Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

Lýðræðislegar kosningar eða aðeins leiksýning stjórnvalda?

Þegar stjórnvöld gefa sér niðurstöðu fyrirfram þá eru vissulega maðkar í mysunni. Ef allt væri með felldu, þá væru eftirlitsmenn frá lýðræðislöndum Vestur- og Mið-Evrópu að fylgjast gjörla með að kosningar hafi farið fram í samræmi við lýðræðishefð. En af fréttinni er ekki að sjá að nokkur hafi verið þar viðstaddur.

Ef rétt reynist þá eru „kosningar“ sem þessar einskis virði fyrir lýðræðið. Stjórnvöld halda þá einræðinu til streytu eins og tíðkaðist áður fyrr undir kommúnismanum. Spurning er hvað fólkinu í Hvíta Rússlandi finnst um uppákomu sem þessa? Hefur það nægilega innsýn inn í hvernig lýðræðið virkar í samfélaginu og hvernig unnt sé að tryggja að mismunandi sjónarmið eigi sína fulltrúa í stjórnkerfinu? Kannski að fólkið sé svo samdauna gamla fyrirkomulaginu og gerir þá engar kröfur til stjórnvalda.

Spurning er hvort eitthvað hliðstætt sé að gerast hjá okkur þó í öðrum stíl sé. Við sitjum uppi með stjórnvöld sem hafa sérstakt dálæti á stóriðju og þá erum við ekki spurð álits. Og ef e-ð heyrist frá okkur sem hentar stóriðjustefnunni þá er einfaldlega ekki hlustað á okkur hvað okkur finnst. Við eigum að fórna náttúru okkar svo framleiða megi meira ál sem að miklu leyti fer í hernaðarframleiðslu einkum í Bandaríkjunum.

Þá er einkennileg uppákoma í gangi varðandi lögreglustjóraembættið á Keflavíkurflugvelli. Hvernig stendur á því að félag lögreglustjóra á Íslandi samþykkir ályktun sem gengur þvert á sjónarmið eins félagsmannsins? Félag þarf að taka tillit til mismunandi sjónarmiða en ekki vera undirlægja stjórnvalda eins og tíðkast undir stjórn þar sem þessi skelfilegi kommúnismi ræður lönd og lýð. Kannski að félag þetta sé ekki frjálst heldur sé í raun undirtylla stjórnvalds.

Mosi


mbl.is Enginn stjórnarandstæðingur á þing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heim frá miklu ferðalagi

Þá er Mosi loksins kominn heim til sín með milliendingu í Skorradal til að hvíla lúin bein. Þetta var virkilega krefjandi og erfitt ferðalag vegna tímamunarins mikla. Einn sólarhringurinn var í raun aðeins 15 tímar (24-9) og annar 33 (24+9). Þá voru ferðalögin á Kamtsjatka en ferðast var í gömlum rútubílum vel á annað þúsund kílómetra mest á mjög slæmum vegum, virkilega eitthvað sem minnti á Ísland, íslensku hálendisvegina yfir Kjöl, Sprengisand og Fjallabak.

Lengst var farið að fjallaþorpi í 530 km frá höfuðstaðnum Petrapovlosk. Þar búa hátt í 2.000 manns og margir afkomendur frumbyggja. Þar er safn þar sem sjá má daglegt líf frumbyggja í austur Síberíu. Á sumrin flakkaði fólkið með hjörðinni og dvaldi í tjöldum. En á veturna var föst búseta. Húsin minna nokkuð á igolo samanna á Grænlandi en allt byggt úr timbri sem nóg er af. Langur gangur þar sem fólk fór inn og út meðan snjólétt var og annar út um þakstrýtuna. Þangað er um 5-6 metra langur stigi sem er reyndar stór og mikill trjábolur sem rimar og þrep hafa verið höggvin í. Dyraumbúnaður er allur mjög hugvitsamlega gerður til að halda húsinu sem best þéttu.

Þetta þorp, Ecco, er nokkurn veginn í miðju eins af hinum miklu þjóðgörðum sem prýða Kamtsjatka. Þessi þjóðgarður er yfir eina milljón hektara og er n.k. á stærð við nýstofnaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Í þjóðgarði þessum eru virk eldfjöll og gjósandi hverir. Þar verður aðeins farið um fótgangandi eða í þyrlum.

Þessi stutta lýsing verður að duga í bili. Nú bíður mín umtalsverð vinna að hlaða inn um þúsund myndum og myndskeiðum frá þessari ferð ásamt því að færa frásögn ferðarinnar í dagbókarformi á tölvutækt form.

Bestu kveðjur

Mosi


Bestu kvedjur fra Moskvu

Nu er Mosi staddur i Moskvu eftir anaegjulega og frodlega ferd austur a heimsenda. Kamtsjatka er vissulega heimsendi i ordsins fyllstu merkingu. Mikid er nattura thessa hluta Russlands fogur og athyglisvert ad kynnast thessu heimshorni. Mosi tok margar myndir og a naestunni ma reikna med ad lesendur minir og pennavinir megi sja dalitid synishorn.

Timamunur a Kamtsjatka og Mosku eru 9 timar. Tha er 4 tima munur a Mosku og Islandi thannig ad um er ad raeda 13 timabelti milli Kamtsjatka og Islands!

Kvedja

Mosi


Ferð til Kamtsjatka

Þessa vikuna hefur Mosi verið að undirbúa sig undir mikla heimsreisu. Hann tilheyrir félagsskap, Skógræktarfélagi Íslands og eru félagar tilbúnir að gefa töluvert fyrir að leggja á sig löng
ferðalög til útlanda til að skoða tré og runna! En auðvitað njótum við að sjá og upplifa náttúru þess lands sem skoða skal hverju sinni.

Nú stendur til að fara alla leið til Síberíu en áður fyrr fór fólk yfirleitt ekki þangað nema nauðugt. Þessi skagi nær syðst á svipaða breiddargráðu og Köln í Þýskalandi og nær nokkrun veginn til Ósló! Er skagi þessi um 1.700 km langur eða n.k. héðan úr Reykjavík og langleiðina austur til Svíþjóðar.

Frá Moskvu eru 7.100 km til borgarinnar Petropavlovsk höfuðborg Kamtstjatka (stofnuð 1740 af Bering, þeim sama og sundið milli Alaska og Asíu er kennt við). Við förum um Norðurlönd til Mosku og þaðan áfram austur. Athygli vekur að ferðin að austan tekur einungis 20 mínútur en þá er flogið til baka um allmörg tímabelti! Við missum hins vegar af degi á austurleið.

Í bók um Sovétríkin eftir Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóra og þingmann (Menningarsjóður, 1979) er  margt mjög vel ritað þó svo þetta rit sé nú í dag að nokkru sögulegt. Náttúra þessa heimshorns er okkur nokkuð framandi en þó er sitthvað sem er okkur kunnuglegt. Hér eru nokkrar glefsur úr þessu góða riti Kjartans og athygli vekur hve þarna má margt sjá og upplifa:
      Á Kamtsjatka eru stærstu eldfjöll Evrasíu, 163 að tölu, þar af 33 virk. Hæst þeirra og jafnframt hæst allra virkra eldfjalla í heimi er Kljúchevkaja 4750 m. Gígur þess er talinn vera einhver fegursta keila slíkra fjalla.
Eitt mesta gos í Kljúchevkaja hófst 5. des. 1944 og náði hámarki 1.jan. næsta ár. Þá steig hér til lofts feiknleg eldsúla af ösku og hraunkúlum. Drunur heyrðust í 250-300 km fjarska. Eitt þorp – Kljuchi – grófst á kaf í ösku. Hinn 30. mars 1956 gaus hér annað eldfjall Bezimnaja (Nafnlaus) einhverju voldugasta gosi er sögur fara af. Ægileg sprenging tætti burt topp fjallsins, stýfði hann meir en 200 metra og umturnaði öllu landi í kring.
     … Árið 1941 bar konu óvænt að barmi áður óþekkts gljúfurs. Við agndiofa sjónum hennar blöstu hið neðra vellandi hverir og kraumandi lindir. Eftir botni þessa gljúfurs rann á – síðar kölluð Geysiraja.
 Þótt ótrúlegt megi virðast, leit mannlegt auga fyrsta sinni slíka furðusýn úr iðrum jarðar á þessum stað, er kallaðist síðar Hveradalur.
 Hér finnast tíu stóri hverir og aðrir minni jafnmargir. Þeir hafa hlotið ýms nöfn, s.s. „Frumburður", „Tvíefldur", „Þríefldur" og „Velican" (Jötunn – sama orð og beljaki á íslensku) – enda stærstur.
     Petropavlovsk – Kamtsjatki höfuðborg Kamtstajtka (stofnuð 1740 af Bering) liggur við ægifagran fjörð – Avachinskaja. Þar í nánd rísa þrjú stórfengleg eldfjöll. Þessi fjörður telst einhver besta höfn í víðri veröld. Hér skerast inn nokkrir forkunnarfagrir vogar, m.a. einn kallaður Petropavlovsk – bækistöð fiskiskipa og farskipa.

Upplýsingar í þessu riti eru gagnlegar og eru okkur sem lítið vita um náttúru þessa risastóra lands mjög mikilvægar.

Mikið hlakkar Mosi til ferðarinnar. Vonandi verða veðurguðirnir okkur Íslendingunum hliðhollir.

Vegna þessarar ferðar verður eðlilega nokkurt hlé á masinu í Mosa á öldum ljósvakans.

Mosi


Erfiðleikar og öryggisleysið

Í þann mund þegar fyrri borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins klúðraði REI málinu, var gengið á Atorku 11.4 og hafði hækkað nokkuð undanfarna mánuði. Eftir þetta kostulega klúður fyrir ári, hefur gengið í Atorku hrapað niður fyrir 5.

Hvernig ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að réttlæta þessar geigvænlegu breytingar? Ljóst er, að efnahagsstjórnun landsins hefði mátt hafa verið mun betri og traustari á undanförnum árum. Tiltrú launamanna á Sjálfstæðisflokknum er lítil sem engin. Nú standa fjármagnseigendur frammi fyrir því hvort rétt sé að treysta þessum stjórnmálaflokki stundinni lengur og hvort ekki sé rétt að gefa gaum þeim íslensku stjórnmálamönnum sem sýnt hafa varkárni og viljað fara ekki jafn geyst í stóriðju og virkjanir.

Stígandi lukka er ætíð best. Núna horfum við upp á meiri sveiflur í efnahagsmálunum en verið hafa á undanförnum áratugum. Nú ríkir algjör stöðnum á flestum sviðum og ef varanlegt atvinnuleysi fer að stinga sér niður, þá er voðinn mikill.

Sjálfstæðisflokkurinn ber ásamt Framsóknarflokknum meginábyrgð á hvernig komið er. Kárahnjúkavirkjunin reyndist vera dýrasti kosningavíxill sem út hefur verið gefinn, ekki aðeins á Íslandi heldur einnig jafnvel norðan Alpafjalla. Eftir er að greiða lokareikninginn frá Impregíló og sennilega verður hann umtalsvert hærri en upphaflegt tilboð sem var grunsamlega lágt. Á þetta hefur margsinnis verið minnst en Framsóknarmenn og Sjálfstæðisflokkurinn gaf lítið fyrir nokkur varnaðarorð.

Forysta Sjálfstæðisflokksins hefur brugðist gjörsamlega þeim væntingum sem hluthafar fyrirtækja eins og á borð við Atorku hafa haft á undanförnum misserum. Þeir hafa í góðri trú talið sig vera að ávaxta sparifé sitt á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt. Efnahagssveiflur undanfarinna ára eru vegna ofvaxtar í hagkerfi heimsins, einkum Bandaríkjunum. Þar hefur verið allt of mikil þensla sem hér á landi eins og stendur. Nú er komið að skuldadögunum. Eftir allt góðæri undanfarinna ára standa kornhlöðurnar bókstaflega galtómar!

Nú virðist eins og lausafjárstaða Atorku sé ekki nógu góð um þessar mundir. Stjórnendur fyrirtækisins hafa tekið þá ákvörðun að hyggilegra væri að afhenda Glitni banka stóran hlut í fyrirtækinu fremur en að taka ný lán á allt of háum vöxtum. Þetta er skynsamleg ákvörðun og betra í stöðunni eftir því sem venjulegur smáhluthafi í fyrirtækinu hefur tök á að kynna sér.

Við litlu hluthafarnir erum uggandi um okkar hag enda er sparifé okkar í húfi. Hvort búast megi við viðsnúningi eftir erfitt ár, skal ósagt látið. En óskandi er að „Eyjólfur hressist“.

Mosi

 


mbl.is Glitnir eignast tæp 9% í Atorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarleg aðvörun - endurheimtum forna birkiskóga!

Fyllsta ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart vaxandi mengun vegna brennisteinsvetnis. Eins og kemur augljóslega fram í viðtalinu við Sigurð H. Magnússon, gróðurvistfræðing hjá Náttúrufræðistofnun, þá þarf að huga betur að þessum málum.

Mosinn er lágplanta sem ekki hefur rætur. Hann verður hins vegar gamall, kannski nokkur hundruð ára gamall og tekur næringu til sín fyrst og fremst gegnum andrúmsloftið. Þegar hann deyr, þá lítur landið út sem sviðin jörð.

Sigurður hjá Náttúrufræðistofnun bendir réttilega á, að æðri plöntur, háplönturnar, eigi greiða leið að breiðast út. Mosinn gefur þeim næringu og safnar vatnsforða sem svampur. Undirritaður hefur bæði í ræðu og riti hvatt eindregið til að safna birkifræi og dreifa um Svínahraun og Hellisheiði. Með því væri verið að bæta úr því ástandi sem nú er. Við skulum minnast þess, að nú þekur birkiskógur einungis rúmlega 1%af yfirborði landsins. Þegar landið byggðist er talið að alla vega þriðjungur landsins hafi verið þakið birkiskógi og jafnvelhelmingur þess. Um þetta eru deildar meiningar en eitt er víst, að birkið á nýta sem mest til landbóta og gera gróðurinn sem fjölbreytilegastan, einnig á heiðum og fjallshlíðum þar sem það prýðir landið.

Endurheimtum sem mest fornu birkiskógana. Söfnum og dreifum birkifræi um Svínahraun og Hellisheiði.

Mosi

 

 


mbl.is Gróður drepst vegna mengunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byggjum upp betri almenningssamgöngur

Að veita nemendum ókeypis aðgang að almenningssamgöngum er góðra gjalda vert. Hins vegar er mjög ámælisvert að hækka upp úr öllu valdi fargjöld á þá sem ekki njóta þessara réttinda.

Til að byggja upp betri almenningssamgöngur þarf að styrkja fjárhagslega undirstöðu þeirra. Talið er að þörfin sé um 300 milljónir. Fróðlegt væri að vita hvað viðhald á gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu kostar sem þörfin er einkumtil komin vegna óhóflegrar notkunar á nagladekkjum. Ætli viðgerðarkostnaður gatnakerfisins nemi ekki hátt í milljarð á öllu höfuðborgarsvæðinu.

Það væri vissulega áleitin áskorun til stjórnenda sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að leita raunhæfra leiða að draga úr þessum gríðarlega viðgerðarkostnaði og veita þessum miklu fjármunum fremur til almenningssamgangna.

Við sem ekki erum stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins erum undrandi mjög hvers vegna þeir sæki svo mjög að skipa fulltrúa í 7 manna stjórn Strætó. Sjálfstæðisflokkurinn er með 5 fulltrúa í þessari stjórn og er það undarleg uppákoma þegar þessir fimm fulltrúar eru yfirleitt aðeins bundnir við þá einu sannfæringu sína að rétt sé að einkavæða sem mest og helst þá almenningssamgöngur eins og staðan er nú.

Hinir tveir fulltrúarnir í stjórn Strætó, annar frá Samfylkingu en hinn frá Vinstri-Grænum, eru betur meðvitaðir um þjonustuhlutverk sveitarfélaganna í rekstri strætisvagna.

Við þurfum að byggja upp betri og hagkvæmari almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu ennú er fyrir. Með því stuðlum við að betri landnýtingu, færri bílum í umferðinni og minni mengun. Þá má ekki gleyma að hagur hvers og eins sem og samfélagsains alls, er að hafa almenningssamgöngur í sem besta horfi.

Mosi

 


mbl.is Margir nemar sækja um strætókort
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttukveðjur!

Mig langar til að senda ljósmæðrum mínar bestu baráttukveðjur fyrir réttmætum og eðlilegum kröfum í kjarabaráttu þeirra.

Við skulum hafa hugfast að ríkisstjórnin sem málið varðar, ákvað að veita 1.500 milljónum til að mæta kostnaði við óskiljanlegt flug herflugvéla á vegum Nató um íslenska lofthelgi. Einnig var varið 200 milljónum til siðlausra hergagnaflutninga á vegum sömu aðila.

Á sama tíma þykir sjálfsagt af ríkisstjórninni að gefa þeim langt nef sem eiga enn sárt um að binda og voru beittir mjög alvarlegu misrétti. Er þar átt við þá sem tengdust Breiðuvík á sínum tíma.

Stjórnvöld VERÐA að breyta um stefnu ef þau ætla sér ekki að tapa gjörsamlega áttum í því nútímasamfélagi sem við þó lifum í.Samfélagsleg ábyrgð er eitt það mikilvægasta sem stjórnmálamenn ÆTTU að taka mark á!

Ljósmæður: Haldið áfram kjarabaráttu ykkar! Þið eigið allt gott skilið fyrir ykkar óeigingjarna starf í samfélaginu okkar! Við fylgjumst gjörla með á hliðarlínunni og viljum veita ykkur allan þann stuðning sem þið eigið inni hjá þjóðinni þó ráðamenn átti sig ekki á því!

Mosi


mbl.is Mikið álag á starfsfólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kárahnjúkaskatturinn?

Áður en hafnar voru framkvæmdir við Kárahnjúka, voru öll skilyrði til að lækka verulega rafmagnsverð til almenningsveitna og þar með lækka útgjöld heimilanna í landinu. Skuldir Landsvirkjunar voru óverulegar og allt stenfi í mjög farsælan og öruggan rekstur. En stjórnvöld völdu þann kost sem verri var: fara út í þvílíkt fjármálaævintýri sem ekki verður séð fyrir endann á. Nú er Landsvirkjun eitt skuldugusta fyrirtæki landsins og eftir er að gera upp við ítalska verktakafyrirtækið. Sennilega verða töluvert háir bakreikningar sem valda þeim ráðamönnum sem ábyrgð bera á þessu miklu hugarangri þessa dagana.

Við skulum minnast þess, að hægri stjórnir hafa þá tilhneigingu að reyna að komast hjá allri ábyrgð og velta henni yfir á aðra. Fjármálaóreiðan í landinu er núna þvílík að fáa grunaði að svona gæti mögulega farið. Þó voru ýmsir virtir fjármálamenn og stjórnmálaleiðtogar á borð við Steingrím J. Sigfússon sem vöruðu mjög alvarlega við þeirri kollsteypu sem fylgt gæti þessari léttúð hægrimanna. Í síðustu kosningum var miklu púðri eytt af hægrimönnum í að gylla fyrir kjósendum þá kosti sem voru fyrir hendi en ekki minnst aukateknu orði á þá annmarka sem fylgdu þessari umdeildu framkvæmd.

Því miður sýpur öll þjóðin af þessari vondu forræðissúpu sem betur hefði verið aldrei framreidd.

Við sitjum uppi með handónýt stjórnvöld sem vilja enn kaffæra okkur í erlendum skuldum og frekari virkjanaáformum í þágu umdeildrar stóriðjustefnu.

Þeim verður ekki fyrirgefið - því þeir mega gjörla vita hvaða vitleysu þeir eru að gera þjóðinni!

Mosi


mbl.is Raforkuverð hækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

„Táknræn“ laun forsætisráðherra: 1 krónu á mánuði!

Framganga forsætisráðherra í þessu máli er mjög einkennileg að ekki sé dýpra tekið í árina. Geir hefði betur tekið sér strútinn sér til fyrirmyndar og stungið höfði sínu - og gleraugunum - í sandinn.

Ætli það væri ekki í samræmi við tilboð hans til þessa hóps sem var beittur ótrúlega miklu misrétti og fór á mis við svo margt sem þó flestum þótti sjálfsagt?

Við skulum minnast þess, að þessi ríkisstjórn ákvað eins og að drekka vatn, að veita 1.500 milljónir í að kosta tilgangslaust eftirlitsflug erlendra herflugvéla á þessu ári. Enn var 200 milljónum varið til hergagnaflutninga í þágu árásarstríða á vegum NATÓ. Ferð menntamálaráðherra til Kína til að góna á einn handboltaleik á olympísku leikunum þar í landi kostaði íslenska skattborgara milljónir! Þar hefði viðkomandi sóma síns vegna átt að greiða för úr eigin vasa enda ekki á flæðiskeri stödd!

Það þykir því ofrausn í landi allsnægtanna að fleygja örfáum hundruðum þúsunda í andlitið á þeim sem eiga sárt um að binda þar sem mjög alvarleg mannréttindabrot komu við sögu og voru framin gagnvart börnum og unglingum á sínum tíma.

Þetta ættu sem flestir að minnast við næstu kosningar til sveitarstjórna sem Alþingis og gleyma ALDREI! 

Misrétti gagnvart þeim sem minnst mega sín meðal okkar verða ALDREI fyrirgefin!

Þessir einstaklingar sem voru beittir misrétti hafa þurft að ganga gegnum þrengingar og liðið fyrir þær í áratugi. Þeir eiga betra skilið!

Mætti ríkisstjórnin skammast sín eins og hún leggur sig af minna tilefni!

Legg því eindregið til að Geir forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins afsali sér öllum launum sínum til loka kjörtímabilsisns og taki sér „táknræn“ laun eftirleiðis t.d. 1 krónu á mánuði.

Mosi 
mbl.is Harma framgöngu forsætisráðuneytisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband