Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2012

Hvers vegna að skulda?

Því miður er það allt of algengt hjá Íslendingum að reisa sér hurðarás um öxl og geta ekki staðið undir neinum skyldum. Hvernig væri að innleiða betri hugsunarhátt: fremur spara en ekki eyða um efni fram?

Lengi vel eymdi sá hugsunarháttur að ekki borgaði sig að spara: spariféð gufaði upp enda höfum við verið með handónýtan gjaldmiðil frá stofnun Landsbanka Íslands 1886.

Ríki og sveitarfélög fara í innheimtumál eftir mjög vandaðri lagasetningu þar sem fara verður eftir mjög formlegum reglum. Innheimtan er því mjög formleg en þykir kannski sálarlaus.

Þingmanninum Ragnheiði sem eg þekki ekki nema af góðu einu, virðist hafa yfirsést innheimtuaðferðir mafíunnar og uppivörsluhópa sem kenna sig við allt mögulegt. Þar hefur verið beitt hnúum og hnefum, jafnvel líkamlegum þvingunum og meiðingum sem opinberum aðilum beita að sjálfsögðu aldrei.

Mér finnst að þingmenn mættu vanda betur umræðuna og fremur bæta skilning á nauðsyn innheimtu þess opinberra. Hvers vegna þarf að leggja á alla þessa skatta er jú að við gerum kröfur til þess sama opinbera að veita okkur góða og trausta þjónustu.

Best af öllu er að standa ætíð í skilum og stefna aldrei til óþarfa skulda. Skuldahalar hafa oft verið afleiðing bíræfinnar eyðslu og vafasamra fjárfestinga.

Hugsunarhátturinn: „Við borgum ekki“ ætti ekki að vera í fyrirrúmi, fremur: „Við viljum borga en ekki skulda“.

Góðar stundir!

Staddur á Smyrlabjörgum í Suðursveit.


mbl.is Af hverju er ríkið alltaf harðasti innheimtuaðilinn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skógur og Skógarfoss

„Þegar einhver villist í íslenskum skógi ætti hann að standa upp“ var lengi sagt um upphaflegu kjarrskógana. Nú er loksins að vaxa upp almennilegur skógur og fólk fer af stasð í vandlætingu að hneykslast á ef skógur er allt í einu að vaxa og dafna.

Þeir sem sjá vaxandi skógi við Skóga og Skógarfoss ættu að líta fremur á rafmagnslínurnar: eru þær stikkfrí í umræðunni? Af hverju erum við að sætta okkur við rafmagnslínur í beinum æpandi línum en agnúust út í gróður jarðar?

Skógur við Skógarfoss á mjög vel saman. Það er ekki verið að eyðileggja fossinn á neinn hátt þó svo að birkiskógur vaxi við veginn.

Eiginlega ættu Íslendingar að læra að nýta sér kosti skógarins til yndis og skjóls. Við gætum náð margfalt betri árangri við ræktun korns og grass ef skjólskógar eru fyrir hendi. Það sannaði Klemens á Sámsstöðum á sínum tíma en fáir vildu hlusta á.

Við getum einnig hamið vindinn með öflugum skjólskógi á vindasömum stöðum t.d. undir Eyjafjöllum, Snæfellsnesi, á Kjalarnesi og Hafnarmelm. Þá eru aðrir vindasamir staðir eins og í Öræfum og sums staðar á Suðausgturlandi eins og í Hamarsfirði fyrir vestan Djúpavog en þar sat eg með ferðahóp í gærdag tepptur vegna storms á þeim slóðum.

Það getur verið skiljanlegt að sýna vandlætingu en hún þarf að byggjast á skynsemi og hófsemi. Vandlæting getur farið út í fyllstu öfgar og skal ekki nein dæmi nefnd um slíkt enda blasa þau víða við í daglegu lífi.

Oft er kannski best að þegja en segja eins og segir í vísunni.

Staddur á Smyrlabjörgum í Suðursveit.

Góðar stundir!


mbl.is Skógur skyggir á Skógafoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samanburður við aðstæður á Íslandi

Í gærdag var eg veðurtepptur á Djúpavogi eftir hádegi. Í Hamarsfirði var stöðugur vindur nálægt 25 metrum á sekúndu en fór í hviðum yfir 40 metra á sekúndu.

Nú eru 3600 sek. í klukkutíma hverjum svo auðvelt er að bera saman vindhraða við stöðugan fellibylsvind í Bandaríkjunum. Þegar vindur er stöður 25 m/sek er hraði á klukkustund því 90 km á klukkutíma en hviður hafa farið nálægt fellibylshraða. Við sáum frá Bóndavörðunni við Djúpavog hvernig hafrótið  í fjarska þeyttist hátt í loft upp og var tilkomumikið. Ferðahópurinn sem eg var með hafði aldrei lent í öðru eins stormi. Við lögðum af stað skömmu upp úr kl.18.00 þegar vindhviður voru komnar niður fyrir 30 metra og komust vestur í Suðursveit um hálfníu um kvöldið.

Eyðilegging er gríðarleg í Bandaríkjunum í þessum fellibyljum. Við Íslendingar leggjum mikla áherslu á að byggja sterkbyggð hús sem þola bæði jarðskjálfta og vond veður. Með því drögum við úr hættu af völdum foks enda munu flestir sem verða fyrir meiðslum í Bandaríkjunum þegar hús eða húshlutar fjúka. Með strangri byggingarlöggjöf ætti að vera unnt að koma í veg fyrir stór áföll og undarlegt að svo sé ekki gert þar vestra.

Staddur á Smyrlabjörgum

Góðar stundir!


mbl.is Ísak stefnir á New Orleans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Germönsk arfleifð

Þingin á Íslandi er germanskur arfur frá miðöldum. Sitt hvað hefur verið rannsakað, sumt lítið, annað meira en sennilega flest sama og ekkert.

Germanir héldu þing víðast hvar. Þar kom klanið eða fulltrúar ættbálksins saman. Fyrirkomulagið á Íslandi var að landinu var skipt milli 36 goða og skipuðu 3 goðar sérstakt héraðsþing. Síðar var bætt við þremur goðorðum á Norðurlandi þar sem þeim landsfjórðung verður eðlilega ekki skipt landfræðilega með öðrum hætti en að þar væru 4 héraðsþing.

Þýski réttarsöguprófessorinn Konrad Maurer (1820-1902) var einn merkasti fræðimaðurinn sem rannsakaði þessi mál. Hann var prófessor við háskólann í München í Bæjaralandi, nam íslensku í Kaupmannahöfn veturinn 1857-58 og kom þá um vorið til landsins og ferðaðist víða. Hann ritaði dagbók og vann úr henni afarmerka ferðabók sem kom út að forlagi Ferðafélags Íslands fyrir um hálfum öðrum áratug. Er það ein merkasta heimild um Ísland og Íslendinga frá 19. öld.

Þess má geta að Konráð þessi fékk fyrstur manna viðurnefnið „Íslandsvinur“ en þann titil hafa síðan ýmsir hlotið oft af litlu sem engu tilefni.

Það er fagnaðarefni að þessir gömlu þingstaðir verði rannsakaðir gaumgæfilega með nýjustu tækni og vísindum. Vel fer að erlendir aðilar komi einnig við sögu enda eru rannsóknir þessar bæði dýrar og umfangsmiklar.

Góðar stundir!


mbl.is Fornir þingstaðir rannsakaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni var skrifborðsskúffa....

Já einu sinni var ein skúffan í skrifborði Vilhjálms Þórs bankastjóra Landsbankans merkt „Seðlabanki“. Á dögum Vilhjálms hefur skúffuna sjálfsagt dreymt um að verða stór þegar ár og dagar líða. Nú er skúffan að tarna orðin að risabákni, nokkurs konar finngálkni sem minnir einna mest á dreka einn mikinn og ófrýnilegan sem hefur örlög þjóðarinnar meira og minna í höndum sér.

Því miður virðist Parkinsonlögmálið hafa sannað sig í þróun skúffunnar. Sennilega hefði verið betra að skúffubankinn hefði átt að vera áfram eins og hver önnur skúffa en ekki eitthvert bákn sem hefur örlög heillrar þjóðar í hendi sér.

Meðan Jóhannes Nordal var seðlabankastjóri var hann sagður vera valdamesti maður landsins. Ekki var nóg að hann væri seðlabankastjóri, hann var formaður stóriðjunefndar sem leiddi þjóðina inna á stóriðjustefnuna og hann var stjórnarformaður Landsvirkjunar þar sem virkjanastefnan var mótuð m.a. gegnum Alþjóða gjaldeyrissjóðinn.

Nú vil eg ekki fullyrða neitt án þess að hafa vandlega athugað þessi mál í þaula hvort þetta hafi verið rétt stefna. Hins vegar er mjög óeðlilegt að svo mikil völd hafi verið samankomin hjá einum og sama manninum.

Spurning er hvort Ólafur Ragnar hafi skákað Jóhannesi sem valdamesti maður landsins. Með seinni neitun sinni á Icesave lögunum greip Ólafur Ragnar fram fyrir þingræðið í landinu, 70% þingheims. Var Ólafur Ragnar þar með að brjóta niður þingræðið og gerast þar með valdamesti maður landsins?

Var þetta meginglæpur gagnvart þinginu og þjóðinni?

Góðar stundir!


mbl.is Rekstrarkostnaður Seðlabankans hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verkefni fyrir skákáhugamenn

Frægt er þegar Íslendingar buðu Robert Fischer dvalarleyfi og ríkisfang. Spurning er hvort við gætum ekki boðið Spasskí sömu kjör enda varð Fischer aldrei heimsfrægur án Spasskís.

Ömurlegt er að lesa hvernig Frakkar virðast hafa farið illa með þennan fósturson sinn. Við hefðum líklega getað gert betur en þeir.


mbl.is „Ég var smám saman að deyja“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamla tuggan

Margt hefur farið öðruvísi eftir hrunið hefði Framsóknarflokkurinn undir forystu fulltrúa braskaraaflanna í Framsóknarflokknum, verið í ríkisstjórn. Ætli hefði ekki verið farið harkalega að heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu sem tókst að forða nokkurn veginn.

Alþjóðlegi gjaldeyrissjóðurinn lagði mikla áherslu á gríðarlega lækkun ríkisútgjalda, m.a. með að skera niður heilbrigðiskerfið og skólakerfið. Ekki var farin sú leið heldur kappkostað að reyna mildari leiðir.

Hrunið var endapunktur margra áratuga spillingar í skjóli Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms tókst það sem enginn þorði að vona: að þjóðin væri leidd út úr ógöngunum ekki á kostnað litla mannsins, heldur þjóðarinnar allrar. Braskaranir ætluðu sér alltaf að sleppa og lögðu lengi steina ío götu þeirra sem vilja rannsaka og eru jafnvel enn að.

Forystusauður Framsóknarmanna er mikill auðmaður en fjölskylda hans auðgaðist gríðarlega á hermangi og hamförunum í kringum hrunið.

Ekki er furða að Ásmundur Einar sjái gull í ranni Framsóknarflokksins, einu af megin spillingarbæli Íslandssögunnar. Hann hefur verið að reyna fyrir sér á þessum vettvangi og virðist vera nokkuð efnilegur í þessum efnum. Einn liðurinn í að afla sér trausts meðal forystunnar er að rægja þá sömu ríkisstjórn sem hann átti þó hlut í að mynda. Óhætt má segja um Ásmund Einar að sjaldan launar kálfur ofeldi sitt.

Formaður Framsóknarflokksins er eins og Mörður Valgarðsson endurborinn. Hann kemur ósjaldan fram í fjölmiðlum og með ísmeygjulegu fasi reynir hann að koma sjónarmiðum betur á framfæri.

Óskandi er að sem flestir sjái gegnum þennan blekkingavef þeirra þingmanna Framsóknarflokksins sem ýmist með fagurgala eða rógtungu reyna að afla hinum margspillta Framsóknarflokki fjöldafylgis.

Góðar stundir en án tilstuðlan þeirra sem frjálslega fara með fullyrðingar sem reynast vera byggðar meira og minna á sandi.


mbl.is Framsókn er flokkur samvinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243585

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband