Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Þarna hefði getað orðið alvarlegt óhapp

Ljóst er að hver handvömm í olíubirgðastöð getur orðið afdrifarík. Á svipuðum tíma voru unlingar teknir í Borgarnesi sem reyndu að valda miklu tjóni á lögreglustöðinni með „mólótófkokteilum“. Hefðu þessir pörupiltar verið staddir í Örfirisey nálægt olíubirgðastöðinni hefði getað orðið mjög afdrifaríkt.

Fyrir nokkrum árum setti undirritaður fram hugmynd að mögulegri atburðarás í blaðagrein í Morgunblaðinu og vildi sýna fram á mjög alvarlegt hættuástand: Liður í upplausnarástandi væri að þessi olíubirgðastöð væri ráðist á jafnframt sem sprengdur væri upp eldsneytisflutningabill á leiðinni þaðan áleiðis til Keflavíkurflugvallar með eldsneytisfarm. Það ómögulega gæti gerst. Glæpamenn svífast einskis og tækju til óspilltra málanna. Vildi eg meina að þetta gæti verið góður efniviður í glæpasögu einhvers góðs rithöfundar á borð við Einar Kárason. Sjá: http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=832487

Atvik hafa orðið að athafnamenn fóru aðrar leiðir: Í stað þess að beita ofbeldiþá yfirtóku þeir ýms fyrirtæki og gerðu sparifé þúsunda Íslendinga í formi hlutafjár upptækt. Venjulega eru það yfirvöld sem gera ólögmætan gróða eða hagnað upptækan en þarna voru náttúrulega athafnamenninrnir fyrri til. Þeir komu ofurgróða sínum fyrir í skattaparadísum og ætla sér að græða offjár.

Íslensk yfirvöld voru gjörsamlega sofandi á verðinum. Þau meira að segja notuðu Fjármálaeftirlitið til að gefa út villandi yfirlýsingar til þess að róa lýðinn niður að allt væri í himnalagi. Það er Sjálfstæðisflokkurinn sem á meginsök á þessu, á þeim bæ mátti ekki setja neinar reglur um varfærin né öryggi í fjármálaviðskiptun. Allt skyldi vera sem frjálsast.

Mætti biðja guði almáttugum þakkir fyrir að hafa eikki veitt þessum aðila alræðisvald til að koma landinu endanlega til andskotans. Og vonandi mætti koma vitinu fyrir þá herramenn sem n ú stýra þessum voðalega stjórnmálaflokk en þeir hafa flest á hornum sér gagnvart þeim ráðstöfunum sem núeru þó nauðsynlegar.

Mosi

 


mbl.is Stórhætta skapaðist í Örfirisey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leggjum skatt á notkun nagladekkja

Árum saman hefur verið bent á að brýn nauðsyn ber að draga úr nagladekkjanotkun á höfuðborgarsvæðinu. Meðan nagladekk eru annað hvort ekki bönnuð eða skattskyld, þá er ekki von að dragi verulega úr svifryksmengun.

Nú er verið að stórhækka álögur á öllu mögulegu en nagladekkin eru látin í friði. Hvernig stendur á þessu?

Nagladekk auka ekki aðeins álag á heilbrigðiskerfið, þau eyðileggja göturnar og í bleytu verða rásirnar stórvarasamar.

Leggjum skatt á notkun nagladekkja!

Mosi


mbl.is Svifryk yfir mörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einkennileg aðferð - Hver var tilgangurinn?

Það er að öllum líkindum einsdæmi að hæstaréttarlögmaður skrifi opið bréf til saksóknara þar sem kvartað er yfir málsmeðferð. Venjulega hafa slíkar kvartanir verið ritaðar til viðkomandi og tekin þá afstaða til einstaks máls hverju sinni.

Hver skyldi vera tilgangurinn? Er hann sá að vörnin sé nánast með öllu vonlaus enda er alveg ljóst hvað skjólstæðingur hefur gert ámælisvert af sér og varðar hann ábyrgð. Er verið að reyna að draga athyglina frá aðalatriði málsins?

Af hverju er Morgunblaðið að birta þetta? Er einhverjar pólitískar hvatir að baki þeirri ákvörðun? Ekki standa allir borgarar landsins jafnir fyrir að fá birtar grerinar í Morgunblaðinu á jafnáberandi hátt og Karl.

Saksóknari hefur svarað þessu erindi sem er honum til sóma. Það mátti vera ljóst að þetta frumhlaup Karl Axelsson er eins og hvert annað kinnroðalaust klámhögg.

Þetta er vont fordæmi sem hæstaréttarlögmaðurinn sýnir með þessu einkennilega hátterni.

Mosi

 


mbl.is Rannsóknin á vitorði fjölda manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtin nöfn

Skil ekki þessa tilhneigingu að sækja einhver erlend nöfn þó gömul og gild kunna að vera. Arion banki og rekstrarfélagið Stefnir.

Á árunum 2002 og 2003 voru Búnaðarbanki og Landsbanki einkavæddir. Að forminu til voru þeir seldir „kjölfestufjárfestum“ og þúsundir sparifjáreigenda keyptu sér dálitla hluti, flestir fyrir reiðufé, sumir fengu lánað fyrir hlutunum. Þegar liðið var fram á árið 2008 hafði bönkunum verið breytt í ræningabæli þar sem vildarvinir einkavæðingarmanna sóttu sér í bankana umtalsvert fé. Einn þeirra kunnur braskari frá Bretlandi hafði á brott með sér 280 miljarða síðustu vikurnar sem þessi Kaupþing banki var og hét.

Mín vegna má banki þessi heita Ránbanki eða Ræningjabanki með vísan í söguna frá 2008. Þessir bankar eiga ábyggilega eftir að hafa fólk margsinnis að fíflum eins og verið hefur.

Mosi


mbl.is Rekstrarfélag Kaupþings fær nýtt nafn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kinnroðalaust klámhögg

Mál Baldurs er tiltölulega einfalt. Aðferð saksóknara er hárrétt hvað sem verjandinn kann að segja um það. Allt liggur ljóst fyrir: innherjaupplýsingar viðkomandi og að hann hafi nýtt sér þær í viðskiptum sem fáir höfðu yfir að ráða. Glæpur hans er fólginn í að færa sér þessa vitneskju í nyt, selja hlutabréf meðan eitthver verðmæti voru í þeim og þar með festist hann í vef refsilaganna og hefur bakað sér ábyrgð gagnvart þeim.

Í lögfræðinni er til mjög gamalt hugtak, komið úr fornum rómverskum rétti: „Bonus pater familias“.  Það merkir eiginlega „fyrirmyndar fjölskyldufaðir“ og er þetta hugtak oft notað þegar taka þarf til skoðunar og síðar taka ákvörðun um hvort breytni manna hafi verið rétt undir vissum kringumstæðum. Hvað skyldi „Bonus pater familias“ hafa gert í því tilfelli sem um er rætt í þessu tilfelli Baldurs? Hefði „Bonus pater familias“ nýtt sér innherjaupplýsingar til þess að hagnast á kostnað annarra? Sennilega hafna allir dómstólar slíkri spurningu. Viðkomandi hefur ekki tekið rétta ákvörðun um í þeirri trúnaðarstöðu sem hann gegndi að hagnast á saknæman hátt með þessu framferði.

Oft hefur rannsókn í einföldu máli leitt af sér nytsamlegar upplýsingar sem koma að gagni í flóknari málum. Eftir þessu gengur þessi rannsókn. Málsástæður verjandans um að skúrkarnir með stórtækari bortaferil sleppi er því út í hött. Einhvers staðar verður saksóknari að byrja!

Bankahrunið er gríðarlega umsvifamikið og þarf sjálfsagt langan tíma uns öll kurl hafa verið dregin til grafar.

Það tók heil þrjú ár fyrir bandaríska þingnefnd að rannsaka verðbréfahrunið í október 1929. Þessar upplýsingar komu fram í sjónvarpsþætti um upphaf kreppunnar í gærkveldi. Hvað langan tíma tekur að rannsaka bankahrunið á Íslandi haustið 2008 og aðdraganda þess, treystir Mosi sér ekki að geta sér til um. En sennilega tekur sinn tíma að finna og draga fram alla þá þætti sem þar koma við sögu.

Þetta opna bréf hæstaréttarlögmannsins er kinnroðalaust klámhögg til þess fallið að draga athyglina frá þeim saknæma verknaði sem viðkomandi skjólstæðingur ber ábyrgð á. Það er einskis virði.

Mosi


mbl.is Lögmanni Baldurs algjörlega ofboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver hefur ráðgjöfin verið í þessu Icesafe máli?

Eitthvað virðist vera óljóst með þá efnahagslegu ráðgjöf í þessum Icesafe málum. Lágu alltaf þessar staðreyndir fyrir í upphafi?

Góð ráð kunna að reynast dýr en hvað vissu ráðgjafarnir og hvað máttu þeir vita?

Ef svo er þá hefur þing og þjóð verið illilega blekkt. Hverjir það eru sem beitt hafa okkur blekkingum er ekki alveg ljóst. Kannski ríkisstjórnir Breta og Hollendinga? Þetta eru gamlar nýlenduþjóðir sem reyna að komast upp með allan andskotann þegar varnarlitlar smáþjóðir eiga hlut að máli.

Við skulum minnast þess að það var Geir Haarde og þáverandi fjármálaráðherra sem undirrituðu fyrri óhagstæðari samninginn um þetta dæmalausa Icesafe. Sá samningur kann að binda okkur og erfitt að losna undan oki hans.

Þá verður aðdragandinn að hruninu sífellt áleitnari. Hvenær ríkisstjórninni, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka var ljóst að allt var að fara til andskotans, þá hefði verið unnt að hefja björgunaraðgerðir strax. En allt var látið liggja í reyðuleysi.

Einkavæðing bankanna byrjaði í bráðræði og endaði í ráðaleysi.

Mosi


mbl.is Gæti sparað 185 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða mælistika er notuð?

Ljóst er, að ekki er auðvelt að greina spillingu og ekki alltaf unnt að beita sömu mælistöku.

Fyrir nokkrum árum var talað um Ísland sem eitt minnst spilltasta land heims. Gott ef þáverandi ríkisstjórn og forsætisráðherra hafi ekki oft skreytt ræður sínar með þeirri fullyrðingu.

Þegar farið var að tala um nauðsyn þess að setja lög um starfsemi og fjármál stjórnmálaflokkanna á Íslandi brugðust ýmsir illa við. Þannig lenti undirritaður í ritdeilu við fjármálaritara Framsóknarflokksins sem taldi enga þörf fyrir slíkum reglum. Var m.a. rökin þau að spilling þekktist ekki á Íslandi!

Ljóst er, að líkindi eru fremur meiri en minni að alls konar spilling hafi þrifist ágætlega í skúmaskotum ýmsum þar sem fjármál og stjórnmál koma við sögu. Oft er fyrirgreiðsla stjórnmálamanna umbuð með einhverjum hlunnindum. Margar sögur eru til um t.d. óhóflegar gjafir til hinna og þessara í samfélaginu. Þegar heildsalar voru fyrirferðamikil stétt í samfélaginu áður en Jóhannes í Bónus gróf undan henni, þá voru oft starfsmenn uppteknir langt fram á aðfangadagskvöld að koma sposlum til velunnara fyrirtækisins. Hvernig er með t.d. þá sem hafa gríðarlega hagsmuni við að tekin sé „skynsamleg“ ákvörðun í opinberri stjórnsýslu þannig að t.d. byggingalóðir verði margfalt verðmeiri en áður var? Hvernig skyldi vera með stóriðjuna? Skyldu mútur og aðrar fyrirgreiðslur vera stundaðar til að „liðka fyrir“ og hraða ákvarðanatöku? Hvernig stóð á því að Impregilo stóð á baki gjaldþrots um mitt ár 2002 en gengið var til samninga við fyrirtækið á undraverðum hraða þá um haustið. Sama fyrirtæki lenti í miklu hneyksli í Suður Afríku nokkrum árum fyrr og hvers vegna skyldi ekki svipuðum aðferðum verið beitt gagnvart íslenskum aðilum?

Það var hreint furðulegt hve margir urðu blindir á ýmsar staðreyndir og vildu óðfúsir vaða í þessar stórkarlalegu framkvæmdir þrátt fyrir aðvaranir hagfræðinga um glannalega lendingu. Í framhaldi af þessu voru ríkisbankarnir einkavæddir og sumum þeirra komið í hendur á mönnum sem kannski höfðu meiri þekkingu á fótboltasparki á Englandi fremur en rekstri bankastofnunar. Þar var farið mjög frjálslega með frelsið svo ekki væri meira sagt. Samfélagsleg ábyrgð var að engu höfð undir lokin og bönkunum breytt í ræningjabæli.

Margt ótrúlegt kom yfirvöldum í opna skjöldu varðandi þessa Kárahnjúkaframkvæmd. Þvílík uppákoma strax í upphafi með ótrúlega lélegar aðstæður verkamanna á hálendinu. Þáttur þessara starfsmannaleigna virðist ekki hafa verið undirbúinn þar sem eðlilegar skattgreiðslur starfsmanna til ríkisins og sveitarfélaga voru hindraðar. Hver skyldi hafa notið góðs af þessu? Þjóðlendubrambolt ríkisstjórnar Geirs Haarde var til þess fallið að draga sem mest úr væntanlegum bótagreiðslum til landeigenda. Auðveldara var að leggja einfaldlega lönd bænda og sveitarfélaga undir ríkið með aðferð Stalíns og annarra áþekkra kumpána.

Eftir höfðinu dansa limirnir. Voru ekki fleiri margvíslegir maðkar í mysunni?

Íslenskt samfélag er mun spilltara en við höfum talið fram að þessu. Við verðum að viðurkenna það og gera upp við fortíðina. Því fyrr þess betra!

Mosi

 


mbl.is Ísland lækkar á spillingarlista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpir borga sig ekki

Sú var tíðin og sagt að glæpir borgi sig ekki. Það hefur þessi innbrotsþjófur heldur en ekki reynt og sannað eftirminnilega.

Sennilega hefði einhver af gamla skólanum gripið kauða glóðvolgann þar sem hann sat fastur í gluggaborunni, dregið niður nærurnar og rassskellt hann opinberlega honum til enn meiri háðungar og öðrum illum skálkum til strangrar aðvörunar!

Mosi


mbl.is Þjófur gripinn með allt niðrum sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ókostir smáþjóðar

Þegar upp kemur stór vandkvæði á borð við bankahrunið þá koma ókostir að vera smáþjóð augljóslega í ljós: víða eru hagsmunatengsl og þeir sem vilja fylgja lögum og reglum reka sig á að hvarvetna eru ljón á veginum. Meðal smáþjóðar er stjórnkerfið meira og minna gegnumsýrt af samábyrgð og jafnvel spillingu af ýmsu tagi.

Meðal stærri þjóða komast menn ekki upp með annað eins og á Íslandi. Þar er eftirlit og aðhald miklu virkara. Þar verða menn að haga sér eftir þeim réttarreglum og venjum sem gilda. Frænsemi og vinskapur nær ekki upp á pallborðið.

Þegar Ísland var hluti af danska ríkinu þá gerðu stjórnarherranir í Kaupmannahöfn sér fylliglega grein fyrir þessu. Hingað voru ráðnir erlendir háembættismenn en íslenskir menntamenn gátu vænst frama annað hvort í Danmörku eða Noregi þar sem engir frændur og vinalið var fyrir. Jafnskjótt og dönsku stjórnarherrarnir „gleymdu“ sér þá var eins og spillingin og samábyrgðin fengi að skjóta hér rótum. Margir Íslendingar telja það hafi verið mikið lán að Skúli Magnússon hafi verið skipaður landfógeti árið 1749. Um það þarf sennilega ekki að deila en hann átti þátt í að Ólafur Stefánsson bókari við Innréttingarnar var skipaður varalögmaður og síðar amtmaður. Sá maður tók sér ættarnafnið Stephensen og varð stiptamtmaður, landsstjóri Dana á Íslandi árið 1790. Hann var ættfaðir Stephensen ættarinnar sem bar ægishjálm í stjórnkerfinu á Íslandi frá lokum 18. aldar og fram yfir aldamótin 1900. Ólafur þótti mjög duglegur embættismaður en ráðríkur, kom ættmönnum sínum í æðstu embætti og var mjög drjúgur til auðssöfnunar.

Kunn eru ummæli Sveins Pálssonar náttúrufræðings og síðar landlæknis um Yfirréttinn á Öxarárþingi árið 1793. Þessi dómstóll var skipaður sjö mönnum: Ólafur stiptamtmaður var í forsæti og með honum í réttinum voru 3 synir hans. Auk þeirra voru sýslumenn tveir, báðir systursynir Ólafs. Aðeins einn dómari Yfirréttarins var ekki í fjölskyldunni eða tengdur henni. Þótti Sveini þetta vera einkennilega skipaður dómstóll sen svona tíðkaðist það fyrrum. Einkavinavæðingin hófst snemma til vegs og virðinga á Íslandi!

Aldrei kom fyrir að Yfirdómurinn væri ruddur vegna hagsmunaárekstra. Þó urðu oft deilur og málaferli á þessum árum sem snertu hagsmuni Stephensenættarinnar.

Mosi


mbl.is Ráðherrar fyrir dóm?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tökum enga áhættu

Ásóknin í íslenskar orkulindir heldur áfram. Margt er óljóst og sumt með öllu óskiljanlegt í þeim efnum.

Kannski var farið of geyst í þessi mál á undanförnum árum. Oft er stígandi lukka betri en að taka of stór skref í einu eins og afleiðingin blasir nú við: Gríðarlegar skuldir Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur. Þá eru ótalin fyrirtæki sem tengjast orkumálum sem ratað hafa í ógöngur: Atorka, Geysir Green Energy og Jarðboranir. Þessi þrjú fyrirtæki tengjast mjög mikið en Atorka og GGE voru nátengd og Jarðboranir voru í eigu þeirra.

Margir einstaklingar eiga sparifé sitt bundið í hlutabréfum í Jarðborunum, síðar Atorku sem nú er í mikillri hættu að verði afskrifað vegna fjárhagslegra erfiðleika. Við sem erum í þessari stöðu, erum ekki til að afskrifa sparifé okkar.

Það er mjög mikilvægt að unnt sé að halda þessum íslensku fyrirtækjum uppi og koma í veg fyrir skammtímasjónarmiða að aðgangur að íslenskum orkulindum verði allt í einu í eigu erlendra fyrirtækja. Þau kunna að vera jafn illa stödd og íslensku fyrirtækin, kannski að hagur þeirra sé jafnvel enn verri.

Hitt er svo annað mál að við eigum að taka upp samvinnu við erlenda aðila um verkefni erlendis. Þar er víða mikil og vannýtt orka í jörðu sem bíður eftir því að sé sótt í iður jarðar og nýtt til rafmagnsframleisðu og upphitunar húsa. Sem stendur er verkefnastaðan hér innanlands þannig að varla verður farið í jafn umsvifamiklar framkvæmdir og verið hefur að undanförnu, m.a. vegna allt of mikillrar skuldasöfnunar HS, OR og Landsvirkjunar. Þessi fyrirtæki fá ekki lengur hagstæð lán á alþjóðamarkaði eins og áður mátti reikna með. Munu þessi fyrirtæki samtals skulda nú nálægt 1000 milljörðum sem er ekki ásættanlegt.

Mosi


mbl.is Magma Energy tapaði 2,7 milljónum dala
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 24
  • Frá upphafi: 243586

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 24
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband