Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2013

Ekki allir hrifnir af sendingunni að sunnan

Greinilegt er að ekki eru allir í Framsókn hrifnir af sendingunni að sunnan. Og til að undirstrika andúð sína á erjum og pústrum innan Framsóknar, hafa sumir strikað báða deiluaðila út af lista.

Þetta hefðu fleiri mátt gera enda er Sigmundur ansi brattur í kosningaloforðum sínum. Kannski hann verði einn dýrasti þingmaður þjóðarinnar þegar kosningaloforð eru annars vegar.

Auðveldara hefði verið fyrir Sigmund að lofa góðu veðri í næstu framtíð, lægðir og hæðir koma og fara, en sú auðlind sem á að tappa af til að afskrifa skuldavanda heimilanna er ekki eins augljós og Sigmundur telur sig sjá.

Sennilega er þetta einn dýrasti kosningavíxill Íslandssögunnar.


mbl.is Flestir strikuðu yfir nöfn Sigmundar og Höskuldar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fleiri mál sem mætti rannsaka

Þegar frumvarp, umræður, nefndarálit og atkvæðagreiðslur vegna þessa máls er skoðað, þá voru allir þingmenn sammála um efni þess með örfáum athugasemdum þegar þetta mál var í þinginu 2010. meira að segja ultra íhaldsmenn á borð við Jón Gunnarsson og Óla Kára!

Ef eftirlitsstofnun EFTA og ESA telur ástæðu til að rannsaka tímabundna ríkisaðstoð vegna nýfjárfestinga, þá mættu sömu aðilar hefja rannsókn á samningum við stórfyrirtæki sem hafa fengið óvenjulega þjónustu. Þar má nefna mengunarskatt sem er nákvæmlega O krónur fyrir öll álverin, tiltölulega lágt orkuverð, mjög góða hafnaraðstöðu og einstakan skilning gagnvart hagsmunum stóriðju umfram aðra starfsemi sem m.a. er fólgin í að náttúru landsins er víða fórnað til að unnt sé að framleiða næga orku, oft í óþökk heimamanna. Þetta kalla menn sjálfbærni og þaðan af flottari heitum.

 

 


mbl.is ESA rannsakar ívilnunarlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Valdarán hægri manna í skjóli frjálsra kosninga

Í kosningum eru menn frjálsir að lofa öllu hversu vitlaust sem það kann að vera.

Sá flokkur sem náði bestum árangri setti fram sérkennileg kosningaloforð til að koma heimilum landsins að gagni. Strax var spurt: Hvaða heimilum? Öllum heimilum eða bar þeim sem skulda mest og hafa sýnt mesta kæruleysið í fjármálum sínum?

Ljóst er að þegar lán er tekið, er verið að ráðstafa tekjum fyrirfram. Lán verða að greiðast til baka ásamt vöxtum og verðbótum. Framsóknarflokkurinn beitti sér fyrir 110% fasteignalánum, hver var tilgangurinn? Sjálfsagt fékk hann mörg atkvæði út á þetta „glamur“. Nú vorið 2013 lofar hann skuldaafslætti og jafnvel afskrifutm lána! Sjálfsagt hafa margir fallið fyrir einföldu trixi Sigmundar Davíðs að afla þúsunda atkvæða.  

Þessi málefni eru ekki eins einföld og menn ætla. Það var ekki eftirsóknarvert að hreinsa upp eftir óreiðu hægrimanna eftir bankahrunið. Ríkisstjórn Jóhönnu tók að sér þetta erfiða verk sem svo sannarlega má kalla hið versta skítverk.

Sennilega voru hægri mönnum þetta eins og versti þyrnir í augum að vinstri mönnum tækist það sem hægri mönnum hafa alltaf mistekist, að koma efnahag landsins aftur í rétt horf. Þeir lögðu öll þau fjögur ár sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var við völd, áherslu á að vera að þvælast sem mest fyrir og draga mál á langinn og koma helst í veg fyrir að koma þei í gegnum afgreiðslu þingsins með upphlaupum og málþófi. Og núna var tækifærið. Búið að ljúga þjóðina fulla af ómerkilegum kosningaloforðagaspri sem aldrei verða efnd. Og nú eru lyklarnir að Stjórnarráðinu nánast vísir í hendi þeirra sem rændu Búsáhaldabyltingunni.

Tilgangurinn var að grípa völdin, ef ekki núna þá aldrei.

Við verðum að athuga það að forsetinn hefur sýnt að hann er nákvæmlega sami framsóknarmaðurinn í dag og fyrir um 40 árum þegar honum mistókst að ná völdum í Framsóknarflokknum gegnum svonefnda Möðruvallahreyfingu. Besti liðsmaður stjórnarandstöðunnar á árunum 2009-2013 voru hvorki þeir Sigmundur Davíð eða Bjarni Benediktsson heldur Ólafur Ragnar Grímsson sem á örlagastundu dró taum þeirra sem vildu grafa undan vinstri stjórninni með því að vísa tvívegis Icesave samningunum til þjóðaratkvæðis. Þessir samningar voru í takt við skynsamlega og raunsæja lausn en Ólafur Ragnar og fleiri kusu að draga þetta mál niður á tilfinningalegt plan sem er vægast sagt mjög einkennilegt með hliðsjón af þvi að nánast allan tímann var vitað að nægir fjármunir voru fyrir hendi úr þrotabúi gamla Landsbankans til að borga samkvæmt skyldunum.

Því miður verður að segja að tilgangnum þjónar meðalið. Það voru völdin sem kitluðu metnaðargirnd forystusauða Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Þessa menn skiptir engu hvernig völdunum er náð, aðalllega að þau séu í hendi og gildir einu hvaða aðferð er beitt.

Sennilega eigum við eftir að horfa upp á furðulegar ákvarðanir um syndaaflausnir hvítflybbamanna sem og glórulausa einkavæðingu þar sem allt verður gert að féþúfu fyrir vildarvini Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, spiliingin mun halda innreið sína aftur, - og ekkert stopp!


mbl.is Þingstyrkur skiptir ekki öllu máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóru málin

Dæmigert er fyrir þennan dæmalausa stjórnmálamann að flækjast fyrir stóru málunum árum saman en þegar honum hefur tekist að blekkja þjóðina með loðnum og þokukenndum kosningaloforðum að nú þurfi að láta hendur standa fram úr ermum.

En Sigmundur Davíð hlakkar mikið til að drottna yfir landi og þjóð. Mjög líklegt er að hans fyrsta verk með Sjálfstæðisflokknum að höggva Stjórnarráðið í spað með því að fjölga ráðuneytum eins og áður var að jafnaði gert þegar helmingaskiptastjórnir íhaldsmanna tók við völdum. Þá verður að öllum líkindum dustað rykið af gömlum einkavæðingaráformum og allt einkavætt sem unnt er að gera að féþúfu fyrir flokksgæðinga íhaldsflokkanna beggja. Þá verður að öllum líkindum syndaaflausn hvítflybbamanna og Geir Haarde hafinn upp úr subbuskap fjármálaspillingarinnar. Þá verður að öllum Rammaáætlunin fleygt fyrir borð Þjóðarskútunnar og stóriðjufurstar og kínverskir fjárglæfrar boðnir hjartalega velkomnir.

Í dag hitti eg einn mennta- og athafnamann ágætan í búð í Mosfellsbæ. Við spjölluðum um úrslit kosninganna. Kvaðst hann þegar vera að undirbúa brottflutning enda sé sér vart vært innan um þennan spillta braskaralýð sem nú skríður hvarvetna úr myrkrastofum sínum.


mbl.is Gangi tiltölulega hratt fyrir sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætli niðurstöður kosninganna séu Ólafi Ragnari þóknanlegar?

Einu sinni var Ólafur Ragnar ungur framsóknarmaður. Hann fékk ekki þann frama innan flokksins sem hann vænti m.a. vegna þeirra þrásetnu spillingarafla sem fóru með völdin í SÍS, stærsta fyrirtækinu sem tengdist Framsóknarflokknum. Doktorsritgerð hans sem hann varði við breskan háskóla fjallar um þróun valdsins á Íslandi frá því um miðja 19. öld oh til byrjunar þeirrar 20. Því miður var þessi ritgerð aldrei þýdd á íslensku er ábyggilega forvitnileg.

Þá gekk Ólafur í Alþýðubandalagið og náði ótrúlegum frama og varð formaður flokksins sem var lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Nokkru eftir að ríkisstjórn Jóns Baldvins og Davíðs Oddssonar var öll og Framsóknarflokkurinn kom í stað Alþýðuflokksins´eftir kosningarnar 1995, söðlaði Ólafur um bauð sig fram til embættis forseta lýðveldisins þar sem hann virðist alla tíð hafa notið þess að hafa valdið í sínum höndum á örlagastundu. Í aðdraganda hrunsins átti Ólafur töluverða samvinnu við frjálshyggjumennina og útrásarberserkin sem sumir líkja við víkinga en aðrir við varga. Margt kom annkannalega fyrir sjónir við bakahrunið sem nú virðist vera með öllu gleymt.

Erfiðasta hlutverk nokkurrar ríkisstjórnar á Íslandi var sett undir mælistiku í þingkosningunum í gær. Furðulegt má það vera að tiltektarstarfið eftir frjálshyggjupartíð virðist einskis vera metið. Aldrei áður hefur nokkur ríkisstjórn á Íslandi orðið fyrir jafnmiklum erfiðleikum og ríkisstjórn Jóhönnu og fall hennar er mikið eftir óvægan áróður.

Nú geta braskara- og spillingaröflin skriðið fram úr skúmaskotum sínum í skjól íhaldsflokkanna tveggja og hafið sinn dans kringum gullkálfinn að nýju með tilheyrandi brambolti. Sjálfsagt verður velferðarkerfið sem að mestu tókst að verja á árunum 2009-2013 brotið niður og taumlaus einkagróðavæðing innleidd.  

Sjálfsagt geta Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn glaðst með Ólafi Ragnari að tekist hafi að grafa undan ríkisstjórn Jóhönnu, m.a. með Icesavemálinu, nauðaómerkilegu áróðursmáli sem virðist hafa verið vendipunkturinn og banabiti vinstri ríkisstjórnarinnar. Spurning er hvort Ólafur Ragnar sé ekki fyrir nokkrum misserum verið gildur flokkslimur Framsóknarflokksins? Samvinna milli hans og Sigmundar Davíðs virðist vera nokkuð augljós þegar öllu er á botninn hvolft.

Margir telja Ólaf Ragnar vera slóttugasta pólitíska refinn í íslenskri pólitík. Hann hefur gert Bessastaði að n.k. tilraunastöð með þróun stjórnmála valds á Íslandi.

Í mínum huga er eftirsjá að þeirri ríkisstjórn sem lagði allt í sölurnar til að bjarga því sem bjarga mátti eftir bankahrunið. Með fremur óljósum og þokukenndum stjórnmálamarkmiðum tókst Sigmundi Davíð það sem engum hefur tekist, sjálfsagt með aðstoð vinar síns á Bessastöðum. Hvernig hann hyggst efna kosningaloforðin sín er ekki gott að átta sig á, en það er hans höfuðverkur. Ekki er ósennilegt að ef honum verður hált á hinu pólitíska svelli, muni Sigmundur kalla yfir sig nýja „Búsáhaldasbyltingu“ en án mín, eg verð smám saman of gamall í svona hasar.


mbl.is Forseti hittir Jóhönnu í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna sýndi gríðarlegt hugrekki

Ekki var ástandið gott við þær aðstæður þegar Jóhanna tók við embætti forsætisráðherra. Allt var í kaldakoli eftir óreiðu sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn skildu eftir sig. Þessi ríkisstjórn mátti nánast upp á hvern dag sæta andróði, stjórnarandstæðingar úr röðum hrunmanna gerðu allt til að koma fyrir sem stærstum steinum, já heilu björgunum ef ekki fjöllunum í veg Vinstri stjórnarinnar. Þessi ríkisstjórn fékk það erfiða hlutskipti að taka til eftir frjálshyggjupartíði, mestu óreiðu og braski sem enginn vill taka ábyrgð á. Allir vísa hver á annan.

Nú er mjög líklegt að upp renni tímar nýrra aflátssölu eins og tíðkaðist á dögum Marteins Lúthers.

Þá gátu syndarar keypt sér syndaaflausn gegn gjaldi til kaþólsku kirkjunnar.

Og spákaupmennskan kemur aftur eins og gömul afturganga með tilheyrandi braski og fjármálasukki, allt í boði sigurvegaranna. Nýtt fjárglæfratímabil og sennilega nýtt hrun. Við sem erum skuldlausir borgarar verðum nauðugir viljugir að borga skuldir óreiðumanna, eins og svo alltaf áður.

Mig langar til að þakka Jóhönnu frábært starf við mjög erfiðar aðstæður.

Hvergi nema á Íslandi getur slökkviliðið vænst þess að vera grýtt af brennuvörgunum.


mbl.is Jóhanna kvödd með rósum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturgöngurnar komnar á kreik

„Sú gamla er komin aftur“ sagði Svavar Gestsson í viðtali í Speglinum í RÚV núna í þessu. Með þessu átti hann við að nú væru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn með meirihluta atkvæða og líklegt að nú byrji ballið að nýju.

Þessi ríkisstjórn 2009-2013 hefur tekið við einhverju ömurlegasta búi sem nokkur ríkisstjórn hefur þurft að taka við. Það var ekki af eigingirni sem hún tók að sér það erfiða hlutskipti að taka til eftir frjálshyggjuóreiðuna.

Nú geta Bjarni og Sigmundur hrósað happi að fá lyklana að Stjórnarráðinu og orðið hæstráðendur til lands og sjávar, rétt eins og Jörundur á sínum tíma. Hvort nýtt hrun verði komið á teikniborðið að loknum Hundadögum skal ekki fullyrt. En eitt er víst:

Í hádegisfréttum RÚV var sagt frá sjónarmiðum álfurstans sem ræður álbræðslu Norðuráls á Grundartanga að nú strax eftir helgi verði að vænta „góðra tíðinda“ vegna byggingar álbræðslu í Helguvík. Greinilegt er að búið er að semja fyrirfram um þessi mál. Spurning er hvort þessi aðili fjármagni að einhverju leyti starf „álflokkanna“?

Verður „Rammaáætluninni“ fleygt fyrir borð? Nýjum náttúruverndarlögum, hugmyndum um veiðileyfagjald kvótahafa? Verður sama stefna tekin upp og á dögum Davíðs gagnvart öryrkjum og sjúkum sem og þeim sem minna mega sín?

Þá er spurning hvort Frjálshyggjan verði dubbuð upp og allt einkavætt sem haft er að hafa að féþúfu eins og Landsbankann og Landsvirkjun sem og Orkuveitu Reykjavíkur og fleiri orkuveitur og vatnsveitur. Það væri ekki ólíklegt. Afturgöngurnar sjá um sína.

Eg fyllist hryllingi að við sitjum uppi með nýja afturhaldsstjórn. Ríkisstjórn Jóhönnu Sogurðardóttur boðaði á vissan hátt vor í íslenskri pólitík. En villikettirnir og valdagleði afturhaldsaflanna kom í veg fyrir það rétt eins og gerðist í Tékkóslavakíu 20.8.1968.


mbl.is Sjálfstæðisflokkur með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framsóknarflanið

Mjög furðulegt er að Framsóknarflokkurinn nái þessu fylgi þegar stefnumálin eru skoðuð. Megináhersla er vægast mjög loðin og sífellt minnst á hag heimilanna í landinu án þess að það sé nánar útlistað.

Það er nú svo að Framsóknarflokkurinn hvatti til mikillrar skulda í aðdraganda hrunsins. Hver er búinn að gleyma að það var Framsóknarflokkurinn bauð 110% lán en afleiðingin af þeirri stefnu eru þrengingar hjá allt of mörgum sem létu þessi gylliboð glepja sér sýn. Tóku margir lán til að fjármagna neyslu sem og ýmiskonar bruðl. Það er svo einfalt að öll lán eru dýr og í raun er verið að ráðstafa tekjum sínum fyrirfram. Þessi lán eru ekki gefin.

Framsóknarflokkurinn byggir góðan árangur sinn af innihaldslausu glamri. Einhverjir aðrir eiga að borga, eigum við hin sem ekkert skulda að borga fyrir skussana?

Komist hægri flokkarnir, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur aftur að völdum verður hætta af nýju hruni.

Einu sinni var Framsóknarflokkurinn flokkur bænda og samvinnu. Fyrir löngu hefur hann týnt upphaflegum markmiðum sínum, er stjórnað af eignamönnum og bröskurum sem hafa engan annan tilgang en að komast til valda til að drottna yfir landi og lýð. Þá verður unnt að leggja grunninn að nýju hruni og aukinni eignasöfnun braskaranna.

Megi biðja guðina um að forða okkur frá Framsóknargyllingunum!


mbl.is Ólíkt fylgi flokka í dreifbýli og þéttbýli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo þetta er þá illa leikið leikrit

Leikritið kringum vörn þeirra Kaupþingsmanna er orðið ansi þreytandi. Verjendur segja frá sér verkefninu sem er einsdæmi í íslenskri réttarsögu og gefur mjög slæmt fordæmi ef þeir komast upp með. Ástæðan fyrir þessari ákvörðun Gests Jónssonar eru meint mistök símafyrirtækis vegna símahlerana sem rannsókn málsins byggist á.

Í raun virðist engin haldbær vörn vera í málinu. Þegar Sérstakur ríkissaksóknari fékk gögn frá Kaupþingi í Lúxembourgh þá var það til að styrkja grunsemdir og þar með ákæruna sem er mjög vel rökstutt.

Þetta snýst því út á að reyna að vinna tíma og með þeirri von að Framsóknarflokkurinn nái góðri kosningu eru meiri líkindi að Framsókn vilji taka þessum málum vettlingatökum, gefa jafnvel þessum ákærðu mönnum upp sakir gegn gildum greiðslum, kannski í kosningasjóð flokksins. Spillingin er nefnilega ekki búin, síður en svo.

Vonandi sjá sem flestir gegnum lygavef Framsóknarflokksins um gull og græna skóga. Skuldaafsláttur nýtist fyrst og fremst stóreignamönnum sem jafnframt skulda gríðarlega. Bakkabræður hafa fengið 170 milljarða afskrifaða í Íslandsbanka svo dæmi sé getið.

Framsopknarflokkurinn á ekki skilið að verða verðlaunaður fyrir ábyrðgarleysi í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Hyggst Sigmundur Davíð ræna Búsáhaldabyltingunni?


mbl.is „Ekkert samhengi þar á milli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaus stefna

Svo virðist að forysta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks vilji setja upp einhvern sýndarveruleika sem grunlaust fólk fellur fyrir. Engar innistæður eru fyrir þessum greiðslum, sem eiga að því virðist að falla af himnum ofan.

Það er eins og gleymst hafi þessu fólki hverjir áttu frumkvæði að einkavæðingu bankanna og öllu sem aflaga fór og enginn vill bera neina ábyrgð.


mbl.is Fylgi stóru flokkanna minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243585

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband