Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Er tölvupóstur og faxtæki óvirk í Stjórnarráðinu?

Dapurlegt er að heyra að tónlistin er farin á líða fyrir fjármálaóreiðuna á Íslandi. Skiljanlegt er að japanskir aðilar sem hlut eiga að þessari heimsókn íslensku sinfóníhljómsveitarinnar hafi efasemdir um að fjárhagslega gangi ferðalag þetta upp.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ríkisstjórnin íslenska hefur lítt haft sig í frammi á undanförnum vikum að útskýra betur málstað Íslendinga á erlendri grund. Telja má fullvíst að breski forsætisráðherrann hafi valdið Íslendingum meira tjóni vegna þess að íslenska ríkisstjórnin gerði nánast ekki nokkurn skapaðan hlut að gæta íslenskra hagsmuna. Nánast öllu hefur verið glutrað niður af handvömm og sinnuleysi.

Þegar þorskastríðið sem hófst 1. september 1972, var mikil starfsemi á vegum íslensku ríkisstjórnarinnar til að skýra íslensk sjónarmið. Gerður var út sérstakur blaðafulltrúi sem var mjög ötull að halda blaðamannafundi að útskýra og fylgja eftir sjónarmiðum Íslendinga. Hugur Íslendinga gagnvart breska ofbeldinu varð sögufrægt. Erlendir blaðamenn, ljósmyndarar og kvikmyndatökumenn voru um borð í varðskipunum og mátti sjá hvernig þessi friðelskandi þjóð Bretar komu fram gagnvart smáríki. Eftir að bresk freigáta hafð siglt á íslenskt varðskip var gríðarfjölmennur mótmælafundur á Lækjartorgi. Í framhaldi af fundinum fóru fjölmargir að bústað breska sendiherrans og var nánast hver einasta rúða mölvuð í spað. Það var að vísu ekki til eftirbreytni né fyrirmyndar en sýndi hversu hugurinn var þungur gagnvart ofbeldisverkum Breta.

Nú virðast vera sá háttur á í Stjórnarráðinu að þar séu hálfgerðar gungur og bleyður sem eiga að verja íslenska hagsmuni og stjórna þessum upplýsingamálum. Gjaldið er fall stærsta bankans okkar með skelfilegum afleiðingum sem ekki var á bætandi. Og núna virðast vera óyfirstíganlegir erfiðleikar að sinfóníuhljómsveitin okkar fari í dálítið ferðalag.

Í dag er mun auðveldara og ódýrara að koma fréttum á framfæri hjá fréttaveitum heimsins en var 1972. Nú dugar að senda tölvupóst eða fax til viðkomandi sem málið varðar.

Kannski tæknin að senda tölvupóst og fax sé óvirk í Stjórnarráðinu.

Mosi


mbl.is Vilja ekki íslensku sinfóníuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru þetta traustvekjandi vinnubrögð hr. Davíð Oddsson?

Því miður voru þeir sem stýrðu bankanum af þessari dæmalausu braskara kynslóð sem valdiðhafa gríðarlegu tjóni með ævintýramennsku.  Aðferð þeirra var þessi: Fengið var lán í banka og keypt fyrir lánsféð hlutabréf sem aftur var veðsett fyrir öðru hærra láni. Þannig gekk þetta koll af kolli uns braskarinn hafði tugi, hundruði milljóna og jafnvel milljarða umleikis án þess að eiga nokkurn hlut sjálfur. Þessir menn smeygðu sér inn í stjórnir fjölmargra fyrirtækja með atkvæðamagni því sem gervihlutafé þeirra stóð að baki. Þessir karlar skrúfuðu upp bankakerfið þannig að tekin voru erlend skammtímalán á mjög lágum vöxtum t.d. frá Japan og endurlánuð á háum vöxtum til íbúða- og neyslulána á Íslandi, ekki aðeins til að kaupa stærri og betri íbúðir heldur einnig dýrindis jeppa og annan lúxusvarning. En á bak við öll þessi veð voru nær eingöngu hlutabréf í fyrirtækjum sem hríðfalla eins og snjóflóð niður bratta fjallshlíð. Engin verðmæti, haldbær veð né sjálfskuldaábyrgðir voru að baki þessum hrikalegu lánum. Ekkert, nákvæmlega ekkert kemur til baka. Bankakerfið hins vegar lagði okurvexti á þá sem voru að fá lán til kaupa á íðbúðahúsnæðis.

Til að bæta gráu ofan á svart var bindiskylda bankanna nánast strikuð út um það leyti sem Búnaðarbankinn og Landsbankinn voru einkavæddir. Það var eins og Sjálfstæðisflokkurinn teldi það vera þessum nýja braskarahóp til trafala að vera með svona hégóma. Eftirlit með bönkunum og fjármálum þeirra hefur einnig verið í skötulíki. Þess má geta, að Fjármálaeftirlitið birti 14.ágúst s.l. á heimasíðu sinni http://www.fme.is/ niðurstöðu um álagsprófun á þeim bönkum sem 6 vikum síðar eða um mánaðarmótin september-október eru komnir í þrot. Eru þetta traustvekjandi vinnubrögð hr. Davíð Oddsson?

Í rekstri fyrirtækis er ekki það mikilvægasta að sýna fram á skjótfenginn gróða sem er nokkrum mánuðum seinna gjörsamlega horfinn og margt meira umfram það. Fyrir eigendur fyrirtækja og þ. á m. íslensku bankanna er mikilvægt að vita nokkurn veginn hvernig fyrirtækið sé rekið næstu áratugina en ekki frá degi til dags.

Endurreisn Kaupþings er mikilvæg

Mjög æskilegt er að takist að finna hagkvæma leið að endurreisa Kaupþing banka. Hagsmunir okkar allra sem eru aðilar að þeim lífeyrissjóðum sem áttu umtalsverðan hlut í banka þessum eru umtalsverðir. Þeir fjármunir sem lagðir voru til kaupa á hlutabréfum eru beinharðir peningar rétt eins okkar sem vörðu sparifé okkar einnig að kaupa örfá hlutabréf og að eignast hlut í bankanum á undanförnum misserum og jafnvel áratugum.

Einnig er mikilvægt að þeir braskarar sem valdið hafa okkur svo miklum erfiðleikum, komi ekki að þessu endurreisnarstarfi. Rannsaka þarf þátt þeirra í hverju hugsanleg efnahagsbrot þeirra er fólgin m.a. hvernig þeir hafa komist upp með afla sér mjög mikils umtalsverðs fjár með vísvitandi blekkingum og hvernig þeir hafa arðrænt starfsemina sem þeim hefur verið treyst fyrir.

Mosi


mbl.is Vill lífeyrissjóði í Kaupþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niður með forsætisráðherra Breta!

Ætla bresk stjórnvöld að leysa flest sín vandamál alfarið á kostnað Íslendinga? 

Þessi óvenjuhraða atburðarás vekur upp fjölda spurninga. Hér er einungis örfáar:

Hafa bresk yfirvöld hvatt bresk félög, fyrirtæki og sveitarfélög að leggja inn á þessa umdeildu reikninga í útibúum Landsbankans í Bretlandi vitandi um það að Íslendingar væru svo grunnhyggnir að undanskilja eða takmarka ábyrgð á reikningum þessum? Ljóst er að einungis innlánsreikningar einstaklinga eru tryggðir að vissu marki í Bretlandi skv. reglum þaraðlútandi.

Þessar aðgerðir stjórnar Gordons Brown eru greinilega því marki brenndar að vera eins og hver önnur kosningabomba í tilefni aðdraganda næstu kosninga í Bretlandi. Ríkisstjórn Gordons Browns og Verkamannflokksins er talin vera mjög veik um þessar mundir.

Gordon Brown gróf skjótlega undan Kaupþing bankanum sem þó virtist hafa alla möguleika að standast þessa miklu áraun. Engin önnur atvik sérstaklega grófu undan bankanum og hann hafði fengið aukið björgunarfé með góðum baktryggingum. Að stærsti og að því virðist best rekni banki Íslendinga féll því einnig, verður að teljast hafa verið viljaverk þessa voðalega forsætisráðherra. Og þá hefur þessi sami forsætisráðherra fullyrt að Íslendingar sem þjóð sé gjaldþrota!

Þvílíkt og annað eins þvaður úr munni bresks forsætisráðherra.

Íslendingar eiga alls ekki að gefa spönn eftir en nauðsynlegt og sanngjarnt verður krafist af okkur sem smáþjóð. Af hverju eigum við að þurfa að gjalda Bretum af sparifé okkar og væntanlegum lífeyrissjóðsgreiðslum? Ljóst er að íslenskir lífeyrirssjóðir voru meðal stærstu hluthafa Kaupþings banka og tap okkar er mjög mikið.

Nú virðist sem allt þetta sé tapað: hlutafé, lífeyrirgreiðslur og jafnvel sparifé. Allt vegna upphlaups bresks forsætisráðherra sem hlaupið hefur með skap sitt í gönur.

Fyrir 2.350 árum var mikið heimsundur austur í Persaríki þar sem nú er í Tyrklands ekki langt frá Ankara. Það var gríðarmikill rembihnútur sem margir höfðu kappkostað að hnýta og aðrir að leysa. Sú sögn fylgdi að þeim sem tækist að leysa hnút þennan myndi öðlast vald á gjörvallri heimsbyggðinni.

Þegar Alexander konungssonur í Makedóíu átti leið þar um, hóf hann sverð sitt á loft og hjó hnútinn í sundur með einu höggi. Kvað hann einu gilda hvernig hnúturinn í Gordoníu yrði leystur. Gekk þetta eftir og varð Alexander sennilega sá fyrsti þjóhöfðingi sem hafði nánast alla heimsbyggðina undir stjórn sinni.

Gordonshnúturinn

Hvernig þessi nýi rembihnútur sem gjarnan má kenna við Gordon Brown verði leystur, skal ekki fullyrt á þessari stundu. Við Íslendingar eigum í öllu falli að mótmæla kröftuglega þeim lögleysum sem þessi maður hefur leyft sér að hafa í frammi gagnvart okkur sem þjóð að undanförnu. Hann hefur ranglega núið starfsemi Landsabankans og fleiri aðila íslenskra við hermdarverk þó engin tenging sé við slíka starfsemi né komið fram sem réttlætir svo virk lögregluúrræði. Breskir lögmenn hafa margir hverjir fullkomnar efasemdir um að yfirvöldum sé heimilt að tengja saman atvik sem þessi og beita lögum þar sem hætta á hermdarverkum kann að vera fyrir hendi. Alla vega telja þessir lögmenn ekki útilokað að þessum hermdarverkalögum verði jafnvel beitt oftar í Bretlandi af minna tilefni og þá kann að vera stutt í lögregluríkið og einræðið.

Kannski ætti að biðja fyrir þessum aumkunarverða manni sem svo augljóslega hefur valdið okkur Íslendingum meira tjóni á örskotsstundu en allur breski flotinn í öllum þorskastríðunum og jafnvel Heimsstyrjöldinni miklu - til samans.

Mosi


mbl.is Heitir sparifjáreigendum aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afglöp mr. Gordon Browns

Sem núverandi hluthafi í Glitni og Kaupþingi og fyrrum hluthafa í Landsbanka þá fagnar Mosi þessari yfirlýsingu Geirs Haarde. Hins vegar kemur hún eiginlega of seint. Gordon Brown hefur því miður áorkað að kjafta niður Kaupþing bankann niður í gjaldþrot sem þó var talinn vera líklegur til að standast þessa erfiðu raun. Fyrir Gordon Brown virtist allt vera jafnt: hagsmunir hans og væntanlegra kjósenda hans og gegn íslenskum hagsmunum.

Þegar menn bíta í súra eplið án þess að hika eins og mr. Gordon Brown nú á dögunum, þá ber þeim að gjalda allra þeirra afglapa sem því kann að fylgja. Hagsmunir Breta virðast hafa vera langtum meiri gagnvart íslensku bönkunum en breskir bankar geta tryggt sömu aðilum. Spurning er hvort bresk yfirvöld hafi ráðlagt aðilum sem ekki áttu rétt á tryggingu á innistæðum á borð við sveitarfélög, félagagasamtök og fyrirtækjum að beina viðskiptum sínum til íslensku bankanna af því að þeir höfðu ekki fyrirvara á takmörkun ábyrgð á innistæðum gangvart þessum sömu aðilum? Ljóst er að einungis innistæður einstaklinga að 21 þús. sterlingspundum eru tryggðar í breskum bönkum.

Hafi bresk stjórnvöld haft frumkvæði að því að beina ávöxtun þessara aðila að íslensku bönkunum í Bretlandi með þessum ásetningi og síðan knúið þessa sömu íslensku banka í þrot til þess að íslenskir skattgreiðendur þyrftu að bera ábyrgð á innistæðum sem breskir bankar eru undanþegnir, þá er um að ræða óbeina stríðsyfirlýsingu gagnvart okkur öllum sem búum á Íslandi og erum skattgreiðendur hér.

Hafi mr. Gordon Brown hlaupið á sig með óskiljanlegri og skammsýnni uppákomu að bendla starfsemi íslenskra banka við hryðjuverkastarfsemi, þá er óskandi að hann gjaldi fyrir slík afglöp og fái ærlega ráðningu í væntanlegum kosningum í Bretlandi, öðrum áþekkum skálkum til alvarlegrar áminningar!

Mér ofbýður þessar yfirlýsingar mr. Brown og áskil mér sem aðrir hluthafar ærlegs banka á Íslandi fyllsta réttar að beina kröfum gegn breskum yfirvöldum um hæðstu skaðabætur vegna þeirrar lögleysu sem hér hefur verið höfð í frammi!

Mosi

 

 


mbl.is Bretar knésettu stærsta fyrirtæki Íslendinga með valdníðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er unnt að treysta Fjármálaeftirlitinu?

Á heimasíðu Fjármálaeftirlitisins http://www.fme.is má lesa eftirfarandi frétt frá 14.08.2008. Um er að ræða niðurstöðu um að allir þrír stærstu bankar íslensku þjóðarinnar standist álagspróf Fjðármálaefirlitisins. Ekki líða nema nokkrar vikur að þeir eru rjúkandi rústir. Var byggt á röngum upplýsingum og hvers vegna? Er unnt að treysta Fjármálaeftirlitinu að stýra efnahagsmálum þjóðarinnar þegar það kemst að þessari kolröngu niðurstöðu?

Mosi -

Hér er bein tilvísun á þessa frétt Fjármálaeftirlitins

http://www.fme.is/?PageID=576&NewsID=303

  Íslensku bankarnir standast álagspróf FME

Fjórir stærstu viðskiptabankarnir standast allir álagspróf Fjármálaeftirlitsins sem eftirlitið framkvæmir með reglubundnum hætti. Álagsprófið gerir ráð fyrir að fjármálafyrirtæki standist samtímis áföll í formi tiltekinnar lækkunar á hlutabréfum, markaðsskuldabréfum, vaxtafrystum/virðisrýrðum útlánum og fullnustueignum og áhrifa af lækkun á gengi íslensku krónunnar án þess að eiginfjárhlutfallið fari niður fyrir lögboðið lágmark.

Vakin er athygli á að álagsprófið miðast við stöðuna á viðkomandi tímapunkti. Eiginfjárhlutföll bankanna í lok annars ársfjórðungs 2008 endurspegla þegar áhrif af óróa á fjármálamörkuðum á seinni hluta ársins 2007 og fyrri hluta þessa árs, þ.e. áður en áhrifin af álagsprófinu eru reiknuð. Til viðbótar hinu formlega álagsprófi framkvæmir Fjármálaeftirlitið ýmis álagspróf eftir því sem ástæða þykir til.
  
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri FME: "Niðurstöður álagsprófsins sýna að eiginfjárstaða bankanna er sterk og getur þolað töluverð áföll.  Stjórnendur og hluthafar bankanna þurfa að leggja áherslu á að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og jafnvel efla hana, en eiginfjárþörfina þarf reglulega að endurmeta með hliðsjón af mismunandi áhættuþáttum í rekstri og stefnu hvers fyrirtækis."

Heildarniðurstaða framangreindra álagsprófa er eftirfarandi m.v. lok júní 2008: 

 


„Vielleicht sind Sie ein Idiot Herr Prime Minister“

Fyrir nokkrum árum fékk þýski kanslarinn það óþvegið frá Joschka Fischer formanni þýska Græningja flokksins. Hann lét hafa eftir sér í ræðu á Bundestag, þýska þinginu og vakti gríðarlega athygli:  „Herr Kanzler: Sie sind ein Idiot!“.

Nú hefur forsætisráðherra Breta, Gordon Brown látið sig hafa það að fara full langt í yfirlýsingu um efnahagsmál á Íslandi. Mörgum finnst hann hafa tekið óvenjudjúpt í árina með því að stimpla Ísland sem gjaldþrota land eftir að tveir af þrem stærstu bönkum landsins höfðu orðið gjaldþrota. Með þessari óþvegnu yfirlýsingu sinni og að láta bresk lög um hermdarverk ná yfir þessi mál, dró hann stærsta íslenska bankann í gjaldþrot sem þó átti að mati margra að hafa góða möguleika að halda velli.

Nú er spurning hvort ekki mætti taka undir með Fischer hinum þýska og yfirfæra á hinn breska forsætisráðherra Gordon Brown en þó með vissum fyrirvara: „Vielleicht sind Sie ein Idiot Herr Prime Minister“!

Yfirlýsing hins breska forsætisráðherra hefur valdið Íslendingum sennilega meiri vandræðum en efni stóðu til enda hafa fjárhagslegu vandræði okkar fremur aukist en að Gordon Brown hafi dregið úr þeim. Þegar eldfim mál eru á döfinni er sérstök ástæða að gæta fyllstu varkárni og að auka ekki vandræðin meira en þau eru. Sem hluthafi í Glitni og Kaupþingi þá kann eg ekki við að forsætisráðherra þó breskur sé, gjaldfelli heilu bankana af misskilningi sínum hvað þá heila þjóð með varhugaverðum yfirlýsingum sínum. 

Mosi


Mikil vandræði

Eldri sonur minn fór til Þýskalands í fyrradag í framhaldsnám. Eftir háskólanám hér heima starfaði hann í tvö ár að vinna sér inn tekjur til að kosta námið sitt og dvöl. Hann safnaði fé sínum saman á peningamarkaðssjóð sem ekki var unnt að opna í byrjun vikunnar. Hann fékk evrur á 180 krónur á mánudag og er kannski heppinn eftir allt saman. Fyrir ári kostaði evran 85 krónur! Tveggja ára vinna hefur því verið gjaldfelld um 50% á nokkrum dögum!

Sjálfur er Mosi nýkominn frá Rússlandi þar sem stjórnvöld hafa farið hreint skelfilega með borgara sína á undanförnum áratugum. Vonandi fer hagur Rússa vænkandi. Við Íslendingar höfum oft lent í miklum vandræðum en þessir tímar sem við lifum nú á eru sennilega þeir umdeildustu og erfiðustu fyrir langflesta landsmenn á síðustu áratugum.

Óskandi er að vandræðin sem hófust vegna bankaútrásarinnar megi brátt heyra sögunni til. En til þess þarf mikið hugrekki að taka til og þrífa eftir óhroðann. Skyndigróðamennirnir þurfa að svara og bæta um fyrir þau geigvænlegu mistök sem þeir hafa valdið allri þjóðinni.

Mosi

 


mbl.is Gríðarlegur vandi námsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rjúkandi rústir - nýjar vonir

Nú súpa Íslendingar seyðið af mestu afglöpum íslenskra stjórnvalda síðustu ára. Fullyrða má, að einkavæðing bankanna fór of geyst af stað, betra hefði verið að selja bankana í fleiri áföngum og ALDREI mátti aflétta bindiskyldu á viðskiptabönkunum að safna sér digran varasjóð í vörslu Seðlabanka til að hlaupa upp á ef vandræði kæmu upp. Þetta gerðist í árslok 2003. Um líkt leyti fór ævintýramennska Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tengdri Kárahnjúkavirkjun af stað með hræðilegum afleiðingum sem sjálfsagt við Íslendingar eigum lengi eftir að súpa seyðið af. Þar var um að ræða rándýr og umdeild framkvæmd sem var og er enn allt of stór fyrir íslenskt efnahagslíf. Falskur hagvöxtur fylgdi í kjölfarið með fölskum of háum kaupmætti. Gríðarleg sóun og eyðsla kom í kjölfarið sem átti engar efnahagslegar forsendur. Nú er íslenskt efnahagslíf rjúkandi rústir, - því miður. Bjartsýni er og verður alltaf slæm leiðsögn inn í framtíðina og þar hefði betur verið litið á stöðu mála með betra raunsæi.

Nú eru það fyrst og fremst gömlu góðu greinarnar fiskveiðar og fiskvinnsla sem er flotholtið okkar og eina von í vandræðum okkar. Einnig má líta á ferðaþjónustuna sem nú hefur loksins tækifæri að blómstra næstu misserin með auknum kaupmætti erlendra ferðamanna á Íslandi. Stóriðjan er hins vegar varasöm og þar ber okkur Íslendingum að gjalda fyllsta varhug enda er þessi starfsemi jafnóstöðug og hvalveiðar Norðmanna hér við land um aldamótin 1900. Við höfum sýnt mjög mikla léttúð gagnvart þeim stórfyrirtækjum sem vilja bræða ál hér á landi. Við seljum rafmagn á lágmarksverði og ekki ein einasta króna er tekin í mengunarskatta þó sjálfsagt þyki að leggja skatt á alla mengandi starfsemi í þjóðfélögum þar sem skynsemi fer. Þess má geta að CO 2  kvóti gengur nú kaupum og sölum í Evrópu á um 25 evrur miðað við hvert tonn CO 2 á ársgrundvelli. Ef hér er framleidd um 1 milljón tonna áls á ári erum við með öðrum orðum bókstaflega að gefa álfyrirtækjunum 50 milljónir evra á ári! Miðað við að evran sé nálægt 200 krónum er því um að ræða 10 milljarða fjárhæð sem myndi sjálfsagt duga langt í að reka menntastofnanir á Íslandi.

En Íslendingum hefur ekki borið sú gæfa að gæta betur að hag sínum en raun ber vitni. Við getum þakkað stjórnmálamönnunum okkar sérstaklega þeim sem fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum hvernig staðan er í dag. Þeir hafa verið í ríkisstjórn síðastliðin 17 ár og ættu af þeim ástæðum að hafa betri yfirsýn yfir stöðu mála en nokkur annar stjórnmálaflokkur. Spurning hvernig þessi sami stjórnmálaflokkur axlar ábyrgð sína. Þegar hægist ættu forsvarsmenn hans grafalvarlega að huga að efna til nýrra kosninga enda eru margvísleg mistök þeirra vægast sagt geigvænleg. Við þurfum á nýjum stjórnarherrum að halda sem betur eru vandanum vaxnior en þeir sem nú eru við völd.

Varðandi þessa væntanlegu lánsaðstoð frá Rússum þá hefur hún komið gjörsamlega á óvart á Vesturlöndum. Þar hefðu bandarísk og bresk yfirvöld betur átt að gæta að sameiginlegum hagsmunum kapítalskst hagkerfis. Þess má geta að Rússar hafa áður staðið með okkur á örlagastundu. Þegar við áttum í mjög erfiðum deilum við Breta á 8. áratugnum út af fiskveiðilögsögunni og fiskveiðum þeirra hér við land, þá stóðu Rússar með okkur eins og kletturinn í hafinu. Þess má geta að um þær mundir veiddu Bretar jafnvel meira af þorski en allur íslenski fiskveiðiflotinn nú á dögum og er þá nokkuð mikið sagt.

Mætti óska þess að efnahagsvandræði þessi sem nú tröllríður öllum hæstu húsum á Íslandi megi enda farsællega sem fyrst en það verður fyrst og fremst að Íslendingar sjálfir sýni meira og betra raunsæi í efnahagsmálum sínum og varpi fyrir róða þeirri gegndarlausu rómantík sem þeir hafa því miður verið lostnir undanfarinn áratug.

Mosi


mbl.is Mestu mistökin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálsleg túlkun breskra stjórnvalda

Þó Mosi hafi ekki alltaf verið sammála Geir Haarde þá er ekki unnt að dást að því hversu hann hefur sýnt góða hæfileika nú á ögurstundu undanfarna daga. Sjaldan hafa íslensk stjórnvöld átt í jafnmiklum erfiðleikum og nú. Auðveldlega hefði verið unnt með raunsæi að koma í veg fyrir svona uppákomu á sínum tíma með meiri varkárni í öllum þessum útrásarmálum.

Breska stjórnin skuldar okkur Íslendingum afsökun að bendla okkur við hryðjuverk. Engum heilvita Íslending hefði dottið í hug að fall banka og hugsanlegt gjaldþrot væri unnt að tengja við hermdarverk.

Mosi


mbl.is Mjög óvinveitt aðgerð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvennar fréttir

Einn af bestu kunningjum mínum var í heimsókn hjá mér í gærkveldi. Hann kvaðst hafa heyrt tvennar fréttir sem hefðu borist sér:

Sú verri hlóðaði upp á að við Íslendingar séum á góðri leið til helvítis með fjármálin okkar.

Betri fréttin kveður á um það að við séum ekki komin alla leið!

Eigum við því ekki að bíða og doka við? Kannski að unnt sé vænta umsnúnings eða alla vega mjúkrar lendingar þar í því neðra!

Mosi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Siðvæðing í stjórnmálum

Höfundur

Guðjón Sigþór Jensson
Guðjón Sigþór Jensson

BA í bókasafns- og upplýsingafræði frá Félagsvísindadeild HÍ. Próf frá Leiðsöguskóla Íslands 1992.  Áhugamaður um félagsmál, sagnfræði, orkumál, náttúrufræði og umhverfismál. Átti þátt í að stofna Umhverfis- og náttúrufræðifélags Mosfellsbæjar  (stofnað 2007) og var fyrsti formaður til nóv. 2010.

Hef búið í Mosfellsbæ síðan í janúar 1983.

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • IMG_1616
  • Frá Svörtu gljúfrum Gunnison þjóðgarði
  • Bútur af járnbrautarteinum?
  • ...259_1074252
  • ...259_1074251

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 28
  • Frá upphafi: 242989

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband