Leiðsögutíðin að mestu að baki

Í tvær vikur var Mosi á ferð um landið með ferðafólk frá Sviss. Þetta var dæmigerður hringur með krók um Vestfirði. Nú verður greint nokkru frá þessari ferð en til að byrja með verður stiklað á stóru fyrstu dagana.

Fyrsta daginn var farið austur á Þingvöll og alltaf er gaman að dvelja þar góða stund, virða fyrir sér gamla mællingapunkta frá Alfred Wegner í Almannagjá, segja frá þessu merka starfi vísindamanns sem því miður var óheppinn að komast ekki til baka frá Grænlandi 1930. Þá fylgir að skýra sögu þjóðarinnar í stuttu máli og alltaf hefi eg dálítinn stein í maganum út af Drekkingarhyl og þeim voðaverkum sem tengdist gríðarlegri refsigleði fyrri tíma. En það var e.t.v. eðlilegur millikafli milli germansks réttar og nútímans. Germanskur réttur var mjög mannúðlegur. Þeir sem brutu gegn öðrum bar að yfirgefa samfélagið og máttu koma aftur að 3 árum liðnum, sbr. fjörbaugsgarð, refsingu Gunnars á Hlíðarenda. Hann brást þessari kröfu og þá breyttist dómurinn sjálfkrafa í skóggangssök eins og kunnugt er af Njálssögu. Alltaf er gaman að koma í krikjuna og segja stuttlega frá henni og þeim merku gripum sem þar má sjá. útlendingar eru yfirleitt heillaðir af sögunni af gömlu altaristöflunni sem var skilað aftur.

Þá var farið yfir Kaldadal og um Borgarfjörð í sólskini og hægviðri. Alltaf eru undur mikil yfir þegar komið er niður af þessum harðbala sem Kaldidalurinn er og allt í einu komið í Húsafellsskóg þar sem nú verður vart þverfótað fyrir sveppum. Áð í Húsafelli og notið góðra veitinga þar. Hraunfossar, Reykholt og Deildartunguhver voru næst á dagskrá. Mikið finnst fólki gaman að sjá þessi undur og stórmerki. Næstu tvær nætur gistum við á Görðum, Langaholti á Snæfellsnesi. Þar var Rúnar Marvinsson meistarakokkur sem af alkunnri snilld sá um matseld. Á öðrum degi var farið um Snæfellsnes í yndislegu veðri, gengið frá Arnarstapahöfn um ströndina og alla leið í Hellnar. Þar fengum við okkur hressingu í Fjörukránni, flestir fengu sér fiskisúpu en aðrir völdu annað. Á Fróðarheiði rigni allhraustlega og var það fyrsta rigningin sem við urðum vör við.

Snemma á 3ja degi var ekið öðru sinni þvertyfir Snæfellsnesið yfir til Stykkishólms. Meðan við biðum fars gengum við um þorpið og í Súgandisey, nutum frábærs útsýnis í sumarveðri eins og það gerist best. Þá var farið yfir Breiðafjörðinn, ekið vestur Barðaströnd og yfir Kleifarheiði. Áðum stuttlega við gamla línuveiðarann Garðar í Skápadal sem brátt verður 100 ára. Þá var ekið niður á Rauðasand og við hugðumst líta í kirkjuna eins og oft er fróðlegt. Kirkjan var harðlæst og var ekkiannað að gera en að ganga í veitingastaðinn þar skammt frá. Mikil var undrun mín að þarna urðum við að taka upp veskið til að greiða fyrir kaffi. Frá því að Mosi hóf störf í ferðaþjónustunni hefur kaffi fyrir bílsstjóra og leiðsögumann og jafnvel með því verið frítt. En þarna er greinilega annar siður enda eigendi veitingastaðar þessa talinn vera með auðugri mönnum. Aðhaldssemi og níska virðist því fylgja Rauðasandi allar götur frá því að Guðrún Björnsdóttir í Bæ gerði garðinn frægan með endemum með nánasarhætti sínum gagnvart bændum á Rauðasandi á sínum tíma. Hún leigði við okurverði potta, katla og kirnur í sláturtíðinni og varð auðsældin furðu mikil af þeirri sýslu. Sjálfsagt á eftir að verða mikil auðsöfnun á Rauðasandi á 21. öld eins og á þeirri 17. og 18. enda stassjónisti þessi búinn að kaupa flestar jarðir á Rauðasandi og stóran hluta Látrabjargs.

Þessum degi lauk síðan með skoðun vestast á Látrabjargi. Hópurinn gisti í Breiðuvík og er gleðilegt hversu vel hefur tekist til við að endurvekja byggð þar og veita prýðisgóða þjónustu.

Fjórði dagur hófst á því að aka yfir í Örlygshöfn og yfir að bæ sem nefnist Hótel Látrabjarg. Erindið var að sækja blómvönd sem þangað var ranglega sendur. Tilefni okkar þangað var að ein konan í hópnum átti afmæli daginn sem við komum í Breiðuvík og voru gerðar ráðstafanir til að koma blómvendi til hennar. Gististaðurinn í Breiðuvík er nefndur að auki „við Látrabjarg“ og er merkilegt nokk að ruglingur sem þessi geti orðið. Þó er þetta ekki það versta því stundum kemur fyrir að þetta duglega fólk sem stendur að rekstrinum í Breiðuvík fær stundum sendingar sem ranglega hafa fyrst verið sendar austur á Breiðdalsvík! Það er öllu verra! Nú ókum við sömu leið til baka og við komum daginn á undan en gaman hefði verið að fara um Patreksfjörð, yfir á Tálknafjörð og Hálfdán og Suðurfirðina en það hefði verið allt of langur dagsáfangi. Við áðum í Flókalundi í mjög góðu veðri, flestir fengu sér ís til að kæla sig í hitanum. Þá var haldið áfram austur Barðaströnd og áð í Bjarkarlundi eftir nokkur ljósmyndastopp. Barðaströndin er hreint frábær og miður að ekkert er gert til að draga ferðafólk að á þessari löngu leið. Í Bjarkalundi var síðbúið hádegisstopp og þar fengu flestir sér súpu dagsins og brauð. Nú var ekið til baka inn Þorskafjörð og var það hálfskítt því vegagerð var á fullu þarna skammt vestan við Bjarkalund. Vonandi fresta menn framkvæmdum þarnan og velja fremur styttri leiðina fremur en að eyðileggja Teigsskóg handan við Þorskafjörðinn. Nú ókum við Þorskafjarðarheiði, litum inn í sæluhúsið og það fannst Svissurum nokkuð merkilegt hvernig staðið er að rekstri þessara húsa. Þá var ekið niður í Steingrímsfjörð yfir heiðina stystu leið í Bjarnarfjörð og gist hjá Matthíasi á Laugarhóli. Þar var áður skóli sem nefndur var að Klúku. Þar sem ferðin gekk öll að óskum, vegir mjög góðir og greiðfærir komum við snemma í náttstað. Nutu margir þess að fara í sund, aðrir litu inn í kotið kuklarans á Klúku. Matthíasi á Laugarhóli er franskur að uppruna, talar dágóða íslensku og er meistarakokkur rétt eins og Rúnar Marvinsson. Kúnstir voru sýndar við matseldina. Supu menn hveljur þegar hann mundaði pönnuna, hellti konjakki yfir og allt í einu stóð allt í ljósum loga!

Um kvöldið gengum við að fossinum skammt austan við gististaðinn. Þessi foss lætur lítið yfir sér en er fríður í fögru gili.

Meira fljótlega en þá verður sagt frá Grímsey á Steingrímsfirði.

Mosi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 243409

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband