Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Hvalveiðar og hvalaskoðun

FYRIR margra hluta sakir er fróðlegt að skoða þessi tvö orð sem kalla á andstæður. Í Ritmálsskrá Orðabókar Háskólans eru margir tugir ef ekki hundruð orða sem tengjast hvölum, hvalveiðum og nytjum af hvölum. Hins vegar finnst orðið hvalaskoðun einhverra hluta vegna ekki enn í þessu sama safni hversu vel og vandlega sem er leitað.

Við athugun í gagnasafni Morgunblaðsins finnst hvalaskoðun ekki heldur fyrr en árið 1985! Í þessari elstu heimild segir í frétt frá 16. ágúst bls. 2 frá fundi á vegum Landverndar en frummælandi var Robert Payne heimsþekktur bandarískur líffræðingur með sjávarspendýr sem sérgrein. Hvatti hann Íslendinga eindregið að hefja hvalaskoðunarferðir en í Bandaríkjunum væri mikil atvinna tengd þeim. Í Kalíforníu næmi veltan um 3 milljörðum íslenskra króna. Þess má geta að velta vegna hvalaskoðunar á Íslandi er núna 2 áratugum síðar að nálgast 3 milljarða króna! En það eru auðvitað verðminni krónur. Miðað við verðlagsþróun síðan má reikna með að krónan hafi rýrnað um 75–90% á rúmum 20 árum þannig að við megum leggja okkur enn meira fram til að hala inn sömu fjárhæð.

Á þessum sama fundi var Eiður Guðnason alþingismaður. Kvað hann uppástungu líffræðingsins þá fáránlegustu sem hann hefði heyrt og að sýndi ótrúlega vanþekkingu á íslenskum aðstæðum. Ekki er þetta rifjað upp þingmanni þessum til vansa né vanvirðingar heldur aðeins bent á hve þessi hugmynd Bandaríkjamannsins þótti vera skrýtin og skondin. Auðvitað hafa Íslendingar verið lengi vel mjög einhæfir í atvinnuháttum sínum og gömul viðhorf verið furðu lífseig.

Kjarval hvatti á sínum tíma að gerð væru út hvalafriðunarskip í grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. mars 1948: Hið stóra hjarta. Því miður er það svo að þeir sem fá góðar hugmyndir verða oft fyrir aðkasti og var lengi vel gert grín að hugmynd þessa eins frægasta listamanns þjóðarinnar.

Jón Ásgeir Sigurðsson var um tíma fréttaritari Morgunblaðsins í Bandaríkjunum. Skrifar tvö löng myndskreytt fréttaskeyti sem birt voru í opnum Mbl. 11. september 1986 og 15. ágúst.1987. Þar er annars vegar sagt frá hvalaskoðun úti fyrir Massachusettsríki við austurströnd Bandaríkjanna, hins vegar frá umfangsmiklum mótmælum við fyrirhuguðum vísindaveiðum Íslendinga. Í báðum þessum greinum er vikið að hvalaskoðun.

3. júlí 1990 ritar Þór Jakobsson veðurfræðingur lesendabréf í Velvakanda Morgunblaðsins: "Hvalaskoðun við Ísland." Þar bendir hann á nýútkomna skýrslu eftir Ole Lindquist náttúrufræðing og leiðsögumann um að tímabært sé að skoða betur möguleikann á að hefja þegar hvalaskoðunarferðir frá Íslandi. Hvalaskoðun erlendis kveður Ole hafa hafist árið 1945 í La Jolla sem er syðst í Kalíforníu. Árið 1981 hafi um 285 þús manns farið í skipulagðar hvalaskoðunarferðir en auk þess sé unnt að fylgjast með hvölum frá útsýnisstöðum á ströndinni.

Á heimasíðu Félags leiðsögumanna (http://www.touristguide.is) má lesa í fréttasafni félagsins fundargerð þar sem greint er frá fræðslufundi 1. nóv. sl. með Ásbirni Björgvinssyni frá Hvalasafninu á Húsavík. Hvet eg alla þá sem lesa þetta lesendabréf að kynna sér þær gagnlegu upplýsingar sem þar koma fram og víðar á heimasíðunni.

Spurning er hvort Íslendingar eigi ekki að gleyma hvalveiðum sem fyrst. Engin skynsamleg né efnahagsleg rök mæla með þeim. Urðun af leifum veiddra hvala (a.m.k. 140 tonn) er þjóðinni til mikils vansa enda er ekki lengur heimilt að framleiða lýsi og mjöl úr þeim hvorki til manneldis né skepnufóðurs.

Hins vegar mælir ekkert á móti því að nýta megi gömlu hvalveiðibátana til hvalaskoðunar eftir nauðsynlegar endurbætur á þeim. Þeir eru góð sjóskip sem synd er að grotni niður. Skipin hafa hins vegar mikið aðdráttarafl enda margt skoðunarvert í þeim, t.d. eru gufuvélarnar mjög hljóðlátar.

Mig langar til að vitna í grein Kjarvals og gera að lokaorðum mínum: Er nokkuð frjálsara, óháðara og hlutlausara en sjá hvali fara stefnur sínar á flötum hafsins. Hvalafriðunarskip mundi miklu ódýrara í rekstri en veiðiútgerðin. Verið gæti að hlegið yrði að slíkri skipshöfn, slíku skipi dregið háðsflagg við hún en hvað gerir það til? Hlátur sá væri hollur, vel undir byggður, þjóðir vissu á hvaða rótum sá væri runninn. Smáþjóðir mundu skilja þetta mál vort, og fá tiltrú til þess, af fagurfræðilegum ástæðum, og trúa því að við byggjum fagurt land við fagran himin.

Höfundur er forstöðumaður bókasafns og leiðsögumaður.


Ekki er ein báran stök

Nýjasta óhappið í Heiðmörk að vörubíll fullur af farmi er staðfesting á þeim grun mínum að þessar framkvæmdir hafi frá upphafi verið mjög illa undirbúnar. Vegirnir í Heiðmörk eru börn síns tíma, fyrst og fremst lagðir með umferð fólksbifreiða í huga. Síðan eftir að þetta brambolt á vegum bæjarstjórans í Kópavogi hófst, þá hefur hvert óhappið rekið annað.

Hefði nú ekki verið betra að undirbúa betur vegina um Heiðmörkina sem þessar þungu vöruflutningabifreiðar eiga leið um? Til ábendingar má benda á mjög slæmt ástand á veginum sitt hvoru megin einbreiðu brúarinnar milli Rauðhóla og Elliðavatnsbæjarins. Þar er ástand vegarins vægast sagt þannig að það verður vart verra á mestu þvottabrettisköflum íslenska vegakerfisins.

Mér finnst að Sjálfstæðisflokkurinn mætti nú taka sig á og koma þessum málum í betra horf. Nú stýra þeir meirihluta bæði í Kópavogi og í Reykjavík og allir kaflar þessa Heiðmerkurklúðurs er hrein sorgarsaga frá upphafi til enda, frá því að skógarlundarnir voru ruddir og fram á daginn í dag.

Oft hefur verið amast við ferð hestamanna um Heiðmörk og eru ástæður fyrir því. Nú munu vera sérstakar reiðgötur um Heiðmörkina. Þungatakmarkanir hafa alltaf verið og lengi vel var Heiðmörkin lokuð allri umferð nema gangandi fólki. Vegirnir eru nánast þeir sömu og voru í upphafi. Kannski að menn séu orðnir svo ofurtrúaðair á tæknina að trú þeirra sé meiri á umdeildum framkvæmdum en mannleg skynsemi.

Kveðja

Mosi


mbl.is Vörubíll með fullfermi valt í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 243585

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 23
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband