Bankarnir brenna

Dapurleg endalok

Þær miklu eignir sem bundnar voru í bönkunum brenna fyrir augunum á okkur án þess að nokkuð verði að gert. Við töpuðum sparnaðinum okkar í formi hlutabréfa og peningamarkaðssjóða. Og við munum finna fyrir því þegar lífeyrissjóðirninr telja fram hvað eftir er þegar eignir þeirra hafa skroppið stórlega saman.

Hvað olli þessu öllu saman og hvað gerðist?

Fyrir 5-6 árum hófst mikil bjartsýnisalda í þjóðfélaginu. Íslensku ríkisbankarnir voru einkavæddir án nokkurra skilyrða. Tekin var ákvörðun um allt of stórar virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka af barnslegri einfeldni þeirra sem stjórnuðu landinu. Allt of stór framkvæmd fyrir svo fámennt þjóðfélag. Og athafnamennirnir sem nú skilja þjóðina eftir í mestu niðurlægingu skuldsettu bankana og fyrirtæki langt um fram getu þeirra að geta nokkru sinni staðið í skilum ef erfiðleikar steðjuðu að. Og þessir bankar voru mergsognir af stjórnendum þeirra, sumir virðast hafa horfið með fulla vasa fjár og við sitjum uppi í skuldasúpunni.

Hver skyldi hafa verið höfuðsmiður þessarar útrásar? Öll spjót beinast að einum manni sem aldrei hefði átt að verða stjórnmálamaður: Davíð Oddsson.

Þegar Sigurður Líndal var prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands sagði hann eitt sinn í fyrirlestri að það væri hlutverk sitt að forða þjoðfélaginu frá lélegum lögfræðingum. Sigurður kenndi almenna lögfræði sem voru n.k. inngangsfræði að hinum ýmsu greinum lögspekinnar. Sigurður felldi mjög marga nemendur sem hugðust leggja fyrir sig að verða lögfræðingar og e.t.v. forystumenn í þjóðfélaginu. Bestu lögfræðingarnir stýra stórum fyrirtækjum kvað Líndalurinn sem og fara í praxís sem júristar. Aðrir ráða sig í þjónustu ríkisins sem sýslumenn, dómarar, sendiherrar og kennarar eins og hann. Þeir sem ekki treystu sig í það létu kjósa sig sem þingmenn. Sigurður gerði oft grín að þingstörfum, taldi þinginu oft vera illa stjórnað og oft væri verið að samþykkja lagatexta jafnvel um miðja nótt og eftir ýmsar breytingar þá kæmi út einhver endaleysa sem reyndi á fyrir dómstólum. Svo voru auðvitað þeir sem gerðu ekkert neitt. Þeir væru yfirleitt skaðlausir í samfélaginu og þyrfti vart að hafa áhyggjur af þeim.

Sennilega var það mikil yfirsjón hjá Sigurði að hafa ekki á sínum tíma fellt Davíð á almennu lögfræðinni eins og svo marga sem áhuga höfðu að gerast friðsamir, góðir og virkir júristar í þágu þjóðarinnar.

Þegar einn maður á meginþátt í hvernig komið er fyrir þjóðfélaginu, má því gera því skóna hvernig farið hefði ef þessi maður hefði ekki komist til þeirra miklu mannaforráða eins og raunin er. Þá hefði sennilega aldrei verið farið út í umdeildar framkvæmdir á hálendinu með þeirri gríðarlegu röskun ekki aðeins í náttúru landsins heldur einnig í fjármálum íslensku þjóðarinnar.

En skaðinn er skeður. Við sitjum uppi með einhverja þá skelfilegustu niðurlægingu sem hugsast getur. Aðeins stríð hefði verið verra. En var kannski stríð háð og það gegn okkur sem leyfðum okkur alltaf að hafa önnur sjónarmið en Davíð Oddsson?

Sjálfstæðisflokkurinn er gjörsamlega rúinn trausti. Því miður. Ábyrgð hans er mikil. Það tekur langan tíma að byggja upp en örskotsstund að rífa niður.

Við þurfum að byggja upp nýtt lýðræðislegt og réttlátt samfélag en án Sjálfstæðisflokks og helst Framsóknarflokks líka. Ábyrgð beggja þessara stjórnmálaflokka er mjög mikil.

Mosi

 


mbl.is Íslenskar bankaeignir á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagblöð: vettvangur skoðanaskipta

Ísafold var ekki dagblað

Misskilnings gætir að tímaritið Ísafold hafi verið dagblað. Það kom út yfirleitt einu sinni í viku og var málgagn Björns Jónssonar eins af höfuðandstæðingum Hannesar Hafsteins.

Vísir mun vera fyrsta reglulega dagblaðið og hófst útgáfa hans 1909. Ýmsir höfðu gert tilraunir að gefa út dagblað á Íslandi kringum aldamótin 1900 þ. á m. Einar Benediktsson sem var útgefandi Dagskrár, merkrar tilraunar til blaðs sem skáldið hélt út um 2ja ára skeið. Í nokkrar vikur lét hann prenta það nær daglega.

Ein af meginástæðunum fyrir því að ekki var grundvöllur fyrir útgáfu dagblaðs á Íslandi var mjög einfaldur: Í Reykjavík var allfjölmenn stétt vatnsbera sem ekki aðeins báru vatn úr brunnum í hús Reykvíkinga, heldur fluttu húsráðendum fréttir. Oft voru þær safaríkar enda var þá oft vikið lítilræði umfram að vatnsberunum. Árið 1906 kemur upp mjög alvarleg taugaveiki og var það Guðmundur Björnsson landlæknir sem beitti sér einkum fyrir vatnsveitu í Reykjavík. Það var loksins þegar vatnsberanir þurftu að leggja frá sér vatnsföturnar og finna sér eitthvað annað fyrir stafni að rétti tíminn fyrir dagblaði í Reykjavík. Um það leyti sem vatn fór að renna um vatnsleiðslur Reykvíkinga var rétti tíminn til útgáfu dagblaðs runninn upp. „Vísir til dagblaðs á Íslandi“ sem fljótlega var stytt í Vísir var fyrsta dagblaðið. Nokkrum árum seinna hefst útgáfa Morgunblaðsins sem hefur komið út óslitið síðan haustið 1913 eða í 95 ár! Óskandi er að það verði sem langlífast enda er það vettvangur skoðanaskipta þar sem við leggjum grunn að nýju og betra lýðræði á Íslandi.

Mosi


mbl.is Áríðandi að „missa ekki móðinn"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiljanleg sjónarmið

Þeir sem athugasemdir hafa um þessa frétt eru fremur á sveif með álfurstum en hagsmunaaðilum Óttarstaða.

Skoðum þetta mál aðeins betur: Er rétt að mengandi starfsemi fái að halda henni áfram án þess að tekið sé tillit til grenndarsjónarmiða? Með grenndarsjónarmiðum er átt við þann lögvarða rétt þeirra sem næst eiga hagsmuni. Ljóst er að ekki á fólk að líða bótalaust ef einhver truflandi eða mengandi starfsemi er sett niður í næsta nágrenni. Enginn væri sáttur við að fá einhverja lýsisbræðslu sem næsta nágranna eða starfsemi sem hefði aðra mengun í för með sér, kannski hraðbraut eða jafnvel heilan flugvöll. Eitthvað myndi margur segja við því.

En vandamálið er auðvitað um starfsemi sem fyrir er. Þegar álverið var sett niður í Straumsvík fyrir um 40 árum voru mannréttindi ekki upp á pallborðið hvorki í gamla Sovét né Íslandi. Lengi hafa hagsmunaaðilar á gömlu lögbýlunum í Straumi og á Óttarstöðum haft uppi athugasemdir við mengandi starfsemi í Straumsvík. Aldrei hefur verið hlustað á þessa aðila jafnvel þó þeir hafi alltaf átt lögvarða hagsmuni að gæta og enginn dregið það í efa.

Við minnumst þess þegar Laxárstíflan við Mývatn var rofin fyrir nær 40 árum. Hópur manna nálægt 100 manns var kærður til refsingar fyrir eignaspjöll en allir voru sýknaðir vegna þess að aldrei var hlustað á réttmæta hagsmunagæslu þeirra. Er ekki svipað uppi á teningnum nú að þessu sinni nema að hagsmunaaðilar vilja útkljá þetta deilumál fyrir dómsmálum en ekki fara út í umdeilanlegar aðgerðir sem hugsanlega leiddu til tjóns eða röskunar á starfsemi álversins?

Skattur er lagður á mengandi starfsemi víðast um heim, - nema auðvitað á Íslandi! Skatturinn nemur nú um 25 evrur á hvert tonn af CO2 á ári. Álverunum er gefið eftir þetta gjald og ef við gerum því skóna að um 1 milljón tonn af áli séu framleidd hér næmi skatturinn um 2 x 25 evrum, þ.e. 50 milljónir evra en fyrir þá upphæð myndi vera unnt að ganga langt í að reka alla starfsemi á vegum Háskóla Íslands ef gjaldið væri á lagt. Það myndi muna um minna hjá okkur um þessar mundir!

Því miður er málstaður þeirra sem vilja menga ókeypis á kosnað annarra að mati Mosa lítils eða jafnvel einskis virði.

Mosi


mbl.is Í mál við Alcan, ríkið og Hafnarfjarðarbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. október 2008

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 244236

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband