Bloggfærslur mánaðarins, júní 2013

Ótrúlegt!

Þegar slys verða þá er spurt: mátti koma í veg fyrir slysið?

Í þessu tilfelli er ung stúlka við vinnu við vægast sagt mjög krítískar og hættulegar aðstæður. Þarna hefðu vanir menn að öllum líkindum séð betur fyrir hvernig átti að standa að þessu verki.

Fram kemur að leiðbeiningar hafi stúlkan ekki fengið nema mjög almennar. Þarna hefur upplýsingaskylda og að öllum líkindum góð verkstjórn brugðist.

Alvarleg slys eru dapurleg.

Þetta er ekki eina alvarlega slysið sem verður í álbræðslu á Íslandi og kemst í fréttir. Fyrir nokkrum árum varð slys í álbræðslunni á Grundartanga þar sem þungt stykki féll á starfsmann. Starfsfélagi hans brást við og slasaðist við björgunarstörfin. Bæði fyrirtækið og tryggingafélagið neita bótaábyrgð eins og í þessu tilfelli. Það er umhugsunarvert hvernig hugsunarháttur stjórnenda þesara fyrirtækja er gagnvart slösuðum starfsmönnum. Flestir myndu samþykkja bótaskyldu og bæta fyrir líkamstjón og tekjutap.

Er kannski svo komið hjá þessum álfyrirtækjum að ekki megi undir neinum kringumstæðum reikna með neinum útgjöldum vegna slysa?

Þess má geta að á sínum tíma voru öryggismál í ábræðslunni í Straumsvík til fyrirmyndar hér á landi. Þar á bæ var einna fyrst lögð gríðarleg áhersla á slysavörnum og tryggja sem best öryggi starfsmanna, m.a. með notkun öryggishjálma. Er orðin breyting með nýjum eigendum?

 


mbl.is Vann málið gegn Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er sjálfsvörn?

Eitthvað er bogið við fréttina.

Sjálfsvörn má aðeins beita með sams konar aðferðum og yfirvofandi árás er framkvæmd með. Að skjóta mann með byssu þegar ráðist er á hann, getur varla verið sjálfsvörn nema sá drepni hafi einnig verið vopnaður og gert sig líklegan að verða fyrri til.

Í öllum réttarríkjum eru gerðar miklar kröfur til sönnunar og sérstaklega hugað að hvort „sjálfsvörn“ sé raunveruleg. Það er alveg ljóst að beita byssu við að drepa annan getur varla verið „sjálfsvörn“ hafi hinn ekki beitt neinum vopnum. Það er nefnilega auðveld skýring á ólöglegu athæfi að bera sig sjálfsvörn þegar slíkt hefur ekki átt sér stað.

Íslenskir dómstólar viðurkenna ákaflega sjaldan sjálfsvörn í árásarmálum.


mbl.is Myrti unglingsdreng í sjálfsvörn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjar eru tekjurnar?

Lendingargjöld og þóknun fyrir ýmsa þjónustu er sjálfsögð vegna flugrekstrar. Spurning er hvaða tekjur séu af þessum einkaþotum og hvort þær séu sambærilegar við tekjustofna annarra flugvalla?

Að mörgu leyti væri rétt að þotur og flugvélar sem koma stöku sinnum beri jafnvel hærri gjöld en önnur flugför sem eru í stöðugri notkun. Þar koma sjónarmið markaðarins. Það þykir sjálfsagt að þeir sem aka um Hvalfjarðargöngin sjaldan greiði fullt verði en aðrir njóti afsláttarkjara.

Og þeir sem ferðast með þessum einkaflugvélum eru vart á flæðiskeri staddir, oft maldríkir auðmenn sem vita vart aura sinna tal.

Oft hefur verið rætt um að fá hingað sem ferðalanga til lands sem flesta auðmenn. Það væri í samræmi við þau sjónarmið að þeir greiði alla þjónustu fullu verði.

Þess má geta að fyrir nokkrum árum var rætt í fjölmiðlum um hlægilega lágar fjárhæðir sem einkaþotur greiddu í lendingargjöld.


mbl.is Einkaþotur á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Taldi hann þessar tekjur fram?

Spurning er hvort maður þessi sem hyggst þjóna tveim herrum hafi talið tekjur sínar af njósnum til skatts?

Ef svo reynist ekki þá ættu skattyfirvöld að skoða þetta mál enda ætti enginn að komast upp með að svíkja undan skatti.

Þess má geta að skattyfirvöld hafi stundum komið sumum í steininn. Aldrei sannaðist á alræmdan bófaforingja í Chicago á sínum tíma, Al Cabone um víðtæka glæpastarfsemi. En skattyfirvöldin náðu honum í netið þar sem hann dúsuði í steininum til æviloka, sennilega mun tryggari stað en það umhverfi sem hann átt þátt í að koma á fót með glæpastarfsemi sinni.

Þetta voru frjálshyggjumenn fram í fingurgóma en héldu sig röngu megin við lögin.


mbl.is „Siggi hakkari“ á launaskrá FBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Byrjar í Bráðræði og endar í Ráðaleysu

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs byrjar á bröttustu kosningaloforðum sem nokkru sinni hafa sést. Hann hefur feril sinn sem forsætisráðherra ríkisstjórnar sem telur sér allt heimilt:

Gefa Evrópusambandinu langt nef og telja sig hafa umboð þjóðarinnar að hafna öllum samskiptum við það þrátt fyrir að þjóðin hefur aldrei verið spurð.

Umhverfismálunum er sópað undir teppið rétt eins og það sé með öllu óþarfur málaflokkur.

Konum er sýnd lítilsvirðing með því að viða hvorki kynjakvóta í nefndum og ráðum né sendisveitum til annarra ríkja.

Auðmönnum eins og útgerðarmönnum er sýndur sérstakur skilningur með því að leggja fram frumvarp um lækkun á auðlindagjaldi.

Þá er námsmönnum sýnt fyllsta lítilsvirðing með stórkostlegum niðurskurði á tillögum til námslána.

Og nú á að veita embættismönnum Hagstofunnar einstakt eftirlitsvald sem sennilega hvergi þekkist í gjörvallri veröldinni nema ef vera skyldi í sumum einræðisríkjum þar sem yfirvöld vilja vita gjörla um allt stórt sem smátt sem borgarana viðkemur.

Hvar auðmaðurinn og forsætisráðherrann Sigmundur Davíð hyggst næst beita sér skal ósagt látið.

Flest bendir til að ferill hans byrji í Bráðræði og endi í Ráðaleysu.

Þess má geta að bæir tveir gengu undir þessum sérkennilegu nöfnum í Reykjavík á ofanverðri 19. öld.

Bráðræði var vestarlega í Vesturbænum þar sem Hringbrautin endar og Bráðræðisholt dregur nafn sitt af en Ráðaleysa var hús eitt nefnt norðarlega í Skólavörðuholti sem byggt var í stórgrýtisurð og stóð lengi eitt sér, nokkru sunnan við Laugaveg 40 fyrir þá sem meira vilja vita.

 

 


mbl.is „Ofboðslega langt gengið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áróðursbragð Bjarna

Athygli vekur að Bjarni kveður uppsafnaðan halla Ríkissjóðs vera um 400 milljarðar frá árinu 2009. Í raun og veru var hallinn sem varð 2008 margfalt meiri og ríkisstjórn Jóhönnu kom þessari fjárhæð verulega niður. En auðvitað var það ekki ríkisstjórnin heldur var það uppsafnaður mismunur á innflutningi og útflutningi sem flesta mánuði var jákvæður (þ.e. útflutt verðmæti voru meiri en innflutt). Þetta stafaði m.a. af því að traust á Íslendingum var nánast ekkert þegar líða tók á árið 2008. Því var ekki unnt að efna til lánsviðskipta. Allt þurfti að staðgreiða eða með óhagkvæmum kjörum.

Ríkisstjórn Jóhönnu vildi sem fyrst koma okkur út úr ógöngunum m.a. að semja við Breta og Hollendinga um Icesave. En forseti landsins tók sér meira vald en þekkst hefur og greip fram fyrir hendurnar á ríkisstjórninni, Sigmundi Davíð og hans liði til þóknunar.

Björgvin Guðmundsson hefur reiknað út að ef gengið hefði verið frá Icesave skuldunum hefði hagur okkar Íslendinga verið a.m.k. 60-100 milljarða hagstæðari en nú. Þá hefði lánstraustið strax orðið okkur í hag með hærra lánsfjármati. Hagvöxturinn hefði aukist hraðar og allt samfélagið fyrr tekið við sér. Á þetta má ekki minnast fremur en bannfærð sjónarmið. Tilfinningavellan á að stjórna för en ekki skynsemin og raunsæið eins og það blasir við í veröldinni.

Við skulum athuga hve ártalið 2009 hefur mikið áróðursgildi fyrir viðhorf Bjarna. Það er eins og enginn aðdragandi ársins 2009 hafi verið til. Hruninu og braskinu á að sópa undir teppið, draga línuna við 2009, uppsafnaður hallinn er ríkisstjórn Jóhönnu að kenna.

Þá er mjög sérkennilegt að núverandi ríkisstjórn ætlar að stífa niður tekjustofna Ríkissjóðs, m.a. með lækkun á veiðigjaldi. Það á kannski að kenna ríkisstjórn Jóhönnu um að hafa ekki reynt að auka tekjurnar.


mbl.is 400 milljarða uppsafnaður ríkissjóðshalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætu tekjur af hvalaskoðun orðið meiri en af veiðum?

Undanfarin ár hefur ekki verið vænlegt að veiða hvali. Viðskipti með afurðir af hvölum hafa gengið treglega og með öllu óvíst hvernig gengur. Annmarkinn er að eina þjóðin sem sýnir hvalveiðum Kristáns Loftssonar áhuga eru Japanir sem sjálfir vilja veiða hval eins og Kristján.

Eru þetta hyggindi?

Oft hefi eg hitt Kristján á aðalfundum HBGranda. Þegar hann er hvattur til að söðla um, breyta hvalveiðiskipunum og skella sér í hvalaskoðun, þá er eins og að nefna snöru í hengds manns húsi! Hann minnir þá einna helst á skipsstjórann í sögunni heimsþekktu Moby Dick eftir Hermann Melwill (1819-1891). 

Vel gæti eg trúað að það gæti gengið upp. Hvalveiðiskipin eru knúin gufuvélum, eldri tækni sem vekur athygli ferðamanna engu að síður en hvalirnir. Þessi skip geta sótt lengra en litlu hvalveiðiskipin og boðið viðskiptavinum sínum upp á stórhveli rétt eins og þeir sýna fyrir norðan frá Húsavík.

Í stað þess að standa í ströngu og valda vandræðum gæti Kristján allt í einu orðið aðalútrásin í hvalaskoðun á Íslandi. Hvar í veröldinni væri unnt að bjóða ferðafólki aðra eins þjónustu með þessum einstöku skipum Kristjáns? Í stað þess að græða á hvalveiðum með miklu basli væri unnt að moka inn peningum með jafnvel minni tilkostnaði!

Reynsla við hvalveiðar gæti reynst vel við hvalaskoðun. Þessar gömlu kempur sem þekktu slóðir hvalanna eins og lófana á sér, gætu miðlað miklum fróðleik áfram til komandi kynslóða.

Góðar hvalaskoðunarstundir!


mbl.is Hvalbátarnir úr höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umboðslaus ríkisstjórn

Þessari ríkisstjórn hefur komist upp með að taka ákvarðanir þvert á þjóðarvilja. Án þess að spyrja þing né þjóð telur hún sig hafa vald til þess að taka umdeildar ákvarðanir.

Þessi ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur freklega tekið sér meiri völd en nokkur önnur ríkisstjórn í sögu lýðveldisins. Hún telur sig hafa vald til að binda þjóðina án þess að bera eitt eða neitt undir hana.

Við nútímafólk gerum þær kröfur til valdsmanna að þeir hlusti og þeir virði það sem við viljum. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hefði viljað fyrst sjá hvað Evrópusambandið býður okkur upp á með frjálsum samningum. Við hefðum viljað fá að velja sjálf hvað okkur er fyrir bestu en ekki einhverri fámennri klíku fulltrúa braskara, eignamanna og hagsmunaaðila þröngrar klíku.

Þessir ríkisstjórnarflokkar hafa tekið við mjög háum fjárhæðum í kosningasjóði sína frá útgerðaraðilum gegn því að lög um auðlindaskatt útgerðarinnar verði breytt útgerðaraðlinum í hag.

Við viljum að auðlindir landsins verði ekki rústaðar með rányrkju og meiri ágengni. Við viljum að Umhverfisráðuneytinu sé stjórnað af ábyrgð en ekki kæruleysi enda hefur ágengin og umgengnin við landið verið mjög ámælisverð.

„Einhvern tímann verður haldin þjóðaratkvæðagreiðsla en ég get ekki sagt hvenær eða af hálfu hvers“ er haft eftir einhverjum furðulegasta ráðherra íslenska lýðveldisins. Hvað á maðurinn við? Er svo að skilja að hann átti sig ekki á einföldustu staðreyndum málsins? Sagt er að margir verði af aurum api en of mikil völd hafa spillt mörgum góðum dreng og gert hann að skelfilegu skrímsli.

Margt bendir til að þessi ríkisstjórn muni ekki lifa árið, jafnvel ekki sumarið. Hún er þegar farin að safna óvinsældum og takmarkalausri tortryggni enda skilur enginn heilvita maður hvert ævintýri ráðamenn hennar eru að ana út í.

Með von um að þessi ríkisstjórn forheimskunnar dagi sem fyrst uppi sem draugarnir forðum!

Af henni er einskis góðs að vænta.

Góðar stundir.

 

 


mbl.is „Við gerum þetta með okkar hætti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru menn með öllum mjalla?

Náttúra Íslands og þar með veðrið er síbreytileg. Þó svo náttúrurufræðingar leggi sig mjög mikið fram að skýra sitthvað sem tengist náttúru landsins og veðurfræðingar mæla og meta og spá í veðrið, þá er ansi langt að lögreglan telji það vera á sinni könnu að rannsaka fyrirbrigði náttúrunnar.

Auðvitað má sitt hvað gera sér til gamans. En mjög alvarleg spurning: Hvers vegna treysti sér enginn stjórnmálamaður sér að lofa góðu veðri fremur en óraunhæfum kosningaloforðum? Það hefði verið án ábyrgðar að lofa góðu veðri, en skuldaaflausn og fyrirgefningu skulda... er nokkur í þeirri stöðu að geta lofað nokkru slíku?

Auðvitað mega lögreglumenn bregða sér í hlutverk skemmtikrafta, rétt eins og stjórnmálamenn bregða sér í hlutverk trúða. Mönnum er frjálst en eg er viðkvæmur fyrir því þegar menn eru að lofa einhverju sem þeir geta ekki staðið við.  Hver valdur er að hvarfi sólarinnar má lengi leita.

Góðar stundir!


mbl.is Lögreglan lýsir eftir sumrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgarnar færa sig upp á skaftið

Eftir að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs ákvað að hætta viðræðum við Evrópusambandið án þess að spyrja þing og þjóð færa öfgamenn sig innan Evrópusambandsins upp á skaftið. Meðan viðræður stóðu yfir var haldið aftur af öfgamönnunum að skipan Brussell.

Nú sitjum við uppi með miklu harðari afstöðu gegn fiskveiðihagsmunum okkar. Þökk sé Sigmundi & Co!

Þetta var versta ríkisstjórn sem við gátum kallað yfir okkur. Þessi ríkisstjórn byggir tilveru sína á mestu kosningabrellum sem þekkjast í sögu Íslands. Sigmundur Davíð er hinn íslenski Silvíó Berlúskóní sem þekktur er fyrir ansi brött kosningaloforð.

Nú er mesti auðmaðurinn með örlög þjóðarinnar í hendi sér. Hvort hann stefni að styrkja hag sinn enn betur á kostnað okkar hinna er óráðið en ekkert er útilokað.

Því miður er lýðskrumið í hávegum í pólitíkinni á Íslandi. Þar er er byggt á pólitískum styrkjum eins og frá útgerðaraðlinum sem styrkt hefur núverandi stjórnarflokka óhóflega í trausti þess að skattur á útgerðina verði lækkaður stórlega. Nú liggur fyrir frumvarp um stórfellda fyrirgreiðslu í þágu sægreifanna. Í flestum löndum væri litið á þetta sem mútur og spillingu.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur vakti athygli víða um heim fyrir ótrúlegan árangur við vægast sagt ömurlegar kringumstæðum. Stjórnarandstaðan undir forystu þeirra Sigmundar Davíðs og Ólafs Ragnars áttu sinn þátt í að grafa undan merku starfi til að endurvekja traust og virðingu meðal annarra þjóða gagnvart okkur. Þjóðrembusjónarmið Sigmundar Davíðs eru vægast sagt furðuleg ef ekki allt að því hlægileg. Við fáum sjálfsagt að heyra boðskapinn mikla hins nýja þjóðarleiðtoga. Hvort það verður í anda „ein þjóð, einn vilji, ein skoðun....“ skal ósagt látið. En við erum á krossgötum hvort önnur sjónarmið og viðhorf en þessarar ríkisstjórnar fái að heyrast.

Við erum alla vega ansi nálægt einræðinu.


mbl.is Vill refsiaðgerðir gegn Íslandi án tafar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 242837

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband