfu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afdrifaríkt kvöld

Sáralítið hefur verið ritað á heimasíðu Mosa að undanförnu. Ástæðurnar eru auðvitað þær að sitthvað tímafrekt hefur verið að gerast, m.a. viðburðaríkar kosningar en eg var að vinna í undirkjörstjórn í kosningunum. Þá er einnig það sem hér verður greint frá:

Að kvöldi síðasta vetrardag var heilmikill mannfagnaður í Hlégarði í Mosfellsbæ af tilefni 100 ára afmæli UMFA, Ungmennafélagsins Afurteldingar. Þar sem spúsa mín hefur verið mjög virkur þátttakandi í blakdeildinni var henni boðið að sitja kvöldverðarhátíð ásamt maka. Við mættum í Hlégarð í okkar fínasta pússi. Þar spilaði Skólahljómsveit Mosfellsbæjar og yngri sonur okkar með. Síðan var sest að borðum en strákur ók til Reykjavíkur vegna þess að hann hugðist sækja æfingu hjá Lúðrasveitinni Svaninum þá um kvöldið.

Skömmu áður en forréttur var borinn fram, hringdi síminn í vasanum. Í símanum okkar var drengurinn okkar og kvaðst vera búinn að skemma bílinn okkar, gamla Rauð, Toyota Corolla skutbíl, árg. 1997. Við áttum í fyrstu dálítið erfitt með að átta okkur á því sem gerðist en þegar við heyrðum að hann væri á leið með sjúkrabíl á Slysavarðstofuna, leyst okkur ekki meira en svo á blikuna og ákváðum að yfirgefa góða samkomu, pöntuðum leigubíl og ókum til Reykjavíkur. Lögreglumaður hafði nýverið yfirheyrt strákinn okkar og í ljós kom að stórum jeppa hafði verið ekið um Holtaveg þvert fyrir okkar bíl sem kom eftir Sæbrautinni. Tvö vitni báru það að drengurinn okkar hafi verið á grænu ljósi. Þetta var allharður árekstur og sem betur fer slasaðist strákur ekki mikið. Hann er töluvert marinn eftir bílbeltið og handarbrotnaði á hægri hendi, svonefnt boxarabrot að sögn lækna, 4 bein baugfingurs frá fingurgóm. Ökumaður jeppans slapp alveg þó okkar bíll lenti á hlið hans en hann haggaðist varla. Okkar bíll tók 90 gráðu stefnu undan hinum og hafnaði utan í vegarkanti.

Þessi gatnamót eru vægast sagt mjög varhugaverð og við athugun á vettvangi kemur í ljós, að mjög auðvelt er að villast á umferðarljósunum en engin umferðaljós eru austan Sæbrautar fyrir þá umferð sem kemur eftir Holtasvegi frá Langholtsvegi. Hinsvegar eru umferðaljós um 50 metrum austar við næstu gatnamót en þar logar yfirleitt alltaf grænt ljós. Mjög líklegt er að ökumaður jeppans hafi ekki áttað sig á þessum krítísku aðstæðum og hafi þess vegna talið sig hafa ekið móti grænu ljósi. Sérstaklega er varhugavert að aka yfir stöðvunarlínuna á gatnamótum en einmitt á þessum stað sér maður ekki þegar skiptir um ljós.

Af þessu tilefni gerðum við feðgarnir okkur erindi á Umferðarstofu og hittum þar Sigurð Helgason fulltrúa. Kannaðist hann mjög vel við aðstæður á þessum gatnamótum og hefur margoft verið bent á þessa augljósu hættu en borgaryfirvöld virðast ekki hafa minnstan áhuga fyrir að lagfæra þetta og gera ekkert í málinu.

Bílarnir eru báðir mjög illa farnir. Tryggingafélagið sem bætir okkur tjónið hefur afskrifað bílinn okkar og höfum við fengið hann greiddan út.

Nú höfum við keypt nýjan og 6 ára yngri bíl, einnig Toyota Corella skutbíl, ekinn tæpa 100 þús km. Kannski bara vel sloppið en alltaf er eftirsjá af góðum bíl sem alltaf hefur reynst okkur vel. Gamli bíllinn var með dráttarkúlu og það var hreint ótrúlegt hvað við höfum flutt í kerrunni sem við tengdum við hann. Sem skógarbóndi hefur þúsundum trjáplantna verið ekið á milli, girðingarefni af öllu tagi, áhöldum og verkfærum, möl og sandi, brenni og öðrum eldivið, gamlir niðurbútaðir rafmagnsstaurar hafa verið fluttir í Skorradal til pallagerðar og undirstöður fyrir kofa, timbur og húsgögn og sitt hvað fleira sem ærir sjálfsagt óstöðugan. Einu sinni ókum við 4ra metra löngum árabát á bílnum. Það hlýtur að hafa verið kostuleg sjón.

Nú þurfum við að láta setja dráttarkúlu á nýja bílinn. Það verður gott að geta tekið aftur upp þráðinn enda vorverkin í trjáræktinni og garðyrkjunni framundan. Gróðraskúrirnar gefa góðar vonir um gott sumar. Nú þarf að stinga upp garðholuna og setja niður kartöflur og sá gulrótum.

Gleðilegt sumar!

Mosi

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband