Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

Hvað er „ferðaiðnaður“?

Hvenær ætla blaðamenn að læra íslensku? Því miður eru alltof margir sem hugsa ekki á íslensku heldur en einhverju öðru máli. Hvað er eiginlega „ferðaiðnaður“? Er þar um einhverja framleiðslu í þágu ferðamanna t.d. framleiðsla minjagripa eða kannski pulsugerð? Orðið iðnaður er aðeins ein þýðing á enska orðinu „industry“. Og þar með „tourist industry“ þýtt hrátt sem „ferðaiðnaður“.

Orðskrípið „ferðamannaiðnaður“ er af sama toga.

Sem leiðsögumaður einkum erlendra ferðamanna um landið okkar nam eg fræði mín hjá afburða kennurum í Leiðsöguskóla Íslands. Okkur var ekki aðeins kennt sitthvað sem nýtist okkur í okkar góða praxís heldur var okkur einnig að varast sitthvað. Ekki aðeins hættur í náttúru landsins eða umferðinni heldur að við ættum að nota rétt orð. Sum orð ber að varast, oft af gefnu tilefni.

Allt of oft og allt of margir falla í þann pytt að varast ekki að erlend orð hafa oft fleiri en eina merkingu, ekki síður en í íslensku. Þessi eiginleiki tungumáls lýsir hve lifandi það er.

Mosi


mbl.is Færri sækja Bretland heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Eru hér farin að myndast bófafélög?“

Pétur Benediktsson er maður nefndur. Hann var bankastjóri, bróðir Bjarna Benediktssonar prófessors, borgarstjóra í Reykjavík og ráðherra. Pétur var mjög vinsæll sem bankastjóri Landsbankans og fóru ýmsar sögur af honum. Einhverju sinni kom maður að vestan sem gekk undir því kostulega nafni Dósóþeus Tímateosson í bankann og bað um lán. Þó svo að „Dósi“ liti ekki sem best út en hann átti oft náin kynni við Bakkus, þá kvað Pétur upp að þar sem þetta nafn væri ekki aðfinna í skrám bankans væri ekki ástæða til að hann færi úr bankanum án þess að hafa verið veitt einhver úrlausn.

Þann 27.febrúar 1964 hélt Pétur erindi í útvarpinu sem vakti gríðarlega athygli. Í þættinum „Um daginn og veginn“ sem Jón Eyþórsson veðurfræðingur var einna lengst tengdur við, kom Pétur inn á sem þá var ofarlega á baugi meðal Íslendinga:

„Þótt margt ljótt hafi orðið uppvíst nú að undanförnu, fer því víðs fjarri, að öll kurl séu komin til grafar. Það er örugglega víst, að hér eru farin að myndast bófafélög, sem stunda margar tegundir glæpa ogþar sem hver sakamaður styður annan með ráð og dáð. Íslenska rannsóknarlögreglan ræður ekki við þennan vanda í dag, þegar af þeirri ástæðu, að hún er of fámenn ennfremur er þörf á sérmenntuðu lögregluliði til þess að fást við þennan lýð.“

Ljóst er að þessi varnaðarorð eiga nokkuð vel við í dag.

Mosi


Margt er sambærilegt: 1939 og 2009

Þegar Adolf Hitler kanslari hóf innrás herja sinna inn í Pólland aðfaranótt 1. september 1939 var engrar miskunnar að vænta. Innrásin var vel undirbúin og lið allt vel út búið, rétt eins og nú. Breski sendiherran í Berlín reyni alla nóttina og allan þann dag að ná tali af kanslaranum án nokkurs árangurs. Tilefnið var að reyna að fá þýska kanslarann að draga herlið sitt til baka enda voru hagsmunir Breta og Frakka gríðarlegir. Bretar og Frakkar höfðu nefnilega í milliríkjasamningum við Pólverja skuldbundið sig að tryggja landamærin milli Þýskalands og Póllands. Kanslaranum þýska var ekki hnikað, hann fór sínu fram hvað Bretum og Frökkum viðkom. Þann 3ja september lýstu Bretar og Frakkar stríði gegn Þýskalandi enda var engu tauti við hann komið. Þrátt fyrir að þeir voru engan veginn tilbúnir að sýna þessum friðarspilli neina hörku var farið af vanefnum út í stríð sem varð brátt eitt allsherjar bál. Ekki var aftur snúið.

Ísrael er stýrt af mjög herskáum og siðlausum mönnum, rétt eins og Þýskalandi 1933-1945. Því miður hafa þeir hagað sér vægast sagt mjög harkalega gagnvart Palestínumönnum undanfarin ár og bera fyrir sig flugskeytaárásir frá Hamas. Hví í ósköpunum er ekki unnt að koma í veg fyrir aðflutninga á þessum flugskeytum þegar matarskortur og vatnsleysi hefur þjakað hálfa aðra milljón Palestínumanna á Gaza? Léttara hefði verið að koma í veg fyrir að herskáum Hamas liðum berist þessi vopn, t.d. með góðri samvinnu við Egypta en talið er að megnið af því sem smyglað er frá suðri.

Nú hefur um 1000 manns verið felld. Þetta eru morð af yfirlögðu ráði á ábyrgð þeirrar klíku sem stýrir Ísrael um þessar mundir. Að nota fosfórsprengjur er sérkapítuli fyrir sig sem alþjóðasamfélagið er alveg gapandi af undrun hvers vegna þeir leyfa sér svomikla grimmd.

Fjöldi Gyðinga er mjög ósammála ríkisstjórninni enda er þeim meira virði að lifa í góðu landi meðal vinveittra þjóða. Þeir gera sér grein fyrir að upphaflega gerðu Gyðingar sig n.k. boðflennur að setjast að í landi sem öðrum tilheyrði. En svona geta gamlar bækur haft mikil áhrif að þeir trúðu enn sem meira en 3.000 ára gamlir textar sögðu að landið tilheyrði þeim! Auðvitað var töluvert af landi keypt og það er auðvitað góð aðferð að eignast land. En þetta er önnur saga.

Aldrei er unnt að rækta friðsamleg samskipti þegar ríkisstjórnin er sífellt að eyðileggja þann ávinning sem náðst hefur. Árið 1994 deildi Arafat friðarverðlaunum Nóbels við ísraelsku stjórnmálamennina Rabin og Peres. Nú féll Rabin fyrir kúlu frá morðingja sínum sem var mikill öfgasinni, bókstafstrúarmaður. Peres virðist vera orðinn umskiptingur, þessi fyrrum friðsami maður er nú í þeirri stöðu að réttlæta myrkraverkin.

Einkennilegt er, að ríkisstjórn Ísraels hafi ekki viljað feta þá slóð sem þeir félagar Nelson Mandela og Desmond Tutó fetuðu þá apartheid stefnan var afnumin í Suður Afríku. Flestir voru á því að þau gríðarlegu þjóðfélagslegu viðfangsefni væru nánast óleysanleg og allt stefndi í blóðugt uppgjör. En með framsýni sinni kveður Mandela forvera sinn, de Clerk, sér til aðstoðar. Mandela vill að þeir sameinginlega leiði alla íbúa Suður Afríku fram hjá borgarastyrjöld. Þetta hefur tekist, kannski ekki alveg en með fremur fáum hnökrum. Hvers vegna í ósköpum var ekki svipuð leið farin fyrir botni Miðjarðarhafsins?

Að sigra í stríði er auðveldur leikur fyrir þann sem hefur yfir nægum og góðum her og hergögnum að búa. Að sigra friðinn hefur alltaf vafist fyrir þessum sömu aðilum. Napóléón var mjög snjall herforingi sem er sá fyrsti í sögunni síðan í fornöld sem fremur valdarán í byltingu með her sínum. Hann reyndist vera hinn versti klaufi bæði í stjórnmálum sem og kvennamálum. Mættu margir taka sér það til alvarlegrar athugunar.

Þegar ísraelski herinn hefur skotið til bana síðustu friðardúfurnar þá er ekki von á neinu góðu. Kannski að nú sé einasta vonin að Þjóðverjar felli niður stríðsskaðabætur vegna gyðingaofsóknanna á sínum tíma. Þýskir skattgreiðendur hafa fyllstu ástæðu til að ætla, að verulegum hluta af þessu mikla fé sé varið til hergagnakaupa til að brjóta á hagsmunum 3jaaðila. Tilgangur bótanna er brostinn!

Kannski þeir sem eiga nú sárt um að binda á Gaza eigi siðferðislega meiri rétt til slíkra greiðslna, kannski frá Gyðingum?

Mosi

 


mbl.is Hörðustu árásir á Gasaborg til þessa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað var samið?

Spurning varðar um hvað var samið? Hvenær átti að inna greiðslur, hvernig og hvar? Er möguleiki á að um einhvern misskilning sé um að ræða? Kannski hafi verið einhverjir fyrirvarar sem ekki er getið um?

Þá er spurning hvort einhverjar blekkingar hafi verið stundaðar.

Einnig hvort um hafi verið samið að greiðslur hefðu átt að vera beint til skattaparadísa eyjanna í karabíska hafinu.

Þetta mál er eitt af mörgum sem þarf að kanna gaumgæfilega. Þar duga engin vettlingatök.

Mosi


mbl.is 25 milljarða króna greiðsla týnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grafaræningjar

Braskari játar ásökunum í blaðagrein:

Agnes Bragadóttir er einn skeleggasti blaðamaður íslensku þjóðarinnar. Hún hefur flett ofan af ýmsu sem miður fer í okkar samfélagi og á dögunum ritaði hún um spillinguna sem stungið hefur sér niður með fullum þunga í íslensku samfélagi.

Um helgina tók Agnes fyrir þessi einkennilegu fyrirtæki: Exista og Kjalar en eins og kunnugt er, þá kröfðust forsvarsmenn fyrirtækja þessara að úr þrotabúi Kaupþings yrði greiddar 650 milljarðar evra til fyrirtækja þessara. Þetta er gríðarlega há fjárhæð og þykir mörgum þessir herramenn sýna mikla bíræfni að krefjast þess að fá þessa milljarða á tvöföldu gengi Seðlabankans.

Í gær, mánudag ritar forstjóri Kjalars svargrein gegn umfjöllun Agnesar: „Lán og varnir - Agnesi svarað“. Þar leggur hann áherslu á að „unnið hafi verið af heilindum“ við að gæta hagsmuna þessa braskfyrirtækis!

Við lestur þessarar greinar er ekki annað unnt að lesa en aðþar komi fram játningar braskara um að hafa tekið stöðu gegn krónunni til þess að auðga sig meira en nokkur annar hafði aðstöðu til. Óvenjulegt er að lögregla þurfi ekki einu sinni að fá fram játningu grunaðs manns við yfirheyrslu. Viðkomandi kemur upp um sig sjálfur og mætti þessi grein verða öllum til alvarlegrar umhugsunar hvernig komið er í okar samfélagi.

Venjulegur hluthafi í Exista hefur orðið fyrir gríðarlegu tapi. Í höndunum á þessum fjárglæframönnum eru hlutir litlu hluthafanna nánast orðið einskis virði án þess að nokkrum vörnum væri komið við.

Því miður hefur sálarlaus braskarahugsunarháttur orðið gegnsýrður huga sumra landa okkar. Þeir haga sér eins og óprúttnir grafaræningjar sem brjóta sér leið inn í gamla helgidóma til að ræna og rupla öllum þeim fémætum sem þar er að finna. Lengi vel sóttu ræningjar fornar grafir faróa Egyptalands í píramítunum. Spænskir ribbaldar eyddu Azteka- og Inkaríkjunum sem staðið höfðu í aldir ef ekki þúsundir ára. Sjóræningjar hafa vaðið uppi í aldir og valdið miklu tjóni víða um heim. Svo koma þessir fuglar og krefjast að fá refjalaust afhentar eignir úr þrotabúi banka sem nema ríkisútgjöldum meira en tveggja ára fyrir snúð sinn! Þeir kveða sig vera vel að þessum auð komnir enda hafi þeir „unnið að heilindum“! Kannski umfram aðra þjóðfélagsborgara sem í svita síns andlits hafa lagt fyrir af sparnaðisínum dálitla fjármuni til kaupa á hlutabréfum, annað hvort sjálfir eða gegnum lífeyrissjóði landsmanna.

Því miður virðist engin ákvæði hegningarlaganna ná yfir svona herramenn en verkin þeirra sýna og sanna okkur sem verðum að leggja á okkur gríðarlegt ok á næstu árum.

Þessir menn mættu gjarnan skammast sín - ef þeir kunna það!

Mosi


Ráðherra á fjöllum?

Guðlaugur Þór virðist vera ráðherra þar sem hver vandræðagangurinn rekur annan. Hann er sagður vera alveg úti á þekju þegar mikilvæg mál koma til umræðu. Hann leggur fram hugmyndir um gríðarlega breytingu á heilbrigðiskerfi þjóðarinnar án þess að bera undir mikilvæga embættismenn eins og landlækni.

Á Þrettándanum fór síðasti jólasveinnin eftir gömlu þjóðtrúnni á fjöll. Vel hefði verið að Guðlaugur Þór hefði brgðið sér í gervi jólasveinsins og haldið í humátt á eftir þessum gömlu sveinkum sem voru álitnir miklir kjánar enda aldir upp af þeirri skrýtnu Grýlu.

Mosi


mbl.is Guðlaugur kemur af fjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Sjálfstæðisflokkurinn að bregðast þjóðinni?

Þetta er alveg skelfilegt. Hér er um meira en 2 milljónir á hvert mannsbarn í landinu. Hvernig mátti þetta verða? Hvernig stjórnun höfum við haft í landinu?

Hvar eru breiðu bökin?

Mosi


mbl.is Ríkið skuldar 653 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnismerki um Icesafe

Sumir landa okkar vilja setja upp minnismerki um allt mögulegt og af ýmsu tilefni. Þannig eru styttur mest af einhverjum köllum út um alla Reykjavíkurborg og hefur margt skondið fallið til í umræðunum í því sambandi. Þessi styttudýrkun hófst fyrir fyrir rúmri öld þegar sjálfsmynd af Bertel Thorvaldsen var komið fyrir á Austurvelli. Sjálfsagt hefði styttan mátt vera þar áfram en leyfa styttunni af honum Nonna vera einhvers staðar annars staðar. Þegar styttan af Jónasi Hallgrímssyni hafði verið sett upp, hneyksluðust ýmsir á því að Jónas væri ekki sýndur í beinstífum pressuðum buxum! Þvílíkt hneyksli skrifaði einhver.

Á Hveravöllum er minnismerki um Fjalla-Eyvind og Höllu.  Það er mjög táknrænt og sýnir ekki persónur. Grjót og rimlar eru efnið sett saman á mjög myndrænan hátt.

Nú eru afleiðingarnar af þessum Icesafe reikningum bankanna að sliga Íslendinga. Öll umræða samfélagsins snýst orðið að mestu um þessi afglöp. Væri ekki tilvalið að útbúa minnismerki um þessi Ícesafe mistök? Lagt er til að útbúa gínu í íslenska þjóðbúninginn og leggja eins og 50 tonna bjarg ofan á fjallkonuna. Klappa mætti skýrum stöfum orðið ICESAFE á áberandi stað á bjargið. Minnismerki af þessu tagi þyrfti ekki að kosta mikið, aðallega væri flutningur á bjarginu og að koma því fyrir.

Spurning væri að koma þessu minnismerki framan við breska sendiráðið enda færi vel á því. En það myndu ekki margir rekast á það þar.

Þá er Austurvöllur að koma bjarginu framan við dyrnar á Alþingishúsinu? Kannski hentar það ekki því okkur veitir sennilega ekki af Vellinum til að mótmæla ríkisstjórninni næstu vikurnar og jafnvel mánuði því hún vill ekki ljá máls á að neinn beri ábyrgð á vitfirringunni og ekki verði kosið í vor.

Því mætti þess vegna koma þessu minnismerki fyrir framan gamla tukthúsið, sjálft Stjórnarráðið milli styttanna af Hannesi Hafstein og Kristjáni níunda (sem sumir útlendingar undrast mjög, er þetta ekki bréfberi? spyrja sumir). Færi vel á því að ráðherrar þyrftu að taka á sig smákrók þá þeir ættu leið í Stjórnarráðshúsið.

Þessari hugmynd er komið á framfæri hér með.

Mosi


Davíð er dýr!

Gervigóðærið sem ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar kom á með byggingu Kárahnjúkavirkjunar leggst með fullum þunga á okkur Íslendinga. Allt skynsamlegt fólk vissi um þetta og hafði VG varað við þesari framkvæmd á sínum tíma af þessum ástæðum. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur kveðið úr um að þessi aðvörun átti við rök að styðjast: Kárahnjúkavirkjun var of stór framkvæmd fyrir örsmáa hagkerfið íslenska.

Útgerðin og ferðaþjónusta átti við mjög erfið ár að etja vegna allt of hás gengis. Á síðasta ári er greinilegt að bnkarnir tóku afstöðu með bröskurunum gegn krónunni. Ferðaþjónustan og útgerðin bar allt of lítið úr býtum og fengu of lítið fyrir gjaldeyrinn sem þeir fengu sem greiðslur fyrir seldar vörur og þjónustu.

Nú hafa stýrivextir verið með þeim hæstu í Evrópu um allmörg ár og jafnvel heiminum öllum. Fyrirtæki landsins hafa lent í gríðarlegum erfiðleikum mörg hver. Það fjarar hratt undan fjárhag þeirra og einstaklinga. Fjöldagjaldþrot eru fyrirsjáanleg.

Á öllu þessu ber Davíð Oddsson fulla ábyrgð! Davíð er dýr!

Mætum sem flest á friðsaman mótmælafund í dag!

Mosi

 


mbl.is Fyrirtæki hanga í snöru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirminnilegt kvöld

Í gær var góður heimilisvinur hjá okkur í heimsókn og þá bar eðlilega margt á góma það sem efst er á baugi. Um morguninn fór fram útför Freysteins Sigurðssonar jarðfræðings, mikils öðlings og óvenju gáfumanns. Rifjaði gestur okkar samskipti sín við hann og var þar margt mjög óvenjulegt og broslegt sem þeir félagar brölluðu. T.d. lentu þeir í því sem ungir stúdentar að lenda út af veginum við brúna yfir Bægisá í Eyjafirði. Voru þeir stálheppnir að verða ekki fyrir líkamstjóni eða dauða en þeir voru á leið suður í jeppa eftir rannsóknarleiðangur á vegum Orkustofnunar.

Sjálfur minnist eg Freysteins á fundum Skógræktarfélags Íslands, Ferðafélags Íslands, Hins ísl. náttúrufræðifélags og ekki síst Landverndar. Fyrir nokkrum árum var aðalfundur Landverndar haldinn á Hellissandi og í langferðabifreiðinni sagði Freysteinn okkur frá á sinn skemmtilega og eftirminnilega hátt frá lábörðu fjörugrjóti neðst í hlíðum Akrafjalls, rétt við norðurop Hvalfjarðarganganna, leifum af hval sem fannst í malarnámu norðan í sama fjalli og bylgjunum á veginum um mýrarnar þar norðar. Kvað Freysteinn að þarna væri „versta sjólag á þjóðvegakerfi landsins“ og útskýrði jarðlögin þar undir og sögu vegagerðar. Þegar kom vestur í Melasveit sagði hann frá jökulgörðunum sem þar má sjá. Kvaðhann jarðfræðinga lengi vel hafa verið mjög ósátta hvaðan þeir garðar væru upprunnir, úr Borgarfirði eða Hvalfirði. Þegar efnarannsóknir höfðu verið framkvæmdar af fjölda sýna kom í ljós að allir höfðu haft á réttu að standa því þarna höfðu komið skriðjöklar nánast úr flestum áttum og hrært þessum mikla efnivið í garðana. Féllust þá jarðfræðingar landsins í faðma!

Góðar minningar eru tengdar nafni Freysteins en hann var afburða höfundur texta. Ber t.d. Árbók Ferðafélags Íslands 2004 um Borgarfjarðardali vitni um bæði mikla þekkingu og frásagnartækni Freysteins. Allt varð eftirminnilegt í sögum hans og verður lengi í minnum.

Þá ræddum við mikið saman um stríðið sem nú geysar fyrir botni Miðjarðarhafsins. Minntumst við hjónin á gönguferð yfir Arnarvatnsheiði fyrir um 20 árum. Þá var Úrsúla konan mín leiðsögumaður á vegum Arinbjarnar Jóhannssonar ferðaþjónustubónda á Brekkulæk með þýskumælandi ferðamenn. Var farið frá Húsafelli um Surtshelli, Álftakrók, Fljótsdrög, Lónaborg og áfram norður í Miðfjörð. Þar sem hópurinn var ekki fullskipaður fékk eg leyfi að fara með og var það að mörgu leyti heppilegt því með í för var Ísraeli nokkur. Hann var mjög stæðilegur á besta aldri og starfaði sem öryggisvörður í sendiráði Ísraels í einu landi Evrópu. Hann var í fyrstu mjög tortrygginn að vera innan um hóp tómra Þjóðverja og einungis eins Íslendings! Hvergi var sími í einföldum skálunum á Heiðinni en fyrir honum var lagt að hringja daglega og láta vita af sér. Eðlilega varð honum brugðið en brátt varð hann heillaður af fegurð, friðsæld og kyrrð náttúrunnar. Átti hann vart orð í eigu sinni hversu við Íslendingar værum auðugir af öllu þessu góða vatni sem streymdi án afláts engum að gagni. Í gestabókina að Brekkulæk hjá Arinbirni ritaði hann einhverja þá fegurstu færslu sem eg hefi lesið. Þessi maður frá þessu fjarlæga landi hvatti okkur eindregið að standa vörð um þetta fagra og óspillta land og sparaði hvergi aðdáun sína á hversu landið er bæði fagurt og íbúar vinsamlegir. Sjaldan hefi eg að leiðarlokum hitt jafn heillaðan ferðamann og þennan öryggisvörð sem hafði alið mestan sinn aldur við ótta og tortryggni í sínu nánasta umhverfi.

Það mættu fleiri en íslenskir jarðfræðingar fallast í faðma og sýna í verki að við viljum öll gjarnan lifa í friðsamari veröld. En við þurfum auðvitað að sýna trú okkar og von í verkunum okkar!

Mosi 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 25
  • Frá upphafi: 243587

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 25
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband