Gróður jarðar

Nú hefur vorveðrið verið einstaklega blítt hjá okkur á Íslandi og ekki sér fyrir endann á því. Í görðum Reykvíkinga er birkið og annar trjágróður farinn að koma vel til. Álmurinn neðst á Egilsgötu er núna allaufgaður og hlynurinn á sunnanverðu Skólavörðuholti í þann mund að laufgast. Knúpullinn er einstaklega fagur þegar hlynurinn laufgast: hann myndar bleikan lit og vísirinn sem síðar myndar blöðin fá fyrst gulan lit. Þetta er fagurt sjónarspil sem ástæða er til að fylgjast gjörla með.

Ósköp er drungalegt að horfa á niðurníddan trjágróðurinn við Heilsuverndarstöðina. Meðfram Egilsgötu og að nokkru meðfram Barónsstíg er búið að fella hvert einasta tré. Hvað gengur þeim til sem eru núna aðstandendur þeirrar eignar? Af þessum trjám hefi eg lesið marga birkirekklana og týnt í þverpokum reyniberin til að sá þar sem enginn trjágróður er fyrir. Nú verð eg eðlilega að leita annað. Þessum trjám var plantað fyrir um hálfri öld og áttu því enn tækifæri að prýða umhverfi sitt um nokkra áratugi enn.

Þá er sláttur hafinn víða í görðum og má sjá að vel hefur verið að verki staðið.

Uppi í Mosfellsdal var vorið ekki komið svona langt. Gekk í gærkveldi yfir ásinn austan við Mosfell með bakpoka fullan af asparstiklingum til að setja í mýrarspildu sem fjölskylda mín hefur umráðarétt yfir. Þar í nýgirtri spildunni plöntuðum við á 3ja þúsund trjáplantna í fyrravor. Lerkið ætlar að koma vel út að þessu sinni er ósköp er að sjá furuna og grenið sem virðist ekki hafa það of gott þarna. Í spildu þessari er norðaustangarrinn langvarandi af Svínaskarðinu á vetrum. Má sjá störina sem er mest áberandi þarna hafa fellt strá sín undan áttinni. Gegn vindinum höfum við verið að reyna að byggja skjól úr vörubrettum og ýmsu spýtnadóti sem við höfum borið langan veg. Þetta hefur verið framlag mitt til íþróttaiðkana, að bera girðingarefni og trjáplöntur um alllangan veg þangað í þeim tilgangi að fegra og bæta landið. Þessi fyrirhöfn kostar ekki neitt og enginn svitastofa landsins hefur hag af þessari tegund íþrótta.

Í landinu við hliðina hafa verið nokkrir tugir hrossa í sumarbeit og allt fram á jólaföstu í áþekku landi þar sem er þó mun meira af fjalldrapa sem óðum kemur betur fram eftir að sauðfé hvarf af þessu svæði frá því í hitteðfyrra. Þaðan hefi eg sótt mér dálítið hrossatað og sennilega fyrirgefur eigandinn það enda nýtur hann þess að þurfa ekki að tjasla við girðinguna milli okkar. Annars er spurning hvort hestaskítur geti talist vera svonefnt andlag þjófnaðar og falli því ekki undir það sem í Rómarétti nefndist res delicta, þ.e. einskisverður hlutur sem kastað hefur verið á glæ.

Fuglarnir eru víða komnir á kreik, nokkrir hrossagaukar flugu yfir og sömuleiðis heyrðist í heiðlóu. Á einum dálitlum steini á mel sat einmana rjúpa sennilega karri að gæta óðals síns. Enn var þessi fugl í vetrarhamnum sem því miður hefur verið hundeltur af byssugeltandi veiðimönnum sem ekki sjá sér ætíð hóf.

Annars er alltaf gaman að velta hinum ýmsu málum fyrir sér. Gróður jarðar er okkur jarðarbúum mikilvægur hvort sem við erum tvífætlingar eða ferfætlingar, eða flögrum um. Trjágróður veitir okkur gott skjól og sem flestum ánægju sem kunna að meta hann. Aðrir verða bara að láta sér nægja að hugsa dálítið öðruvísi en æskilegt væri að þeir geti metið okkar sjónarmið sem viljum efla sem mest skóg á Íslandi.

Mosi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 243409

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband