Opið bréf til Þráins Bertelssonar

Háttvirti þingmaður og bráðskemmtilegi rithöfundur!

Það verður ábyggilega bráðskemmtilegt fyrir hina sem sitja í Þingvallanefnd að fá þig í nefndina. Þú munt alveg ábyggilega lífga vel upp á hana sem oft er þörf en nú nauðsyn.

Verkefnin þín verða sjálfsagt ærin: taka þarf til eftir stórkarlalegar framkvæmdir eftir að nokkrir skítblánkir útrásarvíkingar sem þóttust vera ríkustu menn norðan Alpafjalla hugðust reisa gríðarstór hús með vínkjöllurum sem eru það stórir að inn í þá mætti hæglega koma fyrir frístundahúsi venjulegs fólks.

Á sínum tíma var Jónas frá Hriflu sem sumir nefna Hriflon, nánast einræðisherra varðandi Þingvöll. Hann er guðfaðir þeirrar hugmyndar að útdeila lóðum til fjármálamanna, vina og jafnvel vandamanna innan þjóðgarðsins og var hugsun hans sú að koma upp n.k. þrýstihóp gagnvart aðstandenda virkjanafrmkvæmda en mikill hugur hófst að byggja stíflu og hækka vatnsyfirborðið sem mest til að auka arðsemi Sogsvirkjana. Er sennilega Jónas einn helsti virkjanaandstæðingur á vissan hátt og langt á undan sinni samtíð.

Þá beitti Hriflon sér fyrir því að útbúa svonefndan „heiðursgrafreit“ að baki Þingvallarkirkju, n.k. þeim þekkta Arlington kirkjugarði vestur í jú-ess-sei. Eins og kunnugt er voru tvö skáld dysjuð þar með mikillri fyrirhöfn sitt hvoru megin án þess að vera spurð um, eru jafnvel áhöld um hvort í annarri gröfunni sé danskan leir að finna sem einu sinni var drykkfelldur bakari og jafnvel kannski portúgalskar sardínur.

Útlendingar sem mér er stundum trúað fyrir á sumrin spyrja mig iðulega og benda á grafreit þennan hvort þetta sé þyrlupallur, kannski ætlaðum byskup várum eða öðrum mikilvægum persónum samfélagsins?

Í dag er þar að kirkjubaki sem víðar á Þingvelli mikill gæsagangur iðkaður bæði seint og snemma.

Það má nefnilega benda hinum nýja nefndarmanni Þingvallanefndar á þá augljósu staðreynd að eftir að barrtré voru söguð niður í einhverju bríaríi í stórum stíl hérna um árið hefur grágæsum stórfjölgað í þinghelginni. Suma daga er jafnvel fleiri gæsir en mannfólk á Þingvelli. Er nú svo komið að sökum þess að gæsir þessar eiga til að skilja stykkin sín hvar sem er án þess að gæta þess að Þingvellir eru sagðir vera einna merkastur staður á gjörvöllu Ísland og jafnvel þó víðar sé leitað. Af þessu ástæðum hefur Þingvallakirkja verið lokuð fyrir túristum í allt sumar.

Tilefnið er að töluvert hefur borið á því að gæsaskítur hafi þá náttúru að þegar á er stigið, festist hann undir skótau flestra þeirra sem ganga um göngustíga á Þingvelli og berst jafnvel inn í kirkjuna. Hefur starfsfólk haft ærna vinnu við þrif af þessum sökum og þar sem nauðsyn ber að skera niður öll óþörf útgjöld í rekstri opinberra stofnana á borð við þjóðgarðinn á Þingvöllum - og þar með kirkjuna, er auðveldara að loka kirkjunni fyrir hnýsnum útlendingum sem og Íslendingum sem hvort sem er kunna ekki að koma í veg fyrir að þessi ófögnuður frá gæsunum berist inn í kirkjuna enda á hann ekkert brýnt erindi þangað.

Kannski mætti planta aftur barrtrjám á Þingvelli svo koma mætti í veg fyrir óþarflega mikið magn af gæsaskít sem nóg virðist vera nú af í þinghelginni og kringum kirkjuna.

Vonandi rekst okkar bráðskemmtilegi Þráinn á þessar línur með þeirri ósk að hann beiti sér sem best og mest í þágu þjóðgarðsins.

Og gangi þér vel í þínum góða praxís, kæri Þráinn!

Mosi


mbl.is Þráinn í Þingvallanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Veit ekki betur en nafnið Þingvellir sé í fleirtölu. Hvaðan kemur þér eintalan, Mosi minn góður?

Sigurður Hreiðar, 7.10.2010 kl. 22:03

2 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Matthías Þórðarson þjóðminjavörður ritaði heljarmikinn doðrant sem hann nefndi „Þingvöllur“. Hann rökstuddi með tilvísun í frumheimildir og sýndi fram á, að eintala þessarar orðmyndunar væri upprunalegri enda var aðeins um eitt þing að ræða sem háð var á einum velli en ekki mörgum. Þessi bók var hluti af „Sögu Alþingis“ sem kom út á árunum 1930 og fram yfir 1950. Var safnrit þetta gjarnan bundið í 5 bindi og var mjög lengi til sölu í Eymundsson fyrir sáralítið verð óinnbundið.

Annars er fleirtölumyndin auðvitað í dag öllu algengari. Hef notað báðar myndirnar jöfnum höndum.

Fyrir jól er væntanleg heimildaritgerð eftir mig um Þingvallaskóg, sögu hans og nytjar. Kemur sú ritgerð væntanlega í næsta Skógræktarrit. Töluverð heimildavinna liggur að baki og er nú aðeins eftir að ganga frá myndefni.

Kveðjur

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 7.10.2010 kl. 22:39

3 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Gömul hefð að nota velli í fleirtölu um flesju sléttlendis sem er að einhverju sundurskorin af lækjaskorningum og þvílíkum drögum. Líkt og sýnist um velli Þingvalla nú. Hvað sem líður fjölda þinga eða hvar það nákvæmlega fór fram ef það var aðeins eitt. Hef nokkurn fyrirvara um messu Matthíasar og heimildir hans.

Sigurður Hreiðar, 7.10.2010 kl. 23:57

4 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Rétt er það Sigurður. Skýring þín um hvað vellir eru, standast alveg.

En á hún við aðstæður á Þingvelli?

Frá miðöldum og þangað til þinghald var háð var það lengi vel kennt við Öxará svo einkennilegt sem það nú hljómar. Einkum var þetta á valdatíma Dana. Heitið „Öxarárþing“ var þannig yfirleitt notað þann tíma sem Alþingisbækur voru innfærðar eftir 1570 og prentaðar frá lokum 17. aldar. En þegar jarðskjálftinn 1789 umturnaði öllu meira og minna á Þingvelli/Þingvöllum en þá seig landið um 2 fet, eða um 60-61 cm og varð það tilefni að þinginu sem reyndar var vettvangur Yfirléttar, millidómsstigs milli íslenskra dómstóla og Hæstaréttar í Kaupmannahöfn, var síðar fundinn nýr vettvangur í Reykjavík með stofnun Landsyfirréttar. Í raun hafði Alþingi ekki lengur löggjafarvald eftir innleiðingu einveldis 1662 þó svo að það „samþykkti“ sitthvað frá kónginum. Síðasta „lagaverkið“ er talið hafa verið Alþingissamþykkt 1700 um tímatalsútreikninga en þá var gregoríska tímatalið innleitt á Íslandi samtímis í Danmörku, Færeyjum, Grænlandi og í Noregi.

Bestu rit um staðfræði Þingvalla auk rits Matthíasar frá Fiskilæk Þórðarsonar rit nafnanna Björns Þorsteinssonar og Björns Th. Björnssonar um Þingvelli. Einnig er mjög gott yfirlit um Þingvallasveit eftir Pétur Jóhannsson sem prentað var í safnritinu Sunnlenskar byggðir, 3ja bindi.

Kveðjur

Mosi

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.10.2010 kl. 10:10

5 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Tímakorn síðan ég hef reikað um Þingvelli en í minningunni stenst fleirtöluskýringin um vellina í mínum huga. -- Björn Th. var mikill áhugamaður um Þingvelli og kannaði þeirra málefni mikið í minningu forfeðra okkar prestanna þar, en hann var að mínum dómi áhugamaður af því taginu sem leitaði einkum raka til að styðja sínar kenningar -- fremur en að setja fram kenningar út frá fundnum rökum.

Skrifaði ekki Gísli vinur minn Sigurðsson lesbókarritstjóri eitthvað um nafnfræði Þingvalla líka? Mig hálf minnir það.

Sigurður Hreiðar, 8.10.2010 kl. 10:45

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ekki er ólíklegt að Gísli hafi ritað um staðfræði Þingvalla. Hins vegar meðan nánast engar fornminjarannsóknir hafa verið gerðar er allt í mikillri óvissu.

Jörmundur Ingi fyrrum allsherjargoði hefur uppi tilgátu um hvar Lögberg og Lögrétta var háð sem eg held að sé mjög raunhæf með hliðsjón af aðstæðum. Matthías Þórðarson og fleiri vildu meina að þingið hafi verið háð í brekkunni fyrir neðan og austan falggstöngina og að sæti allsherjargoða hafi verið þar sem flaggstöngin er. Það er algengt að það sé landsynningur á Þingvelli eins og víðar á Suðurlandi og þá hefur ekki verið beinlínis þægilegt að vera þarna.

Hugmynd Jörmundar er að þingið hafi verið í gjánni móts við flaggstöngina. Má þar sjá þægilega brekku til að sitja í, „ræðupúlt“ stóran stein fyrir miðri brekkunni og ekki nóg með það, uppi er eins og meitlað hafi verið þægilegt sæti fyrir einn neðst í klettaborginni. Ef þarna hefur verið sæti lögsögumanns kemur allt heim og saman: dálítið skjól fyrir þingheim í öllum veðrum og fyrirmæli Grágásar um hvenær halda skyldi þing. Þar segir að þing skuli halda fyrri hluta dags uns sól hverfur úr sæti lögsögumanns.

Annars væri gaman að sýna þér Sigurður sitt hvað á Þingvelli. Veistu t.d. um gamla mælingapunkta frá tímum Wegeners þess sama og landrekskenningin er kennd við?

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 8.10.2010 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband