Tilefni að bæta viðskiptasiðferði

Oft hefur verið ástæða til að bæta viðskiptasiðferði . Hér á Íslandi eru þessi mál vægast sagt á mjög hálum ís. Þegar fiskveiðikvóta var úthlutað byggt á veiðireynslu eingöngu, kom mörgum á óvart og sérstaklega þegar herimilt var að framselja, selja og veðsetja kvótann. Kvótabrask varð blómleg starfsemi og margir urðu vel loðnir um lófana. Margir af þessum kvótagreifum „komust á bragðið“. Í stað þess að veiða fisk fóru þeir að kaupa sér stóra hluti í fyrirtækjum og með veðsetningu á hlutabréfum mátti kaupa enn meiri og stærri hlut en áður. Dæmi eru um að kvótabraskarar hafi keypt gríðarlega stóra hluti í fyrirtækjum sem nú eru mörg hver gott svo vel farin veg allrar veraldar.

Hlutafé almenmnings sem keypti smám saman sitt hlutafé fyrir spraifé sitt situr uppi með sárt ennið. Ævisparnaðurinn er farinn veg allrar veraldar og kemur aldrei aftur.

Þegar lög um hlutafélög verða næst endurskoðuð sem verður vonandi innan skamms, verður ekki vanþörf á að koma í veg fyrir að fyrirtæki verði bröskurum að féþúfu. Nauðsynlegt er að binda atkvæðarétti á hluthafafundi þeim eðlilegu skilyrðum að hlutafé hafi raunverulega greitt inn  til félagsins og einnig að hlutafé hafi ekki verið veðsett. Sá sem á gríðarlega háan hlut t.d. vegna þess að hann hefur keypt stóra hluti og veðsett hlutabréf til að kaupa meira í félaginu er mjög óeðlilegt. Slíkur hluthafi hefur hagsmuni af að fá sem fyrst arð af eign sinni til að mæta vöxtum af skuldum sínum. Venjulegur hluthafi gerir sér grein fyrir að óhófleg arðsgreiðsla rýrir hag félagsins og er ekki samsvarandi sjónarmiðum um langtímafjárfestingu.

Braskarinn hugsar aðeins um hag sinn frá degi til dags. Honum er þannig farið eins og drykkjumanninum sem hugsar eingöngu um að hafa fé til að kaupa brennivínsflösku.

Samfélagið þarf að verja sig gagnvart spákaupmennsku. Það verður aðeins gert með betra lagaumhverfi og regluverki ásamt VIRKU fjármálaeftirliti.

Til þess eru vítin að varast þau: Bankahrunið var fyrirsjáanlegt. Þjóðin var blekkt stórlega og þáverandi stjórnvöld beittu Fjármálaeftirliti og Seðlabanka fyrir sér að láta í veðri vaka að allt væri í himnalagi. Hrunið varð fyrir vikið mun alvarlegra og afdrifaríkara.

Við súpum seyðið af afglöpum og andvaraleysi ríkisstjórna Davíðs Oddssonar, Halldórs Ásgrímssonar og Geirs Haarde.

Mosi


mbl.is Danmerkurmeistari í gjaldþrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þurfa á góðri íslenskukennslu að halda

Sú var tíðin að Ríkisútvarpið gegndi þýðingarmiklu hlutverki í þjóðlífinu að veita Íslendingum fræðslu og aðhald varðandi íslenskuna. Í hverri viku var Íslenskt mál um hálftíma í senn og endurfluttur nokkrum dögum seinna. Þá voru starfsmenn Orðabókar Háskólans á höttunum eftir betri upplýsingum um sjaldgæf íslensk orð, orðasambönd og orðanotkun.

Á hverjum virkum degi var mjög lengi stuttur 5 mínútna málfarsþáttur, Daglegt mál sem undir lokin var stytt í eina mínútu vegna sparnaðar. Málfarsmínútun var sá þáttur nefndur en brátt kom að því að enn var sparað og þessi eina mínúta í daglegu máli var strikuð út úr dagskrá Ríkisútvarpsins. Það voru afdrifarík og ófyrirgefanleg mistök enda voru þeir íslenskufræðingar sem fengnir voru til starfans bæði sprenglærðir og spaugsamir.

Þegar litið er á dagskrá Ríkisútvarpsins einkum sjónvarps, þá vekur athygli hve bandarískar bíómyndir hafa verið algengar gegnum tíðina. Þá eru þessir endalausu framhaldsþættir hreinasta plága. Má furðu geta að þessi stefna sé lífseigari en að yrkja okkar gamla góða tungumál.

Af og til kemur gott og fræðandi efni.

Í gær hugðist eg ásamt spúsu minni fylgjast með Vísindaþættinum sem Ari Trausti Guðmundsson er umsjónarmaður. Þessir vinsælu þættir hafa verið sýndir fyrir 10 fréttir á fimmtudagskvöldum. Strax í byrjun þáttarins mátti varla heyra stjórnanda þáttarins, Ara Trausta mæla með sinni alkunnu háttvísi. Í Guðmundi Halldórssyni skógfræðingi og skordýrafræðing heyrðist nánast ekkert. Það var spiluð hávær tónlist sem alls ekki átti við, rétt eins og einhver hefði rekið sig í rangan takka við útsendingu þáttarins. Þetta var frekleg móðgun við áhorfendur en þá sérstaklega við þá Ara Trausta og Guðmund.

Þetta var hreint skelfilegt enda kom brátt að því að alkunnugt merki frá sokkabandsárum sjónvarpsins var brugðið upp á skjáinn: Afsakið hlé! Og þar með var þessi góði þáttur blásinn af!

Þórbergur Þórðarson benti á sínum tíma á með mikilli vandlætingu í bréfi til Maju vinkonu sinnar:

 „Ríkisútvarpið hefur tekið að sér forystu í þessari eyðileggingu á mannfólkinu. Meiri partur dagskrárinnar er orðinn músík af plötum og aftur músík af plötum, þindarlaus músík af plötum, og nú er tekin upp sú siðbót, að margslíta í sundur útvarpserindi með fíflslegu músíkdinti. Og ætli að verða örstutt þögn milli þáttaskipta, þá er kíttað upp í hana með músíkgóli. Það má aldrei þegja“.

Ríkisútvarpið má virkilega athuga sinn gang. Það mætti stórlega strika út eitthvað af erlendu efni og þar væri sennilega minnsta eftirsjáin af bandarískum hasarmyndum. Efla mætti innlenda dagskrárgerð af ýmsu tagi. Við Íslendingar eigum mikinn fræðasjóð og gamalt tungumál sem margar aðrar þjóðir öfunda okkur af. Okkur ber að stuðla sem best að varðveislu tungunnar.

Við skulum lesa aðeins meira í fræðum Þórbergs:

„Það er alltaf verið að færa sig lengra og lengra niður í lágkúruna til móts við heimskingjana og þá andlega lötu og úthaldslausu, mikið af dagskránni miðað við sálarástandi þeirra, í staðinn fyrir að reyna að tosa þeim upp á svolítið hærra plan“. Heimild: Bréf til Maju, prentað í ritgerðasöfnum Þórbergs.

Óskandi væri að stjórnendum Ríkisútvarpsins beri sú gæfa að stýra þessari einni mikilvægustu menningarstofnun Íslendinga áfram gegnum öldurót fjármálalífsins sem nú hefur dregið hvert fyrirtækið af öðru niður í hafdjúpin. Einkavæðing þessarar stofnunar er eitthvað sem á að vera jafnfjarri og þau stjörnukerfi sem fjarlægust eru.

Ríkisútvarpið getur verið margfalt betra og ódýrara í rekstri - fyrir okkur Íslendinga!

Mosi


mbl.is Staða íslenskrar tungu 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. nóvember 2009

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband