Góðar athugasemdir

Steingrímur J hefur sem flestir Íslendingar sem hugsað hafa eitthvað um þessi eilífðar varnarmál, komist að þeirri niðurstöðu að þessi leið sem bæði er rándýr og kemur að sáralitlu gagni nema auðvitað fyrir þá sem framleiða hergögn.

Við Íslendingar höfum frá aldaröðli átt þá gæfu að vera nánast vopnlaus þjóð. Varnir hafa aldrei komið að neinu gagni og kom það berlega í ljós í Tyrkjaráninu. Á Skansinum við höfnina á Heimaey voru fallstykki sem ekki komu að neinum notum.

Árið 1809 var gerð bylting á Íslandi af hálfri tylft breskra háseta á kaupfari undir stjórn Jörgens Jörgensens. Þeir voru einungis vopnaðir pístólum. Hvað hefði gerst ef danski landsstjórinn hefði haft herflokk og vopn til varnar? Og hvað með 10. maí 1940 ef einhver háttsettur í íslenska stjórnkerfinu hallur undir Þjóverja hefði gefið skipun um að verjast hersetunni? Sennilega orðið blóðug átök og margir fallið.

Því miður eymdi enn eftir af fornum hetjudáðum þegar þrjár áhafnir spænskra hvalveiðiskipa voru stráfelldar á Vestfjörðum 1615.  Kannski að ástæðan hafi verið of mikið af vopnum, hatur, tortryggni og skilningsleysi að leysa þessi vandræði sem Baskarnir höfðu ratað í. Sá maður sem vildi leysa þessi mál var hins vegar gerður héraðsrækur en það er önnur saga.

Ætli það sé ekki gæfa íslensku þjóðarinnar að hér hefur aldrei verið innlendur her. Þörfin hefur aldrei verið og mun sennilega aldrei verða.

Hafi Steingrímur J. þökk fyrir góða ábendingu með bókun sinni í utanríkismálanefnd í dag.

Mosi - alias 

 


mbl.is Steingrímur gagnrýnir stefnu í utanríkismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 

Þar sem þú býrð til sérstaka færslu úr andsvari þínu við athugasemd minni við fyrri færslu læt ég hana birtast hérna líka: 

Það er athyglisvert að þú skulir nefna Tyrkjaránið sem dæmi.

Frá því um aldamótin 1500 hafði konungsvaldið sent herskip til Íslands nokkuð oft. Um 1600 voru þessar skipakomur orðnar reglulegar um hvert vor, þegar siglingatíminn hófst. Á þessum tíma dregur mjög úr átökum við útlendinga á Íslandi. Eitt árið dróst herskipskoman fram á mitt sumar. Hvaða ár skyldi það nú hafa verið? Það var árið 1627.

Varnirnar í Heimaey voru í niðurníðslu en voru bættar eftir ránið. Það var auðvitað fremur seint að byrgja brunninn þá.

En ég vil undirstrika það að Ísland var lengst af ekki herlaust land. Það var hluti af ríki Danakonungs. Það ríki hafði varnir.

Koma Jörundar fylgdi í kjölfar þess að Bretar eyddu danska flotanum 1801. Heldurðu að hann hefði komið með hásetana sína sex ef hér hefðu verið einhverjar staðbundnar varnir líka?

Við vorum heppin að það voru Bretar sem komu 1940. Ráðamenn á þeim tíma gátu ekki vitað það fyrirfram og því var það vanræksla af þeirra hálfu að hafa engar varnir. Bretar réðu hafinu og því var það borin von fyrir Þjóðverja að reyna að taka landið eftir að Bretar voru á annað borð komnir. Ef þjóðverjar hefðu hinsvegar komið fyrst er það mjög trúlegt að það hefðu orðið hörð átök hérna.

Landið er það verjanlegt að Íslenskur her hefði getað stöðvað þjóðverja í flæðarmálinu með stuðningi breska flotans. Það hefði verið mun bærilegra fyrir allan almenning.

Ef þú keyrir án öryggisbeltis og lifir það af, var það þá skynsamleg ákvörðun?

Aðrar þjóðir geta haldið upp lögreglu og skólakerfi samhliða því að halda uppi vörnum. Ef við ætlum að vera með sjálfstætt ríki hérna þurfum við bara að læra þá list. Það er langt því frá sjálfsagt að aðrar þjóðir fari að borga undir okkur endalaust í þessum efnum.

Finn hvergi greinina hans Þorvalds.

Allar staðreyndir úr Íslandssögunni sem eru notaðar hér má finna í Íslenskum Söguatlas Iðunnar. Ályktanir eru á mína ábyrgð.  

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 02:20

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mosa finnst nokkuð broslegt að leggja saman öryggisbelti í bíl við rándýrar hervarnir.

Tyrkjaránið 1627 kom til vegna mjög einkennilegs pólitísks ástands í Evrópu. Öll samskipti Evrópuþjóða snerist um hernaðinn milli fursta í Þýskalandi. Þessi tími hefur verið nefndur 30 ára stríðið og þá gafst möguleiki fyrir alls konar ribbaldalýð að vaða uppi. Ísland var engin undantekning.

Mér finnst vera mikill efi á að Vestmannaeyingar hefðu getað varist árás vel búinna 2ja fjandsamlegra herskipa hvorki þá né síðar.

Grein Þorvaldar var í Fréttablaðinu í gær, fimmtudag og ætti að vera öllum  skyldulesning sem hafa e-ð um málefni á þessu sviði að gera. 

Hvernig ætti að efla hervarnir hjá þjóð ef ekki eru fjármunir að greiða almennileg laun til lögreglumanna, kennara og annarra mikilvægra opinberra starfsmanna?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 10.8.2007 kl. 12:48

3 identicon

 

Öryggistómarúm er öryggistómarúm, sama hverjar ástæðurnar eru.

Þetta voru ekkert sérlega velbúin herskip, bara sjóræningjaskip.

Ef þú átt við þessa grein hérna þá sé ég engar nákvæmar tölur í henni og í raun ekkert annað en lítt rökstuddar fullyrðingar og dylgjur. Sérstaklega finnast mér kostulegar fullyrðingar um að íbúar í miðbæ Reykjavíkur þori ekki út úr húsi um helgar. Ég myndi draga þá ályktun að Þorvaldur búi einhverstaðar annarstaðar.

Öllum starfstéttum, og þá sérstaklega þeim sem þjónusta hið opinbera, finnst laun sín úr samhengi við mikilvægi sitt.

Heldurðu að við (VLF per capita $38.000) getum ekki haldið upp vörnum og skólakerfi frekar en Danir (VLF pc $37.000), Svíar (VLF pc $32.200) eða Norðmenn (VLF pc $46.300)?

Tölur eru úr CIA World Factbook, VLF tölur, aðlagaðar að kaupmætti.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 13:32

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Það hefur vafist fyrir landsfeðrunum að borga opinberum starfsmönnum almennileg laun. Mér finnst því vera næg ástæða til að stinga öllum þessum hugmyndum um varnarlið, innlendan her eða hvaða nafni sem það nefnist, vel og vandlega niður í dýpstu skúffuna í Stjórnarráðinu. Við þurfum ekki á því að halda en kannski hergagnaframleiðendum.

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 10.8.2007 kl. 17:02

5 identicon

Þú getur haft þá skoðun að Ísland ætti að reyna að vera án varna en þú verður að rökstyðja hana með öðru en því að varnarleysi hafi dugað okkur hingað til.

Á þjóðveldisöld tíðkuðust fastaherir ekki í Norður Evrópu og íslenskir höfðingjar gátu safnað liði eins og kollegar þeirra á meginlandinu. Frá þeim tíma og fram til 1918 er Ísland hluti af hervæddum konungsríkjum og alls ekki varnarlaust. Vopnaburður til heimavarna var meira að segja mjög algengur fram að vopnabroti en þá færðist vararhlutverkið frekar yfir á konunglegan herafla. Einu raunverulegu varnarleysistímabilin voru þegar skipakomur féllu niður (1627 og í Napóleonsstríðunum). Í bæði skiptin gekk einhver andskoti á lyktina og sigldi hingað uppeftir þótt að hann hefði reynst öllu meinlausari í seinna skiptið.

Á tímabilinu 1918-1940 er Ísland í frekar undarlegri stöðu sem ræðst af stórveldishagsmunum Breta. Í öllu falli hefðu þeir aldrei leyft öðru stórveldi að athafna sig hérna. Hlutleysisstefnan hinsvegar bíður algjört skipbrot í heimstyrjöldinni, hún var hvorki vörn gegn kafbátahernaði (eða fyrirhugaðri innrás) Þjóðverja eða hernámi Breta.

Á tímabilinu 1946-1949 er Ísland varnarlaust og rússsneskir síldarflotar hræddu hálfa líftóruna úr íslenskum ráðamönnum með reglulegu millibili. Það má vera að þér þyki þeir hafa verið paranojd en Rússar brutust til áhrifa allstaðar þar sem þeir höfðu tök á því. Ég sé ekki að Ísland hefði verið sérstaklega undanskilið.

Með NATO-aðild 1949 og Varnarsamningi 1951 komust hér á trúverðugar varnir og þær hafa dugað til að halda flestu slæmu frá landinu. Áframhaldandi varnarsamstarf kallar á virka þáttöku Íslendinga. Það má vera að þú sjáir ofsjónum yfir 45 milljónum, ég er vel tilbúinn að verja 10-15 miljörðum í þennan málflokk árlega, enda hef ég engan áhuga á að standa í tilraunastarfsemi í þessum málum. 

Við erum ekki að tala um að víkja frá aldagamalli,  vel heppnaðri varnarleysisstefnu. Reyndar ber það vott um mjög yfirborðskennda söguþekkingu að þú skulir yfirhöfuð halda að við höfum haft slíka stefnu. Ef þú villt varnarleysi verður þú að finna eitthvað annað en söguleg rök fyrir því.  

Svo mæli ég með því að þú farir í framtíðinni varlegar í yfirlýsingar um það hvaða afstöðu flestir þeir sem hafa hugsað um þessi mál hafi. E.t.v hefur þú ekki hugsað nóg um þau sjálfur.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.8.2007 kl. 22:24

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Þegar Íslendingasögurnar og Heimskringla eru lesnar kemur annað í ljós en fram kemur í ofangreindum athugasemdum: Noregskonungar höfðu ætíð um sig lið all mikið og lagaskylda var að veita konungi alla þá aðstoð sem hann þurfti þegar hann var í nauðum. Þetta kemur greinilega fram í uppreisn Skúla hertoga gegn Hákoni gamla 1238. Snorri Sturluson sem var vinur beggja en sá sinn kost vænstan að hverfa úr landi og flýja til Íslands. Þetta var eftir þágildandi norskum landslögum landráðasök enda Snorri skyldur að veita kóngi liðveislu sem aðrir sem gengið höfðu í hirð hans. Því var Snorri nánast persona no grata í augum Hákonar og þeirra sem frömdu morðið í Reykholti í sept. 1241. Annars er það umhugsunarvert að þeir 3 menn sem nafngreindir eru í þeirri frásögn Sturlu Þórðarsonar höfðu allir verið tengdasynir Snorra!!

Við verðum að gæta þess vandlega að því að túlka ekki heimildirnar öðru vísi en þær raunverulega segja frá. 

Mosi - alias 

Guðjón Sigþór Jensson, 20.8.2007 kl. 17:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 30
  • Frá upphafi: 242949

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 30
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband