Færsluflokkur: Bloggar
26.12.2008 | 15:54
Gönguferðir á jóladögunum
Í gær, jóladag, gekk Mosi með fjölskyldu sinni frá meginþéttbýlinu í Mosfellsbæ upp á svonefnda Ása norðavestan við Helgafell og áleiðis inn í Mosfellsdal. Allkröftug vestanátt var og dálítið svalt. En við vorum vel búin. Héldum til baka um Skammadalsskarð þar sem við rákumst á nokkur útigönguhross sem virtust una hag sínum sæmilega. Þó var greinilegt að þau söknuðu samneytis við eigendur sína og að komast í hús og betra fóður. Þá gengum við um skóginn við Reykjalund sem er virkilega orðinn bæði vel vaxinn og flottur. Sennilega eru hæstu grenitrén að nálgast 20 metrana. Þá gengum við niður með Varmá um gamla Álafoss. Alls vorum við um 3 tíma á göngu þessari.
Í dag ókum við í gamla bílnum okkar upp að Mógilsá við Esjurætur. Gengum um svonefnda Löngubrekku um skóginn og dálítið upp fyrir hann. Til baka um Trjásafnið og að bílastæðinu.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir.
Mosi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.12.2008 | 12:17
Hátíðleg guðþjónusta
Í gær gekk Mosi ásamt fjölskyldu sinni í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Veður var hægt og kyrrt, dálítill raki í lofti en auðvitað var jörð orðin auð eftir miklar rigningar undanfarinna sólarhringa. Við lögðum vel búin af stað að heiman þegar klukkunni var að halla að hálfsex. Við komum inn í kirkjuna stundarfjórðungi síðar og var hún þegar að verða fullsetin. Lausir stólar voru bornir að fyrir þá sem síðast komu til að allir viðstaddir mættu njóta kyrrðarstundarinnar og guðþjónustunnar. Nú hefur orðið breyting hjá okkur Mosfellingum þannig að sr. Jón Þorsteinsson á Mosfelli hefur yfirgefið okkur og kvatt söfnuðinn en hefur væntanlega tekið til við önnur verðug verkefni á öðrum vettvangi í öðru landi í annarri heimsálfu. Núverandi sóknarprestur er sr. Ragnheiður Jónsdóttir og fór henni guðþjónustan prýðilega úr hendi. Konur hafa á undanförnum áratugum sýnt og sannað að þær standa okkur karlpeningnum ekki að baki og geta auðvitað allt sem við teljum okkur geta. Við Mosfellingar höfum haft mjög góða presta og erfitt að dæma hver er bestur. Það á heldur ekki að skipta máli enda eru þessi þjónustustörf velmetin en eru ábyggilega ekki alltaf auðveld þegar sorgin og harmurinn ber að garði.
Lágafellskirkja var byggð undir lok 19. aldar á einstaklega fögrum stað með góðu útsýni til vesturs yfir Faxaflóa og höfuðborgarinnar. Arkitektúrinn er klassískur timburkirkjuarkitektúr 19. aldar. Á 20. öld var kirkjan endurbyggð og stækkuð. Kirkjugarðurinn er einn af þeim vinsælustu á öllu landinu, kannski vegna hins góða og fagra útsýni sem landnámsmenn lögðu mikla áherslu á. Þeir vildu gjarnan vera grafnir þar sem víða mátti sjá sem víðast um gáttir allar um landnám sitt. Hefur garðurinn verið stækkaður nokkrum sinnum og eru ýmsar skemmtilegar sögur sagðar af eldri Mosfellingum um hvernig til hefur tekist með það. Norðan kirkjunnar er Lágafellið sem veitir kirkju og garði skjól fyrir norðanáttinni. Mikið væri yndislegt ef Lágafellið mætti verða klætt skógi til að kirkjugestir mættu njóta þytsins norðanvindarins þá hann þýtur yfir skóginn. Auk þess veitir skógur umhverfi sínu enn betra skjóls.
Þegar kirkja þessi var reist fyrir um 120 árum rúmaði hún þriðjung sóknararinnar en nú er aðeins sæti fyrir rúmlega 1% sóknarinnar! Rætt hefur verið um að byggja nýja kirkju í Mosfellsbæ enda er þörfin fyrir löngu orðin einkum vegna fjölmennra kirkjuathafna. Þannig hafa jarðarfarir merkra Mosfellinga þurft oft að eiga sér stað í kirkjum í Reykjavík og þykir mörgum það mjög miður. Hugmynd er að byggja í Mosfellsbæ fjölnotahús sem tengdist menningarstarfsemi. Þannig væri unnt að hafa undir sama þaki allstóran listasal þar sem halda mætti tónleika en Mosfellingar eru bæði mjög söngelskir og tónlistasinnaðir mjög. Óvíða er jafnmikil tónlistarstarfsemi og í Mosfellsbæ og eru þar t.d. starfræktir hátt í tug mismunandi kóra. Þá er Tónlistarskóli og Skólahljómsveit Mosfellsbæjar sem oft hefur sýnt hve mikill kraftur og hæfileikar búa í Mosfellingum.
Óskandi er að þrátt fyrir fjárhagskreppu og ýmsa aðra erfiðleika verði unnt að hefja sem fyrst byggingu þessa fjölnotahúss þar sem menning geti dafnað áfram við hlið trúar og vonar sem við þurfum einmitt svo mikið á að halda um þessar mundir. Lágafellskirkja verður ábyggilega áfram vinsæl fyrir minni kirkjuathafnir á borð við skírnir og brúðkaup.
Með ósk um friðsamleg og gleðileg jól!
Mosi
Mikil kirkjusókn í gær | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
23.12.2008 | 14:41
Enn ein staðfestingin
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er ábyrg fyrir öllum þeim vandræðum sem Íslendingar hafa ratað í. Þegar tekin var ákvörðun um byggingu þessarar umdeildu Kárahnjúkavirkjunar, var allri gagnrýni ýtt til hliðar enda var ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins þessi framkvæmd mjög að skapi enda vel til þess fallin að sópa atkvæðum til sín vegna þingkosninganna 2003. Þann kosningaslag vann ríkisstjórnin enda átti framkvæmd þessi til að koma heilmiklu gervigóðæri í kring hjá Íslendingum. Nú eru þessi Pótemkíntjöld fallin og ískaldur veruleikinn blasir hvarvetna við.
Hrun bankakerfisins með skelfilegum afleiðingum er staðreynd. Bretar og Hollendingar hafa beygt Íslendinga niður í duftið og nú má gegnum íslenska dómstólakerfið hefur stöðugt þurft að lúffa fyrir ítölskum hagsmunum vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þessi framkvæmd var einfaldlega of stór fyrir Ísland.
Við sitjum uppi með þrásetna ríkisstjórn Geirs Haarde sem bæði er reikul ográðvillt. Að auki virðist hún haldin þeim slæma eiginleika að muna ekkert ef það kemur sér að einhverju leyti illa. Minnir hún því einna helst á drykkjumann sem drukkið hefur frá sér allt vit.
Gefum þessari ríkisstjórn því langt nef því hún veit eða má vita hvers vegna svo illa er kimið fyrir okkur Íslendingum.
Mosi
Ríkið endurgreiði Impregilo 1,3 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2008 | 12:35
Er forsætisráðherra Íslendinga nátttröll?
Ástæðurnar og forsendurnar að Gordon Brown beitti hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum hefur ekki borið jafn skyndilega að og Geir Haarde gefur í skyn. Alla vega í hálft ár eða jafnvel lengur var ljóst að ekki var allt með felldu með rekstur bankanna erlendis. Aðdragandinn að falli þeirra var lengri en Geir vill fullvissa þjóðina. Kolsteypan átti sér augljósar forsendur í ljósi kolrangra ákvarðana og jafnvel léttúðar undir því séríslenska kæruleysi gagnvart að taka á sig ábyrgð: Þetta reddast!
Auðvitað átti Geir að taka af skarið og vinna að lausn þessara vandræða einkum vegna Landsbanka í Bretlandi við bresk yfirvöld. En hann virtist ekki hafa viljað hafa sýnt þeim neinn samstarfsvilja og valið leið strútsins að stinga höfðinu í sandinn. Það er auðvitað auðveldara að sýna ábyrgðarleysi og aðgerðarleysi með því að gefa í skyn að haga sér eins og nátttröll.
Fjármálaeftirlitið er síðan misnotað til að gefa út falskt heilbrigðisvottorð að allt sé í besta lagi með bankana og þeir muni spjara sig. Þann 14. ágúst gaf Fjármálaeftirlitið yfirlýsingu þess efnis. Hálfum öðrum mánuði síðar er bankakerfið hrunið - og fall þess er mikið!
Björgunaraðgerðir Geirs Haarde í rústum bankanna miðast fyrst og fremst að bjarga bröskurunum frá frekari vandræðum. Kannski að von hans og trú sé sú að þjóðin verði fljót að gleyma og að þessi braskaralýður komi til með að verða helstu bjargvættir Sjálfstæisflokksins þegar kemur að söfnun í kosningasjóði flokksins um næstu áratugi.
Við þurfum annan hæfari og betri leikara á sviðið í hlutverk forsætisráðherra. Geir má halda áfram að leika nátttröll en fyrir braskarana og Sjálfstæðisflokkinn, en ekki alla þjóðina!
Mosi
Vissi ekki af tilboði FSA vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.12.2008 | 16:06
Var fjarri - því miður!
Ljóst er að stjórnvöld eru ekki mjög á því að hlusta á raddir fólksins. Ótrúlega margt fer öðruvísi en ætla mætti.
Sjálfur gat eg eigi mætt því eg var við skógarhögg í Mosfellsdal. Vorum tveir félagar í Skjógræktarfélagi Mosfellsbæjar að brjótast þar í mikilli ófærð, hjuggum tré í norðurhlíð Æsustaðafjalls og fluttum í Hamrahlíðarskóginn þar sem mikið var um að vera.
Við sáum fálka sem hnitaði hringa marga og var að viðra fyrir sér hvaða mannaferðir væru þar á ferð. Svo settist þessi litli bróðir íslenskra ránfugla niður og lét lítið á sér bera. Aldrei aðvita nema forvitin rjúpa kæmi til að skoða sig um í skóginum eftir að þessir menn væru farnir.
Með bestu óskum um að landsmenn geti helst allir haldið góð jól þrátt fyrir miklar þrengingar sem eru vegna léttúðar og kæruleysis sumra landa okkar sem við erum auðvitað að beina mótmælum okkar að.
Höldum áfram kröftugum mótmælum! Sýnum yfirvöldum skósólana!
Mosi
Þögul mótmæli á Austurvelli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2008 | 15:48
Siðblinda
Á kreppuárunum þustu margir íbúar á Norðurlöndunum í skóla til að mennta sig. Meira að segja á Íslandi. Einkennilegt er að stjórnvöld virðast gjörsamlega vera blind fyrir þörf Háskóla Íslands fyrir auknu rekstrarfé þegar kreppir að í þjóðfélaginu. Fyrir nokkrum árum flutti menntamálaráðherranefnan okkar mikla og lofi hlaðna ræðu um gildi aukinnar menntunar og þau markmið að HÍ skyldi verða meðal 100 bestu háskóla heims!
Er það ekki svipað og hjá sumum bændum sem eru með stóð á fjalli. Helst af öllu á að finna alla bestu og vökrustu gæðinga landsins í stóðinu en helst má það ekki kosta nokkurn skapðaðan hlut!
Háskóli Íslands er ekki aðeins menntastofnun heldur einnig n.k. þjónustustofnun fyrir þá sem vilja bæta við þekkingu sína. Ekki síst á krepputímum.
Sjálfstæðismenn virðast vera furðulega oft gjörsamlega blindir á augljósar staðreyndir. Þannig eru í 7 manna stjórn Strætó 5 fulltrúar frá Sjálfstæðisflokknum auk þess sem framkvæmdastjóri/forstjóri mun einnig vera fylgismaður þessa sama flokks! Er það vegna þess að þeir hafa meira vita á rekstri þjónustufyrirtækis en aðrir?
Mosi leyfir sér að hafa fullar efasemdir á slíku.
Um þjónustufyrirtæki og stofnanir gilda önnur sjónarmiðen venjuleg fyrirtæki sem rekin eru með þau markmið að færa eigendum sínum hagnað af rekstrinum. Háskóli Íslands og Strætó verða aldrei rekin á þeim grundvelli.
Mosi
Ekki hægt að taka inn nýnema | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 18:19
Sýnum skussunum skósólana!
Þessi frétt frá Írak er sennilega ein sú kostulegasta sem sést hefur frá þessum heimshluta. Þó mjög grátlegt sé komið fyrir hag Íraka og Bandaríkjamanna reyndar líka, þá er þetta fréttaskot mjög brosleg. En svo er eins og bush hafi verið viðbúinn þessu nýja leynivopni.
Spurning hvort íslenskir mótmælendur eigi ekki að taka upp þessa aðferð sem vakið hefur heldur betur athygli. Teiknum skósóla á mótmælaspjöldin!
Mætum á Austurvöll næstkmandi laugardag!
Mosi
Skókastarinn fyrir rétt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.12.2008 | 11:45
Lán frá Rússum
Í haust sem leið var Mosi á ferð um Rússland.Aldrei hefur Mosi stigið fæti þar og var fróðlegt aðsjá þar og skoða hvað fyrir augu bar. Athygli mikla vakti hve Rauða torgið er í raun miklu minna en það sýndist vera í gömlu áróðursmyndunum frá tímum Kommúnistaflokksins á Sovéttímanum. Við fórum alla leið á Heimsenda, lengst austur í Síberíu þar sem heitir Petropavlosk á skaganum Kamtsjatka. Flug þangað frá Moskvu tekur 9 tíma með Iljúsin 4ra hreyfla flugvélum. Um 1. þátt þessa mikla ferðaævintýris hefur Ragnhildur umhverfisfræðingur Freysteinsdóttir (Sigurðssonar jarðfræðings) ritað allítarlega í nýjasta tölublað Skógræktarritsins, sjá heimasíðu Skógræktarfélags Íslands: http://www.skog.is
Rússland er gríðarlegt flæmi og víða má sjá hve margt er þar á eftir tímanum. Á Kamtsjatka má víðast hvar sjá hrörlega mannabústaði í fögru umhverfi eins og tíðkaðist fyrir hálfri öld hjá okkur. Mikil nostralógía kom upp hjá Mosa, hann upplifði nánast æsku sína að nýju að sjá þessar lágreistu en hrörlegu byggingar.
Við komum t.d. að jarðhitaorkuveri sunnarlega á skaganum. Þar var vægast sagt nokkuð miður að sjá hve umgengni er áfátt. Það sem bilar eða gengur úr sér er einfaldlega látið vera eins og enginn beri neina ábyrgð. Þannig voru ýmsar yfirgefnar og stórskemmdar byggingar, sannkölluið hreysi, sem einhvern tíma höfðu mátt sjá fífil sinn fegurri.
Rússar eiga væntnalega nóg með sín gríðarlegu vandamál að þeir séu ekki að hlaupa undir bagga með okkur Íslendingum. Hins vegar gætum við veitt þeim ýmsa þjónustu á móti. Við gætum t.d. veitt þeim aðstoð á sviði betri jarðhitanýtingar og jafnframt eflt mjög okkar möguleika að afla nýrra verkefna fyrir athafnarmenn okkar á sviði jarðhitanýtingar. Þá er ferðaþjónusta algjörlega á byrjunarreit en náttúra Kamtsjatka er mjög fögur með gríðarlega háum eldfjöllum og vellandi hverum.
Það hefur staðið dálítið í Mosa að rita ferðasöguna ítarlega. Fyrirlestur flutti Mosi hjá Umhverfis- og náttúrufræðifélagi Mosfellsbæjar fyrir rúmum mánuði. Allmikið myndefni er Mosi með undir höndum og gefst vonandi tækifæri að miðla áfram til þeirra sem áhuga hafa.
Mosi
Rússar geta lánað 500 milljónir dala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 11:06
Ólæti eru ekki til framdráttar
Þó ótalmargt sé unnt að finna að störfum Fjármálaeftirlitisins þá er of langt gengið að sýna óvirðingu með grjótkasti og rúðubrotum.
Enginn ber neinn hag af slíku og það er ekki til framdráttar mótmælum sem eiga að vera friðsöm.
Mjög mikilvægt er að lögreglan hafi hendur í hári grjótkastara enda getur grjót í höndum óvita verið stórhættulegt.
Allir bera að huga að afleiðingum gerða sinna. Friðsöm mótmæli bera árangur þó sent sé. Þau eru auðvitað tímafrekari.
Mosi
Rúður brotnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.12.2008 | 10:16
Loksins axlar einhver ábyrgð!
Tryggvi Jónsson hefur sýnt gott fordæmi með því að axla ábyrgð. Auðvitað gengur ekki að sá sem hefur verið lykilmaður í mjög miklu viðskiptaveldi, sé ráðinn í mikilvægt og viðkvæmt starf í banka.
Hagsmunaárekstrar geta komið upp og ef minnsti vafi er á, ber mönnum að láta af þeim starfa.
Mættu fleiri meðal æðstu ráðmanna þjóðarinnar taka sér Tryggva sér til fyrirmyndar. Ríkisstjórnin hefur t.d. sýnt af sér ótrúlegt ráðaleysi og vandræðagang sérstaklega gagnvart Bretum. Ríkisstjórnin hefur staðið sig mjög illa við að upplýsa landsmenn um stöðu mála og jafnvel leynt mikilvægum upplýsingum. Hún er á góðri leið að grafa sjálf undan sjálfri sér og á því ekkert gott skilið. Vandinn verður stöðugt meiri eftir því sem tíminn líður. Að sumu leyti má sjá hliðstæður við Kerenski stjórnina rússnesku en þá var stutt í kollsteypuna miklu og þá ógnaröld sem byltingin kallaði á í rússnesku samfélagi.
Við verðum að forðast slíkt!
Hver verður næstur til að axla ábyrgð?
Mosi
Tryggvi hættur í Landsbankanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Um bloggið
Siðvæðing í stjórnmálum
Nýjustu færslur
- 24.11.2014 Hvar er jafnréttið?
- 7.11.2014 Er réttarríki á Íslandi?
- 27.10.2014 Byssumálið: krefjumst opinberrar rannsóknar
- 8.10.2014 Sekur eða saklaus?
- 8.9.2014 Jón og séra Jón
Færsluflokkar
Bloggvinir
- Aðalsteinn Sigurgeirsson
- Alfreð Símonarson
- Andrea J. Ólafsdóttir
- Andrés Kristjánsson
- Andri Geir Arinbjarnarson
- Anna Benkovic Mikaelsdóttir
- Arnar Pálsson
- Axel Jóhann Hallgrímsson
- Ágúst H Bjarnason
- Ágúst Ólafur Ágústsson
- Árni Þór Sigurðsson
- Ásgeir Eiríksson
- Ásgeir Rúnar Helgason
- Baldur Hermannsson
- Baldur Kristjánsson
- Baldvin Jónsson
- Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson)
- Berglind Steinsdóttir
- Birgir R.
- Bjarki Steingrímsson
- Bjarni Harðarson
- Bjarni Kristjánsson
- Björgvin Björgvinsson
- Björgvin Guðmundsson
- Brosveitan - Pétur Reynisson
- busblog.is
- Bwahahaha...
- Dagný
- Einar Ólafsson
- Gammur drils
- Guðfríður Lilja
- Guðjón Baldursson
- Guðjón Petersen
- Guðmundur Steingrímsson
- Guðsteinn Haukur Barkarson
- Halldór Sigurðsson
- Hallvarður Ásgeirsson
- Haraldur Haraldsson
- Heidi Strand
- Helga Auðunsdóttir
- Helgi Þór Gunnarsson
- Herdís Þorvaldsdóttir
- Hilmar Gunnlaugsson
- Hjörleifur Guttormsson
- Hlynur Hallsson
- Hrannar Björn Arnarsson
- Hvíti Riddarinn
- Högni Snær Hauksson
- Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir
- Ingólfur Ásgeir Jóhannesson
- Jakob Falur Kristinsson
- Jens Guð
- Jón Bjarnason
- Jón Halldór Guðmundsson
- Jón Ingi Cæsarsson
- Kaffistofuumræðan
- Karl Tómasson
- Kjartan Pétur Sigurðsson
- Kristbjörg Erla Hreinsdóttir
- Kristbjörn Árnason
- Lára Hanna Einarsdóttir
- Lára Stefánsdóttir
- Loftslag.is
- Lúðvík Júlíusson
- María Anna P Kristjánsdóttir
- María Kristjánsdóttir
- Máni Ragnar Svansson
- Morgunblaðið
- Ólafur Ingólfsson
- Ólafur Þór Gunnarsson
- Ólafur Örn Jónsson
- Ómar Bjarki Smárason
- Ómar Ragnarsson
- Ósk Vilhjálmsdóttir
- Perla
- Pjetur Hafstein Lárusson
- Rúna Guðfinnsdóttir
- Sigurður Hreiðar
- Sigurður Ingólfsson
- Sigurjón Þórðarson
- Steingrímur Helgason
- Svanur Jóhannesson
- Sveinn Atli Gunnarsson
- Theo
- Torfusamtökin
- Trausti Jónsson
- Umhverfis- og náttúrufræðifélag Mosfellsbæjar
- Úrsúla Jünemann
- Valdís Jóhanna Guðbjartsdóttir
- Vefritid
- Þorsteinn Ásgeirsson (Icerock)
- Þorsteinn Briem
- Þorsteinn Erlingsson yngri
- Þorsteinn Siglaugsson
- Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson
- Ævar Rafn Kjartansson
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar