Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Skynsamleg ákvörðun

Mikið gæfuspor var að fá þennan velmenntaða og víðsýna hagfræðing, Gylfa Magnússon, í sæti viðskiptaráðherra. Hann tekur mjög vel ígrundaða og skynsama ákvörðun við erfiðar aðstæður þar sem gæta þarf að margvíslegum hagsmunum landsmanna.

Kollsteypan sem Íslendingar lentu í haustið 2008 var lengi fyrirsjáanleg. Margir höfðu varað við henni en því miður var jafnvel blekkingum beitt til að láta í veðri vaka að allt væri í himnalagi. Meira að segja Fjármálaeftirlitið gaf út n.k. heilbrigðisvottorð um að íslensku viðskiptabankarnir væru við prýðisgóða heilsu.

Þeir sem höfðu varað við, voru jafnvel gerðir enn tortryggilegri. Ríkisstjórn Geirs Haarde vissi eða mátti vita að ekki var allt með felldu.

Ástæðan fyrir því að Bretar beittu Íslendinga hryðjuverkalögunum er að öllum líkindum vegna þess að þáverandi ríkisstjórn vildi ekki ræða þessi mál við bresk yfirvöld. Þar sem engu tauti væri komið við Geir Haarde og ríkisstjórn hans, var tenginum kastað af Breta hálfu með skelfilegum afleiðingum fyrir okkur Íslendinga. Sjálfsagt hefði verið unnt í tíma að draga verulega úr áfallinu með skynsemi og að ræða við Breta hvernig unnt væri að leysa þessi mál sameiginlega.

Við skulum athuga að þeir sem stjórnuðu íslensku viðskiptabönkunum, virðast hafa stýrt þeim eins og þeir væru ræningjabæli. Þar virðast vildarvinir bankastjóranna og bankastórnanna hafa nánast afgreitt sig sjálfir um lán og fyrir greiðslu án þess að tryggingar og veð væru næg fyrir þeim gríðarlegu fjármunum. Spurning er hvort einhverjir þessara herramanna hafi komið við sögu Scotland Yard eða annarra lögregluyfirvalda, grunaðir eða jafnvel dæmdir fyrir hvítflibbaglæpi? Þeir ógnuðu ekki aðeins breskum hagsmunum, heldur grófu freklega undan fjárhagslegum grundvelli heils lýðveldis!

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki átt sjö dagana sæla. Þó verður að segja að á þeim 40 dögum og 40 nóttum sem liðnar eru frá myndun þessarar bráðabirgðastjórnar, þá hefur heldur en ekki verið unnið hörðum höndum við að kappkosta að leysa öll þessi erfiðu mál. Þessari ríkisstjórn er betur treystandi en ríkisstjórn Geirs Haarde sem vildi fremur stinga höfðinu í sandinn og aðhafast ekkert þegar stormurinn var í aðsigi.

Bestu óskir og þakkir til núverandi ríkisstjórnar. Með þrotlausri vinnu og þolinmæði má finna góðan grundvöll að byggja nýtt Ísland. Haldið áfram með ykkar góða starf!

Mosi


mbl.is Vonast eftir samkomulagi í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn í sjálfheldu

Lengi vel var endurskoðun stjórnarskrárinnar fyrst og fremst sérverkefni þeirra forystumanna Sjálfstæðisflokksins sem fallið höfðu í áliti formannsins. Þannig var ýmsum fyrrum ráðherrum Sjálfstæðisflokksins falið að endurskoða stjórnarskrána og var þeim yfirleitt veitt frjálsar hendur til þess. Sjaldan komu einhverjar góðar ábendingar eða tillögur um breytingar, það var yfirleitt um einhverjar lítilsháttar orðalagsbreytingar að ræða sem oftast viku að valdinu. Hins vegar var kostnaður töluverður.

Nú eru aðrir tímar. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur ríkjandi í Stjórnarráðinu og kominn í stjórnarandstöðu. Það er ný heimssýn sem margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins eiga greinilega erfitt með að sætta sig við. Fyrrum menntamálaráðherra og núverandi varaformaður flokksins stendur fyrir einkennilegu málþófi. Ríkisstjórninni er núið um nasir að leggja fram og ræða mál sem Sjálfstæðisflokkurinn telur að skipti engu máli í samtíðinni.

Það er nú svo að brýn nauðsyn ber að endurskoða stjórnarskrána sem fyrst og það frumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi er lykillinn að því starfi: að unnt sé að koma að nýjum viðhorfum og þekkingu til að endurskoða stjórnarskrána. Endurskoðun stjórnarskrárinnar á ekki að vera einkamál Sjálfstæðisflokksins. Þjóðin vill nýja og breytta stjórnarskrá þar sem byggt er fyrst og fremst á mannréttindum og lýðræði. Gamla stjórnarskráin er barn einveldis 19. aldarinnar þegar konungarnir töldu sig þiggja umboð sitt frá guði almáttugum að stjórna landi og lýð. Þessi núverandi stjórnarskrá byggist á valdinu, skiptingu þess, hver fer með valdið, hvers er hvurs & þannig. Mannréttindakaflinn er eins og hver önnur afgangsstærð gamla fyrirkomulagsins, síðasti kaflinn. Þessu þarf auðvitað að snúa við.

Sjálfstæðisflokkurinn er eins og gömul útigangsrolla sem komin er í sjálfheldu langt frammi á bjargbrún. Hvort rolla þessi þráast við að reyna að rembast að komast eitthvert áfram, þá blasir annað hvort við að snúa frá villu síns vegar eða hrapa niður hengiflugið. Ekki er nein leið fær gegnum bjargið, til þess hefur rollan engin tæki eða þekkingu að bora sig gegnum fjallið. Rollan er í sjálfheldu. Kannski þarf að senda björgunaleiðangur til að koma henni úr sjálfheldu?

Betra hefði verið að Sjálfstæðisflokkurinn átti sig betur á stöðu mála. Þjóðin vill taka frumkvæðið frá forystu Sjálfstæðisflokksins við þá nauðsynlegu vinnu að endurskoða stjórnarskrána.

Mosi


mbl.is Gagnrýna frumvarp en vilja sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörg ófyrirgefanleg mistök

Sú var tíðin að lenska var að rífa allt gamalt niður sem einverra hluta vegna stóðst ekki nútímakröfur. Skömmu eftir stríð var kynnt skipulag á miðborg Reykjavíkur þar sem átti að rífa bókstaflega allar húsbyggingar kringum Tjörnina og jafnvel víðar. Í staðinn átti að byggja einhverja óásjálega steinsteypukassa sem minntu mjög á blokkir eftir stríðsáranna í Austur Evrópu. Sem betur fer kom skortur á byggingaefnumóg erlendum gjaldeyri í veg fyrir þetta óðagot. Í þessari bjartsýnisstefnu átti að framlengja Suðurgötuna til norðurs alla leið norður að höfninni. Örlög Grjótaþorpsins þessa sérkennilega þorps inni í miðborginni, áttu þar með að vera talin í eitt skiptið fyrir öll! Grjótaþorpið á sér vart hliðstæður hérlendis, nema ef vera kynni gamlir þorpskjarnar úti á landi eins og Eyrarbakki.

Gömul vel byggð hús eiga að fá að vera í friði.

Víða um allan heim eru gömul borgarhverfi. Þau eru víðast hvar til mikillrar prýði og draga ferðafólk að. Hvarvetna er lögð áhersla á að varðveita ekki aðeins eitt og eitt gamalt hús, heldur heilu húsaraðir jafnvel heilu borgarhverfin. Meira að segja í Þýskalandi sem varð mjög illa úti í sprengjuregni stríðsáranna var lenska að endurgera gömul hús og jafnvel heilu borgarhlutana.

Einhverju sinni kom eg í Goethe húsið í Frankfurt. Það var í fyrstu ferð minni til Þýskalands. Þetta hús var gjöreyðilagt í sprengjuárás Englendinga og Bandaríkjamanna. Skömmu áður hafði Þjóðverjum tekist að koma öllum lausum munum skáldsins í öruggt skjól. Áhersla var lögð á að unnt væri að endurgera húsið í smæstu smáatriðum eftir að þessum hildarleik lyki en það undirbúið eftir megni. Tekin voru sýnishorn af veggfóðrinu til að unnt væri að útvega áþekkt efni síðar þá tími til endurgerðar hússins var upprunninn. Meira að segja marrið í stigunum milli hæða var á sínum stað. Þjóðverjar eru hreinir snillingar í endurgerð gamalla húsa og mættu Íslendingar taka sér margt til fyrirmyndar hjá þeim.

Fyrir um 40 árum gengu brennuvargar lausir í Reykjavík. Sérstaklega var þeim uppsigað við Bernhöftstorfuna. Var eldur lagður í þessi gömlu hús aftur og aftur en lengi stóð til að byggja risastórt hús milli Bankastrætis og Menntaskólans. Þá gerðist það einn vordag árið 1973 að árrisulir Reykvíkingar máttu sjá hóp áhugasams fólks mála brunarústirnar sem margir vildu rífa. Gríðarlegar deilur voru um þessi hús og áttu margir vart orð í eigu sinni yfir þeirri óráðsíu sumra að láta sér detta í hug að unnt væri að gera þessi hús upp. En þrautseigju þessa góða fólks er að þakka að við eigum elstu og eina glæsilegustu húsaröð á Íslandi enn í dag. Litlu munaði að niðurrifsöflin hefðu betur.

Gömul hús eiga að fá að standa þar sem þau eru. Eftir að þau hafa verið endurgerð þá á að veita þeim nýtt líf með því að koma að þeirri starfsemi sem hentar þeim. Stórhýsi má hins vegar byggja í nýjum hverfum þar sem engin hús eru fyrir. En látum miðbæinn í friði, spillum honum ekki meir en orðið er!

Mosi


mbl.is Miðborgin fær andlitslyftingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afleiðing gróðahyggjunnar?

Ábyrgð á varhugaverðum svæðum virðist ekki vera fyllilega ljós. Okkur leiðsögumönnum sem fara með ferðahópa um hættulegar slóðir eru lagðar ríkar lífsreglur að vara við öllum hættum, sem búast má við á hverjum stað. Þar er Geyssisvæðið ofarlega á blaði.

En það eru ferðamennirnir sem ferðast á eigin vegum sem ekki varast hætturnar. Þeir valsa um allar grundir kringum hveri sem annars staðar eins og fossa. Nokkrir óvarkárir ferðamenn hafa dottið niður í gljúfrin neðan við Dettifoss og Gullfoss.

Geysissvæðið hefur verið um alllanga hríð í einkaeign. Um aldamótin 1900 komst Geysir í eigu erlends auðkýfings sem gerði sér vonir um að græða mikið af Geysi rétt eins og til stóð með Gullfoss á sínum tíma. Það hefur oft vafist fyrir eigendum fasteignar að honum ber ekki aðeins réttur heldur eru ýmsar skyldur lagðar á hann.

Fyrir nokkrum misserum var samþykkt þingmál tengdum fjárlagafrumvarpi að veita íslenska ríkinu heimild að kaupa Geysissvæðið. Sennilega hafa viðræður um kaup þessa svæðis ekki enn verið til lykta leidd og því enn ekki ljóst hverjum beri ábyrgð og réttargæsla.

Óskandi er að á þessu verði sem fyrst breyting enda er ferðaþjónusta vænlegri til arðvænlegrar atvinnusköpunar í samfélaginu en áliðnaður sem allt of mikil áhersla hefur verið á á undanförnum árum.

Öryggismál á ferðamannastöðum á Íslandi er okkur því miður til mikils vansa og við þurfum nú þegar að láta framkvæma nauðsynlegustu aðgerðir.

Mosi

 


mbl.is Aðgengi við Geysi ábótavant?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að brenna sig á braskinu

Ekki kom á óvart að formaður VR hefði verið kolfelldur. Hann hefur verið í stjórn fyrirtækja þar sem teknar hafa verið afar umdeildar ákvarðanir svo ekki sé dýpra tekið í árina. 

Nú er óskandi að kjósendur átti sig á þeim ömurlegu staðreyndum hve einkavæðingin, álvæðingin og öll fjárfestingin var byggð á brothættum grunni. Allt hefur hrunið sem hrunið gat og það hefur verið mikið.

Nú er komið að skuldaskilum. Tími blekkinganna er liðinn. Nú verður að hreinsa upp eftir fjármálaóreiðuna og það mun taka sinn tíma að öngla saman reiturnar til að krafsa upp í skuldirnar himinháu. 

Formanni VR var greinilega refsað og þaðeftirminnilega. Hann hefur bókstaflega verið kjöldreginn í þessari kosningusem sjá mátti fyrir. Fólk er reitt og hneykslað yfir stöðu mála.

Sennilega er þetta upphafið að stærra og meira uppgjöri í samfélaginu. Kosningar leiða vonandi til að sem fæstir kjósendur láti fallerast fyrir blekkingarvef þeirra sem tengdir eru kollsteypunni í fjármálum okkar og bera meginábyrgð.

Af ávöxtunum skulum við þekkja þá!

Mosi


mbl.is Kaupþingsmálið vó þungt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komið að skuldadögum?

Nú er gósentíð athafnamanna að baki. Ekki er unnt að vaða endalaust í ódýru lánsfé og nú er heldur en ekki komið að skuldadögum.

Því miður þá er svo komið að nú er tími kominn að greiða skuldir. Mögru árin eru framundan. Í góðærinu átu mögru kýrnar þær feitu og fögru, rétt eins og í draumi faraós forðum tíð.

Annars er alltaf álitamál hvor kosturinn sébetri: gjaldþrot eða áframhaldandi rekstur fyrirtækis þar sem e.t.v. engin landsýn er?

Fyrir nokkrum áratugum rak Landsbankinn nokkur verslunarfyrirtæki áfram þó svo tæknilega séð væru þau gjaldþrota. Þá var áætlað að meiri skellur væri að krefjast gjaldþrots en halda vitlausum rekstri áfram.

Ef Baugsmenn færa ekki meira fé inn í rekstur sinn á Íslandi er rekstrinum að öllum líkindum sjálfhætt. Bankarnir hafa stutt tjóður um þessar mundir og verða að gera skuldunautum sínum skil rétt eins og aðrir sem skulda mikið fé.

Mosi


mbl.is Frekari greiðslustöðvun hafnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umdeildur dómur

Þessi dómsniðurstaða er fólki með venjulega siðferðislega þjóðfélagslega ábyrgð til mikillar hneykslunar. Hvers vegna er blaðamaður sakfelldur og dæmdur í háar fébætur fyrir að segja frá staðreyndum sem eru að öllum líkindum mjög nærri sannleikanum?

Ákvæði 25. kafla hegningarlaganna um ærumeiðingar hafa ætíð verið umdeild sérstaklega sú grein þar sem verknaður um ærumeiðingu sé talinn fullframinn jafnvel þó svo að þar sé í einu og öllu réttilega frá sagt? Rökstuðningur fyrir því að vernda beri slíka hagsmuni sé að betra sé að veita þeim meiri rétt sem ófrægður er með eirri röksemd að „oft megi satt kjurt liggja“.

Blaðamaðurinn var að flytja frétt sem byggðist á vitnisburði konu sem að öllum líkindum segir rétt og satt frá. Ekki fer fram nein opinber rannsókn hvort blaðamaðurinn hafi haft rétt fyrir sér eða hafi farið með fleipur. Sá sem rekið hefur umdeilda starfsemi fær allan rétt umfram það sem kunni að vera satt og rétt. það virðist ekki þurfa að sanna neitt!

Kannski má segja að blaðamaðurinn hefði betur látið nefndan athafnamann ónefndan en láta nægja að nefna fremur aðsetur starfsstöðvar hans.

Þessi dómur sver sig óneitanlega þegar Þórbergur Þórðarson rithöfundur var sakfelldur í Hæstarétti 1934 fyrir það að móðga Adolf Hitler. Hann nefndi í blaðagrein að hann væri „sadisti“ á þýska kanslarastólnum. Krafa kom frá þýskum yfirvöldum gegnum þýska ræðismanninn á Íslandi: Annað hvort verður þessum rithöfundi grimmilega refsað eða strikað verði út allur fiskinnflutningur frá Íslandi til Þýskalands. Þórberg var gerð sekt upp á 500 krónur sem var mikið fé á kreppuárunum. Þá var tímakaupið í atvinnubótavinnunni í Reykjavík slétt ein króna eftir að reykvíska íhaldinu hafði tekist að lækka kaupið sem áður var 1 króna og þriðjungi betur úr krónu.

Hvort íslensk yfirvöld hafi orðið fyrir áþekkum þrýsting frá íslenskum umdeildum athafnamanni sem sagður er hafa verið milligöngumaður vændis og annarra umdeildra athafna, skal ósagt látið.

Mosi

 


mbl.is Fordæma dóm vegna ummæla um vændi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eftirsjá að Ingibjörgu

Ingibjörg hefur tekið ákvörðun um að hætta þátttöku í srjórnmálum - að sinni - vegna veikinda. Þetta hlýtur að vera mjög skynsöm ákvörðun tekin í smaráði við góða lækna sem vilja henni vel. Við allir Íslendingar óskum henni alls góðs og að hún nái að komast yfir þessi veikindi sem fyrst.

Ingibjörg skilur eftir sig djúp og farsæl spor í íslenskri pólitík. Hún hefur ætíð verið mjög fyrir lýðræðisleg vinnubrögð og hefur verið þess vegna einn mikilvægasti stjórnmálaðmaðurinn í íslenskri pólitík á undanförnum árum.  Það verður söknuður að Ingibjörgu Sólrúnu. Hún hefur ætíð sýnt af sér í verkum sínum og málflutningi að hún vill öllum vel. Þar fer ekki eigingjörn sjónarmið heldur að vilja koma að gagni fyrir allt samfélagið.

Það verður söknuður að Ingibjörgu Sólrúnu en óskandi er að hún eigi sér eftir að komast yfir sjúkleika sinn endurkomu í stjórnmálin svo við getum áfram notið alls þess góða sem hún hefur beitt sér fyrir í verkum sínum gert fyrir okkur.

Gangi henni allt að óskum og með innilegustu kveðjum um góðan bata og batnandi heilsu.

Mosi

 


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landhreinsun

Öllum er frjálst að stofna félag í sérhverjum löglegum tilgangi. Þannig er megininntak ákvæðisins um félagafrelsi. Félag sem hefði á stefnuskrá sinni markmið sem hefðu ólöglega starfsemi í för með sér t.d.ofbeldi og aðra refsiverðan verknað, ber ríkisvaldinu að uppræta.

Þessi mótorhjólasamtök sem kenna sig við Hells Angels og sitt hvað fleira, hafa því miður sums staðar í heiminum látið að sér kveða. Þar sem þau starfa hafa yfirvöld annað hvort sýnt einstakt umburðarlyndi eða jafnvel ámælisvert kæruleysi.

Í Þýskalandi er mjög náið fylgst með svona starfsemi. Það er af sérstöku tilefni. Svona starfsemi yfirtók valdstjórnina í sínar hendur á sínum tíma, því miður með ómerkilegu lýðskrumi og valdníðslu. Það glæpafélag flækti Þjóðverja út í stríðsátök sem enduðu með skelfingu sem Þjóðverjar vilja koma í veg fyrir.

Danir eru því miður að horfa upp á vaxandi uppivöðslu glæpagengja í Kaupmannahöfn. Þar er ástandið vesnandi með hverju árinu sem líður. Lögreglan á fullt í fangi að koma lögum yfir þessa vandræðamenn.

Íslensk yfirvöld hafa tekið skynsamlega stefnu í þessum málum. Af þessum Hells angels er einskis góðs að vænta. Af þeim hefur farið misjafnar sögur og sjálfsagt að taka vara af þessu.

Við sitjum uppi með gríðarleg vandræði vegna efnahagshruns af völdum bankakreppunnar. Þar var ekki um neitt ofbeldi að ræða og væri það ekki á bætandi.

Mosi


mbl.is 18 Vítisenglar sendir úr landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samstarf við Scotland Yard STRAX!

Breski athafnamaðurinn sem skrifar í Morgunblaðið

Robert þessi ritaði í Morgunblaðið hreint kostulega grein sem birtist s.l. miðviðkudag. Hann hafði út úr bankanum 280 miljarða króna síðustu vikurnar sem Kaupþing starfaði. Það er með ólíkindum hvernig þessi huldumaður hefur vaðið uppi í íslensku athafnalífi á undanförnum árum og hvarvetna sem hann hefur drepið niður fæti er sviðin jörð.

Hann situr í stjórn tryggingafélagsins Exista sem nú er nánast einskis virði, búið er að eta fyrirtækið að innan, að öllum líkindum af þessum manni og samstarfsmönnum hans. Og hann stingur af með þessa 280 miljarða sem er næstum milljón á hvern Íslending! Við sitjum uppi með skellinn og nú er rætt um að hækka skatta á okkur heiðarlega hluta þjóðfélagsins til þess að unnt sé að bjarga því sem bjargað verður.

Skyldi þessi athafnamaður í sögu Exista og Kaupþings hafa komið við sögu Scotland Yard? Á þeim bæ eru tugir ef ekki hundruðir mjög færra sérfræðinga í hvítflibbaglæpum sem þeir hafa verið að eltast við í áratugi. Eða er líklegt að íslenskur saksóknari með galtómar hillur líklegri til að ná árangri að koma lögum yfir þessa féfletta sem hafa skilið okkur eftir á köldum klaka?

Við þurfum að hafa hendur í hári þessara manna og gera fjárhagslegan ávinning þeirra af ólöglegum viðskiptum upptækan. Nú dugar hvorki nauð né nú. Upp með símann Steingrímur og hringdu í Darling og Brown og óskum eftir samstarfi um að rannsaka þessi mál STRAX! Scotland Yard er mun líklegri að ná fyrr umtalsverðum árangri en örfáir rannsakendur hérna heima. Hermdarverkalögin voru sett gegn íslenskum fjármálafyrirtækjum til verndar breskum hagsmunum. Athafnir þessara manna beindust ekki síður að grafa undan fjárhagslegri tilveru íslenska lýðveldisins. Við eigum því sameiginlegra hagsmuna að gæta við Breta en eigum ekki að tortryggja þá meira en orðið er nú þegar.

Árangursríkara er að vinna með Bretum og lögregluyfirvöldum þeirra en að sitja með hendur í skauti og gera lítið sem ekkert. Tíminn er fljótur að láta fenna í slóð þessara fjárglæframanna.

Mosi

Mosi

 

 


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 243041

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 28
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband